Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar


Landfræðileg staðsetning


StaðurHamragarðar
ByggðaheitiUndir Eyjafjöllum
Sveitarfélag 1950V-Eyjafjallahreppur
Núv. sveitarfélagRangárþing eystra
SýslaRangárvallasýsla (8600) (Ísland)
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer163766-1
AðalskráÖrnefnalýsing
UndirskráAlmenn örnefnaskrá
Blaðsíður

Hamragarðar

Þórður Tómasson skráði.


Lendur Hamragarða afmarkast af farvegum Seljalandsár (1) og Gljúfursár (2). Sjálfur bærinn í Hamragörðum stendur undir hamrabrúninni, sem hann dregur nafn af, í fögru og hlýlegu umhverfi. Markarfljót (3) hefur mjög herjað á hið litla land jarðarinnar og runnið þar allt heim undir bæjarvegg.
Suðvestur á Markarfljótsaurum (4) er Efstihólmi (5) á mótum Hamragarða og annarra jarða. Nær fjallinu er slétt flöt, sem Fit (6) heitir. Skammt norðan við Seljalandsfoss (7) fellur lítill lækur niður bergið í fossi. Heitir hann Fosstúnsfoss (8). Þá er Myllufoss (9), sem dregur nafn af þófaramyllu Páls bónda í Hamragörðum um 1830. Var fossinn aflgjafi hennar. Síðar var þar kornmylla, og nú síðast raforkustöð.
Þessu næst er Stubbanef (10), síðan Ærból (11), Stígur (12) og Bæjarhilla (13) ofan bæjarins. Þá er Reipaból (14) og Ömpuhellir (15), skammt frá fjárréttinni, í austur frá bænum. Fyrir löngu bjó þar einsetukona, og tók hellirinn nafn af vist hennar. Hamragarðaá (16) fellur í fossi fram af berginu, skammt austur frá bænum í Hamragörðum; heitir hann Gljúfrabúi (17) og ber nafn með rentu. Vestan við hann er Franskanef (18).
Hamragörðum fylgir landið norðan við Gljúfursá, undir hömrunum norður að Kattarnefi. Næst ánni þeim megin er Stekktún (19), en Lambhústún (20) gegnt því, vestan megin. Næst Stekktúni er Kúalág (21), og örnefni þá talin þeim megin ár. Uppi í Hamragarðaheiði (22) eru þessi örnefni: Syðst á heiðarbrúninni, sem vestur veit, eru hraun-hólar, sem kallast Hraunkatlar (23). Norður af þeim er Bóllaut (24), Kvíalaut (25) og Norður-Steinkatlar (26). Norðan við þá er Gljúfursá.
Austar í á þessari er gljúfragil, sem heitir Dimmagljúfur (27). Suður af því er Löngulágarholt (28) og suður af því Heiðartún (29) og Hellislaut (30), sem áður hét Sellaut (31). Í austur frá þessum stað er Neðraklif (32) og fossinn Einbúi (33) í Suðurá (34) (þ.e. Seljalandsá); dregur hann nafn af hraundrangi, sem hjá honum stendur og Einbúi (35) heitir.
Í landnorður frá Einbúa er Sauðahússlaut (36), Dalir (37) og Dalalækur (38). Í miðjum Dölum eru háir hraundrangar, sem heita Hrafnabjörg (39). Þar eru Stórufossar (40) í Suðurá, á móts við miðja Dali. Innar, til landnorðurs, er Innraklif (41). Þar næst er Gljúfursárfarvegur (42), Rauðahraun (43), Mosar (44), Foldir (45), Foldalækur (46) og Tröllagilsmýri (47). Hún er í norður af Stórhöfða (48) og í útnorður af Bjargarhólum (49). Þessi síðast töldu örnefni eru langt inni í heiði.

Eftir handriti Erlends Guðjónssonar, Hamragörðum

Þetta aðfang er í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Safnið hefur að geyma fjölmargar örnefnaskrár af öllu Íslandi. Skrárnar eru flokkaðar eftir sýslum og hreppum og grunneiningin er yfirleitt bærinn eða jörðin sjálf. Aðeins hluti þessara skráa er á leitarbæru rafrænu formi og er hann að mestu þegar kominn í Sarp. Stór hluti annarra tölvuskráa er tiltækur á pdf-formi. Hægt er að óska eftir að fá skrár sendar í tölvupósti með því að senda skeyti á netfangið nafn(at)arnastofnun.is.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.