Titill
Geitaskarð
Lýsing Geitaskarðs ásamt landamerkja-
og örnefnaskrá.
Geitaskarð í Langadal er 10 km
frá Blönduósi.
Að núverandi landareign liggja
eftirtalin býli: Að sunnan Holtastaðir og á Laxárdal Eyrarland. Að
norðan Fremstagil og á Laxárdal Illugastaðir. Að vestan, handan Blöndu,
Kagaðarhóll, Grænahlíð og Kaldakinn. Að austan Vesturá, Sneis og
Kirkjuskarð; austan Laxár Kirkjuskarð og Sneis.
Landamerkjalýsing, samkvæmt heimildum
frá 1885:
Að sunnan ræður garður sá, er liggur
milli Holtastaðakots og Geitaskarðs, neðan frá Blönduárbakka, beint til
fjalls upp, svo langt, sem gras nær. Þaðan beint á fjall upp og beina
línu austur í miðja Smjörskál, og þaðan beina línu niður í Laxá. Þá
til norðurs ræður Laxá út í Brunná, sem fellur úr stóra gilinu móti Kirkjuskarði.
Að norðan ræður bein lína frá Blönduárbakka
syðst á Harðeyri fyrir utan Buðlunganes. Þaðan beint í austur í Hlóðarstein
norðan í Einbúahól, þaðan beina línu í mitt Kolluberg, og þaðan beint til
austurs á fjall upp, eins og vötn draga. Frá þessum norðurlínuenda,
þar sem fjallið er lægst, beint til suðurs á Skarðseggjar norðanmegin.
Þá til austurs, sem fjallseggjar ráða, í öxl þá, sem er á milli Skarðsskarðs
og Hrossadals, svo rétt austur eftir sömu axlarbrún og ofan í tunguhornið
á móti Leitismel, sem er sunnan megin við svonefnd Þrengsli, móti Kirkjuskarði,
og úr Þrengslunum til austurs ræður Brunná allt til Laxár.
Geitaskarðsland, innan framanskráðra
takmarka, samanstendur af þremur býlum, auk hins upprunalega heimalands.
Býli þessi, sem öll eru nú í eyði, eru:
Þorbrandsstaðir (1).
Land þess liggur austan þjóðvegar
(
Norðlingabrautar (2)). Að norðan takmarkast það af línu,
dreginni úr Hlóðarsteini norðan í Einbúahól til austurs í mitt Kolluberg,
og þaðan í austur, svo sem vötn draga. Að sunnan eru merkin við línu,
sem hugsast dregin úr norðurbrún Móholts, þaðan beint í austur til jafnlengdar
við norðurtakmörkin. Þorbrandsstaðir fóru í eyði og voru lagðir undir
Geitaskarð árið 1913.
Buðlunganes (3).
Land þess liggur vestan þjóðvegar,
gegnt Þorbrandsstöðum. Um landamerki milli þessara jarða er engin
örugg heimild til, en að líkum hafa þau verið um það bil, er þjóðvegurinn
liggur nú. Að vestan ræður Blanda merkjum. Að norðan ræður
lína, dregin af Blöndubakka syðst á Harðeyri til austurs í áðurnefndan
Hlóðarstein. Að sunnan eru merkin úr svonefndum Mólækjarós, þar sem
Mólækur fellur í Blöndu, og beina línu í austur í norðurbrún Móholts. Á
Buðlunganesi mun ekki hafa verið búið, síðan um miðja 17. öld, og hafði
ábúandi Þorbrandsstaða, þá þar var búið, flestar nytjar beggja jarða. Lendur
þessara býla (Þorbrandsstaða og Buðlunganess) eru girtar hvor fyrir sig
á merkjum, eins og þeim er lýst hér að framan.
Tungubakki (4).
Land Tungubakka er á Laxárdal,
vestan Laxár sunnan Skarðsskarðs. Að sunnan liggur að Tungubakka
eyðibýlið Eyrarland. Þeirra á milli eru merkin lína, dregin úr miðri
Smjörskál, beint austur í Laxá. Austur- merkjum ræður Laxá. Að
norðan ræður Brunná merkjum vestur að Leitismel, en þaðan lína, dregin
úr Leitismel, í suðvestur upp mitt Tungubakkatagl til fjallseggjar, er
þaðan ráða svo vesturtakmörk- um. Á Tungubakka hefir ekki verið búið
a.m.k. 2 síðustu mannsaldra. Talið er, að jörðin hafi verið lögð
undir Geitaskarð um 1880.
Skammt norðan
Mólækjaróss
(5) rennur
Blanda (6) í víðan sveig til vesturs fyrir svonefnda
Nestá (7) og sveigir þar til austurs. Í þessum bug, milli
Mólækjaróss og og suðurodda
Harðeyrar (8), er
Buðlunganes
(9). Nyrzt er nes þetta að nokkru gróðurlitlir grjóthólar með grösugum
mýraflákum og sundum á milli.
Suðurhlutinn er hins vegar hálfdeigjumýrar,
en Nestáin og árbakkarnir út og suður valllendismóar. Rétt norðan
Mólækjaróss, syðst á Buðlunganesi, var sumarið 1929 brotin landspilda til
ræktunar, tæpl. 2 ha. að stærð. Túnspilda þessi er nefnd
Blettur
(10). Skammt norðan við Blettinn, fram á árbakkanum, eru
Kvíar
(11), tvær hringmyndaðar réttir samstæðar, byggðar vorið 1927 af þáverandi
bónda á Geitaskarði, Þorbirni Björnssyni. Þá um sumarið var fært
frá og hafðar í kvíum 50 ær. Örskammt norðan Kvía rennur
Buðlungalækur
(12) í Blöndu. Hann á upptök sín í tjörn eða smástöðuvatni norðaustast
á Buðlunganesi rétt vestan þjóðvegar, er nefnist
Buðlungatjörn (13).
Tjörnin bæði og lækurinn eru silungasæl mjög og þar stunduð veiði
vor og haust frá Þorbrandsstöðum, þá þar var búið, en síðan frá Geitaskarði.
Þar, sem lækurinn fellur úr suðurenda tjarnarinnar, heitir
Vik
(14). Vikið er vaxið mjög stórvaxinni stör (gulstör), og er það
í daglegu tali kallað
Sef (15). Skammt suðvestan við Vikið
er garður hlaðinn úr torfi þvert fyrir Buðlunga- lækinn, en hann á upptök
sín í Vikinu.
Með garði þessum er læknum, eða
hluta hans, veitt í djúpa laut milli tveggja mela örskammt vestan lækjarins.
Pollurinn, sem þarna myndaðist, heitir
Sundpollur (16). Var
hann í nokkur sumur notaður til sundiðkana af ungmennafél. sveitarinnar
(Vorboðinn), er hlóð nefndan garð. Skammt sunnan við Sundpollinn
er melur einn nokkru hærri öðru umhverfi. Hann heitir
Sjónarhóll
(17). Skammt norðan
Buðlungalækjaróss (18) er steinn allstór
nokkuð út í ánni. Um það bil miðja vega milli steins þessa og lækjaróssins
er vað á Blöndu, er heitir
Strengjavað (19), í daglegu tali kallað
Strengir (20). Vaðið er nokkuð stórgrýtt, en talið öruggt
samt, sé ekki hærra í ánni en svo, að tvö fet lifi steinsins, er áður er
nefndur. Á Nestánni vestast sést glöggt móta fyrir túnstæði og tóftum
bæjar- og peningshúsa Buðlunganess. Tóftirnar eru allfyrirferðarmiklar
og bera þess vott, að um mikinn húsakost hafi verið að ræða. Túnið
hefir verið allstórt, girt allt vallargarði, víðast hlöðnum úr torfi, en
með köflum úr torfi og grjóti. Leifar þessa garðs segja manni ótvírætt,
að þar hafi verið geysimannvirki, svo há og breið er rúst hans.
Bæjarstæði er þarna mjög fagurt.
Sést af tóftarbrotunum vítt um dalinn til beggja handa. Nyrzt
á Buðlunganesi, skammt austur af suðurodda Harðeyrar, er mýrarfláki þýfður,
er heitir
Spóamýri (21).
Á Buðlunganesi eru landkostir góðir
fyrir allan búsmala. Einkum er þar við brugðið vetrarbeit fyrir hross.
Sagt er, að nái hross ekki til jarðar þar, sé hvergi snöp í Langadal.
Þorbrandsstaðaland er að norðan-
og austanverðu að miklu leyti grjót- hólar, stórgrýttir með grösugum lautum
og bollum á milli, vöxnum valllendisgróðri hið neðra, en ofar lyngi (krækiberja-,
bláberja-, aðalbláberja- og sortu-). Hólar þessir heita einu nafni
Þorbrandsstaðahólar (22), venjulega nefndir bara
Hólar (23).
Suður- og vesturhluti lands þess, sem talið er, að tilheyri Þorbrandsstöðum,
er mest grasgefnar valllendisbrekkur og uppgrónir melar.
Nyrzt og neðst í Hólunum er stakur
melkollur, grasi vaxinn að mestu. Hann er nefndur
Einbúi (24).
Norðan í Einbúa er stór steinn ferkantaður, er heitir
Hlóðarsteinn
(25) (sbr. landamerkjalýsingu). Vestur með Einbúa að sunnan rennur
lækur, er kemur ofan Hólana. Sá heitir
Eilífslækur (26). Hann
rennur í Buðlungatjörn, beint vestan Einbúa. Syðst í Hólunum vestur
við þjóðveginn er melhvammur allvíður. Í þessum hvammi er mýrarfen,
á köflum rótfúið og illt yfirferðar, en grösugt og girnilegt til beitar.
Það heitir
Paradís (27), og hefir mörg sauðkind og hross á
stangli hlotið þar "sæluvist", er sótzt var eftir gómsætinu,
er huldi ótræðið. Kippkorn sunnan Paradísar, skammt utan gamallar,
grasi gróinnar malargryfju, er mýrarfláki ekki stór, þýfður, með keldudrögum.
Mýri þessi er nefnd
Víti (28). Vítið er ekki gróðurprútt
á borð við Parasdísina, hefir heldur ekki nein rótfúin feigðarfen, enda
óheyrt, að þar hafi freistingar og gáleysi orðið nokkurri skepnu að falli.
Rétt norðan Vítis er grýtt valllendisbrík, er kölluð er
Hæð
(29). Sunnan Hóla suðaustur af Víti er tún og húsarústir Þorbrandsstaða.
Byggingar hafa allar verið þar minni en á Buðlunganesi, eftir rústum
að dæma, en sökum þess, hversu skammt er síðan hús voru rofin, má nokkuð
glöggt sjá, hversu þeim hefir verið skipað.
Bæjarhús ásamt fjós- og hesthúskofa
hafa staðið á
Bæjarhól (30), sem er hár og brattur, syðst og efst
í túni. Nyrzt í túni, beint gegn Bæjarhól, á hólflöt allstórri, er
heitir
Húsaflöt (31), eru fjárhúsarústir. Skammt sunnan Bæjarhóls
er hólkúpa eða ávali, sem heitir
Gerði (32). Þar eru rústir
peningshúsa, er sýnilega eru fallin fyrir allmiklu lengra síðan en önnur
mannvirki. Ekki ólíklegt, að þar hafi staðið hesthús. Milli
Bæjarhóls og Húsaflatar rennur lækur gegnum túnið,
Þorbrandsstaðalækurinn
(33). Hann skiptir túninu í tvennt,
Úttún (34) og
Suðurtún
(35). Neðan til í Suðurtúni er alllöng og brött brekka. Brún
þessarar brekku heitir
Barð (36). Neðan Barðs heitir
Leynir
(37). Túnið er girt og nytjað í flestum árum. Töðufallið er
um 100 hestburðir. Óljúft og seinunnið þykir
Þorbrandsstaðatún
(38), þar sem það er allt þýft, að undanteknum hólkollunum, og grjót í
því nær hverri þúfu. Norðan túns, í suðurjaðri Hóla, í melkrika kröppum,
eru rústir réttar eða kvía. Krikinn er kallaður
Kvíalaut (39).
Norðaustan melhólanna, er mynda Kvíalaut, er votlendisflesja með
smápollum og keldum. Flesjan heitir
Vætur (40). Í jaðri
Vætanna suðaustanverðum, á hólbala, sést móta fyrir rústum einhverra mannvirkja,
sennilegast fjárhúsa. Í Hólunum, suðaustur af Vætum, er mjög kröpp
og djúp laut lyngi vaxin. Lautin er kölluð
Blákulaut (41).
Nafnið, að sögn, er þannig til komið, að þar fórst kýr að nafni Bláka.
Skammt sunnan Hóla, kippkorn upp
frá Þorbrandsstaðatúni, liggja melhryggir tveir til austurs. Lautin
á milli þeirra heitir
Kúalaut (42). Ekki langt suðaustan eystri
enda Kúalautar er há og snarbrött brekka móti suðri. Hún heitir
Brattabrekka
(43). Fram af þessari brekku austanverðri fellur
Þorbrandsstaðalækurinn
(44). Hann á upptök sín neðarlega í dalskoru, er gengur til austurs
frá Bröttubrekku milli hárra mela allt til fjalls. Dalskoran heitir
Húsadalur (45). Hann er grösugur í botni, en melarnir beggja
vegna eru gróðurrýrir. Norðan austurenda Húsadals, alveg upp við
fjall, eru þrír melhólar sérstæðir, sem heita
Grenhólar (46). Í
hólum þessum eru urðargren, sitt í hvorum, og algengt nokkuð, að þar leggi
tófa á vorin, og er þá undantekningarlítið, að hún sækir til fanga í lambfé
Geitaskarðs, sem um sauðburð er jafnan haft í Þorbrandsstaðahólum, og afsannar
með því, "að skolli bíti ekki nærri greninu".
Út og austur undan Húsadalnum er
klettahvilft í fjallið upp við brún. Þar heitir
Syðri-Grenskál
(47). Aðskilin frá Syðri-Grenskálinni að norðan með allhárri klettabrík
er
Ytri-Grenskál (48). Eins og nöfnin bera með sér, eru gren
í báðum skálunum og sú nyrðri sérlega eftirsótt af lágfótu, þar sem þar
er mjög stórgrýtt og hol urð. Rétt norðan Grenskála er hátt, þverhnípt
klettabelti, nefnt
Kolluberg (49). Neðan Kollubergs er dalverpi,
ekki langt, en allbreitt og grösugt. Það er
Eilífsdalur
(50). Þar á Eilífslækurinn upptök sín. Munnmælasaga hermir,
að í Eilífsdal hafi maður að nafni Eilífur orðið úti, og valdi það nafngiftinni.
Heimaland Geitaskarðs er að langmestu
leyti graslendi; valllendisbrekkur með mýrasundum og stöku melhólum. Nær
graslendi þetta frá Blöndu að vestan til fjalls og frá Þorbrandsstaðahólum
að norðan að suðurmerkjum, þar sem við tekur gróðursnautt melasvæði, svokallað
Hraun (51).
Í mið- og framanverðum Langadal
er gróðurfari víðast þann veg háttað, að frjótt er og grösugt í lágdalnum,
en víða ganga grjóthólaþyrpingar og melahryggir frá fjallinu niður hlíðarnar,
og eru þeir víðast sneyddir gróðri. Mun í landareign Geitaskarðs
stærst samfellt gróðursvæði til fjallsins í áðurnefndum hluta Langadals.
Ræktunarlönd og byggingar Geitaskarðs
eru sunnan til í landareigninni, beint vestur undan djúpu og allbreiðu
skarði, er gengur þvert gegnum fjallgarðinn milli Langadals og Laxárdals.
Skarð þetta er nefnt
Skarðsskarð (52). Talið er, af
sumum, að þetta nafn á skarðinu sé til orðið sökum þess, að annað skarð,
nefnt Kirkjuskarð, liggur beint gegnt því að austan, gegnum fjöll þau,
er greina á milli Laxárdals og afréttar Engihlíðarhrepps, Tröllabotna.
Af öðrum er hins vegar haldið, að Skarðsskarð hafi heitið
Geitaskarð
(53) og hafi býlið fengið nafn sitt af því, en síðar hafi svo það nafn
á skarðinu lagzt niður og það síðan tekið nafn af býlinu, sem í daglegu
tali er oftast nefnt Skarð, gagnstætt því, sem venjulegt er í þessum sökum,
að býli hljóti heiti af meiri háttar örnefnum umhverfisins.
Enn aðrir hafa fleygt fram þeirri
tilgátu, að býlið hafi upprunalega heitið
Geitisskarð (54); hafi
í upphafi verið byggt af manni, er hét Geitir, og hafi skarðið og bærinn
borið nafn hans, en núverandi nöfn á hvoru tveggja séu afbakanir og latmæli.
Þessi tilgáta verður að teljast fremur ósennileg, þar sem engar heimildir,
eldri eða yngri, fyrirfinnast, sem rennt gætu stoðum undir hana. En
hvað sem öllum þessum tilgátum líður, verður að telja, að núverandi nöfn,
bæði á skarðinu og býlinu, hafi unnið sér hefð og séu varanlega föst orðin.
Vestan vegarins, niður og suður
af gamla túninu, sem að austan takmark- ast af alldjúpum, grónum skurði,
eru löngu uppgrónar eyrar, sem einu nafni heita
Flæði (55). Þar
var fyrir nokkru síðan áveituengi, en er nú að mestu ræktað tún. Engi
þessu var skipt með hlöðnum áveitugörðum, er lágu í austur og vestur, í
þrjá hluta. Heitir syðsti hlutinn
Suðurflæði (56), miðhlutinn
Miðflæði (57) og yzt
Yztaflæði (58). Vestan suðvesturhorns
Yztaflæðis var hringlaga blettur, umhlaðinn garði. Blettur þessi
er nefndur
Kringlóttaflæði (59). Þótt garðarnir sumir séu
jafnaðir við jörð, eru nöfn þessi notuð.
Syðst á Flæðinu, vestan vegarins,
er ávöl hæð, sem heitir
Höfði (60). Var áður valllendismór,
nú orðin tún. Utan við túnið, út með ánni, vestan vegarins, er flatlendisræma,
er nefnist
Undirbakki (61). Á þeim tíma, sem sýslumenn Húnvetninga
sátu á Geitaskarði, fóru fram makaskipti á Undirbakkanum og undirlendi
því, sem gegnt honum er vestan Blöndu og nefnt er Hagi og lá þá undir Smyrlaberg.
Var Haginn nytjaður til beitar frá Geitaskarði, en Undirbakkinn til
heyöflunar frá Smyrlabergi. Um langt árabil hefur hvorugt býlið sótt
nytjar yfir Blöndu, og má telja, að hefð hafi helgað aftur hvorri jörð
það, sem henni upphaflega tilheyrði.
Gegnum túnið á Geitaskarði rennur
Skarðslækurinn (62). Hann skiptir túninu í tvennt,
Úttún
(63) og
Suðurtún (64). Suðurtúnið er allmiklu minna. Syðst
í því stendur hesthús úr torfi og grjóti, er rúmar 18 hross. Beint
út undan hesthúsinu, út við lækinn, standa fjós og tvö hesthús, ásamt með
áburðargeymslum. Fjósið er úr steinsteypu og rúmar 32 kýr. Hesthúsin
eru úr torfi og grjóti með járnvörðu þaki. Þau rúma samtals ca. 30
hross. Áburðargeymslurnar eru úr steinsteypu. Hlaða fyrir þessi
gripahús rúmar 1400 hestburði. Þrjár votheystóftir eru við þessi
hús, er rúma samtals 300 hestburði.
Norðan lækjarins, gegnt gripahúsunum,
er matjurtagarður allstór. Norðan hans stendur steinsteypt geymsluhús,
kallað
Steinhús (65). Áfast því að norðan er steinsteypt véla-
og verkfærageymsla. Austan þessara húsa og norðan er matjurtagarður.
Umhverfis báða matjurtagarðana er plantað trjám. Norðan ytri
matjurtagarðsins stendur smiðja úr steinsteypu og áfast henni að norðan
þvottahjallur úr timbri, járnvarinn. Mitt milli Steinhúss og smiðju,
nokkru framar, stendur íbúðarhúsið. Ofar í túninu, upp undan íbúðarhúsinu,
á ytri gilbarmi, stendur fjárhús og hlaða. Húsið rúmar 90 kindur
og hlaðan ca. 280 hestb. Húsin heita
Hólhús (66). Í
gilinu vestan Hólhúsa er matjurtagarður mót suðri. Sunnan gilsins,
gegnt Hólhúsum eða litlu austar, standa önnur fjárhús með hlöðu. Húsin
rúma 110 kindur, en hlaðan liðlega 300 hestburði. Bæði þessi hús
ásamt hlöðum eru úr torfi og grjóti, en þök járnvarin.
Örskammt vestan Hólhúsa eru í byggingu
fjárhús úr steinsteypu, sem rúma eiga liðlega 300 fjár. Milli smiðjunnar
og matjurtagarðsins er gata eða stígur, er liggur austur túnið og til fjalls
á norðari barmi
Skarðslækjargilsins (67), upp í
Skarðið (68)
og austur það. Gata þessi var hreppavegur, þá Engihlíðarhreppshluti
Laxárdals var í byggð, og fjölfarin þá nokkuð.
Túnskikinn sunnan götunnar, þar
sem hún liggur í gegnum túnið, heitir
Dagslátta (69). Austan
Dagsláttu, út og austur af Hólhúsum, er brött brekkukinn, er heitir
Útauki
(70). Neðst í Úttúni, austan vegarins, er löng, ávöl hólbunga, er
liggur út og suður endilangan jaðarinn á gamla túninu, skorin í sundur
utarlega af allbreiðu, þurru dragi. Hóll þessi heitir
Langhóll
(71) Norðan dragsins, er skiptir Langhól, og austan hólsins er flöt
slétta, er nefnist
Gerðistún (72). Yzt á Gerðistúni, á norðurenda
Langhóls, stóðu fjárhús, er hétu
Gerðishús (73). Þau eru fyrir
nokkru jöfnuð við jörðu. Sunnan dragsins stóðu önnur hús, er nefndust
Syðrihús (74). Þau er einnig búið að rjúfa.
Austan gamla túnsins er allstórt
landsvæði, er búið er að brjóta og rækta. Það er kallað
Horn
(75). Yzti og neðsti hluti þessarar nýræktar er aðskilinn frá Gerðistúninu
af gilskoru, sem smálækur rennur eftir. Norðan lækjarins heitir nýræktin
Gondhóll (76). Nafnskrípi þetta mun dregið af viðurnefni,
er kerling ein hafði, er eitt sinn var á Geitaskarði og hóllinn er við
kenndur. Vestan Langhóls, um það bil undan honum miðjum, er slétta,
er gengur vestur að veginum, þar sem hann sveigir til norðausturs neðan
túns. Sléttan heitir
Bugur (77). Ofan túns, beint upp
undan íbúðarhúsinu, er fjárrétt. Sunnan hennar er matjurtagarður,
kallaður
Réttargarður (78).
Skammt upp undan réttinni og litlu
utar er stór melur, sem heitir
Vörðumelur (79). Út og vestur
af Vörðumel, upp undan ytra túnhorni, er slétt, ávöl valllendisbunga, sem
heitir
Enni (80). Þar út og austur af eru víðlendar brekkur,
er heita
Breiðar (81). Í út- og vesturjaðri þeirra er áðurnefnt
Móholt (82).
Kippkorn austur af Móholti er mótekjusvæði.
Grafirnar og næsta umhverfi þeirra er kallað
Mógrafir (83).
Síðastliðin ca. 20 ár hefur mór ekki verið unninn þarna. Beint
austur af Mógröfum, alllangt uppi í fjallinu, rétt suður af Bröttu- brekku,
er víður hvammur, girtur háum melum að norðan og austan. Hvammurinn
heitir
Sauðaskjól (84). Suðvestur af Sauðaskjólum, í norðausturjaðri
Breiða, er holt, að mestu grasi vaxið, sem heitir
Brúnkuholt (85).
Melarnir austur og suðaustur af Sauðaskjólum og Brúnkuholti allt
til fjalls heita einu nafni
Hámelar (86).
Beint upp af Hámelunum, upp undir
brún á fjallinu, er stallur allvíður, girtur háu klettabelti að sunnan,
norðan og vestan. Stallurinn er mjög leitóttur og allmikið gróinn.
Hann heitir
Fögrudalir (87). Útsýn er mjög fögur af
Fögrudölum; sést þaðan vítt vestur yfir Húnaþing og fram á öræfi allt til
jökla. Sú sögn er til um Fögrudali, að þar hafi í fyrndinni búið
seiðkerling ein og hafi hún við dauða sinn látið svo um mælt, að hver sá,
er talið gæti Fögrudalina rétt, fengi eina ósk uppfyllta. Um búsetu
kerlingar þarna er engar menjar að sjá, en tafsamt mun að telja dalina,
svo margir eru skorningarnir og óreglulegir.
Suðvestur af syðri brún Fögrudala,
syðst í Hámelum, er hár melur og strýtulaga. Hann heitir
Blámelur
(88). Suður af Blámel, neðst í hnjúknum norðan Skarðsskarðs, gengur
stallbrík grasi vaxin allt suður að
Skarðsmynni (89). Stallur-
inn heitir
Blástallur (90). Hnjúkurinn, sem stallurinn er
í, heitir
Illviðurshnjúkur (91). Upp um sig er hann hömrum
girtur, en hið neðra lausar grjótskriður niður undir Blástall. Efst
myndar hann mjóa klettastrýtu, og er stallur, ekki breiður, frá strýtunni
og fram á brúnina, þar sem hann gildnar niður. Toppurinn dregur nafn
af lagi sínu og nefnist
Strýta (92).
Í norðan- og austanveðrum hvín
og þýtur mjög í Illviðurshnjúk, og ber hann nafn með rentu. Niður
undan Blástallinum er allbreiður mýrarhjalli, er heitir
Hrossamýri
(93). Vesturbrún mýrarinnar er ávalir melar, sem heita
Hrossamýr-
arbrún (94). Lautarskora, nefnd
Hrossalaut (95), gengur
úr norðausturhorni Hrossamýrar upp með Blámelnum. Vestur undan Hrossamýrarbrún
sunnanverðri er djúpur grashvammur í lækjargilinu norðanverðu. Sá
heitir
Fosskotslaut (96). Í læknum, við suðausturbrún Fosskotslautar,
var allhár foss, er hét
Mígandi (97), en í leysingu vorið 1949 féll
efri brún bergsins, er fossinn steyptist fram af, svo lækurinn rennur þarna
síðan á bröttum flúðum.
Sunnan Suðurtúns, suður undir merkjum,
ofan vegar, er grýtt valllendisbunga, sem nefnd er
Torfholt (98).
Á Torfholt hefir verið flutt til þerris heytorf, sem skorið hefir
verið í mýri norður af því, og er nafnið þannig til komið. Upp undan
Torfholtinu, skammt norðan merkja, er víður hvammur móti suðvestri. Austur-
og norðurhlíðar hvammsins heita
Sláttukinn (99). Melabrúnir
ávalar og að mestu grónar ganga til norðurs frá eystri brún Sláttukinnar
allt út að Skarðslæk. Þessar brúnir heita
Teigabrúnir (100).
Ofan þeirra og allt til fjalls eru valllendisbrekkur með stökum melum.
Brekkurnar heita
Teigar (101). Ofan Teigana utanverða
rennur lækjarsytra, sem kölluð er
Teigalækur (102).
Rétt sunnan Skarðslækjar, skammt
suðaustur af Fosskotslaut, eru rústir gamallar fjárréttar. Þar heitir
Stekkur (103). Skammt suðvestan Stekkjar, neðar við gilið,
sést óglöggt móta fyrir tóftabrotum. Sagt er, að þar hafi verið smábýli
eða kot, sem kallað var
Fosskot (104). Rústir þessar eru svo
grónar orðnar og fallnar inn í umhverfið, að ekki er hægt að átta sig á
skipan húsa. Það eitt er sýnilegt, að húsa- kynni hafa þar öll verið
smáskorin. Ekkert er um það vitað, hvenær þarna var hafzt við síðast,
né heldur er til nein sögn, er geymzt hefir um neinn, er þar bjó.
Í lækjargilinu miðja vega milli
Vörðumels og Fosskotslautar eru allháir klettar. Huldufólk er sagt
eiga aðsetur í klettum þessum, og er til sögn um það, að eitt sinn á gamlárskvöld
hafi Bjarni Magnússon, sá, er síðastur sýslumanna Húnvetninga sat á Geitaskarði,
gengið út á hlað og þá séð álfa marga eða huldufólk að dansi og leikjum
á gilbarminum norðan klettanna. Fylgir það sögunni, að Bjarni hafi
kallað heimafólk sitt út og að það hafi góða stund haft skemmtun af að
horfa á leik og látæði klettabúanna, er að síðustu hurfu í gilið.
Upp undan Stekknum er fyrirferðarmikil
melbunga, sem heitir
Stekkjarmelur (105). Sunnan Stekkjarmels,
suður undir merkjum, gengur jaðar grjóthóla- klasa, sem nefnist
Hraun
(106), út í landareign Geitaskarðs. Þessi melajaðar heitir
Hraunkrókar
(107). Austast í Hraunkrókum, upp undir fjallinu, eru grasi og mosa
vaxnar melaflesjur, sem heita
Flatir (108). Austur af Hraunkrókum,
nokkuð upp í fjallinu, er stallræma, sem heitir
Hrútastallur (109).
Á stalli þessum endar merkjagirðingin milli Geitaskarðs og Holtastaða.
Upp í fjallið rétt sunnan Skarðsskarðs
gengur þríhyrndur geiri, vaxinn finnungi. Hann heitir
Skjöldur
(110). Beggja megin Skjaldar eru gróðurvana grjótskriður, og er einkennilegt,
að þessi vin skuli hafa haldið velli, þrátt fyrir grjóthrun og uppblástur.
Til norðurs af Skildi gengur melöxl hálfa leið fyrir Skarðsmynnið.
Öxlin heitir
Högg (111).
Skarðsskarð er eitt margra skarða,
sem liggur gegnum fjallgarð þann, er aðskilur Langadal og Laxárdal, og
hið lengsta þeirra, um 7 km á lengd. Skarðið er grösugt; niður um
sig og til miðra hlíða vaxið kjarnmiklum gróðri. Hin mörgu gil og
dalverpi, er liggja til beggja handa í Skarðinu, eru flest grasi og lyngi
vaxin því nær til brúna. Sökum þess, hve gróður er fjölbreyttur og
kjarnmikill, sækir allur búsmali mjög í Skarðið. Vestan til að norðanverðu
eru lausar grjótskriður niður til miðra hlíða, en stöllóttir klettarimar
hið efra við brúnir.
Skammt austan Höggs eru tveir stöðupollar
eða lítil vötn, er heita
Tjarnir (112). Í Tjörnunum á bæjarlækurinn
upptök sín. Skammt austan Tjarna eru vatnaskil; fellur þaðan allt
vatn til austurs. Lítið eitt austan Tjarnanna, í sunnanverðu Skarðinu,
er dalverpi, sem gengur til suðvesturs. Dalurinn er allur grasi vaxinn
og leitóttur. Hann heitir
Kerlingadalur (113). Við
hann loðir sú sögn, að einhvern tíma í fyrnd- inni hafi fjósakerling frá
Geitaskarði villzt á leið í fjósið í aftakahríð og ekki fundizt, fyrri
en snjór var leystur úr dalnum. Hafði hún ekki skilið við sig mjaltaskjólurnar,
er báðar fundust hjá líkinu.
Gegnt Tjörnum að norðan er stórgrýtisframhlaup,
nú löngu upp gróið, svo stórgrýtið eitt stendur upp úr. Framhlaup
þetta heitir
Bræðraskriða (114). Óskráð sögn segir,
að undir skriðunni séu grafnir tveir bræður, er á Geitaskarði bjuggu, ásamt
með flokki manna. Segir sagan, að menn þessir hafi verið að koma
úr ránsferð í fjarlægar sveitir, er skriðan gróf allan flokkinn.
Skammt austan vatnaskila tekur
við sléttur flói, vaxinn stórgerðri stör (gulstör). Flói þessi, sem
heitir
Pyttaflói (115), í daglegu tali nefndur
Flói (116),
nær austur að
Seli (117), sem er því nær í miðju Skarðinu. Þar
var haft í seli frá Geitaskarði fram undir síðustu aldamót. Nokkuð
sér móta fyrir rústum mannvirkja þeirra, er þar hafa verið, og má sjá,
að húsakynni hafa verið allrúm. Selið er sunnanvert í Skarðinu, við
mynni dalskoru, er gengur úr því til suðurs og heitir Brunnárdalur. Sá
tilheyrir Holtastöðum. Úr dalnum fellur á, er heitir
Brunná
(118), og er Selið á vestri bakka hennar, þar sem hún kemur fram úr dalnum.
Á þessi, sem raunar er ekki nema stór lækur, beygir til austurs skammt
norðan Sels og sameinast þar læk, er kemur vestan Skarðið. Upptök
þessa læks eru vestur hjá vatnaskilum, og rennur hann þaðan austur Flóann
og allvíða neðanjarðar. Þar eru pyttir þeir, er flóinn hefur nafn
sitt af, svo og lækurinn, því hann er nefndur
Pyttalækur (119).
Hlíðin austan Sels, að sunnan,
heitir
Dýjahlíð (120), og fjallið frá Brunnárdalsmynni og austur
að
Ausugili (121) (vestasta gilið austan Sels að sunnan) nefnist
Dýjafjall (122). Svo sem nöfn hlíðarinnar og fjallsins benda
til, er þarna dýjótt og blautt. Norðanvert í Skarðinu, gegnt Seli,
eru hjallar grösugir með lautum og leyningum milli melhryggja. Það
heita
Selstallar (123).
Suður af Selinu gengur múli,
er hækkar upp að syðri brún Skarðsins, kallað
Seltagl (124). Nokkru
austan Selstalla, að norðan, er grunn gilskora, gróðurvana að kalla, nefnt
Vindagil (125). Sléttur bali fram undan gilskorunni heitir
Vindagilsgrund (126). Kippkorn þar fyrir austan, sama megin,
er djúpt og alllangt gil, grösugt og skýlt. Það heitir
Djúpagil
(127). Að sunnanverðu, nær því gegnt Djúpagili, eru tvö gil; hið
vestara er áðurnefnt Ausugil, en hið eystra heitir
Ranghalagil (128).
Stærsti ranghalinn í gili þessu heitir
Rjúpnagil (129). Skammt
austan Djúpagils þrengist Skarðið það, að um undirlendi er ekki lengur
að ræða. Þar frá og austur úr heitir
Þrengsli (130). Skarðshlíðarnar
eru þarna mjög brattar, sérstaklega að sunnan. Nokkru austan Ranghalagils
að sunnan eru skorningar nokkrir eftir framhlaup, sem ná því nær til brúna;
þeir nefnast
Bröttuskurðir (131).
Þar sem Skarðið opnast austur á
Laxárdalinn, er stór melur fyrir miðju mynni þess; hann heitir
Leitismelur
(132). Skammt vestan þessa mels er hvammur í Skarðinu sunnanverðu,
sem heitir
Bardagahvammur (133). Nyrzt í hvamminum, fyrir
honum miðjum, er hólkollur, sem heitir
Dyshóll (134). Um þessi
nöfn er ekkert frekar vitað en það, er þau sjálf benda til; sem sagt, að
í hvamminum hafi verið barizt og að sá eða þeir, er þar féllu, hafi hlotið
leg í Dyshól. Sagt er reimt á þessum slóðum. Vestan í Leitismel
er djúp, gróin gilkvos, er heitir
Framhlaup (135).
Eyrarnar sunnan Brunnár, þar sem
hún rennur í
Laxá (136), heita
Brunnáreyrar (137). Sunnan
vegarins, þar sem hann liggur úr Skarðinu niður á Laxárdalinn, eru þrír
melkollar samstæðir. Þeir heita
Þríhólar (138). Taglið
að sunnanverðu, þar sem Skarðið mætir Laxárdalnum, heitir
Tungubakkatagl
(139).
Svæðið suður af taglinu, ofanvert
og framan við Þríhóla, heitir
Bringir (140). Suður með ánni,
neðan Bringja, er brattur melhóll,
Hempuhóll (141). Rétt norðan
Hempuhóls sér móta fyrir grónum leifum bæjarrústa. Þar heitir
Siggusel
(142). Ekki er vitað, hvort þarna var haft í seli, eða hvort um var
að ræða sérstakt býli. Sunnan Siggusels liggur þröngt og alldjúpt
gil til fjalls; það heitir
Þvergil (143). Nokkru ofar en miðhlíðis
er allhár, stakur klettur, sem heitir
Skollaklettur (144). Suður
og upp af Skollakletti er djúp og víð skál í fjallið, sem nefnist
Smjör-
skál (145), er tilheyrir að hálfu Tungubakka. Niður undan Smjörskálinni,
niður við ána, því nær gegnt Sneis, er túnstæði og tóftabrot Tungubakka.
Ekki verður af því, er enn verður greint af rústunum, ráðið í fyrirferð
eða skipan húsa. Land það, er Tungubakka tilheyrði, er mest graslendi;
valllendisbrekkur með mýrarsundum og stöku melkollum. Þar er sagt
jarðsælt mjög.
Upplýsingar um flest örnefni í
Tungubakkalandi og nokkur í Skarðsskarði lét í té Jón Karlsson, en hann
átti heima um nokkurra ára bil á Laxárdal, fyrst á Kirkjuskarði og síðar
á Refstöðum.
Geitaskarði, veturinn 1954-55,
Sigurður Þorbjarnar.
Nöfnin
Einbúahóll (146)
og
Mólækur (147) koma fyrir í landamerkja- lýsingu, en ekki síðar
í skránni.
J.H.
Stafrófsskrá örnefna.
Ausugil 121
Bardagahvammur 133
Barð 36
Blákulaut 41
Blámelur 88
Blanda 6
Blástallur 90
Blettur 10
Brattabrekka 43
Breiðar 81
Bringir 140
Brúnkuholt 85
Brunná 118
Brunnáreyrar 137
Bræðraskriða 114
Bröttuskurðir 131
Buðlungalækjarós 18
Buðlungalækur 12
Buðlunganes 3
Buðlunganes 9
Buðlungatjörn 13
Bugur 77
Bæjarhóll 30
Dagslátta 69
Djúpagil 127
Dýjafjall 122
Dýjahlíð 120
Dyshóll 134
Eilífsdalur 50
Eilífslækur 26
Einbúahóll 146 = 24
Einbúi 24 = 146
Enni 80
Flatir 108
Flói 116 = 115
Flæði 55
Fosskot 104
Fosskotslaut 96
Framhlaup 135
Fögrudalir 87
Geitaskarð 53 = 52,68
Geitisskarð 54
Gerði 32
Gerðishús 73
Gerðistún 72
Gondhóll 76
Grenhólar 46
Grenskál, Syðri- 47
Grenskál, Ytri- 48
Hámelar 86
Harðeyri 8
Hempuhóll 141
Hlóðarsteinn 25
Hólar 23 = 22
Hólhús 66
Horn 75
Hraun 51
Hraun 106
Hraunkrókar 107
Hrossalaut 95
Hrossamýrarbrún 94
Hrossamýri 93
Hrútastallur 109
Húsadalur 45
Húsaflöt 31
Hæð 29
Höfði 60
Högg 111
Illviðurshnjúkur 91
Kerlingadalur 113
Kolluberg 49
Kringlóttaflæði 59
Kúalaut 42
Kvíalaut 39
Kvíar 11
Langhóll 71
Laxá 136
Leitismelur 132
Leynir 37
Miðflæði 57
Mígandi 97
Mógrafir 83
Móholt 82
Mólækjarós 5
Mólækur 147
Nestá 7
Norðlingabraut 2
Paradís 27
Pyttaflói 115 = 116
Pyttalækur 119
Ranghalagil 128
Réttargarður 78
Rjúpnagil 129
Sauðaskjól 84
Sef 15
Sel 117
Selstallar 123
Seltagl 124
Siggusel 142
Sjónarhóll 17
Skarð 68 = 52,53
Skarðslækjargil 67
Skarðslækur 62
Skarðsmynni 89
Skarðsskarð 52 = 53,68
Skjöldur 110
Skollakletur 144
Sláttukinn 99
Smjörskál 145
Spóamýri 21
Steinhús 65
Stekkjarmelur 105
Stekkur 103
Strengir 20 = 19
Strengjavað 19 = 20
Strýta 92
Suðurflæði 56
Suðurtún 35
Suðurtún 64
Sundpollur 16
Syðri-Grenskál 47
Syðrihús 74
Teigabrúnir 100
Teigalækur 102
Teigar 101
Tjarnir 112
Torfholt 98
Tungubakkatagl 139
Tungubakki 4
Undirbakki 61
Útauki 70
Úttún 34
Úttún 63
Vik 14
Vindagil 125
Vindagilsgrund 126
Víti 28
Vætur 40
Vörðumelur 79
Ytri-Grenskál 48
Yztaflæði 58
Þorbrandsstaðahólar 22 = 23
Þorbrandsstaðalækur 33,44
Þorbrandsstaðatún 38
Þorbrandsstaðir 1
Þrengsli 130
Þríhólar 138
Þvergil 143