Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar


Landfræðileg staðsetning


StaðurEyri
Annað staðarheitiEyri I og II
ByggðaheitiFáskrúðsfjörður
Sveitarfélag 1950Fáskrúðsfjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagFjarðabyggð
SýslaS-Múlasýsla (7600) (Ísland)
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer158488-3
AðalskráÖrnefnalýsing
UndirskráAlmenn örnefnaskrá
Blaðsíður


Eyri
Athugasemdir og viðbætur.
Sigrún Steinsdóttir, Dölum, skráði eftir Evu Indriðadóttur.


Munnmæli um Selá (1) segja, að þar hafi sézt afturgenginn selur, og átti sá að hafa dregið á eftir sér húðina.
Skjólfjara (4) heitir svo, af því að þar er gott skjól fyrir fé.
Illibás (7) er fjara, sem mjög vont er að komast upp úr.
Eyrarhagi (6) er hallandi melur. Fyrir neðan Eyrarhaga er fjara, sem er kölluð Ytrikrókur (115). Er hann fyrir utan Ytri-Eyrará (20). Í Ytrikrók var uppsátur; þar var fyrr á árum bryggja. Sjóhús var þar líka fram eftir árum.
Innrikrókur (118) var fjaran fyrir innan Innri-Eyrará (73). Á Innrikrók fórst frönsk skúta, líklega 1905. Menn björguðust nema einn.
Hagahorn (8) er tangi fyrir innan Illabás.
Leynigil (119), örnefni upp af Leynigilstjörn (120). Sennilega kallað svo, því fé gat leynzt í gilinu, þegar verið var að smala.
Eva heyrði alltaf talað um Innri-Merkisá (18) sem landamerki.
Enni (28) er hallandi, gróið land, vaxið kjarri og mýrargróðri. Litladalsholt (29) er rétt fyrir ofan Enni.
Klofamelur (36) mun draga nafn af því, að hann er á milli Stekkjarlækjar (21) og Ytri-Eyrarárinnar.
Ekki er vitað, af hverju Krossmýrar (37) heita svo.
Kvíar (45) voru fyrir ofan Eyrarbæinn, og voru þær hlaðnar. Nú er þarna slétt tún.
Ekki er vitað um vörðu á Vörðuholti (46).
Alltaf var sagt Sauðaborg (48). Hún var gerð af náttúrunnar hendi, rák inn í bergið við Kólonsfoss.
Kólonsfoss og Kólonsbotn (59) eru nefndir eftir frönskum kapteini. Bændur á Eyri voru í vinfengi við Fransmenn, sem komu oft í heimsókn að Eyri. Einn kapteinn tók aldrei þátt í drykkju og gleðiskap (svo). Heldur fór hann einförum upp að fossinum og dvaldi þar, á meðan hinir skemmtu sér.
Nafnið á Kúahyl (52) er þannig til komið, að mikinn frostavetur, 1882 (?), þraut neyzluvatn. Þá voru kýr reknar í þennan hyl til brynningar. Neyzluvatn í bæinn þurfti að sækja upp í Kólonsbotn.
Mögubotn (54) er sennilega dregið af mögóttri kind.
Árnar voru kallaðar Ytri- og Innri-Eyrará frá Eyri.
Hnausgilið (57) er fyrir neðan og innan Hnausinn (39).
Eitt sinn að sumarlagi, líklega um 1940, sást fólk koma úr Eyrardal (72) og hvarf heim að Eyri. Sáu fleiri en einn til þess. En heim að Eyri hafði enginn komið.
Kollumelur (60) er ávalur melur (kollóttur).
Skákar (70) voru ekki slægjuland, þetta voru melar.
Moshæð (71) er mosavaxinn melur. Þar uxu fjallagrös.
Neðsta- (74), Mið- (75) og Efstahraun (76) eru grjóthraun, lágir klettar meðfram Innriá.
Fláar (77) eru sléttar, hallandi niður úr Fláaskarði (87).
Grænukinnar (81) er engjablettur hátt uppi í fjalli, fyrir ofan Mosfell (42).
Úrvalstindur (84) mun heita Úlfarstindur (mannsnafn?). Hann heitir Kumlafell (85) Stöðvarfjarðarmegin.
Ekki er hægt að greina mannsmynd á Kerlingu (93).
Nafnið Stöðvarskarð (95) er dregið af bænum Stöð í Stöðvarfirði.
Það munu hrafnar hafa verpt í Hrafnaklettum (96). Hrafnaklettsmýri (97) var kölluð Dalsmýri (105).
Það var slegið á Sláttuhjalla (100). Þar var gott engi, en mjög bratt að komast þangað.
Fagrabrekka (109) er grösugt berjaland.
Mómýri (110) er fyrir innan Ytri-Merkisá (19). Örnefnið Merkigil (121) er notað. Innri-Merkisá rennur um gilið.
Ágæt mótekja var í Kollumelsmýri (61), 4-5 stungur. Mór var ekki tekinn í Mómýri frá Eyri. Sú mótekja var notuð frá Búðum. Mór var líka tekinn á Krossmýrunum og Neðstumýrinni (122) og uppi í Hálsi (67).
Ekki er vitað fyrir víst, hvort gilið, sem Mógilslækur (113) fellur eftir, heitir Mógil (123).
Ljóshæðir (114) draga nafn af ljósum mosa, sem vex þar.
Ytrikrókur er við Ytri-Eyrarána, en Innrikrókur er við Innri-Eyrarána. Bærinn Eyri stendur milli ánna.
Selárbásar (2) eru niður við sjó, rétt fyrir innan Selána. Þar bjó um tíma maður að nafni Árni Torfason (líklega eini ábúandinn).
Merki (124) er inni á Strönd (125), rétt utan við Innri-Merkisá. Merki stóð niður á Eyrinni (10).
Árbær (126), þurrabúðarbýli, stóð uppi á brekkubrúninni fyrir ofan Merki, þar sem nú er endurvarpsstöð fyrir sjónvarpið.
Eyrarárnar sameinast ekki. Þær renna í sjó sitt hvorum megin við Eyrarbæinn.
Dýjabotn (127), Sandfellsröð (128) og Stórabotnsaxlir (129) eru í landi Eyrar. Stórabotnsaxlir munu hafa verið nefndar Neðri- (34) og Efriöxl (35). Eva kannast ekki við Miðlækjarós (130) og Melrakkaeyri (131) í daglegu tali. Melrakkaeyri var, þar sem Merkisbærinn stóð.
Aðalbláberjabrekka (132) er móts við Kollumelinn, fyrir innan ána.
Bláberjabrekka (133) var uppi á klettinum fyrir ofan Kólonsbotn.
Nafnið á Skollabotni (65) er ekki mjög gamalt. Það er þannig til komið, að unglingsstúlka, Guðlaug Þorsteinsdóttir, seinna húsfreyja á Berunesi (hún ólst upp á Eyri), heyrði steina skrölta í hylnum undir fossinum. Var hún hrædd við þetta og hélt, að skollinn sjálfur væri þarna í botninum í hylnum.


Bls. 3, 6. l. a. n. Í stað: Eiríksson — komi: Stefánsson.
Bls. 3, 3. l. a. n. Í stað: Systir Indriða, Stefanía Jónsdóttir — komi: Dóttir
Indriða, Guðlaug.
Bls. 3. 1. l. a. n. Á eftir: síðan. — komi: Konan, sem var að taka saman
ullina, hét Þórunn Antoníusardóttir.


Guðrún S. Magnúsdóttir gekk frá handriti.


Stafrófsskrá örnefna

Aðalbláberjabrekka 132
Árbær 126
Bláberjabrekka 133
Dýjabotn 127
Innrikrókur 118
Leynigil 119
Leynigilstjörn 120
Melrakkaeyri 131
Merki 124
Merkigil 121
Miðlækjarós 130
Mógil 123
Neðstamýri 122
Sandfellsröð 128
Stórabotnsaxlir 129
Strönd 125

Þetta aðfang er í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Safnið hefur að geyma fjölmargar örnefnaskrár af öllu Íslandi. Skrárnar eru flokkaðar eftir sýslum og hreppum og grunneiningin er yfirleitt bærinn eða jörðin sjálf. Aðeins hluti þessara skráa er á leitarbæru rafrænu formi og er hann að mestu þegar kominn í Sarp. Stór hluti annarra tölvuskráa er tiltækur á pdf-formi. Hægt er að óska eftir að fá skrár sendar í tölvupósti með því að senda skeyti á netfangið nafn(at)arnastofnun.is.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.