LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


StaðurKrýsuvík
Sveitarfélag 1950Hafnarfjörður
Núv. sveitarfélagHafnarfjarðarkaupstaður
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer121493-1
AðalskráÖrnefnalýsing
UndirskráAlmenn örnefnaskrá
Blaðsíður

Krýsuvík


Austasta jörð í Grindavíkurhreppi, næst Herdísarvík í Selvogi í Árnessýslu. Þetta er landstærsta jörð hreppsins, kirkjustaður frá fornu fari, þó að nú sé horfín þaðan bæði kirkja, tíðahald og söfnuður.

Örnefnalýsing þessi er þannig til orðin: Í fyrsta lagi var stuðzt við örnefnalýsingu, skráða af Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti með miklum örnefnafjölda, en greinilega illa staðsett og óskipulegt. Í öðru lagi vélrituð blöð með yfirskriftinni "Hjáleigur Krýsuvíkur". Þetta eru þrjú blöð blýantsundirskrifuð Stefán Stefánsson með, að ég held, hendi Matthíasar Þórðarsonar, fyrrv. þjóðminjavarðar. Í þriðja lagi 11 blöð, "Landareign Krýsuvíkur", óundirskrifuð, en rituð á samskonar vél og hið fyrrnefnda. Í fjórða lagi eitt blað með viðbótum óstaðsett að mestu. Í fimmta lagi skrá í stafrófsröð yfir örnefni, en óstaðsett, skrifað á sömu vél og undirskrifað með blýant Stefán Stefánsson. Enn ýmislegt tínt saman úr prentuðum heimildum, þó að ekki sé það tæmandi. Þá er fellt inn í blað um sjóróðramenn á Selatöngum. Verður svo það tekið, sem fyllst er af þessu, en mætti síðar vera borið undir Ólaf Þorvaldsson og ef til vill fleiri. Ari Gíslason skráði, en Þórhallur Vilmundarson las skrána með Ólafi Þorvaldssyni og leiðrétti skv. hans fyrirsögn.

Land Krýsuvíkur er mjög víðlent og örnefnaríkt. Ummál þess er milli 60-70 km og flatarmálið eitthvað á þriðja hundrað ferkm. Eins og fyrr segir, liggur land jarðarinnar að merkjum Árnessýslu, móti Herdísarvík. Þau merki eru þannig, talin frá sjó: Seljabótarnef (1) er hár brunahryggur í sjó fram. Austan við hrygginn er svo Seljabót, en hún er í landi Herdísarvíkur. Er þetta kennt við gamalt sel, er þarna var frá Herdísarvík, og sér þar enn húsaleifar. Svo er merkjalínan sjónhending yfir brunahraun upp í gríðarstóran einstakan hraunstein, rétt við þjóðveginn, sem heitir Sýslusteinn (2). Þá fer brattinn að vaxa, og uppi í brúninni, rétt vestan klettanna í Herdísarvíkurfjalli, er allgróið hraun, sem heitir Lyngskjöldur (3). Þar vex t. d. allmikið af eini. Er svo línan enn sjónhending í norðaustur í Kóngsfell (4), sem er lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar (Grindaskarðaveg). Þetta er örskammt frá veginum. Ekki veit ég, af hverju þetta nafn er dregið. En einhver hefir sagt mér, að þar hafi fjallkóngar skipt liði áður fyrr. Munum við nú yfirgefa markalínuna um sinn.

Landi jarðarinnar hallar yfirleitt til suðurs að sjó, og mikill hluti þessa landflæmis eru hraun, úfin og hrikaleg, ber og nakin fjöll með fáar og smáar grasteygingar upp í ræturnar. Hraunflæmin eru með sáralitlum gróðri nema grámosa og lyngi á stöku stað. Aðalgraslendið var í Krýsuvíkurhverfinu og er enn. Má segja, að takmörk þess séu: Ögmundarhraun að vestan, Sveifluháls að norðvestan, Kleifarvatn að norðan, gróðurlitlar hæðir og melásar að norðaustan, Geitahlíð, Eldborg og Krýsuvíkurhraun að austan, en hafið og Krýsuvíkurbjarg að sunnan. Þessi óbrunna landspilda er um 8 km breið syðst, sem svarar lengd Krýsuvíkurbjargs, mjókkar svo jafnt og þétt allt norður að Kleifarvatni og er þar ekki breiðari en suðurendi vatnsins. En frá bergbrún og að vatninu skiptast á gömul túnstæði, engi, mýrar og heiðarland, beitiland með lyngkjarri og lynggróðri.

Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir (5). Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun (6). Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg (7) og Stóra-Eldborg (8). Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar (9) upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar (10) eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir (11), sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir (12) heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkurhellir (13). En í Klofningum er Klettagren (14).

Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð (15). Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð (15a), en litlu austar er Deildarháls (16); um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm (17), en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur (18a) eða jafnvel Hvítskeifuhvammur (17b). Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís (18), svo er Krýs (19) og loks Smalinn (20). Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur (21).

Vestan í Geitahlíð heitir Skál (22), og í henni er skafl, sem heitir Jónsmessufönn (23). Ekki veit eg um, af hverju það er dregið, nema ef vera skyldi, að hún hyrfi ekki fyrr en um Jónsmessu. Sunnan í Geitahlíð er hraunsvæði með nokkrum gróðri, og heitir það Fjárskjólshraun (24). Efst í Geitahlíð er allmikill gígur og mjög gamall. Barma hans ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, og heitir þar efst Æsubúðir (25). Niður af þeim, sunnan í hlíðinni, er svo Hvítskeggshvammmurinn, sem fyrr getur. Og á Geitahlíð er Vestra-Hlíðarhorn (26) og Eystra-Hlíðarhorn (27).

Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík (28). Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurberg (29). Sveigir berg þetta svo aftur til norðurs að vík þeirri, sem heitir Hælsvík (30). Í Keflavík heitir fjaran Kirkjufjara (31). Þar gengur blágrýtisgangur upp eins og hamar, og heitir hann ekki neitt sérstakt, en á honum heitir Ker (32). Opið á Kerinu nær alla leið niður í fjöru. Efst er Kerið ekki meira en 3-4 metrar á vídd, en víkkar, er neðar dregur. Úr fjörunni liggur gjögur eða gangur inn í gegnum klettinn, og má þar komast inn í Kerið. Austan við Keflavík heita svo Katlar (33) í hrauninu, Katlahrauni (33a). Er þar mikið um djúpa sérkennilega hraunbolla. Og þar upp af er, í hrauninu, Arnarsetur (34).

Þar sem Krísuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi (35) og Vestri-Bergsendi (36). Hluti Krísuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða (37). Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg (38); þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg (39); það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum. Svo er Heimaberg (40); þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar (41), Miðrekar (42) og Skriðurekar (43). Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur (44); þar uppi á brún heitir Lundatorfa (45). Nýipallur (46) er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef (47). Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón (48) og Vestra-Selalón (49). Framan í Skriðunni er Ræningjastígur (50). Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll (51), sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur (52) í bergið.

Þess má geta hér, að Miðrekarnir, sem fyrr er getið, eru vestastir af rekum þessum. Vestan við Krýsuvíkurhraun niðri undir sjó er fornt hraun, sem nefnt er Litlahraun (53), en í Krýsuvíkurhrauni er Skyggnisþúfa (54), vestur af Seljabótarnefi. Vestur frá Litlahrauni. tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri(55). Um hana rennur Eystri-Lækur (56) og rennur í sjó á austanverðu berginu. Vestarlega á mýrinni er stakt fell nokkuð hátt, sem heitir Arnarfell (57). Vestur af því gengur svo Arnarfellstagl (58), og framan í því er túnið, er síðar getur. Á fellinu er varða, sem heitir Eiríksvarða (59). Neðan við fellið er Arnarfellstjörn (60). Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði (61) og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar (62), en sunnan þeirra Trygghólamýri ( 63). Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda (64). Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar (65). Vestan undir Strákum er Fitjatún (66). Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði (67). Þar um rennur Vestri-Lækurinn (68) og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg (69) í bjarginu.

Suður af Trygghólamýri er Smalaskáli (70). Í Litlahrauni er Litlahraunsgren (71), og þar rétt hjá er annað gren, sem nefnt er Mosagren (72). Fitjatúnið hefur fyrr verið nefnt. Þar austur af eru móbergstindarnir fyrrnefndu, sem heita Strákar. Þeir eru vestast í Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll (73), og austastir eru Trygghólarnir. Suður af Selöldunni er Skriðan fyrrnefnda.

Nú er bezt að halda heim til bæjar. Krýsuvík var um langan aldur sérstök kirkjusókn með hjáleigum sínum, þar til nú fyrir nokkrum árum. Sé Stór-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og mun hafa verið fram undir síðustu aldamót, og sé því ennfremur trúað, að byggð hafi verið á Kaldrana, þá hafa hjáleigurnar verið fjórtán og heitið svo:

Stóri-Nýibær (Austurbær): 1703 nefndur einn Nýibær. 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Litli-Nýibær (Vesturbær): 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Litli-Nýibær: 1703 nefndur svo. 1816: nefndur svo. 1847: eins.
Norðurkot: 1703: Norðurhjáleiga. 1816: nefnt svo. 1847: eins.
Suðurkot: 1703: Suðurhjáleiga. 1816: nefnt svo. 1847: eins.
Lækur: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: eins.
Snorrakot: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Hnaus: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Arnarfell: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Fitjar: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Gestsstaðir : 1703: nefnt í eyði. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.
Vigdísarvellir: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: nefnt.
Bali: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: nefnt.
Kaldrani: 1703: ekki nefnt. 1816: ekki nefnt. 1847: ekki nefnt.

Verður nú reynt að staðsetja býli þessi bæði við það, sem komið er og mun koma síðar. Krýsuvík hefur nú staðið um langan aldur norðvestur frá Arnarfelli, undir austanverðu Bæjarfelli (74), sem er norðvestur frá Arnarfelli og nokkru hærra. Nyrzt í heimatúni var svo Norðurkot (75), Snorrakot og Hnaus. Tvö hin síðastnefndu hafa verið smábýli í Norðurkotstúni, og má benda á það, að norðausturhorn túnsins heitir Snorrakotstún (76); smálækur skilur það frá aðaltúninu. Syðst í túninu var Suðurkot, og austan við bæjarlækinn var svo býlið Lækur. Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum. Útislægjur gátu og verið þar upp af með læknum, þar sem heitir Efri-Fitjar (77). Við Selöldu voru svo Selbrekkur (78). Nýibær er uppi í brekkunum norður frá heimabænum. Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. Sunnan bæjarins eru Rauðhólsmýrar (79), sem kunna að hafa verið slægjur þaðan, kenndar við hól, sem heitir Rauðhóll (80) og er þarna utan í hálsinum. En norðan við Gestsstaði er Gestsstaðavatn (81), sem er vestan við núverandi veg, en sést ekki frá honum, beint á móti Grænavatni, er síðar getur. Inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani (82). Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól. Þá eru eftir tvær hjáleigur, en þær voru báðar vestan við Sveifluháls og hétu Vigdísarvellir og Bali.
Eitthvað var nú eftir í heimatúni. Í túninu er Ræningjahóll (83), og þar eru þrjár þúfur, sem heita Ræningjaleiði (84). Lægð er í túni, Kúadalur (85), og Kúablettur er þar að norðanverðu við Arnarfellið. Tobbuflöt (86) er í túninu, og svo er þar tjörn, sem heitir Kattartjörn (87).

Ef við skreppum aftur upp undir Geitahlíð, er suður af Stóru-Eldborg hraunfarvegur og lægð, sem heitir Möngulág (88). Vestan við Geitahlíð eru svonefndir Vegghamrar (89). Þess má geta strax, sem átti að koma fyrr, að sunnan í Bæjarfelli er Hellisbrekka (90) og Hellir (91). Landnorður frá Krýsuvík eru svo bæirnir Stóri- og Litli-Nýibær, sem fyrr getur. Upp frá þeim taka við til norðausturs smáhækkandi hæðir nefndar Hryggir (92). Þeir eru norður frá Vegghömrum. Í þeim eru smáskálar fullir af vatni, Miðauga (93) og Efraauga (94). Norður frá Nýjabæ, austan nýja vegar, er vatn það, sem heitir Grænavatn (95). Norðan þess tekur svo við láglendi og graslendi norður að Kleifarvatni (96), sem er allstórt vatn með allmerka sögu, en ekki fullrannsakaða og því ekki til umræðu hér. Svæðið þarna á milli má segja, að sé engjar og þá með ýmsum nöfnum. Fyrst má þá segja, að upp af þessum bæjum gengur hæðarrani fram í graslendið, sem skiptir engjunum í Vestur-Engjar (97) og Austur-Engjar (98). Hæðarrani þessi heitir Litla-Lambafell (99) nyrzt, og aðskilið af smálægð er þar norðar Stóra-Lambafell (100). Bezt er, áður en farið er lengra, að setja númer á það, sem varð eftir heima í Krýsuvík. Kúablettur (101) er austan lækjar, norðvestan við Bæjarfellið er Hafliðastekkur (102), og austan við túnið er hóll, sem heitir Gráhóll (103). Austan í Arnarfelli er Stínuhellir (104). Nokkuð norðaustur frá Grænavatni, uppi í hæðinni, er svonefndur Austur-Engjahver (105). Var þar lítill vatnshver, en 1924 myndaðist þar stór leirhver, sem svo heldur nafninu. Austan við þennan hver heita Ásar (106). Á engjunum er þá fyrst næst Stóra-Nýjabæ Giltungur (107) (líklega er það, áður en komið er á engjarnar). Þá er Höfði (108) og Höfðamýri (109) og Kringlumýri (110). Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar. Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland (111) og Fremra-Nýjaland (112). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts (113). En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar (114), engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt. Fyrrnefndur malarhryggur er nefndur Rif (115). Vestan við Fremra-landið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, sem nefndur er Ós (116), inn á Innra-landið og svo í vatnið sjálft. Lækur þessi á upptök sín að mestu í Vestur-Engjum og Seltúnshverum, er síðar getur. En smálindir koma þó í hann af Austur-Engjum úr Hvömmum og Lambafellum.

Vestur-Engjarnar eru vestanvert við Lambafellin. Þar er svæði, sem heitir Norðurkotsnes (117). Milli þess og Lambafells er lækur, sem heitir Svuntulækur (118). Á Vesturengjunum er skorningur, sem nefndur er Ósgil (119), þá Fúlipollur (120) og Fúlapollsrás (121). Þá er Flatengi (122). Vestan við Nýja-landið, sem fyrr er nefnt, er Kaldrani, sem fyrr var getið. Norðan við Kaldrana tekur svo við svæði, sem nefnt er Sandur (123) og nær inn með vatninu vestanvert, inn að Syðri Stapa. Á Vesturengjunum eru Lækjarengjar (127), og í Hvömmunum fyrrnefndu er Laug (128). Þá er á Vesturengjum stykki, sem heitir Svunta (129), og Svuntugil (130), þá er Svuntuhorn (131), og eitt af augunum heitir Steinkupyttur (132).

Við suðausturenda Kleifarvatns er allhár móbergshöfði, sem heitir Geithöfði (133). Ef við höldum svo með vatninu austanverðu, þá er þar hærra uppi hæðarbunga, sem heitir Gullbringa (134). Af henni er svo nafn sýslunnar dregið. Þar austur af er allhátt fell, sem heitir Vörðufell (135). Norðan þess er mjó hraunspilda vaxin grámosa, er steypist þar niður hlíðina og niður í vatn, og heitir það Hvannahraun (136). Eftir það tekur svo við Vatnshlíðin (137). Meðfram Kleifarvatni er hún sundurgrafin af smágiljum, ófær hestum, og innst í Vatnshlíð heita Hrossabrekkur (138), brattar og giljóttar. Þær eru innstar við Kleifarvatn austanvert.

Norður af Geitahlíð, sem fyrrnefnd er, tekur við háslétta, sem er víðast eldbrunnin. Vestur af hálendisbrúninni norðan Geitahlíðar fellur hraunfoss, sem allur er vaxinn þykkum grámosa. Foss þessi heitir Víti (139). Norður af Geitahlíð og Víti eru Kálfadalahlíðar (140), og vestan þeirra eru dalir eða lægðir, nokkuð djúpar, og heita Kálfadalir (141). Inn af þeim er svo Kálfadalahnúkur (142). Hér norðar á hásléttunni er Vörðufellið, sem fyrr var getið, og austan þess heita Sandfjöll (143). Hér uppi er hásléttan áfram hallandi til vesturs eða suðvesturs. Er hún frekar mishæðalítil, en öll eldbrunnin og með gígum. Efst, þar sem er markalínan móti Herdísarvík, eru svonefnd Brennisteinsfjöll (144). Hækka þau til norðurs. Heldur sunnar en háaustur frá norðurenda Kleifarvatns er uppi á há Brennisteinsfjöllum svonefnt Kistufell (145). Þar norður af eru svo Draugahlíðar, sem munu vera í Herdísarvíkurlandi, enda hallar þeim mót austri, og er þá skammt eftir í Kóngsfell.

Innan við Kleifarvatn er flöt, sem nefnd er Blesaflöt (146). Er sléttur sandur frá vatninu og að flötinni. Innan við flötina er svo hæð, og af henni opnast útsýn inn með Lönguhlíðum (147). Vestast í þær, skammt frá Blesaflöt, gengur dalur inn í hlíðarnar, sem heitir Fagridalur (148), og innan hans er Fagradalsmúli (149). Dalurinn hér vestan Lönguhlíða heitir Breiðdalur (150).

Nú skulum við færa okkur um set og taka fyrir vestari hluta Krýsuvíkurlands. Síðast vorum við staddir niðri við sjó hjá Hælsvík. Vestan hennar er steinn fram í sjó, sem heitir Þyrsklingasteinn (151). Þar tekur við mjó hraunbreiða fram að sjó og víða hamrar. Næst vestan við Vestri-Bergsenda taka við svonefnd Svörtuloft (152). Eftir að þeim sleppir, taka við Miðrekarnir, sem fyrr var getið. Austarlega í Ögmundarhrauni eru tveir básar í hraunbrúninni við sjóinn, og heita þeir Rauðibás (153) og Bolabás (154). Ekki eru þeir stórir og fjaran í þeim ekki meir en fáeinir metrar. Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Selatangar (155). Austan við Selatanga er vík, sem heitir Nauthólsvík (156), og austan hennar er stykki, sem nefnt er Langagjögur (157). Í Selatöngum er klettur við sjávarmál, sem heitir Dagon (158), öðru nafni Raufarklettur (158a). Úr honum sjónhending í Trölladyngjufjallsenda eru merki móti Ísólfsskála og Hrauni.

Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskgörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu. Hraun það hið mikla, sem hér er upp frá sjó, heitir Ögmundarhraun (159). Álitið er, að það hafi runnið eftir landnámsöld. Jónas Hallgrímsson taldi það runnið 1340. Og seint á 15. öld er þess getið í kvæði um krossinn helga í Kaldaðarnesi. Það hefur komið upp úr þrem gígaröðum við suðurhornið á Núpshlíðarhálsi, er síðar getur. Hraun þetta er mjög úfið. Neðst á hrauninu, austast, er Húshólmi (160), og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið. Þá er þar vestar og ofar niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi (161). Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar (162). Þar eru rústir (Árbók Fornleifafél. 1903).

Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík (163). Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna (164). Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt (165). Ögmundarhraun er neðst um 5-6 km breitt. Í hrauninu eru tvær áberandi gjár, Ytri-Gjá (166) og Innri-Gjá (167). Vestan við hraunið og gígana, sem það kom úr, er svo fell, sem heitir Latsfjall (168), sunnan þess eru Latsfjallstögl (169), en í sömu línu Latshólar (170), og syðstur er einstakur hóll, nefndur Latur (171). Austan við hraunið í rótum Mælifells er Ögmundarleiði (172), stakur smáhóll, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. Austarlega í Ögmundarhrauni heitir Arnarsetur (173). Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli, er síðar getur.

Norður frá Ögmundarhrauni taka svo við tveir samliggjandi hálsar með sérfjöllum, hnúkum, dældum og lægðum, og milli þeirra er svo lægð með sínum nöfnum. Sá eystri þessara hálsa heitir Sveifluháls (174), öðru nafni Austurháls (174a). Hefur að miklu leyti verið lýst því landi, sem er austan hans upp að rótum hans. En það má segja með réttu, að Sveifluháls afmarki hið byggilega land víkurinnar að norðvestan. Sveifluháls liggur á kafla meðfram Kleifarvatni.

Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell (175), og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar (176). Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi (177). Þar norður af er annar klettur, sem heitir Skuggi (178). Þar upp af er hár hnúkur á hálsinum, sem heitir Drumbur (179). Þar niður undan eru svo Drumbsdalir (180). Hér liggur yfir hálsinn vegurinn frá Vigdísarvöllum, er síðar getur, til Krýsuvíkur. Þessi vegur heitir Drumbsdalavegur (181). Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll (182), og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur (183). Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur (184) eða Móhálsavegur (184a). Ekki kann eg að staðsetja veg þennan. Þess má og geta, þótt fyrr hefði átt að koma, að á Miðrekum er hella, sem heitir Selhella (185).

Norður frá Drumbsdalavegi mun hálsinn hafa heitið Móhálsar (186), þótt það nafn sé nú glatað. Nú höldum við norður hálsinn, á móts við Gestsstaðavatn. Þarna eru hnúkar og hæðir, sem mig vantar nafn á, og ef til vill eru þeir nafnlausir. Tekur þar við fjall það, sem heitir Hverafjall (186a). Þar er hver sá, sem heitir Pínir (187), nú útdauður, og neðan hans eru Pínisbrekkur (188), norðvestur af gróðurhúsunum. Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir (189). Nokkuð suður og vestur frá Hatti (190) er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta (191). Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda. Framan undir Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsum, og er það nafn nú glatað. Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur (192). Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið (193). Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur (194), sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil (195). Þarna eru Seltúnshverir (196). Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir (197). Eru þær á Seltúnsbarði (198), sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla (199). Hér hefur gleymzt, að neðan undir Hettu Vigdísarvallamegin er Hettumýri (200). Norður af Hatti er á hálsinum vatn það, sem heitir Arnarvatn (201), og norðan þess er hár hnúkur, Arnarnípa (202). Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur (203). Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn (204) við, en það er kringlóttur, djúpur dalur eða skál niður í fjallið. Graslendi er í botni hans. Þetta er móbergsfjall, og liggur stígurinn í fullan hálfhring upp Ketilinn, hærra og hærra. Snarbrattar og sléttar skriður eru niður í botn, þegar upp kemur, sést, að hér er hálsinn klofinn norður að svonefndum Miðdegishnúk (205), sem er upp af Kaldrana, sem fyrr er getið. Þessi klofningur er sanddalir, sem heita Folaldadalir (206). Norðvestan við Miðdegishnúk, vestan Sveifluháls, er Hofmannaflöt (207). Þar norðar eru Köldunámur (208). Þessi Miðdegishnúkur hlýtur að vera eyktamark úr Hraununum eða annarsstaðar á þeim slóðum. Framan við Ketilstíg er Bleiksflöt (209). Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt (210).

Nú skulum viðhalda inn með Kleifarvatni að vestanverðu, en þar er Sveifluhálsinn víða mjög brattur. Kaldrani var nefndur fyrr, og frá honum inn með vatninu var nefnt Sandur, er svo náði inn að Syðri-Stapa (212). Þá er þar innar Innri-Stapi (214), sem nú er nefndur Stefánshöfði (215) til heiðurs við Stefán Stefánsson (Stebba guide), en hann lét strá ösku sinni í vatnið. Austan í hálsinum norðan Miðdegishnúks eru skorningar, er nefnast Hulstur (216), og þar austar og sunnar heita Afvatnabrekkur (217). Þegar komið er norður fyrir Stefánshöfða, er svo sandur um að fara, inn á Blesaflöt, er fyrr getur. Hér upp af er hálsinn brattur og mjór uppi. Eru þar hnúkar nokkrir. Miðdegishnúkur var fyrr nefndur, þar norðar er annar nafnlaus og annar til. Svo er þar norðar vestur af Stefánshöfða Stapatindar (218). Virðast þeir vera tveir, sem eru um þetta nafn. Þar norðar móts við vatnsendann eru Hellutindar (219). Vestan við Sveifluháls móts við Stapatinda liggur annar háls miklu lægri, nánast eins og stallur í Sveifluhálsi, þó fráskilinn, heitir Norðlingaháls (220). Þetta er melalda norðan við Köldunámurnar, sem fyrr var getið. Nú lækkar Sveifluháls, og heitir skarðið, sem þar myndast, Vatnsskarð (221). Suðvestur af Vatnsskarði er Sandfell (223), og milli þess og Sveifluhálsenda heitir Sandfellsklofi (224).

Vestur af Sveifluhálsi er svo hraunlægð, sem breikkar, eftir því sem norðar dregur. Skulum við nú fara aftur syðst og halda norður vestasta hluta Krýsuvíkurlands. Þegar kemur upp úr hrauninu, tekur við Núpshlíðarháls (226), öðru nafni Vesturháls (226a), og syðst í hálsi þessum heitir Núpshlíð (227). Vel kann að hafa verið þarna bæjaröð, áður en hraunið rann. Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir (228). Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, sem fyrr var getið, og Bali (229). Þess má geta, að syðsta horn Sveifluháls heitir Urðarfell (230), sem er næst austan Krýsuvíkur-Mælifells, er fyrr getur.

Upp af Vigdísarvöllum er háls, sem heitir Vigdísarvallaháls (231). Austan í hálsinum er Litli-Hamradalur (232) og framar er Stóri-Hamradalur (233). Suður af þeim heita Tófubrunnar (234), gamalt hraun. Þess má geta, að austan í Núpshlíð er svonefndur Skalli (235), og austan undir hlíðinni er Sængurkonuhellir (236). Rétt hjá Vigdísarvöllum er hraun, sem nefnt er Blettahraun (237), og Lækjarvellir (238) eru meðfram læknum, sem rennur meðfram og um túnið.

Norðan við Vigdísarvallaháls er Krókamýri (239). Í henni kemur upp lækur, sem rennur um Vigdísarvelli og hverfur svo í hraunið. Hér vestar er Selsvallafjall (240), um það eru merkin, en Selsvellirnir, sem það dregur nafn af, eru vestan við fjallið. Þá gengur hæðarbunga fram norðan við Krókamýri, og norðan hennar er Djúpavatn (241). Það er allmikið vatn og stórt. Vestan þess er allmikil hæð, sem heitir Grænavatnseggjar (242). Norðarlega á þeim er smávatn, sem heitir Grænavatn (243), en þar sem vatnið er, heitir Engjaháls (244). Hæðarbungan suður af Djúpavatni, sem fyrr var nefnd, heitir Traðarfjöll (245). Norðan við Grænavatnseggjar, Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog (246). Frá Sogum rennur lækur í Djúpavatn. Austur frá Djúpavatni heita svo Lækjarvellir (247), sem eru austur frá Stórusteinabrekku (247a). Upp frá Lækjarvöllum, vestur frá Hofmannaflöt, er svo Fíflavallafjall (248). Hvar Fíflavellirnir eru, er ekki gott að vita, en líklega eru þeir vestan undir fjallinu. Vestur frá Fíflavallafjalli er lægð, sem heitir Efri-Sog (249), og þar norðvestur af er svo Grænadyngja (250). Norðan hennar er allstórskorið eldfjall, sem heitir Trölladyngja (251). Um hana eru svo merkin.

Norður af Fíflavallafjalli eru graslendisvellir, Hörðuvellir (252). Þaðan til norðausturs eru svonefndar Mávahlíðar (253). Endinn á Hörðuvöllum heitir Hörðuvallaklofi (254). Neðan undir Mávahlíðum er fell, sem heitir Hrútafell (255). En milli Mávahlíða og Hrútafells er Hrúthólmi (256). Rétt innan við Hrúthólma er stór gjá, sem heitir Hrútagjá (257). Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel (258). Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur (259). Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði (260), og norðaustan þess er hár grjóthóll, sem heitir Markhelluhóll (261). Hrúthólmi er melhryggur, nokkuð gróinn, og Hrútafell er móbergsfell. Svo er línan dregin norðan og austan alls þessa frá Markhelluhól norðanvert við Fjallið eina (262) um Sauðabrekkur (263). Er það hár hraunhryggur. Svo er lína áfram í Markrakkagil (264), sem er í Undirhlíðum (265). En það eru hlíðar samhliða Lönguhlíðum. Svo er aftur norðan í Lönguhlíð gil, sem heitir Stórkonugil (267).

Þá er hér óstaðsett Brúnir (268), Brúnaslakkar (269), Grásteinn (270), Grásteinsmýri (271) og Jónsvörður (272).

Þetta aðfang er í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Safnið hefur að geyma fjölmargar örnefnaskrár af öllu Íslandi. Skrárnar eru flokkaðar eftir sýslum og hreppum og grunneiningin er yfirleitt bærinn eða jörðin sjálf. Aðeins hluti þessara skráa er á leitarbæru rafrænu formi og er hann að mestu þegar kominn í Sarp. Stór hluti annarra tölvuskráa er tiltækur á pdf-formi. Hægt er að óska eftir að fá skrár sendar í tölvupósti með því að senda skeyti á netfangið nafn(at)arnastofnun.is.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.