1 Slátrun búfjár og sláturverk
Nr. 8193.
Heimildarmaður: Gísli Jónatansson,
f. 29.06.1904, Naustavík, Strand.
p1
Spurningaskrá 1. Sauðfé:
Hér hófst sláturtíð alltaf fram úr leitum. Hér var venja að
segja leitir, en víða annarsstaðar voru það kallaðar göngur. Þá var
sláturféð rekið til Hólmavíkur og því slátrað þar, en alltaf áður, fyrir
mitt minni, var það rekið inn að Borðeyri, en eftir að verslun kom að Hólmavík,
þá var því slátrað þar. það var álitið að eftir að komið var langt
fram á haust og grös væru farin að sölna, að þá færi féð að leggja af.
Hvort það var breytilegt eftir því hver kindin var, veit ég ekki.
Það var gömul trú að farsælla væri að slátra seinnipart viku, heldur en
fyrripart, því mánudagur var til mæðu, en laugardagur til lukku osfrv.
Það mátti ekki slátra í fyrstu vetrarvikunni. Þá átti að koma ólán
og óhöpp fyrir bústofninn. Trúin var sterk hjá þeim gömlu mönnunum.
Hér var það áreiðanlega ekki venja að slátra skepnu þegar töðugjöldin
voru haldin, en alltaf var þá eitthvað reynt að breyta til í minningu þess,
að búið var að þurrka töðuna. En venjan var að þegar heyskapur var
búinn, að þá var fengið nýtt kjöt og svo um leitirnar, þó hér þyrfti ekki
að nesta sig í leitina því hér eru leitir ekki lengri en löng smalamennska.
Mér er ekki kunnugt um neina trú í sambandi við flagbrjósk af fjallakind.
Þar sem minnst er þarna á hrútá og jólaá, það er nú nokkuð sem ég
kannast ekkert við og eins veit ég ekkert um
p2
hvort þótti betra að slátra sauðum
á staka árinu, 3 eða 5 vetra, en á jafna árinu. Þegar ég var unglingur
og ungur fullorðinn maður, þá voru nú alveg að hverfa hjátrú gamla fólksins.
Vænleika fjárins fundu menn nokkuð að talið var með því að taka á spjaldhryggnum
og bringunni. Hvað góður fallþungi var, veit ég alls ekki. Sauðaeign
bænda var engin eftir að ég fer að muna og taka eftir, en var víst þó nokkur
áður fyrr. Hvort betra var að slátra með vaxandi tungli um það veit
ég alls ekkert. Slátrun: Það var venja að kalla blóðvöll,
þar sem fénu var slátrað og venjulegast var féð rekið í eitthvert fjárhúsið
og blóðvöllurinn var við húsið, þar sem slátrað var. Áhöldin voru
skurðarhnífur, fyrirristuhnífur, blóðtrog og sláturtrog og í blóðinu var
hrært með tréspaða. Blóðhrísla og blóðvöndur eru nöfn sem ég kannast
ekkert við. Blóðtrogið var venjulegt trog, sem haft var til eins
og annar, þó það væri haft til þessara nota, þegar slátrað var, og svo
í seinni tíð voru það þvottaföt emeleruð, er mér víst óhætt að fullyrða.
Það er spurt hvenær fyrst hafi verið farið að aflífa sauðkindur með
byssu. Það var orðið almennt um og fyrir 1920, en áður en farið var
að skjóta féð var svæfingarjárnið notað og það var notað fyrst þegar farið
var að slátra á Hólmavík, og stórgripir voru oft svæfðir en ekki skotnir.
p3
Svæfingarjárnið var líkt sporjárni
en oddmyndað og egg til beggja hliða og átti að vera vel beitt. Þar sem
saman kemur hryggurinn og höfuðið er hola sem kölluð er svæfingarhola og
þar var því stungið, og það tókst alltaf vel. Skepnan steinlá, eins
og væri notuð byssa. Hvað margir voru við að slátra fór mikið eftir
því hvað miklu var slátrað, en minna en 2 gátu það nú ekki verið. Sá
sem skaut skepnuna eða svæfði og annar til að halda fótunum, þegar höfuðið
var skorið af, því þó skepnan væri skotin eða svæfð var það líf í skrokknum,
að sá sem skar höfuðið af gat átt í vandræðum með það. Börnum var
stranglega bannað að vera við, þegar skepna var aflífuð eða þau tæplega
langað til þess. Um hjátrú þessu viðkomandi veit ég ekkert um.
Vanalegast var nú kindin látin liggja í grasi þegar rist var fyrir og gæran
flegin af og tekið innan úr henni, en sumir komu sér upp gálga og það þótti
betra, þreytti mann ekki eins við verkið. Um það að markaður
væri kross í blóðtrogið áður en skepnan var hálsskorin kannast ég ekki
við. Þegar maður skar höfuð af kind, þá skar hann með hægri hendi
og hélt með vinstri hendi þannig að hann smeygði þumalfingri inn fyrir
framtennur, en eins og við vitum, þá er þó nokkuð bil á milli framtanna
og jaxlanna. Þannig sá ég það alltaf haft.
Að talað væri um að kindur "legðu
fast að"
p4
í dauðastríði, um það heyrði ég
aldrei neitt talað svo ég muni. Ef það kom fyrir að kind
jarmaði þegar var búið að leggja hana niður til skurðar, þá var það álitið
öruggt að hún væri að biðja um líf og það hef ég heyrt að alltaf hafi verið
gert, annars var það álitið óheyrilegur ódrengskapur, og ef það var ungviði,
þá var það sterk trú, að það yrði einhver ágætis lánsskepna og reyndist
metfé. Meðan kindur voru hálsskornar án þess að skjóta
þær eða svæfa, þá þótti það sjálfsagt að skera örfljótt inn í mænu og hana
í sundur og skera svo höfuðið af. Annars þekki ég lítið til slátrunar
fyrr en eftir að farið var almennt að nota kindabyssu. Ef menn áttu
ekki byssu sjálfir, þá var alltaf hægt að fá lánaða kindabyssu hjá einhverjum
kunningja. Þarna eru margar spurningar sem ég get ekkert sagt um.
Ég minnist þess frá bernskudögum að slátrari var með skurðarhnífinn
milli tannanna og það fannst mér ógeðslegt að sjá, en ætli það hafi ekki
verið gert til öryggis að einvherju leiti. Að höfði sauðkindar væri
slegið við strjúpann um leið og það var skorið af, það kannast ég ekkert
við. Fláning: Gæran við strjúpan var hér kölluð blóðháls.
Að flá kind og sundra henni, var alltaf her kallað "að gera
hana til". Fyrirristan var þannig, að það var rist
p5
frá hálsi og aftur í nára og frá
hnjáliðum og yfir á bringu og sömuleiðis var svipuð aðferð með afturpart.
það var rist frá konungsnefi og ofan í nára, og frá endaþarmi og
að þessum skurðum og svo var vanalegast byrjað að losa gæruna á hálsinum.
Ég veit ekki hvort rist var með öðrum hætti, ef átti að nota skinnið
í sjóklæði. Heyrt hef ég að belgur hafi verið fleginn af kindum,
en um það er mér ókunnugt. Ég vissi til þess að skinn af kind var
haft utan um kæfu, en þá var skinnið saumað annaðhvort í maskínu eða með
saumnál. Ég kannast við það að fætur voru látnir fylgja gæru,
þangað til hún var rökuð, en venjulegast voru fæturnir skornir af við fláningu.
Það er svo margt sem var að hverfa og horfið frá gamla tímanum, þegar
ég var að alast upp, sem gamla fólkið hafði sterka trú á. Þar með
er hjátrú, ef fótur skarst af gæru af klaufaskap og eins hvað nefndist
dindill, ef hann var fleginn með gæru. Þetta kannast ég ekkert við.
Eitthvað kannast ég við nafnið völuþjófur. Hrútspungar voru
alltaf hirtir og þótti góður matur. Þeir voru rakaðir og soðnir þegar
búið var að sauma fyrir þá og aldrei heyrði ég annað en öllum væri meinalaust
að neyta þeirra. Nafnið kletti kannast ég ekkert við, en ef átt er
við sinina, þá var það svona á milli, að hún var skorin af strax eða hún
var tekin þegar skrokkurinn var brytjaður.
p6
Ég kannast ekki við að hrútspungar
væru notaðir til annars en hafa þá fyrir tóbaksílát. Það gat verið
misjafnt hvað kindur voru lausar í bjórnum, en af hverju það stafaði veit
ég ekki um. Að skilja eftir hluta af magál ófleginn, kannast ég ekki
við. Korði var oftast skorinn af um leið og skepnan var gerð til.
magáll var ekki alltaf tekinn af öllum sauðkindum, þó það væri nokkuð
oft. Farið innan í: Það var bundið fyrir vélindað þannig,
að barki var skorinn frá vélinda með því að hnífsblaði var rennt milli
barkans og vélindans og dálítið af barka var látið fylgja vélinda efst
á vélindanu, og þegar hnýttur var hnútur efst á vélindað þá var þessi örsmái
barkabútur til þess að þetta rann ekki til. Það er spurt þarna margra
spurninga, sem mér er ómögulegt að svara. Konur unnu oftast
við að hleypa gorinu úr og þvo innan úr. Það var ekki frekar verk
fjósakonu. Það var kallað að rista ristla að skera hann langs
og skafa ristilinn vandlega innan og oft voru börn látin halda í ristilinn
eða ristillinn var festur við balaeyra eða eitthvað, ef barn hélt ekki
í ristilinn.
p7
Frá mör var gengið þannig að mör
úr hverri kind var sér, og búinn til skjöldur úr hverjum mör. Netjan
var höfð utan yfir og aðrir mörvar úr kindinni innan í. Sláturgerð:
Hér var alltaf sagt blóðmör, en ekki blómur. Það er ekki rétt
mál að segja blómur. Það er latmæli, og gefur ekki rétta hugmynd
við hvaða matartegund átt er við. Það var alltaf búinn til blóðmör
þegar kind var slátrað og kindurnar hér á Ströndum gera alltaf í blóð sitt.
Hér eru kjarna bithagar. Það var venja hér að hafa netju eða
nýrnamör, ef álitið var að væri þörf á því. Áður og fyrr voru fjallagrös
mikið notuð í blóðmörsgerð, en nú eru æði margir áratugir síðan það var
gert. Þó man ég eitthvað eftir því, frá því ég var barn, en hvað
mikið var haft af grösum. Það var venja að sauma með nál og bandi
fyrir blóðmör, en þó hef ég heyrt að í gamla daga hafi verið líka höfð
smáspýta í staðinn fyrir bandið. Auðvitað var það mikið fljótlegra, en
ég sá það aldrei.
p8
Innmatur: Lifur úr kind var
venjulegast höfð í lifrarpylsu.
Ég held mér sé óhætt að segja að
fjallagrös hafi aldrei verið höfð í lifrarpylsu. Lifrin var hökkuð í hakkavél.
Hvaða réttur var gerður úr vélinda, hvernig vambabaggi var búinn
til og hvaða matföng voru notuð í ruslakepp, það veit ég alls ekkert um.
Lundabaggi var búinn til úr lundunum, sem er innan á spjaldhryggnum
og utan um þær var svo ristlinn vafinn og síðan var þindin látin utan yfir
og saumaðir saman jaðrarnir. En eftir að farið var að slátra í sláturhúsum
og flytja kjötið úr, þá urðu lundirnar að fylgja skrokknum, og þá var að
hafa hjörtun í staðinn fyrir lundir, svo þá gat þetta ekki síður heitið
hjartabakki. Svo voru baggarnir með blóði og lifrarpylsu í tunnu
og þar súrnaði þetta hæfilega með slátrinu, en varð fullsúrt, ef þetta
geymdist í drukk, eins og var gert áður og fyrr. Orðið döndull kannast
ég ekki við. Ég kannast við orðið sperðill en þekki það ekki. Bjúga
var dálítið búinn til , en ekki samt mikið. Mér fannst skrýtið annað
nafn, sem ég heyrði á bjúga,
p9
það var orðið grjúpán. Það
heyrði ég sagt af manni úr V-Skaftafellssýslu. Þetta er víst komið
frá Írum. Það mætti víst hætta að kalla svona góðan mat þessu ónefni, enda
eigum við að tala rétt mál. Magáll var vafinn saman eins
og rúlla og svo saumað með nál jaðarinn, svo þetta var eins og lundabaggi.
Svo var hann annaðhvort súrsaður eða reyktur. Það rifjast eitthvað
upp fyrir mér þetta með að 2 stúlkur mættu ekki skipta með sér nýra, en
hvað af því gat leitt man ég alls ekki. Hvort þær áttu þá að rífast um
sama karlinn. Ég gæti best trúað því. Hvort þetta er rétt til getið
það er svo önnur saga. Hvernig gollur var matbúinn veit ég
ekki eða hvort hann átti annað nafn og sömuleiðis hvernig hjartabaggi var
matreiddur. Lungu voru alltaf hirt og eitthvað hef ég heyrt
nefnda lungnakæfu, en hvernig sú kæfa var til búin veit ég ekki. Hvort
karlmenn máttu eta barkakýli heyrði ég aldrei talað um. Mör
og kæfa: Mörinn var alltaf brytjaður áður en hann var annaðhvort
hnoðaður eða bræddur. Það var kallað mörflot, sem brætt var til að
hafa út á fisk, tekið af hnoðuðum mör. Hitt var kallað tólkarflot,
sem var tekið af tólkarskildi, sem búið var að bræða.
p10
Við vitum það að vestfirskan er
eða var hart mál og þar eru líka harðir karlar. Það á víst að skrifa
tólg en ekki tólk. En ég skrifa það af þrjósku eins og ég heyrði
það borðið fram. Hér kallaðist sá hluti mörsins, sem ekki bráðnaði
alveg upp hamsar og sumum þótti gott að hafa þá brædda út á fisk. Hvort
hér áður fyrr, þegar söl voru notuð, voru hamsar hafðir með þeim, það veit
ég ekki. Ég þekki ekki aðra aðferð við kæfutilbúning en það,
að kjötið var hakkað í hakkavél. Kæfa var hér notuð til heimilisþarfa,
en áður, þegar menn fóru til sjóróðra, þá höfðu þeir þó nokkuð í verið
af kæfu. Það var vegna þess að þeir gátu ekki haft kjöt með sér svo
neinu næmi. Það var visst sem þeim var ætlað af smjöri, útvigt var
það kallað, og sömuleiðis af kæfu. En hvað það var mikið, það veit
ég ekki. Venjulegast var skinn haft utan um kæfuna. Orðið smálkamatur
er mér ókunnugt. Kjötverkun: Um vindþurrkað kjöt kann
ég ekkert um að segja. Ég þekki ekki til þess að kjöt væri reykt
af sjálfdauðu fé. Ef skepnan var veik, og hægt var að lífláta hana
áður en hún varð sjálfdauð, þá var álitið allt í lagi, fyrst blóðið fór
úr æðunum, en ef komið var að dauðri kind, en þó ekki orðin köld,
p11
þá var gott að hluta skrokkinn
í sundur þegar búið var að ná af honum gærunni og taka innan úr honum og
láta kjötið ofan í vatn, sem salt var látið í (saltpækill) og láta kjötið
vera í pæklinum í sólarhring. Þá náðist blóðið ágætlega úr kjötinu
og var alveg ágætt og enginn viðbjóður að eta það. Hvað kjöt var
látið liggja lengi í salti fór eftir því hvað mönnum fannst heppilegt,
2 sólarhringa held ég, að margir hafi haft það. Það var venja
að láta smalann fá bringu og hún var venjulegast reykt, og það var víst
alltaf kölluð smalabringa. Það þótti sjálfsagt að setja helst í kæfu
kjöt af rýrasta fénu, ef búin var til kæfa og auðvitað var það líka saltað.
En að reykja af því holdugra. Þannig var það nú hjá þeim gömlu.
Ég kannast ekki við þá trú að hrútsfall ætti að hengja upp öfugt
osfrv. Svið: Hér var það vani að klippa hausana, en
þeir voru aldrei rakaðir eða fætur. Betra er broddsviðið en brennt,
kannast ég ekkert við. Ég kannast ekki við að svið væru ýlduð í fjósi.
Þegar verið var að svíða sviðin, þá fékk fólk svið
p12
venjulega, svo voru þau súrsuð,
svo var það nú sviðamessan í byrjun nóvember. Eftir að ég
fer að muna eftir, þá kom það hvergi fyrir að heili væri matbúinn. Það
var eitt af hjátrúnni, að ef maður át eyru af kind, þá yrði það til þess,
að hann yrði sauðaþjófur, svo ekki var það efnilegt. Ég kannast ekki við
það sem sagt var við hund, ef honum var gefið eyrað. Það má mikið vera,
ef fótafeiti var ekki notað sem áburður, en man það samt ekki.
Þungaðar konur máttu alls ekki eta gómfillu, því þá var álitið að barnið
yrði holgóma. Gærur og skinn: Ég vandist því að gærur væru
rakaðar á öðrum eða þriðja degi eftir slátrun. Ekki kannast ég við
að gæra væri látin bíða svo ullin losnaði af án raksturs. Ytra og
innra borð gærunnar heyrði ég kallað hárhamur og holdrosa. Mér er
það ekki kunnugt að blóði hafi verið rjóðrað um holdrosu gæru. Ég
held ég muni það rétt, að þegar verið var að raka gærur, að þá var alltaf
hafður strigapoki undir á hné og læri þess sem rakaði. Ég man ekki
eftir að ég heyrði neitt nafn á rakaðri gæru annað en rakaða gæran. Það
sem helst var búið til úr gæruskinninu voru skór, og þá oftast kallaðir
sauðskinnsskór. Þegar skinnin voru orðin hörð, þá var eitt eða fleiri
elt og höfð í þvengi og skóbryddingar,
p13
og svo voru þau höfð í sjóklæði
og alltaf var kálfskinn haft í rassinn á buxum og brók. Það entist
betur og var öruggara að það sagaði ekki eins í gegn. Það þótti vont að
vera rassvotur. Orðið gæruvaka kannast ég ekki við, en auðvitað
bendir nafnið á það, að karlagreyin hafa vakað við að raka gærurnar. Óþarfa
skæklar voru hafðir í skóbætur, ef hægt var. Ég veit til þess að
skinnin voru blásteinslituð og sá það gert áður fyrr. Skinnin voru
stundum spýtt, en ég vandist við að sjá þau látin á rár, og ef fæturnir
voru þá fastir við þau,þá var fótunum brugðið saman og rá látin þar á milli
langs, og það var að sjá að þetta færi bara vel. Það þurfti að passa,
að þau skinn, sem fóru í skálmar þornuðu vel slétt. Það mátti ekki
koma pulkur á skálmarskinn, sem komið gat fyrir, ef vandvirkni var ekki
nóg. Ég sá skinn alltaf elt milli handa, en öðruvísi sá ég aldrei
elt skinn, en heyrði þess getið. Sá aldrei skinngrind. Fariskinn
var kallað af sjálfdauðu og aflóga skinnklæði. Þetta var reynt að
nota eins og svo margt í fyrri tíð, en þótti mjög lélegt. Það sem
kallað var fariskinn, var hér venjulegast kallað fariroð.
Horn, bein ofl: Ef ekkert ómálga barn var á bænum, þá var víst sama
hvernig um málbeinið var hirt. Það sem spurt er um hjátrú um smjörvölu,
þar get ég engu svarað.
p14
Sauðarvölur voru oft hafðar til
að vinda á þær band. Ég sá það gert, og svo var það barnaleikur að
spyrja völuna um eitt og annað, hef ég heyrt. Kindaleggir voru oft
hafðir til að vinda þráð á þá og í hnappheldur. Annað veit ég ekki
um not þeirra. Hagldir voru oft áður búnar til úr hornum. Börn
notuðu leggi og kjálka að leikfangi. Stórgripakjálkar voru höfð fyrir kýr
eða hest, en kindakjálkar fyrir kindur. Annars var ég vanur meira
við skeljar að leikfangi og svo voru það hornin, sem voru vel þegin sem
leikfang. En verst ef einhver hundurinn tók upp á því að taka horn
og naga það, og auðvitað var þá sagt að tófan hefði bitið kindina. Þarna
er minnst á fékvörn. Hana hef ég einu sinni séð inni í kind. Það
var að sjá, að hún væri bara laus. Hún var ekki stærri en það, að
hún hefði vel getað verið í teskeið. Hún var frekar flöt, en þó kúpt,
en ekkert var neitt hirt um hana. En mér var sagt að þetta væri fékvörn.
Um fénál veit ég alls ekkert. Nautgripir: Áður
en byssur komu til sögunnar voru svæfingarjárnin alltaf notuð. Ég
hef aldrei heyrt nokkurn tíma talað um að nautgripir væru reyrðir í bönd
á blóðvelli. Það bendir til þess að það hafi átt að skera skepnuna.
Skepnan var
p15
leidd í múl á blóðvöllinn sína
síðustu för. Venjulegast var einhver laginn og öruggur maður fenginn
til að svæfa. En eftir að ég fer að stálpast var það byssan sem var
notuð. Ég hef her framar lýst svæfingarjárni. Það var alltaf
hér kallað að svæfa skepnuna, ef svæfingarjárnið var notað. Ég hef
þarna framar lýst þessu lítillega. Fláning: Ég veit
ekki annað en rist væri alveg eins fyrir á nautum eins og á kindum. Ég
veit ekki hvort nautspungur var notaður í skæðaskinn eða sem peningapungur.
Það var alltaf vani að flá að lagklaufum á nautgripum og hestum ofan
að hófum. Þetta voru kallaðir hemingar og hafðir í skó og spýttir
þegar þeir voru þurrkaðir. Hvort ólasilar hafa verið ristir eða reipi
úr hálsleðrinu fremst það er mjög líklegt, þó ég viti það ekki.
Hvað haft hefur verið undir síðu nautgripa meðan á fláningu stóð,
veit ég ekki, en eitthvað hefur það þurft að vera. Það þurfti enginn
að ætla sér að flá stórgrip með berum höndum til lengdar. Það er
meiri seigla en á kind. Það voru alltaf hafðir hnífar, liprir og
léttir, oftast vasahnífar, en svo var líka sleggja notuð eins og hægt var.
Húðinni haldið frá síðunni eftir að búið var að flá dálítið og þetta
gekk mikið fljótar en með hnífi. Ekki vissi ég til að skurðarhnífur
væri notaður við fláningu. Þeir þóttu svo stórir og óþjálir. Vasahnífar
voru ágætir.
p16
Um hjátrú því viðkomandi, að ekki
mætti fara frá hálfflegnum nautgrip á blóðvelli nema að hníf væri stungið
í hann, það hef ég aldrei heyrt. Þeir voru hugmyndaríkir hér áður.
Kýrjúgur voru matreidd þannig, að þau voru skorin fyrir suðuna
í hæfilega stór stykki og súrsuð svo, og svo sneidd í hæfilegar sneiðar
þegar farið var að borða þetta, og þótti mörgum gott. Bein,
húðir ofl. Þegar hungur og hörmungar voru að drepa þjóðina, þá var
sagt að skóbætur hefðu stundum verið steiktar, og þá getur vel verið að
nautshúðir hafi verið hafðar til að sefa hungrið. Húðir voru rakaðar
á sama hátt og gærur, og heyrt hef ég að hárið hafi verið haft í hnakka
og söðla, sem stopp. Álitið betra en ull, það þófnaði ekki sem ullin
átti til með að gera. Heyrt hef ég sagt að nautssinin þætti góð að
hafa hana í reipissila. Hún entist svo vel. Blaðran var stundum
hirt. Hún var látin þorna og síðan elt vel og brydduð að ofan, og
í þessu geymdu konur band ofl. Höfuðleður af stórgrip var haft í
skó.
p17
Milta var notað til að spá fyrir
vetri, hef ég heyrt, en í hverju sá vísdómur var fólginn er mér fávísum,
óráðin leyndardómur. Kálfar: Ég heyrði aldrei, svo
ég muni til, að fóstur í kálffullri kú, sem slegin var af væri kallað neinu
sérstöku nafni, og aldrei heyrði ég talað um að hann væri hafður til matar
eða einu sinni að skinnið væri notað, þó það geti svo sem verið. Ég
held að það hafi verið venjulegast að ala kálfinn dálítinn tíma, þó ætti
að drepa hann, en ekki setja á. Ef kálfur baulaði við blóðtrog, hugsa
ég hafi verið venja að hætta við slátrunina. Það var alltaf hér siður,
að búa til blóðgraut úr kálfsblóðinu. Ég held að hér allstaðar hafi
kálfarnir verið flegnir samdægurs og þeir voru líflátnir. Að þeir
fitnuðu í skinninu, ef bið yrði að þeir væru flegnir, það hef ég ekki heyrt.
Kálfsvinstur var notuð við skyrgerð. Ég vandist því að kálfslifur
væri alltaf steikt. Mér er óhætt að fullyrða að kálfsskrokkur var
aldrei reyktur. Hross: Að ganga sér til húðar og húðarklár,
er hugtak sem ég get ekki útskýrt, þó það sé notað hér. Orðið að
slá af skepnuna og sömuleiðis afsláttarhross heyrði ég aldrei sagt hér.
Hvenær fyrst var farið almennt að
p18
nota hrossakjöt veit ég ekki, en
hér var það áður en ég man eftir. En alltaf held ég að gamla fólkið
hafi haft einhvern viðbjóð á því. Um verkun á hrossakjöti kann ég
ekkert að segja annað en það var reykt og saltað. Þegar lítið var
um salt eins og um margt fleira á fyrri tíð, þá var nú víst fulllítið saltað
og kjötið því ekki alltaf verið sem best verkað. Um gangverð á afsláttarhrossum
veit ég ekkert. Hross voru alltaf skotin eftir að ég fór að stálpast.
Hér var hrossablóð aldrei hirt í blóðmör. Um fláningu hrossa er það
sama að segja og um nautgripi. Það var alltaf kallað "að birkja",
bæði hross og nautgripi, bæði að flá húðina og allt annað, sem því tilheyrði.
Um hrossabræðing er mér ókunnugt. Ég kannast ekki við að hafa
heyrt getið um að hrossakjöt væri haft til lækninga. Skollablesa
er nafn sem ég kannast ekkert við. Ég hef sagt hér framar að það
var vani að nota höfuðleðrið af stórgripum í skó, og skæklana í bætur.
Heyrt hefur maður að börn notuðu hrossleggi til að renna sér á í
staðinn fyrir skauta, en ég þekki það ekki. Hér voru hrosshófar aldrei
notaðir til smíða. Frá öðru get ég ekki sagt um slátrun hrossa, og
er þetta allt verra en ég vildi að væri.