Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1914

Nánari upplýsingar

Númer6775/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið24.1.1985
Nr. 6775

p1
Heimildarmaður: Árni Helgason FD: 14 03 1914 Svörin miðast við Eskifj. S-Múl.

A. Skírn fór venjulega fram í heimahúsum. Einstaka sinnum í kirkju. Skírt í skírnarkjól. Ekki veit ég hvenær það byrjar en amma mundi þetta í sínu ungdæmi. Guðfeður voru vanalega vinir fjölskyldunnar. Ég man ekki eftir mörgum skírnarveislum en oft voru engar. Ef þær voru var fólkinu gefið kaffi og börnum kakó og kökur með. Ég man ekki eftir skírnargjöfum en viðstaddir þær skírnir sem ég man eftir voru ættingjar og vinir. Ég man ekki eftir því að börn voru ekki skírð. Það dróst stundum og þá var nafngift.

Það var ekki mikið um að haldið væru upp á afmæli og þó þegar börn voru 5 - 10 ára stundum á hverju ári og þá fengu börn að fara í bestu fötin og heimilisfólki gefið súkkulaði. Stundum bara kaffi og mjólk en þá voru líka bakaðar pönnukökur og jólakaka með rúsínum. Ég man ekki eftir að neinum utanaðkomandi væri boðið. Stundum komu krakkar úr næstu húsum og þá var farið í leiki. Gjöfum man ég ekki eftir en afmæliskorti og þá man ég eftir þegar ég var 10 ára þá fékk ég bók. Það var sáralítið haldið upp á afmæli fullorðinna. Ég held ég muni eftir einu 50 ára afmæli og þá var vinum og vandamönnum boðið í kaffi. Ég man eftir að afmælisbarnið fékk bók í afmælisgjöf. Þetta var í heimahúsi og skemmt sér við söng og spil.

p2
Ferming var undirbúin þannig að presturinn hafði eftir messu frá í febr. yfirheyrslur barna í kirkjunni og ég held að spurningar hafi verið í 6-8 skipti. Einnig kom hann í skólann og tók börn tali. Ég var fermdur í matrosafötum og fleiri en tveir í jakkafötum og svo var það stelpur í hvítum kjólum. Já, sérstaklega veisla á eftir og gjafir. Ég fékk 2 skyrtur og 6 kort og 10 kr. í peningum en þau 60-100 skeyti, marga í heimsókn og fleiri gjafir. En fermingin sjálf lík. Tekið til altaris hjá mínum börnum eftir viku en 1/2 mán. hjá mér. Ég man ekki eftir neinum á Eskifirði sem ekki lét ferma sig. Þó gat það dregist um ár og var þá beðið eftir næsta systkini og þá tvö fermd í einu. Þá var skóla lokið hjá flestum og vinna tók við yfirleitt fóru þá piltar í skipsrúm eða til sjós, telpur voru í fiskvinnu eða fóru í vist. Þá var algengt að stúlkur fór í vist til Reykjavíkur. Ég held að kaup hafi hækkað í alm. vinnu við 16 ár.

Ekkert svoleiðis. Skólaslit höfðu engin áhrif á heimilishagi nema til vinnu.

Yfirleitt opinberuðu menn trúlofun sína með því að setja upp hringana. Ég man eftir því að talað var um að nú voru þau búin að setja upp hringana. Vanalega voru þeir úr gulli. Annað var ekki til siðs. Ekki man ég eftir að trúlofanir færu fram við sérstök tækifæri. Stillt var til að hafa þetta í vikulok. Ekki man ég nema eftir 2 trúlofunargildum en þau voru innan fjölskyldna og til kynna.

p3
Við hjónin settum upp hringana út á víðavangi í ferðalagi um landið en þau á heimili maka sinna. Engin hátíð haldin. Líkl. var aðdragandi lengri áður amk. var sú raun hjá mér og þeim sem ég deildi við í æsku. Heyrði aldrei á það minnst. Þetta fór eftir atvikum. Ef gifting fór ekki fram mjög stuttu eftir trúlofun gat það dregist og ég man eftir að það gat dregist æfilangt. Sumir sögðu að þeir hefðu ekki haft efni á að gifta sig þ.e. kaupa bréf, fá prest osfrv. Ég man aðeins eftir 1 lýsingu hjá presti í stól.

Á Eskifirði var oftast gift hjá sýslumanni. Var þá farið á kontórinn. Nokkuð margir giftu sig heima og fengu prest. Ég man ekki eftir nema 1 kirkjubrúðkaupi og þá var barnaskóli fenginn til að halda veisluna í. Annari man ég eftir sem fór fram að Hólum í Reyðarfirði en þar bjó þá presturinn sr. Stefán Björnsson. Hann gifti þá þar dóttur konu sinnar og var þetta mikið og veglegt brúðkaup og stóð meira en 1 dag. Yfirleitt var nánasta skyldfólki boðið í kaffi og súkkulaði og þá bakaðar kökur. Ekki varð ég var við að rjómi væri mikill á borðum. Ættingjar og vinir gáfu gjafir eða slógu sér saman um nytsaman hlut í búið. Giftingar fóru fram um helgar. Við giftum okkur í kirkju og eins báðir drengirnir mínir sem giftir eru. Sá munur var á að ég bauð hóp vina í mat á hóteli en þau buðu venslafólki og vandamönnum í boð heima.

p4
Óþarfa dráttur. Ef fólk gekk ekki fljótt í hjónabandið vildi það dragast. Ég man eftir að skattalög höfðu viss áhrif á þetta. Ég man líka að gifting fór fram við skírn fyrsta barns osfrv. Annars voru allir hættir á þessu. Já. Gerði sér dagamun. Ég man ekki eftir nema 1 gullbrúðkaupi og þá söfnuðust margir saman og var matur og mikil gleði, ræður fluttar og allt hátíðlegt. Tjald reist á víðavangi til að matast í, bekkir og langborð og um 5-10 stúlkur gengu um beina.

Lík voru látin vera í köldum herbergjum á líkfjölum sem kallað var þar til kistulagning fór fram. Talið var rétt að láta lík standa uppi um viku ekki minna en oft lengur. Fór það eftir aðstæðum. Ljós var látið loga yfir líki dag og nótt en ekki var vakað yfir líki. Líkklæði voru látin um það strax, signt yfir og sálmabók látin á brjóst meðan stóð uppi. Kistulagning var þannig að nokkrir úr fjölskyldunni gengu frá kistunni. Annað hvort náinn ættingi sem las bæn og ritningarorð eða prestur var fenginn væri hann nálægur. Allir signdu yfir líkið. Blæja breidd yfir andlit, sunginn sálmur og kistunni lokað. Húskveðjur voru yfirleitt og ef svo var ekki heyrði það til undantekninga. Þótti sjálfsagt að hinn framliðni kveddi hús sitt. Voru þá bænir, söngur og stutt athöfn. Síðan kistan borin í kirkju. Líkkistan var yfirleitt borin í kirkju nema langt væri þá var hestur og kerra. Síðan kom bílaöldin og breytti þessu. Nú eru húskveðjur því næst aflagðar og athöfn fer beint fram í kirkju og garði. Ræður voru alltaf fluttar yfir hinum látnu í kirkju. Þá var oft að einhver annar en prestur sagði nokkur orð við gröfina. Menn fóru í sparifötin. Flest voru þau þá dökk en ekki öll. Það þótti sjálfsagt að allir fylgdu til grafar sem höfðu haft kynni af þeim látna gætu þeir komið því við en nánustu ætíð. Já oftast á heimili hins látna eða ef þar voru ekki húsakynni nóg þá var leitað til nágranna sem hafði rýmra húsnæði og stóð ekki á því. Þar var alltaf kaffi og brauð og kökur. Ekki man ég eftir að sungið væri í erfisdrykkju. Nei það var alls ekki. Ég man ekki til að erfisdrykkja félli niður nema barn fæddist andvana. Já, marmari og steinn en sumir létu nægja krossa úr tré eða blóm. Legsteinar voru dýrir. Grafhýsi sá ég aldrei. Blóm og tré voru á leiðum löngu fyrir mitt minni. Kistur voru yfirleitt svartar og kransar á úr sortulyngi ofl. Leiði voru hlaðin upp. Ég man ekki í æsku eftir ljósum á leiðum. Á sumrin var hlúð að leiðinu, látin blóm á.

B. 1. Ég var orðinn um 20 ára þegar ég fór fyrst á þorrablót út að Litlu Breiðuvík, Helgastaðahreppi. Þar var allskonar þorramatur og komu menn með aðföng hver frá sínum

p5
bæ. Kaffi og mjólk og súkkulaði. Sungið, kveðnar rímur, sagðar sögur og síðan dansað. Harmónikkuleikari var alltaf til staðar. Þetta var í febr. og farið heim um fótaferðartíma þá sá enginn eftir 2 tíma göngutúr. 2. Já við höfðum á Eskifirði heima alltaf sólarkaffi þegar sól sást fyrst eftir áramót. Þetta hafði hver fjölskylda fyrir sig. 3. Á bolludag var haldið þannig. Við kölluðum hann flengingardag. Daginn áður voru búnir til vendir úr pappírsræmum og var spýta og á hana fest ræmurnar. Með þetta var gengið í hús snemma og reynt að koma að sem flestum í rúmi og hýða þá og urðu þeir sem hýðingu fengu að greiða með bollum. Var þetta mikil skemmtun. Við skólabörnin gerðum þetta áður en við fórum í skólann. Um sprengidag var lítil viðhöfn. Aðeins borðað saltket og baunir. Á öskudag var mikil spenna að koma öskupokum hver á annan og eins verjast því að bera poka. Pokar voru allavega litir festir í fólk með títuprjónum. Þetta var mikil skemmtun og á eftir bjuggust börn búningum og héldu grímuball í skólanum. Var það toppur öskudags. Bollur bakaði mamma en svo fengust þær í bakaríinu. Voru úr sérstöku deigi. Stúlkur flengdu stráka og öfugt og ösku báru herrar en dömur steina. Fólk brást misjafnlega við öskuburði sumir mjög vondir. 4. Man eftir grímubúningum, ekki skipulögðum göngum. Kattarslagur þekktist ekki.

p6
5. Já. Á allskonar hátt. Meira að segja kallaðir í síma og upp voru fundin allskonar brögð sem erfitt var að varast. Ég man eftir að eitt sinn var nærri slysi þegar maður var kallaður um borð í bát þar sem landgangur var borinn lýsi. Menn urðu margir heiftvondir og það þótti mjög gaman. 6. Man ekki eftir neinu sérstöku varðandi páska nema þá var ekki ????? nema ???????? af fiski (páskahrotan). Að öðru leyti eins og venjul. hátíðisdagur. Betra var þá að borða. 7. Þau þekktust ekki í mínu ungdæmi. Ég varð ekki var við þau fyrir austan og ekki fyr en ég kom í Stykkishólm eftir 1942. 8. Sumardagurinn 1. var dagur barnanna og þá hafði barnaskólinn hátíð, leikþætti, upplestra og allskonar sýningar. Íþróttasýningu (gymnastik). Í góðu veðri var gengið með fána um bæinn. Oft tóku fullorðnir þátt í þessu ef ekki var farið á sjó. Þá var mikið sungið. Við æfðum 3. raddaðan kór í barnaskólanum og kom fyrir að við sungum á eftir á fullorðinna skemmtun. Ég man aldrei eftir sumargjöfum. 9. Verkalýðsfélögin stóðu þá að kröfugöngu undir rauðum fánum og söng. Þótti okkur þetta tilbreyting og höfðum gaman af. Stundum héldu verkalýðsfélögin samkomur með ýmsu efni. Fyrsta ganga sem ég man eftir var um 1924.

p7
Kröfugöngur voru ekki teknar alvarlega af þeim sem utan við voru. Brosað eða svoleiðis. Margt sér til gamans gert. 10. Ég man ekki eftir neinum tilbreytingum á lokadag nema bátum var lagt í bili. Menn skiptu þá um skiprúm og ??? hugðu að mála og þrífa bátana til sumarveiða. 11. Nei. 12. Á hvítasunnu voru fermingar barna með öllu því tilstandi. 13. Líklega 1934-1935. Með líku sniði og enn í dag. 14. Já. Ég man eftir að frá 1920 en þá man ég lengst til var haldið upp á 17. júní með ræðu og söng og skrúðgöngur um bæinn. Til er mynd af slíkri göngu líkl. 1922 og er sú mynd birt í Eskju. Útisamkomur voru þá alltaf fyrir innan bæ á fallegri grund innan við Bleiksá. Þar voru seldir gosdrykkir og kaffi í tjöldum og allskonar skemmtun. Lifandi manntafl íþróttir hlaup, fótbolti, söngur. Stóð þetta frá 1 - kvölds og dans á palli. Féll þetta ekki niður fram yfir 1930. 15. Nei, en þó man ég eftir að við tókum okkur til og gengum á fjöll einu sinni eða tvisvar. 16. Ég man bara einu sinni eftir að verslunarmenn fóru í ferðalag. Annað ekki nema búðum var lokað þennan dag og frá ??? við það. 17. Ekki minnist ég þess.

p8
18. 1.des var notaður til minninga. Ræðumaður fenginn og flutt ýms minni, sungið og spilað. Dans á eftir fram eftir nóttu. Var mikið lagt upp úr góðri fullveldisræðu. Frídagur. Þetta var með helgustu dögum æsku minnar. Vanalega stóð kvenfélagið fyrir þessu. Einnig ???sveitin en ekki ??? 19. Jólin voru mjög einföld heima. Ekki úr miklu að spila. Þá var alltaf bestur matur og reynt að hafa allt sem hátíðlegast. Jólatré og mislit kerti man ég fyrst. Í kjallaranum var gömul eldavél þar var hitað vatn til að baða heimilisfólkið. Stóru steinolíufati var skipt í tvennt og upp úr báðum helmingum baðaði fólkið sig og mamma okkur. Þar var skipt um föt. Enginn matur var í hádegi til að lystin væri betri um kvöldið. Borðað var kl. 6. Jólatréð tendrað 7 1/2 um kvöldið og einn maður passaði að ekki kviknaði í. Allir dönsuðu í kringum og sungu sálma og jólakvæði og vikivaka. Kl. 9 var messað í kirkjum og þangað var farið kl. 10 var komið heim og kakó og kökur og síðan farið að hátta. Allir þreyttir og ánægðir. Gjafir voru ekki margbrotnar. Amma fylgdist með að enginn færi í jólaköttinn. 20. Nokkru fyrir jól var farið að baka til jóla og útvega efni til jóla - föt - sælgæti og þessháttar. 21. Nei aldrei. 22. Leikföng sérstaklega smíðuðu heimilis??? báta og máluðu þá. Vasaljósum man ég eftir. Bílum, jafnvel ??? sem gátu rúllað um gólfið. Þar var sérstakl. fallegir vasa og hálsklútar.

p9
Gjafir voru afhentar á aðfangadag. Fatnaður fyrir mat ??? ofl. Sælgæti hékk á jólatré. Kerti fengum við. Þó man ég eftir bók sem ég fékk ein jól Bláskjár. 23. Já en ekki mikið innan bæjar nema skólanum. Þá þótti rétt að senda kennara sínum kort. Frá fjarstöddum ættingjum fengum við kort og þau glöddu mann. Flestir fengu kort með engli og jesubarninu Maríu mey ofl. skrautlegt. Fjölskyldan ??? í sameiningu. Útvarp var ekki til. 24. Jólaskraut var tilbúið heima. Litapappír var þá til í búðum, körfur og englahár ofl. Jólatré man ég frá því ég var 4 ára. Grenitré fékk ég ekki fyrr en ég fór sjálfur að búa. Frændi minn smíðaði tré og greinar og málaði fallega. Allir hjálpuðust að gera jólatréð fallegt. 25. Svið eða hangiket, þykkur grautur, hrísgrjón og rúsínur. Margar smákökur og randalín. Með matnum var mjólk. 26. Spila, tefla, fara í leiki. Kvenfélagið hélt jólatrésskemmtun. Þar voru gefin epli og gráfíkjur og rúsínur, brjóstsykur. Jólasveinn var þar en aldrei heima. Jólasveinn gaf börnum epli úr pokanum sínum á ballinu. Allskonar kvæði voru sungin. Alltaf Nú er glatt í hverjum hól, Máninn hátt á himni skín og sálma. Gekk ég yfir sjó og land og fleiri þulur, Grýla reið fyrir ofan garð. 27. Spilaði og tefldi, fór í göngu um bæinn og stundum á ball 2. jóladag. Annars var fullorðið fólk oftast mest fegið að hvíla sig. Skemmtanir voru á 2. jólum en þó ekki alltaf. Stundum á milli jóla og nýárs. Kvikmyndasýningar voru um jólin og oftast um helgar. 1922 sá ég t.d.

p10
Borgarættina. Litli og stóri voru uppáhald okkar barnanna. Kvikmyndavélin var ekki upp á marga fiska og varð maður að skrúfa henni með sveif allt kvöldið. Undir var spilað á píanó. Myndirnar voru þöluglar og þóttu sérstök skemmtun. Enn í dag sé ég fyrir mér gömlu góðu leikarana og gæti nefnt marga. 28. Áramótabrennur og blys voru alltaf. Þá var skotið upp púðurskotum því flugelda sá ég aldrei í æsku. Álfabrennur heyrði ég talað um en sá ekki. Ég man eftir að menn komu sér upp álfabúningum og dönsuðu við brennurnar. Fyrst man ég eftir áramótadansleik 1929 ???sveitin. 29. Ég man ekki eftir að þrettánda fylgdu nokkrar skemmtanir. C. 1. Leikfimissalur skólans var skemmtistaður fólksins. Þar var stór salur með leiksviði og trébekkjum. Komust fyrir þar 3-400 manns. Leikrit voru sýnd í pakkhúsum sem tjölduð voru innan segldúk. Frumstætt en gekk. Góðir leikarar. Kvikmyndasýningar voru á vegum kaupmanns í vörugeymslu hans sem breytt var á svipstundu með hækkuðum bekkjum og tilh. Í skólanum og Fríkirkjunni voru söngskemmtanir. Tombólur voru annað slagið en fáum bögglauppboðum man ég eftir en þau voru yfirleitt á vegum félaga. Skemmtanir voru alltaf á kvöldin sérstaklega laugardags og sunnudags. Haldnar fyrir góð málefni.

p11
2. Á símastaura og ljósastaura voru settar upp auglýsingar. Stundum var gengið með boð í húsin. Yfirleitt var þetta ætlað bæjarbúum en þá látið vita út í sveit. Man eftir að fólk kom að ca. 3-8 km en ekki nema í góðu veðri. 3. Oftast voru paraböll. Herrar buðu dömum sóttu þær og fylgdu heim. Oft mynduðust þá varanleg kynni. Dansaðir voru gömlu dansarnir. Þá voru að byrja tango og Charleton. Menn lærðu að dansa hver af öðrum. Ég man eftir að leikfimiskennarar barnaskólans þjálfuðu unglinga í sporunum. Herrar buðu dömum upp nema þegar dömufrí var. Marsar voru afar vinsælir og sérstakir menn fengnir til að leiða þá og voru sumir snillingar í því. Vangadans sá ég aldrei. Fólkið var dömur í allskonar litum og saumuðum kjólum. Karlmenn í jakkafötum. Hælaháir skór sáust ekki. Karlmenn voru í dönskum skóm en támjóir skór voru ekki komnir þá. Hárgreiðslu man ég ekki en ég lærði þessa vísu. Ég fer í sparifötin mín/og fer svo ballið á/ber í hárið brilljantine/því betra er ekki að fá. Allir áttu greiður og notuðu óspart. Vel greiddur karl og fallegar fléttur voru umræðuefni í æsku minni. Það var á við jarðskjálfta þegar fyrsta stúlkan um 1925 -7 sást með pó???hár.

p12
5. Nei. Tvisvar, þrisvar á ári í æsku minni en leiksýningar fleiri. 4. Handalögmálum man ég eftir á dansleikjum kringum 1930 en það þóttu tíðindi. 6. Nei, ég vissi til að læknabrennivín var notað en þeir voru ekki ýkja margir og ég held að mikið fleiri hafi verið þá harðir bindindismenn og það réði ferðum. Þó munu einhverjir hafa orðið sér til skammar á dansleikjum og það var ekki í hávegum haft. 7. Já. Ég sá aldrei í æsku kvenmann neyta áfengis. 8. Harmonikkan var aðalhljóðfærið. Vanalega tveir sem skiptust á enda dansað til morguns. Oft var hlé og þá flutt erindi, lesið upp eða sagðar sögur. 9. Í heimahúsum eða geymslum verslana. Á sumrin var dansað á palli.

D. 1. Kvenfélag, verkamannafélag, íþróttafélag, leikfélag, sjómannafélag, bindindisfélag, undirstúka og barnastúka, taflfélag. Klúbbar voru engir í mínu ungdæmi. 2. Fundarhöld og áróðursfundir svo sem annarsstaðar. 3. Já, man eftir þessum blöðum: Gellir og Gangleri og Röðull. Veit það ekki líklega Röðull Arnfinnur Jónsson faðir Róberts leikara gaf það út.

E. 1. Messa skyldi annan hvern sunnudag í þjóðkirkjunni og eins var messað

p13
í Fríkirjunni. Í æsku minni var Guðmundur Ásbjarnarson Fríkirkjuprestur en Stefán Björnsson á Hólum Þjóðkirkjuprestur. 2. Kirkjusókn var ekki mikil nema við fermingar og á páskum og jólum. 3. Nei. 4. Nei. 5. Nei. 6. Ekkert af þessu var í ungdæmi mínu. Hjálpræðisherinn og aðventistar komu á heimaslóðir að selja blöð og bækur. Héldu þá samkomur í kirkjunni. Fórum við þá alltaf. 7. Ég man eftir Lárusi víðförla og Sigurði Sveinbjörnssyni og Klemens Guðmundsyni kvekara. 8. Þessu get ég ekki svarað.

F. 1. Þetta kemur fram í frásögn minni af jólum. Yfirleitt held ég að spariföt hafi verið lík um allt land.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana