56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf
Nr. 7410
p1
Heimildarmaður: Vigfús
Jónsson FD: 13 10 1903 Svörin miðast við Eyrarbakka, Árn.
Ef ég reyni að svara
spurningum ykkar á skrá 56 verður það mjög ófullkomið og að mörgu leyti
ekki byggt á eigin reynslu. Ég hef t.d. aldrei trúlofast, gifst eða átt
börn svo að um spurningar sem að því lúta verður svara fátt.
Skírn.
Í mínu ungdæmi voru flest börn skírð í kirkju. Það gerði Gísli Skúlason
prestur á Stórahrauni. Ég held að öll börn hafi verið í hvítum skírnarkjól,
aldrei með húfu eða neina kollu á höfðinu. Skírnarvottar voru jafnan tveir,
oftast skyldmenni, afi, frændi, sjaldan eða aldrei man ég eftir að kona
væri skírnarvottur. Oftast héldu mæður börnum sínum undir skírn, stundum
ljósmæður en aldrei feður eins og nú er orðið nokkuð um. Á tímabili dró
nokkuð úr að börn væru skírð í kirkju en nú virðist það aftur færast í
vöxt. Ekki held ég að óviðkomandi menn sem voru skírnarvottar hafi talið
sig hafa neinar sérstakar skyldur að rækja við börnin í uppvexti þeirra
eða á þeim hafi hvílt nokkur ábyrgð þess
p2
vegna. Oftast mun
hafa verið haldin einhver skírnarveisla og þá í heimahúsum fyrir nánustu
vandamenn og þá aðeins kaffi og meðlæti. Gjafir munu varla hafa tíðkast
á mínum unglingsárum þó að vel geti það hafa verið eitthvað.
Ég man ekki til að börn væru lengi óskírð og ekki eftir neinu barni
óskírðu t.d. á skólaaldri eða við fermingu. Það var jafnvel talið sjálfsagt
að skíra börn strax eftir fæðingu. Ég sjálfur var skírður tveimur dögum
eftir fæðingu af Ólafi Fríkirkjupresti í Reykjavík.
Ég
man ekki til að haldið væri uppá afmælisdaga barna meðan ég var krakki
né að afmælisgjafir væru gefnar. Það var svo ekki fyrr en stórafmæli svokölluð
komu til 50 - 60 - 75 og 80 ára að haldnar voru veislur og gefnar gjafir.
Þetta voru venjulega kaffiboð og gestir, starfsfélagar,
vandamenn. Sérstök skemmtiatriði voru ekki viðhöfð.
Ég
var fermdur í Eyrarbakkakirkju af sr. Gísla Skúlasyni sóknarpresti. Fermingarundirbúningur
var venjulegar spurningar sem fóru fram í kirkjunni. Fatnaðurinn, ég var
í jakkafötum dökkum og stuttum buxum með öklaháa stígvélaskó í svörtum
íslenskum sokkum, hvítri skyrtu með stífuðum flibba. Fermingarkirtlar tíðkuðust
þá ekki.
p3
Einhver kaffiveisla
mun hafa verið haldin fyrir skyldmenni og nánustu vini. Í fermingargjöf
fékk ég vasaúr frá foreldrum mínum sem voru búsett í Reykjavík og einhverjar
peningagjafir frá fósturforeldrum og frændfólki. Fermingarskeyti þekktust
þá ekki. Ég held að undantekningarlaust hafi öll börn
á Eyrarbakka verið fermd og sé svo enn. Ég veit ekki um neitt slíkt tilfelli.
Breytingar við fermingu urðu víst yfirleitt ekki miklar,
börn voru farin að vinna eftir getu löngu fyrr, t.d. þar sem um einhvern
búskap var að ræða við skepnuhirðingu, heyskap, kálgarða, smalamennsku
oþh. Það var m.a. minn vettvangur. Drengir fóru snemma að búta lóðir í
sérstökum niðurgröfnum beitukofum. Það var mikil og erfið vinna. Þeir urðu
að bera laupana, stundum um hálar þangklappirnar langa leið þegar skipin
gátu ekki lent á eðlilegum stað fyrir fjöru en oft var tví eða þrí róið
á dag. Þetta voru drengir innan við fermingu látnir gera. Drengir á mínum
aldri lentu nú ekki í þessu, því var að mestu lokið um og eftir aldamót.
Um launaða vinnu fyrir krakka var varla að ræða en
þroskamestu strákarnir fór að róa strax eftir fermingu ýmist heima eða
í Þorlákshöfn.
p4
Stúlkur munu helst
hafa hafnað í heimilisstörfum eða kaupavinnu í sveit. Það var líka mikið
um það að fólk tók að sér að þurrka fisk á sumrum og þar sem börn eða unglingar
voru unnu þau vitanlega við það með fullorðna fólkinu sem í flestum tilfellum
voru þá mæðurnar, feðurnir voru yfirleitt í vinnu annarsstaðar við róðra
á austfjörðum, skútum eða vegavinnu. Kaupgreiðslur til eigin barna þekktust
vitanlega ekki og eins ef börn komust í launaða vinnu þá gekk það óskipt
til heimilisins. Engin breyting á venjulegum vinnufatnaði
átti sér stað um fermingarleytið nema hvað börn stækkuðu og oft voru þá
yngri börn látin taka við klæðnaði eldri barna og slíta þeim út.
Engin
tilbreyting í mat eða drykk mun hafa átt sér stað við árspróf eða lokapróf
í barnaskóla. Ég kynntist ekki neinum sem tók stúdentspróf eða frá öðrum
æðri skólum. Það kann að vera að einhver tilbreyting hafi verið við höfð
í þeim tilfellum.
Opinberun
trúlofunar mun í flestum tilfellum hafa farið fram án mikils tilstand og
ekki verið viðhöfð nein meiriháttar hátíðahöld. Trúlofunarhringir munu
hafa verið taldir sjálfsagðir og þá úr gulli.
p5
Það voru líka hæg
heimatökin þar sem hér voru 3 gullsmiðir. Oft mun hafa verið stílað upp
á sérstaka daga, jól, nýár oþh. Ég býst við að lengri
aðdragandi trúlofunar eða giftingar hafi verið áður en nú er algengast
enda entust hjónabönd lengur yfirleitt en nú virðist vera.
Víst kom það fyrir að fólk lét trúlofun nægja og bjó í óvígðri sambúð.
Ekki var það þó vel séð af presti, hann mun hafa lagt áherslu á að fólk
giftist ef það fór að búa ógift. Ég man ekki eftir
neinni lýsingu með hjónaefnum í kirkju, held áreiðanlega að það hafi verið
aflagt.
Oftast
var gift í kirkju og þá við sérstaka athöfn. Þó man ég eftir giftingu í
almennri messu. Borgaralegar giftingar voru ekki algengar en áttu sér þó
stað. Einhverjar veislur munu hafa verið í sambandi
við giftingar en mjög mun það hafa verið misjafnt eftir efnum og ástæðum
og þjóðfélagsstöðu viðkomandi. Gjafir munu líka hafa verið misjafnar eftir
efnum og ástæðum, mest gagnlegir hlutir til heimilisbrúks. Heillaóskaskeyti
voru ekki til komin. Giftingar fóru oftast fram á laugardögum fyrir jól,
nýár eða aðra tyllidaga.
p6
Ég man eftir gullbrúðkaupi
þegar ég var strákur en ekki var haldið upp á slíkt í minni fjölskyldu.
Fólk
var yfirleitt lagt til í heimahúsum þar til það var kistulagt sem var framkvæmt
svo fljótt sem hægt var. Þó varð jafnan að smíða kistuna eftir lát manna
en hér voru margir góðir smiðir. Það var oftast látin líða amk. vika frá
dánardegi til jarðarfarar. Ég man aldrei eftir að vakað væri yfir líki.
Við kistulagningu komu nánustu vandamenn saman. Það var fenginn sérstakur
maður, ekki prestur, til að lesa bæn og leiða sálmasöng, lengi vel var
þetta sami maðurinn sem annaðist þetta í þorpinu án endurgjalds. Kistan
var síðan látin standa í stofu hússins fram að jarðarför. Kistur voru yfirleitt
vandaðar, úr góðum viði og með því lagi sem tíðkast hefur fram til þessa
að kistur eru nú jafnbola og ljótar. Kistur voru í fyrsta minni mínu svartar
en það er langt síðan farið var að mála þær hvítar. Ég held að blóm hafi
oftast verið á kistum en kransar ekki fyrr en síðar, þó man ég eftir perlukrönsum
snemma við jarðarfarir heldra fólks. Húskveðjur voru
alltaf viðhafðar. Hana flutti prestur og kirkjukórinn söng. Eftir að fólk
tók að andast á
p7
sjúkrahúsum hafa
húskveðjur lagst af. Nú er líkið flutt strax í kirkjuna.
Líkræður voru alltaf fluttar í kirkju, aldrei við gröf. Stundum hafði
hinn látni óskað eftir að líkræða væri ekki flutt en prestur talaði þó
alltaf eitthvað auk þess sem hann gat um fæðingar og dánardag foreldra
og eftirlifandi vandamenn og flutti bænir og kveðjur. Það var ekki venja
að aðrir en prestur flyttu ræður í kirkju þó man ég eitt slíkt tilfelli
en aldrei í kirkjugarði. Fólk klæddist sínum sparifötum
við jarðarfarir hvort heldur þau voru dökk eða með öðrum lit. Þá voru peysuföt
algengastur klæðnaður kvenna. Konur sem báru danskan búning sem þá var
kallað hafa víst hillst til að vera í dökkum kjólum. Það var almenn þátttaka
við jarðarfarir af öðrum en vandamönnum, þó var það misjafnt eftir því
hvað hinn látni var kunnur maður eða áberandi í samfélaginu eða hvernig
andlátið bar að t.d. drukknun eða slysfarir þá var samúðin við hina eftirlifandi
almennari. Erfisdrykkjur voru að jafnaði. Kaffiveitingar,
oftast í samkomuhúsi þorpsins, aldrei haldnar ræður við þau tækifæri. Ef
ættingjar eða vinir komu langt að var auðvitað hafður matur handa þeim
og þá í heimahúsi ef hægt var.
p8
Það mun hafa verið
vandað til þess matar eftir föngum, kjöt, ávaxtagrautur, aldrei áfengi.
Ég man ekki neitt tilfelli þar sem kaffiveitingar fóru
ekki fram þó það geti svo sem verið. Ég held að söngfólki kirkjunnar hafi
alltaf verið boðið kaffi í heimahúsi þá ef ekki var almenn erfisdrykkja
enda var það eina greiðslan sem það fékk. Legsteinar
voru algengir en þó ekki almennir og stundum ekki settir upp fyrr en löngu
seinna. Grafhýsi voru engin. Þó man ég eina gröf sem var steypt. Það var
gröf verslunarstjórans við Eyrarbakkaverslun þar sem hjónin P. Nielsen
og Eugenia voru jörðuð. Grafskraut er ekkert á leiðum
hér annað en blóm. Reynt hefur verið að planta trjám á leiði en það hefur
ekki tekist fremur en annarsstaðar á Eb. Rafljós hefur tíðkast að setja
á leiði hér sem annarsstaðar í seinni tíð eða eftir lok síðara stríðs,
mér er sagt að það sér amerískur siður, um jól og nýár. Það mun hafa verið
forystufólk slysavarnarfélags Eb. sem byrjaði á þessum sið hér. Það er
kannski virðingarvottur saknaðar og trega og má þá ekki lasta og þykir
viðeigandi að tendra þessi ljós um jól og nýár. En heldur þykir mér það
fáfengilegt.
p9
Það er ekki langt
síðan þorrablót fóru að tíðkast hér. Ég man ekki ártal. Það var slysavarnarfélag
Eb. sem stóð fyrir þeim til að byrja með amk. Matur var hinn hefðbundni
þorramatur sem nú er kallaður. Svið, hangikjöt, súrmatur, harðfiskur osfrv.
aldrei neinir grautar, einstaka maður var með áfengi en það var ekki áberandi
fyrst framan af amk. Til skemmtunar var ekki neitt sérstakt en alltaf dansað
að loknu borðhaldi.
Sólarkaffi
hefur aldrei verið tíðkað hér enda ekkert sem skyggir á sól.
Bolludagur.
Krakkar fóru með vendi í hús nágranna og vina, börðu á sængina ef fólk
var ekki komið á fætur, annars einhversstaðar. Það þótti sjálfsagt að launa
með bollum úr bakaríinu þó að það færi ekki eftir fjölda högganna eins
og kannski hefur verið ætlast til. Vendir voru heimatilbúnir úr mislitum
bréfræmum á skafti. Þetta mun hafa verið tíðkað hjá kaupmannsfólkinu danska
og síðan tekið upp af fólki sem þóttist vera eitthvað meiri háttar en varð
ekki almennt meðal almúga. Aftur á móti var öskudagur
og siðir tengdir honum almennir meðal krakka. Öskupokar hjá stúlkum, steinapokar
hjá strákum. Fólk brást mjög misjafnlega
p10
við. Sumir urðu vondir
og reyndu að forðast pokana og auðvitað var mest gaman að koma pokum á
þá. Pokarnir voru með allri mögulegri gerð, mislitir, misstórir, sumir
sannarlegir skrautpokar, úr silki með ísaumaðri rós og þá sjaldnast með
ösku heldur sendir sem gjöf. Reyndar var sjaldnast látin aska eða steinn
í pokana, það var tilgangurinn að koma pokanum á fólk, helst af því óafvitandi
til að sjá hvernig það brigðist við. Ég man ekki eftir
neinu sérstöku á sprengidag nema tilbreytingu í mat. Helst baunir og kjöt.
"Baunir og bolaspað" var orðtak um sprengidag.
Engar göngur eða grímubúningar eða kattarslagur áttu sér stað hér
og hefur aldrei verið upp tekið.
Aprílgabb
eða hlaup voru oft reynd og með ýmsum hætti svo sem að segja að einhver
vildi vinna viðkomandi og þótti þá mest varið í ef um einhverja vegarlengd
var að ræða, t.d. milli húsa.
Páskar
voru vitanlega hátíðir og fólk hagaði sér samkvæmt því t.d. með kirkjugöngu,
tilbreytingu í mat oþh. Ég held að bænadagarnir t.d. föstudagurinn langi
hafi ekki verið haldinn jafn helgur og nú er almennt. Ég man að við rérum
oftast á föstudeginum sem nú er almennt
p11
ekki gert. Venjuleg
verkamannavinna var þó ekki framkvæmd nema í sambandi við fisk, aðgerð
eða útbúnað veiðarfæra oþh. Oft voru skemmtanir í sambandi við páska, þó
ekki á föstu eða páskadag. Ég man ekki eftir neinum sérstökum mat þessa
daga nema hvað tilbreytni var þá svipuð og á öðrum helgidögum t.d. steikt
kjöt, ávaxtagrautar oþh. Ég man ekki eftir páskaeggjum
fyrr en farið var að framleiða þau í Reykjavík og kaupmenn höfðu þau til
sölu. Ekkert átti sér stað hér í sambandi við skreytingu á hænueggjum.
Það hefur aldrei verið tekið upp.
Sumardagurinn
fyrsti var ekki frídagur almennt nema í barnaskólanum. Börnum voru gefnar
smágjafir, bók, leikfang, fatnaður. Tilbreytingar í mat voru ekki miklar
nema þá kaffi og kaffibrauð. Aftur á móti héldu formenn eða útgerðarmenn
hásetum sínum sumardagsveislur, kaffiveislur og þá oft með einhverju áfengi
eða þá að skipverjar notfærðu sér tilefnið til að taka sér ærlega í staupinu,
þó var alltaf róið þennan dag sem aðra.
Fyrsti
maí var aldrei neinn hátíðisdagur þegar ég var krakki eða unglingur. Það
var ekki fyr en seinna þegar verkalýðsfélagið fór að taka þann dag hátíðlega
og banna almenna vinnu. Stundum var efnt til fundar
p12
og (eða) skemmtunar
þann dag. Kröfugöngur hafa aldrei verið upp teknar hér. Þetta var nokkuð
árvisst á 4. ártatugnum en hefur nú alveg lagst af.
Lokadagur
var aldrei hátíðisdagur í eiginlegri merkingu. Skipshafnir fóru þá heim
úr verinu með skreið sína og færur, tóku sér kannski glaðan dag í áfengi
eftir því sem við varð komið. Sérstök skemmtun var ekki þann dag. Nú er
þetta breytt þannig að kvenfélag eða slysavarnafélag býður upp á kaffi
og skemmtun. Lokadagur er nú ekki endilega vertíðarlok eins og áður var.
Uppstigningadagur
var ekki talinn með meiriháttar hátíðisdögum þó einhverjar tilbreytingar
í mat hafi verið við hafðar.
Hvítasunna
hefur alltaf verið ein af stórhátíðum ársins, allstaðar frídagur frá vinnu.
Messudagur, aldrei dansskemmtanir en oft á annan, hátíðamatur. Ef gott
var veður fóru unglingar og börn oft í útileiki svo sem slagbolta, parís
eða þess háttar, íþróttaleikir eða hátíðir voru ekki hér, íþróttaiðkanir
lágu alveg niðri um vertíðir og því ekki tilefni til sýninga eða keppni
um hvítasunnu.
Sjómannadagur
hefur jafnan veri haldinn hátíðlegur síðan sá siður var upp tekinn annarsstaðar
t.d. í Reykjavík. Það er slysavarnafélagið og nú síðustu ár
p13
björgunarsveitin
sem staðið hefur fyrir tilbreytingu þann dag t.d. með æfingum með björgunartæki
og ýmsu til skemmtunar svo sem koddaslag yfir sjó þar sem sá sem tapar
fær ærlegt bað. Dansskemmtun er svo um kvöldið. Ekki
var haldið upp á 17. júní fyrir 1944. Síðan alltaf og alltaf frídagur.
Útihátið með ýmsum skemmtiatriðum. Ræður, fjallkonu upplestri, knattspyrnu,
hópreið hestamanna oþh. og svo dansleik. Þetta er jafnan opinber skemmtun
sem nefnd skipuð af hreppsnefnd sér um og kostuð af henni.
Ekkert
sérstakt á Jónsmessu.
Frídagur
verslunarmanna var aldrei neinn tyllidagur fyrr en nú síðan hann er orðinn
almennur frídagur með tilheyrandi útihátíðum og ferðalögum. Hér eru aldrei
neinar skemmtanir í sambandi við hann.
Ekkert
sérstakt fyrsta vetrardag.
Ég
man aldrei eftir neinni tilbreytingu 1. desember hér.
Aðventusiðir
voru ekki viðhafðir hér svo sem kransar, ljós eða gjafir í skóinn. Þetta
hefur eitthvað verið tekið upp hin síðustu ár en ekki almennt.
Jólaundirbúningur
var alltaf mikill. Hreingerning fór að sjálfsögðu fram fyrir jólin, fataþvottur
(og treyst á fátækra þurrkinn), alltaf einhver flík saumuð eða prjónuð
á hvern heimilismann svo að
p14
enginn færi í jólaköttinn.
Börnin fengu alltaf einhverjar gjafir. Ég man sérstaklega
eftir heimasmíðuðu jólatré, það var kærkomin gjöf. Enginn komst undan því
að vera þvegið um allan skrokkinn í bala í eldhúsinu.
Kökubakstur var alltaf fyrir jól og aðrar hátíðir, pönnukökur, formkökur,
smákökur. Hangikjöt var mest til matar á jólum ásamt öðru kjöti og ávaxtagrautum.
Nei það var ekki siður að börn settu skóinn sinn í
glugga. Jólagjafir voru auðvitað misjafnar eftir efnahag
foreldra eða vandamanna. Bækur, myndabækur fyrir þá yngstu, kertapakki
(snúin mislit kerti) spil, útlend leikföng voru fátíð í mínum uppvexti.
Jólasveinar komu aldrei með gjafir, þeir voru þá annarar náttúru en nú.
Jólakort voru send vinum eða vandamönnum, fjarstöddum,
ekki manna í milli í þorpinu að neinu ráði. Útvarp var ekki komið í minni
bernsku. Jólaskraut var ekkert sérstakt. Jólatré fékk
ég ungur eins og áður er sagt. Það var skreytt með heimagerðum pappírspokum
úr mislitum pappír og glerkúlum síðar. Grenitré hafa aldrei verið á mínu
heimili en útlend gerfitré síðar. Tréð var haft uppi fram á þrettánda.
Eldri fóstursystkini mín bjuggu til pokana og skreyttu tréð.
Venjulegur matur borðaður á aðfangadag
p15
eða Þorláksmessu,
aldrei skata. Kaffi drukkið með kökum (áður getið um þær).
Börn hittust til leikja eins og aðra daga, fór eftir veðri. Farið
á skauta, gerðir snjóhellar í skafla, rennt sér á sleðum. Spilað, nema
á aðfangadagskvöld, það mátti ekki. Jólaskemmtanir
fyrir börn tíðkuðust nálægt jólum allt frá aldamótum eða fyr. Fyrir því
stóð fjölskylda verslunarstjórans Guðm. Thorgrímsen og síðar P. Nielsen.
Nú um langt skeið kvenfélagið. Kallaðar Barnajólatré. Alltaf jólatré og
gengið kringum það og sungið. Aldrei neinn jólasveinn. Börnunum oftast
gefið epli eða eitthvað þess háttar. Fullorðið fólk
spilaði, fór í heimsóknir til kunningja. Fjölskylduboð alltaf til skiptis
hjá vandafólki. Oftast skemmtun á annan í jólum, oft sýnd leikrit. Verkalýðsfélag
og kvenfélag stóð oftast fyrir þeim, síðar leikfélag eða ungmennafélag.
Allar skemmtanir haldnar í samkomuhúsinu Fjölni sem var stórt og veglegt,
byggt fyrir aldamót, sjaldnast veitingar en ef svo var þá kaffi og kökur.
Áramótabrennur voru árvissar en ekki endilega á gamlársdag
eða þrettánda. Félögin t.d. Báran (verkalýðsfélagið) stóðu fyrir þeim.
Oftast kveikt í brennu kl. 6. Stundum voru sérstök grímuböll kringum áramótin
og þá ýmiskonar búningar en allir urðu að taka af sér grímu kl. 12.
p16
Á þrettánda var mikið
spilað ef ekki var álfabrenna eða aðrar skemmtanir.
Gott
samkomuhús, byggt fyrir aldamót af gútemplarafélagi. Í því var stór samkomusalur
með leiksviði. Á efri hæð var minni salur og 4 herbergja íbúð, um tíma
var rekið gistihús þar. Síðar var þar iðnskóli, matreiðslunámskeið oþh.
Nú er búið að rífa þetta hús og hefði þó mátt nota það lengur með góðu
viðhaldi. Eyrarbakkahreppur átti þetta hús frá því ca. 1915.
Leiksýningar hófust hér snemma fyrir áhrif frá kaupmannsfólkinu og
þróaðist hér mjög góð leiklist og mörg meiriháttar verk tekin til sýningar.
Ég man eftir Æfintýri á gönguför, Upp til selja, Skuggasveini, Manni og
konu og mörgum smærri leiksýningum. Kvikmyndasýningar
voru hér um tíma, fyrir 1920, og var þá lagt rafmagn í húsið fyrir ljós
og sýningavélar frá mótor. Haraldur Blöndal ljósmyndari stóð fyrir því.
Söngur mjög mikið iðkaður hér og kórar sungu opinberlega.
söngstjóri var lengi Guðmunda Nielsen. Lúðrasveit var
hér um og uppúr aldamótum, önnur sú fyrsta á landinu. Tombólur
voru árlega til ágóða fyrir eitthvert félagið, bögglauppboð oft líka, helst
í sambandi við skemmtifundi eða dansleiki. Félagsvist oft nokkuð síðari
árin og stundum bingó.
p17
Skemmtanir voru jafnan
auglýstar með opinberum auglýsingum í búðargluggum eða símastaurum. Fólk
kom helst að á leiksýningar, síður á böllin. Þekki engar svaðilfararsögur
í sambandi við skemmtanr. Skemmtiatriði voru oft á
dansleikjum, ræður, söngur, upplestur, nú er þetta mest aflagt. Stundum
þó aðkeyptur skemmtikraftur. Dansar voru venjulega vals, polka, óli skans
oþh. Á tímabili var oft dansað lansé sem Jens Nielsen faktor æfði með unglingum.
Piltar buðu dömum upp. Áður fyrr, meðan kaupmannsfólkið stóð fyrir dansskemmtunum
tíðkaðist jafnvel að dömur hefðu danskort og piltar urðu að vera með hvíta
hanska. Vangadans, þekktist ekki áður fyr. Ég man ekki eftir neinum meiri
háttar íringum, enda áfengisneysla mjög lítil meðan ég fylgdist með skemmtunum.
Klæðnaður kvenna var lengi vel mest peysuföt, telpna ýmiskonar kjólar,
karla venjuleg jakkaföt, drengja oft matrósaföt og hnébuxur, danskir skór
voru orðnir algengir, ég man aldrei eftir fólki á sauðskinnsskóm á skemmtunum.
Dansleikir og leiksýningar voru nokkuð algengar að
vetrinum, árshátíðir félaga og tekjuöflunarskemmtanir. Áfengi
var ekki beinlínis bannað nema á skemmtunum templara og ungmennafélags
en ekki áberandi mikið um það.
p18
Ég man aldrei eftir
konu undir áhrifum áfengis á skemmtunum þegar ég var unglingur, nú er það
því miður breytt. Það hefur vitanlega ekki þótt til sóma af þeim konum
eða körlum sem ekki taka þátt í slíku. Spilað var á
einfalda harmoniku, síðar tvöfalda, á tímabili aðeins á orgel, nú á síðustu
árum hljómsveitir. Aldrei án hljóðfæris. Samkomuhús
var byggt fyrir aldamót, áður munu samkomur hafa verið haldnar í barnaskólanum
sem fyrst var byggður 1852 og síðan endurbyggður, stækkaður eða byggður
að nýju. Dansleikir utanhúss hafa ekki tíkast hér.
Kvenfélag
stofnað 1888. Búnaðarfélag 1895. Verkamannafélag 1904. Gutemplarafélag
1925. Slysavarnafélag 1929. Leikfélag 1940(?). Alþjóðaklúbbar aldrei verið
hér. Nöfn félaganna segja nokkuð til um starfsemi þeirra,
hún hefur að sjálfsögðu verið misjöfn á hinum ýmsu tímum og nú eru sum
þeirra ekki starfandi. Handskrifað blað var í UMFE
og mun vera til enn blöð af því.
Kirkja
var byggð hér 1891. Áður var kirkjusókn að Stokkseyri enda þá sami hreppurinn.
Messað þriðja hvern sunnudag. (Eb. - Stk. - Gaulverjabær) og svo
er enn. Engin breyting við komu útvarps.
p19
Held að megi segja
að kirkjusókn sé nokkuð góð hér, mest þó á hátíðum og við fermingar. Engar
athugasemdir við því þó að fólk kæmi ekki til kirkju. Helst var það að
unglingar skiptu sér þannig að stúlkur sætu öðru megin á loftsvölum (norðan)
en piltar sunnan megin á svölunum. Áður fyrr, meðan
kaupmannsfólkið (innlendir og erlendir faktorar við versl. J.R.B. ..??)
var hér og var aðall Eyrbekkinga þá hafði það ákveðinn bekk framarlega
að norðanverðu í kirkjunni. Virðingarmunur var enginn
umfram þetta í kirkjunni. Aðventisti var hér með trúboð
einn vetur, hélt samkomur í Fjölni. Árangur lítill, líklega 3 manneskjur.
(Pétur Sigurðsson og aðr.) Hjálpræðisher kom stundum,
prédikaði úti. Eins Sigurður (á kassanum). Veit ekki
um nein sérstök áhrif á samskipti kynjanna vegna trúarlífs.
Hef
nokkuð greint frá því áður. Þetta er nú orðin æði mikil langloka og verst
að það verður að litlu gagni um það sem til er ætlast.