Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1902

Nánari upplýsingar

Númer7316/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.6.1983
Nr. 7316

p1
Heimildarmaður: Geir Jónsson FD: 12 10 1902 Svörin miðast við Hjörsey og Borgarnes

Skírn. Ég hef aldrei verið við skírn í kirkju. Mínu uppvaxtarheimili hagaði þannig til að mjög erfitt var um að njóta kirkjuþjónustu og yfirleitt aldrei farið til kirkju. Í besta tilfelli einu sinni á ári þegar börnin voru fermd. Að verið væri að brjótast með ungabörn til kirkju til að láta skíra þau kom aldrei til mála. Börn voru því skírð í heimahúsum. Skírnarkjólar voru notaðir frá því ég fyrst man eftir og alla tíð síðan. Kjólarnir voru eins fyrir drengi og stúlkur. Þeir voru síðir náðu niður fyrir fætur og voru úr góðu og fínu lérefti. Skírnarvottar voru annaðhvort vinir foreldranna eða náin skyldmenni. Skyldur gat ég ekki merkt að slíkir vottar teldu sig hafa gagnvart börnunum. Kaffi og með því eins og tíðkaðist að þess tíma hætti var að sjálfsögðu gefið þeim er viðstaddir voru en um boð var ekki að ræða. Gjafir voru engar. Ég minnist aðeins eins tilfellis, líklega um 1933 að verkamaður hér í Borgarnesi lét ekki skíra stúlku sem þau hjón eignuðust. Ekki minnist ég þess að það ylli neinu hneyksli en þó hefur að sjálfsögðu einhver meiningamunur verið þar um. Ekki veit ég hvernig viðkomandi prestur hefur litið þetta en kyrrt látum það liggja. Hvað foreldrana varðar held ég að þau hafi talið engu skipta hvort barnið væri skírt af presti eða þau tilkynntu honum

p2
nafnið og það væri fært inn í kirkjubækur. Þess get ég þó getið að þegar þessi stúlka komst á þann aldur að hana skildi ferma, vildu yfirvöld (prestur) ekki gera það. Hann taldi sig ekki geta fermt hana óskírða. Lét þá stúlkan skíra sig. Hana langaði til að láta ferma sig með skólasystkinum sínum og þar með var það mál úr sögunni.

p3
Afmælisdagar. Það var enginn munur á afmælisdögum og öðrum dögum í mínum ungdómi og alla tíð fram til fullorðins ára þekkti ég ekki til neins slíks.

p4
Ferming. Fermingarundirbúningur var ekki mikill né margbreyttur. Þar til er helst að nefna að einhver trúarleg fræðsla fór fram í farskóla. Lesnar voru biblíusögur og eitthvað áttum við að læra af sálmum. Heldur held ég hafi verið misjafn árangur af því en kverið varð ég að læra undanbragðalaust. Það var svonefnt Helgakver, tekið saman af Helga Hálfdánarsyni. Það var 100 blaðsíður að lengd. Ég lærði það utanbókar spjaldanna á milli og kann töluvert úr því enn. Annað kver var til, mun minni bók og var almennt kallað tossakver. Síðan var gengið til prestsins og hann spurði einhvers sem svör var að finna við í kverinu og voru þau notuð ef tiltæk voru. Ég gæti trúað að ég hafi farið þrjá sunnudaga til kirkju í slíkum erindum veturinn áður en ég var fermdur um vorið. Fermingarathöfnin sjálf fór fram eins og gerist enn í dag. Börnunum var raðað upp við altarið, stúlkum annarsvegar en drengjum hinsvegar. Síðan spurði prestur hvert barn einnar spurningar. Tók af því svokallaðan fermingareið og að því búnu kraup það ofan á altarisbrákina. Venjuleg jakkaföt fyrir drengi, kjólar fyrir stúlkur. Fermingarföt mín voru úr útlendu efni, saumuð af saumakonu í sveitinni sem fékkst við slíka vinnu og eitthvað hafði til hennar lært. Eitthvað svipað held ég hafi gilt um fatnað stúlknanna. Það er ekki hægt að segja að fermingargjafir þekktust á þessum tíma. Þó voru mér gefnar 2 krónur í fermingargjöf. Kaffi var gefið heimafólki og vinum og kunningjum sem

p5
nærstaddir voru og til náðist. Veislu var naumast hægt að kalla það. Fermingarkyrtlar voru fyrst notaðir hér í Borgarnesi 1957. Á fermingu minni og fermingu barna minna er um mikinn mun að ræða. Sá munur er eingöngu fólginn í tvennu. Mikið meiri fermingargjafir og meiri og dýrari veisluhöld. Munurinn er sem sagt fólginn í rýmri fjárhag almennt, eyðslu og óhófi. Ég þekki ekki til þess að börn hafi ekki verið fermd. jafnvel þó svo vangefin hafi verið að þau hafi lítið eða ekkert getað lært. Engar breytingar áttu sér raunverulega stað við ferminguna. Það leiðir af sjálfu sér að eftir því sem aldur og þroski óx var borið meira traust til unglinganna. Þeim var ætlað meira og treyst betur. Það sem mér fannst helst var að maður væri nær því að vera fullorðinn maður. Enda var almennt litið þannig á að fermdur unglingur væri ekki lengur ómagi.

p6
Próf. Ég vissi ekki til þess að gerður væri dagamunur vegna prófa sem ég persónulega þekkti til.

p7
Trúlofun. Það var nú yfirleitt að fólk setti upp trúlofunarhringi þegar það trúlofaði sig en þegar ég trúlofaði mig gerðum við það ekki. Við opinberuðum heldur ekki trúlofun okkar fyrr en við giftum okkur. Á þeim tíma var ekkert viðlit að halda samkvæmi. Það var í mesta lagi drukkið kaffi á heimilinu en ég varð aldrei var við nein veisluhöld í tilefni af trúlofun. Ég held að það sé meiri fljótaskrift á trúlofun nú heldur en það var hér áður fyrr. Fólk nú til dags er ekki búið að þekkjast í mörg ár eins og við vorum búin að gera þegar við giftum okkur. Það var misjafnt hvað fólk var lengi trúlofað áður en það gifti sig, ég geri ráð fyrir að sumum hafi legið á að gifta sig. En við vorum búin að vera trúlofuð í 4-5 ár áður en við giftum okkur og fórum að halda heimili. Svokölluð óvígð sambúð þekktist ekki. Ég vissi til þess að það væri lýst með hjónum og í því tilfelli sem ég þekkti var auglýst á hurðinni á sóknarkirkjunni. Það var bara fest upp tilkynning frá prestinum til safnaðarins um að þetta tiltekna fólk hyggðist gifta sig.

p8
Gifting. Það var ekkert tilstand í kringum mína hjónavígslu. Hún fór fram inni í stofu hjá prestinum á Borg á Mýrum. Það var mjög algengt að gift væri í heimahúsum eða hjá prestinum, það var ákaflega lítið um kirkjubrúðkaup. Það hefur líka alltaf verið möguleiki að sýslumaður eða jafnvel lögreglustjóri gefi saman fólk en ég man ekki eftir neinum sem hefur notfært sér það. Borgaraleg gifting var mjög óalgeng. Ég man ekki nákvæmlega hvernig brúðhjónin voru klædd. Fólk var í sínum skárstu fötum en sennilega hefur nú verið brúðarkjóll. Þegar ég gifti mig var engin brúðkaupsveisla og ég held að þær hafi ekki verið algengar hérna áður fyrr. Giftingar fóru held ég alltaf fram á laugardegi, saman ber laugardagur til lukku. Ég held að það hafi ekkert verið reynt neitt sérstaklega að tengja giftingar öðrum merkisdögum. En það kann að vera að fólk hafi frekar opinberað í kringum jól og jafnvel gift sig líka. Það var afskaplega lítið um gullbrúðkaup yfirleitt. Ég man eftir gulbrúðkaupi þegar ég var 8 ára gamall. Þá héldu sveitungar upp á gullbrúðkaup hjóna þarna í sveitinni og þetta þótti geysi mikill viðburður. Að fólk yrði svo gamalt að það lifði það að vera búið að vera 50 ár í hjónabandi! Þetta þótti feikna fyrirbæri og ég man vel hvað mikið var talað um þetta.

p9
Andlát og útför. Þegar fólk dó í heimahúsum var líkið lagt til. Það var þvegið, lokað á því augunum og lagt á fjalir svo það gæti stirðnað í eðlilegum stellingum. Annars hef ég aldrei á minni löngu æfi gert líkt. Ég veit ekki til þess að nokkurn tíman hafi verið vakað yfir hinum látna. Yfirleitt var líkið ekki látið standa upp nema í viku tíma eða svo. En ég man þegar móðurafi minn dó í febrúar svokallaðan snjóavetur 1921. Þá var ekki hægt að flytja líkið á kirkjuna fyrr en eftir 6 vikur vegna ófærðar og óveðurs. Ég man nú ekkert sérstakt í sambandi við kistulagninguna. Líkið var lagt í kistuna en ég held það hafi nú ekki verið fært í þessi líkklæði. Þau voru bara lögð ofan á. Kisturnar voru smíðaðar heima. Þá kom smiður heim og smíðaði kistuna utan um líkið. Þær voru alveg eins í laginu og þær eru núna en þær voru svartar fyrst þegar ég man eftir. Við kistulagninguna voru sungin einhver vers og lesið bænarorð. Húskveðjur voru oftast haldnar þegar einhver dó sem þótti frekar ofarlega í þjóðfélagsstiganum. Annars var það alls ekki algengt. Ég held að húskveðjur hafi frekar færst í vöxt eftir að samgöngur bötnuðu og allar aðstæður til þess að koma því við. Þær fóru þannig fram að presturinn hafði yfir einhverja minningarræðu sem var oft í svipuðum anda og svokölluð líkræða. Líkið var ýmist flutt sjóveg eða á hestvagni til kirkju.

p10
Í kirkjunni var haldin ræða og ég held að allt form á því hafi verið mjög svipað og það er í dag. Ræðan var alltaf haldin inni í kirkjunni. Við gröfina var ekkert gert nema kannski sungin eitt eða tvö vers úr útfararsálminum. Í þá daga átti fólk ekki nema ein föt til að fara í til kirkju og það var engin regla að það klæddist endilega dökkum fötum við útför. Erfidrykkjur voru nokkuð algengar. Það var oftast veitt kaffi og kökur á kirkjustaðnum. Í erfidrykkjunni voru engar ræður haldnar. Legsteinar hafa alltaf verið til frá því ég man fyrst eftir. Það voru steinsmiðir sem gerðu þá. Ég man aldrei eftir að hafa heyrt um eða séð grafhýsi. Grafskraut mun nú ekki hafa verið fyrstu árin sem ég man eftir en það er orðið ansi langt síðan það var farið að vera með kransa og blóm. En sennilega ekki að neinu ráði fyrr en upp úr 1930 eða einhvern tímann á fjórða áratugnum.

p11
Árstíðabundnar hátíðir. Ég hef aldrei farið á þorrablót. En það eru ekki nema svona 20 ár síðan þau fóru að tíðkast hér. Þetta var alls ekki til hér þegar ég var unglingur. Þegar þetta var að byrja fór þau ósköp líkt fram og þau gera í dag. Það er borðaður allskonar forníslendur matur, súrt slátur, súr svið, selhreifar, hrútspungar og harðfiskur og allt þetta gamla. Rúgkökur sem nú til dags eru kallaðar flatkökur, þær voru bakaðar á glóð í þá daga. Þegar orðið var alelda í hlóðunum þá var þetta krafsað allt í sundur og svo var kakan lögð ofan á og síðan snúið við og bökuð beggja megin. Svo varð að skafa af henni öskuna á eftir.

Það að fagna endurkomu sólarinnar hefur aldrei tíðkast hér enda hverfur sólin okkur aldrei alveg.

Öskudagurinn hefur alltaf verið til síðan ég man eftir mér en bolludagur og sprengidagur voru ekki til í mínu ungdæmi. Öskudagurinn var enginn sérstakur hátíðisdagur. Stelpurnar reyndu að hengja ösku á okkur strákana og við reyndum að hengja steina á þær. Það var alveg fasta regla að við voru látnir bera ösku og þær voru látnar bera grjót. Manni þótti mikil skömm af því að bera ösku og passaði sig vel á því að fá ekki á sig poka. Kvenfólkið hefur sjálfsagt saumað pokana og látið okkur fá. Bolludagur kom ekki fyrr en mikið seinna. Þó man ég að 1924 var bolludagurinn byrjaður því þá var ég á Hvanneyrarskólanum og ég man að á bolludag ætluðu stelpurnar að

p12
koma og flengja okkur um morguninn. Grímubúningar og slíkt var ekki til hér og ég man ekki hvenær var farið að gefa frí í skólum á öskudag.

Frá því ég fyrst man eftir mér voru menn látnir hlaupa 1. apríl. Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku dæmi en það var með ýmsu móti reynt að láta fólkið hlaupa. Auðvitað þótti mesta sportið að láta það hlaupa sem lengst.
Það var haldið upp á páskana ósköp svipað og það er gert enn þann dag í dag, ég get nú lítinn mun séð á því. Þegar ég man fyrst eftir voru reyndar lesnir húslestrar en það var lagt tiltölulega fljótt niður. Það var ekki unnin þessi venjulega vinna um bænadagana en þeir voru oft notaðir til að vinna eitthvað heima við sem ekki gafst tími til að gera aðra daga. Á föstudaginn langa og á páskadag hafa menn sennilega hlíft sér við að gera það sem þeir ekki endilega máttu til að gera. Þetta voru miklir helgidagar. Það var ekkert sérstakt gert sér til dægrarstyttingar og við krakkarnir vorum aldrei neitt hindruð í því að leika okkur á þessum dögum. Það var reynt að breyta til í mat svona eins og þá var hægt að gera. Það var kannski kjötsúpa eða hangikjötsbiti og svo nýbakaðar kökur og nýgert brauð. Allt var þetta heimagert frá því fyrsta til hins síðasta svo það gat ekki verið um mikla fjölbreytni að ræða. Ég man nú ekki nákvæmlega hvenær páskaegg fór að koma en það er orðið ansi langt síðan ég fór að heyra þau nefnd. Ég man ekki eftir páskaeggjum á mínum uppvaxtarárum.

p13
Seinna þegar mínir strákar fóru að biðja um páskaegg þá tók ég einhvern tímann hænuegg og málaði þau í allavega litum og gaf þeim. En þetta þekkti ég nú ekki frá öðrum en sjálfum mér.
Það var alltaf haldið upp á sumardaginn fyrsta og hann var hafður eins og hver annar sunnudagur. Það var kannski ekkert eiginlegt frí, maður varð alltaf að vinna verkin en það var alltaf einhver hátíðarblær í kringum sumardaginn fyrsta. Það var ekkert sérstakt gert, kannski helst einhver tilbreyting í mat. Eftir langa og erfiða vetur hlakkaði maður alltaf til sumarsins sem var byrjað þegar sumardagurinn fyrsti var kominn. Ég man nú lítið eftir sumargjöfum en ég vissi að þær voru til og ég heyrði þær nefndar. Það er eins með sumardaginn fyrsta eins og í vísunni stendur: Ískaldi íslenski vetur enginn þér lofsungið getur samt aðeins þér er að þakka hve þrátt ég til sumarsins hlakka.
1. maí var enginn hátíðisdagur í mínu ungdæmi. Ætli það hafi ekki verið í kringum 1920 sem ég heyrði hans fyrst getið þegar byrjuðu kröfugöngurnar í Reykjavík. Hérna í Borgarnesi hélt Verkalýðsfélagið einhverja samkomu á 1. maí. Það var þá oftast fundur og einhver skemmtiatriði.

p14
Ég man eftir lokadeginum og vissi um hvað hann gekk. Það var verið að fagna vertíðarlokum á suðurlandi og mennirnir sem fóru suður voru að koma heim af sjónum. En það var ekkert haldið upp á hann hér. Í þá daga var lokadagurinn alltaf 11. maí og þá hættu allir sjómenn í einu. Nú er ekki heldur haldið neitt upp á lokadaginn og mér skilst að það sé ekki lengur neinn ákveðinn lokadagur. Það er orðið á ýmsum dögum sem skipin hætta á sinni vetrarvertíð. Ég held að hann sé að hverfa sem raunverulegur lokadagur.

Uppstigningardagur var auðvitað helgur dagur og haldinn svona líkt og sunnudagur en ég man ekki eftir að það hafi verið neitt tilstand í kringum hann. Á honum held ég að hafi ekki mikil breyting átt sér stað.

Hvítasunnan hefur alltaf verið stórhátíð og það var alltaf siður að börn væru fermd á hvítasunnunni. Þetta var alveg ákveðinn siður alla tíð sem ég man eftir. Þá var haft með kaffinu eins og á sunnudegi og vel það. Það voru engin hátíðarhöld, bara farið til kirkju og drukkið kaffi þegar heim var komið.

Sjómannadagurinn var aldrei haldinn hátíðlegur hér. Í Borgarnesi er engin útgerð og ég minnist þess ekki að nokkurn skapaðan hlut hafi verið haldið upp á sjómannadaginn.

Ég held að fyrir 1944 hafi ekkert verið haldið upp á 17. júní. Eftir 1944 hafa alltaf verið einhver hátíðarhöld, útisamkoma og ræðuhöld og svo auðvitað dans í danshúsunum, ýmist úti eða inni eftir veðri.

p15
Það var ekkert sérstaklega haldið upp á Jónsmessuna. En það voru ýmsar hugmyndir og trúr sem tengdust Jónsmessunóttinni. T.d. trúðu menn því að ef þeir tíndu sjö tegundir af blómum þessa nótt og leggðu þau undir kodda stúlkunnar sem þeir óskuðu sér þá myndi hún vilja eiga þá. Það þótti líka gott að velta sér nakinn upp úr Jónsmessudögginni.

Frídagur verslunarmanna byrjaði seint hérna í Borgarnesi. Þetta byrjaði í Reykjavík stuttu fyrir aldamót þegar Verslunarfélag Reykjavíkur var stofnað. Þá fóru menn gjarnan ríðandi eða gangandi upp að Elliðaám. En það var ekki mikið af verslunarfólki hér í Borgarnesi og ég man ekki eftir neinum sérstökum hátíðarhöldum á þessum degi.

Fyrsti vetrardagur var aldrei haldinn hátíðlegur hér.

Ég man ekki eftir neinum sérstökum siðum sem tengdust aðventunni. Þessi aðventuljós eru tiltölulega ný, hér um slóðir að minnsta kosti. Þau komu ekki fyrr en fyrir svona 10 - 20 árum.
Jólaundirbúningurinn byrjaði alltaf snemma. Það þurftu allir að reykja hangikjötið heima á sínu heimili. Húsið var gert hreint og það var bakað eitthvað af kökum. Það var lítið um það að bakað væri laufabrauð, það var meira um það fyrir norðan. Húsmóðirin sá um og stjórnaði alveg innanhússtörfunum. Annars bakaði ég stundum svokölluð pottbrauð þegar ég var að reykja hangikjötið. Þá fór ég á kvöldin með hnoðað rúgbrauð, setti það ofan á glóðina og hvolfdi síðan potti yfir. Þá lét ég

p16
eitthvað af rusli í kringum pottinn og ofan á hann sem síðan smámsaman lifnaði í og brann. Svo var þetta látið bíða til næsta dags og þá var þetta orðið fínseitt rúgbrauð. Þetta var gjarnan gert um jólin til að nota eldinn og eldiviðinn þegar verið var að reykja. Það að krakkar settu skóinn sinn út í glugga heyrði ég ekki nefnt fyrr en ég kom í kaupstaðinn. Ég efast um að það sé meira en svona 10-20 ár síðan ég heyrði fyrst talað um það. Jólagjafir voru nokkurn veginn óþekkt fyrirbæri. Það fengu náttúrulega flestir einhverja nýja flík, annað hvort sokka, skó eða eitthvað annað til þess að þeir færu ekki í jólaköttinn. En jólagjafir í nútímastíl þekktust ekki fyrr en lögnu síðar. Þessar gjafir voru gefnar á aðfangadagskvöldið þegar fólkið var búið að borða eða fötin fékk maður stundum þegar maður var að klæða sig upp í jólaskartið. Yfirleitt voru það húsráðendurnir sem gáfu þessar gjafir, þá yfirleitt börnum sínum eða öðru heimilisfólki ef um það var að ræða. Því var ekki trúað að jólasveinarnir kæmu með þessar gjafir. Þeir voru álitnir hálfgerðir prakkarar og það var ekki laust við að maður væri hræddur við þá. Ég get ekki sagt til um hvenær jólakort fóru að tíðkast en það var ákaflega lítið um þau. Bærinn sjálfur var ekkert skreyttur yfir jólin en ég man nokkuð snemma eftir jólatré. Ég var ábyggilega um eða innan við fermingu þegar það kom fyrst. Það var

p17
smíðað úr timbri og klætt með grænum pappír. Svo var hengt á þetta allskonar dinglumdangl sem hægt var að finna upp, sett kerti á greinarnar og búnir til litlir pokar úr jólapappír. Þeir voru þríhyrndir að neðan og eins og hjartalaga lauf að ofan. Á þessu var pappírshalda og þetta var hengt á jólatréð og kannski látið í þetta brjóstsykursmoli. Þetta var alveg heimatilbúið nema pappírinn var aðfenginn. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær grenitré fór að tíðkast en ég held að það hafi ekki verið fyrr en á þessum allra síðustu árum. Jólaskrautið var haft uppi alveg yfir jólin fram á þrettándann, 6. janúar en þá voru jólin búin. Það var enginn sérstakur sem sá um að setja skrautið upp eða taka það niður, menn gerðu þetta í sameiningu. Á Þorláksmessu var gamall siður að borða mat sem kallaður var hraun. Að haustinu var stundum slátrað nautgrip eða jafnvel hrossi og kjötið var að mestu leyti saltað. Áður en það var saltað niður var kjötið skorið utan af beinunum, gangbeinunum og öllum stærri beinum til að þurfa ekki að vera að salta beinin ofan í tunnu. Síðan voru beinin reykt, brytjuð niður svo hægt væri að koma þeim í pott og soðin. Þetta svokallaða hraun var alltaf haft á Þorláksmessu. Á aðfangadag var held ég borðað eitthvað steikt kjöt og að sjálfsögðu rúsínugrautur. Stundum var lógað einhverri skepnu, kind eða kálfi til þess að hafa nýtt kjöt um jólin. Það var þó nokkuð víða gert. Það voru alltaf bakaðar

p18
einhverjar kökur og nokkuð snemma fóru tertur að vera algengar. Þetta voru jólakökur, sótakökur, eitthvað af smákökum og að sjálfsögðu kleinur og pönnukökur. Terturnar voru yfirleitt þannig að þeim var raðað saman hvurri ofan á aðra og látin sulta á milli. Það var ekkert drukkið með matnum. Það var bara grjónagrautur og svo kaffi á eftir. Öl úr kaupstaðnum var ekki til upp til sveita fyrr en uppúr 1930 en þá var þetta komið um allt. Það var alltaf mikið spilað í kringum jólin, það var t.d. spilað púkk þegar ég man fyrst eftir. En það var ekki mikið um skemmtanir og barnaskemmtanir um jólin þekktust ekki. Það var ekki hægt að koma því við í sveitinni að þvælast á milli bæja í misyndis veðráttu. Það var bara reynt að gera eitthvað fyrir krakkana heima, spila við þau og svoleiðis. við máttum spila og leika okkur á jólunum nema á aðfangadagskvöld. Þá var alveg bannað að spila. Fullorðna fólkið stytti sér stundir með að spila og svo kom fyrir að það voru skemmtanir í sveitinni. Svona eftir 1908-1910, eftir að ungmennafélögin urðu til fóru þau að standa fyrir skemmtunum. Menn höfðu oft farið langan veg til að komast á skemmunina og þá var dansað alla nóttina. Frá kvöldi og fram á morgun að það fór að birta og maður fór að sjá til að labba heim. Það voru engin samkomuhús til, þetta var bara haldið heima á einhverjum bænum þar sem var nothæft húsnæði en iðulega var bara notaður einhver kofi undir þetta. Það var

p19
alveg óákveðið á hvaða degi þessar skemmtanir voru haldnar, það fór eftir því hvað hentaði fólki best. En oftast voru þær á milli jóla og nýárs. Veitingar voru engar. Það var ósköp svipað haldið upp á áramótin og það var haldið upp á jóliin. Áramótabrennur þekktust ekki í sveitinni. Það var víst ekki það mikið til af eldivið að það væri verið að brenna honum að gamni sínu. Hérna í Borgarnesi hefur tíðkast nokkuð lengi að hafa áramótabrennu. En grímubúningar og svoleiðis var ekki. Sérstakur áramótadansleikur var ekki, það var þessi eina skemmtun einhverntíman í kringum jólin og það var allt.

p20
Skemmtanir. Samkomuhús var ekkert í sveitinni. Hérna í Borgarnesi hefur verið samkomuhús síðan ég kom hingað og það er sama samkomuhúsið og enn er. Þetta er ósköp lítið og lélegt hús, sambyggt barnaskólanum gamla. Ég held að ungmennafélagið hafi látið byggja það. Hér voru revíuhöfundar og það var gert ýmislegt sér til gamans. T.d. var hér Guðmundur Sigurðsson sem síðar var revíuhöfundur í Reykjavík. Kvikmyndasýningar voru hér í langan tíma stöðugt. Þær voru eitthvað að byrja þegar ég kom til Borgarness en svo þegar herinn kom var bíó á hverju einasta kvöldi. Öðru hvoru voru dansleikir í félagsheimilinu. Þessar skemmtanir voru þannig auglýstar að það var einhversstaðar festur miði á ljósastaur. Yfirleitt var það ekki að fólk kæmi langt að til að sækja slíkar skemmtanir, alla vega ekki fyrr en fóru að koma góðir vegir og bílar. Á þessum dansleikjum voru engin önnur skemmtiatriði en bara sjálfur dansinn. Það voru dansaðir þessir svo kölluðu gömludansar alla nóttina fram á morgun. Ég man ekki eftir því að dansar væru kenndir, þetta lærðist einhvernveginn af sjálfu sér. Maður bauð þannig upp að maður gekk að dömunni þar sem hún sat og hneigði sig fyrir henni. Fólk sat ýmist saman á bekkjum með fram veggjunum eða stundum mun einhver skilgreining hafa verið milli kynja. Það var viðburður ef kom til handalögmála á dansleik.

p21
Það var ákaflega lítið um áfengisnotkun og þar af leiðandi ekki nein læti. Ég held að vangadansar hafi nú snemma verið liðnir ef eitthvað gott samband var á milli fólksins. Ég tók sjaldan eftir því hvernig fólk var klætt. Stúlkurnar voru í kjólum og karlmennirnir í jakkafötum og á dönskum skóm eins og þeir voru kallaðir. Í sveitinni voru oftast ekki nema tveir dansleikir á ári. Einn að sumrinu og annar um jólaleytið. Hérna í kaupstaðnum hefur þetta sjálfsagt verið eitthvað oftar. Áfengi var hvorki leyft né bannað, það var einfaldlega ekki til. Það var viðburður ef maður kom á skemmtun allt fram til 1930 að sjá drukkna manneskju. Ég man alltaf þegar ég sá í fyrsta sinn drukkinn mann. Það var á fyrsta íþróttamótinu sem ég fór á, það var haldið á Hvítárbökkum fyrir sunnan Hvítá. Þetta hefur sennilega verið 1917. Ég man vel eftir því að ég sá einn mann drukkinn á þessari samkomu. En þegar ég kom til Borgarness 1939 var farið að bera þó nokkuð á áfengi á skemmtunum. Ég held að það hafi ekki verið bannað að hafa með sér áfengi á dansstaðina. Konur byrjuðu að drekka mun seina en karlar. Ég man fyrst eftir að hafa séð drukkinn kvenmanna líklega um 1930. Ég held að það sé ekki fyrr en á allra síðustu árum sem konur fóru að drekka áfengi í líkum mæli og karlar.

p22
Það var svo til eingöngu spilað á harmonikku á dansleikjum. Þetta voru einu hljóðfærin sem til voru sem hægt var að burðast með upp í sveit og hafa þau úti hvernig sem viðraði. Það var bara einn maður með harmonikku sem lék fyrir dansinum. Seinna þegar ég kom hingað til Borgarness voru einhverjir farnir að taka sig saman og spila en það hefur varla verið fyrr en 1940.

p23
Áhugamannafélög. Það voru engin önnur félög til en ungmennafélagið og svo einhver búnaðarfélög. Ungmennafélagið hafði leiklistina, íþróttirnar og skemmtanalífið á sinni könnu. 1933 var stofnað hér Verkamannafélag og stúkur voru hér á fullum krafti fyrir mína tíð. Það hefur sennilega ekki verið fyrr en eftir 1950-60 sem þessi alþjóðlegu félög fóru að koma til sögunnar. Ég var sjálfur aldrei í neinum félögum. Ungmennafélagið stóð fyrir þessum árlegu dansleikjum og sömuleiðis íþróttamótum einu sinni á ári. Það var keppt í allskonar íþróttum t.d. hlaupi, glímu, stökki, og kappslátti. Á næturnar var svo dansað á stórum útidanspöllum. Þetta voru skemmtanir sem fólk úr öllu héraðinu sótti.

p24
Trúarlíf. Í Hjörsey var engin kirkja í mína tíð. Kirkjan sem þar var var rifin rétt fyrir aldamótin. Eftir það sóttu Hjörseyingar kirkju á Ökrum. Það var örsjaldan messað. Presturinn hafði tvær kirkjum og átti að messa annanhvern sunnudag á hvorum stað en það var ekki gert. Ég fór í mestalagi einu sinni á ári í kirkju. Það var ekki nokkur leið að vera að þvælast þetta í öllum veðrum. Ef það var verið að ferma þá fór maður. Á þeim tíma sem ég man eftir var hætt að fárast um það ef fólk kom ekki til kirkju. Það var litið á það með raunhæfum augum að fólk gæti ekki verið að eyða tíma í það þegar nóg var að gera heima. Það tíðkaðist ekki í mína tíð að konur sætu öðru megin í kirkjunni en karlar hinumegin. Að vissar fjölskyldur hefðu forgang að ákveðnum bekkjum þekkti ég ekki heldur. Í kirkjunni var enginn stéttarmunur. Trúarlífið hefur sjálfsagt haft einhver áhrif á afstöðu fólks til hinna ýmsu mála en það er ekki svo gott að gera sér grein fyrir því. Prestarnir gengust upp í því að predika fólki blessun aumingjaskaparins að því aumara sem það væri hérna megin því betur myndi því líða hinumegin. Þeir voru að reyna að sætta það við hungrið og vesaldóminn. Fólk var hrætt með syndinni og kirkjan predikaði töluvert strangara siðferði en haldið er að fólki í dag.

p25
Spariföt. Fólk í þá daga átti nú í flestum tilfellum ekki annað en hversdagsföt og ein spariföt úr einhverju útlendu efni og konurnar kjóla. Eldri konur notuðu yfirleitt peysuföt spari. Þá varð maður að láta klæðskera sauma á sig. Ég fór tvisvar til Reykjavíkur til klæðskera. Kjólarnir voru ósköp svipaður og þeir eru í dag í alla vega litum. Skórnir voru skinnskór úr búð.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana