Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1904

Nánari upplýsingar

Númer7735/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.6.1983
Nr. 7735

p1
Heimildarmaður: Hólmfríður Árnadóttir FD: 19 09 1904 Svörin miðast við Raufarhöfn, N-Þing.

Skírn. Bara einn mann vissi ég til í minni sveit sem ekki lét skíra börn sín, hann var barnakennari í sveitinni, þótti sérlundaður en aldrei heyrði ég fólk almennt tala um það uppátæki, einnig bjó hann í óvígðri sambúð.

Afmælisdagar. Aldrei man ég eftir að neitt tilhald væri á afmælisdögum barna, bæði var fátækt almenn og vinna mikil á heimilum. Ég heyrði aðeins getið um einn fullorðinn mann sem hélt uppá afmæli sitt, hann var ógiftur en talinn eiga einhver efni. Sá bjó á heimili systur sinnar og bauð flest öllum í sveitinni. Þar var til matar steikt kindakjöt og meðlæti, sætsúpa með rúsínum og sveskjum, kaffi og kökur en engar gjafir heyrði ég minnst á enda slík veisla ekki nema annað, þriðja eða fimmta hvert ár. Þessu fylgdi dans og allskonar leikir. Stóð veislan oftast yfir allt að sólarhring.

Ferming. Melrakkasléttu var skipt í tvennt, austur og vestursléttu. Vesturslétta tilheyrði Núpasveitar eða Presthólakirkju en austurslétta með kirkju á Ásmundarstöðum, var annexía frá Svalbarðskirkju í Þistilfirði þar sem prestur hafði aðsetur. Löng leið og yfir fjallgarð að fara milli kirkna svo prestur kom ekki að messa á Ásmundarstöðum að vetri nema þriðja hvern sunnudag yfir sumarið en sjaldnar að vetri til. Oftast kom prestur í júní þegar snjólétt var orðið og gróðurnál á jörðu, tók þá fermingarbörn til spurninga vikutíma fyrir ferminu. Ég get nú bara sagt frá minni eigin fermingu. Við vorum fjögur sem fermdust, 3 drengir og ein stúlka. Drengirnir eru allir löngu dánir.

p2
Sr. Páll Hjaltalín Jónsson tók okkur til spurninga og fermdi. Þá var hætt að kenna Helgakver, við lærðum Klavernesskver sem af sumum var kallað tossakver af því það var svo miklu styttra en Helgakver. Svo lærðum við ein ósköp af sálmun og allt áttum við að kunna reibrennandi utanað. Um klukkutíma gangur var frá Raufarhöfn til Ásmundastaða. Það þótti ekki mikið að skokka fyrir okkur krakkana, fullorðið fólk fór líka gangandi. Eftir ferminu og altarisgöngu sem fór fram líkt og enn tíðkast nema hvað við vorum spurð við altari eitthvað meira en nú tíðkast. Svo var skokkað heim. Ekki man ég eftir neinu sérstöku tilhaldi í mat eða drykk og engri gjöf man ég eftir þann dag en seinna um sumarið fékk ég forláta gullúr og langa keðju sem enn er hvort tveggja til. Fermingarskeyti þekktust ekki enda nýkominn sími til Raufarhafnar, engir sérsímar á bæjum bara ein símstöð á staðnum. Til gamans get ég sagt að fermingarkjóllinn minn var saumaður úr kjól sem fóstra mín keypti þá hún var stödd úti í Kaupmannahöfn árið sem ég fæddist. Um fermingu minna eigin barna er fátt eitt að segja, þau voru öll fædd á kreppu og stríðstímum á árunum frá 1925 til 1945. Breytingar á lifnaðarháttum voru litlar eftir fermingu, helst það að meira var ætlast til að krökkum í vinnu og lærdómi hjá þeim sem einhverja aðstöðu höfðu til þess. Um kaup var ekki að ræða og auðvitað gengu krakkar áfram í þeim fötum sem þau áttu fyrir fermingu þar til þau urðu ónýt eða menn uxu uppúr þeim.

p3
Próf. Á mínum uppvaxtarárum var farkennsla. Barnakennari kenndi tvo mánuði á sama stað. Námsgreinar voru biblíusögur, skrift, réttritun, lestur, málfræði Jónasar Jónssonar, landafræði Guðmundar Finnbogasonar tvö hefti, Íslandssaga, mannskynssaga, útdráttur Páls Melsted, náttúrufræði Bjarna Sæmundssonar, reikningur, samlagning, frádráttur, deiling, brot eftir því hvað hver nemandi komst yfir, skólaljóð. Skóli byrjaði kl. 9 á morgni, stóð oftast til kl. 16 óslitið nema 15 mínútna frí milli tíma. Oftast höfðu börn einhvern bita með sér, þó ekki ævinlega. Setið í skólanum við langborð, báðu megin, allir í einum bekk og á svipuðum aldri, skólaskylda var /byrjaði ár/ Eftir að skóli hætti var börnum sett fyrir í bókum og áttu þau líka að halda við því sem þau voru búin að læra. Á vorin var svo börnum safnað saman á einum stað, þar var svo börnum hlýtt yfir fögin í áheyrn prófdómara. Auðvitað varð að fara á hundavaði yfir bækur og fög því próf mátti ekki taka nema einn dag. Margur var svangur að kvöldi því ekkert frí var ætlað til matar. Einkanir voru munnlegar og ekki lagðar neitt sérstaklega á minni. Þetta breyttist mikið þegar byggður var barnaskóli á Raufarhöfn og fastráðnir kennarar allan veturinn en samt sem áður lærðum við býsna mikið á þessum tveggja mánaða farskóla. Eins kennara vil ég sérstaklega minnast, hann var góður kennari og maður, kenndi okkur margt fleira en skylduna, sérstaklega leiki, leikfimi, söng ofl. Þessi maður hét Kristján Eggertsson varð síðar djákni ofl. í Grímsey.

p4
Eftir að barnaskóli kom á Raufarhöfn var oftast barnaskemmtun eftir próf og skólaslit. Þar skemmtu börn með söng, upplestri, leikfimi ofl. Foreldrar og aðrir aðstandendur aðstoðuðu börnin við undirbúning þessarar skólahátíðar og mættu ásamt fleirum. Selt var inn á þessa samkomu og söfnuðu börn í ferðasjóð.

Auðvitað urðu menn ástfangnir og trúlofuðu sig en hringar voru aukaatriði eða ungt fólk hafði ekki efni á að kaupa hringa þó minnist ég að hafa heyrt talað um að hringar voru pantaðir hjá Birni á Refstað, gullsmiður austur í Vopnafirði en oftar var giftingu flýtt af því unnustan var barnshafandi. Þó get ég sagt að minn unnusti fékk norskan skipstjóra til að kaupa fyrir okkur hringa sem auðvitað eru enn til. Þá voru vikulegar ferðir milli Raufarhafnar og Noregs. Haugasunds eða Ålesund. Fyrsta barn mitt fæddist ekki fyrr en ári eftir giftingu svo það var algjör undantekning. Auðvitað voru hringarnir úr gulli, annað ekki nothæft. Engin veisluhöld við opinberun. Börn mín voru öll farin að heiman þegar þau trúlofuðust. Aðdragandi trúlofunar var yfirleitt fleiri ára kynni. Tími frá trúlofun til giftingar fór eftir ýmsu, hvort jarðnæði fannst eða húsnæði en einnig kom fyrir að giftingu var slaufað, hringar og sambúð látin duga allt lífið. Það kom fyrir að lýst var með hjónum á kirkjustað og þá var skylda að gifta sig í kirkju en þetta gat lent í handarskolum hjá væntanlegum brúðhjónum og jafnvel presti.

Algengara var að kaupa konunglegt leyfisbréf og þá var gift oftast í heimahúsum.

p5
Stórveislur voru niðurlagðar við giftingu, oftast var presti, svaramönnum og einhverjum nánum skyldmennum boðið til kaffidrykkju. Brúðargjafir voru fábrotnar eða engar. Þó veit ég um ein hjón sem áttu sama afmælisdag og giftu sig á þeim afmælisdegi. Ég gifti mig í heimahúsi, sjö manns voru viðstaddir, þar með talinn prestur og svaramenn. Börn mín giftu sig hingað og þangað eftir því hvar þau voru stödd við vinnu eða nám. Ef fólk gifti sig ekki var ekki verið að gera neitt veður út af því, hvorki af presti né skyldfólki, þetta var þeirra mál. Tengdaforeldrar mínir héldu uppá silfurbrúðkaup, matar og kaffiveisla, fáir gestir enda Raufarhöfn afskekktur staður, engir vegir eða samgöngur en skyldmenni á Akureyri og víðar.

Á nýársdag 1914 dó amma mín Guðrún Laxdal heima í Búðinni, hún var orðin gömul og ellimóð. Það kom enginn læknir til hennar meðan hún lá banaleguna en einhver meðöl voru sótt handa henni til Húsavíkur. Enginn læknir nær. Eftir að sjúklingur var skilinn við var líkinu veittar nábjargir, augum var lokað. Þegar líkið var orðið kalt var það þvegið, rúmföt tekin úr rúminu og hvítt lak breitt yfir trébotn rúmsins, þar var líkið lagt, hendur krosslagðar á brjósti, oft var hvít þríhyrna sett undir hökuna og bundið upp yfir hvirfilinn svo kjálkinn sigi ekki niður. Síðan var lak breitt yfir líkið. Ekki vissi ég til að vakað væri yfir líki en stór bali með hreinu vatni var haft í herberginu, skipt um daglega.

p6
Trésmiður var á kirkjustaðnum, hét Sigurður Guðmundsson, hann smíðaði kistur sem ætíð voru svartar. Það var skylda að hafa til í verslunum tilhefluð borð sem notuð voru í líkkistur. Kistusmíði tók að jafnaði viku en ef svo vildi til að borð væru uppgengin þá voru kistur smíðaðar úr rekavið sem nóg var af á sléttunni en það tók langan tíma, fyrst að saga viðinn í borð, þurrka borðin og síðan smíða úr þeim. Í verslunum fékkst líka hvítt líkléreft. Það var þunnt en stíft eins og með lakkhúð öðru megin, úr því var gert nálin, síður serkur opinn í baki, ermar langar, opnar, lagðar um handleggi líksins, sérstakur andlitsdúkur breiddur yfir ásjónu. Oft var sá dúkur listilega klipptur með tungum og rósamunstri. Við kistulagningu var sunginn eða lesinn sálmur, farið með fyrirbæn og faðirvor, allir viðstaddir gerðu krossmark yfir líkið í kistunni. Síðan var kistan skrúfuð aftur með sérstökum silfurlitum skrúfum og var smákross ofan á hverri skrúfu. Engin blóm eða kransar tíðkuðust enda ekkert slíkt til. Húskveðjur voru ætíð á heimili hins látna, ekkert sjúkrahús, þá var sungið, síðan stutt ræða, sungið meðan kistan var borin út af heimili hins látna. Kistan flutt á sleða að vetri, borin ef um stutta leið var að fara. Í kirkju var fyrst sunginn sálmur, þá hélt prestur ræðu, minntist hins látna, rifjað oft upp æfiferill, sungið Allt eins og blómstrið eina, kistan borin út á meðan og látin síga í gröfina prestur kastaði rekum og flutti bæn og blessun eins og enn tíðkast.

p7
Jarðarfarir fóru yfirleitt fram á virkum dögum, þó man ég eftir einni jarðarför sem fór fram á sunnudegi á undan messu, gömul kona sem var heimilislaus, ferðaðist um milli bæja var önduð flutt til kirkju, prestur kom sjaldan og hafði ekki verið látinn vita um andlát gömlu konunnar. Sú athöfn var stutt, sungið eitt vers, farið með bæn og blessun, kistan síðan borin útí kirkjugarð, látin síga í gröfina, rekum kastað, prestur sagði eins og vanalega ritual af jörðu ertu kominn osfrv. sungið síðasta vers af Allt eins og blómstrið eina. Fólk var yfirleitt dökkklætt við útfarir, konur á peysufötum með dökkar svuntur, karlmenn í dökkum fötum. Við jarðarfarir mættu yfirleitt skyldmenni og kunningjar. Oftast var þeim sem mættu við jarðarfarir gefið kaffi og meðlæti sem þá var veitt á heimili hins látna. Við jarðarfarir barna voru sömu útfararsiðir en yfirleitt ekkert umstang. Legsteinar voru fátíðir, engin grafhýsi, jarðvegur var yfirleitt blautur eða malarborinn. Eftir 1930 fóru einstöku aðstandandendur að láta logandi luktir á leiði um hátíðar, jól og áramót.

p8
B. Þorrablót voru engin nema ef eitthvað var breytt til í mat við þorrainngang og góu, sperlar og magáll.
Þar sem engin fjöll eru á Sléttunni skein blessuð sólin á okkur daga og nætur um miðsumar og man ég að útlendingum fannst það stórkostlegt.
Undirbúningur undir hýðingardag var heilmikið tilstand. Ungar stúlkur söfnuðust saman, bjuggu um sig á flatsæng á einhverjum óvenjulegum stað svo ekki yrði komið að þeim að óvörum, drengir gerðu slíkt hið sama, enginn fór af fötum, ekki mátti fara af stað til aðgerða fyrr en dagsbrún sást en þá varð mikið kapphlaup milli húsa. Ekki man ég eftir að vendir væru notaðir og ekki var tekið mark á hýðingu nema hægt væri að komast að rúmi og klappa á sæng þess sem ekki var þá kominn á fætur. Á sprengidag var sjálfsagður matur saltkjöt og baunir. Bollur voru bakaðar í flestum húsum og útbýtt meðal þeirra sem hýddu, oftast voru það rúsínubollur. Öskudegi fylgdi heilmikill saumaskapur og mikið var reynt að hengja poka sérstaklega á þá sem tóku því illa. Pokarnir voru saumaðir úr alla vega plötlum sem til féllu, allir voru pokarnir litlir svo aðeins væri hægt að koma í þá smáskammt af ösku eða smásteini. Engar göngur, sníkjuferðir, kattarslagir eða þess háttar þekktist. Öskudagur varð ekki frídagur í skóla fyrr en löngu eftir að ég varð fullorðin.
Það þótti mikil skemmtun að láta menn hlaupa apríl.

p9
Páskahátíð var einsog aðrar stórhátíðir, steik og rauðgrautur. Á skírdag var bara gefið frí seinni part dags en föstudagurinn langi var mikill alvörudagur, þá mátti ekki hlæja eða vera með hávaða. Ef veður var sæmilegt var farið út á skauta, skíði þekktust ekki enda engar brekkur. Páskaegg þekktust ekki fyrr en löngu eftir 1950.

Á sumardaginn fyrsta var (haldið) lítið tilhald þó kom fyrir ef yngissveinar höfðu eitthvert tilstand í yngismannadaginn sem var fyrsti dagur í einmánuði eða yngismeyjar höfðu eitthvað til hátíðabrigða á jómfrúdaginn sem var sumardagurinn fyrsti.

1. maí þekktist ekki í mínu ungdæmi.

Um lokadag heyrði ég aldrei talað enda engin vertíð.

Man aldrei eftir neinu tilhaldi á uppstigningadag.

Á hvítasunnu áttu allir frí frá rokk og prjónum. Ef veður var sæmilegt söfnuðust menn saman, fóru í einhverja útileiki, hlaupa í skarð, eitt par fram fyrir ekkjumann, slagbolta og fleira, fyrir kom að eldra fólk kom út, horfði á leikina og hvatti unga fólkið.

Man aldrei eftir neinu sem kallað var sjómannadagur.

17. júní hátíðahöldum man ég ekki eftir en Jónsmessu átti að hafa á Brunnárbökkum, Öxarfirði 17. júní, þá var slydduhríð, alhvít jörð.

p10
Frídagur verslunarmanna var aldrei haldið uppá því þá var síldarvertíð í fullum gangi, allir unnu dag og nótt meðan kraftar entust. Ég held að sjómönnum hefði þótt það meira en skrítið að koma í höfn og komast ekki í búð.

Ekkert tilstand fyrsta vetrardag, allir í önnum eftir göngur og sláturtíð.

Fullveldisdaginn var ekkert um að vera, menn mundu tæplega eftir honum.

Jólaundirbúningur byrjaði snemma í desember, þá var byrjað á tóskap og að sauma flíkur til jólanna á börn og fullorðna, hekla horn í koddaver eða merkja handklæði og vasaklúta. Kertastjakar voru víðast hvar á heimilum, þeir fægðir fyrir jól ásamt lömpum, kaffi og súkkulaðikönnum. Aðventukransar og almanök með myndum þekktust ekki. Ræsting byrjaði oft tveim vikum fyrir jól. Hver kompa og skot var þvegið hátt og lágt, sót hreinsað úr ofnum og þeir burstaðir, var það illt verk og sóðalegt. Timburþiljur og gólf var allt sandskúrað, þá þekktust ekki neinir burstar með stífu, grófu fiber og skafti. Notuð var strigatuska. Fyrst var blettur bleyttur síðan urgaður með sandi sem var skolaður af og þar á eftir var þvegið upp úr öðru vatni og marg þurrkað. Þetta þótti ekki vel gert nema hægt væri að strjúka blettinn með hvítum klút og ekki kæmi á klútinn óhreinindi. Sápa var ekki notuð nema lítillega á loft til að binda sandinn í tuskunni en oft vildi hrynja sandur í augu og andlit við loftþvott. Bakstur tók oftast tvo daga og laufabrauðsgerð aðra tvo. Laufabrauð var búið til úr sigtuðu rúgmjöli, ekki hveiti og auðvitað kepptust hver sem betur gat að skera út skrautlegar kökur.

p11
Bakstrinum tilheyrðu piparkökuhnetur, litlar kökur oftast mótaðar með fingurbjörg eða hnoðaðar smákúlur, þær og rúsínur voru aðal jólasælgætið. Það þekktist ekki að setja skó útí glugga. Jólagjafir voru sokkar, spjarir, svæfilver og vasaklútar. Þetta var ekkert sett í neinar umbúðir, bara lagðar á rúm þess er átti að fá gjöfina. Jólasveinn þekktist ekki. Póstferðir voru bara einu sinni í mánuði, þá skrifuðu menn sín jólabréf til vina eða vandamanna. Ekkert útvarp. Ég er að lýsa árunum frá aldamótum til ársins 1920. Það var aldrei jólatré eða skraut fyrr en eftir þann tíma.

Á Þorláksmessu var oftast mjólkurgrautur, þykkur með blóðmör og lifrarpylsu. Þá var borðað þrímælt. Fyrst á morgnana var drukkið heitt te, vatn með mjólk eða kaffi. Eftir morgunmjaltir var vökvun, bygggrautur eða hræra með þurrkuðum þorskhaus og stundum smá brauðbita með hræring eða floti. Um hádegi var molakaffi. Milli kl. 3-4 var aðal máltíð, soðinn saltfiskur með rófum eða kartöflum, stundum hafrasúpa. Kl. 5 var molakaffi. Eftir kvöldmjaltir var bygg eða hafragrautur með súrsuðu slátri. Á aðfangadag var oftast steiktar rjúpur í miðdegismat, þykkur hrísgrjónagrautur með rúsínum útálát, kanel og sykur, mandla í graut þekktist ekki. Á jóladag var æfinlega kalt hangikjöt með kartöflustöppu. Ef lítið var til af kartöflum voru soðnar makkarónur í hvítri sósu þykkri, kryddaðri með múskati og pipar. Á eftir var sveskju eða rauðgrautur með rjóma. Á annan í jólum voru sperlar og sætsúpa. Með öllum jólamáltíðum voru laufabrauðskökur.

p12
Gyðingakökur, hálfmánar, málsháttakökur og lagkökur, jólarúsínukökur, brúnkökur með rúsínum og súkkati, randakökur með sultu og kremi. Aldrei drukkið nema vatn með mat. Öl og gosdrykkir þekktust ekki. Á aðfangadagskvöld var lesinn lestur og sungnir jólasálmar en oftast voru allir svo yfir sig þreyttir eftir allt umstangið og erfiði við bakstur og ræstingu að það var ekki vakað fram eftir á aðfangadagskvöld. Á jóladag þurfti að gera vanaleg heimilisverk, verka ösku úr eldfærum og kveikja upp, hreinsa lampa og fylla af olíu. Síðan komu frændfólk og vandamenn í heimsókn og þá þurfti að sjá því fyrir beina, bæði í mat og drykk. Svo var farið í leiki, pantleik, fríleik, skollaleik og fl. Svo var spilað á spil. Oft spilað púkk, þá var notað í gjaldeyri óbrenndar kaffibaunir. Það vildi gefast illa að hafa hnetur og rúsínur, vildu tína tölunni svo var vinsælt að spila hjónasæng, einkum meðal yngra fólks. Líka var spilað gamla jómfrú. Ekkert jólatré á heimilum, jólasveinar eða þess háttar. Fullorðna fólkið fylgdist með börnum og unglingum. Þó voru nokkrir eldri sem spiluðu vist eða lomber. Engar opinberar skemmtanir. Áramótin voru með sama sniði og jól í mat og drykk en unglingar drógu saman spýtnarusl ofl. settu upp og kveiktu í á áberandi stað. Brennan varð að vera útbrunnin fyrir kl. 12. Ekki mátti brenna nýja árið. Fyrir kom að dansað var þar sem húspláss leyfði, ef ekki fékkst neinn með harmónikku þá var spilað á hárgreiðu og allir sungu og trölluðu með. Aldrei var selt inn á þessar samkomur.

p13
Á þrettánda var stundum haldin skemmtun. Þá var seldur aðgangur, 0.25 aura fyrir fullorðna. Þá var leikið smá leikrit, Frúin sefur, Trína í stofufangelsi og svo var Happið ákaflega vinsælt. Fólk kom af næstu bæjum og svo var dansað á eftir. Oftast fór hver heim til sín eftir þessar skemmtanir þó liðið væri á nótt.

C. Árið 1912 byggði verkamaður á Rhöfn, Ísak Friðriksson, hús. Veggir voru steyptir á þrjá vegu en einn veggurinn var hlið á íbúðarhúsi Ísaks. Þrír gluggar voru á norðurhlið, einn stór á austurstafni. Inngangur á vesturstafni. Trégólf var í húsinu sem hefur verið um tólf álnir á lengd en 8 al á breidd. Styrktarbjálkar voru þvert yfir húsið og ris yfir. Veggir að innan voru pússaðir en aldrei málaðir. Bekkir voru hringinn í kring í húsinu, engin snyrtiaðstaða. Þetta þætti ekki fullkomið núna en þarna var dansað og leikið, svið var búið þannig til að síldarstampar voru settir á hvolf í öðrum enda hússins, borð lögð ofaná og eitthvað fest en maður varð að ganga varlega um sviðið til að engin fjöl sporðreistist. Þarna var svo útbúið svið það sem hæfði því leikriti sem flutt var. Segl eða einhver teppi voru höfð til að draga fyrir sviðið. Allt var þetta mjög frumstætt og ófullkomið en samt naut fólk þess sem sýnt var og skemmti sér prýðilega. Kór söng þarna nokkrum sinnum og svo voru auðvitað tombólur, bögglauppboð og dans. Fólk á næstu bæjum frétti strax ef verið var að undirbúa skemmtun svo það þurfti ekki að auglýsa sérstaklega. Pappaspjöld voru fengin í verslunum, klipptir út úr þeim miðar á stærð við frímerki, skrifað á þá hvað kostaði inn á ballið, leikinn, sönginn eða hvað það nú var. Venjulega var byrjað um kl. 19 til 20, stundum seinna, fólk á sveitabæjum þurfti að ljúka mjöltum og kvöldgjöf áður en það gat farið að heiman en fæstir áttu lengri en kl.tíma ferð á skemmtistað. Allir fóru heim að lokinni skemmtun og lentu ekki í neinum hrakningum.

p14
Menn voru misfimir í dansi en allir kunnu eitthvað. Á dansleikjum var dansað vals, marsurka, ræll, vínarkrus, fingrapolki, óli skans, svensk markerade og svo var auðvitað mars með ótal tilbrigðum, útávið, innávið, nafnakalli, blómaheitum, sextur og mörgum fleiri tiltektum en vinsælastur var marsurki, einfaldur og tvöfaldur. Herrarnir hneigðu sig afar virðulega og það gerðu dömurnar líka og sjálfsagt var að leiða dömuna til sætis. Vangadans þekktist ekki. Ungar stúlkur voru ýmist í kjólum eða peysufötum. Allir mættu á blankskóm, stundum kannski lánuðum og með lánað hálstau. Stúlkurnar voru með uppsett hár fínt krullaðar, alltaf var hægt að fá lánuð krullujárn bæði bylgju og lokkajárn. Dansleikir voru bara einu sinni til tvisvar á vetri. Áfengi þekktist ekki og hefði þótt óþolandi hneisa. Konur eða stúlkur brögðuðu ekki áfengi, ég man aðeins eftir tveim stúlkum sem ég heyrði getið um sem eitthvað supu en þær voru í annari sveit. Furðu margir spiluðu á og áttu harmonikkur. Voru það áhrif frá norskum sjómönnum sem héldu til yfir sumarið á Rhöfn. Hljómsveitir þekktust ekki en fyrir kom að spilað var á orgel fyrir dansi og furða hvað menn kunnu af allskonar danstónum. Gamall dans skottis var mikið iðkaður. Svokölluð síldarböll voru í brökkum sem norðmenn byggðu fyrir sína starfsemi en þangað kom ég aldrei.

p15
D. Félagsskapur var enginn, að vísu heyrði ég getið um stofnun íþróttafélags Sléttunga en starfsemi þess var lítil og það lognaðist fljótt útaf. Kvenfélag var stofnað 1916-17 og starfar enn. Lestrarfélag var til og átti eitthvað lítilsháttar af bókum en svo óheppilega vildi til að húsið sem bækur félagsins voru geymdar brann og flestallar bækur sem það átti og það liðu allmörg ár þar til annað lestrarfélag var stofnað. Við vorum ekki alveg bókalaus því á hverju hausti fengum við bókakassa frá amtsbókasafninu á Akureyri, allt úrvalsbækur en allar á dönsku, norsku, svensku og jafnvel þýsku. Fóstra mín hafði verið í Þýskalandi, talaði og las þýsku. Ég las allar barnabækur á dönsku, Hans og Grétu, Snehvide, Robinso Cruso, HC-Andersen, Zakarias, Topelius, Jules Verne, Kaft ...., Bjornsterne Bjornson, Kill-land, Lee, Knut Hansum og þar kynnist ég Tonekunstens mestre og mörgum fleiri. Annar félagsskapur var ekki stofnaður fyrr en löngu seinna. Slysavarnadeild kvenna stofnuð 1940 karladeild seinna, starfa enn. Íþróttafélag Sléttunga gaf út handritað ársrit sem hét Græðir en það hætti þegar menn fóru að skrifa í blaðið aðfinnslur um náungann og það sem miður þótti fara í framkomu og gerðum fólks.

E. Trúarlíf. Sveitakirkja var á Ásmundarstöðum, annexia frá Svalbarði í Þistilfirði þar sem prófastur bjó sr. Páll Hjaltalín, fluttist seinna til Rhafnar, var giftur frú Ingveldi Einarsdóttur. Kirkja var vígð á Raufarhöfn á nýársdag 1928, steinkirkja sem þeir byggðu Yngvar Jónsson og Kristinn Bjarnason. Frú Guðrún Sigríður Guðjónssen gift Sveini Einarssyni kaupmanni á Rhöfn spilaði við messur í Ásmundarstaðakirkju að jafnaði ekki æfinlega.

p16
Einnig í Raufarhafnarkirkju en starfið var ólaunað. Kirkjusókn og trúarlíf var ekki öflugt en oft ágætur söngur. Hátíðasöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði voru sungnir á stórhátíðum og var það mest að þakka óeigingjörnu starfi fr. Guðrúnar. Útvarpstæki áttu menn ekki almennt fyrr en löngu seinna eða eftir 1940 enda ekki komnar endurvarpsstöðvar og í útvarp Reykjavík heyrðist aðallega urg og ýl, garg og gól. Fólk fór til kirkju á hátíðum, við fermingar og jarðarfarir. Í Ásmundarstaðakirkju var kór. Þar sátu eingöngu karlmenn en það lagðist niður þegar nýja kirkjan kom á Rhöfn. Engir sérstakir bekkir ætlaðir neinum sérstökum nema við jarðarfarir. Alveg sama hvort menn sátu framarlega eða aftast. Allir voru jafnháir eða lágir. Enginn trúflokkar þekktust, allir voru skírðir til þjóðkirkjunnar og þó þeir sæktu ekki messur að jafnaði fór enginn að fetta fingur útí það. Allir borguðu nefskatt. Eitt sinn kom maður frá hjálpræðishernum en hann fór svo búinn aftur. Farandpredikarar komu aldrei enda langt norður á sléttu og vegir slæmir. Fólk almennt bæði kyn skemmtu sér saman án þess að vera með einhverjar trúargrillur, mjög fáir höfðu vín um hönd, helst gamlir karlar en talsvert margir notuðu tóbak, reyktu eða tuggðu skrå.

F. Ég er nú búin að segja frá fatnaði fólks, hvernig það klæddist á hátíðum og skemmtunum.

p17
Hversdags gekk allur almenningur á sauðskinnsskóm þar til gúmmískór komu til sögunnar sem ekki var fyrr en bílaöld byrjaði. Þá varð það hálfgerður heimilisiðnaður að sníða og líma skó úr gúmslöngum, leiðinlegt skóbragð en entist mun lengur en íslensku skinnskórnir. Karlmenn gengu mikið í trollarabuxum sem komu í búðir, svellþykkar, hlýjar. Eftir að kvenfélagið keypti þrjátíu þráða spunavél og prjónavélar komu á heimili var mikið gengið í ullarnærfötum, ullarpeysum. Stúlkur gengu í dökkum kjólum en flestar áttu dúk eða mislita lérefts eða sirs svuntur sem notaðar voru daglega þegar verstu verkin voru búin. Fullorðnar konur voru í dökkum pilsum og aðskornum treyjum, hnepptum að framan oft með fallegum hnöppum, eldri konur gengu oft með skotthúfu daglega. karlmenn gengu með húmbug, það var speldi sem hneppt var um hálsinn að aftan með smá flibbahornum og bindi notað við vesti sem hneppt voru nokkuð upp á bringu. Allar þær lýsingar sem ég hef krotað á þessi blöð eru miðaðar við tímabil frá aldamótum fram til 1920. Þá er að vísu kreppa og vöntun á öllum þeim lífgæðum sem við búum nú við og hefur breytt lifnaðarháttum og hugsunum fólks sumt á betri veg ekki þó eingöngu en margt af gömlum hugsunum og siðum sitja í okkur gamla fólkinu sem við losnum ekki við og kærum okkur ekkert um það. (Sleppt úr Skemmtanahald á Sléttu á árunum 1910 til 1920)

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana