56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf
Nr. 7660
p1
Heimildarmaður: Guðrún
Snjólfsdóttir FD: 17 12 1904 Svörin miðast við Lón og Nesjasveit, A-Skaft.
Skírn. 1.
Skírn fór alltaf fram í heimahúsum. Í Lóni voru vötnin sá farartálmi að
enginn leið var að fara með lítið barn yfir, þessvegna voru þau skírð í
heimahúsum. Ef barnið var veikt var prestur sóttur og skírt heima.
Börn voru færð í skírnarkjól. Ekki sá ég húfu. Ég man þessa
athöfn frá því ég var barn að aldri. Lítill drengur skírður heima í Krossalandi.
Guðfaðir og guðmóðir voru oftast einhver eldri maður
á heimilinu og ljósmóðirin sem stundum hélt barninu undir skírn, sungnir
skírnarsálmar. Hvað guðfeðgin skiptu sér af barninu heyrði ég aldrei. Einhver
dagamunur í mat og drykk, ættingjar komu ef fært var vegna vatna og veðurs.
Gjafir voru fáar, ríkur frændi gaf lamb þó mun það
hafa verið sjaldan. Stundum var barninu gefinn silkiklútur eða silfurskeið.
Í Canada sá ég gamla silfurskeið sem átt hafði Guðrún
Einarsdóttir frá Skógum undir Eyjafjöllum. Þar var hún í eign gamallar
konu með sama nafni ártalið man ég ekki. Skeiðina fékk hún í skírnargjöf
og ættargrip. Annars var lítið um gjafir hjá fátæku fólki. 2. Í
Lóni vissi ég ekki annað en öll börn væru skírð. Þótti jafnvel breytast
til hins betra ef lítil börn voru kvillasöm og varð mörgum eftir trú sinni.
Þá var prófastur séra Jón Jónsson frá Melum í Hrútafirði,
sat á Stafafelli, honum hefði ekki líkað fráhvarf í kristnum siðum enda
kom aldrei til þess. Um ástæður til þeirrar breytni
að láta ekki skíra veit ég ekki nema stundum var látið bíða eftir næsta
barni.
p2
Afmælisdagar. 1.
Ef börn ólust hjá foreldrum sínum var gerður dagamunur í mat og
drykk fyrir allt heimilisfólkið. Gjafir þekktust lítið og ef var eitthvað
þá var það mjög smálegt. Þá fengust engin barnagull í verslunum en smiðir
(hagleiksmenn) smíðuðu hesta, kýr og kindur. Mátti þar oft sjá fallegt
handbragð og börn voru ánægð. Í seinni tíð er allt breytt, miklar og dýrar
gjafir á boðstólum og haldið upp á afmælin á annan hátt en áður fyrr. Yfirleitt
haldið upp á afmæli allra frá bernskutíð til elliára. Þá gefnar góðar og
merkar bækur og blóm. Til skemmtunar voru samræður fólks sem sást sjaldan,
stundum spilað á spil. 2. Afmæli fullorðins fólks var dálítið á
annan veg, þá komu ættingjar og gamlir kunningjar.
Miðað við aldur voru afmælisárin 50 ára, 60 ára, 70, 80, 90. Matur fjölbreyttur,
svo kaffi með stóra afmælistertu og ótal kökusortir og fleiri tertur svo
allir fóru saddir og sælir. Gjafirnar mest bækur og blóm.
p3
Ferming. 1.
Fermingarundirbúningi var þannig háttað. Við gengum til prestsins á hverjum
sunnudegi, byrjað í mars, oftast gangandi því ís var á Jökulsá í Lóni.
Ég var eina barnið á bænum, átti gott atlæti hjá vandalausu fólki svo ég
var aldrei látin fara ein. Prestur hlýddi okkur yfir biblíusögur og kver
og lét okkur læra sálma. Um föt er það að segja að
við fengum falleg föt. Þau voru saumuð heima handa piltum og stúlkum. Við
stúlkur fermdumst í skautbúning sem var aðeins í kirkjunni eða þar til
fólk bjóst til heimferðar. Þá fórum við í okkar eigin fermingarföt. Þá
voru ekki fermingarkirtlar fyr en löngu seinna, þessi ferming var 29. maí
1919. Mamma mín og tveir bræður komu og drukku súkkulaði
og kaffi með okkur, faðir minn dó þegar ég var 7 ára. Einhverjar gjafir
fékk ég sem voru ekki komnar á staðinn svo sem úr með silfurfesti, 8 fermingarkort
og var ánægð. Ef ekki var haldin smáveisla var það
vegna veikinda eða annara orsaka. 2. Þegar dóttir mín fermdist,
hún er fædd 1932, þá voru margir ættingjar og vinir í veislunni. Þá vorum
við hér á Höfn og allt annað viðhorf til flestra hluta. 3. Ekki
var það algengt og þekktist ekki í Lóni að börn væru ekki fermd enda hefði
það verið litið óhýrum augum af ættingjum og sveitungum. Breytingar voru
ekki miklar eftir fermingu að öðru leyti en því að lögð voru þyngri störf
á unglinginn. Veit ég um stúlku sem var látin vinna eldhússtörfin daginn
eftir fermingu. Þar voru 20 manns í heimili, hún vann sína viku í eldhúsinu
eins og eldri vinnukonur.
p4
Próf. 1. Í
mínu ungdæmi var aðeins farskóli. Þegar ég var 13 ára var enginn kennari
í Lóni. Heimafólk setti börnum fyrir að lesa skólabækurnar. Samt vorum
við prófuð. Það voru tveir menn sem prófuðu sem höfðu áður kennt börnum.
Þá tók ég fullnaðarpróf. Skólaslit voru engin því engin skóli var. Við
prófuð eftir messu á Stafafelli, ekki öll í einu, bara eftir því hvort
fært var yfir Jökulsá. Engin veisla, engar gjafir.
Trúlofun. 1.
Ástin dró unga fólkið saman sem kynntist þar sem það var í vinnu eða á
samkomum sem voru næsta fáar. Á heimilum var alltaf margt fólk. Á stafafelli
voru um 20 manns í heimili og þaðan giftust jafnvel tvenn brúðhjón í einu
og fóru að búa ef eitthvert kot losnaði. Hringar pantaðir frá gullsmið
eftir að mál var tekið af fingrum á pappírsræmu og stafirnir skrifaðir
á. Þeir voru alltaf úr gulli. Áður var unnustinn jafnvel búinn að gefa
sinni heittelskuðu minnispening í sifurfesti til að hafa um hálsinn. Alltaf
stóðu þar falleg orð. T.d. gleym mér ei. Þessir peningar voru alltaf úr
silfurkrónum. Hringarnir voru settir upp á hátíðum eða afmælisdögum eða
sumardaginn fyrsta. Sérstök veisla var haldin ef efnaðar ættir bundust
saman ef allt var í sátt og samlyndi á báðar hliðar. Fátækt vinnufólk hafði
engar ástæður til veisluhalda í því tilefni. Þeirra hjónabönd entust allt
eins vel. 2. Trúlofun mín og Ragnars míns var á heimili móður hans
og ákaflega fínt kaffiborð. Við buðum engum, bara heimilisfólkið. Sama
var með dóttur mína, þau opinberuðu heima hjá okkur án veisluhalds.
p5
3. Lengri
aðdragandi trúlofunar mun hafa verið lengri en nú sem mun hafa verið til
góðs ef um vinnuhjú var að ræða sem búin voru að vera saman jafnvel nokkur
ár. Var betra að átta sig á skapgöllum og lunderni hvers einstaklings og
fór þetta oftast vel og skilnaðir þekktust varla en nú hleypur fólkið saman
án nokkurs kunningsskapar og hjónin bera enga virðingu hvort fyrir öðru.
4. Ekki heyrði ég um neinn ákveðinn tíma frá trúlofun til giftingar
og fór það eftir ástæðum. Ef um vinnufólk var að ræða sitt á hvorum bæ
var miðað við að losna úr vistinni á Krossmessu. Svo voru oft ljón á veginum,
fátækt og fleira. Trúlofun var ekki látin nægja það ég vissi til. 5.
Ef hjónaefni vildu láta gifta sig í kirkju fór fram lýsing til hjónabands
3 sunnudaga í röð í sóknarkirkjunni þá jafnvel spurt um meinbugi. Því er
löngu hætt en gamalt fólk hafði frá slíku að segja. Ég man vel eftir kirkjubrúðkaupi
og var þá ung þegar eldri systir mín giftist. Síðan hef ég verið við hjónavígslu
í Kópavogskirkju.
p6
Gifting. 1.
Gifting fór aldrei fram hjá sýslumanni eða bæjarfógeta hér í sveitum. Hér
var enginn sýslumaður, hann sat á Kirkjubæjarklaustri, seinna í Vík í Mýrdal.
Á seinni árum hefur sýslumaður Skaftafellssýslu haft aðsetur á Höfn og
mun hann hafa aðstoðað unga fólkið að komast í hjónaband. Áður fóru allar
hjónavíglsur fram í kirkju eða heimahúsum. Sóknarpresturinn gifti, sungnir
hjónavíglsusálmar og allt fór vel fram. Borgaralegar giftingar þekktust
ekki. Í Stafafellskirkju var þil á milli framkirkju og kórs. Í kór sátu
karlmenn en konur í framkirkju. Brúðhjón sátu þá nálægt kórdyrum þar til
meðhjálpari eða einhver nákominn t.d. faðir leiddi þau upp að altarinu
þar sem hjónavígslan fór fram. Brúðhjónin voru klædd í sitt besta skart
konan oftast í fallegum skautbúningi eða þá nýjum peysufötum, oftar þó
í skautbúningi. Karlmaðurinn í nýjum fötum sem voru svo lengi spariföt
sem enginn hneykslaðist á. Þá var tískan ekki eins harður skóli og nú á
dögum, meira hugsað um að sjá fótum sínum forráð efnahagslega ef unnt var.
p7
2. Alltaf
voru haldnar veislur á brúðkaupsdaginn, ekkert sparað til góðra veitinga
og gleðskapar. Presturinn mælti fyrir minni brúðhjóna, stundum orti hann
ljóð sem sungin voru í veislunni, ekkert sparað til gleðskapar.
Ég var 7 ára í veislu systur minnar og hennar manns, þá giftust
einnig önnur hjón líka. Veislan var á prestsetrinu Stafafelli. Þar var
margt fólk og margt til skemmtunar, söngur og dans. Ég
hugsa að hvorttveggja brúðhjónin hafi lagt allt efni í veisluveitingar.
Þau voru hvorttveggja vinnuhjú á Stafafelli. Boðið var ættingjum og vinum.
Ekkert veit ég um gjafir þar. Heillaskeyti þekktust ekki þá hjá almúga
fólki. Giftingar fóru venjulega fram á laugardögum,
þó oftar á sunnudögum. Heyrði ekki talað um aðra daga, vissi þó að yngri
systir eins brúðgumans fermdist á Hvítasunnu. Á eftir giftist bróðir hennar
sem var á heimilinu í heimahúsum því konan var ekki vel frísk. Það var
mikil veisla og skemmtun. 3. Ég giftist 1926 í húsi tengdamóður
minnar og frændfólks mannsins míns. Boðið var móður minni, systkinum mínum
og hans frændfólki og því fólki sem ég var uppalin hjá. Við fengum falleg
matar og kaffistell og margt fleira fallegt. Ekki skeyti en falleg kort
tilheyrandi brúðkaupsdegi. Séra Ólafur Stephensen gifti okkur. Ég var í
skautbúningi. Dóttir okkar og hennar maður giftust
heima hjá okkur, veisla bara fyrir heimafólk því ættingjar mannsins voru
norður á Vopnafirði. Prestur var séra Rögnvaldur Finnbogason.
p8
4. Ef fólk
giftist ekki gátu legið til þess margar ástæður. Bann foreldra, óánægja
í garð tilvonandi maka, fátækt, stundum breyting á ástinni, hún missti
máttinn, annað betra birtist. Vísu lærði ég fyrr á árum, lagið var danslag
og mikið spilað. Hringurinn sem þú gafst mér hann passaði mér svo vel ég
skila þér honum aftur, ég þarf hans ekki með út á lífsins veg, hefurðu
manað mig. Ég skal aldrei giftast þér. 5. Haldið var uppá silfur
og gullbrúðkaup. Þar komu ættingjar og vinir, sumir fluttu ræður í tilefni
dagsins. Alltaf miklar og góðar veitingar. Ég var fullorðin er ég sat slíka
veislu. Það voru hjón sem áttu mörg börn í fátækt en unnu sig upp í öllum
greinum, gestrisin, hjálpsöm, öllum þótti þar gott að koma og börnin greind
og myndarleg og urðu góðir þjóðfélagsþegnar, eins allir þeirra afkomendur.
p9
Andlát og útför.
1. Á þeim árum er fólk dó oftast á heimilum sínum, líkið var þvegið,
fært í hrein föt, síðan borið út í skemmu. Líka stóðu lík uppi í stofu
á heimili sem nóg pláss var. Þá var sett hreint vatn í ílát og opnaður
gluggi. Venjulega stóð líkið uppi í viku. Áður en kistulagt var voru saumuð
líkklæði og búið vel um í kistunni, oft látið bænakver opið á brjóst líksins,
hafði sá dáni oft lesið í því og óskað eftir að það yrði látið fylgja sér.
Síðan var sunginn sálmur, krossað yfir líkið og lokið skrúfað á. Ekki vissi
ég að vakað væri yfir líki. Lík húsbænda eða ættingja stóðu uppi í stofu.
2. Ég er þegar búin að lýsa því. Góðir smiðir smníðuðu líkkistur,
misjafn var þó verk á þeim. Hér í Lóni, Nesjum, Mýrum smíðaði Björn Eymundsson
flestar líkkistur. Þær þóttu bera af. Oft hafði sá látni verið búinn að
biðja um að hann smíðaði utan um sig. Fyrstu kistur sem ég man eftir voru
svartar oft með silfurbronsi, síðar komu hvítar. Blóm og kransar voru ekki
fyrst þegar ég man eftir. Ekki man ég ártalið þegar ég sá þá fyrst. 3.
Húskveðjur voru alltaf á sveitabæjum, þeim bæ sem maðurinn hafði
dvalið á. Prestur flutti kveðjuorð og sálmar sungnir, líkkistan bundin
uppá reiðing, hest, líkmenn sáu um það. Ef yfir straumvatn var að fara
riðu þeir meðfram hestinum. 4. Gamalmenni sem voru á sveit og áttu
ekki ættingja á lífi voru jarðaðir án húskveðju eða ræðu í kirkju eða við
gröf. Ég heyrði um þetta talað og þekkti eina konu sem þannig var grafin,
hafði þó aldrei brotið landslög, unnið með trú og dyggð.
p10
5. Venja var
að klæðast dökkum fötum fyrst þegar ég man eftir. Svo breyttist það og
fólk klæðist því sem það vill. Í sveitum þar sem allir þekktust komu alltaf
einhverjir frá bæjum sveitarinnar. Stundum allt heimilisfólkið svo auðvitað
ættingjar og vinir. 6. Alltaf voru erfisdrykkjur haldnar á heimili
hins látna. Í seinni tíð þar sem margt fólk hefur flutt í kauptún eða aðra
fjölmenna staði eru fengnir samkomusalir til erfisdrykkjunnar þar sem húspláss
heimilis myndi ekki ekki duga. Veitingar voru kaffi með allskonar brauðsortum.
Í sveitum fengu líkmenn ævinlega að borða áður en lagt var á stað til grafarinnar.
Fyrst til kirkju. Þegar komið var að kirkjugarðshliði og líkmenn báru kistuna
inn í garðinn var alltaf sungið þetta vers úr Passíusálmi Hallgríms Péturssonar,
Jurtagarður er herrans hér, helgra guðbarna legstaðir. 7. Þegar
börn dóu kom heimilisfólk og ættingjar saman. Þá voru veitingar fyrir það
fólk í heimahúsum. 8. Legsteinar voru á stöku leiðum, stórir steyptir
og vildu falla eftir nokkur ár. Síðar komu minni og einnig krossar. Ekki
þekktust hér grafhýsi. 9. Blóm og kransar þekktust ekki þegar ég
var ung. Seinna bjuggu konur til kransa úr lyngi og settu blóm í af stofujurtum
eða tilbúin pappírsblóm. Nú eru mörg ár síðan kransar voru keyptir frá
Reykjavík. Nú má sjá marga kransa á einni kistu. Eftir að rafmagnið kom
voru ljós á fjölda legstaða, hverjir byrjuðu veit ég ekki. Leiðin voru
alltaf skreytt ljósum á jólum.
p11
Árstíðabundnar hátíðir.
1. Fyrsta almenna þorrablóti man ég fyrst eftir hér á Höfn. Kvenfélagið
Tíbrá stóð fyrir því. Ég var í stjórn kvenfélagsins og einnig í skemmtinefnd.
Matur var hangikjöt, kartöflujafningur, brauð og smjör, ávaxtagrautur með
rjóma, kaffi og allskonar fínar kökur og tertur. Til skemmtunar var söngur,
ræður, þar mæltu snjallir ræðumenn. Síðan stiginn dans af miklu fjöri,
allir skemmtu sér hið besta án víns. Með matnum voru gosdrykkir, líka eftir
að dansinn byrjaði ef menn urðu þyrstir. Síðan hafa þorrablót verið í öllum
sveitum með líku sniði, meira um súrmat og hákarl. 2. Það er í Lónssveit
sem þannig hagar til að sól sést ekki í langan tíma. Bæirnir eru Syðri
Fjörður og Efrifjörður. Í Syðra Firði bjó um tíma Eiríkur Guðmundsson frá
Hoffelli. Í Syðrafirði orti hann þessar vísur.
Mikaels frá messudegi,
miðar Góu til í Syðra Firði sest það tímabil.
Við að þreyja í þessum
skugga þykir mörgum hart samt er á mínum sálarglugga sæmilega bjart.
Fyrst þegar sól sást skína á einhvern blett í landareigninni var drukkið
sólarkaffi og er þeim sið haldið. Í Efrafirði sést hún aðeins fyr og einnig
drukkið þar sólarkaffi og pönnukökur með þeyttum rjóma. Þetta var aðeins
á þessum bæjum í Lóni. Hér á Höfn er svo mikið víðsýni að ekki skyggir
á sól svo hér kemur ekki til veisluhalda í því tilefni.
p12
3. Bolludagur
var skemmtun unglinga, farið snemma á fætur, reynt að laumast að þeim sem
ekki voru vaknaðir. Fyrst var hrísvendir síðar voru þeir skrautlegri. Um
að gera að geta flengt og fá bollu að launum Í seinni tíð fá allir rjómabollur
á bolludaginn án þess að vera flengdir. Ekki þekkti ég vísur eða spakmæli
í tilefni dagsins. Sprengidagur var alltaf haldin mikil
átveisla, feitt kjöt, bringukollar, hangikjöt, rúgbrauð og stórt smjörstykki,
stundum þykkur bankabyggsgrautur með smjöri útí. Vísu kann ég tilheyrandi
sprengidegi, hann er alltaf á þriðjudegi. Á þriðjudag í föstuinngang það
hafi menn í minni þá á hver að falla í fang á þjónustunni sinni.
Öskupokar voru alltaf fyrir hendi á öskudag og mikil spenna,
láta sem flesta bera poka. Það voru stelpur sem störfuðu í því, saumuðu
pokana, jafnvel saumuðu rósið í þá. Strákar reyndu að koma hellu á stelpurnar.
Annars var ekki farið í manngreinarálit með þessa rausn. Aldrei heyrði
ég samt að prestar og hreppstjórar væru heiðraðir með slíku. Svo voru líka
til karlar sem brugðust reiðir við og fannst þetta óvirðing. 4.
Ekkert tilstand, grímubúningar, sníkjur eða kattarslagur þekktist ekki
hér. Ekki veit ég hvenær börn fengu frí í skóla vegna öskudags, alls ekki
á meðan farskólar voru. 5. Fólk var oft látið hlaupa 1. apríl. Það
komu skilaboð frá konu eða karli um að finna sig strax á einhvern afvikinn
stað. Þá var þar enginn maður eða sækja eitthvað sem mikið lá á og ekkert
var þar.
p13
6. Á páskadag
var unnið eins og venjulega fyrri part dags. Seinni part dagsins var nokkur
helgi, lesin hugvekja og sungnir sálmar í tilefni dagsins.
Á föstudaginn langa voru aldrei unnin nema nauðsynlegustu verk. Eldhúsverk
lítil því búið var undir hátíðisdagana, bakstur og þvottar svo dagur var
haldinn helgur. Fólk fór til kirkju eða las í bókum heima. Aldrei spilað
á spil þann dag. Á skírdag man ég eftir að var eins
og venjulega á sunnudögum. Á föstudaginn langa var brauð og smjör og hangikjöt
og alltaf fínt brauð á borðum með kaffi. Mikið helgi hvíldi yfir, þeim
degi klæddist fólk betri fötum. Á páskum var hlustað
á útvarpsmessu. Áður en útvarp kom var alltaf lesið í húslestrarbók og
sungnir páskasálmar. Einnig farið til kirkju ef veður og vegir leyfðu.
Til matar var eins og á föstudaginn langa, hangikjöt, brauð og smjör og
sveskjugrautur á eftir, kaffi og brauð. 7. Páskaegg þekktust ekki
í mínu ungdæmi, ekki á þann hátt sem nú eru á boðstólum, þótti ágætt að
fá soðin hænuegg. Þau voru eki skreytt, allir voru ánægðir að fá góðan
mat. Eins og allir vita eru þau páskaegg sem allstaðar eru í búðum mikið
skreytt og svo eru málshættir oft góðir. Þessi egg munu mest fyrir börnin,
ég hef heyrt að þau hlakki mikið til og forvitin eru þau hvort mamma hafi
ekki keypt stór páskaegg því venjulega eru þau falin og ekki tekin fram
fyrr en á páskamorgun.
p14
8. Altaf var
fagnað fyrsta sumardegi. Ef veðrið var gott varð fögnuður fólksins meiri,
vetrardrunganum létti og vonin um bjartari og betri daga lifnaði í hjörtum
manna og skepnur brugðu á leik. Alltaf minnist ég fyrstu vísunnar sem skrifuð
var sem forskrift í skrifbókina mína. Ljósið loftið fyllir og loftin verða
blá vorið tónum tyllir tindana á. Mörg voru þau fallegu sumarkvæðin
eftir okkar góðu skáld. Alltaf fer ég með kvæði Matthíasar á sumardagsmorguninn
fyrsta. Kom heitur til míns hjarta, blærinn blíði. Hjá
fátæku fólki var lítið um matarbirgðir á vorin, alltaf voru þó bakaðar
pönnukökur. Sumargjafir þekkti ég ekki en þá voru algeng falleg sumarkort,
Gleðilegt sumar og á hverju korti falleg vísa tilheyrandi sumrinu.
Barnaskólapróf var oftast á sumardaginn fyrsta. Nú er þetta
allt breytt og aðrir tímar með allar skemmtanir af ýmsu tagi. Nú er ekki
hlaupið í skörðin eða eitt par fram fyrir ekkjumann. Það virðist mér hafa
verið hollari skemmtun en það sem nú er auglýst fyrir unga fólkið.
p15
9. Fyrsti
maí. Það var enginn sérstakur dagur í mínu ungdæmi. Hann kom og fór sem
aðrir dagar án hátíðahalds. Seinna varð hann frídagur verkamanna, þá gengu
menn um göturnar með fylgtu liði og báru rauða fána og sungu um Roðann
í austri. Ekki man ég hvaða ár þetta byrjaði hér, mun þó nálægt 1929-30.
Ræðuhöld og veitingar voru í seinni tíð og viðeigandi söngur í tilefni
dagsins. Margir hneyksluðust mest á rauða fánanum og Rússadýrkun framámanna,
ekki á fríi verkamanna. Nú er þetta látið afskiptalaust síðan Stalín féll
frá og fleiri hafa kynnst daglegu lífi í Rússlandi. 10. Lokadagurinn
var haldinn þegar vetrarvertíð lauk. Þá áttu allir sjómenn frí og einnig
þeir sem í landi unnu við fiskverkun. Þá var ekkert haldið upp á þann dag
nema einhver breyting í mat. Aftur á móti klæddust sjómenn betri fötum,
fóru síðan á fund Bakkusar. Héldu síðan fjörugt lokaball sem stundum endaði
með því að sumir vildu gera upp gamlar sakir við náungann. Engin lögregla
var hér fyrst. Engin slys urðu og menn lifðu í sátt og samlyndi eftir sem
áður. Það hefur svo margt breyst í seinni tíð sem ég fylgist ekki vel með.
p16
11. Uppstigningadagur
líktist mest sunnudegi í mat og drykk. Alltaf lesinn tilheyrandi lestur
og sungnir sálmar. Stundum var ferming barna þann dag og þá fermingarveisla
sem setti meiri hátíðablæ á daginn. Ekki veit ég um neinar breytingar frá
þeim tíma. Þó geta þær verið. 12. Hvítasunna var alltaf haldin hátíðleg
á allan hátt í mat og drykk og húslestrum og sálmasöng. Alltaf fóru einhverjir
af heimilinu til kirkju því venjulega voru alltaf fermd börn á hvítasunnu,
ef það var gert aðra helgidaga þá lágu einhverjar orsakir til þess. Svo
fór fólk til kunningja sinna seinni part dags eða á annan í hvítasunnu
sem einnig var haldinn helgur, ekki unnin nema nauðsynleg verk. Ekki man
ég eftir neinum útihátíðum, frekar var að sjónleikur var sýndur eftir að
fundarhúsið var byggt 1912. Matur var eins og á öðrum hátíðum. 13. Ekki
veit ég hvenær var farið að halda uppá sjómannadaginn, þó munu nokkuð mörg
ár síðan því 1970 var maðurinn minn heiðraður með ræðu og fékk merki sjómannadagsins.
Þá var fyrir nokkrum árum búið að heiðra sjómenn þó ég muni ekki ártalið.
Skipstjórar og útgerðafélög héldu stórar veislur á Hótel Höfn, ræður fluttar,
kórsöngur og dans. Svo var kappróður á höfninni, allir bátar fánum skreyttir
og siglt með yngri kynslóðir út fyrir Hornafjarðarós. Þótti þeim sem aldrei
höfðu á sjó komið mikil skemmtun í slíku ferðalagi. Margt fleira til skemmtunar.
p17
14. Alltaf
var haldið upp á 17. júní eftir 1944. Menn létu smíða flaggstangir á hús
og garða og íslenski fáninn dreginn að hún, engin vinna þann dag. Þá voru
íþróttir og aðrar útiskemmtanir, söngur og dans. Eitthvert félag seldi
kaffi í Lindarbæ. Allir skemmtu sér sem best þeir gátu. Fyrir íþróttum
stóðu íþróttafélög sýslunnar. 15. Jónsmessunni fylgdi bara frjálsræði
fólksins. Það fór í útilegu eða í heimsóknir til vina og vandamanna. Eldra
fólk átti í huga sínum sitthvað sem tengdist lækningu t.d. döggin að velta
sér uppúr henni gat bætt ýms mein. Svo var trú á steina og grös, jafnvel
drauma þá nótt. Ég man eftir ferð minni þá nótt með manni mínum og frænku
í dásamlegu veðri. Við vorum gangandi og nutum fegurðarinnar líkt og Þorstein
Erlingsson lýsir í Eiðnum þó ekki væru þar neinar ófrjálsar ástir. Fegurð
og helgi næturinnar veitti svo mikla birtu í sál og sinni. 16. Frídagur
verslunarmanna var þannig haldinn að fólk fór í ferðalög og útilegu. Í
Skaftafellsfjöllum var skáli fyrir starfsfólk KASK. Þangað fór margt af
eldra starfsfólki. Ekki veit ég um sérstakt tilhald, fólk fór vel nestað
eitthvað út um landið. 17. Fyrsti vetrardagur var ekki haldinn neitt
hátíðlegur nema að þá var lesinn húslestur að kvöldi og sungnir tilheyrandi
sálmar. Nú bráðum vetrar byrja él og fleiri sálmar.
p18
18. Fyrsti
desember var haldinn sem fagnaðarhátíð frelsis, eitthvað til skemmtunar,
ræður, söngur og dans, frí í skóla. Fyrir þessu hátíðahaldi stóð ungmennafélagið.
Það gat verið smábreyting í mat, annars voru einhver félög sem seldu kaffi
og brauð. 19. Aðventu man ég fyrst eftir sem tilheyrandi húslestrum
og sálmasöng. Þá var mikið kapp að spinna, prjóna og vefa, sauma. Þá voru
öll föt unnin heima, úr tvisti marglitum fallegar svuntur og milliskyrtur.
Svo voru vaðmálin, allir urðu að fá ný föt fyrir jólin. Löngu seinna kom
skraut, kransar og aðventuljós í glugga og almanök ofl. 20. Alltaf
var mikill jólaundirbúningur þar með að sauma á börnin. Svo var bakstur
sem gat tekið nokkurn tíma. Svo rétt fyrir jólin var góður dagur notaður
til hreingerninga. Þá voru viðruð sængurföt úr öllum rúmum því öll rúm
voru þvegin innan jafnvel lausir rúmbotnar bornin þvegnir og þurrkaðir
úti. Hangikjötið var alltaf soðið á Þorláksmessu, sett fram í kalt búrið
og ekki skammtað fyrr en á jóladag. Þá ilmandi og smjöri einnig flatbrauði
og hveitibrauði. Allt heimnilisfólkið fékk hvítbrydda skó og nýprjónaðar
spjarir. 21. Ekki þekktist í mínu ungdæmi að setja skó í glugga,
þá var lítið um sælgæti í sveitum. Nú er þetta breytt og skór settir í
glugga þar sem börn eru á heimili. Þau eru mjög ánægð að fá sælgætið.
p19
22. Jólagjafir
voru helst föt, stundum bækur þó var minna um það. Kerti og spil handa
börnum og aldrei nema einn pakki. Fullorðið fólk fékk líka kerti sem voru
steypt á heimilinu, jólagjafir voru afhentar þegar fólkið var búið að borða
kvöldmatinn. Ekki trú á jólasveina þó þeir væru nefndir og sungnar vísur
um þá. Eftir 1920 var farið að panta eftir dönskum príslistum jólaskraut
og leikföng handa börnum, aldrei tekið fram fyrr en á jólum. 23. Jólakort
voru algeng í mínu ungdæmi. Einn sonur hjónanna dvaldi mikið í Reykjavík,
kom heim fyrir jólin með bunka af jólakortum sem allir á heimilinu máttu
fá af til að skrifa vinum og vandamönnum. Þá var ekkert útvarp, ekki sendar
kveðjur þannig. 24. Jólatré var smíðað heima. Fyrir jólin fór einhver
bræðranna upp í fjöll og sótti lyng til að skreyta tréð. Kertin rauð og
gul og blá og stjarna í toppnum, tilbúnir pokar undir smá sælgæti. Skrautið
var haft allt til þrettánda og þá síðast kveikt á trénu og gengið frá því
til næstu jóla. Einhver heimasætan sá um það. 25. Á Þorláksmessu
var borðaður saltfiskur og kartöflur. Nú er skatan sjálfsögð fæða þann
dag. Á aðfangadagskvöld var nýtt kjöt og margt fleira á borðum og rúsínugrautur
á jóladag var hangikjöt og brauð og smjör. Eins var annan jóladag. Alltaf
bakaðar tertur með sveskjusultu á milli, gyðingakökur, hálfmánar og jólakökur
með rúsínum, súkkulaðsmjólk og kaffi með sæta brauðinu en nýmjólk með mat.
Miklar breytingar hafa orðið. Steiktar rjúpur á aðfangadagskvöld með allskonar
smáréttum og laufabrauð, hangikjöt heldur velli.
p20
26. Börn og
fullorðnir tóku þátt í allskonar leikjum. Þá heimsóttu vinir og vandamenn,
þá var spilað og farið í leiki, að tefla Goða þótti góð skemmtun. Ég kunni
að tefla hann, er nú búin að tína þeim reglum. Kann vísuna heima ræð ég
Goða minn. Aldrei mátti hreyfa spil á jólanótt eða hafa leiki eða hávaða.
Húslestur og sálmasöngur og líta í bók. Á jóladag og alla daga komu börn
með sínu venslafólki á bæina á milli hátíða sem kallað var og hittu sína
vini. Löngu seinna voru jólaskemmtanir fyrir börn annaðhvort í skóla eða
samkomuhúsi. Þessar samkomur voru kallaðar jólatrésskemmtun. Þá var stórt
jólatré vel skreytt á miðju gólfi, allir gengu í kring og sungu bæði sálma
og jólasveinsvísur. Kvenfélögin stóðu fyrir þessum skemmtunum, gáfu börnum
epli og annað sælgæti í poka. Mikill fögnuður eldri barna var þegar jólasveinninn
birtist í sínum skrúða. Þau yngstu urðu hrædd. Sömu vísur hafa alltaf verið
sungnar. Jólasveinar eru 13 og hefur hver sitt nafn sem hann sagði alltaf.
27. Fjölskylda og vina voru alltaf þá var vel veitt í mat og drykk,
fólkið talaði saman og spilaði á spil og söng. Dansleikir voru aldrei fyrr
en á annan dag jóla og þá haldnir í samkomuhúsi hreppsins. Einhver félög
seldu veitingar, stundum voru þetta stutt böll án veitinga. 28.
Áramótabrennur voru
alltaf á gamlárskvöld. Ef veður hamlaði voru þær á þrettánda. Einni slíkri
minnist ég frá veru minni í Lóni. Röskir og ungir menn sóttu birki í Stafafellsskóg,
fluttu á sleðum út Jökulsá og hlóðu vænan köst á bökkunum framan við fundarhúsið.
Þarna var svo veglegt bál, allir héldust í hendur og sungu. Öll vötn voru
á ís svo allir sem voru gangfærir sóttu þessa gleði.
p21
Kösturinn var lengi
að brenna, veðrið var logn, tungsljós, seinna aðeins vindkul svo allt brann
út. Þá kunni fólkið löng kvæði frá upphafi til enda og sungu hver með sínu
nefi og skemmtu sér vel. Á eftir var stiginn dans í fundarhúsinu sem var
skammt þar frá, allir fóru sælir og glaðir heim að morgni. Ekki sást vín
á nokkrum manni. Þetta er liðin tíð, bæirnir í eyði og flest fólkið dáið,
afkomendurnir fluttir burtu. Tveir bæir aðrir í eyði í nálægð. Í Bæ voru
7 búendur með margt fólk í heimilum. Þar ríkir þögnin ein, allt í eyði.
Ef veður hamlaði á þrettándakvöld þá var borðaður góður matur, hangikjöt
og fleira og spilað á spil. Hjátrú var ekki mikil,
þó átti að ganga kringum bæinn á gamlárskvöld og fara setningar með. Komi
þeir sem koma vilja veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu.
Þessi trú mun nú ekki þekkjast. Aðrir tímar, aðrir siðir. Heyrði þrettánda
aldrei kallaðan öðru nafni. Þá var allur gleðskapur í tilefni jóla liðinn
og aftur tók við hin algenga vinna við tóvinnu og eldhúsverk fyrir konur,
hirðing búfjár fyrir karla.
p22
Skemmtanir. 1.
Í Lóni var fundarhúsið aðal skemmtistaður eftir það var byggt 1912. Það
var steinhús, fyrst rúmgott herbergi fyrir utanhafnarföt og skó. Allir
höfðu með sér aðra skó en þá sem þeir gengu á yfir ís og grjót. Svo var
stór danssalur með bekkjum lausum. Svo var upphækkað leiksvið þar sem sjónleikir
fóru fram. Þar fluttu ræðumenn sín áhuga eða skemmtimál og þar var sungið.
Undir leiksviði var kaffistofa, þar hressti fólk sig á kaffi. 2.
Húsið mun hafa verið eign hreppsbúa. Kvikmyndasýning var ekki, þær voru
löngu seinna hér á Höfn. Leiksýningar voru á hverjum vetri nú er þetta
hús í eyði og hrörnar ár frá ári. Nú eru allar skemmtanir í Lindarbæ á
Höfn og Mánagerði í Nesjum. Þar er allt sem þið spyrjið eftir í skránni.
Félagar ýmsra stéttarfélaga stóðu alltaf fyrir slíku, lengi fóru þær vel
fram. Nú er lögregla á staðnum sem sér um velsæmið. 3. Skemmtanir
voru auglýstar á búðarglugga, jafnvel símastaura áður en sími og útvarp
kom. Það mátti segja að fólk kæmist í krappan dans þegar farið var yfir
Hornafjarðarfljót eða jökulár í sýslunni, stundum komið vatn á ísinn og
ekki fært á hestum. Dugnaður og áhugi bjargaði. 4. Dansleikir fyrst
man ég eftir gömlu dönsunum og þá alltaf spilað á harmonikku og mikið fjör.
Nú eru hljómsveitir. Ég held valsinn hafi verið fallegastur allra dansanna
kunnum við í þá daga. Svo voru hringdansar og vaðmálsdans með tilheyrandi
vísnasöng. Unglingum voru kennd danssporin svo æfðu þau sig sjálf. Dansherrann
kom til dömunnar og hneigði sig. Þá þótti dónalegt að dansa alltaf við
sömu stúlkuna. Þá skemmti fólkið sér af hjartans lyst og allir fóru ánægðir
heim til sín.
p23
ekki get ég sagt
frá samskiptum kynjanna, reyndar var auðvelt að sjá ástleitni fólksins,
oft munu þau kynni hafa leitt til hjúskapar þó upphaflega hafi verið feimnismál.
Vangadans sá ég fyrst eftir 1920, gat verið byrjaður fyr. Fólkið var allt
búið í sitt besta skart, konur á peysufötum með fallegar svuntur og slifsi
og svo í upphlut. Vel var vandað til hárgreiðslu og margar konur með fallegt
hár sem í þá daga þótti prýði. Karlmenn voru í dökkum fötum, hvítum skyrtum
með stífaðan flibba og manséttur, skegglausir og fínir. 5. Dansleikir
voru sjaldan í sveitinni þó alltaf í sambandi við sýslumót. Þá dansað 3
nætur í röð. Í Lóni voru sumarskemmtanir haldnar inní Stafafellsfjöllum
á grasbölum við fallegt fjallavatn. Þar var dansað. Í seinni tíð er nóg
um dans og allar skemmtanir. 6. Ekki var algengt að áfengi væri
á dansleikjum í sveitinni, frekar í sjóplássum, helst á lokadag. Nú er
víst allt breytt. 7. Fyrstu drukknu konuna sá ég á dansleik eftir
1950. Það þótti ekki sæmandi og þekktist yfirleitt ekki hér. 8.
Fyrst var spilað á einfaldar og tvöfaldar harmonikkur falleg lög og góðan
takt. Nú eru það alltaf hljómsveitir, bæði heimamanna og einnig aðkomnar.
Ekki veit ég hvenær þær byrjuðu hér. 9. Eftir að barnaskóli var
byggður hér fóru skemmtanir sem voru aðeins um helgar þar fram. Áður var
farið í sveitirnar ef pláss fékkst þar. Þá var dansað og sungið. Hér voru
aldrei síldarböll.
1. Áhugamannafélög
voru fyrst fá en komu þó seinna. Það voru ungmannafélög, íþróttafélög,
kvenfélög, lestrarfélag og leikfélag, saumaklúbbar og spilafélög, Bridsfélag
Hornafjarðar, Lionsfélag. Stofnendur voru áhugamenn og konur.
p24
2. Þessi félög
stóðu oft fyrir samkomum til styrktar framkvæmdum í þorpinu, kirkjubyggingu,
samkomuhús, sundlaugar ofl. Ef einhvert nauðsynja framtak lá fyrir var
kosin nefnd í málið, síðan hafist handa um framkvæmdir. Formaður og stjórn
félags var einnig æðsta vald og að vera samtaka. 3. Ekki vissi ég
til að handskrifuð blöð væru í þorpinu. Byggð hófst hér 1897 þá verslun
og fátt fólk hér.
1. Trúarlíf
var lengi vel í sama formi og áður. Kirkja var engin á Höfn. Lengi var
farið í sveitina í Bjarnarneskirkju. Eftir að skóli var byggður á Höfn
fóru öll prestverk þar fram. Eftir að útvarp kom á heimili var mikið hlustað
á útvarpsmessur heima. 2. Fólk fór til kirkju. Gamalt fólk sem treysti
sér ekki til kirkju hlustaði á útvarpsmessur. Ég heyrði aldrei talað um
ávítur vegna fólks sem ekki fór til kirkju. Á hátíðum voru kirkjur vel
sóttar og eins við fermingar og jarðarfarir. 3. Í Stafafellskirkju
var milligerð milli framkirkju og kórs, konur og börn sátu í framkirkju,
karlar í kór. 4. Bekkurinn næst kórdyrum var prestkonusæti, þar
sat prestkona og hennar dætur og venslafólk. 5. Mikill virðingamunur
var á sætum, ríkar húsmæður áttu sæti í bekkjum fyrir aftan prestkonu,
hinu megin í kirkju sátu vinnukonur og börn, fram við dyr var sæti brotlegra.
6. Trúfélög voru ekki hér, bara þjóðkirkjan, engin áhrif önnur.
7. Hjálpræðisfólk kom stundum og prédikaði, lék á hljóðfæri og söng.
8. Ungir og gamlir máttu skemmta sér, fólkið var alið upp í trú.
Spariföt
voru peysuföt eða upphlutur á konur og fermdar stúlkur, heimaunnir sokkar
úr fínu bandi, svartir skór. Spariföt karla svört og svartir skór, seinna
brún og grá. Heimaföt kvenna úr hlýju efni á vetrum, yfir sumartímann ljósir
kjólar úr sirsi og eins svuntur. Á sunnudögum klæddist fólk eldri sparifötum,
karlar voru oft í hvítum fötum við heyskap.