Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

Sveitarfélag 1950Eyrarbakkahreppur
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Árborg
SýslaÁrnessýsla (8700) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1898

Nánari upplýsingar

Númer6157/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið3.1.1984
Nr. 6157

p1
Heimildarmaður: Elín Guðjónsdóttir FD: 09 05 1898 Svörin miðast við Eyrarbakka, Árn.

Skírn. Á Eyrarbakka voru börn skírð í kirkju, alltaf í síðum skírnakjól, ekki sá ég húfu. Ljósmóðirin þar hélt venjulega undir skírn, hét hún Þórdís Símonardóttir, var hún forkur mikill að dugnaði og læknisígildi. Skírnavottar voru svokallaðir, voru víst fjölskylduvinir eða vandamenn. Ekki veit ég um skyldur þeirra. Að börn væru ekki skírð þekkti ég ekki, það kom víst með pólitíkinni. Mín börn voru skírð á heimili okkar enda kirkja ekki komin í nágrenni og prestur í næsta húsi svo til. Auðvitað voru veislur og vandamenn komu frá Rvík. sem flestir voru þar enda teknir hátíðisdagar til þeirra hluta. Gjafir voru ekki venja en þó hálsmen sem var kross (sem hálsmen) var gefið stúlku og skeið með ártali pilti.

Afmæli var alltaf haldið upp á í bernsku enda mikils virði fyrir afmælisbarnið og hef ég ekki séð börn mín öllu ánægðari en á sínum afmælisdögum í bernsku og endurminningar lifa furðu lengi. til skemmtunar voru allskonar leikir eftir árstíðum og aldri og gjafir voru ekkert atriði en þó alltaf eitthvað, stundum barnabók, stundum leikföng. Afmæli fullorðinna var ég ekki svo mikið vör við á yngri árum en alltaf gerði móðir okkar einhvern dagamun fyrir okkur börn sín á okkar afmælisdögum og oft smá gjöf. Mínir synir hafa þann sið enn að

p2
hittast á afmælum sínum og drekka saman kvöldkaffi ásamt mökum og þá pönnukökur með rjóma og afmælistertu og jafnvel tala lagið sem þeir gera vel. Áfengir drykkir hafa aldrei verið með hjá okkur.

Ferming. Ekki man ég eftir öðru en fermingarathöfn sé nokkuð hátíðleg víðast hvar og ekki svo mikið breytilegar gegnum árin. Prestar undirbúa börnin með fræðslutíma í spurningu eins og fyrr. Fatnaður stúlkna var oftast svartur eða hvítur kjóll sem sum heimili á Bakkanum áttu og lánuðu svo árlega þegar ekki þurfti sjálf að nota. Klæðnaði mínum hef ég sagt frá fyrr. Víst voru fermingarveislur, sjálfsagt súkkulaði og kaffi með fínum kökum. Fermingargjafir voru þegar ég var fermd 1912. Ég fékk silfurbúna svipu með nafni mínu sem mamma og systkini gáfu mér og hefur nú alnafna mín tekið við henni til eignar og gæslu. Sömuleiðis fékk ég 10 kr. Gullpening sem góður fjölskylduvinur gaf mér. Kort fékk ég sem ég á til enn. Svo voru slifsi og ýmislegt til klæðnaðar notað í fermingargjafir því þá fórum við kvenþjóðin að ganga í íslenskum búning, peysufötum. 3-3. Er mér ókunnugt um. Sennilega hafa meiri kröfur verið gerðar til okkar eftir fermingu eða með aldrinum en kröfurnar svokölluðu hafa snúist við eins og annað fleira. Þá voru þær um dugnað og hæfni til starfa en ekki um kaup. Það var alltaf samningsbundið við bóndann ef um heyvinnu var að ræða, kaupavinnu sem svo var kallað.

p3
Próf. Mér hafa alltaf þótt próf skemmtileg og spennandi. Mitt fullnaðarprófs skírteini á ég enn. Þá voru gefnar einkunnir sem kallað var, hæðst 8. Hef ég náð því í flestum fögum. Svo á ég rithönd minna kennara, Péturs og Jóhanns Briem ásamt sóknarprests sem prófdómara, Gísla Skúlasonar. Hjá mér og okkur á Bakkanum var lífið eitt skemmtilegt áframhald þegar skóla var slitið. Í maí tók sveitin við. Þá bjuggust flestir krakkar og unglingar í sveitina, þar áttum við ég held flest okkar annað heimili sem tók á móti okkur með vinsemd og nógum störfum, jafnvel hundarnir fögnuðu okkur. Börn og barnabörn hafa haft nokkuð aðra hætti á. Þá eru komin ferðalög sum nokkuð mikil, jafnvel til útlanda. Við stúdentspróf hafa þeir nánustu komið saman og hafa þá verið gefnir smávegis minjagripir svo sem brjóstnál, hálsmen t.d. og þáðar góðgerðir.

Trúlofun held ég að heyri undir einkamál, að vísu ekki opinberun. Flestir settu upp hringa og var að ágæt frétt dagsins í nágrenni. Sennilega hafa þeir alltaf verið úr gulli og kærastinn keypt þá. Trúlofun mína og barna minna hefi ég aldrei borið saman enda langur tími þar á milli. Tími frá trúlofun til giftingar hefur efalaust orðið að fara eftir ýmsum aðstæðum. Aldrei heyrði ég lýst í kirkju með hjónaefnum.

p4
Gifting. Gifting hefur sennilega alltaf verið sama athöfn þótt framkvæmd væri á ýmsan hátt. Sjálf gifti ég mig hjá bæjarfógeta eða réttara sagt bæjarfógeti gifti okkur. Ég hafði ekki þekkt það fyrr en líkaði það ágætlega og hefur reynst vel. Gifting okkar dróst nokkuð lengi. Berklarnir sem herjuðu í þá daga á æskufólk komu við hjá væntanlegum maka mínum og systkinum hans. Eftir nokkurra ára kynni giftum við okkur 1. des. 1931 í Neskaupstað. Bæjarfógeti, Kristinn Ólafsson. Gifting barna minna eða réttara sagt sona hefur verið 2 giftu sig í kirkju með hefðbundnum hætti, smoking, hvítum brúðarkjól ásamt slöri, vinum og vandamönnum í kirkju, sveitakirkja venjuleg. 2 giftu sig heima hjá presti. Veisla á eftir í NLFÍ eða heima, góðar gjafir og heillaóskaskeyti. Veislu héldu foreldrar brúðar en við þar sem þeir voru látnir. Engin eðlismunur, aðeins stigsmunur með gjafir eftir þjóðháttum. Silfur og gullbrúðkaup hefur fólk haldið uppá innan fjölskyldna fyrir nokkuð löngu sem ég hef þekkt og synir okkar og tengdadætur höfðu mjög ánægulega samverustund með ættingjum og vinum þegar við áttum gullbrúðkaup og gáfu okkur litsjónvarpstæki til að una við í ellinni. Sjón og heyrn eru í sæmilegu lagi.

p5
Andlát og útför. Þá vík ég enn að Eyrarbakka. Þar dó fólk yfirleitt í heimahúsum þar sem sjúkrahús voru ekki til staðar eins og síðar varð. Móðir mín var oft fengin til að vaka yfir sjúkum og vera við andlát fólks. Gekk hún þá frá líkinu í kistuna ásamt aðstandendum og vakti oft yfir líkum fyrstu næturnar, ég held að hún hafi þá aldrei verið ein. Líkin voru oft látin standa uppi í kirkjunni, kistan, þangað til jarðað var og var þá haft ljós í kirkjunni og fórum við krakkarnir þá rólega og alltaf með virðingu fram hjá kirkjunni. Sennilega ekki minna en vika til hálfan mánuð fyrir jarðaför. Kistulagningu sá ég aldrei. Kistuna smíðuðu trésmiðir þorpsins. Svörtum kistum og krönsum man ég eftir. Þó alltaf hvítum kistum fyrir börn. Húskveðjur voru algengar þegar lík voru heima en hafa lagst niður sem betur fer. Að koma með látna móður í líkkistu heim til barna og halda þar hjartnæma ræðu er ég ekki með. Lík alltaf flutt á bílum eftir að þeir komu. Yfirleitt dökkklædd, jafnvel í kjólfötum í Rvík eða þeir sem báru kistur. Erfisdrykkjur eru enn hér. Stórveislur að lokinni jarðarför. Aðallega vegna aðkomufólks sem getur verið daglangt burtu frá heimili. Blóm á sumrum á leiði eru algeng víðast hvar þó í sveitum sé og jafnvel ljós um jól, aldimmur grafreitur er dálítið ömurlegur ekki satt.

p6
Þorrablóti man ég eftir frá því ég kom til Hveragerðis. Við höfum fljótlega tekið það upp með Ölfusingum. Matur: Hangið kjöt, svið og annar búrmatur ásamt vökva til að skola niður með mat, ekki mysu eða sýru, eitthvað sterkara. Voru þessi blót sérstaklega skemmtileg og allir tóku þátt í, ungir og gamlir og ekki síður þegar skáldin mörgu voru sest hér að.

Endurkomu sólar kannast ég ekki við að hafa tekið á móti. Svo er nú það.

Bolludagur. Hér vorum við svo heppin að fá kvennaskóla á staðinn. Var það fengur fyrir drengina að komast þar að og lumbra á 30 stúlkum fyrst húsráðendur voru svo elskulegar að opna hús nógu snemma og hafa til nógar bollur. Vendir voru búnir til dagana áður, ágætt tilefni og starf á meðan á því stóð. bolla, bolla, bolla, var víst sagt á meðan á athöfninni stóð. Alltaf baunir og helst saltkjöt á sprengidag. Ég gæti trúað um allt suðurland. Öskupokar voru hengdir á fólk frá því ég man eftir. Mörgum var illa við það og vörðust þeim sérstaklega, eldri menn. Svo voru fínir pokar útsaumaðir og sendir vinum eða kunningjum. Bóndi minn á einn slíkan poka frá 1926, mjög faglega gerðan og er til enn sem listaverk en er ekki frá mér!!! Hann er vel geymdur í minjasafni.

p7
Ekki man ég eftir grímbúningum nema við grímuböll eða öðru því sem þarna er þarna er minnst á. Öskudagur var ekki orðinn frídagur þegar ég byrjaði í skóla sem var einmitt á öskudag og gekk alveg fram af mér lætin, þá 10 ára.

Að láta hlaupa apríl er gamall og góður siður sem ég man eftir allt frá bernsku, oftast meinlaust grín.

Ekkert sérstakt uppáhald með páskana, algert frí frá vinnu. En sólardansinn sá ég á páskadagsmorgni ef heiðskírt var eins og gömlu konurnar heima hjá mér enda vakin til þess að sjá hann. Hvort það var sólin sem dansaði eða skýin læt ég liggja milli hluta. Páskaegg eru seinni tíma vara enda innleidd frá sælgætisgerðum og verslunum. Engar venjur hef ég kynnt mér með fuglaegg.

Sumardagurinn fyrsti var oft notaður fyrir skólaskemmtanir og voru hér í Hveragerði og einnig í Neskaupsstað á minni tíð hafðar ársskemmtanir skóla. Voru þær fjölbreyttar með upplestri, leiksýningum og margskonar fjölþættum skemmtunum sem vel var vandað til og nemendum og kennurum til sóma enda vel sóttar af íbúum staðanna.

1. maí sem ég man fyrst eftir fyrir 1930, man ekki ártalið, vann ég í verslun Gunnþórunnar Halldórsdóttur og Guðrúnar Jónsson sem var í Eimskipafél. húsinu, þeim hluta sem sneri út að höfninni. Var þá margt verkamanna hjá Ellingsen sjávarmegin

p8
og man ég þar best eftir Ólafi Friðrikssyni sem stóð uppá tunnu og talaði hátt og mikið til manna sinna. Við stúlkur sem fylgdumst með úr búiðinni óskuðum víst þess innilega að tunnan ylti en ekki varð okkur að þeirri ósk okkar. Tunnan stóð og fundurinn hávær og spennandi. Kröfugöngum hef ég aldrei fylgst með að ráði.

Lokadag hef ég minnst á áður á Eyrarbakka.

Uppstigningardag hef ég ekki þekkt sérstaklega helgan nema hvað ég á stundum afmæli þann dag og fæ mér þá afmæliskaffi 9. maí.

Hvítasunna lengi notuð til útiveru og þá til ferðalaga. Alltaf síðan ég man. Var þá farið í yfirbyggðum kassabílum með trébekkjum. Ágætt að komast til Þingvalla.

Ekki sjómannadagur haldinn hátíðlegur.

17. júní hátíðishöldum man ég ekki fyrir 1944. En Hvergerðingar hafa að jafnaði farið til Reykjavíkur og tekið þátt í hátíðahöldum þar. Þó hafa kvenfélag og ungmennafélag haft útiskemmtun og íþróttakeppni í seinni tíð ásamt kaffisölu. Og fjallkona komið fram.

Frídag verslunarmanna man ég fyrst eftir í Rvík með hátíðahöldum við Rauðará og þá sérstaklega eftir að þá var ég úti við götuljósin í fysta sinn. En þá var sá frídagur tengdur ágústmánuðu, 1-2 ág.

1. des. hefur verið okkar afmælisdagur sem ég hef minnst á áður sem giftingarafmæli en almennum frídegi, man ekki nema í sambandi við stúdenta.

p9
Jólaundirbúningur mest hreingerningar, allt skyldi vera hreint og er það ekki sísti kostur jólanna í skammdeginu. Alltaf hafa jólagjafir tíðkast hjá mínu fólki enda mikið af börnum, afhentar að lokinni máltíð á aðfangadagskvöld. Enginn skór eða sokkur í glugga. Jólatré áttum við systkinin í bernsku. Var það úr tré með útskornum greinum sem vafðar voru með rauðum, gulum og grænum strimlum skorna úr eða klippta úr pappír og svo körfur og pokar hengdir á með einhverju sælgæti í. Grenitré man ég ekki hvenær kom til okkar. Ekkert sérstakt borðað á Þorláksmessu. Jólatrésskemmtun hef ég sagt frá fyrr í barnastúkunni á Eyrarbakka. Alltaf kom jólasveinn, einn eða tveir og gáfu sælgæti. Hérna hefur kvenfélagið haft jólatrésskemmtun og fyrr kom presturinn og sagði börnum jólasögu, en nú er því hætt. Fjölskylduboð hafa verið og eru að ég held algeng. Var og er ákveðin röð á þeim. Í barnaboðum er leikið við börnin, farið í ýmsa leiki. Fullorðnir spila á spil og eða rabba saman fyrir utan sjónvarp sem hefur orðið mikil völd. Áramótabrenna var árlega á Eyrarbakka. Þar voru að ég held allir með sem vildu og áttu til þess búninga. Ekki var dansað í kringum brennuna en gengið í kring, kóngur og drottning fyrst í búningum klædd sem kóngur og drottning með kórónu og sprota og hún með skaut og skart. Mikið var sungið og vel. Allir álfar sem gengu í skipulegri 2 og 2 eftir stærð, allir með grímur

p10
og spreyttu menn sig á að þekkja þá. Þetta var alltaf mjög skemmtilegt og svo fínt og mikið ball á eftir og eftirvænting að vera boðið á þetta ball en yfir því réðu aðallega þátttakendur við brennuna, konungshirðin. Ekki man ég eftir sérstakri skemmtun við þrettánda nema hittast og spila kannski fremur þá en endranær.

Samkomuhús voru eldri en ég á þeim stöðum sem ég hef dvalið á svo upphafi þeirra lýsi ég ekki. Helst spilað púkk, einseyringar eða kvarnir úr þorskhausum peningar. Plaggat á símastaur boðaði einhverja tilbreytni. En málhreinsunarmenn kváðu niður plaggatið og breyttu í auglýsingu svo sem kennararnir en nú virðist það orð vera orðið fínt aftur. Dansleikir sem voru yfirleitt kallaðir böll svo sem Báruball, stúkuball osfrv. eftir því hverjir stóðu fyrir því. Vals, ræll, vínikrus, dömukveðja og svo lansers sem var samkvæmisdans og mikið dansað á Bakkanum kringum 1920. Hvernig piltar buðu upp í dans var dálítið atriði á bakkanum gengu herrarnir fram fyrir dömuna og hneigðu sig fallega, annað var ekki liðið þar. Svo þegar þeir tóku upp þann sið að stika fram fyrir dömuna og jafnvel taka í öxlina á henni minnkaði virðingin fyrir þeim og það varð einmitt hermönnunum á þegar þeir komu og tóku þátt í dansi því þeir voru alltaf kurteisir og komu fallega fram. Samskipti kynjanna að öðru leyti er ekki mitt mál.

p11
Dansleikir voru nokkrir á vetri. Á Bakkanum dönsuðu allir sem gátu og var það mjög almennt. Böllin voru til kl. 3 - 4, jafnvel lengur og fólk fór til vinnu beint af böllunum. En það var gert fleira en dansa, upplestur á ýmsu efni, leikþættir, spurningaþættir sem voru oft skemmtilegir og m.m.fl. Eitt sinn fékk Aðalsteinn Sigmundsson kennari þá spurningu sem hann dró á stúkuballi (en spurningarnar voru dregnar út). Hvað hefði hrifið hann mest á ballinu. Hann svaraði um hæl. Hún Ingibjörg. Svarið kom mjög á óvart og voru nú hugsaðar upp allar Ingibjargar sem á ballinu voru en auðvitað þekktust allir. Varð af þessu hin mesta skemmtun og ágiskanir en allir fóru jafnnær heim, spurningunni ósvarað. Svona gat fólk skemmt sér með léttu gríni áður en nútíminn tók völdin. Aðalsteinn var ókvæntur, dansaði ekki og gaf sig lítt að kvenfólki en var afar vinsæll á samkomum þar sem hann var vel hagmæltur og kom oft með skemmtilegar vísur. Áfengi notuðu konur ekki en karlmenn nokkuð og var algengt að stúlkur dönsuðu ekki vð pilta sem farið var að sjá vín á.

Fyrr á árum var mest spilað á harmonikku, svo á orgel og alltaf voru einhverjir sem gátu bjargað með músík. Alltaf ágæt samkomuhús þar sem ég hef búið. Flest þeirra félaga sem þið minnist á hafa starfað og starfa á þeim stöðum sem ég hefi dvalið á.

p12
Starfsemi þessara félaga voru margþætt. Við í Kvenfél. Hverag. byggðum hús. Komum upp leikskóla f. börn á eigin spýtur, þorpið of fámennt til að njóta styrktar en mikil umferð bíla um staðinn og börnin allstaðar nálæg. Engin blöð.

Messað var í barnaskólanum þar sem tvær stofur voru lagðar saman. Aðsókn mikil og prestur ágætur, sr. Helgi Sveinsson. Kirkja var að Kols?? Með komu elliheimilis og vaxandi þorpsbúa var ráðist í að byggja hér kirkju og var Kvenfél Hverag. þar góður þátttakandi og lagði mikið til þess. Fermingarkirtla keypti kvenfél. handa kirkjunni og hugsar um þá enn til nota við fermingar. Enginn virðingarmunur var á sætum en fyrr á árum var sérstakur bekkur fyrir prestsfrúna og fjölskyldu prests. Engin trúfélög eru hér nema aðventistar nokkrir og eru þeir mjög virðingarverðir á allan hátt það ég best veit. Þannig var það líka á Eyrarbakka. 8. Mér ekki kunnugt um. Spariföt voru alltaf peysuföt hjá konum. Skautbúningur við hátíðlegustu tækifæri en daglega dagtreyja sem svo var kölluð og stokkfellt pils, venjulega svart og ekki var móðir mín búin að klæða sig fyrr en hún hafði sett húfuna skúfhúfuna sem næld var á hárið og svo hettuklútur hafður yfir ef verið var úti. Móðir mín átti

p13
millipils sem mér þótti mjög merkilegt. Var það svart úr fínu efni og lagt með rauðum borða í Alexandersbekk sem var svo breiður að hann tók yfir neðri hluta pilsins að hálfu og fannst mér hann á yngri árum hreinasta listaverk. Ekki veit ég hvað varð af pilsi þessu. Vildi ég þó gjarna eiga það sem minjagrip. Hversdags voru konur með svuntur sem voru rikktar eða felldar millisvuntur og með prjónaðar þríhyrnur á herðum. Á yngri árum var móðir mín í Hruna í hreppum og giftist þaðan. Fékk hún þar í brúðargjöf diska og ýmsa muni svo sem klukku ofl. og er það geymt sem minjagripir hjá afkomendum. Hafði móðir okkar fagra söngrödd og hafði verið forsöngvari í kirkjunni í Hruna og minntist oft þess tíma. Hafði það verið siður við brúðkaup að söngnum var haldið áfram frá giftingunni og að veisluborði inn í bæinn þar sem oft voru brúðkaupsveislur haldnar. Eitt sinn hafði hún látið föt sín út til að viðra þau fyrir brúðkaup en svo illa vildi til að húfan fauk og til staðfestingar varð til vísan. Húfan mín með hólk og skúf hún er tínd og undir snjónum. En mér þykir stinga í stúf að standa undir Langholtshjónum berhöfðuð og brúðkaupssönginn byrja í kirkju heim stéttina göngin. Um höfund fullyrði ég ekki.

p14
Það sem ég hef fest á blað til ykkar hefi ég borið undir systur mína sem er 92 ára og hefur verið minnisgóð á það gamla þó nú sé farið að gleymast. Það fyrsta sem hún man eftir sér er það að hún fékk að fara með föður okkar þegar hann spilaði á horn sem kallað var heim á Húsbletti en það var garðurinn hjá húsinu en það hefur verið dregið í efa að rétt sé hjá mér með hornaflokk á þessum árum. Ekki veit ég hvað þar voru margir en systir mín var 7 1/2 árs þegar faðir okkar dó og á því að muna þetta nokkuð rétt. Ég þakka mjög skemmtileg kort og jólakveðjur frá ykkur og óska ykkur góðs og gleðilegs árs og mikils og góðs árangurs í starfi.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana