Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1909

Nánari upplýsingar

Númer6753/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.6.1983
Nr. 6753

p1
Heimildarmaður: Elín Þóra Guðlaugsdóttir FD: 07 03 1909 Svörin miðast við N-Ís.

Skírn. Um skírnarsiði fyrr á tímum er mér lítið kunnugt. Ég tel þó að það hafi verið meira um það að börn hafi verið skírð í kirkju, húsakynni fólks voru yfirleitt svo lítil og léleg að þau hafa ekki þótt boðleg presti eða öðrum við þá athöfn. Ég sé það í skírnarvottorði föður míns sem er fæddur 1886 á Ísafirði í pínulitlum bæ sem Gildrunes hét að hann er skírður í messu í Ísafjarðakirkju. Ég tel það víst að ég og yngri bróðir minn séum skírð í Hólskirkju í Bolungarvík þar sem við erum fædd en eldri bróðir minn í kirkjunni í Unaðsdal á Snæfjallaströnd en systir okkar sem er yngst af okkur fædd 1917 er skírð í heimahúsi svokölluðu Hálfdánshúsi í Hnífsdal og voru húsráðendur þar Hálfdán Hálfdánsson útvegsbóndi og Ingibjörg Halldórsdóttir og voru þau skírnarvottar hennar en það var altítt að ljósa barnsins væri guðmóðir þess ef til náðist. T.d. var ljósa mín guðmóðir mín ásamt tveim öðrum skírnarvottum. Ekki er mér kunnugt um hvort þetta fólk taldi sig hafa nokkrar skyldur gagnvart þeim börnum sem það var skírnarvottar að en mig minnir að það sé í einhverri gamalli kirkju formáli að því séu lagðar einhverjar skyldur á herðar gagnvart börnunum en ég held að það hafi nú aldrei þurft að koma

p2
til með það. Skírnarveislur og skírnargjafir þekkti ég ekki í mínu ungdæmi. Hvað snertir skírnarföt held ég að kjóll hafi verið algengastur en sennilega hafa mörg börn verið skírð í sama kjólnum því ekki áttu allir skírnarkjóla fyrir börn sín í þá daga og voru því nágrannarnir oft hjálplegir í því sem öðru að lána skírnarkjól þar sem hann var fyrir hendi. Á þessum árum sem ég miða helst við þekkti ég engin dæmi til þess að fólk léti ekki skíra börn sín eða færa þau guði eins og kallað var, annað sæmdi ekki kristnu fólki.

Afmælisdagar. Það sama hefi ég að segja um afmælisdaga, ég kynntist ekki afmælisveislum á mínum yngri árum eða afmælisgjöfum. Á mínu heimili þekktist ekki slíkt svo það kom aldrei til neinna heimboða hvorki til eða frá.

Ferming. Fermingarundirbúningur hjá fólki var eins og annað eftir efnum og ástæðum. Fyrst og fremst var það fatnaðurinn sem barnið átti að fermast í yst sem innst. Stúlkur fermdust í hvítum kjólum en svo þurftu þær að fá annan kjól til að vera í eftir fermingu og var kallaður eftirfermingarkjóll. Einnig blúndupils og blúndubuxur og allt var þetta heimasaumað og svo voru það hvítir bómullarsokkar og stígvélaskór. En drengir fermdust í dökkum

p3
jakkafötum með hvítar slaufur. Voru það aðallega dökkblá sifjótsföt. Bróðir minn sem fermdist 1920 var í slíkum fötum sem móðir mín saumaði. Hún saumaði allan okkar fermingarfatnað sem og annan fatnað. 1945 fermdist bróðursonur minn og þá er hann í svörtum kamgarnsfötum sem þá voru komin í tísku og þóttu mjög fín. Kirtlar koma ekki til sögunnar fyrr en upp úr 1954. Systurdóttir mín sem fermdist 1953 var í síðasta hópnum sem fermdist í fermingarkjól. Fermingargjafir og fermingarveislur áttu sér ekki stað á mínu heimili. Ég minnist þess að bróðir minn minntist oft á það að sín fermingarveisla hefði verið að rífa herta þorskhausa en eftirmaturinn mun hafa verið svart kaffi, rúgbrauð og margarín. Ekki var mjólkinni eða smjörinu fyrir að fara í þá daga. Gjafir fengum við engar eða peninga en mig minnir þó að yngri bróðir minn eignaðist úr. Ég veit ekki fyrir víst hvenær fermingarskeyti fara að tíðkast fyrst en ég fermdist 1923 og þá fékk ég eitt skeyti og 3 kort og það voru allar mínar fermingargjafir. Yngri systir mín fermist hér í Reykjavík 1931. Ekki segi ég nú að það hafi verið haldin mikil veisla en þó voru kjörin og tímarnir farnir að breytast það mikið að dagsins var svolítið minnst og hún fékk einhverjar smágjafir. Bakstur og þrif voru vissulega eitt af undirbúningnum því vissulega hefur margur reynt að minnast þessa dags með smá tilbreytingu og var þá helst veitt kaffi og súkkulaði. Matarveislur

p4
heyrði ég aldrei nefndar. Hér koma spurningar sem því miður er ekki á mínu færi að svara, vona að aðrir heimildarmenn leysi úr þeim sem eru fróðari um þau efni. Ég hefi aldrei látið ferma börn eða haft börn í skólum, sömuleiðis trúlofanir og giftingar og allt sem að þeim lítur algjörlega farið fram hjá mér. Það er bara eitt sem ég veit, að það væri lýst með hjónaefnum. Á fyrri árum var ég aldrei við hjónavígslur en núna í seinni tíð hefi ég verið við 2 kirkjubrúðkaup og eitt í heimahúsi. Borgaraleg hjónabönd voru ekki algeng áður fyrr en eru mjög algeng nú orðið og hefir eitt slíkt átt sér stað í minni fjölskyldu.

Andlát og útför. Á því tímabili sem ég miða svör mín við sem er frá fyrsta áratug aldarinnar og framundir seinna stríð var ég aldrei við kistulagningu og veit því ekki hvernig var búið um þann látna. Frá því að ég komst til vits og ára veit ég ekki til að hafi verið vakað yfir líki í þeim byggðarlögum sem ég átti heima í. Það var liðin tíð. Allvanalega stóðu lík uppi í kringum 10 daga og jafnvel lengur ef tíðarfar var óhagstætt. Það var eitt líkkistuverkstæði á Ísafirði og munu flestar kistur hafa verið smíðaðar þar um árabil fyrir nærliggjandi pláss. Jóakim Jóakimsson hét sá er það rak.

p5
Framan af árum voru allar líkkistur svartar og svo eikarmálaðar en í þeim var bara heldra fólk jarðað. En svo fóru að koma eingöngu hvítar kistur sem tíðkast nú til dags. Um blóm var afarlítið en mig minnir að það væri ein verslun á Ísafirði sem seldi kransa. Húskveðjur voru algengar. Ég held það hafi tæplega farið fram jarðarför án húskveðju. Prestur hélt ræðu og sungnir voru útfararsálmar. Víða voru húsakynni það lítil og þröng að ekki gátu allir inni verið svo fólk varð að híma úti á meðan á húskveðjunni stóð hvernig sem viðraði og munu líka margir hafa ofkælst og fengið jafnvel lungnabólgu og mun óhætt að fullyrða að það sé fyrst og fremst orsök þess að húskveðjur lögðust niður. einnig er af sömu ástæðum búið að leggja niður að standa úti við grafir á meðan rekum er kastað og sunginn er sálmur nú er þetta allt gjört inni í kirkjunum áður en farið er ofan að gröfinni og hefur þessi breyting orðið til stórkostlegra bóta. Oft varð að taka út glugga til að koma kistunum út þar sem dyr voru þröngar og svo voru þær bornar til kirkju. Ég er búin að vera við margar jarðarfarir um æfina og ég hefi aldrei þekkt annað en líkræða eða bæn væru flutt inni í kirkjunni yfir þeim látna. Klæðnaður var allavega og í litlum plássum þar sem allir þekktust að fylgja til grafar þeim sem dóu.

p6
Erfidrykkjur tíðkuðust áður fyrr og var það helst til sveita og reyndar er nú farið að taka þennan sið upp aftur en ég varð ekki vör við þær í þeim plássum sem ég bjó í á Vestfjörðum. Mér er ekki kunnugt um upphaf eða gerð legsteina en þeir munu eiga sér nokkuð langan aldur og eins kransar og krossar, það er best að fá upplýsingar hjá kirkjugörðum Reykjavíkur hvenær var farið að skreyta leiðin með rafljósum og kertum en ég held það hafi verið uppúr 1950 og enn þann dag í dag setur fólk kertaljós á leiðin en raflýsing er úr sögunni og hún tilheyrði ekki öðrum dögum en jólum. Grafhýsi þekktust en ákaflega lítið um þau. Ég heyrði talað um eitt í kirkjugarði Ísafjarðar. Karl Olgeirsson kaupmaður á Ísafirði lét búa það til utan um konu sína Elínu Guðmundsdóttur frá Hnífsdal er hann missti í blóma lífsins frá ungum syni og mun hann einnig hvíla þar sjálfur.

Árstíðabundnar hátíðir. Fyrsta og eina þorrablótið sem ég hefi farið á um æfina var hér í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þorrablót voru ekki komin í tísku á Vestfjörðum á meðan að ég var þar enda ekki ýkja mörg ár síðan farið var að halda þau.
Ég kannast við það að fólk fagnaði endurkomu sólarinnar með kaffi og pönnukökum.

p7
Það var öllum gleðigjafi þegar sólin sást teygja sig upp fyrir háu fjallatoppana. Það var engin sameiginleg kaffidrykkja heldur hver á sínu heimili. Ég man svona eftir þessu frá 10-11 ára aldri.

Á þessum sérstöku dögum, bolludag, sprengidag og öskudag var ekki neitt um að vera í mínu byggðarlagi, Hnífsdal en öskupokar voru saumaðir og voru þeir aðallega úr sirspjötlum því þau voru svo mikið notuð í gamla daga. Svo var látin í þá aska eða smásteinar. Svo reyndu stelpur að hengja þá í strákana en aftur hengdu strákar steina í stelpurnar. Þeir tíndu smásteina svolítið aflanga og bundu smáspotta utan um hann miðjan og títuprjóna í endann á honum til að krækja með. Ég held að flestir hafi brugðist vel við þessum leik. Ég held það hafi verið lítið um flengingar og bollur og því síður rjómabollur, að minnstakosti ekki á mínu heimili og sömuleiðis var það með sprengidagsmatinn, það gat farið eftir því hvort nokkur kjötbiti var til á heimilinu eða ekki en á fullorðinsárum hefi ég ekki farið varhluta af því sem tilheyrir þessum dögum.

Ég kannast við það að fólk var látið hlaupa apríl og gat það stundum orðið grátt gaman. Einhverntíma heyrði ég á meðan ég var í Hnífsdal að fólk hafi verið látið hlaupa apríl milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og hafi það eitthvað átt að verða afdrifaríkt en því miður man

p8
ég þetta ekki nógu vel til þess að geta sagt frá því.

Á mínu uppvaxtarheimili var ekkert um að vera páskadagana fremur en aðra daga. Tilbreyting var ekki mikil. Ef hangikjöt var fáanlegt sem ekki var nú alltaf þá var það helsta tilbreytingin og svo var eitthvað bakað, aðallega kleinur og jólakaka. Vinna var almennt lögð niður og skólanum var gefið frí. Aðalskemmtun okkar unglinganna var að leika okkur úti ef að veðrið var gott, fara í boltaleiki, fara ofan í fjöru, að sprengja þarakúlur og fleira og fleira. Ef að var messað í þorpinu einhverra þessara daga þá fóru flestir til kirkju. Þetta er það helsta sem ég man eftir. Páskaegg þekktust ekki á þessum stöðum og engar sérstakar venjur varðandi fuglaegg. Það var ekki fyrr en ég kom til Reykjavíkur að ég sá páskaegg og fyrstu páskaeggin sem ég sá voru úr pappa og alla vegana máluð og inní þeim var smávegis sælgæti. En svo fóru súkkulaðieggin að koma á markaðinn uppúr því. Þetta var uppúr 1930 en mér er ekki kunnugt hvenær þessi siður byrjaði.

Á sumardaginn fyrsta. Í þessum byggðarlögum sem ég var kunnugust voru engin hátíðahöld eða skemmtanir hvorki fyrir börn eða fullorðna þennan dag. Það hefur nú sjálfsagt verið með ýmsu móti hvað fólk hafði til matar. Um drykki var ekki að ræða nema vatn og kaffi, mjólk var ekki dagleg fæða hjá fólki og gosdrykkir þekktust ekki. Á mínu heimili fór lítið fyrir sumargjöfum en þó minnist ég þess að móðir mín gaf okkur systkinunum

p9
einu sinni smávegis í sumargjöf. Við eldri systkinin 2 fengum sinn myndarammann hver og var gömul ljósmynd af móður okkar í öðrum rammanum og hana fékk bróðir minn en í hinum var ljósmynd af afa okkar og féll hún í minn hlut en ekki man ég hvað hin 2 fengu en sjálfsagt hefir það eitthvað verið smávegis og mikið vorum við sæl og ánægð með þessar gjafir og eru þær til enn þann dag í dag þótt 60 ár séu liðin síðan eða meira. Þetta er það eina skipti sem ég man eftir. Ég held það hafi alltaf verið þjóðarsiður að gefa sumargjafir eftir því sem fólk gat.

Á meðan ég var á Vestfjörðum var ekki 1. maí kominn inní myndina sem frídagur verkafólks og var því hvorki um kröfugöngur eða skemmtanir að ræða og var unnið þann daginn eins og aðra daga ef vinna var fyrir hendi. Ég held að fyrsta kröfugangan sem farin var hér í Reykjavík hafi verið 1923 en best er að fá svona heimildir hjá Alþýðusambandi Íslands en ég kynntist þessu ekki fyrr en eftir 1932 er ég var komin útá vinnumarkaðinn. Í fyrstu voru þessar kröfugöngur ekkert vel séðar og þóttu heldur furðulegar og fólk stóð á öllum gangstéttum og götuhornum til þess að glápa á þær en vildi ekki láta sjá sig í þeim. En eins og allir vita nú í dag hefur þetta tekið stórkostlegum breytingum nú er allt ein hjörð og einn hirðir ef svo má segja og samtakamátturinn algjör.

Ég verð nú að stikla á stóru yfir þá helgidaga sem hér eru nefndir. Um lokadaginn hefi ég ekkert að segja. Ég kynntist engum siðum í sambandi

p10
við hann. Að vertíð lokinni tíndust menn í burtu hver til sinna heimkynna því það var mikið af aðkomumönnum í þessum plássum innan úr djúpi, norðan úr Jökulfjörðum og víðar.

Uppstigningardagur hefur mér alltaf fundist eins og hver annar sunnudagur og hafa engar breytingar átt sér stað hvað helgihald varðar á þeim degi.

Hvítasunnudagarnir voru ekkert frábrugðnir öðrum sunnudögum að öðru leyti en því að þá voru börn fermd á hvítasunnudag og var það hátíðleg stund og ógleymanleg en skemmtanahald þekktist ekki á þeim dögum, hvorki úti eða inni í mínum uppvexti.
Sama er að segja um sjómannadaginn. Hann var ekki kominn inn í myndina á þessu tímabili sem frásögn mín miðast við en eftir því sem mig minnir best mun fyrsti sjómannadagurinn hafa verið 3. eða 4. júní 1938.

Það var alltaf haldið upp á 17. júní sem þjóðhátíðardag og afmæli Jóns Sigurðssonar forseta löngu fyrir lýðveldisstofnun. Ég minnist þess að þegar að ég var unglingur var 17. júní minnst á Ísafirði með útiskemmtun og íþróttum og hér í Reykjavík var 17. júní mikill hátíðisdagur og að margra mati skemmtilegri í þá daga en nú á seinni árum.
Mér er ekkert kunnugt um Jónsmessuhátíðir eða siði eða trú sem henni tengdust. Það er eitt sem ég man ég heyrði að ef maður léti eggjahvítu í vatn í vatnsglasi og léti það undir rúmið sitt á Jónsmessunótt og átti eggjahvítan að koma út í ýmsum myndum sem spáði um framtíð manns, atvinnu

p11
og fleira. Ég gerði þetta einu sinni að gamni mínu og það myndaðist skip og má segja að það hafi verið svolítið skrítið því lengstur starfsferill minn var við ræstingu í farþegaskipum hjá Skipaútgerð Ríkisins í 36 ár.

Frídag verslunarmanna heyrði ég aldrei nefndan fyrr en löngu eftir að ég flutti til Reykjavíkur. Annar ágúst ár hvert var þeirra hefðbundni frídagur og þeir höfðu alltaf einhverjar útisamkomur hér utanvert við bæinn, aðallega fóru þær fram uppí Árbæ. Ekki veit ég fyrir víst hver skemmtiatriði hafa verið en að lokum mun hafa verið stiginn dans á palli því það var engin útiskemmtun í þá daga án þess að setja upp danspall svo fólk gæti dansað og skemmt sér eftir vild. Nú hefir þetta breyst eins og annað, nú er þetta orðið eitt af stórhátíðum þjóðarinnar.

Mér er mjög ókunnugt um alla tyllidaga fyrr á tímum, lífið var svo fábrotið. Það sem ég man helst eftir að tengdist jólaföstyunni var að við skrifuðum niður alla gesti sem komu á þessum tíma og kölluðum þá jólasveina en það er eins og mig minni að þetta hafi einhverju hlutverki átt að gegna en ég man ekki meira um það til að geta sagt frá því. Aðalundirbúningur okkar systkinanna var að búa til körfur sem voru úr allavega litum glanspappír. Í þær var svo sett smávegis sælgæti ef það var fyrir hendi, annars ekki neitt ef því var að skipta. Svo voru þær hengdar á jólatréð sem var smíðað úr viði og málað grænt

p12
og puntað með ýmsu móti. Það voru engir aðventukransar og engir jólapakkar. Ekki veit ég hversu það var algengt að senda jólakort en ég er hér með 2 kort í fórum mínum sem mér og móður minni voru send í tilefni af jólum 1916 og önnur 2 frá 1927. Jólakveðjur í útvarpi voru óþekkt fyrirbæri. Jólatré hefur alltaf tíðkast á mínu heimili síðan að ég man eftir mér en grenitré kom fyrst inná heimilið jólin 1929, árið sem við fluttum til Reykjavíkur. Mér er þetta svo sérstaklega minnisstætt af því að þetta var í fyrsta sinn sem við eignuðumst svona tré og svo þessi yndislegi ilmur sem því fylgdi. Síðan var það skreytt með kertum. Þeim var fest með kertaklemmum því ekki voru seríur komnar til sögunnar þá og svo var hengt á það allskonar jólaskraut, englahár og bjöllur og fleira. Svo skreyttum við íbúðina með allavega litu pappírsskrauti og var þetta hengt í loftin með allra handa kúnstum. Þetta verk önnuðumst við systkinin. Þetta var látið vera frammá 13ándann uns við tókum það niður.

Á Þorkáksmessu var vanalega borðuð skata með mörfloti en sem jólamat man ég helst eftir kjötsúpu á aðfangadagskvöld og ekki var um annað kjöt að ræða en saltkjöt. Um kökur og tertur var nú ekki mikið en þó eitthvað, til dæmis kleinur og jólakaka og pönnukökur. Svo voru það gyðingakökur og hálfmánar

p13
og terta sem var kölluð lagkaka. Í hana og hálfmánana var notað sveskjumauk sem var heimatilbúið því að rabarbarasulta var þá ekki til á hverju heimili eins og nú í dag. Drykkir með mat voru engir nema vatnið þar sem mjólk var ekki fáanleg eins og ég hefi áður getið um og gosdrykkir óþekktir. Á þessu hafa orðið stórkostlegar breytingar og hefur þróast uppí það sem er í dag. Hér miða ég ekki eingöngu við mitt heimili heldur var þetta almennt á heimilum á þessum tíma.

Eftir því sem ég þekkti til af eigin raun var ekki úr mörgu að moða til dægrastyttingar. Engir sérstakir leikir voru bannaðir nema að það mátti ekki spila á spil á aðfangadagskvöld en það var helst það sem börn gerðu sér til skemmtunar var að taka í spil því oft fengu börn nú spil á jólunum, sérstaklega svokölluð barnaspil sem voru miklu minni en vanaleg spil og svo var sungið og gengið í kringum jólatréð með frændum og vinum og eru manni ógleymanlegar samverustundir. Það var ýmislegt sungið fyrst og fremst jólasálmar og göngum við í kringum einiberjarunn og gekk ég inn með sjó og land og Adam átti yni sjö og nálgast jólalífs glöð læti, ljúf með von og tilhlökkun og fleira og fleira. Svo var það eins og ég hefi áður sagt frá að kvenfélagið í Hnífsdal gekkst alltaf fyrir jólatrésskemmtun og bauð öllum börnum í plássinu og var þetta kallað barnaball og mikið var hlakkað til þessa fagnaðar sem var haldinn í samkomuhúsi staðarins. Það fór þannig fram að það var sungið og dansað

p14
í kringum stórt jólatré með kertaljósum, skrauti og sælgætispokum sem hvert barn fékk svo að lokum ásamt epli og appelsínu. Einnig voru veitingar, súkkulaði og kökur en engin jólasveinaheimsókn var þá komin í tísku eins og nú hefir gerst í seinni tíð. En við sungum og dönsuðum við harmónikkumússík. Þetta var stórkostleg stund í lífi okkar barnanna í þorpinu því að aðrar barnaskemmtanir þekktust ekki á mínum uppvaxtarárum. Mér er ekki fyllilega kunnugt um hvað fullorðna fólkið gerði sér til gamans. Það tók þátt í jólagleði barnanna. Það fólk sem hafði gaman af að spila það spilaði. Það tíðkaðist svolítið að fara í jólaleiki ef fólk kom saman en fjölskylduboð voru ekki almenn og ekki dansleikir á jólum.

Það var alveg árviss atburður að hafa brennu og álfadans í Hnífsdal við áramót. Fyrir þessari áramótagleði stóð ungmannafélagið þróttur í Hnífsdal. Ég held það sé í kringum 1023-4 sem ég man fyrst eftir þessu. Ekki man ég fyrir víst hvenær kveikt var í brennunni en mér þykir líklegt að það hafi verið svona 8 1/2 sem álfadansinn byrjaði. Það var marserað í kringum brennuna og sungin álfalög með kóng og drottningu í fararbroddi og prins og prinsessu og svo voru það ljósálfar sem báru blysin. Þeir voru 7 og eingöngu karlmenn og svo voru það 10 parálfar og allt var þetta álfalið í allavega litum skrautklæðum en ekki með grímur fyrir andlitunum. Að lokinni þessari athöfn

p15
við brennuna var gengið ofan í pöntunarfélagshúsið þar sem álfadansinn hélt áfram með álfasöngvum og dansi en svo upp úr 1/2 11 var honum raunverulega lokið og þá byrjaði dansball fyrir almenning og dansað fram á nótt við harmonikkumússík. Þetta var ákaflega skemmtilegt og okkur sem vorum í álfadansinum ógleymanlegt og ekki síður æfingarnar á undan því oft höfðum við smáball á eftir þær en ég man ekki eftir neinum sérstökum hátíðarhöldum eða skemmtunum á þrettándanum, má þó vera að hafi veri kveikt í brennu þó ég muni það ekki. Ég hefi aldrei heyrt hann nefndan öðru nafni.

Skemmtanir. Það var stórt einlyft steinhús sem pöntunarfélag Hnífdælinga átti en því miður veit ég ekki hvenær það var byggt eða hvenær að pöntunarfélagið var stofnað. 1917 fluttum við úr Bolungarvík í Hnífsdal og þá var það til. Það var feykilega stórt að rúmmáli, grátt að lit og í þessu húsi fóru fram þær skemmtanir sem haldnar voru í plássinu sem voru aðallega tombólur og dansleikir, það var ekki nema um 2 félög að ræða sem stóðu fyrir skemmtunum, það var kvenfélagið og ungmannafélagið. Það voru aldrei leiksýningar eða kvikmyndir sýndar í Hnífsdal svo ég muni til og bingó og spilakvöld þekktust ekki en seinna meir kaupir ungmennafélagið húsnæði fyrir sína starfsemi sem verður svo aðalsamkomuhús Hnífsdælinga og eftir

p16
það eru allir dansleikir og fundahöld þar og samkomur sem fram fóru í þorpinu og í þessu húsi voru kaffiveitingar þegar að voru böll sem ekki voru í gamla staðnum. Upphaflega var þetta bátsmíðaverkstæði er var gjört að hinu vistlegasta samkomuhúsi en það fólk sem bjó uppi í húsinu höfðu veitingarnar þegar að dansleikir voru haldnir. Allir fundir, böll og samkomur sem áttu að fara fram í plássinu eða nágrenni voru auglýst með plaggati sem fest var upp hér og þar úti á staurum og húsgöflum. Það var aðallega einn húsgafl í Hnífsdal sem allar auglýsingar voru festar á. Þetta var heyhlaða sem var í miðju plássinu við sjáfargötuna. Það var mikið um það að fólk af Ísafirði kæmi á böllin í Hnífsdal hvort heldur var vetur eða sumar. Þá þurfti að ganga Eyrarhlíð sem liggur á milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Þá var ekki bílakosturinn. Nú þykir stórfurðulegat ef fólk lætur sér detta í hug að ganga þessa leið þar sem bílar eru fyrir hendi allar stundir. Við Hnífsdælingar urðum að sækja allar leiksýningar inni á Ísafjörð og kvikmyndir ef einhverjar voru. Ekki veit ég af neinum svaðilförum í sambandi við ferðir en mig langar til að segja frá smáævintýri af sjálfri mér sem ekki telst til svaðilfara. Það var um vetrarkvöld að móðir mín drífur sig með okkur fjölskylduna inná Ísafjörð til þess að fara á Skuggasvein sem var þá verið að sýna. Við munum hafa farið svona um 6 leitið úr Hnífsdal. Það var farið að skyggja og nokkur snjór á jörðu og

p17
erfitt að ganga en samt komumst við með góðu móti inneftir og í leikhúsið sem mér var nýr heimur og aldrei finnst mér ég hafa notið þess eins vel að sjá Skuggasvein eins og þá enda í fysta sinn sem ég sá sjónleik. Þarna sátum við á meðan sýningin stóð yfir án þess að bragða vott né þurrt frá því við lögðum af stað að heiman. Síðan leggjum við á stað útí Hnífsdal seint um kvöldið í myrkri og snjó og byl en svo þegar við erum komin svona útundir miðja hlíðina er ég orðin svo máttfarin að ég gat ekki með nokkru móti staðið á fótunum eða gengið. Mun þarna hafa komið til greina að ég var orðin of þreytt og svöng til að leggja á hlíðina í svona vondri færð. Ég var mjög þreklítil og smávaxin fyrstu ár æfi minnar og var því ekki til stórræða en svo lánlega vildi til að í för með okkur slóst maður sem bjó í Hnífsdal. Hann var ekki ýkja hár en mjög þreklegur. Hann gjörir svo vel og tekur mig í fang sér og ber mig útí Hnífsdal. Ég var nú ekki meiri bógur en þetta þó ég væri komin um eða yfir fermingu. Ég var auðvitað þakklát þessum blessuðum manni fyrir þessa miklu hjálp en hálfpartinn þótti mér skömm að þessum vesaldóm að þurfa að láta bera mig útí Hnífsdal. Þeir dansleikir sem ég þekkti til á yngri árum fóru yfirleitt alltaf vel fram. Þá var ekki ölvun almenn og engar vínveitingar á skemmtistöðum. Dansaðir voru gömlu dansarnir við dynjandi harmonikkumússík og ég held þeir hafi

p18
allir verið jafn vinsælir. Bekkir voru sitt undir hverri hlið í danssalnum og sat kvenfólkið vanalega annarsvegar og herrarnir á móti. Það var boðið upp á svipaðan máta og nú gerist, karlmenn með höfuðhneigingum og kvenfólk með hnébeygju. Fólkið dansaði af hjartans lyst og ég held að það hafi veitt báðum kynjum þann unað sem dansinn veitir. Vangadans sá ég ekki fyrr en uppúr 1930 hér í Reykjavík. Þá var farið að dansa tangó og nýju dansana. Um klæðnað er það að segja að hann var ákaflega mismunandi á Vestfjörðum. Fyrr á árum klæddust konur og stúlkur mest íslenska búningnum og fléttuðu hárið og settu það í lykkjur upp undir skotthúfuna en svo breyttist hártískan þegar að klippta hárið kom til sögunnar og þá um leið klæðnaðurinn. Fólk hér á böllum áður var afskaplega fínt. Kvenfólk sást varla í öðru en kjólum skreyttum perlum og pallíettum og permanentkrullur í hári. Klæðnaður karlmanna fannst mér lítið breytilegur á þessum fyrri tímum. Dansleikir voru mjög algengir og allskonar skemmtanir en hversu oft í mánuði eða ári hefi ég ekki tölu yfir því ég var svo lítið inní skemmtanalífinu. Sama er að segja með áfengismálin, ég var ekki kunnug þeim málum. Á þeim fáu böllum sem ég fór á sá ég drukkið fólk sérstaklega karlmenn, kvenfólk var ekki farið að drekka þá eins og nú. Þetta voru oftast nær sömu mennirnir sem vín sást á. Þeir komu með sitt vín með

p19
sér og ég held að það hafi ekki verið tekið af þeim. Ef þeir gerðu óspektir þá voru þeir bara fjarlægðir. Vín var hvorki veitt eða selt á böllum nema þá á helstu hótelum bæjarins en mér er ekki kunnugt um það. Það var mjög sjaldgæft að sjá vín á konum á samkomum, ég held það hafi verið litið alvarlegum augum bæði af karli og konu og þótt ömurleg sjón eins og það er reyndar enn í dag, en hverjir riðu á vaðið er ekki á mínu færi að svara og ég held að fáir viti það með vissu. Eins og ég hefi áður skýrt frá var það eingöngu harmonikkan sem ég kynntist á Vestfjörðum en hér í Reykjavík fóru hljómsveitir að spila á böllum ég veit ekki hvenær það hefur byrjað en ég þekki ekki annað síðan ég kom hingað 1929. Fyrstu dansstaðir sem ég kynntist var Iðnó og K.R. húsið sem áður hét Báran og var hér við Tjörnina. Það var hér áður fyrr útiskemmtanir bæði uppí Rauðhólum og Árbæ í tilefni af verslunarmannadeginum og svo í sambandi við 17. júní hátíðahöld og jafnvel á kvenréttindadaginn 19. júní og svo var það árviss dagur um nokkur ár fánadagurinn á Álafossi og fleira og fleira og allstaðar var dansað á palli. Þetta þóttu hinar bestu skemmtanir.


Áhugamannafélög. Ég hefi þegar skúrt frá þeim félögum sem mér voru kunnugust, kvenfélaginu og ungmannafélaginu í Hnífsdal. Svo störfuðu þar á

p20
tímabili 2 stúkur. Barnastúkan Vorblómið sem var stofnuð 1923 og fullorðinna stúka sem var stofnuð litlu seinna. Svo var stofnað verkalýðsfélag Hnífsdælinga 1924. Um klúbba og alþjóðleg félög veit ég ekkert um. Ungmannafélagið hafði ýmislegt á stefnuskrá sinni eins og til dæmis íþróttir og bindindismál og eins og ég hefi áður skýrt stóð það fyrir skemmtanahaldi í plássinu svo gaf það út félagsblað sem hét Viljinn. Stúkurnar störfuðu eingöngu að bindindis en því miður urður þær ekki langlífar. Verkalýðsfélagið starfaði að því að fá bætt kjör fólksins í plássinu því þau voru bágborin eins og víða annarsstaðar á landinu. Um vorið 1927 hefst þar söguleg og hörð kaupgjaldsbarátta í Hnífsdal og eru þá í stjórn félagsins formaður Ingimar Bjarnason, Helgi Hannesson ritari síðar kennari og forseti Alþýðusambands Íslands Gunnlaugur Gunnlaugsson féhirðir og meðstjórnendur voru þær Þóra Guðmundsdóttir (móðir mín) og Jakobína Guðmundsdóttir. Ég held þessi félög hafi verið virkust fyrstu árin á meðan þau voru að ryðja sér braut. Um handskrifuð blöð veit ég ekki nema að það hafi verið blað ungmennafélagsins og þá gæti það verið til enn en það vil ég ekki fullyrða.

Trúarlíf. Það var ekki kirkja í Hnífsdal. Það fóru fram allar messur og jarðarfarir frá barnaskólanum sem síðar fauk af grunni sínum í ofsa roki 27/2 1953. Síðan var sameinuð ein bygging sem er bæði barnaskóli og kapella. Messur voru vel sóttar þá

p21
sjaldan að messað var. Presturinn sat á Ísafirði og þjónaði bæði fyrir Hnífsdal og Bolungarvík og voru messur færri en skyldi í hverjum stað. Það var fyrir mína tíð þessi sætaskpan í kirkjum hvað snerti niðurröðun karla og kvenna. Frá því að ég man eftir mér var það eins og það er í dag að allir voru jafnréttháir með sætin í guðshúsi og það áttu engar vissar fjölskyldur forgang að ákveðnum bekkjum. Þetta hefir allt verið um garð gengið fyrir mitt minni og öll sú virðing og serimoníur sem þessum sið fylgdi. Það voru engin starfandi trúfélög í Hnífsdal fyrir utan þjóðkirkjuna en Hjálpræðisherinn sem hóf starfsemi sína á Ísafirði kom oft útí Hnífsdal til að halda samkomur. Einnig stofnsetti hann sunnudagaskóla fyrir börnin í plássinu og var það vel séð og börnunum mikil tilbreyting sem ekki áttu kost á neinu öðru félagslífi. Það litu ekki allir sömu augum Hjálpræðisherinn, því miður varð hann oft fyrir aðkasti með allskonar skrípalátum en fólk hreifst af söng hans og spili. Þessar samkomur fóru fram innan húss í barnaskólanum eða ungmannafélagshúsinu. En það var engin hreyfing frá aðventistum eða hvítasunnumönnum og ég man ekki eftir farandpredikurum. Ég man aðeins eftir einum manni sem kom í Hnífsdal og var á vegum aðventista og var að kynna þá stefnu og kanna hug fólks til hennar en ég man ekki hvort hann

p22
hélt samkomur en hann heimsótti fólkið en stofnaði engan trúflokk. Þetta var hinn mæti maður Pétur Sigurðsson síðar regluboði og stórstúkumaður. Það hófust góð kynni með honum og fjölskyldu minni á þessum ferðum hans sem héldust til dauðadags.

Spariföt. Á mínum uppvaxtarárum var íslenski búningurinn aðal sparifatnaður kvenna. Móðir mín átti ekki stiglapeysu eða upphlut mikinn hluta æfi sinnar sem hún svo eignaðist seinna meir en hún fór aldrei svo út af bæ að hún væri ekki í peysufatapilsi, svuntu og skotthúf og slegið sjal eins og það var kallað en treyja eða blússa og hyrna á herðum kom í staðinn fyrir stiglapeysuna og svo voru það íslensku skórnir. Ég man ekki til að hún eignaðist útlenda skó í þá daga. Hversdagslega var hún í morgunkjól með svuntu og hyrnu á herðum. Ég þekkti lítið til sparifatnaðar karlmanna. Áður en flibbaskyrturnar og bindin komu til sögunnar notuðu menn brjósthlífar til spari. Það voru hvít stífuð brjóst og harður flibbi og mansiettur sem voru látnar koma svolítið framundan jakkaermunum og svo var það svört slaufa. Þetta þótti fínt við dökk jakkaföt. Þetta var spariklæðnaður, faðir minn átti svona útbúnað. Það voru líka til hvundagsbrjósthlífar sem ekki voru stífaðar, þær voru jafnvel svartar og pössuðu við öll föt.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana