Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1892

Nánari upplýsingar

Númer6575/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.6.1983
Nr. 6575

p1
Heimildarmaður: Ingvar Loftsson FD: 29 02 1892 Svörin miðast við Eyrarbakka, Árn.

Skírn. 1. Geri ráð fyrir að ég hafi tekið heldur lítið eftir skírnarathöfnum í þá daga. Geri ráð fyrir að það hafi farið eftir ýmsum ástæðum til dæmis einsog hvort langt var til kirkju eða skammt. Það þekki ég ekki en hef heyrt talað um skírnarkjóla. Veit ekkert um þeirra tísku. Um guðföður eða guðmóður og þeirra skyldur veit ekki neitt. Man ekki eftir að hafa heyrt talað um skírnarveislu eða boð til þeirra eða gjafir. 2. Um þetta veit ég ekki neitt, þekkti ekki nein óskírð börn á mínum aldri, veit því ekki hvernig fólk hefur litið á það ef til hefur verið.

Afmælisdagar. 1. Yfirleitt held ég að efnahagur fólks fyrir og um aldamótin að það væri stofnað til veisluhalda við svoleiðis tækifæri, jafnvel þó heimili væru bjargálna sem kallað var. 2. Held að það gildi sama svar um þessa spurningu og þessa fyrri. Vera má að það hafi verið hitað kaffi og kannski bakaðar kleinur en ég efast um að það verði talin veisluhöld.

p2
Ferming. 1. Ég var fermdur í Eyrarbakkakirkju 1912 og minnir mig að það væri svipuð athöfn og nú tíðkast. Man ekki eftir neinum fermingarundirbúningi. Ég var að hjálpa manni í næsta húsi að taka upp mó allan daginn áður, hann gaf mér krónu daginn eftir og þegar ég hugsa um það nú þá er ég alveg viss um að hann mátti ekki missa hana. Held að allir hafi verið fermdir í sínum skárstu fötum, hvort þau voru ný eða gömul það man ég ekki. Hvenær fermingarkirtlar komu í notkun það veit ég ekki, mætti segja mér að það hafi ekki verið fyrr en eftir miðja öld. Held að áberandi fermingarveislur hafi verið frekar fátíðar. Veit ekkert um símskeyti. Held að það hafi verið algengara að barnið væri fermt og engin veisla haldin. 2. Geri ráð fyrir að þar hafi enginn munur á verið, þeir voru fermdir í sömu kirkju og að mig minnir af sama presti og ég. 3. Um þessa get ég ekkert sagt, annars vissi ég ekki um nein ófermd börn þar sem ég ólst upp. 4. Ég held að fermingin hafi ekki haft sérstök áhrif á störf unglinganna, hitt er vitað að eftir því sem þeir þroskuðust, þyngdust störfin.

p3
Próf. Hef aldrei heyrt minnst á hátíðahöld í sambandi við skólaslit, ef til er hlýtur það að vera yngra en mín uppvaxtartíð. Trúlofun. Ég hef aldrei heyrt talað um neina sérstakar aðferðir í þeim efnum. (Voru hringar sjálfsagðir). Það get ég ekki sagt um en ég heyrði oft talað um að þetta eða hitt parið hefði verið að setja upp hringana og getur mér þá þegar orðum er hagað svona að þeir hafi verið nokkuð algengir. Seinni hluta þessarar spurningar get ég ekki svarað hún er of einstaklingbundin til þess.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana