Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDagamunur, Félagslíf, Þéttbýli
Spurningaskrá56 Lifnaðarhættir í þéttbýli V. Dagamunur og félagslíf

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1891

Nánari upplýsingar

Númer6560/1983-8
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.6.1983
Nr. 6560

p1
Heimildarmaður: Guðrún Einarsdóttir FD: 21 04 1904 Svörin miðast við Rang. Vestm.

Faðir minn bjó á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð en flutti til Vestmannaeyja árið 1911 svo ég man eftir fáu einu frá þeim árum en ég man eftir minni fyrstu kirkjuferð. Það var til Hlíðarendakirkju. Þar sátu heldri menn í kór og hefðarkonur í fremstu sætum hinu megin í kirkjunni. Líka man ég eftir fjölmennu brúðkaupi sem við vorum í á næsta bæ. Þar voru gift tvenn hjón og var veislukosturinn súkkulaði og allsslags kökur. Ég man að þar heyrði ég fyrst nefnda sótaköku og vildi ekki smakka hana. Til skemmtunar var dansað úti á túni og voru stúlkurnar í kirtlum. Önnur brúðurin í bláum, hin í grænum. Þegar dansinum lauk fór fólkið inn í baðstofu og söng saman langt fram á nótt. Um brúðargjafir man ég ekki neitt. Ég man ekki eftir neinum tyllidögum heima hjá mér nema hefðbundnum helgi dögum og sumardeginum fyrsta og var þá aðallega haldið til með betri mat og kaffi og kökum.
p2
Í mínu ungdæmi fór skírn yfirleitt fram í kirkju en í heimahúsum í tilvikum svo sem veikinda eða öðru slíku. Börn voru yfirleitt skírð í hvítum fötum, oftast í hvítum síðum kjól úr silki eða blúnduefni nema ermar og berustykki. Það var snemma siður að gefa börnum skírnargjöf og í minni fjölskyldu var helst um smá peningagjafir að ræða. Ég held að það hafi verið algengast. Guðfaðir og guðmóðir voru oft afar eða ömmur eða vinafólk. Veislur voru yfirleitt en aldrei man ég eftir matarveislum en súkkulaði og kökur voru yfirleitt. Ég man aðeins eftir einu tilfelli þar sem barn var óskírt til fermingaraldurs. Það var í Vestmannaeyjum á árunum 1908-1919 og var það faðir drengsins sem réði þessu og þótti fólki þetta mjög óviðkunnanlegt. Ástæðan held ég hafi verið talin eitthvað ósamkomulag við prestinn.

p3
Í minni fjölskyldu var haldið upp á afmælisdaga okkar fram undir fermingaraldur en eingöngu innan heimilisins og var þá kaffi með pönnukökum, kleinum og jólaköku en engar gjafir nema þá helst nýir sokkar eða vettlnigar, heimaprjónað. Afmæli fullorðinna heyrði ég aldrei minnst á. Ég var fermd 1918. Ég var í hvítum síðum kjól en ég fékk ekki peysuföt sem spariföt heldur kjól og kápu. Foreldrar mínir bjuggu þá í litlum bæ í Garðahverfinu á Álftanesi og var því veisla haldin í Hafnarfirði hjá föðurbróður mínum og var boðið frændfólki og nánustu ættingjum. En daginn eftir var boðið heim nábúum og kunningjafólki frá bæjunum í kring. Þá var í Garðahverfinu mjög þéttbýlt og gott samkomulag milli bæja. Gjafir voru sitt af hverju tagi. Ég fékk silfurhólk á skotthúfu og bækur og helst peningar og var það mesta frá einum 5 krónum og allt niður í 2 krónur frá hverju heimili. Ég þekki engin tilvik þar sem börn voru ekki fermd.

p4
Það varð töluverð breyting í lífi unglinga við ferminguna. Ég man þó frekar eftir stúlkna. Það var algengast að þær fengu peysuföt sem spariföt. Þeim var borgað eitthvert kaup og ætlast til meiri vinnu af þeim en ófermdum ungling. Ég man ekki eins eftir drengjum, hann var aðeins einn á mínu heimili en fimm stúlkur. Ég man ekki eftir neinum sérstökum viburðum viðvíkjandi prófum. Sá tími sem ég miða þetta helst við er á árunum 1912- 1913. Þá var það algengast að ungt fólk opinberaði trúlofun sína nokkuð löngu áður en það gifti sig. Á þessum tíma átti ég heima í Vestmannaeyjum og fylgdist nokkuð með því sem skeði. Það var siður að fólk setti upp hringana á einhverjum tyllidögum, afmælisdögum, hátíðisdögum. Þá var gullsmiður í Eyjum og voru hringarnir fengnir þar en í tilvikum sóttir til Reykjavíkur og var eitthvað gert til tilhalds við slík tækifæri. Þegar ég trúlofaði mig fór það með sama hætti og ég var að lýsa en sjálf á ég bara eina dóttur og hún gifti sig án þess að opinbera það fyrst. Ég held að fólk hafi kynnst betur áður en nú.

p5
Ég held að tímabil milli trúlofana og giftinga hafi verið mjög óhefðbundið og kom þá til jarðnæði í sveit og húsnæði í kaupstöðum. Þá mun hafa verið minna um óvígða sambúð en nú en þekktist þó til þess. Ég man ekki eftir því að lýst væri með hjónum. Á mínum yngri árum var algengast að hjónavígsla færi fram heima hjá presti en þó stundum í heimahúsun en kirkjubrúðkaup voru þó stundum hjá heldra fólki en ég þekki þau ekki nema eins og þau tíðkast nú til dags. Brúðkaupsveislur voru yfirleitt haldnar og hjá foreldrum eða fósturforeldrum brúðarinnar. Það var mikill munur á minni giftingu og dóttur minnar. Ég var gift heima hjá séra Árna Björnssyni í Görðum á Álftanesi og héldum við hjónin sjálf veislu í íbúð okkar. Það mun hafa verið 18-20 manns í veislunni. Dóttir mín var gift hjá séra Jóni Thorarinsen. Hennar veisla var í Þjóðleikhúskjallaranum og sátu hana um 40 manns. Í minni veislu var veislukostur súkkulaði og kökur og kaffi. Hjá henni var matarveisla með hljómsveit, dans og kransakaka um kvöldið. Gjafir voru í báðum tilfellum líkar. Þar komu til dúkar, bollastell og ég fékk þvottastell sem var þvottaskál, vatnskanna og skolpfata en dóttirin fékk málverk og silfurborðbúnað.

p6
Ég man ekki eftir silfur- eða gullbrúðkaupsveislum fyrr en í seinni tíð. Ég get lítið sagt um dauðsföll í heimahúsum. Á mínu heimili hefur engin dáið nema á spítala. Aðeins eitt systkini mitt, ungbarn þegar ég var þriggja ára. Ég man lítið eftir því en ég held að lík hafi staðið uppi allt að viku tíma. Á mínum yngri árum sá ég í kirkjugörðum í sveit leifar af krönsum á leiðum sem munu hafa verið gerðir úr lyngi og einhverjum lituðum pappír. Það mun hafa verið til á árunum 1937-1938, kannski lengur. Húskveðjur voru mjög algengar, næstum sjálfsagðar í mínu ungdæmi. Þar sem voru góð húsakynni var húsukveðjan haldin í þeirri stofu sem kistan stóð. Það kom líka fyrir að hún fór fram úti á hlaði þar sem húsakynni voru þröng. Sunginn var sálmur og presturinn hélt ræðu. Yfirleitt voru haldnar ræður við jarðarfarir. Ég man ekki eftir þeim úti. Það var venja að bjóða vinum og kunningjum í jarðarfarir, aðrir komu ekki. Fólk var venjulega klætt sínum sparifötum sem voru í flestum tilvikum dökk. Ég man aðeins eftir einu tilviki við jarðarför án kirkjulegt yfirsöngs. Það var í Vestmannaeyjum á árunum 1915- 1916.

p7
Ég man eftir erfisdrykkuum eftir börn eða unglinga. Það var ekki mikið um legsteina en þeir sáust úr höggnu grjóti en það var mikið um trékrossa. Oftast var farið með blóm á leiði á jólum og afmælisdögum þess látna.

Ég man ekki eftir þorrablóti á unglingsárum mínum. Það var ekki heldur siður að fagna endurkomu sólar, ég hef aldrei búið nema á suðurlandi þar sem sólargangur er lengstur. Ég var í Vestmannaeyjum frá 7 til 10 ára. Þar var mikið tilstand á bolludag. Krakkarnir fór á fætur snemma morguns og flengdu stelpur stráka og öfugt. Aðallega átti flengingin að fara fram áður en sá sem flengdur var væri klæddur. Var þá barið duglega í sængin og kallað bolla bolla. Vanalega sáu mæður okkar fyrir því að borga og voru bollurnar frekar keyptar en bakaðar heima. Á öskudaginn var mikið verið með öskupoka. Þá hengdu stelpur á karla og var mest varið í að hengja á heldri menn, helst á prestinn ef hann var á gangi. Sumir brugðust illa við, aðrir létu sem þeir sæu ekki og það var bara ekki eins gaman.

p8
Kattarslagur eða sníkuferði voru ekki til siðs þar sem ég ólst upp en grímudansar voru frekar um þrettándann. Þá gat skrípabúið álfahyski flækst á milli bæja og var því alltaf vel tekið. Kannski stungið að manni kandísmola eða einhverju sem manni þótti gott. Öskudagur var ekki frídagur í minni skólatíð. Það var algengt að unglingar reyndu að láta einhvern hlaupa apríl en ég man eki eftir neinu svo skemmtilegu tilviki að það sé til að segja frá. Skírdagur var ekki mikil hátíðisdagur. Að vísu var rokkurinn látinn út í horn en dagurinn frekar notaður til að búa undir hátíðina. Skúrað og bakað. En föstudagurinn langi var algjör frídagur. Þá var aðalmaturinn kjötsúpa og kaffibrauð var aðallega kleinur, jólakaka og pönnukökur. Páskadagurinn var svipaður nema þá var haft hangikjöt í aðalmat og farið var til kirkju báða þessa daga ef mögulegt var. Páskaegg þekkti ég ekki fyrr en uppkomin og skreytt egg ekki fyrr en eftir miðjan aldur.

p9
Sumardagurinn fyrsti var frídagur frá því sem ég fyrst man. Fyrsta útiskemmtun sem ég kom á var á sumardaginn fyrsta í Fljótshlíðinni. Það mun hafa verið 1910. Þar kom saman fólk af bæjum í kring. Þar var glímt, mikið sungið og líka dansað. Sumargjöfum man ég ekki eftir. Það var gjarnan venja að hafa hangikjöt í matinn og eitthvert meðlæti með kaffinu. Ég tók ekki þátt í hátíðahöldum fyrsta maí fyrr en ég flutti til Reykjavíkur árið 1931. Þegar ég heyrði fyrst talað um kröfugöngur verkafólks fannst mörgum það vera ískyggilegt brambolt sem spáði engu góðu fyrir land og þjóð. Ég man helst eftir lokadegi sem sérstökum degi þegar ég átti heima í Vestmannaeyjum. Þá var vetrarvertíð lokið og sjómenn fengu sín laun. Þá var mikill gleðskapur, drykkjuskapur og fagnaðurinn stóð fram undir morgun næsta dag. Uppstigningadagur var í mínu ungdæmi haldinn eins og venjulegur sunnudagur. Hvítasunnudagur var mikill hátíðsdagur. Fólk klæddist sparifötum, fór til kirkju og heimsótti vini og kunningja. Ég man aldrei eftir að spilað væri á spil á þeim degi.

p10
Mig minnir að ég hafi fyrst verið við hátíðahald sjómanna 1938 og það var í svipuðu formi og það er enn í dag. Ég bjó í Reykjavík og var á Þingvöllum. Það var margskonar trú bundin við Jónsmessunótt. Það var talin allra meina bót að velta sér upp úr dögginni á miðnætti. Líka gátum við ungu stúlkurnar spáð í hvernig mann við mundum eignast með því að brjóta hrátt egg í vatnsglas og láta það bíða á Jónsmessunótt. Ef eggið skipti sér í háa bólstra þá eignuðumst við ríkam mann, ef það var flatt í glasinu þá var það bara verkamaður. Við þann tíma sem ég miða helst við kom ekki frídagur verslunarmanna við sögu. Heima hjá mér var alltaf eitthvað tilhald í mat fyrsta vetrardag. Á þeim árum sem ég man fyrst eftir var það gert til gamans að skrifa upp alla gesti sem komu á jólaföstu. Svo voru nöfnin sett á miða svo var dregið um nöfnin, karlmenn drógu konur og konur karla og var oft skemmtun að hvernig tókst til.

p11
Á Þorláksmessu voru rokkar og allt ullarvinnudót lagt til hliðar og baðstofan skúruð hátt og lágt, bæjardyr sópaðar og eldhúshillur þvegnar. Þá var líka soðið hangikjöt um kvöldið og geymt í búrinu. Þá var búið að baka jólakökur en pönnukökur og kleinur á aðfangadag. Ég vissi ekk
i til að börn settu skóinn sinn í glugga fyrr en barnabörnin mín komu til. Á uppvaxtarárum mínum voru ekki jólagjafir nema við systkinin fengum ný föt, svuntur eða kjóla eða einhverja nýja flík og alltaf kerti og spil og þá eitthvert sælgæti, kannski bara rúsínur og sætt smákex sem var kallað fínabrauð. Eftir að ég var um tíu ára aldur man ég eftir að það voru send jólakort heima hjá mér til vina og skyldmenna. Jólatré voru ekki á mínu heimili fyrr en eldri systur mínar voru það vaxnar að þær útveguðu það sjálfar. Það var úr tré og skreytt með mislitum pappír, pokum sem eitthvert sælgæti var sett í, kertum og kúlum og englahári.

p12
Á Þorláksmessu var borðuð skata ef hún var fyrir hendi en annars saltfiskur. Á aðfangadag var kjötsúpa en á jóladag þegar ég man fyrst eftir var hverjum skammtað fyrir sig hangikjöt lundabaggar og stór flatkaka og smjör og þetta var svo ríflega skammtað að allir áttu afgang sem geymdir voru til næstu daga en þessi siður lagðist niður heima hjá mér þegar við fluttum úr sveit til Vestmannaeyja. 1911-. Breytingar á jólahaldi frá því sem var eru svo geysi miklar en þó hélt ég alltaf þeim vana á meðan ég hafði heimili að hafa skötu á Þorláksmessu og sjóða hangikjöt á Þorláksmessu. Unglingar spiluðu mikið á spil en það var okkur bannað á aðfangadagskvöld. Börn hittust meira á jólum en aðra daga. Það var venja í minni fjölskyldu að frændfólki og vinum var boðið heim og þá komu börnin líka með og svo var okkur boðið heim til kunningjanna í staðin. Þegar ég var í barnaskóla í Vestmanneyjum þá voru haldnar jólaskemmtanir fyrir börn. Jólatréð var úr tré og skreytt með kertum og allavega mislitum pappír. Það var mest sungnir sálmar og einhver ættjarðarljóð sem við kunnum. Jólasvein heyrði ég ekki minnst á.

p13
Fyrst þegar ég man eftir mér í sveit þá voru alltaf álfabrennur um áramótin. Þær voru ýmist á gamlárs eða þrettánda. Það var tvíbýli á mínum bæ og þar var lagt saman í brennuna. Ef hún var á gamlárskvöld þá var kveikt í henni klukkan 12 á miðnætti. Líka kom fyrir að brennan var á þrettánda. Þá var kveikt í henni um klukkan átta og voru þá álfakóngur og allskyns skraut og fólk klætt allskyns álfabúningum og sungið og dansað langt fram á kvöld.

Fyrsta samkomuhúsið sem ég man eftir var Templarahúsið í Vestmannaeyjum. Það var nokkuð stórt timburhús. Þar var sena og voru þar sýndir sjónleikir. Þar voru lausir trébekkir sem var raðað upp við slíkar sýningar en raðað fram með veggjum þegar dansleikir voru. Bíó kom til eyja um 1915-16. Það var líka sýnt í Templarahúsinu. Spilakvöldum man ég ekki eftir en tombólur og bögglauppboð voru til. Ég fór aldrei langar leiðir til þess að sækja skemmtanir en ungt fólk fór oft þegar ég var krakki í næstu sveitir á böll og kom yfir óbrúaðar ár og læki. Skemmtanir vru auglýstar á lugtarstaurum og húshornum.

p14
Ég tók ekki þátt í opinberum dansleikjum fyrr en um 1920. Þá átti ég heima í Garðahverfinu á Álftanesi. Þá var siður að ungt fólk fór saman á böll gangandi úr á Álftanes eða niður í Hafnarfjörð. Á Álftanesinu var dansað í barnaskólanum. Stundum voru þessi böll á vegum kvenfélagsins eða stúkunnar og ein árshátíð á vegum hreppsnefndar. Á þessum árum var bara harmonikkumússík. Oft voru einhver skemmtiatriði, ræður, upplestur eða söngur. Vín var algengt að menn hefðu um hönd og var litið óátalið. Það mátti heita algengt að átök og riskingar upphefðust í miðjum dansi og hlupu þá dömur út í horn í skjól til kunningja ef ódrukkinn var. Þetta gat endað með blóðnösum og marblettum en þetta hætti eins snögglega og það byrjaði og ballið hélt áfram með sama fjöri. Þetta fór alveg eins fram í Hafnarfirði á þessum árum svo breyttist þetta alveg á svona næstu tíu árum. Vinsælasti dansinn var vals og ræll og skottís. Stúlkurnar sátu á bekkjum með fram veggjum en piltarnir stóðu í hnapp oftast fram við dyr og buðu upp dömunum. Stúlkur voru mikið í peysufötum þá en þær sem voru í kjólum höfðu hárið sett upp venjulega í hnút í hnakkanum. Þá voru ekki stúlkur klipptar. Það var ekki mikið um vangadans en innileg handtök voru þá líka til.

p15
Frá árinu 1924 átti ég um tíma heima í Hafnarfirði. Þá var þar fjölbreytt félagslíf. Þar voru starfandi tvær templarastúkur. Þær hétu Morgunstjarnan og Daníelsher. Það voru haldnir fundir einu sinni í viku. Bindindismál voru aðalatriði. En stúkan stóð líka fyrir mörgum skemmtisamkomum og um jólaleyti var alltaf haldin jólatrésskemmtun fyrir aldrað fólk með kaffiveitingum og einhverjum skemmtiatriðum. Stundum voru haldnir almennir dansleikir í fjáraflaskyni. Þar átti náttúrlega ekki að hafa vín um hönd og var aldrei mjög áberandi en þá voru það helst stúlkur sem geymdu smá pela í töskunni sinni fyrir vini sína. Á þessum árum var áfengisneysla kvenna fremur lítil og var ekki mikið á almannafæri og heldur illa þokkuð af flestum. Á gamlárskvöld var alltaf dansleikur í bíóhúsinu eftir sýningu. Það fylgdi aðgöngumiði á þetta ball með bíómiðum. Það var þá spilað á píanó og ballið stóð til klukkan þrjú á nóttunni. Kaffiveitingar voru á Hótel Hafnarfirði meðan ballið stóð.

p16
Á þessum árum starfaði líka málfundafélagið Magni í Hafnarfirði. Það stóð fyrir Jónsmessuhátíð á hverju vori. Það var útiskemmmtun sem var haldin á einhverjum hentugum stað frá seinni parts dags fram til klukkan sex með ræðuhöldum, söng og útileikjum og um kvöldið var dansað úti fram á nótt. Þá var karlakórinn Þrestir líka starfandi og þótti alltaf góð skemmtun þegar þeir sungu opinberlega. Líka var starfandi lúðrasveit í Hafnarfirði þá. Hjálpræðisher starfaði líka í firðinum. Hann hélt stundum fundi úti sem ekki voru mikið sóttir en hann rak líka gistihússþjónsustu sem aðkomnir sjómenn notuðu mikið. Vissar fjölskyldur áttu á þessum árum sem ég miða við ekki viss sæti í kirkjunni nema prestskonan og hennar fjölskylda sat á öðrum bekk vinstra megin í kirkjunni. Fíladelfíusöfnuður var starfandi og ég vissi að það varð nokkur röskun á heimilislífi þegar það kom til að húsmóðirin hélt laugardaginn helgan en húsbóndinn átti helgan sunnudaginn.

p17
Ég bjó aldrei á stað þar sem ekki var kirkja. Frá mínu heimili var farið til kirkju á öllum hátíðisdögum og mjög oft aðra helga daga en þetta breyttist mikið þegar útvarpið kom. Þá held ég að fólk hafi fremur farið til kirkju bara á hátíðum.
Ef um farandpredikara var að ræða þá voru þeir frekar hafðir til athlægis heldur en þeir sneru mönnum til annarar trúar. Ég veit ekki um dæmi þar sem trúarlíf ágreinis efni milli pilta og stúlkna. Þegar ég man fyrst eftir mér voru spariföt manna svört og höfðu menn þá ljósleita brjósthlíf frá árunum 1911-12. Man ég eftir að faðir minn hafði stífaða brjósthlíf og lausan stífan flibba. Síðar komu til gúmmíflibbar og þóttu þarfaþing en ég held að þeir hafi ekki verið lengi til siðs. Hversdagsföt kvenna voru pils, lík peysufatapilsum en styttri og úr grófara efni. Að ofan voru treyjur, nefndar dagtreyjur og voru þær oft með einhverjum fellingum og fallegum hnöppum til prýðis.

p18
Spariföt kvenna voru yfirleitt peysuföt, síð klæðispils, stakkpeysur og fallegar silkisvuntur. Sumar konur áttu líka upphlut en hann var notaður meira sem sunnudagaföt en til hátíða. Konur höfðu oft skýluklúta á höfði hversdagslega en ef þær gengu milli bæja þá höfðu þær sjalklúta sem voru keyptir í kaupstað. Á þeim dögum sem ég man fyrst held ég að spariskór móður minnar hafi verið bryddaðir sauðskinnsskór en þetta breyttist fljótt og einhverslags stígvélaskór komu í staðinn. Reiðföt kvenna voru efnismikil, síð pils og hattur með slöri eða slæðu og aðskorin treyja. Konur riðu yfirleitt í söðli. Á árunum frá 1911 þegar ég var í Vestmannaeyjum þá voru spariföt stúlkna peysuföt, hárið var oft fléttað í fjórar fléttur og nælt undir húfuna. Spariskór voru stígvélaskór. Þær stúlkur sem ekki gengu á peysufötum höfðu kjól fyrir spariklæðnað, settu hárið upp í hnút í hnakkanum og var kallað að þær gengu á dönskum búning.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana