20 Heygeymsla
Nr. 3075
[Svörin miðast einkum við Steingrímsfjörð.]
p1
Á Gilsstöðum í Steingrímsfirði,
þar sem ég er fæddur og átti heima til þess er ég var langt kominn á 7.
ár, voru engar heyhlöður, heldur heytóttir eða heygarður sem stundum var
svo nefnt en yfirleitt var garðsnafnið ekki notað, heldur aðeins tótt eða
heytótt. Í Kálfanesi í Steingrímsfirði, þar sem foreldrar mínir bjuggu
á árunum 1906-11, voru hlöður við öll hús nema fjósið. Þar var því
borið upp hey í gamalli skemmutótt og nefnd fjóshey eða kúahey, en lítið
man ég eftir því, enda ekki þá kominn það til aldurs að ég ynni þar neitt
að. Á Kaldrananesi í Bjarnarfirði bjuggu foreldrar mínir svo á árunum
1912-12, en þar voru torfhlöður við öll hús og einnig í Bæ á Selströnd,
þar sem foreldrar mínir bjuggu í eitt ár, 1911-12. Vorið 1915 flytja
þau svo að Vatnshorni í Þiðriksvalladal í Steingrímsfirði og bjuggu þar
í 10 ár uns þau létu af búskap. Enda andaðist
p2
móðir mín í desembermánuði
það ár, 1925. Í Vatnshorni voru bæði heyhlöður og heytóttir. Þá
var ég kominn það til aldurs að ég tók fullan þátt í skepnuhirðingu, umbúnaði
heyja og heyöflun. Þótt ég að vísu væri lítið heima eftir árið 1918,
tel ég mig enn muna allglöggt hvernig að öllu slíku var staðið. Fjósið
tók 2-3 kýr og við það var torfhlaða sem tók ca. 70-80 hesta af töðu, en
stærð hennar að öðru leyti man ég ekki. Veggir voru hlaðnir úr klumbuhnaus,
ca. 3ja álna háir nema gaflhlöðin, sem voru hærri. Í hlöðunni miðri
var mæniás sem borinn var uppi af 3 gildum stoðum, einni í miðju og hinum
við gafla. Meðfram langveggjum voru vegglægjur sem hvíldu á frekar
grönnum stoðum frá vegglægjunum. Gengu svo skáldraftar upp á mæniásinn,
en utan á þá var raðað þéttu árefti, þ.e. ýmislega löguðum og mislöngum
spýtum, en skógviði ekki, því að enginn skógur er í Þiðriksvalladal. Aftur
á móti hálfminnir mig að í kúahlöðunni á Kaldrananesi,
p3
sem var af svipaðri
stærð og með alveg sama sniði og nú var lýst, væri skógviður, er kallaður
var "tróð" ofan á áreftinu næst torfinu, en þá mátti hafa áreftið
gisnara en ella. Torfþök á húsum, hlöðum, fjárhúsum og bæjarhúsum
voru ávallt tvöföld, þ.e. tvö lög af torfi og mold á milli laga. Á
nokkurra ára fresti var svo einu torflagi bætt við. Þess vegna gátu
þök á sumum gömlum húsum, einkum bæjarhúsum, verið ca. 1/2 alin á þykkt
og jafnvel vel það. Alltaf var þakið með nýristu og blautu mýratorfi.
Í undirþak á hús var þó stundum notað þurrt og gamalt heyjatorf frá
fyrra ári. Heygarða í þeirri merkingu sem skráin mun eiga við, þekki
ég ekki og hygg ég vissulega að þeir hafi ekki þekkst í Strandasýslu eða
vestur við Djúp um mína daga. Aftur á móti voru heytóttir algengar
og einnig galtar á sléttum velli út frá hlöðuvindaugum, ef vel hafði heyjast.
Alltaf talað um vindaugu á hlöðum aldrei um baggagat, það nafn sá
ég fyrst í bókum.
p4
Ég held að ein með
fyrstu súrheysgryfjum sem gerðar voru í Steingrímsfirði, hafi verið kringlótt
tótt sem faðir minn lét grafa niður í moldarhól og hlaða innan með torfstreng.
Það mun hafa verið vorið 1915 eða 1916. Í henni verkaðist ágætlega
há og valllendishey þar sem borinn hafði verið á útlendur áburður. Yfir
tóttinni var lágt torfþak og heyið fergt með firnum af grjóti. Alltaf
voru þó einhverjar rekjur út við veggi og eins undir grjótlaginu. Því
versta úr rekjunum var fleygt en hitt sem stráaheilt var, var gefið hestum
og varð þeim ekki meint af. Undir öllum stoðum, bæði í hlöðum ogh
fjárhúsum, voru hellusteinar, kallaðir stoðasteinar. Einnig voru
til fjárhús, aðallega einhölukofar þar sem vegglægjan lá á sjálfum veggnum
og þar af leiðandi engar stoðir undir henni, heldur aðeins hellur á veggbrúninni
með ca. 2-3 m millibili. Annars voru alvöru fjárhús með tvennu lagi,
þ.e. með einum dyrum eða tveimur. Þegar um fjárhús með tveimur dyrum
var að ræða, var
p5
framgaflinn hlaðinn
úr torfi og grjóti í ca. axlarhæð á meðalmanni að vexti, en timbur þar
fyrir ofan og gluggi á. Sinn hvors vegar við hlaðna þvervegginn voru
dyrnar. Inn úr dyrunum voru auðvitað garðarnir og á milli þeirra
jatan, sem einnig var stundum nefnd bálkur eða jötubálkur og alltaf hlaðinn
úr grjóti eingöngu. Það sem hér syðra er kallað "kró" köllum
við Vestfirðingar "garða", en það sem hér er kallaður "garði"
nefnum við "jötu". Orðið bálkur eða jötubálkur á aðallega
við grjóthleðsluna neðan við jötustokkana. Ofan á grjóthleðsluna
var ávallt í upphafi lagt þurrt og gott torf í jötubotninn, sem bráðlega
tróðst og varð hart eins og fjalagólf. Mæniásar voru tveir og stoðir
undir sem stóðu í miðjum bálki en náðu ekki niður á gólf. Á þessar
stðir var svo fest jötustokkum og jötuböndum. Á milli mæniásanna
voru stuttir þverbitar, kallaðir "vaglar". Bilið á milli
mæniásanna var alltaf haft meira en sem svaraði jötubreiddinni og þess
vegna hölluðust mæniásstoðirnar
p6
dálítið út að ofan,
svo að vaglarnir urðu nokkru lengri en breidd jötunnar. Frá mæniásunum
lágu svo skáldraftar yfir á vegglægjurnar, sem yfirleitt hvíldu á stoðum.
Á rekajörðum eins og t.d. Kaldrananesi, þar sem ekki þurfti að spara
viðinn, voru skáldraftar hafðir afar þéttir og árefti svo þétt, að varla
var smuga á milli spýtna. Hin húsagerðin sem var sjaldgæfari, var
að flestu mjög lík öðru en því að þar voru bara einar dyr fremst á öðrum
hvorum hliðvegg. Þegar inn úr dyrunum kom tók við svonefndur "forgarði",
sem náði þvert yfir húsið. Jatan náði því ekki lengra en að honum
og var gott pláss fyrir eina kind við jötuendann, en mjög þröngt fyrir
tvær. Þótti öllum fjármönnum það ókostur við þessi hús, að skapmiklar
og duglegar ær ruddust mikið um í húsinu til þess að komast að enda jötunnar
þegar gefið var. Yfir þennan "forgarða" var bjórreft af
þverveggnum sem var á milli dyranna á hinum húsunum, upp á fremsta vaglinn
og fremstu skáldraftana. Inngangurinn í heystæðuna frá jötunni var
ávallt kallaður
p7
garðdyr, hvort heldur
um hlöðu eða heytótt var að ræða. Þó heyrði ég nefndar tóttardyr,
en það mun hafa verið sjaldgæfara og alls ekki haft nema um tótt væri að
ræða, en ekki hlöðu. Hlöðudyr heyrði ég aftur á móti aldrei nefndar
í því sambandi fyrr en timburhlöður fóru að tíðkast, sem ekki var að ráði
fyrr en 1910-20. Tyrfing og umbúnaður heyja. Í öllum gömlum heytóttum var
botnræsi út úr einum vegg til þess að taka við vatni, sem oft vildi koma
í tóttina í vetrarhlákum. Heytóttir (?) sem upphaflega voru gerðar
til þess að bera upp í þeim hey, voru ekki dýpri en það að veggir tóku
meðalmanni í mitt lær, nema sá veggur sem að húsinu vissi, hann var nokkru
hærri þar sem garðdyrnar voru. Taða var yfirleitt ekki borin upp
í hey nema einhverjar sérstakar ástæður yllu, því að varla þekktist svo
aumt kot að ekki væri þar kúahlaða. Á mínum unglingsárum
p8
voru túnin þar sem
ég þekkti til, yfirleitt ekki stærri en það að taðan fór öll í kýrnar þótt
fáar væru, og dugði ekki til, svo að drýgja varð með völdu útheyi, ca.
1/4 gjafar eða þar um bil nema kannski ekki fyrst eftir burð. Aðalheymagnið
var úthey sem reitt var heim blautt jafnóðum og slegið var. Engjar
voru aðallega langt til fjalls á hálsum og heiðum og fremst í dölum, þar
sem legið var við í tjöldum í 5, 6 og allt upp í 8 vikur á sumri hverju.
Heyið var svo þurrkað heima, helst sem allra næst hlöðu eða heytótt.
Þess má geta um heyþurrkunina, að taða var aldrei rökuð upp í föng
eða dríli, einstöku sinnum í góðri tíð í garða, þ.e. 3-4 rifgarðar rakaðir
saman í einn garð, til þess að verjast náttfalli (dögg), ef útlit var fyrir
að hirða mætti daginn eftir.
Aðallega var taða
rökuð upp í "lanir" sem voru á stærð við meðalsátu og einnig
í "galta", þegar taðan var orðin svo þurr að hirða mætti. Orðið
"fúlgu" heyrði ég aldrei nefnt og held að vissulega sé það óþekkt
p9
fyrir vestan enn
þann dag í dag, alltaf var talað um lanir og galta. En á fullorðinsárum
fór ég að heyra orðin "sæti" og "sátur" og var þá einkum
átt við lanir. Sæti mun þó einnig hafa náð yfir galtann. Á
hinn bóginn var úthey sem einkum var "brok" og "finnungur"
alltaf rakað upp í föng. Í þurrum og dálítið hvössum vindi voru mörg
dæmi þess, að vel grasþurr útheysföng þornuðu til fulls í slíku veðri á
einni nóttu. Úthey var líka rakað upp í stóra galta, ef ekki voru
ástæður til að hirða það strax. Þar sem þurrkvöllur útheysins var
yfirleitt mjög nálaægt heystæðunum, þá var heyið ekki reitt á hestum við
hirðingu, heldur bundu menn það mjög lauslega og báru á sjálfum sér
í heytótt eða hlöðu og leystu sjálfir úr um leið, þegar um hlöðu var að
ræða. Slíkt var þó ekki hægt þegar borið var í hey, nema rétt á meðan
tóttin var að verða veggjafull. Eftir það varð maður að vera í tóttinni
til þess að leysa úr og bera upp heyið, sem þótti nokkurt vandaverk ef
vel átti að fara. Þegar tóttin var vel veggjafull, var
p10
sátum raðað hringinn
í kringum alla tóttina, þannig að hálf sátubreiddin lá út á tóttarvegginn
en hálf eða vel það var innan tóttar. Þetta heita "veggsetar".
Mjög áríðandi var að dreifa vel úr sátunum innan veggsetanna, troða
það sem best niður og gæta þess að heyið væri alls staðar laust úr saxi,
svo að ekki gætu myndast holur sem yllu því að heyið missigi. Flestir
létu veggsetana hallast lítið eitt að sér, því að þeir komu dálítið út
og urðu lóðréttir þegar heyið var fullsigið undir torfi og þungum sigum.
Langoftast var tyrft með nýju eða nýlega ristu blautu mýratorfi,
en stundum var það þá þurrkað áður, sem gat tekið langan tíma. Væri
tyrft með þurru torfi, þurfti strax að setja sig á heyið, en þess þurfti
yfirleitt ekki fyrr en löngu síðar ef tyrft var með blautu torfi. Torfið
var rist í hálfdeigjumýrum og var þungt í vöfum, þó nokkuð eftir torfustærð
vitanlega. Flestir kusu að rista með tvíristuljá, því að þá var hægt
að ná breiðari torfum, 40-50 cm.
p11
En torfulengdin fór
nokkuð eftir afli þess sem risti. Þegar stórir menn og sterkir áttu
í hlut, var 150 cm og jafnvel meira algeng lengd. Byrjað var á lægri
enda heysins að tyrfa og flagskör hverrar torfu látin ná yfir undir miðja
næstu torfu. Þannig varð torfþakið á heyinu næstum því tvöfalt. Þegar
búið var að tyrfa hliðarnar, var eftir autt og ótyrft bil í miðju heyinu
sem síðar var þakið á sama hátt, og hétu þær torfur "miðmætingar".
Stundum var "kollur" heysins, "heykollurinn",
fyrir miðju heyi og var þá tyrft frá báðum endum. Það var nú reyndar
líka gert þótt "kollurinn" væri á öðrum hvorum endanum, en þá
þurfti bara miklu færri torfur þeim megin sem "kollurinn" var.
Niður undan miðjum kolli var mæst og bilinu lokað með flagbelg. En
flagbelgur eða flagmeri kallast torfa sem enga flagskör hefur, vegna þess
að hún er fyrsta torfa sem rist er upp úr flaginu hverju sinni. Heyhælar
voru mjög lítið og oft ekkert notaðir við sjálfa heytyrfinguna, en aftur
á móti aðallega þegar farið
p12
var að "gera
upp fyrir", sem svo var kallað. Það var ákaflega misjafnt hvernig
"uppfyrirgerðin" þurfti að vera. Á litlum heyjum, smágöltum
við hlöðuvindaugu, voru veggsetarnir oftast nær svo signir orðnir undir
þungum sigum, að ekki þurfti nema gamla smátorfusnepla til þess að þekja
veggsetana. En þegar gert var upp fyrir stærri hey með eins metra
háum veggsetum eða meir, þá var byrjað á því að taka sigin á heyinu niður,
til þess að geta rennt uppfyrirgerðartorfinu dálítið upp á heyið og inn
undir þaktorfið. Þá voru notaðir langir hælar, fyrst og fremst til
þess að halda uppi uppfyrirgerðartorfinu og voru hælarnir látnir ganga
í gegnum þaktorfið neðst og uppfyrirgerðina og alllangt niður í veggsetann.
Aðrir langir hælar voru svo reknir inn í miðja uppfyrirgerðina, sem
oft vildi gúlpa þar út ef um háa veggseta var að gera.
p13
Ég vil biðja afsökunar
á því að meðfylgjandi spurningaskrá mun hafa lagst til hliðar hjá mér og
ég steingleymt henni þar til nú fyrir fáum dögum, að ég rakst á hana niðri
í skúffu hjá mér. Þó að seint sé að iðrast eftir dauðann, þá tók
ég mig þó til og hripaði upp það sem hér fylgir. Mér er ekki vel
ljóst hvernig á því stendur að ég hefi gleymt þessari skrá, því að þetta
er þó efni sem ég þekki nokkuð vel frá fyrri dögum, svo mörg hey hefi ég
borið upp og tyrft og svo marga torfuna rist. 18.10 1973, J.Hj.