LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

StaðurLaugarvatn/
ByggðaheitiLaugardalur
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1908

Nánari upplýsingar

Númer2607/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið27.9.1972
Nr. 2607

p1
Hér verður að taka fram hið sama og um 23. skrá að ég veit
harla lítið um það sem hér er spurt um. Grasaferrðir voru aldrei
farnar á heimili foreldra minna, slíkt var því lagt niður áður
en ég fæddist. Ég hef þó reynt með hjálp Kristrúnar systur minnar,
að rifja upp hið helsta sem við höfum heyrt um fjallagrös og
grasaferðir. Sagði móðir okkar oft frá þeim. Faðir hennar,
Bjarni Jónsson frá Glóru í Eystrihrepp, fór í grasaferðir allan
sinn búskap, en hann brá búi 1901.
Tegundir fjallagrasa.
Fjallagrös var nafnið sem notað var, oft þó stytt í grös í
daglegu máli. Stærst voru skæðagrös og þóttu þau best vegna
stærðar sinnar. Nafnið sjálfsagt komið af því hvað þau voru stór
og breið, einkum auðvitað í vætu. Lélegust þótti kræðan, en svo
nefndust mjög smávaxin grös.
Grasaland.
Ekki heyrði ég sérstakt nafn haft um land þar sem fjallagrös uxu
og ekki þekki ég örnefni sem af fjallagrösum er dregið. Talið
var að þar sem grös hefði veri tínd, mætti tína að nýju á þriðja
sumri.

p2
Grasatekja.
Hlunnindin munu hafa verið nefnd því nafni að þar væri
grasatekja. En þau jarðahlunnindi eru mér annars ókunn, því að
í mínu byggðarlagi er hvergi grasatekja í heimalöndum svo að heitið
geti, þau voru eingöngu sótt inn á afrétt. Afréttirnar voru og
eru sveitareign, og mátti hver bóndi tína þar að vild.
Notagildi.
Ég þekki ekki hvernig grös voru metin á við annan mat, en þau
þóttu mjög góð búdrýgindi og sérstaklega holl. Ekki þekki ég til
að grös hafi gengið kaupum og sölum manna milli og því ókunnnugt
um verð. Er talað var um mál eða magn var talað um grasatunnu
og grasahest.
Grasafjall, að fara til grasa.
Ætíð var sagt að fara á grasafjall. Ég geri ráð fyrir að fremur
hefði verið sagt að fara til grasa, hefði átt að tína í
heimalandi, en það þekkti ég ekki, svo sem fyrr var sagt. Orðið
grasaveður var til í mæltu máli. Gat það verið gott eða illt.

Best þótti að grasa í úðarigningu eða dögg, en verst í sólskini,
þá voru grösin samanskorpin.

p3
Fararbúnaður.
Fararbúnað í grasaferð þekkti ég ekki sérstaklega, en menn munu
hafa búið sig út í þær svipað og aðrar langferðir. Efni í tjöld
hefur að sjálfsögðu verið misjafnt. Langt hygg ég síðan
vaðmálstjöld voru notuð en mig minnir að ég hafi heyrt talað um
heimaofin tjöld úr svokölluðu vefjargarni, útlendu. Svo langt
sem ég man voru ekki notuð topptjöld, heldur með tveimur súlum
og
mæniási. Voru súlurnar bundnar saman, venjulega með ól úr
íslensku leðri, hanki á mæniási, hann lagður yfir klakkinn áður
en baggi var látinn upp og lá þannig undir honum, en tjaldtrén
utan til á klyfberaboganum, en innan við baggann. Hælar voru úr
tré, einatt úr birki, gat á, og voru þeir dregnir upp á band.
Seinna var farið að láta þá í sérstakan poka, hælapoka, það þótti
fljótlegra. Utanyfirklæðnaður manna var hlýr vaðmálsfatnaður.
Á
tínupokum kann ég ekki skil, en menn bundu þá við sig er tínt
var. Sjálfsagt hafa fyrrum verið hafðir undir grösin hærupokar,
en síðar komu strigapokar og hafa þá verið notaðir svokallaðir
tunnupokar, þ.e. pokar undan 200 pundum af mjöli. Til matar hafa
menn haft venjulegan nestismat, kjöt, einkum þótti hagikjöt gott
nesti, það geymdist svo lengi, harðfisk og brauðmat, bæði
pottbrauð og kökur. Ég hygg að matur hafi ekki verið eldaður,
en aftur á móti hefur verið hitað kaffi, a.m.k. var það gert í
fjallferðum. Höfðu menn ketil, skáru hlóðir í þúfu og tíndu
kalvið til eldneytis.

p4
Grasaferð.
Venjulega mun hafa verið farið í grasaferð skömmu fyrir slátt.
Langt var til grasa í Hreppum. Ytrihreppsmenn fóru venjulega inn
á Kerlingarflatir, en þær eru suðvestan undir Kerlingafjöllum.
Þangað er um hálf önnur dagleið úr byggð sé verið með lest.
Eystrihreppsmenn fóru oftast inn í Norðurleit, sem er innan við
Dalsá, en framan við Kisu. Þangað er einnig hálf önnur dagleið.
Eitthvað mun hafa þekkst að grös væri tínd um leið og lömbin voru
rekin, síður þó vegna þess að sjaldan voru þau rekin svo langt.
Venjulega hafa verið gerðar sérstakar ferðir. Hefur fólk að
sjálfsögðu verið mjög misjafnlega margt í þessum ferðum. Afi
minn, Bjarni í Glóru, fór árlega í grasaferðir og held ég að hann
hafi oftast farið einn, var venjulega viku í burtu og hefur hann
þá verið fjóra daga að grasa, því að hálfan annan dag hefur hann
verið hvora leið, fór jafnan í Norðurleit. Hann var vanur að
fara með tvo áburðarhesta, og hefur hann þá grasað einn hestburð
á tveimur dögum eða einn poka á dag. Sumir fóru lengra en þetta,
inn yfir Fjórðungssand, en það er nær einni dagleið lengra.
Að tína grös.
Ég þekki mjög lítið hvernig unnið var að grasatínslu. En ég veit
þá að best þótti að tína er rakt var á, þá breiddu grösin úr sér
og voru mjúk.

p5
Í þurrkatíð var því venjan að tína að nóttunni en sofa á daginn.
Grasapokann bundu menn á sig, ég hygg að þeir hafi venjulega
bundið um mittið. Sjálfsagt hafa ekki allir staðið eins að því
að tína. Stundum lágu menn á hnjánum, en það þótti ekki gott,
menn bleyttu sig væri vott á og voru seinni í snúningum. Ég held
að myndarlegast hafi þótt að standa hálfboginn, þótt bakraun
væri.
Frágangur og flutningur.
Ég hygg, að þegar grösin voru látin í pokana til heimflutnings,
hafi orðið að bleyta þau, ef þau voru þurr, annars hrúguðust þau
upp, og ekki var unnt að troða þeim saman. Troðið var í poka
þannig að annarri hendi var haldið í pokann en hin höndin inni
í pokanum og ýtt niður með henni. Hærupokar voru ætíð með
hornsylgjum og var band dregið í þær og lokað þannig. Stundum
voru slíkar sylgjur á strigapokum. Annars voru gerð göt á pokann
neðan við faldinn og snæri dregið þar í. Þetta var stundum
kallað að þræða fyrir pokann. Ef pokinn var stór, var kjafturinn
stundum reyrður saman, en þá mátti hann auðvitað ekki vera eins
fullur og annars. Ekki veit ég til að bundnir sekkir hafi haft
neitt sérstakt nafn nema þá grasaklyfjar. Magn grasa var eins
og fyrr segir miðað við hestburði: grasahestur.

p6
Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Ég þekki mjög lítið til þessara hluta. Ég hygg þó að grös hafi
verið þurrkuð mjög fljótlega eftir að heim var komið, eða undir
eins og góður dagur gafst, breidd á ábreiðu eða annað slíkt og
þá voru þau hreinsuð. Aðferðin var að sjálfsögðu sú að tína mosa
og annað rusl úr með fingrunum. Ég hugg að þau hafi síðan verið
geymd í pokum og umfram allt á vel þurrum stað, t.d. á
skemmulofti.
Grasajárn, grasabretti.
Áhald til að saxa grösin var kallað grasajárn. Það var í laginu
svipað og venjulegt tóbaksjárn, nema handföngin voru oftast
talsvert lengri, ef til vill vegna þess að grös voru einatt söxuð
í trogi, stundum þó á hlemm eða hlera. Ég þekki mjög lítið
hvernig grösin voru tilreidd, nema ef til vill þegar þau voru
höfð í mjólk (grasamjólk). Aldrei hef ég heyrt talað um að grös
hafi verið möluð með korni.
Fjallagrös til matar.
Ég veit nær ekkert um matreiðslu fjallagrasa. Ég hef þó heyrt
að grasagrautur hafi ekki þótt neinn gæðamatur til undirstöðu né
heldur bragðgóður, en venjulega voru grös þó talin holl, hvar sem
var í mat. Grasagraut þurfti að sjóða mjög lengi og miklu lengur
en annan graut.

p7
Um gerð grasamjólkur er það að segja að þá átti fyrst að sjóða
grösin í vatni nokkra stund, síðan taka þau upp úr og setja á
mjólkina. Ég held að ekki hafi þurft að sjóða mjólkina mjög
lengi. Ef ekki var byrjað á að sjóða grösin í vatni varð mjólkin
römm, annars ekki. Grasavatn var notað til drykkjar. Voru þá
grösin soðin í vatni, alllengi að ég held. Líklega hefur það
eitthvað tíðkast í fjallferðum að menn tíndu grös og elduðu
grasavatn. Það sýnir saga um Snorra í Hörgsholti. Snorri var
vanur ferðamaður og gerkunnugur á Ytrihreppsafrétti og Kjalvegi,
og fékk Þorvaldur Thoroddsen hann því sér til fylgdar er hann fór
um þessar slóðir. Þrátt fyrir kunnugleik sinn villtist Snorri
þó einu sinni á fjalli í dimmviðri, lá úti um nóttina, en kom í
tjaldstað um morguninn. Bjuggust menn að sjálfsögðu við að hann
væri matarþurfi og spurðu hvað hann vildi helst fá að hressa sig
á. "Steikt roð og grasavatn," svaraði Snorri. Þótti flestum
þetta ólíklegir réttir eftir hrakningsnótt og er því sögunni á
lofti haldið. En naumast hefði hann beðið um grasavatn, hefði
hann ekki búist við að það kynni að vera til reiðu hjá
fjallmönnum. Ég var á fjalli haustið 1936 með Guðmundi,
bróðursyni Snorra. Guðmundur var á margan hátt greindur, en
þótti sérkennilegur nokkuð. Eitt kvöldið er við vorum að koma
frá smölun, riðum við þar sem voru falleg skæðagrös. Sáust þau
mjög vel því að slagveður var mikið og fór Guðmundur að tína.
Og næsta morgun eldaði hann sér grasavatn. Ekki man ég hvað
eldamennskan

p8
varð löng, en ég varð að lokum að taka tjaldið ofan af honum að
ólokinni eldamennskunni. Það skal tekið fram að það var þá
áreiðanlega einsdæmi að grasavatn væri eldað á fjalli.
Fjallagrös til lækninga.
Ég þekki í rauninni ekkert hvernig fjallagrös voru notuð til
lækninga, en það er víst að þau þóttu þar góð til margra hluta.
Helst heyrði ég talað um að ráðlegt þætti við kvefi og hæsi að
drekka grasavatn.
Fjallagrös í máli og sögum.
Ég þekki ekki sögur eða sagnir um grasaferðir umfram þær sem
þekktar eru í þjóðsögum og eru alkunnar. Eina vísu kann ég þó
um grasagraut. Hún er ef til vill alþekkt líka og ef til vill
einhvers staðar á prenti. Heimilismanni einum á Grenjaðarstað
þótti grasagrautur alloft til matar. Þá orti hann:
Ó, þú eilífi grasagrautur
á Grenjaðarstað, sem aldrei þrýtur.
Leiður verð ég að lepja þig
og loksins held ég þú drepir mig.


p9
Þetta fréttu húsbændurnir, reiddust að heimilismenn væru að yrkja
níð um matinn, kölluðu manninn fyrir sig og ávítuðu hann. Hann
kvaðst aldrei hafa ort níð um grautinn, heldur lof og væri það
þannig:
Ó, þú indæli grasagrautur
á Grenjaðarstað, sem aldrei þrýtur.
Ó, hve ilmsætur ertu mér
og aldregi fæ ég nóg af þér.

Þá líkaði húsbændunum vel og kæran féll niður.

Eins og ég sagði í upphafi eru grasaferðir og nýting horfin svo
löngu fyrir mitt minni að ég hef aðeins haft óljósar fregnir af.
Bið ég afsökunar að þetta skuli ekki vera meira en raun ber
vitni.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana