Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1899

Nánari upplýsingar

Númer2830/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2830

p1
Fjallagrös. Um þau hef ég lítið að segja. Flestir hættir
að nota þau þegar ég fer að muna eftir. Heyrði aðeins talað um
eitt heimili í sveitinni sem skar sig úr öðrum á því sviði. Það
var á Þrasastöðum. Bærinn stendur við rætur Lágheiðar. Konan
hét Katrín, og fór hún hverja þá stund er færi gafst með
vinnukonur sínar fram á heiði og tíndi þar. Grösin notaði hún
mest til grautargerðar. Fært var frá, og skyrið notað saman við
grasagrautinn. Þótti þetta ágætur matur. Í slátur og brauð
notaði hún þau líka. Vinnukona var þar er Jórunn hét. Henni var
ég samtíða árum saman. Hún lifði mikið á fjallagrösum, átti þau
árið um kring. Upp úr 1920 notaði ég mikið fjallagrös. Í
áratugi höfðum við hjónin grasate á morgnana staðinn fyrir kaffi,
en eingöngu að vetrinum. Einn hnefi grös móti 1 potti af vatni.
Grasaveður var það kallað þegar blautt var á og logn, en ekki sól
eða stormur. Ég hafði enga ákveðna daga, bara stundir þegar tími
gafst. Hálfbogin stóð maður og bar með sér pokann. Til að
þurrka þau breiddi maður stóran poka á jörðina, grösin lét maður
þar á, margsneri þeim svo þar til þau voru fullþurr. Þá voru þau
látin í gisinn strigapoka og hengd upp í skemmu eða þar sem ekki
var raki. Í hrísgrjónagraut voru þau ágæt, eins í grasamjólk.
Þá bara tóm grös. Illa féll mér við að hafa þau í slátur. Náði
aldrei tökum á því og hætti fljótt við það.

p2
Hreinasta afbragð þótti mér að hafa þau í brauð. Öll grös til
hvers sem ég notaði þau, blað tíndi ég, til þess að ég tók heitt
vatn lagði grösin í bleyti lét þau verða lin, verkaði hvert fyrir
sig. Magn grasanna fór eftir því hvað ég ætlaði að setja í
stóran dunk. Grösin sauð ég í 10-15 mínútur, í þau lét ég
rótarmola sem svaraði til einu sinni á könnu, setti svo þetta út
í mjölið í troginu, hnoðaði það hæfilega mikið og setti þar næst
í ílátið er það átti að bakast í. Við kvefi notaði ég þau og
geri enn þann dag í dag og gefst ekki annnað betur, og veit ég um
fleiri sem gera það. Þá tek ég tvo hluta af grösum móti einum af
kandís, hef svo lítið vatn sem hægt er og þegar ég drekk það að
kvöldi til hef ég það svo heitt sem ég þoli. Læt svo stóra
matskeið fulla af rommi eða koníaki í bollann, snarhátta þar næst
og byrgi mig niður. Meira hef ég ekki um fjallagrös að segja.
Kræða var mikið notuð hér áður fyrr, en aðeins ef ekki náðist í
grös. Hún þótti mikið verri til matar, en hafði þann kost að
hægt var að ná í hana á vorin þegar ómögulegt var að ná í
fjallagrös. Árið 1867 átti Stefán Sigurðsson afi minn, heima á
Fossum í Húnavatnssýslu. Mér er tjáð að það sé heiðarbýli fremst
í Svartárdal. Þá var vor hart og lifðu þau mikið á kræðu og
dropanum úr kúnni. Eitt sinn varð honum þessi vísa á munni:

p3
Bæti ég kræðu í belginn minn
besta fæðuefni.
Heim svo þræði hálfloppinn
hitti klæðagefni.

Um fleiri grös veit ég ekki sem notuð hafa verið til manneldis.
Þá hef ég ekkert meira um þetta að segja og bið ykkur að virða á
betri veg mitt getuleysi. Vonandi vita aðrir mikið meiri
fróðleik að miðla ykkur, og er það velfarið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana