LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1896

Nánari upplýsingar

Númer2871/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2871

p1
Herra safnvörður Árni Björnsson!
Ég fór að byrja á svörum við spurningaskrá 25 um fjallagrös, en
vissi að svör hafði ég af mjög skornum skammti. Ég var aðeins
kominn að grasatekju er ég mundi eftir því að faðir minn,
Kristleifur Þorsteinsson, átti eina smá grein um þetta efni í "Úr
byggðum Borgarfjarðar", III. bindi, bls. 181. Í þeirri grein eru
svör við flestu því sem um er spurt á spurningalistanum.
Um verðlagningu á fjallagrösum veit ég ekkert og er ófróður um
nýtingu þeirra og sama er að segja um meðferð og geymslu. Um það
hvað lengi landið þurfti að hvílast eftir að vera tínt og þar til
að þar fengjust aftur fullþroska grös heyrði ég talað, en er
búinn að gleyma því. En það voru ekki færri en þrjú ár og
líklega lengur. Þegar komið var af grasafjalli með mikil grös
sem tínd voru í rekju, þurfti helst að fá góðan þurrkdag, breiða
grösin eins og hey og snúa þeim með hrífum á rifgjörðum, eins og
heyi, áður en grösin voru sett í geymslu.

p2
Við slíka þurrkun hristist mikið af rusli úr grösunum og urðu
hreinlegri vara. Hreinsun á grösum til matar var seinleg vinna
og útheimti vandvirkni. Þá varð að taka hvert gras fyrir sig,
fletta þeim út og strjúka mosa, strá og öll óhreinindi vandlega
úr, en það rusl var kallað mosk. Grös voru notuð á ýmsa vegu,
sem útákast á mjólk, sem mörgum þótti ágæt fæða ef hún var vel
til búin, í brauð með rúgmjöli og sömuleiðis í blóðmör. Grös
voru líka notuð sem te, að hellt var á þau sjóðandi vatni og
vatnið drukkið með sykri eins og kaffi eða te og nefnt grasavatn.
Þaá voru grös soðin í vatni með kandíssykri og þótti gott meðal
við hæsi og lungnakvefi. Ég sá grös ekki söxuð niður heldur
notuð óskorin. En Jónas Jónasson lýsir því í "Íslenskir
þjóðhættir" og hefur þar myndir af grasajárnum. Aðeins þrisvar
sinnum hef ég farið til grasa og komst þá að því að grös vaxa á
mjög breytilegu landi. Ég hefi t.d. fundið vænar breiður
(flettur) í graslautum og mikla toppa af grösum bæði í háum þúfum
í stórgerðum móum og í gjótunum. Í Geitlandinu, sem er stórt
hraunlendissvæði í suður frá Kalmanstungu, eru mjög stór og góð
grös

p3
í grösugum lautum innan um víðikjarr. Og upp um urðarhalla til
fjalla hef ég víða séð reiting af grösum, þó helst klóung. En
það er víst réttnefni að kalla þau fjallagrös, því ég hefi hvergi
séð mikið af góðum fjallagrösum nema til fjalla.
|p4
Tegundir fjallagrasa.
Fjallagrös heyrði ég ekki nefnd annað en fjallagrös, sem var
samheiti á nokkrum afbrigðum er ég heyrði nefnd: blaðagrös,
klóung og kræðu og voru blaðagrösin langbest og eftirsóttust. En
eftir því hvernig grösin uxu var talað um flettur, skúfa eða
toppa og reiting. Klóungur og kræða mun ekki hafa verið hirt ef
um annað var að velja. En ekki vissi ég til að aðskilin væru þau
grös sem tekin voru til manneldis.
Grasaland.
Svo var nefnt allt það land sem grös voru tekin á.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana