LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1903

Nánari upplýsingar

Númer2807/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2807

p1
Heitið fjallagrös var alltaf notað yfir þau grös sem tínd
voru til manneldis. En svo voru grös sem voru dekkri og mjög
smáger og voru kölluð kræða, en ekki tínd til matar svo ég vissi
til. Fjallagrösin uxu á þurrlendi (flatlendi) og á hryggjum
milli flóa, aldrei í mýrum eða blautum jarðvegi. Það var talað
um að fara á grasafjall og í grasaheiði, heiðunum suður af
Voðnafirði, en grasahryggir voru nær sveitinni.

p2
Fjallagrösin voru tínd inn til heiða eða á afréttum og hver mátti
tína eftir vild. Það var aldrei tekið gjald fyrir grasatínslu
svo ég viti til. Aldrei veit ég til að fjallagrös væru notuð í
viðskiptum og aldrei seld. Talað var um að fara á grasafjall eða
grasaheiði. Best þótti að fara í grasaheiði ef ekki var sólskin,
en leit út fyrir þungviðri og þoku eða súld, þá sáust grösn best
og stækkuðu við bleytuna. Oft var sætt lagi að tína á nóttunni
ef dögg var. Það þótti vont að tína á daginn ef sól skein, þá
voru grösin svo hörð og sáust illa. Þeir sem tjald áttu höfðu
tjald til að sofa í og borða. Mat og mjólk hafði fólk með sér,
en hitaði kaffi oftast í hlóðum úti og tíndi sprek tl að hita
við, og lyng eða við, og stundum var farið með mó eða tað heiman
að. Prímus var notaður ef hann var til. Grösin voru tínd í
venjulega hálftunnu strigapoka. Þess var gætt að þeir væru vel
hreinir, svo voru grösin þurrkuð vel og tínd. Vel verkuð heima
og geymd í léreftspokum, pokarnir hengdir upp á þurran stað.

p3
Í grasaheiði var oftast farið fyrir slátt eða seinna ef ekki
vannst tími til fyrir slátt, ef óþurrkar komu, samt áður en nótt
tók að dimma. Stundum komu gangnamenn með grös í poka á haustin,
höfðu þá tínt þar sem þeir sáu stór grös í breiðum flákum lengra
til heiða. Hve margir fóru á fjall fór eftir fólksfjölda
heimilanna, 2-4, oftast fullorðið fólk, venjulega var verið 1-2
nætur, kannski 3 stundum. Stundum var bara verið einn dag, farið
snemma að morgni, sætt lagi þegar dögg var, (blautt var á).
Kunnugur maður vísaði á grasalandið, fólkið dreifði sér um svæðið
og tíndi hálfbogið, hélt í pokann sér við hlið, sem var ýmist
dreginn eða borinn. Það var tínt í marga poka, hálftunnupoka.
Þeir svo bundnir saman þegar búið var að troða í þá og binda yfir
opin. Ýmist 2 til 3 pokar í klyf, 4-6 á hest, en ef enginn
hestur var þá bar hver sinn poka, 1 - 2. Opin þá bundin saman og
pokarnir hengdir yfir öxl. Reipi voru notuð þegar bundar voru
klyfjar á hesta.

p4
Þegar grös voru þurrkuð, var hvolft úr pokunum úti þar sem hreint
og snöggt var gras. Fjallagrösin látin þorna vel, þeim svo aftur
troðið í pokana, þeir svo hengdir upp í skemmur eða dyraloft.
Oftast voru grösin hreinsuð rétt áður en átti að nota þau. Þá
var tekið hvert gras fyrir sig, tínt úr því mosi og strá. Þetta
var seinlegt verk, en fór í æfingu. Aldrei sá ég notað
grasajárn. Grösin voru þvegin úr mörgum heitum og köldum vötnum
áður en þau voru sett í matinn. Á haustin fyrir sláturtíð var
setið og á kvöldin, og keppst við að hreinsa grösin (tína, sem
kallað var) í fulla poka, einn og fleiri, því þau þurftu að vera
tilbúin þegar sjóða átti slátrið. Grasagrautur var aldrei soðinn
heima, en ég heyrði mömmu og pabba tala um hann. Grasagrautur
var soðinn þegar lítið var til að borða. Hann þá hafður
stelluþykkur, soðinn í vatni, ýmist borðaður þannig eða með mjólk
út á, ef hún var til. Algengt var að sjóða grasamjólk, grösin
soðin heil og ekkert annað sett í mjólkina. Hún var ekki höfð
þykk, svo var settur svolítill sykur út í og soðið 15-20 mínútur.

p5
Grasagrauturinn og grasamjólkin var borðað heitt, mjólkin höfð í
eftirmat. Þetta þótti mjög hollur matur. Fjallagrös voru mikið
notuð í slátur, yfirleitt þóttu þau til búdrýginda. Þau voru
jöfnum höndum notuð í slátur sem geymt var og borðað nýtt. Ekki
voru grösin mæld í hlutfalli neinu vissu móti mjöli. Man ég að
var tekið í fulla fötu grös og sett í hræruna 8-10 potta blóð og
vatn. Aldrei sá ég fjallagrös notuð í lifrarpylsu og heyrði ekki
talað um að það væri gert. Grös voru alltaf notuð í pottbrauð og
þótti mjög gott. Ekki veit ég til að þau væru notuð í flatbrauð.
Mjölið var alltaf í miklum meiri hluta. Grasate var oft notað í
kaffisstað eins var grasaseyði með sykri út í, oft kandíssykri,
soðið út í og drukkið við hálsbólgu og þyngslum fyrir brjósti og
þótti mikil bót að. Grasate með kandís soðnum í þótti bæta hæsi
og kvef og margir nota það enn. Eins nota margir enn grasamjólk
fyrir eftirmat og þykir gott, en grös í slátur er hætt að nota.
Oft var grasagrautur (grasastella) notuð saman við mjólk handa
kálfum. Grös voru alltaf misjafnlega mikið notuð á heimilum,
bæði eftir smekk fólks og hvernig gekk að afla þeirra.

p6
Margar sagnir og ævintýri urðu til á grasafjalli og margir
sóttust eftir að fara á grasafjall og hlökkuðu til grasaferðanna.
Þetta var tilbreyting í tilbreytingarleysi hversdagslífsins. Ég
veit um einstaka heimili sem enn heldur þeim sið að skreppa til
grasa þar sem stutt er í graslendi, og nota grösin út á mjólk
(grasamjólk), og sýður grasate með kandís og hefur við kvefi og
hæsi.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana