Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1912

Nánari upplýsingar

Númer2653/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2653
p1
Venjulega var talað um fjallagrös, ég heyrði aldrei talað um
heiðagrös. Ég þekki aðeins tvær tegundir fjallagrasa og hef held
ég ekki heyrt fleiri nefndar. Það eru skæðagrösin, stór og
blaðbreið, þau sem ávallt voru tínd. Þau vaxa mest inni á
hálendinu oft í stórum breiðum, en þó sjást þau á stöku stað
niður á láglendinu. Ég hef fundið þau hér á holtunum, en aðeins
lítið af þeim. Þau eru víða hér á afréttum Mýramanna, eins var
mikið af þeim á Lyngdalsheiði þegar ég var krakki í Laugardal.
Svo er klóungurinn, miklu minni og grennri planta sem ekki þótti
borga sig að tína, en er vel nothæfur. Hann vex bæði á heiðum
uppi og talsvert á holtum niður á láglendinu. Eg hef aldrei séð
hann í jafn stórum breiðum og skæðagrösin. Það voru ævinlega
skæðagrösin sem notuð voru þar sem ég þekkti til.

p2
Grasaland.
Ég heyrði alltaf sagt að fara á grasafjall, þó landið sem tínt
var á væri oftast heiðaland eða háslétta, en ekki fjall.
Einstaka sögðu að fara á grasaheiði. En þar sem grös voru, var
sagt grasaland. Ég þekki engin örnefni dregin af fjallagrösum
eða tínslu á þeim. Mig minnir að talið væri að fjögur ár þyrftu
að líða frá tínslu grasa þar til þau væru vaxin aftur.
Grasatekja.
Jú, það var nefnt grasatekja þar sem ég þekkti til. Áður fyrr
mun það hafa verið talið jörðum til tekna ef fjallagrös uxu þar,
en ekki þegar ég man eftir. Fjallagrös voru sótt til afrétta og
mátti hver tína að vild þegar ég man eftir og raunar veit ég um
það áður eftir móður minni. Hún sagði að heiman frá henni, sem
var Drumboddsstaðir í Biskupstungum hefði verið farið inn í
Brúarárskörð, sem er afréttarland Ytri-Tungumanna og mátti hver
tína sem vildi. Þó eru Drumboddsstaðir í Eystri-Tungu og eiga
upprekstrarland

p3
á afrétt eða í Hvítárnes, en óvíst er að svona ríflegt hafi
alltaf verið. Ég þekki ekkert inn á með gjald fyrir grasatínslu
hef aldrei heyrt getið um það.
Notagildi.
Jú, það var oft rætt um notagildi grasa til matar, en ég man nú
ekki eftir að þá væri miðað beinlínis við annan mat, en þau þóttu
spara kornmat, bæta bragð og hafa mikið næringargildi. Get ekki
svarað fleiru úr þessum kafla.
Grasafjall.
Þegar farið var til grasa var sagt að fara á grasafjall, eða að
fara á grasaheiði. Venjulega að fara á grasafjall. Ég þekki af
eigin raun aðeins eins dags ferð, en ég held að ævinlega hafi
verið talað um að fara á grasafjall. Ég man að mamma sagði það
alltaf, en í hennar æsku var legið við í tjaldi að minnsta kosti
eina nótt. Já, það var talið gott grasaveður í mildu hægu regni.
Það er vont að tína í þurrki, þá eru grösin hörð

p4
og fylgir þeim mikill mosi, en í vætu sjást þau vel og eru nærri
laus við mosann.
Fararbúnaður.
Grösin heima voru geymd í léreftspokum og tínt í poka. En til
voru grasatínur. Ég hef séð þær, nokkuð stórar,
sporöskjulagaðar, úr þunnum sveigjanlegum viði, mjög léttar, með
loki úr sama efni, og var lokinu smellt yfir tínuna. Hún var
blámáluð með rauðum rósum á hliðunum, en sérstakan tínupoka man
ég ekki eftir að hafa séð.
Grasaferð.
Heima var alltaf farið fyrir slátt og fóru foreldrar mínir
einsömul, en á þeim árum sem ég var að alast upp voru grasaferðir
í rauninni aflagðar í þeirri veru sem þær voru áður. En mamma
sagði mér að þau heima hjá henni hefðu farið með tjald og lágu
við í eina til tvær nætur, tíndu mest á nóttunni ef veður var
þurrt. Í ferðina fór helst yngra fólk, en þó var oft

p5
einn eða fleiri rosknir, og þá helst konur eða gamlir karlar.
Nesti var haft og hitað kaffi og soðinn grautur á hlóðum utan við
tjaldið. Fólkið mun hafa verið nefnt grasafólk. Jú, það kom oft
fyrir að fólk af tveim eða fleiri bæjum færi saman í grasaferðir.
Það var vissulega áætlaður ársforði víða, og margir öfluðu svo
mikils magns af grösum. Þegar heim kom voru grösin þurrkuð og
heyrt hef ég að sums staðar hafi verið stórir flekkir af grösum
þegar búið var að breiða úr þeim, og hafi flekkirnir verið
rifjaðir með hrífu eins og heyflekkir. Þar sem margir fóru átti
einn að vera svo sem foringi fararinnar.
Að tína grös.
Væri þurrt í rót var venjulega tínt á nóttunni ef farið var að
vorinu, en þá sofið að deginum. Grasafólkið varð að dreifa sér
líkt og fólk í berjamó. Ég held að fólk hafi tínt hálfbogið.
Já, það var losað úr pokum eða tínu í stóra sekki. Ég hef aldrei
heyrt um hve mikið

p6
fólki var ætlað að tína á dægri. Hafa áreiðanlega verið misjöfn
afköst þar sem oft voru liðléttingar, ýmist unglingar, eða þá
gamalt fólk. Fullgildum karlmönnum þótti grasatínsla tæpast verk
við sitt hæfi.
Frágangur og flutningur.
Þar sem ég þekkti til var bundið eða reyrt fyrir pokaopið með
snæri. Það var troðið í pokana eins og hægt var, rétt eins og
troðið væri heyi. Þó held ég að meðan farið var í verulegar
grasaferðir hafi verið notaðir pokar með sylgjum eða lykkjum
umhverfis opið og böndum bruðið í sylgjurnar og pokaopið dregið
saman með bandinu, og gengið vel frá endanum. Sekkirnir voru
stórir pokar, næstum eins og ullarballarnir eru núna. Þeir
sekkir voru svo bundnir í klyfjar, sinn hvoru megin á hestinum og
reiddir á klökkum til bæja. Jú, það mun hafa verið talað um
grasakapal eða grasabagga, en ég veit ekki hvort sama þyngd átti
að gilda og um hey, 50 kg í bagga.

p7
Færi fólk gangandi varð það að bera bagga sína og pjönkur á
bakinu. Þurrkun fór fram úti og varð þá að vera þurrkur og helst
sólskin. Mosinn var hreinsaður úr grösunum blautum eða áður en
þau voru þurrkuð, og svo voru þau þvegin og hreinsuð betur áður
en þau voru notuð. Nú, það var reynt að tína úr þeim mosann og
grosið eins vel og hægt var. Ekki man ég það vera kallað annað
en hreinsa grösin. Grösin voru geymd í pokum eða kössum. Þau
voru geymd í skemmum eða á geymsluloftum og urðu að vera á þurrum
og góðum stað. Heima voru grösin ávallt notuð heil, en rófnakál
var skorið niður á trébretti, líkast tóbaksfjöl sem neftóbak var
skorið á, bretti. Þetta var stutt, en allbreitt, dálítið íhvolft
og skorið með járni mjög líku tóbaksjárni. Kálið var látið saman
við skyr og notað í súrhræring að vetrinum. Ég segi þetta vegna
þess að vel getur verið að þessi áhöld hafi verið notuð til
skurðar

p8
á fjallagrösum þar sem þau voru skorin. Ég þekki ekki til þess
að fjallagrös hafi verið möluð. Ég hef aðeins heyrt talað um
grasagraut, en aldrei séð hann eða bragðað. Mig minnir að hann
væri hafður með bankabyggi sem útákast. Svo var oft soðinn
grautur úr fjallagrösum eingöngu sem útákast. Ef mjólk var til
þá voru grösin soðin í henni eða mjólkurblöndu, en væri engin
mjólk til voru grösin soðin í vatni og varð það þá líkast lími
þegar þetta kólnaði. Heyrt hef ég menn segja frá því að í sínu
ungdæmi hefði ekki einu sinni verið mjólkurdropi til útáláts hvað
þá meira oft síðari hluta vetrar, og stundum lítið í svanginn
annað en þetta grasalím, og ekki hefði bragðið verið beinlínis
hrífandi. Já, fjallagrös í slátur þekki ég einmitt frá mínu
ungdæmi. Grösin voru vandlega þvegin og allt gras og mosi tínt
burt ef eitthvað

p9
hafði orðið eftir frá vorinu. Svo voru grösin sett út í blóðið
með rúgmjölinu og mörnum. Þau voru notuð í allan blóðmör, en ég
held ekki í lifrarpylsuna. Ég veit nú ekki hvort þetta var
nokkuð fast í skorðum með magn, en ég man að mamma lét allmikið
af grösum út í blóðið. Ekki þekkti ég til að grös væru notuð á
annan hátt við sláturgerð. Við brauðgerð voru fjallagrös heima
notuð í rúgbrauðin, ekki veit ég hvort nokkuð var áætlað magn
þeirra á móti mjöli. Heima voru rúgbrauðin bökuð í hverasandi.
Eg hef aldrei fengið jafngóð brauð og þessi hverabökuðu
grasabrauð voru. Grösin voru hnoðuð saman við rúgdeigið og
deigið sett í stóran blikkdunk með smelltu loki, svo var
dunkurinn settur í léreftspoka og bundið vel fyrir opið. Svo fór
maður með dunkinn, gróf í sandinn djúpa holu og setti dunkinn þar
niður í og mokað vel yfir. Eftir sólarhring var svo brauðið
bakað, og þvílíkt brauð! Það er hreinn paradísarréttur. Ekki
voru notuð grös í hveitibrauð og ekki

p10
í flatkökur, þó þær væru úr rúgi. Veit ekkert um grasahlaup nema
það sem ég sagði áðan um grasalímið sem líklega er hið sama. Já,
grasamjólk, ég bý hana oft til sjálf og er það hið eina sem ég
nota fjallagrös til, og nú fást þau í kaupfélaginu, svo maður
þarf ekki einu sinni að tína þau.
Grasamjólk 1: Fyrst sýður maður dálítinn grasavisk í 5-10
mínútur í litlu vatni. Svo þegar grösin eru soðin bætir maður
mjólk í pottinn eftir þörfum, salt og sykur. Mjólk lætur maður
svo eftir smekk þegar sýður er rétturinn tilbúinn.
Grasamjólk 2: Þá lætur maður sykur og smjör brúnast á pönnu og
bætir eilítið af mjólk út í svo verði líkt og karamellusósa,
bleytir grasaviskinn og þvær í vatni og brúnar svo á pönnunni.
Svo lætur maður grösin brúnuð í pott með mjólk, lætur sjóða þar
til grösin eru soðin, bætir salti og sykri út í eftir smekk. Hef
aldrei heyrt eða séð fjallagrasate, en þekki te af ýmsum öðrum
grösum. Ég held að þáttur fjallagrasa í nútíma matseld sé ekki
stór, en mörgum finnst t.d. grasamjólk

p11
góð og nota hana stundum þessvegna, en örugglega hafa grösin áður
verið stór liður í fæðu fólksins, og oftsinnis bjargað lífi þess
í bókstaflegum skilningi og ættu líklegast að notast mun meira en
gert er sökum hollustu. Ég veit ekki um svo miklar breytingar í
meðferð grasa, ég hef aldrei þekkt þau meðhöndluð öðruvísi en
hreinsa þau og þurrka eins og nú er gert.
Fjallagrös til lækninga.
Því miður er ég mjög ófróð um notkun fjallagrasa til lækninga,
veit ekki hvort þau voru notuð almennt í því skyni, en nokkrar
konur hef ég þekkt sem suðu það, helst með rjúpnalaufi eða
blóðbergi eða hvoru tveggja, og notuðu seyðið við kvefi,
brjósþyngslum og hósta. Best þótti að bræða vænan kandísmola í
seyðinu svo blandan væri dísæt. Ekki þekki ég til þess að
fjallagrös séu notuð nú til lækninga og ekki var það almennt þá
ég var að alast upp í Árnessýslu, en stöku

p12
maður eða kona stunduðu talsvert grasalækningar, svo sem
Ragnhildur á Loftsstöðum í Flóa, systir Erlings grasalæknis, sem
margir miðaldra Reykvíkingar muna. Þau voru skaftfellsk að ætt.
Fjallagrös í máli og sögum.
Ég þekki ekki margar sagnir um fjallagrös eða tínslu þeirra nema
úr þjóðsögum, þar er til fjöldi sagna af grasafólki sem tröll eða
álfar hylltu og svo útilegumenn. Þó þetta séu þjóðsögur sýna þær
hve algengt það hefur verið fyrrum að fara til grasa. Á
grasafjalli ól Guðrún, móðir Sveins Pálssonar, barn sitt er hún
átti ógefin í föðurgarði, minnir mig.
Maður hér úr Mýrasýslu segist hafa séð poka sem grös voru tínd í.
Það var alllangur sekkur með opi nokkuð stóru á miðjunni og heill
í báða enda. Svo var hann lagður yfir öxlina og héngu endarnir
niður í bak og fyrir. Grasajárn segir hann hafa verið mjög líkt
tóbaksjárni, eins og ég man um káljárnið.
(Meðfylgjandi er lítið blað með rissmynd af kálskurðarjárni).

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana