Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1911

Nánari upplýsingar

Númer6032/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 6032

p1
Ég hef heyrt talað um þrjár tegundir fjallagrasa.
1. Skæðagrös, voru stærst og best til matar.
2. Kræður, þau voru af meðalstærð.
3. Klóangur, smá og römmust.
Þar sem ég er fædd og uppalin vestur við Ísafjarðardjúp miðast
mín litla vitneskja um fjallagrös aðeins við firðina sunnan megin
djúpsins þar sem ég er kunnug, en því miður hef ég aldrei farið á
grasafjall. En bróðir minn, Karl Gunnlaugsson (sem nú er dáinn),
bjó allan sinn búskap á Birnustöðum, fremsta bæ í Laugardal í
Ögurhreppi. Frá hans heimili var alltaf farið til grasa á hverju
vori fyrir slátt. Fremst í dalnum er töluvert grasaland og líka
suður og upp frá bænum í svokölluðum Þernuvíkurmó. Aldrei hef ég
heyrt að grös hafi verið aðskilin eftir stærð á grasafjalli, til
þess hefur áreiðanlega enginn tími verið til, því keppst var við
að tína grösin meðan döggvott var á, því þá sáust þau best. Þau
breiddu úr sér til að ná í vætuna, en skruppu saman og var verra
að sjá þau í þurrki. Skæðagrös voru mest metin. Þau voru
matarmest og fljótlegara að hreinsa þau vegna þess hve stór þau
voru.

p2
Þegar Djúpvegurinn var kominn var alltaf farið á bíl frá
Birnustöðum inn á Eyrarfjall. Það er fjallvegurinn milli
Mjóafjarðar og Ísafjarðar (það er innsti fjörðurinn). Þar á
fjallinu er töluvert grasaland, sömuleiðis að bænum Borg í
Skötufjarðarbotni og í Hestfirði, en grös eru víðast hvar um alla
Vestfirði. Ég hef ekki heyrt getið um nein örnefni í sambandi
við fjallagrös. Fjallagrös eru seinvaxin og verða 8-12 ár að
líða þar til aftur er hægt að tína þau þar sem áður hefur verið
tínt. Í gömlum Jarðamatsbókum er grasatekja talin til hlunninda
á jörðum svo og berjatekja, en það er sjálfsagt löngu aflagt.
Ekki veit ég til að nokkrum hafi verið meinað að tína grös á
heiðalandi, enda orðið lítið um grasatínslu á minni tíð. Ekki
veit ég neitt um verðlag á fjallagrösum, en ég man að eftir að
foreldrar mínir fluttu úr sveit í Súðavíkurþorp, voru þeim oft
send fjallagrös. Var þá oft látið eitthvað frá sjónum í staðinn,
t.d. harðfiskur, sigin grásleppa o.s.frv. Að fara á grasafjall
var alltaf sagt fyrir vestan og þar voru bara farnar eins dags
ferðir og alltaf farið fyrir slátt. Farið var mjög snemma, kl.
3-4 að nóttu til að

p3
nýta næturdöggina. Ekki var farið af stað nema liti út fyrir
gott grasaveður. Það er að segja stillt veður og skýjað, til að
sólar nyti ekki strax til að þurrka döggina. Fjallagrös voru
notuð til gjafa til vina og kunningja í sjóþorpunum. Ég veit
t.d. að frá bróður mínum á Birnustöðum var árlega skipt á
fjallagrösum og silungi og fenginn fugl í staðinn frá vinafólki í
eyjunni Vigur. Ég veit lítið um útbúnað og nesti grasafólks, en
býst við að það hafi farið eftir efnum og ástæðum eða eins og
segir í gömlu orðspori fyrir vestan: Soltinn á sjó, svangur á
berjamó, hungraður á grasafjalli. Grasapoka heyrði ég sagt frá
að hefðu verið prjónaðir úr togbandi og hafðir langir með opi á
annari hlið og kallaðir hærusekkir. Var þá troðið grösunum í
báða enda og svo lagðir yfir hesthrygg, en oft var hestur hafður
með til að bera heim grösin. Fjallagrös voru venjulega geymd í
pokum á hjallloftum og hengdir upp, svo ekki kæmist væta að þeim.
Unglingar voru oft látnir hreinsa grös í sporöskjulagað tréílát,
var kallað grasatína.

p4
Gömul kona úr Borgarfirði, (102 ára, andlega heilbrigð) sagði mér
að ruslið sem tínt var úr grösunum hafi verið kallað þar mosk.
Grasajárn sem ég hef séð var alveg eins og gömlu tóbaksjárnin, en
það var ekki notað til annars en skera með því grös. Ég notaði
fjallagrös á mínum fyrstu búskaparárum hér í Mosfellsdal eftir
1935, bæði í blóðmör og rúgbrauð seydd í bakaraofni. Líka notaði
ég þau í grasamjólk og hrísgrjónamjólkurgraut. Hef aldrei vitað
þau notuð í lifrarpylsu. Ég hreinsaði þau og þvoði og brytjaði
þau á trébretti með beittum hníf í brauð og blóðmör, en hafði þau
heil í grasamjólk og grjónagraut. Ég notaði þau ekki vegna neins
sparnaðar, heldur af því ég vissi hve heilsusamleg og holl þau
voru. Ég sauð grasamjólk þannig: Ég sauð grösin í frekar litlu
vatni í 10 mínútur, lét svo mjólkina út í og hlemminnn yfir. Lét
pottinn standa smástund áður en ég lét á diskana. Lét sem sagt
mjólkina ekki sjóða með. Aftur á móti lét ég grösin sjóða í
grautnum seinustu 10 mínúturnar af suðutímanum.

p5
Móðir mín sauð sterkt fjallagrasaseyði, síaði grösin frá og sauð
svo kandíssykur í seyðinu. Lét á flöskur og gaf okkur krökkunum
1 matsk. á hverjum morgni þegar við fengum hósta og kvef.

Fjallagrös feikna kraftur
fágæt heilsulind til morgna.
Best oss væri að bergja aftur
beiskan drykk, það myndi orna.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana