LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1893

Nánari upplýsingar

Númer2719/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2719

p1
Tegundir fjallagrasa.
Þau voru öll nefnd einu nafni fjallagrös. Það var sóst mest
eftir blaðmiklum og stórum grösum, en sneitt hjá minni grösum ef
unnt var, þau voru samanskroppin og kölluð klóungur. Var oft
meira af þeim í því landi þar sem lítið var um grös. Það var
öllum grasategundum blandað saman.
Grasaland.
Þar sem ég þekkti til voru fjallagrös mest tínd á afréttarlöndum.
Ég man ekki eftir neinum örnefnum í sambandi við fjallagrös. Það
var farið á hverju ári á sömu stöðvar meðan farið var til grasa
og þá leitað að bestu blettunum hverju sinni.
Grasatekja.
Það nefndist grasatekja eða grasaland gott eða slæmt eftir
atvikum. Ekki var grasatínsla á jörðum metin til hlunninda svo
langt sem ég man, en máski hefur það verið áður fyrr. Það hafði
enginn rétt til grasa nema jarðeigandi eða ábúandi. Menn fengu
oft leyfi til að tína grös, en ég vissi ekki til að það væri gegn
gjaldi. Ég held að það hafi þótt sjálfsagður greiði við
náungann.

p2
Notagildi.
Ekki ákveðið notagildi, en það þóttu mikil búdrýgindi að hafa
mikil og góð fjallagrös. Ég vissi aldrei til að fjallagrös væru
notuð í viðskiptum manna á milli. Það kom stundum fyrir að
náunganum var hjálpað um fjallagrös og þá aðallega til lækninga.
Grasafjall, að fara til grasa.
Það nefndist að fara til grasa eða að fara á grasafjall. Ég man
ekki eftir að það væri á nokkurn hátt miðað við það í orðum hvort
verið var lengri eða skemmri tíma á grasafjalli. Það var kallað
gott grasaveður, ef það var náttfall eða úðavæta, en slæmt í
bjartviðri.
Fararbúnaður.
Tjöldin voru úr seglastriga misþykkum, en ég heyrði talað um að
áður fyrr hefði verið ofið í þau úr togþræði. Tínupokar voru
litlir strigapokar og var band sett efst í hliðarnar sitt hvorum
megin og því svo smeygt yfir hálsinn. Svo þegar búið var að
fylla tínupokkann var hann losaður í stærri strigapoka
(tunnusekki) og flutt í þeim heim. Nestið var venjulega brauð og
smjör eða flatkökur, harðfiskur, kjöt, mjólk og kaffi til
hitunar. Á seinni árum var hafður prímus til að hita kaffið á,
en áður var það hitað úti í hlóðum, og eldsneytið þá haft með að
heiman, en svo átti það sér líka stað að það væri hitað við mosa,
kvist eða lyng ef til var á staðnum. Allt var þetta breytilegt
eftir efnum og ástæðum.

p3
Grasaferð.
Það var farið að vorinu rétt fyrir sláttinn, en kom þó fyrir að
skroppið var dagstund að haustinu þar sem svo hagaði til að stutt
var í grasalandið. Þegar farið var að vorinu fór flest það fólk
er komist gat að heiman vegna aldurs eða (annarra) fastra
heimilisstarfa. Öll vorverk voru þá venjulega búin. Það var
kallað grasafólk og stundum sagt að nú þyrfti að fara útbúa
grasafólkið. Það kom fyrir að fólk samlagaði sig (einkum ef
farið var langt), bæði sambýlisfólkið og líka af öðrum bæjum.
Það var ekki miðað við neitt ákveðið magn. Það þótti gott að
fara til grasa ef leit út fyrir náttfall eða úðavætu. Það var
mjög misjafnt og fór eftir veðri og ýmsu öðru, ekki síst hve
langt var til grasa, hve lengi var verið í grasaferð. Í minni
sveit var venjulega farin sólarhringsferð. Dagamunur var ekki
gerður á annan hátt en þann að taka vel á móti fólkinu þegar það
kom heim, gefa því heitan mat eða þá kaffi og pönnukökur. Ef
farið var að morgni og komið heim að kveldi var það venjulega frá
þeim bæjum er stutt var í grasalandið. Þá var útbúnaður að öllu
leyti minni og ekki hafður nema einn hestur undir grös.
Venjulega var enginn sérstakur foringi. Það var hjálpast að og
hver reyndi að gera sitt besta og stundum lagt kapp á að vera sem
fljótastur að fylla sinn tínupoka, einkum ef unglingar voru með í
förinni. Væri húsbóndinn með var hans forsjá hlítt.

p4
Að tína grös.
Ef legið var við var byrjað eins fjótt að morgni og hægt var,
einkum ef náttdögg var. Fólk lagði sig þá heldur þegar þurrt var
orðið á því alltaf var best að tína í rekju. Það var svipað og á
berjamó hvernig fólkið dreifði sér. Fólk reyndi að komast í
bestu blettina, en væru börn með var litið eftir að þau færu ekki
langt frá. Það var staðið hálfbogið eða legið á hnjánum. Pokinn
var í bandi um hálsinn. Ég held að hann hafi aldrei verið
dreginn. Þeir sem voru frá sama heimili losuðu í svona poka, en
stundum voru pokarnir færðir til og hafðir þar sem styst var að
komast í þá og líka fleiri en einn í takinu ef svo bar undir og
fólkið var margt og dreift. Það var þá fært til þegar fór að
hækka í pokunum og einn poki fylltur og annar látinn koma í
staðinn. Ég heyrði aldrei talað um dagsverk í sambandi við
grasatínslu. Hvort það grasaðist vel eða illa fór eftir veðri og
svo hvernig grasalandið var hverju sinni.
Frágangur og flutningur.
Það var ýtt með höndunum ofan í pokana og troðið þéttingsfast,
svo var bundið vel fyrir opið. Klyfjar voru bundnar þannig að
reipið var lagt á jörðina, pokinn eða pokarnir svo lagðir þversum
á reipið, þá voru endar reipisins dregnir í hagldirnar og togað í
og hert vel að. Síðan var krossbundið, gengið vel frá endunum og
þá er bagginn tilbúinn. Baggi á hest mátti helst ekki fara yfir
50 kg, en það var oftast nær svo mikil fyrirferð í grösunum að
þyngd kom ekki til greina. Grasasekkir nefndust grasabaggar,
grasaklyfjar. Ef svo stutt var í grasaland að hægt var að fara
gangandi þá bar hver sinn pinkil eða poka heim.

p5
Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Fjallagrös voru þurrkuð við sól væri hægt að koma því við. Það
var þannig að breiddir voru pokar á jörðina og grösin sett þar á,
velt svo við með höndunum og greidd til, skipt um poka þegar fór
að þorna og mosinn hreinsaður af þeim sem fyrir voru. Stundum
voru grösin þurrkuð í hjöllum eða fjárjúsum ef votviðri gengu.
Áður fyrr mun það hafa verið gert í baðstofum og sat þá hver á
sínu rúmi og börn stundum á kistlum, en á seinni árum aðallega í
eldhúsum. Þau fjallagrös sem áttu að fara í sláturgerð urðu að
hreinsast að sumrinu, en að öðru leyti voru þau hreinsuð eftir
ástæðum. Það var mikið og seinlegt verk að hreinsa fjallagrös.
Það sagði mér gamall maður sem fæddur var um miðja 19. öld að
áður fyrr hefði það verið gamalt fólk og börn er mest var látið
tína fjallagrös (hreinsa), og þá oft og tíðum það fólk er var á
sveitaframfæri. Eftir að ég man eftir var gripið í það ef stund
gafst af heimilisfólkinu. Að hreisun var unnið þannig að það var
tekin smáhrúga og látin í ílát (fat, skál), svo var annað ílát
haft hjá til hliðar, en hitt gjarnan í kjöltu manns, eða eftir
því sem hverjum þótti þægilegast. Svo var byrjað að hreinsa,
eitt og eitt gras tekið og tínd af því öll óhreinindi eftir því
sem mögulegt var, svo voru hreinu grösin látin í tóma ílátið sem
var til hliðar. Þegar búið var að hreinsa eina hrúgu var önnur
tekin og þannig áfram eftir því hvað fólk var lengi hverju sinni.
Fólk var mishandfljótt við þetta og fór það eftir æfingu og
fleiru. Fjallagrös voru geymd í pokum, kössum eða tunnum, á
skemmulofti, hjalli eða öðrum rakalausum stað og væru þau höfð í
pokum voru pokarnir látnir hanga uppi.

p6
Grasajárn, grasabretti.
Grasajárn og grasabretti heyrði ég talað um en sá hvorugt. Að
sögn voru grasajánrin svipuð að gerð og tóbaksjárn, en stærri.
Ég man eftir að grös voru söxuð með tóbaksjárni og þá á fjöl,
misstórri, eftir því hvað mikið átti að saxa hverju sinni. Ég
man líka eftir að þau voru snúin í sundur um leið og þau voru
tekin upp úr þvottavatninu, og þegar sigið hafði af þeim voru þau
látin í blóðið um leið og það var drýgt að öðru áður en það væri
fært upp í keppina. Grösin voru stundum notuð óskorin bæði í
slátur og annan mat. Ég veit ekki til að grös hafi verið möluð
með korni í kornmyllum.
Fjallagrös til matar.
Ég heyrði talað um að fjallagrös hefðu verið notuð í
rúgmjölsgrauta. Þeir voru hafðir þykkir og borðaðir heitir með
mjólk út á og kaldir saman við skyr eða súrmjólk (hræring). Hvað
mikið var haft saman við mjölið fór eftir því hvað mikið var til
af hvorri tegund. Það var engin viss regla. Ég held að grös
hafi ekki alltaf verið söxuð smátt áður en þau voru látin í graut
eða annað. Það má vel vera að það hafi verið áður fyrr, en ég
þekkti það ekki. Þau voru ýmist söxuð, soðin heil eða snúin í
sundur. Grösin voru álitin holl og mikið til bóta, en kraftfæða
voru þau ekki álitin.
Fjallagrös í slátur.
Þau voru notuð jöfnum höndum í slátur sem átti að geyma. Ég
vissi til að grös voru látin til helminga á móti mjöli. Það er
að segja að mjölið var minnkað um helming og svo aukið um grösin
og tókst vel. Ég held að þau hafi ekki verið vigtuð hvorki í
sláturgerð eða annan matartilbúning. Á seinni árum voru
fjallagrös minna notuð, en slátrið þótti betra ef látið var
dálítið af fjallagrösum í það, og það súrnaði ekki eins mikið.
Ég man ekki eftir að fjallagrös væru notuð í lifrarpylsu, og ég
vissi ekki til að þau væru notuð í aðra sláturgerð.

p7
Brauð.
Fjallagrös voru höfð í rúgbrauð, pottbrauð og líka eftir að farið
var að baka þau í vél. Það var ekkert ákveðið hlutfall milli
mjöls og grasa. Það var áætlað svona tveir til þrír hnefar í
venjulegt pottbrauð. Seydd grasabrauð þóttu sælgæti.
Að hleypa grös.
Eg þekkti ekki grasahlaup og hef ekki heyrt neina lýsingu á því.
Grasamjólk.
Ég man það að fyrst eftir að ég kom aftur í sveitina (1917), þá
var grasamjólk búin þannig til að mjólk var sett í pott, oftast
undanrenna. Potturinn var látinn yfir eld. Þegar fór að hitna í
pottinum voru grösin sett út í mjólkina. Þetta var svo látið
sjóða við hægan eld í tvo til þrjá tíma eða þar til grösin voru
orðin slímkend og allt remmubragð var farið af þeim. Nokkur
saltkorn voru látin í þetta, annað ekki. Í þetta var látið svona
í kringum einn hnefi af fjallagrösum þurrum á móti einum potti af
mjólk. Grösin voru þvegin og bleytt vel áður en þau voru látin í
pottinn.
Grasate.
Ég man ekki eftir að grasavatn væri haft sem te. Nú er
grasamjólkin búin þannig til að það er látinn sykur í pottinn með
fjallagrösunum og grösin ekki soðin nema tíu mínútur. Sykurinn
tekur remmubragðið af, annars er á svipaðan hátt búið í pottinn,
en grösin höfð heil.

p8
Fjallagrös til lækninga.
Það var stundum búið til fjallagrasaseyði. Þá var sett saman
einn lítri af vatni, einn hnefi af þurrum fjallagrösum og vænn
moli af kandís. Grösin voru þvegin og bleytt, snúin í sundur eða
skorin. Svo var allt sett í pott og yfir eld og soðið hægt þar
til það þótti hæfilegt til inntöku (mauksoðið). Þótti mjög gott
við kvefi og hæsi. Ég man ekki eftir að fjallagrös væru notuð í
bakstur eða smyrsli. Fjallagrös voru stundum notuð handa fé við
skitu og þá seydd í vatni, maukið látið kólna. Svo var kindin
eða kindurnar mataðar á þessu. Þetta gafst vel. Það var líka
stundum gripið til að sjóða fjallagrös ef börn fengu í magann.
Grösin voru þá soðin í mjólkurblöndu og látið örlítið af sykri út
í, minnsta kosti í seinni tíð. Svo voru börnin nærð á þessu og
þeim batnaði oft fljótt og vel. Hvort lækningar eru iðkaðar með
fjallagrösum enn í dag, veit ég ekki. Ég vissi ekki til að þetta
væri bundið við ákveðin heimili eða ákveðna menn. Ég held bara
að fólkið hafi verið að reyna þetta í umkomuleysi sínu. Ég
heyrði aldrei talað um að þessar lækningar væru runnar frá gömlum
lækningabókum.

p9
Fjallagrös í máli og sögum.
Þar hef ég lítið að segja, enga málshætti eða orðtök hef ég heyrt
er lúta að fjallagrösum, ekki heldur sagnir. Ég kann eina vísu
þar sem grös eru nefnd, lærði hana á barnsaldri. Vísan er svona.
Lyppa, spinna, tæja, tvinna
tína grös og góla,
það kann Gunna vel að vinna,
vökrum hesti að dóla.

Þessi vísa hefur sjálfsagt verið á sínum tíma ort til gamans um
litla stúlku. Mér hefur verið sagt að áður fyrr hefðu börn verið
látin sitja inni að sumrinu við grasatínslu. Máski hefur Gunnu
leiðst og þá fallið tár ofan í grasahrúguna sem hún var að
hreinsa. Orðið að tína var í minni sveit oft notað um að hreinsa
grös.
Svo bið ég afsökunar á ófullkomnu verki.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana