Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1899

Nánari upplýsingar

Númer3060/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 3060

p1
Hef aldrei heyrt á þeim annað nafn en fjallagrös. Ekki
heldur um mismunandi tegundir þeirra, utan hvað mig minnir að
stórvaxin fjallagrös væru nefnd "skæðagrös", og líkingin þá
vafalaust tekin af skæðum, meðan allir gengu í íslenskum skóm.
Veit ekki til að fjalla- eða heiðalönd, þar sem fjallagrös uxu
drægju nöfn af þeim, og þótt ég hafi ýkjulaust manna mest safnað
örnefnum í tveimur sýslum Vestfjarða (N-Ís. og Str.), minnist ég
ekki eins einasta örnefnis sem sérstaklega sé þeim tengt.

p2
Veit ekki til að tekja fjallagrasa væri talin til hlunninda og
síst að slíkt væri metið til verðs við kaup eða sölu jarða. Enda
var notkun þeirra að mestu fallin úr sögunni þegar ég man eftir.
Þó mun grasatekja allmikið hafa færst í vöxt á
heimstyrjaldarárunum fyrri, 1914-18. Heyrði aldrei að notagildi
fjallagrasa væri metið til verðs í móti öðrum mat, en oft var
talað um hollustu þeirra. Ávallt talað um "að fara til grasa".
Grasafjall bara til í þjóðsögum, enda hún í heimalandi og stutt
að fara, og skamman tíma verið að.

p3
Fararbúnaður var aðeins tínupoki sem bundinn var um öxl,
strigapoki. 1 eða 2 stærri strigapokar voru svo hafðir með til
að losa í úr tínupokanum. Viðleguútbúnaður var enginn og hver og
einn bar heim á sjálfum sér það sem hann grasaði, nema ef um börn
var að ræða, sem stundum var. Þá báru fullorðnir það ef um
dálítið magn var að ræða, sem sjaldan var. Til grasa var
venjulega farið í byrjun túnasláttar, um mánaðarmótin júni-júli,
stundum seinna. Ekki var farið nema í svokölluðu "grasaveðri",
þ.e. logni og þurrviðri eða jafnvel allra helst í þoku og súld.

p4
Tínupokinn var sem fyrr segir bundinn um vinstri öxl þannig að
botninn vísi að baki og hlið, en opið lá við brjóst mannsins.
Fólkið gekk svo hálfbogið um grasalandið og sleit upp visk og
visk og stakk í pokaopið, uns sá slurkur var kominn í tínupokann
að rétt þótti að losa í annan stærri sameiginlegan sekk. Sem
fyrr segir báru menn þau heim á eigin baki eftir getu og aldri.
Grösin voru þurrkuð úti í sólskini, á pokum og á heyyfirbreiðslum
(hærum). Yfirleitt tínd og losuð

p5
við mold og gras um leið og notuð voru í mat, en þó var nokkuð
algengt að börn og unglingar væru sett við að tína grös á
innistöðudögum sumarsins, þegar rok og rigning var úti og þótti
flestum álíka leitt verk og að læra kverið (kristindómurinn).
Geymd þurr og höfð í pokum í skemmu eða hjalli. Í brauð og
grauta voru grösin yfirleitt notuð heil, en söxuð í slátur.
Söxuð í trédalli með grasajárni. Engin dæmi veit ég þess að
fjallagrös hafi verið möluð saman við korn. (rissmynd af
grasajárni). Grösin voru notuð heil í graut með bankabyggi og
haframjöli, einnig heil í rúgbrauð, sem þá voru

p6
ávallt kölluð grasabrauð, og þóttu allra brauða best þótt bökuð
væru í hlóðum undir potti. Grasagrautur var venjulega hafður
allþykkur og oftast hafður til matar á vetrum, og þá gjarnan
hrærður saman við súr eða skyr. Grös voru eingöngu notuð í
blóðmör, aldrei í lifrarpylsu svo ég vissi til. Grös voru notuð
heil í pottbrauð sem fyrr segir, en ekki vissi ég um neitt
ákveðið hlutfall á milli mjöls og grasa, en trúlega hefur það
verið misjafnt eftir því hver brauðið bjó til.

p7
Að hleypa grös var ekki gert. Grasamjólk man ég að vísu eftir,
en aðeins sem einskonar sælgæti. Grasate eða grasavatn
aðeins notað sem meðal við kvefi og hæsi, aldrei í kaffistað.
Man ekki til að fjallagrös væru notuð til lækninga, nema sem fyrr
segir gegn kvefi og hæsi, en til þeirra hluta var engu síður
notað vel heitt kandíssykurvatn.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana