LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1914

Nánari upplýsingar

Númer2615/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2615

p1
Um fjallagrös.
Ekki er um hefð eða arfleifðir að ræða sem neinu nemur varðandi
nytjun fjallagrasa. Talað var um fjallagrös almennt og svokölluð
skæðagrös sérstaklega. Þar sem ég þekki til hér á
Reykjanesfjallinu, Miðjanesdal og Heyárdal eru grösin misvöxtuleg
og þroskamikil, skæðagrös hér og þar, en smávaxnari og þéttari
grös jafnframt. Var hvorttveggja tekið jöfnum höndum eftir því
sem til náðist, þótt skæðagrösin væru auðvitað eftirsóttari, því
þau eru allt í senn, fljótteknari, efnismeiri og betra að hreinsa
þau.
Grasaland.
Auk þeirra staða sem að framan getur, en grasaland er þar tæplega
miðlungi gott að ég held, fer sérstakt orð hér um slóðir af
Þorskafjarðarheiði, sem helsta uppgripalandi til grasatínslu.
Hefi ég heyrt um svæði í nánd við Gedduvatnið þar sem grös eru
fljóttekin. Í seinni tíð hefur verið farið þangað á bílum frá
einstöku bæjum hér nærindis. Ekki veit ég hvort nytjunarheimilda
var aflað.
Grasatekja.
Af eigin reynslu þekki ég bara eins dags ferðir til grasa. Tínt
var í ótilhafða poka, helst hálftunnupoka. Var þetta allt eins
óbrotið og einfalt eins og framast er hægt að hugsa sér, þar sem
ekki var einu sinni til einnar nætur tjaldað. Helst var farið
rétt fyrir sláttarbyrjun, svona í 10. til 12. viku sumars. Sóst
var eftir að fara til grasa í rekju, helst eftir næturregn eða
þegar súldaði úr þoku.
Verkun, geymsla og notkun.
Grösin voru þurrkuð sem fyrst og best og hreinuð eins fljótt og
tími vannst til. Magn grasa varð ekki það mikið að þau entust
nema í slátur næsta haust. Voru þau geymd inni, hengd upp í
skemmu í pokum. Mest sælgæti var að sjóða grösin í mjólk, gera
grasamjólk. Oftari mun undanrenna hafa verið látin duga, en
grasamjólk úr nýmjólk er til vissra hátíðabrigða. Grasagrautur
var og gerður. Held ég endilega að hann hafi verið bættur ögn
með rúgmjöli eða öðru korni til að draga úr remmubragðinu, sem
er þegar soðið er í vatni eingöngu. Grasavatn, seyði af grösum,
eilítið sykrað, var notað sem læknislyf þegar sárindi og þyngsli
voru fyrir brjósti, ofkæling, vonskukvef og þvílík vanheilsa.
Þá var um að gera að drekka grasavatnið vel heitt og vel útilátið
og var að þessu hin besta lækning. Kandíssykur er öðrum sykri betri
til þessara lækninga.

p2
Mest voru grösin notuð í slátur. Þau voru söxuð, t.d með
tóbaksjárni á bretti eða snúin í sundur í höndunum til að smækka
þau. Því miður kann ég ekki skil á því hvernig
blöndunarhlutföllin voru helst höfð, en mér er næst að halda að
grösin hafi verið höfð allt í senn, til drýginda, til að fá
þéttara slátur og slátur með betra súrbragði en hægt var að fá
ef ekki voru grös með. Ekki man ég það alveg fyrir víst, en rámar
í það að borið hafi verið við að hafa fjallagrös saman við í
rúgbrauð og það hafi bragðast vel. Annars verð ég að segja það
að sú fjallagrasanotkun sem ég hefi eigin kynni af bæði í bernsku
og á fullorðinsárum var meira til gamans, tilbreytingar og
smekkbætis, en beinlínis vegna brýnnar þarfar. Þannig var frekar
gripið til grasanna öðru hvoru, en stöðug notkun þeirra var ekki
regla. Mest stóð á að hreinsa grösin. Það var meira upplífgandi
að sækja þau en að þrífa þau og undirbúa undir matseld. Enn þann
dag í dag er sótt eftir að grípa grös upp af götu sinni og sjóða
af þeim grasamjólk til hátíðabrigða. Einstöku heimili munu enn
til sem búa yfir þeim manndómi að eiga og nota fjallagrös til
nokkurra muna.
Sem fyrr segir hefi ég þekkt að grasavatn væri notað til lækninga
og það með vafalausum árangri. En ekki til daglegra nota.
Hinsvegar líður aldrei svo sumar að ekki sé gert nokkuð að því
að sjóða og drekka blóðbergste eða blóðbergsvatn. Flestum þykir það
mesta góðgæti.
Tvær jurtir sat ég mig aldrei úr færi með að bera mér til munns
þegar ég hitti þær fyrir á göngu minni, söl og skarfakál. Báðar
eru þær mesta munngæti og er ég hreint og beint sólginn í þær,
skarfakálið þó enn meira, enda tek ég það fram yfir allt sem hér
grær á grundu, nema ef vera skildu bláber og aðalbláber, en
þessar síðust fimm línur eru nú utan dagskrár og er nefnt til
gamans.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana