Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1895

Nánari upplýsingar

Númer2619/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2619

p1
Á mínum ungdómsárum var aðeins talað um fjallagrös.
Auðvitað tók ég fljótt eftir því að grös sem uxu í mosa voru
langtum minni og öðruvisi en þau sem uxu í graslendi, taldi
ástæðuna öðruvísi lífsskilyrði. Grasaland var lítið, helst í
dalbotnum eða dalverpum, því ávallt farið á sama grasalandið
sumar eftir sumar.
Grasatínsla.
Sagt var í daglegu máli "að fara til grasa". Í þoku eða
rigningarsúld og hlýju veðri, var best að fara til grasa, því að
lítil eða engin voru hlífðarfötin, en grösin illsjáanleg í þurru
veðri. Um grasapokana er það að segja að þeir voru léreftspokar
eða léttir strigapokar. Aldrei var verið við grasatínslu nema
part úr degi og alltaf farið fótgangandi. Mig minnir að helst
væri farið til grasa seinnipart sláttar. Annars var ekki um
neinn ákveðinn árstíma að ræða. Aðeins var farið þegar
grasaveður var gott og hentugur tími. Það mun hvert heimili hafa
safnað út af fyrir sig. Aðallega hefur það verið ungt fólk og
stundum eldra fólk með sem fór til grasa. Eitt sinn fórum við
þrjú systkinin til grasa með

p2
með sinn pokann hvert undir hendinni og snærisspotta til að binda
fyrir með þegar tími þótti til kominn. Það var góð grasarekja
og sæmilega hlýtt í veðri. Við urðum fljótt rennblaut í fætur og
loppin á höndum. Við vorum stödd upp í afdal hátt upp í fjalli.
Fyrir ofan okkur var þverhníptur hár hamraveggur, en stutt hlíð,
að mestu grasi gróin upp að hamrabeltinu. Fyrir ofan voru víðiog grasigrónir geirar og bar nafnið Veturlönd. Sennilega gott
beitiland, en mjög erfitt að koma þangað fé að vetrinum. Okkur
kom saman um að skreppa þangað upp til að taka úr okkur hrollinn.

Við bundum fyrir pokana og settum þá á flatan stein, neðarlega
í hlíðinni, þannig að þeir sæjust úr nokkurri fjarlægð. Síðan
fundum við þægilegan uppgöngustað. Þar uppi var nokkuð af stórum
fallegum grösum, en við pokalaus. Til að fá hita í okkur tókum
við upp á því að velta steinum sem við réðum við og létum þá fara
í loftköstum fram af hanrabrúninni og niður hlíðina. Það var
ágæt skemmtun og yljandi, en stóð ekki lengi. Þegar einn
steinninn hentist niður hlíðina gaus upp rykmökkur. Okkur
grunaði hverskyns var. Við

p3
þutum niður og var þá einn grasapokinn sundurtættur og grösin út
um allt. Við urðum því að tína þau upp á ný og gekk það auðvitað
fljótt. Ekki minnist ég þess að farið væri nema einu sinni til
grasa, hver svo sem grasatekjan var. Það var látið duga það
árið. Svo var það á heimili foreldra minna. Hvernig það var
annarsstaðar veit ég ekki. Pokann höfum við vafalaust dregið
eftir okkur ef um samfellt grasaland var að ræða, annars borinn
á baki. Það mun hafa verið upp og niður í hvaða stellingum fólkið
tíndi grösin, sitjandi á hækjum sér, liggjandi á hnjánum eða á
fjórum fótum. Það fór eftir því hvað hentaði hverjum best í það
og það skiptið. Við munum aldrei hafa tínt svo mikið að við
værum ekki fullfær um að bera pokana heim. Annars er mér lítt
kunnugt um hvernig grasatínslu var háttað á öðrum bæjum eða hvort
grasatínsla var almennt stunduð.
Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Fjallagrösin voru breidd til þerris í sólskini og

p4
hægviðri á þurrum pokum eða yfirbreiðslum. Þegar þau voru orðin
þurr voru þau sett aftur í poka og geymd uppi á skemmulofti.
Grösin voru ekki hreinsuð fyrr en um leið og þau voru notuð.
Fyrst var hvert gras yfirfarið og síðan þvegið upp úr vel heitu
vatni. Grasajárnið sem ég man eftir var í raun og veru gamalt
tóbaksjárn, íbogið með handföngum á báðum endum úr tré. Mig
minnir að sérstök eikarfjöl fylgdi. Sennilega gömul tóbaksfjöl.
Mig minnir að fjallagrösin væru ávallt söxuð í slátur heima. Þó
rámar mig eitthvað í að ég heyrði talað um að þau hefðu verið
notuð ósöxuð í slátur einhversstaðar. Grösin voru söxuð eftir
þörfum og setið við það þar sem hentugast þótti hverju sinni.
Ég minnist ekki að fjallagrös væru notuð til matar nema í slátur og
grasamjólk á vetrum. Þá voru þau soðin heil mestmegnis í mjólk
dálitla stund, svo grasabragðið kæmi vel fram í mjólkinni og
þótti það góður matur. Ekki veit ég um hlutföll á mjöli og
grösum. Býst við að þau hafi verið mæld nokkuð eftir auganu.

p5
Grösin voru notuð í það slátrið sem geyma átti til vetrarins.
Í lifrarpylsu voru grös aldrei notuð. Ég hefi ekki haft neina
aðstöðu til að fylgjast með nútíma grasanotkun. Fjallagrösin
voru notuð til lækninga á kvefi og hæsi. Þau voru soðin eingöngu
í vatni með kandís út í. Seyðið var haft mjög sterkt og sætt og
grösin þá gjarnan borðuð með. Seyðið er drukkið vel heitt að
kvöldi dags. Sjúklingurinn var háttaður niður í rúm, með stóran
ullartrefil um hálsinn og dúðaður síðan vel. Það reyndist
ágætlega. Ekki veit ég hvort þetta var almennur siður eða hver
voru tildrögin.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana