Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1897

Nánari upplýsingar

Númer2778/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2778
p1
Tegundir fjallagrasa.
Ég þekki ekki nema eina tegund fjallagrasa. Að vísu voru
fjallagrös mismunandi þroskamikil, t.d. á Skógarströndinni voru
fjallagrösin stutt og mjó og þroskalítil. En eftir að ég kom að
Sámsstöðum sá ég góð og þroskamikil fjallagrös. Þar voru grösin
löng og breið. Að vísu sá ég þar grös eins og þau voru út á
Ströndinni, en þau voru ekki tekin og voru kölluð klóungur.
Önnur heiðargrös voru ekki tekin svo ég vissi til. Þessi stóru
þroskamiklu fjallagrös voru í mestum metum hjá fólki.
Grasaland.
Ég veit ekki til að séu nein örnefni af fjallagrösum eða
fjallagrasatekju. Hve langur tími átti að líða frá grasatínslu á
ákveðnu svæði er ekki gott að segja um. Grösin voru svo víða þar
sem ég var að við þurftum ekki að fara á sömu staðina ár eftir
ár. Ég hugsa að þau vaxi á tveimur árum.

p2
Grasatekja.
Ég vissi ekki til að grasatekja væri talin til hlunninda á jörðum
og ekkert tekið tillit til þess í mati eða sölu á jörðum. Margir
fóru á grasafjall án þess að biðja um leyfi hjá jarðareiganda og
aldrei talað um. Aftur kom það fyrir að menn báðu um leyfi að
fara að fá sér grös og þá var þeim leyft það endurgjaldslaust.
Ég vissi aldrei til að það væri selt. En þó að bændur hefðu
upprekstur þá höfðu þeir enga heimild til grasatekju.
Notagildi.
Um notagildi fjallagrasa til matar miðað við annan mat heyrði ég
aldrei talað um og fjallagrös voru ekki notuð í viðskiptum manna
á milli svo ég til vissi, en grös voru oft gefin.

p3
Grasafjall, að fara til grasa.
Það var ýmist kallað að fara til grasa eða fara á grasafjall.
Við fórum aldrei í viðlegu, aðeins einsdags ferð eða rúmlega það.
Það var reynt að velja gott grasaveður og verður betur skýrt frá
því síðar. Fararbúnaði verður líka lýst síðar.
Grasaferð.
Venjulega var farið til grasa fyrir slátt. Þegar búið var að
vinna á túni og jafnvel búið að taka af fé. Þar sem eitthvert
fólk var á heimili þá fóru allir sem voru færir um það. Þetta
fólk var kallað grasafólk. Það fór hvert heimili út af fyrir
sig. Ég vissi aldrei til að fólk safnaðist saman á grasafjall.
Besta grasaveðrið var logn og smáskúrir. Það var líka nóg að
væri bara vel blautt á.

p4
Að tína grös.
Það var alltaf farið ríðandi á grasafjall. Það var alltaf farið
nokkuð langt. Ef þurrkar voru þá var farið á stað seinnipart
dags og grösin tínd um nóttina, þá var velblautt af náttfalli.
Fólkið dreifði sér dálítið um grasalandið. Pokinn sem var tínt í
var kallaður hálftunnupoki. Hann tók 50 kg af mjöli. Hann var
þannig útbúinn að það var brotið ofan á opið á honum svona fjórða
part af lengdinni. Í pokann var bundin klifberagjörð úr ull og
henni var brugðið yfir öxlina og þannig var pokinn borinn meðan
tínt var í hann. Þegar komið var hátt í pokann þá leitaði maður
upp gott grasapláss og þá voru grösin látin í hrúgu, því pokinn
var þá orðinn nokkuð þungur af blautum grösum. Fólkið vann að
þessu annaðhvort hálfbogið eða á hnjánum. Ég held að það hafi
þótt gott að fá í svona poka yfir daginn eða nóttina. Bestu
grösin voru þar sem mættust flóajaðar og þurrar þúfur með
velgrónum lautum á milli. Þar voru grösin svo hrein, lítið um
rusl í þeim. Aftur var meira rusl ef tekið var úr mosaþúfum.

p5
Frágangur og flutningur.
Frá pokunum var gengið þannig að þegar var búið var að troða vel
í pokann var ýmist þrætt fyrir hann eða bundið. Þetta var svo
flutt heim á reiðingshesti. Pokarnir bundnir og hengdir á klakk.
Ef maður fór gangandi þá bar maður pokann sinn, en það var oft
dálítið erfitt.
Þurrkun, geymsla.
Grösin voru breidd á sléttan og harðan hól og rifjuð með hrífu
eins og hey. Þegar grösin voru orðin hörð þá voru þau látin í
poka og geymd á þurrum og góðum stað sem þau slöknuðu ekki.
Seinna var svo tínt úr þeim ruslið og tilhöfð til matreiðslu.

p6
Grasajárn.
Víða voru til svokölluð grasajárn. Þau voru með breiðu blaði,
tveimur handföngum og þessu var valtrað yfir grösin og höfð fjöl
undir og þurfti fjölin helst að vera úr hörðu efni. Áður voru
grösin látin í pott og hellt yfir þau sjóðandi vatni. Grösin
voru notuð bæði skorin og óskorin í mat. Ég veit engin dæmi til
að grös hafi verið möluð.
Fjallagrös til matar.
Grasagrautur: Venjulega voru grösin söxuð í grautana. Stundum
voru þau snöruð sem kallað var, þá var hellt út á þau sjóðheitu
vatni, svo voru þau tekin upp úr eins heit og hægt var. Tekið
utan um þau með báðum höndum og snúin í sundum. Þetta var soðið
nokkuð lengi í vatni og svolítið látið af haframjöli, mjög lítill
hluti á móti grösunum. Þetta var hrært saman við skyr og borðað
kalt með útáláti. Líka var mjólk og grös soðin saman, frekar
þunnur grautur, en mjög góður. Borðaður heitur. Mjög saðsamur
og góður grautur.

p7
Fjallagrös í slátur: Fjallagrös voru notuð mikið í blóð. Þau
voru söxuð eða snöruð áður en þau voru notuð í slátrið.
Hlutföllin milli grasa og mjöls veit ég ekki, en sáralítið af
mjöli notað með grösunum, en þau voru ekki spöruð og ég smakka
aldrei eins góðan blóðmör eins og með grösum. Í lifur var ekki
notuð grös. Blóðmörinn var jafngóður nýr og upp úr súr.
Brauð: Fjallagrös voru höfð í brauð (pottbrauð). Hlutföll milli
mjöls og grasa veit ég ekki um. Ég heyrði talað um að það yrði
að hnoða svo mikið upp í þau af mjöli til þess að þau yrðu góð.
Svo ég býst við að sparnaður á mjöli hafi orðið lítill, en
brauðin voru mjög góð, bæði sæt og hörnuðu ekki við geymslu.
Grös voru ekki höfð í flatbrauð.

p8
Grasamjólk.
Þá voru grösin soðin í heilu lagi og ekkert annað en mjólk,
undanrenna oft, og salt. Hvað þetta var lengi soðið veit ég
ekki, en grösin voru mjúk þegar maður borðaði þetta. Þetta var
mjög góður og saðsamur matur og eftir því betri sem meira var af
grösum.
Að hleypa grös: Það hef ég aldrei heyrt talað um og þekki ekkert
þetta grasahlaup.
Grasavatn: Þá voru grösin soðin í vatni, grösin síuð frá. Þá
var það tilbúið til að drekka það og kandís borðaður með. Þetta
var aðallega notað í kaffistað á morgnana.
Að lýsa þætti fjallagrasa í nútíma matseld ætla ég að geyma þar
til seinna.

p9
Fjallagrös til lækninga.
Grasavatn var notað við kvefi. Grösin voru soðin í vatni. Suðan
látin koma vel upp en ekki látið sjóða lengi því vatnið átti að
vera sterkt og rammt. Svo var það gert sætt með kandís. Einnig
voru soðin grös í litlu vatni og mikill kandíssykur látin í það.
Þetta var haft svo þykkt að það var vont að koma því í flöskur,
en í flöskum var þetta geymt og notað við kvefi, gefin ein
matskeið kvölds og morgna. Þetta fannst mér gagnlaust meðal en
sætt grasavatn vel sterkt og rammt, það hefur góð áhrif á kvef og
er mikið kröftugra en hóstasaftið frá lækninum. Grasavatn nota
ég ennþá við kvefi. Ég vissi ekki til að fjallagrös væru notuð
við öðru en kvefi, eða notuð fyrir skepnur. Vel má vera að þetta
hafi verið bundið við ákveðin heimili, en ég vissi það að þeir
sem annars byrjuðu að nota það við kvefi, þeir héldu áfram við
það. Hvort þetta hefur runnið frá lækningabókum veit ég ekki,
hef aldrei heyrt neitt um það, en því miður er brúkað minna af
fjallagrösum nú en áður var, því að fjallagrös eru mjög holl.

p10
Fjallagrös í máli og sögum.
Málshættir, orðtök, vísur og sagnir er lúta að fjallagrösum hef
ég ekkert heyrt um og get því ekkert sagt um það. Verður þá
þessu lokið og bið ég velvirðingar á þessu. En mig langar til
gamans að senda ykkur uppskrift af grasamjólk sem margir hafa
dásamað fyrir gæði. Uppskriftin er frá 1937 eða '38, en hvaðan
hún hefur komið er nú gleymt.

1 lítri mjólk, 3 matskeiðar sykur, 50-60 gr grös, kanelstöng og
salt.
Grösin þvegin úr volgu vatni, því hellt af, síðan hellt á grösin
1 lítra af sjóðheitu vatni og ílátið byrgt vel yfir nóttina.
Vatnið og grösin ásamt mjólk og öðru sem hér er talið soðið í 10
til 15 mínútur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana