Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1901

Nánari upplýsingar

Númer3454/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 3454

p1
Tegundir fjallagrasa.
Skæðagrös og klóungur voru kölluð í daglegu tali fjallagrös.
Skæðagrös þykja betri, þau eru stærri og safaríkari. Þau voru
eftirsóttari og eingöngu tínd ef þess var kostur. Vaxa aðallega
í flóalendi. Klóungur er minni, var tíndur með ef lítið var af
hinu. Vex í ásajörðum upp til fjalla og heiða. Talið er að hægt
sé að tína fjallagrös eftir 3 ár á sama stað. Kaup og sölu grasa
þekkti ég ekki. Að fara til grasa var sagt. Grasaveður, rök
jörð, þokuloft.
Fararbúnaður.
Ef farið var til heiða þá ríðandi með reiðingshesta eftir þörfum.
Tjald, hitunartæki, nesti eftir þörfum. Hver persóna hafði 2
poka, annan til að tína í og hinn til að losa í. Á tínupokanum
var band þvert yfir opið svo hægt væri að smeygja því upp á
öxlina. Hver hafði sér sinn aðalpoka og var metnaður þar um
þegar heim kom.

p2
Til grasa var farið fyrir sláttinn. Heimili slógu sér oft saman
frá bæ, fóru oftast 2-3, jafnt konur sem karlar og tíndum 1 og 2
sólarhringa. Það var tínt alveg eins á nóttunni ef svo bar
undir, ef þurrt var á daginn. Foringi var alltaf fyrir hverjum
hóp sem þekkti vel grasalandið. Síðan voru pokarnir bundnir í
bagga og fluttir á hestum heim. Þegar grasaferðin var bara eitt
dægur þá fóru allir gangandi með bita í vasa og tínupoka, en þá
var alveg eins farið að kvöldi og tínt um nóttina, ef veður var
þannig.
Þurrkun.
Grös voru þurrkuð strax eftir ferðina og tínd úr mestu
óhreinindin, síðan jafnóðum og notuð voru . Þurrkuð á stóru
borði. Höfð í poka og hengd upp í skemmuloft. Grasajárn var það
kallað sem söxuð voru með grösin sem notuð voru í slátur eða
bauð. Grasajárn var eins og stunguskófla, nema blaðið var kúpt
að neðan og látið bíta vel. Bytta eða bali var notað undir
grösin meðan saxað var.

p3
Söxuð grös voru notuð í slátur og rúgbrauð. Magn fór eftir hvað
hverjum hentaði. Grös í grauta t.d. hrísgrautagrauta,
bankabyggsgrauta, hafragrauta. Það hafði hver eftir sínum smekk,
sumir söxuðu grös í grauta, aðrir ekki. Grös eru talin holl og
næringarrík. Grös soðin í vatni eingöngu (grasalímsgrautar),
þekktist ekki nema þar sem annað var ekki fyrir hendi. Sykur var
hafður út á ef hann var til og borðað heitt.
Grasamjólk, hún var mest notuð. Grösin sett út í mjólkina kalda
og sykur og soðin sirka 10 mínútur. Grös til lækninga þekkti ég
lítið nema grasaseyði sykrað vel, þótti gott við kvefi.
Ég veit að svör mín eru ekki nógu fullkomin, en ég veit að þið
virðið viljann fyrir verkið og læt ég því staðar numið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana