Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1900

Nánari upplýsingar

Númer5111/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 5111

p1
Lítil grasatekja var í Norðfirðinum og voru grös ekki talin
til hlunninda þar. Ekki var mikið um sérstakt tilstand í kringum
grös eða grasaferðir, grös voru ekki geymd í sérstökum ílátum,
engar tínur eða tínupokar voru notaðir þarna og varla var hægt að
tala um sérstakar grasaferðir. Þegar farið var til að ná í grös
voru það nokkurs konar skemmtiferðir hjá krökkunum dagpart fyrir
sláttinn þegar var gott grasaveður (þoka og áfall, en ekki
rigning). Það var að vísu talað um að fara á grasafjall eða að
fara á grasaheiði. Annars kom alltaf mest af grösum inn á
heimilið þegar komið var úr göngum á haustin, þá tóku
gangnamennirnir með sér grös heim. Ekki þótti taka því að spyrja
um leyfi til grasatínslu, grös voru ekki það mikið mál í þessari
sveit. Grösin voru þvegin og þurrkuð heima við og hengd upp á
geymsluloft í grisjupoka. Áður en þau voru notuð voru þau oftast
söxuð á tréhlemm eða tilfallandi fjöl, með grasajárni (sjá
teikningu á bakhlið).

p2
Skæði, eða skæðagrös og kræða voru þau nöfn sem notuð voru um
fjallagrösin. Skæðagrösin þóttu miklu betri, kræðan var helst
ekki notuð. Ekki var hirt um að flokka sundur skæði og kræðu
fyrir notkun, ef á annað borð þetta var hvort tveggja komið heim
í hús. Mest voru grösin notuð í brauð, og líka í slátur.
Stefanía sagðist hafa notað söxuð fjallagrös í rúgbrauð og af
þeim hefðu þau orðið sætari og bragðbetri, en ekki var hún viss
um að nein mjöldrýgindi hefðu verið að þessu. Þegar grös voru
sett í slátur og brauð var hleypt upp á þeim suðunni áður en þau
voru söxuð. Ekki vissi Stefanía til þess að fólk hefði verið með
einhvern sérstakan hlutfallsreikning þegar að fjallagrös voru
notuð á þennan hátt, þeim var bara bætt í eftir hendinni.
Grasate, eða grasavatn var bara drukkið, þegar lasleiki var á
heimilinu. Það þótti gott við brjóstveiki og kvefi. Ekki hafði
Stefanía heyrt um að grös væru notuð til þess að lækna með þeim
dýr, né að þau væru höfð í bakstra eða smyrsli.

p3
Stundum var soðin grasamjólk, en það var ekki gert oft hjá
Stefaníu. Þá voru grösin ekki söxuð, en látin heil og hrein í
mjólkurpott. Þetta var látið sjóða lengi, eða þangað til það var
orðið rauðseytt. Alveg sérlega góður matur sagði Stefanía.
Grasamjólk var líka höfð sem meðal við magaveiki. Stefanía
sagði, að eini bærinn í Norðfirði, þar sem hún vissi til að
fjallagrös hefðu skipt talsverðu máli í fæðunni, hefðu verið
Tandrastaðir. Það var barnmargt og bláfátækt heimili innarlega í
Fannardalnum (í eyði síðan um miðja öld). Magnús Haraldsson,
einn af sonum bóndans, sem þar bjó þegar Stefanía var að alast
upp í Norðfirðinum, hafði t.d. sagt Stefaníu að þar hefði alltaf
verið látin mjöllúka út á hangiketssoðið og það síðan étið.
Feitin var vandlega veidd ofan af fyrst og notuð til viðbits.
Stefanía sagði að þetta væri í eina skipti sem hún hefði heyrt að
hangikjötssoð væri notað til matar á þennan hátt. En þarna voru
sem sagt fjallagrös stór hluti af viðurværi fólksins sökum
fátæktar. Ekki vissi Stefanía til þess að grös væru möluð í
myllu. Fram um 1908 voru grjón möluð í kvörnum í
Norðfjarðarsveit, aðallega bankabygg, bæði í lummur og grauta, en
það voru aðalgrjónaréttirnir.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana