Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1893

Nánari upplýsingar

Númer3029/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 3029

p1
Fjallagrösum er ég ekki vel kunnur, en þó dálítið. Farið
var til grasa vor og haust, fram á fjöll og dali. Nú er þessu
hætt að mestu. Áður var verið í tjaldi, fleiri manns og þá reitt
á hestum. Þetta er horfið með öllu. Þegar heim kom voru grösin
þurrkuð, svo varð að tína allt rusl úr þeim. Það þótti ekki góð
vinna og seinleg. Grös voru notuð í sláturgerð, brauð, grauta og
mjólk. Það varð að saxa þau vel áður en þau voru notuð. Það var
gert með til þess gerðu járni sem var kallað grasajárn,. Áður
varð að láta þau liggja í vatni, nema í mjólk þegar þau voru
notuð heil. Grasavatn var oft drukkið, en það þótti ekki
bragðgott, en hollt var það fyrir líkamann. Siði við að tína
grös veit ég lítið um, það þótti best að tína á nóttunni ef var
blautt á, en verra í sól. Notaður var tínupoki, bundinn á bakið,
sem svo var losaður í stærri poka. Þetta voru stór búdrýgindi,
fjallagrös, en tímafrekt að kokka þau.

p2
Það þóttu góð hlunnindi ef fjallagrös voru á jarðarlandi. Það
voru til sjávargrös sem hétu söl, það þóttu hlunnindi ef það
fylgdi jörðum. Þau eru mjög góð fyrir menn að borða þau bæði í
mjólk, brauð og grauta og fleira. Nú er þetta ekki til, það er í
dag enginn sultur eins og áður, var þá borðaður skelfiskur úr
fjörum og þótti góður matur. Hlutföll við notkun veit ég ekki,
það fór eftir því hvað var til af mjöli. Grasagrautar þóttu
svartir á lit, en góðir voru þeir að mér þótti, en það hafa ekki
allir sama smekk. Það voru notuð fleiri sortir af grösum.
Blóðberg til að drekka af seyðið og svo ýmsar sortir til að lita
úr ýmislegt, veit ekki heiti á þessum grösum, því miður.
Grasaveður var í mæltu máli "gott grasaveður í dag" ef sólarlítið
var. Það var hér í Syðstu Hlíð farið til grasa á Broddadal bara
einn dag á ári. Vorum þá fjögur. Þar voru góð grös, það hét
grasamór, þar er svokallað Djúpavatn, þar voru grös.

p3
Sumir tíndu í hjásetunni, það þótti húsmóðurinni gott ef smalinn
kom með grös heim úr hjásetunni. Fararbúnaður til grasa var nú
ekki margbrotinn, í fyrri daga var ekki of mikið af fötum, sumir
áttu tjald, en aðrir ekki. Fyrir kom að fólk sló sér saman með
tjald. Hlífðarföt voru ekki til nema þá úr skinnum, en ekki var
lipurt að tína í þeim. Það er dæmi til þess að farið var til
grasa á Gófu(?) þá hefur verið góð tíð. Dagamun í mat vissi ég
ekki um, það var svo lítið til af mat víðast hvar að það var ekki
hægt að breyta um. Helst bakaðar lummur úr möluðu bankabyggi
svokölluðu, sem var malað, en grös vissi ég ekki til að væru
möluð. Eftir að grös voru þurr voru þau látin í strigapoka og
látin hanga þar sem ekki var raki og notuð eftir hendinni. Það
þótti gott að fá hálftunnupoka yfir daginn. Það mátti troða fast
í þá. Það var nóg byrði heim fyrir manninn.

p4
(Rissmynd af grasajárni)
Var kallað að saxa grös, oftast gert í byttu sem var úr tré.
Eftir því sem grös voru betur söxuð fóru þau betur í mat.
Grasagrautur var oftast þykkur, hlutföll veit ég ekki um. Það
þarf ekki að sjóða grös lengi, 5-10 mínútur í mjólk, annars
verða þau beysk. Skyr var notað í grauta með grösum.
Grasagrautur var ekki bundinn neinum árstíðum, borðað hvenær sem
var ef þau voru til. Svo var rófukál haft í brauð og grauta, það
mjög gómsætt. Ég ætla að skjóta því hér með, ég las um það að
fyrstu kartöflurnar sem var sáð hér á landi, það var hjá Birni í
Sauðlauksdal, að þá borðuðu menn grasið en ekki undirvöxtinn,
svona var fáviskan.
Fjallagrös í slátur, þau voru hrærð í blóð- og lifrarpylsu og
látið í keppina með nefausu. Þetta var góður matur ef lítið mjöl
var til, vildi þetta verða nokkuð lint slátur.

p5
Ég veit lítið um grös til lækninga. Grasaseyði þótti gott við
kvefi, svo voru eins smyrsl búin til úr ýmsum grösum, svo sem
mellemfolium. Þótti best að hafa sauðasmjör og fleiri grös sem
ég kann ekki að nefna. Þetta voru góð smyrsl, græddu margan
kvilla. Hófblaka var góð að draga út gröft, og við bólgu.
Veit ekki um neina málshætti né orðtök eða vísur. Það eru til
ýmsar sagnir af grasaferðum, en yrði of langt mál að rita það
hér. Það eru til prentaðar sögur af grasaferðum. Ég man nú ekki
meira að sinni. Veit ekki hvort þú getur lesið þetta spark, veit
að margar eru villurnar, svona er að hafa ekki lært. Um og fyrir
aldamót femgi fengu fáir að læra. Vona að þú fyrirgefir hvað
þetta er illa gert og lesir í málið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana