Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1909

Nánari upplýsingar

Númer3268/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 3268

p1
Ég er mjög ófróður um grasaferðir. Veit ekki um þær annað
en það sem fóstra mín, Guðrún Þórðardóttir sagði mér, en hún fór
ung nokkrum sinnumm til grasa.
Tegundir fjallagrasa.
Samheiti þeirra var og er fjallagrös. Þau greindust í 4
tegundir. Skæðagrös þóttu best. Þau voru brún, stór og flöt,
líkust skófum. Uxu mest á flatlendi innan um rústir á öræfum.
Fokgrös(?), það munu verið hafa skæðagrös sem fuku saman í
dyngjur í ofviðrum og finnast þaua í lautum laus og milli þúfna.
Heiðagrös voru algengust, brún, og uxu helst í mosaþúfum til
fjalla. Kræða, hvít, vex í þúfum í deiglendi. Þótti mjög léleg
til matar.
Grasaland.
Grasaland, gott eða illt eftir grösunum sem þar uxu. Fjallagrös
voru talin fullvaxin á þrem árum.
Grasatekja.
Fjallagrös voru sótt til afrétta og hverjum heimil sem þar átti
upprekstur og það án leyfis eða endurgjalds.
Notagildi.
Góð fjallagrös voru talin að verðmæti þrjár þungaeiningar móti
einni af bankabyggi.

p2
Fararbúnaður.
Ef verið var nótt í burtu var haft tjald og nesti. Grasapokar
voru ofnir úr hrosshári og nefndir hærupokar og tóku um 50 kg af
korni eða einn bagga á hest. Hærusekkir voru miklu stærri og
hafðir undir grös og ull í flutningum. Í þeim voru grösin geymd
og flutt. Þau voru líka geymd í byrðum, mjög stórum trékössum
með sérstöku lagi.
Grasaferð.
Farið var til grasa milli sláttar og fráfærna. Oftast fóru
margir því best þotti að ferðin tæki sem skemmstan tíma. Þeir
sem fóru nefndust grasafólk og einn settur yfir til að stjórna.
Væri húsbúndinn með, var hann sjálfkjörinn. Sjaldan var
sameinast af mörgum bæjum um ferðina, því hvergi voru þau uppgrip
af grösum að til margskipta væri. Oft réði úrslitum um árangur
ferðar hvernig veðrið var. Í þurrki urðu grösin hörð og ill til
tínslu. Best var þoka og deigja eða mikið áfall. Grasaferð tók
oft nokkra daga.
Grasajárn. (Teikning af káljárni)
Þegar grösin voru skorin, sem naumast var gert nema þau væru höfð
í grauta, var fyrst tínt úr þeim ruslið og látin í stórt trog sem
var breiðara en lengd járnsins, sem skorið var með. Í botn þess
var látin fjöl sem fyllti út í trogið. Á henni voru grösin
skorin svo trogið skærist ekki.

p3
Fjallagrös til matar.
Ég hef aðeins einu sinni smakkað fjallagrös í rúgbrauði og
blóðmör. Hvort tveggja fannst mér gott. Fann ekki fyrir þeim í
matnum, en þau sáust sem dökkar lundir(?). Grasamjólk þótti römm
og ill, en átti að lækna niðurgang. Grasagrautur þótti léleg
fæða og vond. Grasahlaup eða grasalím heyrði ég aldrei nefnt
sunnanlands. Mun það vera norðlensk matseld og sama er að segja
um grasateið.
Fjallagrös í máli og sögum.
Á Suðurlandi er mjög langt til grasa. Finnst varla nokkuð að
ráði fyrr en norðan undir Hofsjökli. Tekur sú ferð naumast minna
en tvo daga hvora leið. Af þeim sökum hafa grasaferðir lagst
fyrr niður á Suðurlandi en í öðrum héruðum sem skemmra var til að
sækja. Ótal þjóðsögur eru til um grasaferðir á Suðurlandi, en
málshætti man ég enga þar um. Vísubrot eitt heyrði ég ungur.
Ætla ég það sé úr kvæði um matarvist Sunnlendinga um sláttinn í
Norðurlandi. Það sem ég man er svona:
Þar var rammur grasagrautur
gefinn sunnan-mönnum,
í heyskapar-önnum.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana