Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1930

Nánari upplýsingar

Númer2862/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2840

p1
Fjallagrös var það heiti sem notað var yfir þau sem sóst var
eftir að taka til manneldis. Var mest sótt eftir að þau væru sem
allra stærst, breið og efnismikil og þá nefnd skæðagrös. Þau
náðust hreinni og því minna verk að hreinsa þau sem þau voru
stærri. Svo man ég eftir nöfnum eins og kræða, tröllagrös,
geitnaskóf, en ég vissi ekki til að þau væru hirt. Svo
litunarmosi á steinum tekinn til að lita fatnað. Um vaxtarstaði
fjallagrasa vil ég helst segja að þeir voru víðast hvar þar sem
lítið gras óx, en nokkur mosi í rótinni. Þau fundust í
túnjaðrinum í Skógum á strjálingi, en "til grasa" var farið á
fjall. Á Helludal, Skógamegin við Helluá og svo áfram inn undir
Vatnamúla eða þá í Hrúthamarslægðir meðfram Flekkudalsbrún að
sunnanverðu. Frá Flekkudalsbæjum var farið í lægðir norðanverðu
við dalinn. Ég heyrði talað um að líða þyrftu 4 ár á milli þess
sem grös væru tekin á sama stað. En ekki þekki ég örnefni tengd
fjallagrösum. Grasatekju sem hlunnindi jarða heyrði ég ekki um.
Ég er búinn að gleyma hvert notagildi grasa var talið miðað við
kornvöru og ekki kunnugt um verð þeirra í verðlagsskrá, þó verið
hafi einhversstaðar. Tel að fjallagrös hafi aðeins verið notuð
til heimilis, ekki gefin eða seld.

p2
Vöruskipti á fjallagrösum og kofu fóru fram í árafjölda milli
Orrahóls og Purkeyjar í tíð Matthíasar og Pálínu á Orrahóli. En
ekki fékk ég að vita hvernig skiptunum var varið. Ég þekkti ekki
að farið væri "til grasa" nema einn dag eða dægur, því stundum
var farið að kveldi og komið heim að morgni. Sérstaklega ef
sólfar var að deginum og náttfall eða þoka að nóttu. Gott eða
hagkvæmt grasaveður var þegar vel var vott á og jafnvel nokkur
úði. Grösin sáust þá betur og voru lausari og hreinni. En þá um
leið þyngri og komst meira í pokana. En heim var haldið þegar
allir voru búnir að fylla einn poka. Hjá sumum voru þeir þá
orðnir tveir. Fullorðnir voru miklu naskari að finna grösin án
þess að færa sig mikið úr stað og fengu því meira á sama tíma.
Fyrir slátt var venjulega farið til grasa, undantekning ef síðar
var farið, og þá ætíð í óþurrkatíð eða langvarandi rigningum.
Grasaferð var hátíð fyrir börn, enda munu þau víðast hvar hafa
fengið að fara ef þau toldu á hesti á ósléttu landi, ef hægt var
farið. Nægur matur var ætíð hafður með í ferð. Og jafnvel áhöld
til að hita kaffi, því enginn var þá hitabrúsi. Auðvitað fengu
börn ekki að fara í fyrsta sinn nema veður væri sæmilega hlýtt.

p3
Auðvitað stóð grasafólkið hálfbogið við verkið en skreið ekki á
blautri jörðinni. Það hélt á pokanum í vinstri hendi, braut upp
á opið og hélt þar um þar til komið var hátt í pokann. Hann var
borinn á öxl en ekki dreginn ef grasamaður þurfti að færa sig
nokkuð að ráði. Þegar pokinn var orðinn þungur fleygðu sumir
grösum í hrúgur og létu svo í pokann. Þeir sem langt áttu í
grasaland höfðu reiðinsgshest, og voru þá pokarnir bundnir í
klyfjar eins og heysátur. Annars voru 2 og 2 bundnir saman á
opunum og hengdir á hestana fyrir aftan fólkið (stundum börnin).
Venjulega vildu börnin hafa sinn afla alveg sér, sérstaklega ef
mamman var ekki með í ferðinni. Hún átti að fá að sjá hvað hvert
eitt barn var duglegt og hafði góð grös í pokanum. Líka þekktist
að pokaopið væri vafið niður og mosi settur í brotið og snæri
bundið þar um. Hékk svo pokinn á vinstri öxl í snærinu og
grösunum stungið í opið. Var svo steypt úr pokanum í hrúgu þegar
hæfilegt þótti að tæma. Komið gat fyrir að einstaka heimili færi
gangandi. Voru þá grasapokarnir bornir heim, bundir tveir saman
á opunum og bornir yfir öxl, bak og fyrir. Þegar bundið var í
klyfjar var auðvitað bundið fyrir opin og pokunum hlaðið
liggjandi á reipið.

p4
Þegar fjallagrösin voru komin heim fengu þau mismunandi meðferð.
Sumir breiddu úr þeim strax á hreinan túnblett eða grasbala og
þurrkuðu eins og hey með því að rifja þau. Síðan sett í poka og
hengd upp í skemmu eða hjall. Þegar svo vont veður gerði um
sláttinn að ekki þótti fært að vinna við heyskap voru allir
settir í að hreinsa þau blað fyrir blað. Syfjaði þá marga. Og
verkið þótti leiðinlegt. Hver maður fékk trog til að hafa ótíndu
grösin í og ruslið átti að verða eftir í. Verkið var kallað að
"tína grös". Aðrir þvoðu grösin úr vatni og þurrkuðu síðan. Var
þá ekki átt meira við hreinsun á þeim. Notkun grasa var mjög
misjöfn á bæjum, en allsstaðar voru þau höfð í blóðmör, jafnvel
nær eingöngu, en alltaf til meiri eða minni spörunar á rúgmjöli.
Einstaka kona hafði þau dálítið í rúgbrauð og lifrapylsu. Í
ofantalið voru þau skorin smátt. Mesta kostinn töldu búkonur við
grös í slátur, var að slátrið var svo feldið að sýran (eða
vatnið) vann ekki á því þó það væri geymt lengi. Jafnvel árum
saman hélt það sér eins og það væri nýtt. Engin syrja í
tunnunum. Svo voru eldaðir "grasagrautar" með rúgmjöli, en ekki
hefur mér tekist að vita meir um það.

p5
Þá var grasamjólk, grasavatn og grasahlaup. Mér hefur verið sagt
að grasamjólkin hafi verið rauðseydd til þess að hún yrði ekki
römm. En þegar ég man í Skógum var mjólkin gerð snarpheit eða
við suðu, og grösin þá látin út í í 3 til 5 mínútur. Potturinn
þá tekinn af og grösin étin heil með mjólkinni og verða ekki römm
eins og við langa suðu.
Grasavatn: Nokkrum grösum fleygt í sjóðandi vatn og síuð
fljótlega frá, ögn af sykri látið í og drukkið ýmist heitt eða
kalt. Talið gott við hæsi o.fl.
Grasahlaup: Steingrímur Samúelsson, ólst upp í Miklagarði í
Saurbæ, sagði mér að fóstra sín hefði búið til grasahlaup. Hann
hélt að í því hefði ekkert mjöl verið. Það var látið kólna í
byttu eða trogi. Það var mjög rammt, minnsta kosti fyrsta
skánin. Grautur og hlaup varð stinnt og fellt við kólnun og til
matar hrært saman við skyr til kvöldverðar að vetrinum.
Grasajárn var bogmyndað járn, ca. 24 sm á lengd, beygt í vinkil.
Báðir endar með tréhandföngum. Einjárningur sleginn fram í
eggjárn. Grösin skorin í stóru trogi. Að grös hafi verið möluð
í kornmyllu hef ég ekki heyrt. Brauð, þ.e. rúgbrauð þóttu
sérstaklega góð og eins grasamjólkin.

p6
Örnefni tengd nafni fjallagrasa þekki ég aðeins eitt, Grasalág,
fyrir ofan fjallsbrún upp undan bænum á Hallsstöðum. Er það
nokkuð stór lægð eða dalverpi í fjallið. Mér hefur ekki tekist
að hafa upp á neinum kveðskap sem tengdur væri fjallagrösum. Til
þess að eyða meiru af blaðinu fór ég að leita í eigin samsetningi
og fann þetta: Tilefnið: Fjallagrös á bögglauppboði hjá
Kvenfélaginu 10/10 1957.
Mosa og skófir maður minn
máttu éta í næði.
Bjóddu vel í böggulinn
bragðgott er þar fæði.

En svo reyndist sá sem bögg8ulinn fékk nokkuð "hátt uppi" svo ég
bætti við:
Ef blekaður böggulinn færðu
blekaður farðu í hann.
Blekaða brjóstvitið lærðu .
Blekaður heilmikið kann!

Og enn:
Vanti þig meira vit,
verður lífið þér strit.
Vitið frá öðrum vel lærðu
vandaðan böggul hér færðu.

Ég var að éta grasamjólk:
Margan háttin hafa menn
hérna við að éta.
Fjallagrösinn tína enn
með títuprjón sem geta.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana