Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1903

Nánari upplýsingar

Númer2631/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2631

p1
Sennilega hef ég ekkert það að segja um fjallagrös sem ekki
er alkunnugt. Ég hef aldrei farið á grasafjall, aðeins tínt
fjallagrös á hlaupum. Þekki því engar venjur frá slíkum ferðum.
En ég get reynt að segja svolítið frá notkun fjallagrasa á
æskuheimili mínu.
Tegundir fjallagrasa.
Ég þekki aðeins tvær tegundir fjallagrasa. Hin venjulegu
fjallagrös sem notuð voru á heimilum og kræðu. Best er að gera
kræðunni fyrst skil. Kræðan er minni en fjallagrös, dökkleitari
og óx á Bungunni á fjallinu utan og ofan við Dísastaði. Mig
minnir að kræðan væri stundum eitthvað notuð í brauð og slátur,
en aldrei te.
Fjallagrös til matar.
Fjallagrös voru alltaf til á æskuheimili mínu. Þeirri venju hef
ég haldið. Mest voru þau notuð í te, og var teið þá oft soðið
lengi svo að remman færi úr því. Misjafnt var hvernig fólki féll
grasate. Stundum voru grös notuð í grasamjólk. Enn höfum við
stundum grasamjólk á heimili mínu í stað súpu og þykir hún
hnossgæti. Stundum hafði móðir mín fjallagrös í brauð og slátur.

p2
Var það gert til að spara mjöl. En einnig til að gera brauð og
slátur ljúffengara. Mig minnir brauðið verða við það aðeins
blautara.
Grasaland.
Lítið get ég sagt um grasaland, nema sem allir vita. Strjálingur
af fjallagrösum var á fjallinu fyrir ofan Dísastaði á Brúnunum og
Bungunni. En oft fengum við fjallagrös að þar sem nóg var af
þeim. Tíndi ég stundum dálítið af grösum við smalamennsku í
fjallinu heima. Hér fyrir norðan í nágrenni Akureyrar hef ég
tínt grös í Víðikeri í Bárárdal, á Vaðlaheiði, Súlumýrum og í
Hlíðarfjalli. Mikið af grösum er þó hvergi á þessum slóðum nema
í Víðikeri.
Fjallagrös til lækninga.
Foreldrar mínir höfðu mikla trú á fjallagrösum til lækninga.
Einkum var sterkt grasate talið gott við kvefi. Móðir mín taldi
að hún hefði læknað föður minn af lungnabólgu í Hamarsseli með
sterku fjallagrasaseyði sem hún sauð dag og nótt. Einhvern hef
ég heyrt segja að í fjallagrösum sé efni sem drepur bakteríur.
Sel það ekki dýrar en ég keypti. Hér á heimilinu eru alltaf til
fjallagrös og oft hitað grasate þegar einhver fær kvef. Við
hjónin trúum einnig á lækningamátt grasanna af reynslu. Til
gamans skal ég geta þess að hér bjó eitt sinn hjá okkur Svíi sem
fékk slæmt kvef. Kona mín bauð honum grasate og þáði hann það.
Honum fannst teið losa frá brjóstinu og bæta sér.

p3
Grasafjall.
Um þetta efni hef ég ekki annað að segja en það að ég hef alltaf
heyrt talað um að besta grasaveður sé þegar jörðin er blaut, t.d.
eftir rigningu. Ég hygg að þetta sé vafalaust rétt. Þó að þetta
sé fátæklegt hef ég víst engu við það að bæta.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana