Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1900

Nánari upplýsingar

Númer2660/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2660

p1
Notkun fjallagrasa mun jafnan hafa verið frekar lítil á
Vestfjörðum og Vesturlandi. Bar þar einkum tvennt til, fjöldi
bæja átti engin grasalönd og áttu við aðra að eiga um töku
fjallagrasa. Á sumum bæjum var gott grasaland, t.d. á Dynjanda,
Þar var ég uppalinn, enda mun þar hafa haldist einna lengst við
tínsla fjallagrasa og voru þau mikið notuð er ég man eftir, bæði
í slátur og brauð. Einnig drukkið grasate og grasamjólk, þ.e.
seydd fjallagrös í mjólk með litlu mjöli er þótti mjög góður
matur. Aðeins var notuð ein tegund fjallagrasa er ég þekkti til,
þ.e. hin stærstu þeirra, en engin heiðagrös svo sem tröllagrös og
smágerð tegund, kölluð kræða. Þó mun hún, kræðan, sums staðar
hafa verið notuð hjá þeim er ekkert grasaland áttu. Á heimili
mínu Dynjanda, var mikið og gott grasaland, mjög stór og falleg
grös. Algeng stærð þeirra 8-10 cm, sum voru dökkgræn og þóttu
gæðagrös, önnur tegund svipað stór, gulleit, en mest var sóst
eftir þeim dökkgrænu, enda gæði þeirra talin mest. Þau voru
einkum notuð í brauð og þóttu slík brauð (pottbrauð) hið mesta
hnossgæti með nýju smjöri. Þau uxu einkum á ákveðnum stað og var
sá staður kallaður fjallagrasablettir, en oft var talsvert liðið
á sumar er snjóa leysti á þeim stað.

p2
Gamalt fólk hélt því fram að fjallagrös þyrftu um 20 ár til að
vaxa þar sem þau voru stærst og best. Oftast mun það hafa verið
talið til hlunninda að búa á jörð þar sem góð fjallagrasatekja
var og var þá venjulega talað um að góð grasatækja væri í landi
jarðarinnar og þær jarðir hafa verið meira eftirsóttar en aðrar,
því góð fjallagrasatekja var talin til mikilla búdrýginda. Oft
mun öðrum hafa verið veitt leyfi til grasatekju er ekkert
grasaland áttu, en oftast vísað á staði er heimilisfólki þóttu
ekki eftirsóttarverðir, þar sem grösin voru smærri og
seintíndari, enda oftast styttra að fara. Ekki mun hafa verið
greitt fyrir slíkt leyfi, en jafnan talið greiðavert í einhverri
mynd. Einatt mun hafa verið notað orðið grasatunna, þ.e. tunna
af grösum hreinsuðum og var hún talin jafngilda haustlambi til
búdrýginda. Allmikið mun hafa verið um að grös væru gefin þeim
er ekkert grasaland áttu eða einhverra hluta vegna gátu ekki náð
sér í þau. Alltaf var talað um að fara til grasa og þá jafnan
miðað við eins dags ferð, enda mun ekki annað hafa þekkst á
Vestfjörðum og Breiðafirði. Almennt grasaveður var til í daglegu
máli. Gott grasaveður var kallað rigningasúld og logn eða
þokusúld og

p3
saggafullt loft með logni, jafnvel var talað um grasarekju. Var
þá jafnan sagt: "Nú er gott grasaveður" eða "nú væri gott að
fara til grasa". Útbúnaður í grasaferð, eins dags ferðir var
jafnan þannig að hafðir voru 6-10 tunnupokar sem ætlaðir voru til
heimflutninga grasa. Tínupokar voru léttir léreftspokar, oftast
pokar undan haframjöli eða bankabyggi. Oftast var farið til
grasa fyrir slátt ef hagstætt veður leyfði, en oft var líka farið
til grasa þótt liðið væri á slátt ef óþurrkar voru. Oftast munu
hafa farið 3-4 fullorðnir og svo stálpaðir krakkar 12-15 ára.
Þótti flestum gaman að færa á grasafjall, einkum þeim er fóru í
fyrsta sinn. Sjaldan mun hafa verið nema um heimilisfólk að
ræða. Oftast voru hestar 2-3 með í grasaferð til að reiða grösin
heim, en fara varð oftast lengri leið með hestana og þeir þá
gjarnan skildir eftir ef ekki reyndist unnt að koma þeim á þær
slóðir er grasatínslan fór fram. Var oftast farið á þær slóðir
er talið var að væri mest grasavon. Komið gat fyrir að besta
grasalandið væri ekki komið undan snjó fyrr en síðsumars.
Húsbóndinn eða annar er hann skipaði var formaður ferðarinnar og
ákvað staðinn til grasatínslu. Oftast var farið um kl. 6 að
morgni og frá heimili okkar tók 3 tíma að komast á

p4
þær slóðir er best var talin grasavon. Grasafólkið dreifði sér
síðan um grasalandið. Súld, þoka og logn var ákjósanlegt
grasaveður. Tínupokinn var oftast laus og honum haldið í hendi
sinni eða dreginn. Væri gott grasaland tíndu konur oft í svuntu
sína og losuðu svo í pokann er jafnan var skammt frá og ef mikil
grös voru, tíndar þar í hrúgu þegar tínupoki var fullur. Oft var
tínt hálfbogið, en í góðum grasalautum mátti oft sitja og tína í
kringum sig, jafnvel í hálftunnu poka. Fluttu unglingar oft til
aðalstaðarins þar sem matur var geymdur. Þótti þeim það góð
tilbreyting er þeir fóru að letjast við tínsluna. Ágætt þótti af
fullorðnum að tína tunnupoka troðinn og þótti gott dagsverk, þótt
að sjálfsögðu færi það eftir grasamagninu. Fyrir kom að lautir
fundust með svo miklu grasamagni að sópa mátti þeim saman í hálfa
tunnu eða jafnvel í tunnupoka. Erfiðara var að tína grös þar
sem mikið gras var, en eins og fyrr segir voru í sumum lautum
aðeins grösin og mold undir. Þegar hætt var að tína var grösum
troðið í tunnupoka og oft saumað fyrir, aðeins lítil horn sitt
hvoru megin á pokum og afgangur ef einhver var látinn í tínupoka,
einn eða fleiri. Oftast var reynt að koma hestum að áfangastað
og pokarnir síðan bundnir í klyfjar, en magn grasanna var

p5
miðað við tunnupoka er fast var látið í. Heimferðin gekk oft
hægt, einkum fyrst þar sem fara þurfti um vegleysur, en bót í
máli að jafnan hallaði undan fæti. Stór og góð grös tínd í góðu
grasalandi var mjög gott að hreinsa. Þau voru þurrkuð á slettum
grasvelli í sól og hægviðri og oft farið til með hrífu og voru
fljót að þorna. Er þau þóttu fullþurr voru þau látin í poka og
síðan voru pokarnir hengdir upp t.d. á skemmulofti. Smærri grös
voru jafnan hreinsuð og höfð sér, enda notuð meira í te eða
grasagraut og þá jafnan hreinsuð um leið og var það kallað að
hreinsa grös. Áhöld þau er notuð voru til að saxa grös voru
kölluð grasajárn. (Sumir notuðu tóbaksskurðjárn, enda mjög
svipuð að gerð). Til voru þó grasajárn, voru þau að litlu
frabrugðin tóbaksjárnum að öðru leyti en því að vera lengri og
mjórra blaðið og líktist meir hóf??? Skurðarborð grasa mun
oftast hafa verið 70 cm á lengd og ca. 10 cm á breidd. Oftast úr
valborðum. Var höggin í þau laut að endilöngu og grösin söxuð
þar í. Ekki vissi ég eða heyrði um að þau hefðu verið möluð í
kornmyllu. Grös voru stundum notuð í grauta ósöxuð og einnig í
te, en þau voru söxuð í salla í blóð og brauð. Stundum voru grös
söxuð í graut en þá jafnan

p6
stórsöxuð sem kallað var. Ekki munu þau hafa verið soðin nema í
3-5 mínútur. Venjulega í mjólk, stundum mun hafa verið notað
mjöl, en mjög lítið, enda minnist ég ekki að grasagrautur væri
búinn til nema úr mjólk eða undanrennu. Grauturinn var að
jafnaði allþykkur og flestum góður og saðsamur. Aldrei minnist
ég þess að á heimili foreldra minna væri neitt látið saman við
hann, enda eins og áður segir aldrei eldaður nema úr mejólk eða
mjólkurblandi. Oftast var grasagrautur hafður að vetri til og
stundum borðað með honum slátur og þótti góður matur. Fjallagrös
í slátur voru fínsöxuð og höfð að hálfu móti mjöli og þótti sá
blóðmör mjög góður og geymast vel. Í brauð (pottbrauð) voru
fjallagrösin fínsöxuð og þóttu spara 1/3 til helming mjöls.
Þóttu slík brauð með afbrigðum góð, mjúk og skorpulaus. Ekki man
ég til að grös væru hleypt eða notuð þannig til matar og mun það
lítt hafa tíðkast. Grasamjólk var ekki mikið notuð en aftur á
móti var grasate talsvert notað í stað kaffis eða drykkjar. Voru
höfð í það ósöxuð grös og soðið í 2-3 mínútur. Síðan var það
síað og notuðu þeir mjólk út í sem vildu og sykur með. Var það
allmikið notað í stað kaffis. Í nútíma matseld mun vera ?? um
notkun fjallagrasa

p7
nema þá helst til tedrykkju, því enn hafa margir þá trú að
fjallagrös séu góð við hæsi, kvefi og brjóstþyngslum, en til
venjulegrar matargerðar eins og áður var mun notkun þeirra að
mestu horfin. Til lækninga munu fjallagrös aðallega hafa verið
notuð við kvefi, hæsi, brjóstþyngslum og muði. Voru grösin soðin
ósöxuð og haft svo mikið magn þeirra að seyðið var mjög rammt á
bragðið. Var það síðan látið á flösku og tekið inn svo sem 3-4
sinnum á dag eða oftar og þótti oft koma að góðu gagni. Stundum
mun vallhumall hafa verið soðinn saman við. Notkun fjallagrasa
til lækninga var til í gömlum lækningabókum og munu þeir er
grasalækningar stunda nota talsvert af fjallagrösum, en oftast
mun þetta þó hafa verið bundið við ákveðna menn eða heimili er
aflað höfðu sér meiri þekkingar en almenningur. Þrátt fyrir það
að margir, sérstaklega unglingar væru mjög spenntir að fá að fara
á grasafjall eða til grasa mun það þó hafa verið sameiginlegt að
þeir væru orðnir bæði þreyttir og sérstaklega svangir er þeir
komu heim og að því lýtur málshátturinn: "Svangur af sjó,
soltinn af berjamó, en gráðugur af grasafjalli." Foreldrar mínir
notuðu jafnan mikið af fjallagrösum í slátur og brauð o.fl.
Síðast mun þar hafa verið

p8
farið til grasa árið 1923 og hygg ég að það muni vera með því
síðasta er þar um slóðir var farið á grasafjall, eða ef til vill
síðasta grasaferð á þeim slóðum, en þau hættu búskap 1939. Á
Dynjanda var mjög gott grasaland, einkum fyrir kunnuga, enda oft
látið allmikið af þeim til annarra er ekkert grasaland áttu, en á
þeim slóðum voru aðeins 3-4 bæir er áttu gott grasaland.

p9
Rissmynd af grasajárni, smíðuðu úr sagarblaði. Eins og áður
getur voru oft notuð tóbaksskurðarjárn, en þau voru mun minni.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana