25 Fjallagrös
Nr. 2580
p1
Tegundir fjallagrasa.
Í daglegu tali var
ekki gerður greinarmunur á grasategundum þegar
talað var um fjallagrös.
En séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili,
segir þetta um fjallagrös
í bók sinni Íslenskir þjóðhættir, og
vitnar þar í E.Ól.
(Eggert Ólafsson), með eftirfarandi orðum:
"Grösin eru
misjöfn að gæðum. Best eru skæðagrös, næst þeim
brekkugrös eða maríugrös
og klóungur, kræða þótti kostaminnst, en
þó velhafandi í grauta,
hún var helst notuð á Norðurlandi;
hundaló þótti til
einskis nýt." Af þessum fjallagrasanöfnum
þekkti ég með vissu
aðeins nafnið kræða. Það voru mjög smá grös,
bæði lág og blaðmjó,
en svo var oft talað um "góð grös" og þykir
mér sennilegt að
það hafi verið þau grös sem hér á undan eru
nefnd "skæðagrös".
Þau voru stór og sérstaklega blaðbreið.
Grasaland.
Eins og nafnið bendir
til vaxa fjallagrösin í fjalllendi eða á
fjöllum allhátt yfir
sjávarmáli. Þar sem mikið var
p2
um fjallagrös var
svæðið kallað grasaland eða gott grasaland.
Ekki heyrði ég talað
um örnefni á Svalbarðsströnd sem kennd væru
við fjallagrös og
safnaði ég þó, ásamt 2 öðrum mönnum, örnefnum í
sveitinni á árunum
1947-1950. Þó voru 2 örnefni er óbeint gátu
bent til grasatekju
en það eru örnefnin Tjaldstæði. Á öðrum
staðnum, og jafnvel
á báðum stöðunum, tel ég útilokað að tjaldað
hafi verið vegna
heyskapar eða annars en grasatekju. Í
jarðabókinni frá
1712 er grasatekja talin meðal hlunninda á
jörðum. Á flestum
jörðum á Svalbarðsströnd er þá talin
grasatekja, en allsstaðar
nema á 2 jörðum segir: "Grasatekja
lítil", og "mjög
lítil" á áðurnefndum 2 jörðum. Í afriti af
jarðamatinu 1849,
sem ég hefi undir höndum sé ég hvergi getið
grasatekju á jörðum
á Svalbarðsströnd. Ekki þótti ráðlegt að
taka fjallagrös ár
eftir ár á sama stað.
Grasatekja.
Það var talið til
hlunninda jarðar ef þar var grasatekja, sbr.
það sem segir hér
á undan. Ekki veit ég dæmi þess að grasaferðir
væru farnar á afréttir
utan Svalbarðsstrandar, þó má vera að svo
hafi verið gert einhverntíma,
þó ég hafi ekki fundið heimildir um
það. Um gjald
fyrir grasatekju í landi jarða innan sveitar
heyrði ég aldrei
talað.
p3
Notagildi.
Fjallagrös voru metin
til notagildis á móti kornmat. Þetta mat
var þannig, samkvæmt
frásögn séra Jónasar Jónassonar: - "því að
menn álitu að tvær
tunnur grasa væru á við mjöltunnuna til
matarnota."
Einnig segir séra Jónas í bók sinni Íslenskir
þjóðhættir, bls.
64: "Nyrðra var kapallinn (4 tn) vanalega
seldur 20 áln."
Grasafjall, að fara
til grasa.
Það var bæði talað
um að fara til grasa, og að fara á grasafjall.
Í mínum huga er á
þessu ofurlítill merkingarmunur. Að fara til
grasa virtist mér
frekar vera notað um eins dags grasaferð, en
hitt orðalagið, að
fara á grasafjall hafi merkt útilegu við
grasatínslu, eða
með öðrum orðum, þegar legið var við í tjaldi í
nokkurra sólarhringa
útivist. Orðið grasaveður var algengt enda
mikið notað. Það
var gerður skýr munur á því hvort það var gott
grasaveður eða ekki
gott. Það var kallað gott grasaveður þegar
grösin voru rök eftir
rigningu eða náttfall, og reyndar þótti
allra best grasaveður
þegar dögg var á jörð, því þá var líka
stillt veður. Bleyta
var góð vegna þess að þá breiddu grösin út
blöðin og sáust því
mikið betur en ef þau voru þurr, og þá voru
þau líka mjúk viðkomu,
en í þurrki voru þau hörð og særðu fljótt
fingur grasafólksins.
p4
Stórrigning var að
sjálfsögðu slæmt grasaveður og varð þá að gera
annaðhvort að hafast
við inni í tjaldi eða að vera gegndrepa við
grasatínsluna, því
ekki var þá um vatnsheldan fatnað að ræða.
Sterkt sólskin eða
stormur var líka talið slæmt grasaveður, þó
það væri "gott
veður" í venjulegum skilningi, því eins og áður
segir voru grösin
þá hörð, auk þess sem þau sáust fremur illa.
Fararbúnaður.
Ég mun ekki gera
tilraun til að lýsa farar- eða viðlegubúnaði
fólks sem fór á grasafjall
(eða í grasaheiði, eins og það var
stundum kallað),
því til þess skortir mig þekkingu eða frásagnir
umfram það er lesa
má í bókum. Það litla sem ég man eftir
grasaferðum er að
á árabilinu 1908-1914, fór amma mín, þá rúmlega
sjötug, flest árin
í eins dags grasaferðir upp á Vaðlaheiðina.
Hún tíndi grösin
í strigapoka eins og þeir voru þá undan 50 kg af
rúgmjöli. Þessar
ferðir voru farnar að degi til og í þurru
veðri, svo eftirtekja
var ekki sérlega mikil, eða ekki fullur
pokinn.
Grasaferð.
Venjulegasti tími
til grasaferða var á milli voranna og
túnasláttar, eða
rétt fyrir túnaslátt. Þó kom fyrir að eins dags
ferðir voru farnar
á öðrum tímum. Eins og áður segir man ég ekki
eftir útileguferðum
á grasafjall, en Sigríður Ísleifsdóttir, amma
mín,
p5
sagði okkur systkinunum
frá ferðum er hún fór á grasafjall í
austurhluta Suður-Þingeyjarsýslu,
en um árabil átti hún þá heima
í Reykjadal, S-Þing.
Ég var svo ungur þegar hún sagði okkur
þessar sögur að þær
festust mér lítt í minni, en þó virtist mér
einhver ævintýrablær
vera yfir þeim. Þarna var líka í hóp ungt
fólk frá fleiri eða
færri bæjum. Það fólk sem fór í þessar
ferðir var einu nafni
nefnt grasafólk. Svo sem áður segir voru
grösin aðallega tínd
á nóttunni, en þá var í góðu veðri dásamleg
fegurð á þingeysku
heiðunum.
Að tína grös.
Fólk mun yfirleitt
hafa verið hálfbogið við grasatínsluna. Í
þurru veðri, á daginn,
var þó hægt að krjúpa við að tína án þess
það drægi úr afköstum,
einkum þar sem gott grasaland var.
Þurrkun, geymsla,
hreinsun.
Grösin voru breidd
til þerris úti þegar þurrkur var, þá munu þau
hafa verið hreinsuð
að nokkru leyti. Fullhreinsuð voru þau svo
þegar átti að fara
að nota þau. Grösin voru geymd í pokum á
þurrum og góðum stað,
t.d. á skemmulofti.
Grasajárn, grasabretti.
Grösin voru söxuð
með áhaldi sem nefnt var grasajárn. Sums
staðar á sérstöku
bretti, annarsstaðar á eldhúsbekk eða öðru tré.
p6
Fleiri en ein gerð
var til af grasajárnum, en ekki þekkti ég þær
svo vel að ég treysti
mér til að lýsa þeim. Ósöxuð voru
fjallagrös notuð
í grasamjólk, einnig sums staðar í grauta og
slátur. Ekki
vissi ég til að fjallagrös væru möluð í kornmyllu.
Fjallagrös til matar.
Ekki veit ég hvaða
mjöl var algengast að nota með fjallagrösum í
grasagraut. En
oft heyrði ég eldra fólk tala um hvað grasagautur
hefði verið góður
og saðsamur matur. Í slátur voru grösin oftar
en hitt söxuð ofg
líklega einnig í brauð (pottbrauð). Grasamjólk
var algeng fram yfir
1910. Grösin soðin lengi í mjólkinni.
Þótti mjög góður
matur. Grasavatn eða grasate, eins og það var
oftast kallað, var
líka mikið notað víða, bæði í kaffisstað og
svo til lækninga.
Fjallagrös til lækninga.
Grasate þótti mjög
gott við kvefi, hæsi og hálsbólgu. Þá var það
haft sterkt. Grösin
voru soðin í vatninu nokkra stund, síðan
voru þau síuð frá.
Sumir létu kandíssykur út í, en stundum var
kandísmoli borinn
með teinu. Ekki þekkti ég að fjallagrös væru
notuð til lækninga
á skepnum.
p7
Nú munu fjallagrös
ekkert, eða sama og ekkert, vera notuð á
Svalbarðsströnd.
En spurningunni um hvort fjallagrös séu enn í
dag notuð til lækninga
einhversstaðar þar sem ég þekki til, vil
ég svara játandi.
Á Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í
Hveragerði, þar sem
ég hefi nokkrum sinnum dvalið til lækninga,
eru fjallagrös töluvert
notuð til matargerðar. Venjulega er
grasamjólk a.m.k.
einu sinni í viku fyrir alla dvalargesti (þ.e.
sjúklinga), og þar
að auki sérstaklega samkvæmt tilvísun frá
lækni hælisins, handa
sjúklingum með magasár eða aðra
meltingarfærasjúkdóma.
Sá skammtur er gefinn að kvöldi. Og ég
má fullyrða að slíkt
hefur gefið góða raun. Til viðbótar get ég
sagt að á heimili
mínu hér á Selfossi, notum við hjónin
fjallagrösin í sama
skyni. Því segi ég að endingu: Það er
sannfæring mín að
fjallagrösin séu holl og góð fæða og hafi
lækningamátt.