Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1904

Nánari upplýsingar

Númer2821/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2821

p1
Ætíð var notað heitið fjallagrös eða grös, en til var og
kræða, er þótti lítt fýsileg til nota. Helst var tekið þar sem
mestur var vöxturinn, best þóttu þó skæðagrös, en svo var kallað
er voru blaðbreið og greinamikil. Best voru vaxtarskilyrði fyrir
þau í rökum móadokkum með fjalldrapakögri í kring á þúfunum.

p2
Grasaland.
Helst var grasavon í mólendi þar sem ekki var mjög þurrt, einnig
mun sandur í jörð ekki vera vel fallinn til grasasprettu. Þannig
var það hér að grös voru mjög víða í móum, en ekki mikið í hvorum
stað. Þar sem grös voru tekin, varð að líða fleiri ár þar til
vaxið var aftur upp í kröfstrunum.
Grasatekja.
Til var að grös voru sótt til afréttar, en þar voru smá svæði er
þau uxu á. Var það á grastorfum. Vissi ég um ferðir er farnar
voru í þeim tilgangi,

p3
og farið þá að framtaki bænda sjálfra. Höfðu hrífu með í
farangri, er hægt var að nota, því ekki var mjög óslétt var þvi
fljótt að koma í pokann. En heima í heiðarlendi var farið eftir
leiðum kunningsskaparins og fengið leyfi jarðareiganda af þeim er
ekki áttu kost á grasatekju heima.
Notagildi.
Ekki var rætt mikið um notagildi, því allir vissu að "góð eru
grösin". Ef búið var vel í grasapoka kom fyrir að hægt var að
miðla þeim er lakar bjuggu, og kunnu að notfæra sér.

p4
Grasafjall.
Ekki hef ég um fjallaferðir að segja, en ef veður var hlýtt,
dumbungsloft, helst ef rignt hefði áður, var brugðið við og farið
í heiði til grasa. Farið gangandi, en hestur var með til að
flytja á fenginn. Ekki var um sérstakan útbúnað að tala.
Venjulegir strigapokar teknir, snúið við og hristir rösklega.
Gjarnan minni pokar til að tína í, en þeir stærri til
birgðasöfnunar. Þá voru tekin fram "grasabönd". Það voru
ullarfléttingar, breiðir, þar til gerðir að bregða yfir öxlina.
Var þá brotið ofan á pokann, grasabandinu bundið um á tveimur
stöðum svo úr varð hliðartaska.

p5
Grasaferð.
Frekar var farið til grasa fyrir slátt, þó gamla málið væri að
betri væri ein hausttína, en tvær að vorinu. En að öllum líkum
var hlýrra að vori og þá birtan öruggari.
Að tína grös.
Þegar komið var á svæðið er grasa var von, voru teknir fram
pokar, gengið frá grasaböndum, því það þótti hin mesta ósvinna að
draga pokann um holt og móa.

p6
Síðan dreifði fólkið sér um móana, tíndi hálfbogið, drepið niður
hné. Ekki var svo mjög hirt um að tína hreint, smárusl vildi
koma með. Þá hliðarpokinn var fullur var losað í einn stað af
öllum, í bing eða poka. Þegar þannig var unnið um tíma var komin
þörf fyrir hressingu er var með, tekinn af góðri lyst. Hesturinn
var tjóðraður á hagkvæmum stað þar sem sást til hans frá
tínusvæðinu. Þegar líður á tímann fara gómar að sárna, viljinn
sljóvgast. Komið þó nokkuð magn af grösum, er þá hætt og búist
til heimferðar.

p7
Magn þess er tínt var.
Eitt dæmi þess er tínt var á einni nóttu veit ég um að
tengdamóðir mín fór með systur sinni til grasa í Grímsstaðaheiði
í Mývantssveit. Var það fyrir 60 árum. Þær fóru að kvöldi og
störfuðu um nóttina í góðu veðri, því þá var ekki mývargur.
Þegar heim kom var fengur hennar vigtaður, var það einn fórðungur
af vinsuðum grösum, þótti það mjög gott.

p8
Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Er heim er komið eru grösin losuð úr pokunum. Voru þau þá oft í
hörðum hnykklum er þurfti að greiða vel í sundur. Var jafnan
verið þá á snögglendi svo ruslið gæti fallið nður. Gat þetta
orðið dágóður flekkur er var velt til að þornaði. Þegar
flekkurinn var orðinn þurr var tekið fram lipurt trog. Lítil
visk af grösum látin þar í og með sérstöku lagi var trogið hreyft
með snöggum viðbrögðum að rusl og smáki hoppaði brátt úr troginu,
en grasahnefinn varð eftir. Þeir sem voru með lagni og vana gátu
gert grösin svo góð að lítið verk var að blaðtína.

p9
Geymslan þurfti að vera þurr, best var að hengja pokana upp á
bita svo ekki kæmist að jarðslagi.
Fjallagrös til matar.
Grasaystingur var almennur spónamatur í minni barnæsku og hef
snætt hann ennþá í vetur nokkrum sinnum. Þá var mjólkin hleypt
með hleypi eða slátursúr. Þegar komnir voru góðir ostar var
settur í grasahnefi, er búið var að blaðtína áður. Þetta var
soðið saman og úr varð kostafæði.

p10
Ekki voru æfinlega grjón notuð heldur þess meira af grösunum. Í
seinna stríði voru grös mikið notuð hér, einkum í flatbrauð. Var
það til mjölsparnaðar og þótti gott. Voru grösin soðin í mauk og
þá bætt í mjölið, síðan hnoðað saman að venjulegum hætti. Um
hlutfall réð vaninn.
Grasamjólk var og á borðum, var á soðið saman grös og mjólk, var
misjafnt að gæðum.
Grasavatn, bæði sem drykkur og sem læknisdómur við kvefi og
sárindum fyrir brjósti. Voru þá grösin soðin í mauk í dálitlu
vatni, það síðan síað frá. Best var að sjóða í kandíssykur. Úr
þessu varð hin besta brjóstsaft.

p11
Grös hafa verið tínd hér í sveit fram á síðust ár og til eru þau
heimili er hafa selt fjallagrös í verslanir fyrir töluverðar
upphæðir. En þau hafa þá verið blaðtínd, því þó vel sé unnið að
vinsun, þá eru alltaf með smákvistir, strá og mosi er tína þarf
úr. En eins og nútíminn er, þá er fjallagrasanotkun mjög á
undanhaldi. Því bæði er fólksfæð og tímaskortur til tínslu, og
yngra fólkið sem ekki er vant þeirri fæðu, kann ekki að meta
ágæti fjallagrasanna.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana