8 Fráfærur I
Nr. 753
|p1
Stekkur var vanalega
10-15 mín. gang frá bænum. Hann var hlaðinn upp úr torfi og grjóti, mest
grjóti. Réttin var ferhyrnd með venjulegri vegghæð, þannig að fé gæti ekki
stokkið út. Lambabyrgið var við annan endann oft bil á milli. Veggir helmingi
hærri og gengu saman að ofan þykkir og ókleyfir fyrir kind.
p2
Bil milli stekkjar
og bæjar var eins og áður segir 15 mín. gangur og meira vegna ógirtra túna.
Stekkurinn var ekki notaður sem rétt. Ekki voru margir bæir um einn stekk.
Ekki var tún ræktað umhverfis stekkinn, umhverfið var oftast grýtt, slétt
flöt. Örnefni algeng, Stekkjarhöfði, Stekkjarmýri, Stekkjarflöt.
Lambakró nefndist lambabyrgi. Sumsstaðar var reft yfir lambakróna og þak
á þeim. Lambakró og rétt nefndist stekkur. Lambakróin ekki notuð sem fjárhús
á vetrum. Veggir voru þykkir drógust saman að ofan dyr mjög þröngar og
lágar með lítilli hurð á hjörum eða í falsi með lokum fyrir. Gatið
á krónni var aðeins dyrnar, sem einhver stóð við og stakk lömbunum inn.
Kvíar: Fastakvíar voru minna notaðar en færikvíar. Þær voru
oft áfastar við fjárhús. Þær voru stundum hluti af fjárrétt heimilisins
t.d. eitt hornið notað og grindur hafðar á tvo vegu. Stærðin fór eftir
fjöld ánna og haft svo þröngt að þær stæðu, sem næst kyrrar. Í rigningu
og kalsa var mjólkað í fjárhúsum. Fyrir vestan var sagt að reka ær á stöðul,
sem þýddi að þær væru komnar í réttina.
p3
Fastakvíum var haldið
við á sama stað ár eftir ár. Nema hvað það smábreyttist með tilkomu færikvíanna.
Kvíar voru hafðar í útjaðri túns og þá myndaðist oft sérstök gata þangað.
Stundum voru kvíarnar hafðar við túngarð, væri hann hlaðinn og þá oft við
hlið á heimreið. Eins voru mótaðir klettaveggir eða klettaborgir.
Kvíar voru hreinsaðar með vissu millibili, einkum ef vætutíð var
þá vildi myndast for í kvíunum. Taðið var notað til áburðar. Ekki voru
grindagólf í kvíum. Tvennar kvíar voru á tvíbýlisjörðum, en oft hlið við
hlið og ær vaktaðar saman. Oftast voru réttirnar saman. Kvíabólið var ákveðinn
blettur, þar sem ærnar voru vanar að bíða eftir mjöltum. Sjaldan heyrði
ég almennt talað um að fara á bólið. En þessa vísu lærði ég: Kvölda tekur
sest er sól - sveimar þoka um dalinn - Komið er heim á kvíaból - kýrnar
féð og smalinn. Ekki var skógviður notaður í færikvíar. Mest
notaður borðviður úr greni, 6-8 yommu breiður, 3 borð í hverri grind, 2
uppstandarar úr plönkum, og auk þess okar á milli 1-3 eftir lengd. Færikvíar
útrýmdu fastakvíum að mestu. Tún voru ræktuð upp með færikvíum. Þar sem
land var greiðfært eða slétt utan túns, þar voru færikvíar hafðar og væri
nóg landrými þá voru grindurnar oft færðar til án þess að leysa þær sundur.
p4
Grindatað var ekki
notað til eldsneytis. Grindur voru færðar svo oft að það myndaðist ekki
nein skán. Nátthagar: Sérstakar girðingar voru til að bæla
kvífé í á nóttum. Hétu nátthagi. Nátthafar voru misstórir, eftir stærð
býla og ekki á öllum bæjum. Þeir voru hafðir spölkörn frá bæ og valinu
skjólgóður staður með fjölbreyttum gróðri. Best ef klettur gat verið á
eina hlið. Veggir upphlaðnir tvöfaldir úr torfi, stundum úr grjóti líka.
Stekktíð byrjaði um Jónsmessu leytið og stóð yfir 1-2 vikur.
Ef vel voraði, þá var byrjað fyrr að stía til að missa ekki fé á afrétt.
Stekktíð var kölluð stekkjartími, að stía var oft sagt eða stekktíð. Ekki
var fært frá öllum mylkum ám, er til náðist. Það var sjaldan fært frá tvílembum
eða forystuám. Eins þótti slæmt að taka 3. vikna gömul lömb frá mæðrum
og yngri komu ekki til greina. Stekkjarvinna nefndist að stía. Það mátti
ekki reka í rétt fyrr en kl. 10 eða seinna á kvöldin. Þegar stíað var,
voru lömbin strax tekin og látin í lambabyrgi, þegar því var lokið, þá
var ánum hleypt út á haga. Ærnar voru reknar inn til mjalta að morgni um
kl. 6-7. Mjaltað ar í venjulegar fötur, en flutt heim í stærri fötum.
p5
Ærnar voru mjólkaðar
á báðum spenum, en ekki hreyttar vandlega. Stekkjarmjaltir voru nefndar
að mjólka frá. Stekkjarmjólk þótti gefa minna smjör. Til matar var búið
til úr henni ostar og smjör úr þeim rjóma sem ofan á settist. Staðið var
yfir stekkjarfé aðeins meðan ærnar voru að lemba sig. Sauðarefni
voru gelt á stekknum. Tveir unnu að því, annar tók lambið og setti það
niður á rassinn. Hinn gerði 2 hnífsbrögð á punginn með beittum hnífi, hleypti
eistunum út og kippti þeim svo burt. Vanalega var búið að marka öll lömb
áður en stekktíð byrjaði. En þau voru sjaldan mörkuð nýfædd. Bóndinn markaði
lömbin sjálfur, og notaði vasahníf til þess. Hann hafði alltaf hnífinn
í hægri hendi, því annar maður náði í lömbin og hélt á þeim meðan markað
var. Skoru í tré þekkti ég ekki í því tilfelli. En sumir skrifuðu sér til
minnis. Gróf eyrnamörk nefndust soramark, særinga- mark. Sá aldrei mold
borna í sár á eyrum lamba. En það var reynt að velja sólskinsdaga til að
marka, þá þornuðu eyrun fljótt. Sumir brugðu til marks á nýfæddum lömbum,
t.d. sneitt eða stíft ef það var hluti af þeirra marki.
p6
Það var nokkuð algengt
að draga ullarband í eyru lamba, sem áttu að lifa. Hnútur var á bandinu
fast við eyrað beggja megin við gatið. Ýmsir litir voru á bandinu. Börnum
var sérstaklega gefin stekkjarlamb, og væru lömbin hvít voru þau skrúðdregin
á sérstakan hátt. Börn á ýmsum aldri höfðu mjög gaman að fara á stekkinn
og fannst það ævintýri líkast. Oft verptu smáfuglar í veggjarholum þar,
einkum steindepla eða mariuerla, og þá þurfti að fylgjast vel með þegar
ungar komu. Fráfærur: Hjá eldri bændum var fráfærnadagurinn
oftast sá sami ár hver, amk. um sömu sumarhelgi. Venjulega var fært frá
í 11. viku sumars. Lömbin voru 4-6 vikna gömul, þegar þau voru færð frá.
Það þótti ekki gott, ef þau voru yngri. Síðborið lamb, sem ekki varð fært
frá nefndist sumrungur. Lömb, sem týndu mæðrum sínum nefndust undanvillingar
eða frávillingar. Lömb með vanþrifum voru nefnd öfugsnoði.
Vanalega komu þessi vanþrif á lömb sem villtust frá mæðrum sínum mjög ung,
þá datt ullin af hryggnum og hálsi en snepplar héngu á síðum og á lærum.
p7
Staðið var að því
að skilja lömb frá mæðrum á fráfærudaginn og þegar stíað var. Svo voru
ærnar reknar heim í hús. En lömbin látin hlaupa um stekk yfir nóttina.
Síðan voru þau rekin til afréttar og setin þar einn sólarhring eða svo.
Ekki voru lambahöft notuð um fráfærur. Ég varð mjög lítið var við slíkt.
En stundum voru lömbin setin 1-2 daga í heimahögum. Ég sá lömb heft með
ull, sem var vafin upp í göndla. Að hlaupa um stekk, það var gert eins
og áður um getur fyrstu nóttina eftir fráfærur, þá voru lömbin látin út,
þegar búið var að fjarlægja ærnar. Svo voru þau látin eiga sig þar til
að morgni. Það var kallað að láta lömb hlaupa um stekk. Stundum voru lömbin
tekin heim og ærnar látnar hlaupa um stekk. Frá- færulömb voru nefnd hagalömb.
Í minni fæðingarsveit var sagt fráfærna- lömb, ekki fráfærulömb. Ekki voru
fráfærnalömb byrgð í húsi, nema ef einhver þeirra komu heim úr afréttinni.
Lömbin voru ekki rekin í sumar- hagann í hafti. Það þekkti ég ekki að fráfærnalömb
væru flutt í kláfum eða laupum yfir stórár. Þekki ekki orðatiltækið "ekki
kvik", en að reka þau ekki með óðnum, var stundum sagt, þýddi að reka
þau ekki meðan jarmurinn var sem mestur.
p8
Að láta lömb afmæðast
eða blása mæðinni var sagt um að róa lömb. Skilnaðarjarmur nefndist óður.
"Eins og jarmur á stekk" var notað um mikinn klið eða hávaða.
Ekki var notað lýsi í hrygg á fráfærnalömbum, en á síðustu árum fráfærna
voru lömbin böðuð úr kreolin eða öðru baðlyfi, áður en þau voru rekin á
afrétt. Til mun það vera en ekki algengt að vissir staðir í landareigninni,
sem fráfærnalömbum var haldið í. Ekki voru ákveðnir staðir öðrum fremur
valdir til sumargöngu fyrir lömbin. Þau voru rekin á sömu slóðir og gemlingar
eða annað geldfé. Mjög gott þótti að hafa einhverjar ær með í lambarakstri,
einkum forystuá. Einstöku menn keyptu aðgang að afréttarlöndum, en greiðslur
fyrir það er mér ókunnugt um. Þar sem mikið landrými var og nóg fólk, þá
þótti það mikið betra að hafa lömbin heim 2-3 daga. Annars var verið yfir
þeim í 1 sólarhring eða svo á afréttinni. Leppur var bundinn fyrir augu
og lömbin reidd burt, ef þau sóttu heim úr sumarhaga.
p9
Lömb, sem sóttu hvað
eftir annað saman við kvífé, voru nefnd sugulömb. Þau voru fjarlægð ef
hægt var. Sá aldrei lambakefli. Fjárlitlir bændur færðu ekki frá með keflingu.
Haustlömb voru ekki sett í haft, er þau komu af fjalli. Það var oft sérkenni
hagalamba, að þau voru blakkari á ullina en dilkar, og var því um kennt
að þau héldu sig mikið á uppblásinni jörð eða grjótum, sem kallað var og
því vildi setjast sandur í ullina.
Hjásetan: Starfið
að halda kvífé á haga var nefnt jöfnum höndum hjáseta og að sitja yfir.
Það var einkum starf barna og unglinga.
p10
Ekki var föst venja
um sumarkaup smalans. Froðuostur, sem kallaður var, var mikið skammtaður
smalanum og stundum kallaður smalaostur. Smalinn fékk oft skánina ofan
af flóningapottinum. En um smalafroðu og annað sem nefnt er heyrði ég ekki.
Ekki fékk smalinn frídag á sumri. Það þekkti ég ekki. En það var sumsstaðar
snemma farið að smala ánum, einkum ef hálffullorðinn maður annaðist hjásetu.
Þá fékk hann oft frí einn sunnudag seint á sumri og heimsótti nágranna.
Ég kynntist því ekki fyrr en 1912 í Möðrudal á Fjöllum, að smalinn hafði
ákveðinn hest, sem hann fékk að temja sjálfur. Í Möðrudal hafði smalinn
ákveðið beisli og reiðver. Reiðverið var eins og yfirdýna á hnakk með leðurmóttökum
á báðum hliðum, til að festa gjörð við, svo var reiði úr þunnu leðri. Ístöð
voru annaðhvort engin eða leðursmeygar í ól, sem lá yfir hestbakið. Smalinn
hafði ekki sérstakan nestismal. Aðeins djúpan disk emileraðan eða bara
pjáturdisk og mjólk á flösku, utan um hana voru tvöfaldar umbúðir, hvítt
léreft innan og ullar- stykki ytra. Stafur smalans var oftast hrífuskaftsbrot
eða grein af skóg- viði. Sjaldan nefndur neitt nema smalaprik.
p11
Ekki hafði smalinn
aukastörf með hjásetunni. Ekki þegar það var barn innan fermingaraldurs.
Annars voru konur með prjóna. Smalinn byggði aðallega vörður í tómstundum
sér til skemmtunar, búa sér til skýli til að vera í þegar veður var slæmt.
Ennfremur tíndi hann ber, þegar þau voru orðin þroskuð. Ekki var það vel
séð að hafa með sér bækur til að lesa í, en sumir gerðu það. Mesti óvinur
smalans var þokan. Smalinn átti skýli til að hlífa sér í, sumir munu hafa
átt fleiri en eitt, því ekki máttu ærnar alltaf vera á sama stað. Væri
það með þaki og hægt að sitja þar við að borða, þá var það nefnt smalakofi.
Almennur matur smalans var sem hér segir: Kjötbiti, slátursneið, góð sneið
af froðosti, eða hlauposti, partur af harðfiski, góð sneið af smjöri og
heil flatkaka, sem lögð var yfir diskinn. Svo var hálf flaska með mjólk.
Stundum var sviðafótur eða væn sneið af lundabagga í stað einhvers af ofangreindu.
Hundinum var gefið vel að morgni, svo varð smalinn að gefa honum af sínu.
Ekki fékk rakkinn mjólk að lepja við kvíarnar. Hann var á verði að ganga
eftir sínu hjá húsmóðurinni heima í eldhúsi. Þar átti hann sinn dall. Hundadallar
voru smíðaðir úr tré, oft þrístrendir. Setið var daglangt yfir kvífénu.
Það var misjafnt hvenær var byrjað að smala ánum, en oft mun það hafa verið
16 vikur af sumri, sem byrjað var að smala kvíaám. Ærnar voru byrgðar í
nátthaga, ef hann var til, þá voru þær settar þangað úr kvíunum og svo
var einhver ákveðinn sem lét þær út kl. 5-6 að morgni og gætti þeirra fram
að mjaltatíma. Væri enginn nátthagi voru þær setnar fram að miðnætti, þá
látnar í hús og svo aftur setnar að morgni 2 tíma fyrir mjaltir.
p12
Ærnar voru reknar
í haga að morgni kl. 5-6. Ánum var smalað til mjalta kl. 8 að morgni og
kl. 9 að kvöldi, þar sem landrými var stórt gekk stundum illa að koma í
tæka tíð með ærnar að morgni. Fyrst þegar ég byrjaði hjásetu 8 ára, með
öðrum dreng, eldri, þá áttum við að fara eftur skuggum, sem fram komu,
þegar sól lækkaði á lofti, með heimreksturinn. Væri ekki sólskin var vandinn
meiri, Þá urðum við helst að geta séð merki að heiman. Um aldamót byrjuðu
smalar að fá lánuð úr í hjásetuna. Það fór eftir aldrei smalans með svefntímann.
Til 12 ára var talið nauðsyn á að hafa 9-10 tíma svefn, en svo styttist
það oft. Enginn sérstakur svefnstaður var fyrir smala. Ekki var kvífé laðað
að kvíum með kalli. Þó varð ég þess var hjá fátækum bónda í Jökuldalsheiði,
að konan kallaði á ærnar, þegar þær áttu að mjólkast. Á tvíbýlisjörðum
voru ærnar búnar að læra að skipta sér, eftir 1-2 vikur, ef einhver stóð
við dyrnar í kvíunum. Ærnar voru auðkenndar með hornbandi eða svörtum ullarlagði
á baki. Kannast við orðtakið "sér eignar smalamaður fé,
þó hann eigi ekki". Vísur Arnar Arnarsonar: Í sumarhlýju margur
má - marka, rýja, vinna á - smala, stía, færa frá - flytja kvía sitja hjá.
Haustið löngum hugann dró - heyjaföng og matar nóg - þá með
söng á söðuljó - sig úr göngur smalinn bjó. Steingrímur Thorsteinsson:
Út um græna grundu - gakktu hjörðin mín - yndi vorsins undur - ég skal
gæta þín. Sól og vor ég syng um - snert í gleðistreng - leikið
lömb í kringum - lítinn smaladreng. Kvölda tekur, sest er
sól - sveimar þoka um dalinn - komið er heim á kvíaból - kýrnar, féð og
smalinn. Syngur lítil lóa - leiti gyllir sól - í hliðum smali hóar
- en hjarðir renná ból. Smalastúlkan eftir J. Thoroddsen:
Einn á hún seppa sér - sem henni fylginn er - svartur er sá - um fjalla
............... rófunni dingla kann - á stöðli ætíð hann ærnyt skal fá.
p13
Kvífé: Þegar 2 áttu
ær saman í vörslu, þá merkti sá sem færra átti með svörtu hornbandi eða
svörtum ullarlagði í baki. Ær voru stundum tjöru- bornar á krúnu, svo auðveldara
væri að þekkja þær frá geldfé. Hálsband var á sauðfé, aðeins ef það var
tjóðrað við hæl eða staur. Ég vissi ekki til að kvíær væru hábundnar. Það
var aðeins gert um sauðburð, að tengja saman tvær ær, ef sama lamb gekk
undir 2 ám og voru þær kallaðar tvífóstrur. Ekki var tálgað af klaufum
á kvífé. Ég heyrði aldrei orðið kvífast, en hagspök var haft um spakt fé,
líka notað um hesta og kýr. Fjallafálur voru kallaðar rásgjarnar ær. Þær
voru líka kallaðar flennur. Kindur, sem sóttu í tún, nefndust túngálur,
túnskitur, túnvargar. Mein- horn kannast ég við, en ekkert frekar í þessu
tilfelli. Ég kannast ekki við að þyrfti að vernda kvífé gegn tófunni. Bjöllur
voru aðallega í forystufé, og þótti gott á haustin í myrkri að geta
heyrt hvar leita ætti að forystukindinni. Féð var oftast í hóp utan um
forystukindina. Greint var á milli júgurbólgu og undirflogs.
Undirflog kom helst í ær sem voru nýbornar. Það var þannig, að júgrað varð
glerhart á svipstundu og alveg tók fyrir mjólk úr þeim helming júgursins,
sem bólgan var. Venjuleg júgurbólga ar meir langvarandi. Framleiðsla mjólkur
stöðvaðist ekki, en hún varð blóð- eða graftrarllituð.
p14
Undirflog var ekki
nefnt neitt annað. Lækning við undirflogi og júgurbólgu: Gefa inn antefebrin,
tvisvar á dag eða kamillute. Einnig vín- andablöndu. Jafnframt skal maka
júgrið með kvikasilfurs og kamfóru- smyrslum. Einnig má baða júgrið
með ediksblöndu eða blautsápu spiritus- blöndu. Bakstur var líka notaður
úr fótafeiti, terpentínu hrært saman við rúgmjöl. Þetta er tekið úr skrifaðri
sjúkdómslýsingu síðan ég var á Bún- aðarskóla. Kvíahelti var
oft í eldri ám og lítið við því gert, nema bera fótafeiti milli klaufa
og við hársræturnar. Kvíahósti var líka algengur og ekkert með það gert.
Það bar mest á því í gömlum á, þegar hleypt var út úr kvíum eftir mjaltir.
Sumir sögðu þær væru að hreinsa lungun. Mjaltir: Aðallega
voru tréfötur með svigum notaðar við mjaltir. Þó voru líka til járnbentar
fötur. Vanalega voru stærri fötur til heimburðar og stóðu þær á kvíavegg
meðan mjaltað var og var jafnóðum hellt í þær svo mjaltafötur væru aldrei
nema með slatta í sér, því ýms óhöpp gátu hent. Sumar ær spörkuðu í fötuna
osfrv. Mjaltakonur höfðu sérstaka skó í kvíum og voru þeir geymdir hjá
kvíunum. Einnig höfðu þær sérstakt kvíapils úr grófu þykku efni. Svo var
sérstök höfuðskýla og prjónatreyja. Þetta heyrði ég nefnt kvíagalla. Ég
heyrði mjaltaföt nefnd kast fyrir vestan. Mjaltakonan stóð
beint aftan við ána, beygði sig í mjöðmum í vinkilbeygju, tók báðum höndum
sitt á hvorn spena og dró smjólkina niður úr spenanum með 3 fingrum. Þumalfingur
boginn á móti 2 næstu eða bara á móti vísifingri. Margar konur mjólkuðu
bara með hægri hendi, en héldu með vinstri hendi undir júgrað eða aftur
fyrir það til að halda því að sér. Þá mjólkaðist betur úr júgranu, mun
það algengara. Notaður hnúinn og þumal- fingur. Hver ær var tvímjólkuð
og var það kallað fyrirmjölt og eftirmjölt. Ég varð aldrei var við að ær
væru þrímjólkaðar.
p15
Oftast var sett merki
á hverja á milli mjalta og líka að loknum mjöltum til að sjá hverjar væru
búnar. Það var kallað að bletta. Ef gengið var nærri ám við mjaltir var
það kallað að tuttla. Það þekktist ekki að gera greinarmun á fé barna og
foreldra. En vinnuhjú munu hafa fengið greiðslur fyrir sínar ær, ef fært
var frá þeim. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs, var sagt að nytin
dytti úr þeim eða að þær tækju að sér. Kvíamjöltum var hætt kringum fyrstu
göngur. Þær voru mjólkaðar einu sinni á dag um vikutíma, svo var það annan
hvern dag og svo hætt. Þó voru ær sem auðvelt var að ná til mjólkaðar vikulega
fram í október byrjun.
p16
Yfirleitt voru kvíar
ekki notaðar eftir að geldfé kom heim á haustin. Er síðast var farið undir
ærnar, var það kallað að hreinsa ærnar. Síðasta málsmjólk í kvíum nefndist
sauðaþykkni. Mjólkin var soðin og drukkin sæt með brauði, t.d. lummum.
Sérstaklega átti smalinn að fá sauðaþykkni. Það var talað um að mjólk eftir
hverja á til jafnaðar væru um 80-90 pottar, yfir sumarið eða 14 merkur
af smjöri, ef þær mjólkuðu vel. Það var talið mjög mikið atriði
að vanda sem mest þvott á ílátum, bæði mjólkurfötum og trogum. Það var
þvegið bæði úr heitu og köldu vatni og síðan þurrkað úti í sól eða vindi.
Væri regn varð að þurrka ílátin við eld. Oft sá ég skafið úr löggum á fötum.
Ef mjólk súrnaði var ekki hægt að nota hana til skyrgerðar, þá varð skyrið
kornótt. Þegar mjólk ysti við suðu var það kallað gellir. Mjólkin var sett
í trogum og tappi hafður við botninn, og þar rann undanrennan burt, en
rjóminn sat eftir. Þjóðtrú: Sumir bændur höfðu þann sið að
halda til haga afskurði af eyrum og grafa, þegar lömb voru mörkuð.
p17
Því var trúað að
eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Það má vel vera að menn reyndu að taka
upp nýtt mark til að öðlast fjárheill. Annars var sama aðalmarkið áratugum
saman á hverjum bæ. Aldrei heyrt að lamb fæddist með marki. Ef börn kysstu
lömb, var þeim strítt á því að þá biti tófan af því snoppuna. Ég
heyrði engin ráð í þjóðtrúnni til að spekja kvífé, ekki á mínu heimili.
En það var mjög algengt að bæla ær, sem kallað var. Sá sem gætti ánna að
kvöldi, skildi oft við þær í hnapp þannig að þær voru allar lagstar. Það
hét að bæla ær. Það var slett forðu á tortuna til að sjá að búið væri að
mjólka ána. Einstöku gamlar konur munu hafa signt yfir ær að loknum mjöltum.
p18
Útbrot á nösum sauðfjár
nefndist álfabruni eða bara sólbruni. Það kom oft fyrir að undirflog læknaðist,
en annað júgrið reyndist óstarfhæft þar á eftir og var ærin það það sem
kallað er einspen, bara mjólk í öðru júgra. Það var sagt, ef ær fóru að
stangast þegar þeim var hleypt út, að það vissi á verra veður, einkum hvassviðri.
Eins ef fé hélt sig í smá- hópum, þá vissi það á hríðarveður. Sauðfé í
draumi boðaði snjó, ef það var hvítt.
p19
Selfarir: Ég man
svo óglöggt eftir því sem mér var sagt um sel og selfarir, svo ég get ekkert
skrifað um það hér. En ég vil að lokum geta þess hvenær fráfærur
voru lagðar niður, þó ekki sé um það spurt. Á Fljótsdalshéraði var
yfirleitt hætt að færa frá fyrir 1910. Ég sat síðast yfir ám í Fjallseli
í Fellum 1905, þá var hætt við fráfærur á öllum bæjum þar nálægt. Í Jökuldal
voru fráfærur ögn lengur sumsstaðar. Í Möðrudal var fært frá til 1917.
Þegar ég fluttist vestur í Ísafjarðardjúp 1919, þá var ennþá
fært þar frá og mun hafa haldist á stöku bæjum til 1926.