Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFráfærur
Ártal1890-1960
Spurningaskrá8 Fráfærur I

Sveitarfélag 1950Suðureyrarhreppur
Núv. sveitarfélagÍsafjarðarbær
SýslaV-Ísafjarðarsýsla (4700) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1881

Nánari upplýsingar

Númer478/1962-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1962

Nr. 478

p1
Stekkur: Þekki lítið til stekkja. Man þó eftir stekk heima hjá mér, sem stekkjað var í nokkrar nætur sum vor. Það var tóft við kvíavegginn með auðvirðilegu árefti og þaki. Var op með hlera á þakinu, sem lömbin voru látin inn um. Hurð var á einni hliðinni til að hleypa lömbunum út. Ég man lítið til stekkjunar lamba í mínu ungdæmi, og veit ekki nema um eigin heimili. Þar var það gert endrum og sinnum. Man ekki hvort það var gert á hverju ári, né hvenær því var algerlega hætt. Lömbin voru tekin frá ánum að kvöldi dags og höfð í stekknum yfir nóttina. Eftir að ærnar höfðu verið mjólkaðar var lömbunum hleypt til þeirra. Ég held ekki hafi verið stekkjað fleiri nætur samfleytt. Á 10 bæjum af 13 í sveitinni eru örnefni, sem benda til stekkja og á öllum þeim stöðum eru tóftir, sem geta verið af kvíum og stekkjum. Ærnar fóru skammt frá stekknum meðan lömbin voru í honum. Mun því hafa þótt betra að hafa hann spöl frá túninu, svo þær færu minna í það.

p2
Eftir örnefnum að dæma var stekkur nokkuð frá túninu og á 3 bæjum alllangt frá því. Vissi ekki til þess að stekkurinn væri notaður sem rétt. Þó var á einum bæ rétt sem hjá voru gamlar tóftir, sem gátu verið af stekk. Þar sem graslendi var myndaðist ræktun af fénu. Önnur ræktun ekki. Örnefnið stekkjartún er á 2 stöðum. Líklegust þykja mjér nöfnin lambakró og lambabyrgi um lambakró við stekk. Þakið á krónni var víst einfalt torf á refti og hurðin með dyrabúnaði, sem hlaðinn var í vegginn. Sérstakt gat var á krónni til að setja lömbin inn um. Kvíar: Veggir kvía voru hlaðnir úr torfi og grjóti eins og veggir húsa eða úr grjóti eingöngu. Víðast þurfti að grafa hluta af kvíum í jörð til að fá láréttan botn kvíarinnar, og var hleðsla þar aðeins innan kvíarinnar, en á báða vegu, þegar komið var upp úr jörð. Þær kvíar, sem ég sá voru allar mun lengri en þær voru breiðar. Láta mun nærri að breidd flestra hafi verið sú, að gengt væri milli tveggja kinda er stóðu sin við hvorn vegg, en ekki sá ég ær skipa sér í sérstaka stöðu og heyrði ekki talað um neinn sérstakan tilgang með lögun kvíarinnar.

p3
Á flestum bæjum mun það hafa verið að fastakvíum var haldið við á sama stað ár eftir ár, og óvíða voru sjáanlegar tóftir eldri kvía. Hjá okkur var það þó, var yngri kvíin byggð í okkar tíð, utanvert við túnið. Þá gengu ær mest á svonefndri Ytrihlíð, en áður voru þær reknar á Innrihlíð. Kvíar voru undantekningarlaust í túnjaðrinum eða rétt utan við hann. Kvíastæðið var valið þar sem heppilegast þótti, og var þá miðað við úr hvaða átt kvíféð kom, hvar styttst og þægilegust var leið til hennar frá bænum, að gott væri að reka inn í hana og land hjá henni gott fyrir fé að liggja á, svonefnt ból. Minnist ekki hafa heyrt vegalengd miðaða við kvíar eða stekkjargötu. Kvíarnar voru hreinsaðar öðru hvoru. Bil milli hreinsana fór eftir veðráttu og hvernig botn kvíarinnar var. Að vissu leyti jók taðið gróður, en í því var aur og möl, og því ótækt á slægjuland. Vissi ekki grindagólf í kvíum. Víða var það að tvennar kvíar væru á tví- býlisjörðum. Ból heyrði ég nefnt svæði hjá kvíum, þar sem kvífé lagðist, ef það kom heim áður en kvíað var eða beið eftir að smalinn kæmi með það. Bæði orðtökin almenn, að fara á bólið og að féð væri komið á bólið. Færikvíar, sem ég þekkti, voru 4 jafnstórar grindur gerðar úr borðum, mynduðu kvaðrat. Ekki var það almennt að færikvíar útrýmdu fastakvíum. Þeim varð ekki við komið nema á nokkurn veginn sléttu landi. Lítilsháttar voru tún ræktuð með færikvíum. Sá þær hafðar á túnum síðari hluta sumars, þar sem ekki var slegið aftur. Kvíin mátti ekki standa of lengi á sama stað. Skemmdi þá rótina. Var því færð eftir þörfum og ræktaðist þannig nokkur blettur.

p4
Færikví var aldrei höfð svo lengi á sama stað, að tað myndaðist í henni. Nátthagar: Vissi ekki til þess á neinum bæ í Súgandafirði, að sérstakar girðingar væru til að bæla kvífé í á nóttum. Stekktíð: Oftast var fær frá öllum mylkum á. Ýmsar ástæður gátu þó valdið því, að ær voru látnar ganga með. Stekkjarvinna nefndist almennt að stía, sjaldan að stekkja. Sagt var að fara á stekkinn, vera á stekknum. Lambféð var rekið á stekkinn að kvöldi kl. 8-9. Þegar stíað var voru ærnar reknar í kvíarnar og lömbin tekin og látin í stekkinn. Ánum síðan hleypt út en ekki reknar. Þær vissu um lömbin í stekknum og heyrðu jarm þeirra. Ær voru reknar inn til mjalta að morgni kl. 8-9.

p5
Tel að ærnar hafi ekki verið þrímjólkaðar, svo nokkuð væri eftir handa lömbunum. Stekkjarmjólk þótti kostminni en önnur mjólk. Það ég vissi var aðeins fénu varnað að dreifa sér fyrr en allar ærnar höfðu fundið lömb sín. Sá sauðarefni aðeins gelt hjá kví eða rétt. Pungurinn var lagður flatur og 2 smáskurðir gerðir upp í hann, mynduðust þá op sem eistun voru tekin um. Það ég man voru lömbin mörkuð við kví eða rétt. Fullorðnir fjármenn voru vanir að marka lömb út um hagann. Hvort þeir mörkuðu þar lömb í kari, veit ég ekki. Á flestum súgfirskum heimilum var húsbóndinn í veri á þeim tíma sem lömbin voru mörkuð, og gerði það þá einhver annar, oft húsmóðir- in. Meðferð hnífsins mun hver hafa haft sem honum best þótti. Sumir mörkuðu með skærum. Að telja mörkuð lömb með skorum í tré, þekkti ég ekki. Gróf eyrnamörk, Þau heyrði ég kölluð blóðmörk. Soramark heyrði ég nefnt. Skildist það þýða óglöggt eða óskýrt mark. Sá mold notaða til að stöðva blóðrás.

p6
Heima hjá mér var venja að setja vindinga í eyru nokkurra lamba. Ullarband var dregið með nál gegnum eyrað og hnýtt við rönd þess og myndaðist skúfur fyrir framan hnútinn. Taldi það gert til að þekkja lambið. Það sem dregið var í eyru lamba heyrði ég aldrei nefnt annað en vinding og verknaðinn að vindinga lambið eða draga eða setja vinding í eyra þess. Fráfærur: Mér virtist orðið fráfærur, sem tími, eiga við tímabilið fyrir Jónsmessuna. Þá var fært frá, en fráfærudagurinn var óákveðinn, fór eftir ýmsum ástæðum. Það þótti illt að lömb væru yngri en 4 vikna, þegar þau voru færð frá. Yngri lömb oft látin bíða og tekin frá síðar. Síðborið lamb nefndist síðgotungur. Lömb, sem týndu mæðrum sínum og þroskuðust lítt voru nefnd undanvillingar. Einnig var sagt að lambið hefði týnt henni mömmu sinni.

p7
Þegar lömb voru skilin frá mæðrum á fráfærudaginn, voru lömbin tekin í kví og borin í grindalaust hús, t.d. hlöðu, þar sem ærnar vissu ekki um þau. Lambahöft voru notuð um fráfærur meðan lömbin voru setin. Lambahaft var hæfilegur spotti úr mjúkum ullarfléttingi. Endarnir saumaðir saman. Heft þannig að haftinu var smeygt upp á framfætur og öðrum fæti brugðið gengum það, svo oft að haftið færi ekki af. Fráfærulamb var lamb fullvaxið til að færast frá. Að hausti: Hagfæringur eða fjallalamb. Það kallaðist að fara með lömb kvik í haga, að taka þau frá mæðrum og flytja í haga án þess að róa þau á nokkurn hátt. Kví ar t.d. nærri sjó, lömbin borin í bát og breitt yfir þau og ekki látin sjá neitt fyrr en þaim var sleppt upp á afskekktum stað.

p8
Þekkti aðeins að sitja lömbin. Þau voru heft að morgni og rekin þangað sem beit var góð. Setið hjá þeim allan daginn, látin inn á kvöldin og afheft. Eftir 3 daga setur, rekin í haga haftalaus. Það er eins og mig minni til þess að orðatiltækið eins og jarmur á stekk væri notað um mikinn klið eða hávaða. En tíðast var sagt "eins og kliður í fuglabjargi". Sá það gert að bera lýsisspón í hrygg á fráfærulömbum. Vissi ekki hvort það átti að drepa lýs eða auka ullarvöxt eða hvort tveggja. Hjá okkur voru lömbin setin stutt frá bænum, þar sem ekki sást þangað sem ærnar fóru um. Enginn mátti leyfislaust reka í land annarrar jarðar, en á fleirbýlisjörðum var slægjum skipt, annað sameiginlegt. Það ég þekkti, voru lömbin rekin þangað sem ærnar komu síst, en svo dreifðust þau í allar áttir, án þess að spyrja um landeigendur. Vissi ekki til að neinn bóndi í Súgandafirði þyrfti að leita til annarra með hagagöngu fyrir fé sitt. Það kom þó eitt sinn fyrir á mínu heimili, að fengin var hagaganga fyrir lömbin vestan við fjörðinn. Var það gert til að verja þau dýrbít. Aftur á móti fengu nokkrir bændur í Bolungarvík upprekstrarleyfi í Súgandafirði bæði fyrir lömb og roskið fé. Þessir upprekstrar áttu sér stað frá því ég fyrst man og fram undir aldamót og voru þar með nokkrir sem gerðu það árlega allan tímann. Rekið var eingöngu í land jarðanna Selárdals og Gilsbrekku. Beitartollurinn var þá 15 aurar fyrir lambið en 20 aurar fyrir roskna kind. Fjallalömb voru þá talin þriggja króna virði, og var beitartollurinn því 1/20 af lambsverði. Ég vissi ekki til að gjaldið væri greitt öðru vísi en í pengingum. Vissi ekki til að lömb væru setin nema eins og áður er sagt, áður en þau voru rekin. Veit þó ekki hve margir gerðu það. Sumir ráku eða fluttu lömbin kvik. Lömb sem leituðu heim úr sumarhögum man ég ekki að menn skiptu sér af því, nema ef lambið fann móður sína, þá var beitt ýmsum brögðum og stundum fengið að flytja lambið í annars manns land og til fyllsta öryggis yfir fjörð.

p9
Lambakefli voru gerð úr kvistalausum viði, og voru svo löng, að þau náðu ca. 1.5 cm. út úr munni lambsins á báða vegu. Í munnvikunum náðu þau að vera svo mjó að þau meiddu ekki nokkuð gildari í miðjum munni. Hrúður á báðum endum sem dró gat út í odd, átti hann að særa júgrið, svo ærin léti lambið ekki sjúga. Þegar kefli meiddi lamb og hrúður kom í munnvik þess, vissi ég hætt að kefla amk. þangað til það var gróið. Þetta gat stafað af því að lambið var keflað of fast, svo keflið meiddi það. Ullarband eða fléttingur var fest á báða enda keflisins og þau bönd bundin aftur fyrir hnakka lambsins. Heyrði þess ekki getið að lamb hafi gengið sumarlangt með kefli. Ég vissi til að fjallalömb voru setin nokkra daga eftir leitir og húsbyrgð að nóttu. Þetta var gert til að spekja þau. Kallaðist einnig að parraka þau. Vera má að þau hafi þá stundum verið hefti, þó ég minnist þess ekki. Um keflun er það að segja, að ég man það óglöggt, og kann því rangt vera sumt hjá mér. Ég þekki ekki nema á eigin heimili, en þar var lítið gert að þessu, og að mig minnir helst á vorin. Hjásetan: Hjásetu kvífjár þekkti ég ekki. Vissi setið á nóttu hjá lambfé á vorin til varnar tófu. Ánum smalað kvöls og morgna og reknar að loknum mjöltum.

p10
Ekki vissi ég til þess að smalinn fengi sumarkaup. Á stöku bæjum var fenginn drengur að, til smalamennsku, og hefur að sjálfsögðu fengið einhverja þóknun, en hverja veit ég ekki. Ég minnist ekki annarra sérréttinda smalans en að hann átti að fá eins máls nyt ánna eða því sem næst. Fékk hann það síðla sumars og var gerður úr henni ostur. Hann fékk stundum að sleikja bauga úr trogum, en það fengu hin börnin líka. Ég minnist ekki að ég drykki mjólk hjá kvínni, en mat fékk ég heima, þegar ég kom frá smalamennsku. Þetta, sem fleira, hygg ég hafi verið breytilegt, og nokkuð öðruvísi á einu heimili en öðru. Í Súgandafirði er hvergi hægt að nota hest til smalamennsku. Ekki vissi ég til að smalinn ætti nestismal. Smalaprik heyrði ég nefnt en vissi engan sem notaði það.

p11
Milli smalamennsku hirti smalinn um hey og vann önnur störf, líkt og önnur börn. Um hjásetu var ekki að ræða. Vissi ekki til að smalinn hefði með sér nesti í smalaferðir, en bita fékk hann á morgnanna áður en hann fór að heiman. Þetta kann þó að hafa átt sér stað þar sem smalamennska var löng. Hjáseta lamba var skammt frá bænum, og var börnunum færður matur þangað. Algengt var að gefa smalahundinum mjólk á kvíavegg, ef hann var þar þegar mjólkað var. Ekki var það ákveðinn skammtur. Fór eftir rausn stúlkunnar, sem það gerði. Heima var honum gefinn matur eins og smalanum. Það mun ávallt hafa verið eitthvað á kvíavegg, sem hægt var að gefa hundinum í, aflagsílát sem handbært var á hverjum stað. Ekki var setið daglangt yfir kvífénu þar sem ég þekkti til. Nátthagar þekktust ekki.

p12
Ærnar voru reknar í haga að morgni að loknum mjöltum. Víðast var mjólkað kl. 8-9 kvölds og morgna. Farið í smölun á hverjum bæ eftir því hve angt var að fara. Takmarkið var að vera kominn á ból fyrir mjaltatíma. Smalinn svaf í bænum að nóttunni. Þar sem langt var að fara, þurfti smalinn að fara að heiman fyrir venjulega fótaferðatíma, en ef hann fann allt á kvöldin og þurfti ekki að leita, gat hann farið að sofa fyrr en aðrir. Ég tel mig hafa heyrt það að kvífé væri laðað að kvíum með kalli, en sjaldan. Þar sem sumarsmölun var vöndust ærnar fljótt á að fara í sína kví, eins og að fara í ákveðið hús á vetrum. Á sumum bæjum var féð aðskilið í haganum. Einn rak í þessa áttina, annar í hina. Þetta var á tvíbýlisjörðum. Minnist ekki að hafa heyrt vísur um þetta efni, og ekki orðtök nema: Sér eignar smalinn osfrv., sem oft var notað í tali um hliðstæð efni. Þar sem menn kalla sitt það sem þeir hafa undir höndum og eiga að annast og ábyrgjast. Í þessum kafla lúta spurningar margar að hjásetu og það sem henni er samfara. Þar sem hjáseta er, það ég veit, er hér óþekkt er sumum spurningum ósvarað og svörin eiga aðeins við smölun á málum, og það sem sameiginlegt var smölun og hjásetu.

p13
Kvífé: Lítið var gert að því á mínu heimili að auðkenna kvífé. Kom þó fyrir að hálsband væri sett á einstaka á. Aftur á móti var mikið um það á næsta bæ við okkur. Auðkenning með bandi um horn og málning eða tjöru átti ekki frekar við kvífé en annað fé. Hálsband var nokkuð breiður borði úr lérefti eða öðru handbæru efni, sem saumaður var um háls ærinnar. Var þess gætt að ekki þrengdi að hálsinum henni til meins. Ég taldi þetta gert svo ærin þekktist í langleið. Mun litur bandsins hafa verið hafður þannig að hann skæri sig vel frá lit ærinnar. Önnur auðkenning sást ekki á langleið og gat ekki komið að sömu notum. Hálsband var ýmist kallað helsi eða háls- band. Þekkti aðeins hálsband á framfæti, bundið ofan við hnéð. Vissi það aðeins notað á styggar kindur í haustrekstrum. Hábinda varð með gætni, ekki of fast og hábent kind mátti ekki sleppa og ekki gleymast að taka hábandið af. Sá það á einum bæ, að stygg ær var tengd við spaka. Fjöl ca. 1 m. á lengd sett milli þeirra og endar hennar tengdir við hálsbönd þeirra. Heyrði þetta kallað að berla saman og parið berlur. Bendla og bendlur mun þó réttara. Aldrei tálgað af klaufum á kvífé. Finnst ég kann- ast við orðið kvífast. Spakar og styggar kindur einnig kallaðar þægar og óþægar. Sagt var að fé væri fjallsækið. Kindur sem sóttu í tún, nefndust túnþjófar. Sjaldan mun það hafa verið að vernda kvífé gegn tófunni. Finnst þó ég hafi heyrt talað um að hundskinn gæti varið fé gegn tófu. Sá bjöllur á hornum forustufjár og virtist það nokkurskonar heiðursmerki. Það hygg ég, að íslenskir koparsmiðir hafi steypt sauðarbjöllur. Hjá mér var júgurbólga kölluð volk og sögnin að volkast. Undirflog heyrði ég nefnt. Mér var sagt að sumir tryðu því að þetta væri afleiðing þess að einhver óheillafugl flygi undir ærnar. Taldi nafnið undirflog frá þeim komið.

p14
Undirflog var nefnt undirflug og undirtak. Það mun hafa verið reynt ýmislegt til að lækna undirflog, og sumir hafa haft trú á einhverju sem þeim fannst sér reynast vel. Ég þekki ekkert til þess. Aðal lækningin var hnífurinn. Skorið var í bólguna og stundum annað júgrið skorið burtu. Þá borið eitthvað mýkjandi á júgrið og allt reynt til að bæta líðan ærinnar. Mjaltir: Ég man ekki eftir öðrum mjaltaílátum en mjaltafötunum. Ef nefna skal einstaka hluti þeirra voru þeir þessir. Botn, stafir, eyrnastafir, eyrun, gjarðir, botngjörð, kilpar, tungur og fötuhald. Almennt var mjólkin borin heim í mjaltafötum. Á stærri heimilum mun hún þó hafa verið borin heim í stærri fötum. Mjaltaföt nefndust kvíaföt, kvíakast, kvíahosur. Mest voru þetta gömul aflagsföt, stundum þó gerð úr pokastriga eingöngu til þessa. Mjaltakonan beygði sig niður aftan við ána, þegar hún var að mjólka, hélt vinstri hönd um júgrið en mjólkaði með hægri. Oft var ærin tvímjólkuð. Ég heyrði talað um fyrirmjölt og eftirmjölt eða eftirhreytur.

p15
Ég sá stundum mjaltakonur setja froðubletti á læri ánna, sem þær mjólkuðu. Taldi það gert til að þekkja þær sem búið var að mjólka. Man eftir orðunum að tuttla og naga, þegar gengið var nærri ám við mjaltir. Ær vinnuhjúa og barna voru mjólkaðar í sérílát í kvíum. Aldrei blandað saman við aðra mjólk frá því fyrsta til síðasta. Sérbúskapur var kallaður samlagsmjólk. Unnið úr þeirri mjólk smjör og súr. Öll ílát sem afurðir samlagsins voru geymdar í eða eingöngu notuð fyrir það meðan afurðunum var óskipt. Þegar mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs var sagt: nytin eða dropinn fellur eða dettur úr ánum. Kvíamjöltum var hætt nálægt leitum.

p16
Það var víst oft óreglulegt hve mörg dægur voru látin líða milli næstsíðustu og síðustu mjalta í kvíum. Fyrst annaðhvert mál, annanhvern dag, síðan meira. Sauðaþykkni heyrði ég sauðamjólk nefnda síðla á haustin eftir að farið var að ganga undan ánum. Þótti rjómagildi t.d. í kaffi. Ágæt í grauta og osta. Eftir hverja á til jafnaðar fékkst 4-5 kg. af smjöri, 30-40 l. af súr. Var nokkuð misjafnt, bæði ærnar misjafnlega mjólkurháar og beitin misjöfn. Örnefnin Smjörskál, Smjörkinn, Smjörteigur ofl. benda að þar þótti kostagóð beit. Hér var lítið um sérverkun mjólkur. Hið algenga smjör, súrmjólk eða súr, misjafnlega þykkur, skyr og sýra, vanalega kölluð drukkur. Ostur einstaka sinnum. Ábrystir stundum gerðar úr broddmjólk ásauða og sauðaþykkni á haustin. Allt nokkuð breytilegt hjá húsmæðrum og heimilum og mjög mis- jafnt að gæðum. Þjóðtrú: Aldrei sá ég deili til þess að hirða eyrnasnepla. Það var sama hvaða litur var á lambinu sem fyrst var markað. Ekki var gætt sjávarfalla, þegar lömbin voru mörkuð.

p17
Sumir höfðu víst þá trú, að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm, og ég heyrði talað um að mönnum hefði lánast betur, er þeir höfðu breytt um mark. Ekki heyrði ég dæmi þess, að lamb sem fæddist með marki, er síðan var upp tekið. En bóndi sem var í Keflavík 1888-1902 sagðist eitt sinn að vetrarlagi fengið kind heim að kvöldi blóðmarkaða með nýju marki, sem hann tók upp og lánaðist vel. Hrútlömb voru ekki gelt með aðfalli. Það mátti heita daglegur atburður að sjá börn klappa og kyssa sauðfé og lömb, einkum lömbin, en ég sá aldrei amast við því. Til var sú trú, að sögn, að sjávarföll hefðu áhrif á margt og vert væri að taka tillit til þeirra. Dyr kvía, rétta og fjárhúsa skyldu byggjast um aðfall, en eldhús byggja þegar útfall var, en ég sá ekkert farið eftir því. Aðeins farið eftir hentugleikum. Heyrði að sumir létu salt í eyru kinda í þeirri von að spekja þær. Um árangur vissi ég ekki, enda sá ég það aldrei gert. Vissi ekki til þess að froðukross væri settur á hverja á eftir mjaltir. Sá að vísu mjaltakonur drepa gómum í froðu fötunnar og strjúka á læri ærinnar, sem þær voru búnar að mjólka. Taldi það gert til að séð yrði að búið væri að mjólka hand.

p18
Ekki heyrði ég það sagt að nyt gæti minnkað í hrakviðrum sem afleiðing þeirra. Aftur á móti var það viðurkennt að sumir forustusauðir vissu um snöggar veðrabreytingar og vildu ekki fara frá húsi. Kunnu menn sögur af að oft hafði verr farið af því fjármaðurinn fór að sínu ráði en ekki sauðsins. Heyrði eitthvað um það að hvítur fjárhópur í draumi boðaði snjókomu. Veit ekkert um kvífé eða sauðfé í íslenskri þjóðtrú. Naut lítillar fræðslu í þeim málum, og ég held að mest það sem mitt fólk vissi hafi það lært af Þjóðsögum Jóns Árnasonar, og hafi raunar trúað minnstu af því. Eitt er víst: Það sagði aldrei frá eigin reynslu.

p19
Selfarir: Í landi 8 jarða sveitarinnar eru örnefni, sem benda að þar hafi verið sel fyrr á öldum og eru sum þessarra örnefna ótrúlega nærri bæjunum. Ekki þekki ég neitt sem bendir til tveggja selja á jörðum, þar sem verið hefur tvíbýli eða fleirbýli, þann tíma, sem menn hafa sögur af. Á flestum þessum stöðum sjást tóftir, en allar munu þær hafa verið vallgrónar, löngu áður en nokkur núlifandi maður fæddist. Ekki minnist ég að hafa heyrt sagnir frá seljasetu eða lífi og vinnubrögðum í seljum. Vitað er að tvíbýli hefur verið á öllum þeim jörðum, sem örnefni benda til selja og á öllum þeim stöðum vottar fyrir tóftum. Nokkur örnefnanna benda til fleirri selja, t.d. Seljabreið, Seljahvammur, Seljapartur ofl. Hvað byggja má á þessu veit ég ekki. Seljapartar eru 2 gegnum annan þeirra miðjan liggur hryggur, sem Selshryggur nefndist, annað örnefnið bendir á eitt sel, hitt á tvö eða fleiri.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana