8 Fráfærur I
Nr. 493
p1
Stekkur: Hvorugt okkar hjóna þekkir
til þess, að stekkjað væri fyrir fráfærur. Ég minnist þess aðeins að lömbin
væru skilin frá mæðrum sínum kvöldið áður en þau voru rekin á fjall, og
þá byrgð inni í fjárhúsi yfir nóttina. En gamlar stekkjartóftir og stekkjarbrot
voru, held ég, nálægt flestum bæjum og sumsstaðar fleiri en ein.
p2
Stekkjarveg heyrði ég oft talað
um sem nokkurn vegarspöl, ca. 5-10 mín. gang. Ég heyrði talað um það að
stekkurinn væri notaður einnig sem rétt, og að lambakróin hafi þá verið
notuð sem dilkur. Svo virtist hafa verið á stæðilegasta stekkjarbrotinu,
sem ég sá í æsku. Ég heyrði bæði kallað stekkartún og stekkjartún, tún
ræktað umhverfis stekkinn, og var oft slegið og máske hefir sumsstaðar
verið borið á og notað áfram sem tún. Ég heyrði króna og réttina einu nafni
nefnda stekk. Ég þekkti aðeins stekkjarrústir og þær all gamlar. Voru þrennar
stekkjarrústir í landar- eigninni og sínar í hverri átt frá bænum. Gamlir
menn sögðu mér, að oft hefði verið gert yfir lambakróna, til að varna því
að ærnar stykkju ofan í hana til lambanna. Vindauga nefndist gat á krónni
til að setja lömbin inn um. Kvíar: Fastakvíar voru ekki á
þeim bæjum, sem ég var á. Þó var stundum mjaltað í réttum síðast á haustin
eða inni í fjárhúsi í rigningu og vondu veðri. Þar sem ég ólst upp voru
fastakvíar. Voru þær kró eða dilkur inn af fjárréttinni. Veggir réttarinnar
voru hlaðnir úr grjóti, tvíhlaðnir nema aðeins efst. Veggir króarinnar
vour hlaðnir úr grjóti upp til miðs, en þar ofan við úr hanausum með troflagi
á milli. Þeir voru tvíhlaðnir upp úr og grasgrónir að ofan, um mannhæðar
háir. Réttarveggirnir aðeins lægri. Breidd kvíanna var miðuð við að ærnar
gætu staðið í röðum við veggina og gott gangrúm á milli. Hurð var á kvíadyrum
og dyraumbúnaður, en fleki eða grind í réttardyrum.
p3
Fastakvíar voru á sama stað öll
þau ár sem ég þekkti til, og höfðu verið það um langt árabil. Réttin ásamt
kvíunum var örskammt frá bænum, og hvorki talað um kvíagötu né réttargötu.
Kvíarnar voru mokaðar að haustinu og stundum oftar, einkum, ef votviðrasamt
var. Taðið var notað til áburðar í flög undir þakningu. Ekki grindagólf
í kvíum. Þekkti ekki til tvíbýlis í uppvexti mínum. Umhverfi kvíanna heyrði
ég stundum kallað kvíaból. Yfir- leitt var sagt að ærnar væru komnar á
kvíarnar. Kvíaból heyrði ég endrum og eins notað. Í færikvíum
var útlendur viður, fura eða greni. Ég sá aldrei notaðan íslenskan skógvið
í þær. Stundum var hvorttveggja, fastakvíar og færikvíar á sama bænum og
færikvíar þá ekki notaðar fyrr en búið var að hirða nokkurn hluta túnsins.
Kvíarnar voru færðar til á túninu, eftir að búið var að slá og þótti spretta
vel undan taðinu. Aðeins fyrst voru þær hafðar utantúns, en mjög nálægt,
þar sem ég þekkti til.
p4
Vissi aldrei til að grindatað væri
notað til eldsneytis. Nátthagi var þar sem ég ólst upp. Var
hringlaga garður úr grjóti umhverfis hann. Var garðurinn tvíhlaðinn upp
til miðs en einhlaðinn úr því. Stundum voru ærnar bældar þar um nætur,
fyrst eftir fráfærur. Var nátthaginn þá hreinsaður þegar hætt var að bæla
ærnar, og svo sleginn á engjaslætti. Væri hrakveður voru ærnar hýstar yfir
nóttina og borinn moðsalli frá vetrinum í gólfin til að halda þeim þurrum.
Stekktíð: Til stekktíðar þekkti ég ekki í uppvextinum. Heyrði
aðeins talað um það af eldra fólki, að stíað hefði verið um nokkurt skeið
fyrir fráfærur. Yfirleitt held ég að fært hafi verið frá öllum mylkum ám,
er til náðist.
p5
Sauðarefni voru gelt í réttinni,
þar sem ég þekkti til, venjulega um leið og smalað var til rúnings. Venjulega
vann húsbóndinn að því sjálfur. Sat hann á steini eða þúfu og hélt lambinu
milli hnjánna. Skar hann svo gat á punginn og dró eistun út og sleit kólfinn
um leið. Ekki sá ég neitt sóttvarnarefni notað og sjaldan vissi ég til
að græfi í. Venjulega voru aðalsmalamennskur 2 að vorinu. Sú fyrri þegar
lömbin voru viku til þriggja vikna. Voru þau þá mörkuð, löguð ullin á ánum,
væri hún farin að trosna, losna frá hálsi og af kvið, og geldféð rúið.
Venjulega markaði bóndinn. Vasahnífur eða lítill tálguhnífur var notaður
við verkið. Á hnífnum hélt hann í hendinni, færði annar maður honum lömbin
og hélt á þeim í fanginu meðan markað var. Sagt var að sumir þyrftu að
standa í vissum stellingum, svo þeir væru vissir um að marka rétt. Karl
einn þekkti ég, sem var að marka lömb sín, og hélt kerling hans lömbunum.
Er hann hafði markað nokkur lömb kom þar að nágranni hans og hafði orð
á að hann markaði eyrnavíxl við sjálfan sig. Varð þá karli að orði: "Kerlingin
þurfti endilega að láta mig standa í vitlausri kró". Soramörk
heyrði ég og kallað þegar kindur voru markaðar upp. Mikið særingarmark
voru þau mörk kölluð, þar sem mikið var numið af eyrunum, t.d. tvístýft,
stúfhamrað, sneiðrifað. Sjaldan sá ég mold borna í sárið. Ég sá stundum
þann sem lömbunum hélt hafa fjöl og blýant við hendina og strika á hana
við hvert lamb.
p6
Það var algengt að skrúðdraga lömb
barna og vinnufólks, sem ekki átti mark. Eins ef þekkja átti lamb undan
vissri á. Var þá mislitur spotti úr bandi eða ullargarni dreginn með nál
gegnum eyrað og hnýttur hnútur á báða enda. Fráfærnalamb vissi ég til að
börnum væri gefin og eins haustlamb. Stundum var smalanum gefið haustlamb
auk kaupsins, ef hann hafði reynst vel. Fráfærur: Þar sem
ég þekkti til var aðeins miðað við fráfærnadaginn. Lömbin voru misgömul,
þegar þau voru færð frá, frá 3-5 vikna eða nálægt því, eftir því hve lengi
sauðburður stóð yfir. Orðið síðgotungur var almennara um lamb, sem ekki
var fært frá. Undanvillingur og undanflæmingur var notað um lömb, sem týndu
mæðrum sínum. Kreista var notað um lítil lömb, hvort sem þar var um að
ræða unndanvilling eða vanþrifa graslömb. Lömb með vanþrifum voru kölluð
písl, lambkreistingur.
p7
Þegar smalað var til fráfærna,
var féð allt, bæði lambféð og geldféð rekið í réttina. Ærnar dregnar inn
í króna og svo var geldféð og lömbin rekin af stað á afréttinn. Þurfti
oft allt heimilisfólkið að hjálpast að við að koma lömbunum frá réttinni.
Þegar reksturinn var kominn af stað snéru liðléttingarnir heim aftur. Ekki
voru notuð lambahöft, þar sem ég þekkti til. Fráfærulömb gengu undir nafninu
fjalllamb og graslamb, algengast. Heyrði aldrei talað um að fráfærulömb
væru byrgð í húsi. Þekkti ekkert til þess, að fráfærulömb væru flutt í
kláfum eða laupum yfir stórár, enda engin óbrúið stór vatnsföll á leið
í afréttinn. Heyrði aldrei það orðatiltæki, að reka lömb "ekki kvik"
í sumarhaga.
p8
Þegar lömbin voru komin í afréttinn
voru rekstrarmennirnir oftast vanir að dvelja hjá lömbunum um stund, til
að spekja þau, oftast nokkra klukkutíma. Skilnaðarjarmur nefndist lambajarmur
og jarmur. "Eins og jarmur á stekk" heyrði ég notað um mikinn
klið og hávaða. Heyrði talað um það að lýsisspónn væri borinn í hrygg á
fráfærulömbum, og þá til að varna óþrifum, en að það skemmdi ullina. Þó
töldu sumir það til bóta að ullin yrði þyngri. Þar sem ég þekkti til voru
lömbin rekin langa leið á afrétt. Sveitarfélagið átti afréttinn, og því
enginn hagatollur greiddur þar.
p9
Lömb, sem sóttu hvað eftir annað
saman við kvífé nefndust sugulömb, sníkjulömb. Sugukela heyrði ég þau líka
nefnd. Venjulega var reynt að koma þeim í geldfé, sem alltaf var á slangri
um heimahagana og stugga því svo sem lengst burtu. Lambakefli var aldrei
notað, þar sem ég þekkti til, en gamall aður lýsti því fyrir mér og bar
þeirri lýsingu að öllu saman við lýsingu séra Jónasar frá Hrafnagili í
Ísl. þjóðháttum. Þekkti það ekki, að fjárlitlir bændur færðu frá með keflingu,
en var sagt, að svo hefði verið gert fyrir löngu síðan. Ekki vissi ég til
þess, að haustlömb væru sett í haft. Að parraka fé eða ær var sagt, ef
smali eða fjármaður hélt fénu í þéttri breiðu, hnappsat það. Var það illa
liðið ef smalinn hnappsat ærnar, því þær þóttu þá mjólka verr. Hjásetan:
Starfið við að halda kvífé á haga nefndist hjáseta og að sitja yfir. En
þar sem ég átti heima var hvergi setið yfir nema fáeina daga eftir fráfærur.
Yfirleitt mun það hafa verið starf barna og unglinga að sitja yfir kvífé.
p10
Heyrði aldrei talað um nein sérréttindi
smalans í sambandi við matföng. Þekkti ekki til þess að smalinn fengi frídag
á sumri. Matarverðlaun heyrði ég aldrei talað um, en vissi til að smali
fékk haustlamb, sem laun fyrir vel unnið sumarstarf. Þó mun það ekki hafa
verið algengt. Sumsstaðar þar sem ég þekkti til var kvíaám smalað ríðandi,
og gat þá verið að smalinn riði venjulega sama hestinum. Oftast held ég
að smalinn hafi riðið berbakað, þar sem ég þekkti til, og stundum átti
hann etv. beisli sjálfur. Þegar ég var smali, hafði ég hliðartösku úr eltiskinni,
og var ól úr sama efni fest á. Náði hún upp yfir öxlina. Líka sá ég, sem
nestimal, lítinn þverbakspoka. Var op á miðri hlið hans og bitinn og mjólkurflöskur
látið í endana. Var þá þægilegt að hafa malinn á öxlinni. Stafur smalans
nefndist smalaprik. Það var ýmist úr birki eða þá hrífuskaftsbrot. Væri
birki í því var oft bugur eða krókur á efri enda. Á smalapriki úr hrífuskafti,
sá ég stundum horn, helst af hnýfilhyndri kind, notað sem handfang. Gekk
þá efri endi rpiksins upp í slóarrim hornsins, og var nagli rekinn í gegnum
hornið og prikið til að halda því föstu.
p11
Fyrstu daga hjásetunnar gáfust
fáar tómstundir. Ærnar voru rásgjarnar og vildu snúa heim til að leita
lamba sinna. Aðrar rásuðu í aðra átt. Þá átti smalinn svo erilsamt, að
hann varð stundum að eta bitann sinn á hlaupum. Er ærnar spektust gafst
frekar tími, var þá dyttað að smala- kofanum, ef hann var nokkur,
litið í bók, hefði tekist að lauma henni í malinn eða barminn, telgdar
spýtur og sitt af hverju. Þegar hætt var að sitja hjá ánum var smalinn
hafður til snúninga og stundum gekk hann að vinnu með heimafólkinu, t.d.
við heyþurrk, heimflutning heys oþh.
Smalinn átti sér skýli, nefnt smalakofi
eða hjásetukofi. Ég átti slíkan kofa. Hann var þannig gerður, að veggir
voru hlaðnir úr grjóti, um það bil axlarhæð fullorðins manns. Gaflhlöð
voru nokkru hærri og lagður á þau mæniás og svo raftar lagðir á hann, brúnásar
engir. Árefti hellur og fjalldrapi. Þekja úr torfi og þökum. Þéttur með
mosa. Engin hurð. Grjót- bálkur til að sitja á. Nesti smalans var ýmist
rúgbrauðssneiðar eða glóðarbakað flatbrauð, smurt með smjöri og stundum
mysuosti, harðfiskstykki og tólgarmoli við og hálf flaska af mjólk. Á sunnudögum
kannske kleina eða jólabrauðssneið og kandísmoli. Rakkanum var ekkert nesti
skammtað, en smalinn gaf honum roð og ugga og brauð eða kökubita og svo
mjólkursopa í laut á steini eða í brotið á húfunni sinni. Ekki man ég til
þess að rakkinn fengi að lepja við kvíarnar. En heima beið hans bolli eða
dallur og venjulega fór hann beina leið þangað, þegar búið var að kvía
ærnar og stundum fyrr. Ekki var hundsbolli við kvíarnar. Ég sat yfir kvíám
2 sumur, þar til viku fyrir göngur, en þá fór ég á silungafjall með bóndanum.
Ég var þá 10-12 ára. Var lélegur smali, en undi hjásetunni vel. Ærnar voru
aldrei byrgðar í kvíunum, þar sem ég þekkti til, en stundum í húsi, ef
kalt var eða rigningar.
p12
Venjulega voru ærnar reknar í haga
kl 6 að morgni, og þá voru klukkur fljótar á bæjum. Þetta fór þó nokkuð
eftir veðri. Bæði kvölds og morgna voru ærnar kvíaðar um 8 leytið. Þótti
best að jafnmjaltað væri, þe. að mjaltað væri á sama klukkutíma kvölds
og morgna. Hvorttveggja þekkti ég að fara eftir eyktarmörkum, og að voð
var breidd á bæjarhús, með heimrekstur. En húsbóndi minn léði mér úrið
sitt í hjásetuna, en það var víst fremur óvanalegt. Annars lærðu allir
að miða tíma við sólargang, jafnvel þó ekki sæi til sólar. Þar sem ég þekkti
til, var svefntími smalans svipaður svefntíma fullorðna fólksins. Þó fékk
ég oft að sofa þar til ærnar voru komnar í kvíarnar. Oft heyrði ég smala
á sumrum of fjármenn á vetrum laða féð að kvíum og húsi með því að kalla
gibba, gibb. Kannast við "Sér eignar smalamaður féð, þó enga eigi
hann kindina".
p13
Kvífé: Ef um fáar vær var að ræða,
vissi ég til að þær væru skúf- bundnar. Stundum sá ég kvíaær tjargaðar
á horn, en merkingar á fé í haga var meira notað á haustin. Sá aldrei hálsband
á sauðfé. hagspakt heyrði ég sagt um spakt fé. Styggar kindur voru sagðar
ljónstyggar, eldstyggar. Fjallafálur voru ær nefndar, sem struku til fjalls
strax á vorin og fylgdu "efstu grösum". Meinhorn var notað um
ær sem voru illar á garða og ýttu þar frá sér. Vissi ekki til þess að kvífé
væri verndað gegn tófunni, en sá fé tjargað á snoppu til að fæla tófu frá
því í afrétti. Bjöllur voru aðeins notaðar á forystufé, aðallega sauði,
enda nefndar sauðabjöllur. Í sveitinni þar sem ég ólst upp var koparsmiður,
er smíðaði ístöð, beislis- stengur ofl. Sagt var mér, að hann hefði smíðað
nokkrar sauðabjöllur, en teldi sig ekki hafa nógu góða blöndu í þær. Heyrði
ég bæði orðin júgur- bólgu og undirflog notuð um júgurbólgu. Þó sögðu sumir
að undirflog héti það aðeins þegar júgrið visnaði eða drep hefði hlaupið
í það. Kerlingu þekkti ég sem kenndi steindepli um, að hann hefði tuttlað
ána. Var það víst gömul hjátrú en útdauð.
p14
Undirflog hafði ekki annað nafn.
Reynt var að lækna undirflog með steinolíu, terpentínu, hrátjöru eða smyrsl
soðin úr hrátjöru og vallhumal, smjöri og vallhumal, hundafeiti og lyfjagrasi
ofl. Kvíahelti kannast ég vel við. Voru þá ærnar stinghaltar út úr kvíunum
og fyrst á leiðinni í hagann. Var því stundum kennt um að of lengi hefðu
þær staðið í kvíunum. Oftar heyrði ég þetta nefnt sauðhelti. Kvíahósta
heyrði ég nefndan, en oftar rolluhósta. Mjaltir: Föturnar sem mjólkað
var í, voru venjulega úr tré með 2-3 gjörðum, ýmist úr tré eða járni og
trékilpum og nefndust mjaltafötur eða mjaltaskjólur. Stundum var mjólkin
borin heim í sömu fötum og mjólkað var í, en stundum var henni hellt í
aðrar skjólur. Það fór eftir magni mjólkurinnar. Mjaltafötin voru venjulega
gömul uppgjafaföt eða druslur, oft pils saumuð úr strigapokum og nefnd
kastpils. Mjaltakonan stóð hálf- borin við mjaltirnar og hélt með vinstri
hendi um júgrið, en mjólkaði hvorn spena í einu með hægri hendi. Tvær mjaltir
voru ævinlega mjólkaðar fyrst framan af og nefndust fyrrimjölt og eftirmjölt.
p15
Mjaltakonan sletti venjulega forðu
á afturendann á ánni, er hún var búin að mjólka. Var það gert til þess
að sjá hverjar væru mjólkaðar, og kallað að penta eða bletta. Ef gengið
var of nærri ám við mjaltir var það nefnt að tuttla, totta, naga, blóðnaga.
Þekki ekki orðið gleypumál. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs,
var það nefnt að dropinn dytti úr ánum. Þær hríðgeltust, að nytin hrapaði
úr þeim. Venjulega var kvíamjöltum hætt um fyrstu réttir. Þó voru þær oft
reknar heim og hreinsaðar einu sinni eða tvisvar milli rétta og þá hreyttar
niður, þe. ekki hirt það sem úr þeim kom.
p16
Fyrst leið einn dagur á milli næstsíðustu
og síðustu mjalta og svo lengri tími. Oft voru þær aðeins mjólkaðar annað
málið nokkra daga áður en daglegum mjöltum var hætt. Er síðast var farið
undir ærnar var oftast kallað að hreinsa þær. Sauðaþykkni var helst gert
úr mjólkinni eftir að hætt var daglegum mjöltum. Var mjólkin þá flóuð,
en að öðru leyti vissi ég ekki skil á þeirri matseld. Mjög misjafnt var,
hve mikið smjör fékkst eftir hverja á, sumarlangt. Fór eftir landgæðum
og kynferði fjárins. Þjóðtrú: Ekki var hirt um eyrnasnepla,
þegar lömb voru mörkuð. Það var sama hvaða litur var á lambinu, sem fyrst
var markað. Ekki var ég var við það að gætt var að sjávarfalli, þegar lömbin
voru mörkuð.
p17
Heyrði talað um það sem hjátrú,
að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Heyrði hrútlömb geld með aðfalli,
og að sauðir yrðu vænni þá, en talin hjátrú. Ekki máttu börn kyssa lömb,
þá átti tófan að bíta lömbin. Heyrði ég gamlan mann segja að stekkjaveggir
stæðu betur, sem hlaðnir voru með aðfalli. Ég heyrði talað um að setja
salt í eyrun á óeirnu fé og strok- gjörnum hestum, en vissi það aldrei
gert. Þó sá ég hvíta hringi á eyrum á brúnum hesti hjá ferðamanni, en vissi
ekki hvort þeir voru undan bandi, sem bundið hefði verið um eyrun vegna
þess að salt hefði verið látið í þau. Ekki var signt yfir ær að loknum
mjöltum, ekki settur froðukross á ærnar eftir mjaltir, ekki notuð bælingaþula,
né önnur þula. Gamla einsetukonu þekkti ég, sem sagt var að
signt hefði kvíaær sínar hverja eina um leið og þær fóru út úr kvíunum,
og sagt, er hún hafði signt þá síðustu: "Og til andsk... farið þið
nú allar í dag samt". Kerling var forn í skapi og talin köld í svörum
og stórorð, en ærnar óhagspakar og rásgjarnar.
p18
Útbrot á nösum sauðfjár að sumri
nefndust álfabruni. Heyrði aldrei talað um að lækna undirflog með töfrabrögðum.
Trúin á tilbera var alveg útdauð, að ég hygg, þegar á ég var að alast upp.
Engar veðurspár heyrði ég í háttum kvífjár. Á hinu var ekki vafi að sauðfé
fann á sér veðrabrigði, sem ekki urðu ráðin af veðurútliti, þó þau væru
í nánd, en það kom einkum við fjármenn á vetrum og er önnur saga. Sauðfé
í draumi boðaði snjó á vetrum, sólskin á sumrum, að sumir sögðu.
p19
Selfarir: Í landi jarðarinnar,
þar sem ég ólst upp, var eitt örnefni, em ninnti á sel, Selflatir. Ekki
sást þó glöggt móta fyrir seltóftum þar, en gamalt fólk taldi, að þar hefði
sel verið fyrir löngu. Kunni það þó ekkert frá því að segja. Búfjárhagar
voru heldur eigi svo langt frá bænum, ca. 1/2 klst. rekstur eða rúmlega
það, að það hafi borgað sig að hafa í seli. Ær og kýr voru oft nefndur
búsmali í æsku minni. Selskrínur heyrði ég gamalt fólk tala um, en ekki
selbelgi eða skyrbelgi. Ekki man ég til að ég heyrði neitt um starfstilhögun
í seli, né heldur hve lengi fram eftir á sumri búsmalinn var hafður þar.
Engum þjóðsögum man ég eftir, sem áttu að hafa gerst í seli, óprentuðum.
Ath. Magnús Pétursson er fæddur
að Geirshlíð í Borgarfirði 26. febr. 1890, og uppalinn í Hraunási í Hálsasveit.
Eins og sjá má hefir hann svarað ýmsum spurninganna, þar sem hann kunni
betri svör við þeim.