8 Fráfærur I
Nr. 514
p1
Fráfærur.
Stekkur: Valinn var þurr staður, grund eða holt, til að byggja á
stekkinn. Aðal réttin var miðuð við fjárfjölda. Veggir voru hlaðnir úr
grjóti upp að miðju, svo var hlaðið úr hnausum þar ofanaá (kvíahnaus kallaður).
Þeir voru stungnir þannig, 2-3 pálstungur á breidd, en það langir að þeir
næðu þvert yfir vegginn. Grasið snéri niður. Inn af gafli var lambakróin.
Hún var ekki stór. Hún var á breidd sem fjárhúskró, en lengd eftir ástæðum.
Það var gert yfir hana. Dyr voru úr hinum enda króarinnar, og þar var lömbunum
hleypt út. Hentugra þótti að hafa stekkinn breiðari fremst en mjórri innar,
til þess að hægara væri að króa ærnar þar innar, þegar farið var að stía.
Þá var geldfé tekið út, en stekkurinn var notaður fyrir rétt á vorin, við
rúningu ofl. Þess þurfti að gæta við byggingu stekks, að hlaða dyrakarmana
með aðfalli sjávar. Það var sú trú, að þá gengi féð betur inn. Að sjálfsögðu
voru veggir hafðir það háir, að þeir væru sauðheldir, til þess þurftu þeir
að ná undir hönd á meðal manni.
p2
Vegalengd frá bæ
að stekk var ekki ákveðin vegalengd, en spottakorn frá bæ, til að forðast
ágang á túnið, af ánum við stekkinn. Stekkurinn var notaður sem rétt á
vorin, er rekið var að til að rýja féð, marka lömbin ofl. Ekki var það
venjulegt að margir bæir væru um einn stekk. Hver bær átti sinn stekk,
en verið getur að þar sem bæir voru mjög þéttir. Tún umhverfis stekkinn
ræktaðist af sjálfu sér,af áburði sem barst niður frá ánum. Var kallað
stekkjartún. Orðin Stekkur og Stekkjartún lifa enn í örnefnum og í ýmsum
orðasamböndum þar út af. Svo sem Stekkjarhóll, Stekkjarmelur, Stekkjargata,
Stekkjarlækur ofl. Lambakró hafði ekki annað nafn. Það var
aðalréttin, sem nefnd var stekkur. Það var sagt að reka ærnar í stekkinn.
Ærnar voru í stekknum. Það er verið að mjólka frá í stekknum. Lambakróin
var ekki notuð sem fjárhús á vetrum. Það var gert yfir lambakróna, þó hún
væri ekki notuð fyrir fjárhús á vetrum. Það var tré, sem náði frá enda
til enda (mænisás), svo reft með skógarröftum af vegg á mænisásinn, hurð
í dyrum. Svo var þak yfir með torfi. Dyraumbúnaður var sem á öðru húsi,
með hurð og lokum. Það varð að byrgja lömbin inni, ef ærnar voru hafðar
úti, látnar hlaupa um stekk. Lömbin voru látin inn um dyrnar, hurðin höfð
á rönd meðan verið var að láta þau inn. Kvíar: Þær voru helst byggðar
á þurrum stað við túnjaðar, ef hægt var að koma því við. Slétt valllendisgrund
var ákjósanlegasta kvíastæði. Þær voru hlaðnar úr grjóti, hálf vegghæð,
svo torf annað lagið, en efsta lagið hnausar. það var grjót niður í veggjunum,
svo ærnar spörkuðu þá ekki niður. Breidd kvíanna var þannig, að mjaltakona
gæti gengið á milli ánna, þegar þær röðuðu sér við báða veggi, en lengd
var höfð eftir ærfjölda á hverjum stað. Hæð kvíanna var sú, að öruggt væri
að þær héldu. Ef kvíarnar voru mjög stórar, þurfti fleirri fleka heldur
en fjóra. Þá þurfti að setja skástífu við fleka til styrktar.
p3
Fastakvíum var haldið
við ár eftir ár, þar til færikvíar komu í notkun. Kvíar voru venjulega
skammt frá bæ, að sjálfsögðu var gata á milli og hún kölluð kvíagata. Mörg
örnefni er tengd kvíunum, líkt og við stekkina. Á mörgum jörðum má enn
sjá rúst af stekk og kvíum. Þögul tákn um horfna búnaðarhætti. Það var
bil á milli kvíanna. Kvíarnar voru þá sín í hvorri átt frá bæ. Ærnar
þekktu betur sínar kvíar, ef þær stóðu ekki saman. Kvíabólið var
ákveðinn blettur við kvíarnar, mismunandi stór eftir stað -háttum. Það
voru til fleiri orðtök um að fara á bólið. Fara á kvíarnar, fara á stöðulinn.
Umhverfi kvíanna var á fyrri öldum kallað stöðull. Mun svo hafa tíðkast
meðan sá siður var að mjólka kýrnar við kvíarnar. Voru þá sverir skógarraftar
settir niður til að binda kýrnar við á meðan þær voru mjólkaðar, og voru
þeir kallaðir kýrstöðlar. Færikvíar voru settar saman af viðarflekum,
stuðlum og rimlum. Rimlarnir voru negldir á stuðlana. Flekarnir voru 10-12
feta langir, eftir stærð kvíanna. Þeir voru 4, svo kvíarnar hefðu snotra
lögun. Best var að hafa 3-4 tommu borð í flekana. Stuðlarnir úr sama efni,
rimlarnir voru það gisnir á stuðlunum að ærnar kæmu höfðunum á milli. Þá
stóðu þær rólegri í röðum meðan þær voru mjólkaðar. Þær vöndust við það.
Flekarnir voru kallaðir kjálkar, færikvíakjálkar. Þeir voru bundnir saman
með böndum. Varla var hægt að nota skógvið í færikvíar að nokkru ráði,
þó munu vera dæmi til að það hafi verið gert. Teikning af kvíakjálka. Fastakvíar
lögðust alveg niður, þegar færikvíar fóru að tíðkast og voru hvergi notaðar
löngu áður en fráfærur lögðust niður. Það átti sér stað að tún voru ræktuð
upp mað færikvíum, ef þannig hagaði til að sléttar grundir voru út frá
túninu. Það þurfti ekki að leysa færikvíar í sundur, þegar þær voru færðar,
draga bara kjálkana. Það var venja að færa kvíarnar heim á tún, þegar búið
var að hirða töðuna af bletti, sem hæfur var fyrir þær, sléttur og hallalaus.
Það þótti góður áburður á túnið, þar sem kvíarnar stóðu.
p4
Grindatað mun ekki
hafa verið notað til eldsneytis. Nátthagar voru á mörgum bæjum
og voru til mikilla þæginda. Þeir voru hlaðnir úr mýrarhnausum. Það var
mikið verk að fullgera þá. Helst voru þeir hafðir við túngarð. Það sparaði
þann kantinn. Nátthagar þurftu að vera rúmgóðir, svo ærnar hefðu haga,
og það háir veggir, að örugglega væru þeir sauðheldir. Stekktíð:
Það mun hafa verið nokkuð misjafnt hvenær stekktíð byrjaði. Um þetta atriði
hefur verið spurt fyrr í þessum skrám, og þar verið svarað, en gera vil
ég á þessu skil. Í gömlum máldögum er svo sagt: Málbær er ef hún á þriggja
nátta lamb í stekk, föstudaginn í fardögum. Af þessu má sjá að farið hefur
verið að stía í fardögum. Þessi formúla mun vera nokkuð gömul, en tala
mætti um að á síðustu öld hafi verið venja að fara að stía átta vikur af
sumri, en 10 vikur af sumri var fært frá. Stóð stekktíð þá yfir í hálfan
mánuð eða 2 vikur. Stekktíð var líka kölluð stekkjartími. Ekki var fært
frá öllum mylkum ám, eikki þeim er áttu síðborin lömb. Stekkjarvinna nefndist
að stía, vera á stekknum. T.d. við erum að stía. Við erum á stekknum. Lambfé
var rekið á stekkinn sem síðast fyrir hátta -tíma. Þegar stíað var voru
lömbin látin í lambakróna, en ærnar látnar út og hafðar úti um nætur. Að
vísu var undantekning frá þessu, því fyrir gat komið að ærnar hlypu til
fjalla eða þá heim í túnið, og var þá breytt um, ærnar inni en lömbin úti.
Upp úr rismálum voru ærnar reknar inn til mjalta að morgni eða svo
snemma sem hægt var. Það þótti sjálfsagt að mjólka snemma og hleypa saman,
hvort sem ærnar voru úti eða inni um nætur.
p5
Ær voru hálfmjólkaðar
á báðum spenum. Stekkjarmjaltir voru nefndar að mjólka frá. Stekkjarmjólk
var kostminni en önnur mjólk. Það var von að hún væri það, það er feitasta
og kostmesta mjólkin, sem síðast kemur úr júgrinu, en þá var hún skilin
eftir. Til matar var hún notuð sem önnur mjólk í skyr og grauta.
Það fór eftir því hvort ærnar voru fjallsæknar eða hagaspakar, hvort
setið var yfir stekkjarfé. Ef þær voru spakar, þurfti ekki að sitja yfir
þeim, annars þurfti að gæta þeirra vel. Sauðaefni var gelt
á stekknum. Tvo menn þurfti við þá athöfn, annar hélt lambinu, sat hann
réttum beinum eða á lágu sæti, lambið setti hann á kné sér, bakið niður,
kviðurinn upp. Síðan tók hann fætur lambsins, aftur -fót og framfót saman,
í hvora hönd. Þá kom geldingamaður og spretti 2 ben á pung lambsins og
dró eistun úr. Var þetta kölluð fjaðragelding. Önnur aðferð var sú, að
taka með einu beni neðan af pungnum og var það meira sár. Það var kallað
stúfgelding. Venjulega fór þetta allt vel. Áríðandi var að ærnar hefðu
gott næði fyrstu dægrin á eftir og gengju á þurru landi. Ekki mátti láta
nýgelt lömb inn í lambakróna. Lömbin voru mörkuð á stekknum,
og þurfti að gera það nokkru áður en sauðarefni voru gelt. Aldrei voru
lömb mörkuð í kari. Oftast mun bóndinn hafa markað sjálfur, en stundum
annar heimilismaður, sem bóndinn bar traust til. Vasahníf sinn notaði mörkunarmaður,
og hélt honum í hendi sér meðan hann beið eftir næsta lambi, annar maður
bar lömbin til þess er markaði. Það var vandasamt ábyrgðarverk að marka
lömbin. Á því byggðist eignarréttur hvers fjáreiganda, að rétt og vel væri
markaði. Oft hefur hlotist eignamissir, deilur og fjársektir, út af illa
mörkuðu sauðfé. Gróf eyrnamörk kölluðust soramark. Það mun hafa þekkst
að bera mold í eyrna -sárið, en best þótti að láta físisvepp (kerlingareld)
á sárin ef mikið blæddi.
p6
Það var oft gert
að skrúðadraga lömb í eyrun, til að geta þekkt þau aftur, er þau komu af
fjalli. Ef börn og unglingar eða vinnuhjú áttu kindur, og fengu að nota
mark bóndans, þá var venja að skrúðadraga til að þekkja hvað hver átti.
Skrúðarnir voru með ýmsum lit og látnir á víxl í eyrun. Það var kallað
að skrúðdraga eða skrúða. Algengt var að gefa smalanum og börnum stekkjarlamb.
Og var það oft upphaf að fjáreign barna og unglinga, er síðar varð stór
hjörð hjá sumum. Fráfærur: Orðið fráfærur var miðað við tímann,
sem það tók að færa frá, það var að taka lömbin frá ánum, reka þau á fjall,
ef það var gert, spekja þau á fjalli og svo að spekja ærnar heima. Ef lömbin
voru rekin á fjall, þurfti að setja þau, sem kallað var, 1 dag meðan mesti
jarmur var á þeim. Sumsstaðar voru þau ekki rekin neitt, en látin hlaupa
um stekk. Ærnar voru þá reknar heim og þeirra gætt, í annarri átt frá stekknum.
Þá þurfti ekkert að hafa fyrir lömbunum, en heldur meiri pössun með ærnar.
Þessi fráfæruvinna tók 3-4 daga, eftir ástæðum og umhverfi. Lömb
voru færð frá 4 vikna, helst ekki yngri. En 7 vikna þau elstu. Ærnar færnar
fóru að bera 3 vikur af sumri, þær fyrstu, en það stendur yfir 3-4 vikur,
og fráfærur fór fram 10 vikur af sumri eins og fyrr er minnst á. Síðborið
lamb var kallað síðborungur. Orð um lömb sem týndu mærðum sínum
voru undanflæmingur, undanvillingur. Móðurleysingi ef ærin fórst á vori.
Það kom stundum fyrir að ull datt af lömbum. Það kom af vanþrifum á einhvern
hátt. Það voru kölluð öfugsnáðar.
p7
Þegar lömbin voru
skilin frá mæðrunum voru ærnar reknar í stekkinn að kvöldi eins og meðan
var stíað. Lömbin látin inn í lambakróna, en ærnar reknar heim og inn í
hús. Að morgni voru lömgin látin út og rekin á fjall, ef það var gert.
Ærnar svo látnar út og passaðar heima. Þegar fært var frá á þann
hátt að reka lömbin ekki á fjall, eins og minnst er á hér að framan, en
taka ærnar heim, láta lömbin vera eftir hjá stekknum, þá dvöldu þau þar
við stekkinn og í námunda við hann um tíma. Þá var sagt að þau hlypu um
stekkinn. Sama var með ærnar, þegar lömbin voru rekin á fjall. Þá var ánum
lofað að vera við stekkinn eftir vild. Þar rásuðu þær um þar sem lömbin
voru tekin frá þeim. Þá var sagt að þær væru að hlaupa um stekkinn. Dæmi:
Ég rak lömbin ekki, ég lofaði þeim að hlaupa um stekk. Það er ekki setið
yfir ánum, þær fá að hlaupa um stekk.
Fráfærulömb gengu
undir nöfnunum fráfærulamb, gjalllamb, graslamb. Það hefur þekkst að fráfærulömb
væru flutt í kláfum eða laupum yfir ár á leið í sumarhaga. Að reka lömb
ekki kvik í sumarhaga. Þetta eru þekkt orða -sambönd. Þau tilheyra gamla
tímanum. Meining þeirra var sú, að reka lömbin ekki meðan mesti jarmur
var á þeim. Það þurfti þá að róa þau og spekja áður en þau voru rekin í
sumarhaga. En þá þurfti ekki að setja þau þar.
p8
Orðin að róa eða
spekja voru notuð um að spekja lömb. Skilnaðar -jarmur var kallaður skilnaðaróður.
Orðatiltækið "eins og jarmur á stekk" var notað um klið og hávaða.
Það var eins og jarmur á stekk eða við stekk. Það var eins og jarmur í
rétt. Lýsisspónn var borinn í hrygg á fráfæru -lömbum til þess að verja
vatni að baki lambsins. Lýsið hrinti vatni af kroppi lambsins. Það voru
vissir staðir í landareigninni, sem fráfæru -lömbum var haldið í, og örnefni
eru til staðar. Lambagil, Lambadalur, Lambaflöt, Lambalág, allt nærtæk
örnefni. Það var reynt að koma fráfæru -lömbunum í það besta afréttarland,
sem kostur var á að fá hverju sinni. Lömb voru oft flutt nokkuð
langt. Oft var höfð leitarskipti, t.d. að fjallabændur tóku lömbin í haga,
en létu svo hross til bænda þeirra er höfðu léttara land, kostaminna. En
útigönguland fyrir hrossin betra. Þetta var stundum haft þannig, en að
sjálfsögðu hefur önnur borgun komið stundum. Við nákvæma yfirvegun sé ég
að þetta lætur nærri með hagatollinn, sem talað er um í spurningunni. Eftir
1880 til adldamóta, eftir að dala og spesíumynt var úr gildi, þá var hagatollur
fyrir lamb 20 aurar. Þá var gangverð á lambi 4 krónur. Þá er borgun þannig,
1 lamb borgar fyrir 20. Lömbin voru setin fyrstu dagana í
sumarhaganum. Um það hefur verið sagt hér framar. Gæslumenn höfðu byrgi
til skjóls fyrir sig, þau voru kölluð hjásetubyrgi. Þegar
lömb leituðu heim úr sumarhögum, var leppur bundinn fyrir augu og reidd
burtu, og reidd í aðra átt en þau höfðu farið áður. Það gafst oft vel.
p9
Lömb sem sóttu, hvað
eftir annað saman við kvífé hétu sugulömb, þau voru reidd burtu og bundið
fyrir augu þeirra. Það tókst alltaf að losna við þau þannig. Lambakefli
var tálgað til úr spýtustubb eða birkikvisti. Var að gildleika sem stór
nagli, um það bil 4 tommur að lengd. Þurfti að vera vel slétt svo tunga
lambsins særðist ekki, smá hnúðar voru á báðum endum.Innan við hnútana
voru hnýtt bönd, þá var keflið fullbúið til notkunar. Það var svo sett
þversum upp í munn lambsins, og böndin hnýtt saman upp í hnakka. Þá var
búið að kefla lambið. Það kom fyrir að lömb særðust undan kefli. Helst
í munnvikum. Áttu þá bágt með að bíta gras, og ef brögð urðu að, misstu
þau jórtur og munnvatn., og var þá sagt, að þau felldu löginn. Þá þótti
ekki hægt að hafa þau með kefli, og var þá kallað að afkefla lömbin. Ekki
kom það fyrir að fjárlitlir bændur færðu frá með keflingu. Ekki voru lömbin
látin ganga með keflunum til hausts. Það mun hafa verið aðeins
fjárlitlir bændur sem notuðu kefli, og var gert á þann hátt að fyrst eftir
fráfærur var þetta viðhaft til að flýta fyrir að róa lömbin, áður en þau
voru rekin í sumarhaga. Það er óhugsandi að margir tugir lamba hafi verið
meðhöndluð þannig. Lömbin voru með keflin í 1-2 vikur, ef þau þoldu keflin.
Þegar lömb komu af fjalli, voru þau tekin í pössun, vöktuð
vel á daginn, en byrgð inni um nætur. Víða voru þau höfð í nátthaga eða
þar til gerðu byrgi. Þau voru byrgð á þurrum stað, þar nærri sem lambabeitin
var. Þau voru höfð það stór að rúmgott væri á lömbunum, háir veggir til
skjóls, þannig voru lömbin geymd á haustin meðan ekki kom snjór. Enn má
víða sjá rústir eftir lambabyrgi og örnefni eru líka kunn í sambandi við
þau. Hjásetan: Að halda kvífé á haga nefndist hjáseta. Það
var einkum starf barna og unglinga og roskinna manna, er ekki gátu gengið
að heyvinnu.
p10
Sérréttindi smalans
voru þau að hann fékk ærnyt og baug á trogi. Einnig froðu alla, er kom
á ærmjólkina að ógleymdum skánum og froðu af flóningarpottinum. Hann fékk
næstfyrstu ærnytina á hverju máli. Smala -hundurinn þá fyrstu. Mjólkina
drakk smalinn úr kúskel og með henni spændi hann froðuna upp úr fötunni.
Smalanum var ætlaður sérstakur hestur til reiðar. Smalaspor
var á síðum hestsins við framnára. Þegar sest er á bak hesti berbakt með
blauta og leiruga fætur, þá kemur leirugur blettur á hestinn. Það var kallað
smalaspor. Smalinn hafði sér reiðver, sem var ullarþófi stundum saumaðir
saman 2 ullarflókar í þá var saumaður fléttingslindi, sem náði yfir hestinn.
Í endana á honum voru bundin hornístöð. Að sjálfsögðu var þófinn girtur
með gjörð. Beislið var gert af ullarfléttingum, en jármél heima -smíðuð.
Reiði var enginn. Það voru margir sem höfðu hornístöð á reiðverum sínum.
Líka riðu margir á þófa. Sumir þófar voru tvílitir og jafnvel meira. Það
var með þeim hætti að sauma saman ullarflóka af ósamstæðum lit. Hefur það
verið gert af tilbreytni. Smalinn hafði sérstakan nestismal.
Það var saumaður vaðmálspoki, ekki stór og saumaðir í hann fléttingar.
Pokann hafði hann undir hendi og brá fléttingnum yfir öxlina hinsvegar.
Var það ekki ólíkur útbúnaður og skóla -töskur barna gerast nú á dögum,
að öðru en því, að efnið var annað. Stafur smalans nefndist
smalastafur. Með hún á efri enda, en járnhólk á neðri enda. Gert til þess,
að hann trosnaði ekki upp.
p11
Það var eftir staðháttum
komið, hvaða verk smalinn gat unnið með hjá -setunni. Ef berjaland var
nærri gat hann safnað berjum, er kom sér vel að láta í skyrið. Ef skógur
var nærtækur, gat hann rifið hrís og sett í kesti, sem sótt var þá seinna,
og ef hann var með ærnar í námunda við mó- ruðninginn, þá var gott að rétta
við það sem datt niður ú móhrúgunni, og þá allt eins að búa til nýjar.
Hvað smalinn gerði sér til skemmtunar hefur verið breytilegt eftir upplagi
hans og lundarfari. Sumir smalar söfnuðu steinum og höfðu fyrir kindahjarðir
eða þá að þeir fluttu búslóð sína heimanað á hjásetusvæðið, horn, leggi
og kjálka, og þá var ærin vinna að sýsla við það. Stundum gátu smalar frá
2 bæjum setið yfir saman, og þá var tíminn fljótari að líða. Margir smalar
vöndust einverunni með kindunum og tómstundavinnu sinni, en veðrið hafði
sitt að segja. Smalinn átti skýli til að hlífa sér í. Það var kallað smalakofi
eða smalabyrgi. Það var mismikið smalanestið sem og annar matarskammtur.
Hertur fiskur, kjöt og slátur var algengast smalanesti. Einnig skyr og
mjólk. Rakkanum var ætlað nesti, slátur og skófir, mjólk fékk hann á kvíum,
fyrstu ærnyt. Smalanesti það er hér er lýst miðast við heimili, þar sem
matarvist var góð. Vitanlega var það mjög ólíkt, eftir efnum of ástæðum.
Setið var yfir kvífénu framan af sumri, en þegar leið nokkuð
frá frá- færum fengu ærnar að vera sjálfráðar, t.d. eftir nón, kl. 3-4
eftir nútíma, og fram á mjaltir, en eftir ágústmánaðarlok, var hætt að
sitja hjá. Var þá ánum smalað nokkru fyrir mjaltir. Ærnar
voru byrgðar í nátthaga, ef hann var til, en stundum í húsi, einkum ef
veður var ekki gott. En stundum voru þær hafðar í kvíunum að næturlagi.
Það voru einungis færikvíar, sem þær voru geymdar í. Voru þá kvíarnar stækkaðar,
bætt við 1-2 flekum. Ef ærnar voru byrgðar inni, sem sagt hefur verið,
voru þær látnar snemma út á morgnanna eða svo fljótt sem hægt var. Hvað
lengi þær voru hafðar í kvíum eða húsi, fór eftir því, hvort þær voru fjallsæknar
eða á annan hátt rássamar. En 2-3 vikur voru þær alltaf geymdar inni um
nætur.
p12
Þegar komið var á
fætur þurfti smalinn að fara með ærnar í haga og veita þeim eftirtekt til
mjaltatíma. Ærnar æattu að vera komnar í kvíar um dagmál, þá þurfti að
hefja smölum með hliðsjón af því. Að kvöldi var farið að smala eftir miðaftan,
ef ekki var setið hjá ánum, eða síðsumars, þegar hætt var að sitja hjá.
Smalinn fór eftir eyktarmörkum með heimrekstur. Líka var sett upp veifa,
ef smalinn var það nærri, að hann sæi heim að bænum. Oft mun svefntími
smalans hafa verið stuttur, og eru ýmsar sagnir til um það. Stundum svo
að smalar sofnuðu í hjásetunni og jafnvel í smala- ferðum, en það hafði
oft slæm eftirköst. Um svefnstað smalans er það að segja, að hann svaf
í bænum, eins og hitt fólkið, en oft var hann ekki látinn fara úr fötum
á meðan ærnar þurftu mesta pössun. Margar sagnir lifa enn um slæma aðbúð
er smalar áttu við að búa. Einkum voru það unglingar er fyrir því urðu,
ef húsbændur voru vinnuharðir og ónærgætnir. Víða var þetta líka í góðu
lagi og til fyrirmyndar. Það hefur verið allra fjármanna siður,
að kalla saman fé með því að kalla gibba, gibba, gibb, og var það eins
með ærnar á sumrin. Um 2 kvíar á tvíbýlisjörðum, hefur verið svarað hér
að framan um fastar kvíar. Það var eins með færikvíar, að það var spölur
á milli þeirra. Kannast við orðtakið: Sér eignar smalamaður fé, þó hann
eigi ekki.
p13
Kvífé: Það var oft
gert, að auðkenna kvíaær á einhvern hátt, t.d. að binda tusku um horn þeirra,
klessa svartri slettu af biki eða öðrum lit á krúnu þeirra eða tortu. Aðallega
var þetta gert, svo að smalinn ætti hægar eð að þekkja þær frá geldfé,
sem kom oft saman við ærnar. Kindur sem sóttu í tún öðrum
fremur nefndust meinhorn og túnþjófar. Til verndar fé gegn tófunni var
gert með bjöllum eða hundsskinni og tjörukrossi. Bjöllur voru notaðar
til að auðveldara væri að finna sauðfé í dimmviðri eða þoku. Svo þótti
fjármönnum gaman að hafa bjöllukind. Íslenskir koparsmiðir steyptu sauðarbjöllur.
Júgurbólga þekktist ekki fyrr á árum. Það var fyrst nokkru eftir
aldamót 1900, að danskur dýralæknir fann upp meðal við júgurbólgu í kúm.
Þá sá fólk það að undirflog í ám var júgurbólga. Áður fyrr var steindepli
kennt um undirflog, að ærnar færu of nærri hreiðri hans, en síðar var það
ljóst, júgurmeinið í ánum var júgurbólga.
p14
Stundum var undirflog
nefnt undirflug. Reynt var að lækna undirflog með lyfjagrasi og vallhumal,
soðið saman og borið á júgrin. Kvíahelti var mjög leiður kvilli í kvífé,
hefur líklega verið gigt. Mjaltir: Mjólkað var í venjulegar
tréfötur og svo hafðar aðrar fötur til að losa í jafnótt og mjólkað var.
Það þótti ekki gott að vera með mikla mjólk í fötunum með mjöltunum. Ærnar
voru oft ókyrrar og þurfti oft að halda í þær um mjaltir. Smalinn átti
að vera við kvíarnar á meðan mjaltir stóðu yfir og hjálpa mjaltakonum.
Mjólkin var svo borin heim í fötunum, sem ekki var mjólkað í. Mjaltaföt
sem notuð voru í kvíum nefndust kastpils og kvíahosur. Pilsið var saumað
úr grófu vaðmáli eða einskeftu, en hosurnar voru framleistar af sokkum.
Mjaltakona varð að standa hálfbogin, sem kallað var, við mjaltirnar.
Hún hafði fötuna við kné sér. Tók svo með hægri hendi utanum spena ærinnar,
en með vinstri hendi tók hún um júgrið að framan, studdi við það meðan
hún mjólkaði. Hún stóð fyrir aftan ána og mjólkaði báða spena á víxl með
sömu hendi, þar til búið var. Ær var tvímjöltuð framan af sumri, nefndust
fyrrimjölt og seinnimjölt.
p15
Eftir fyrri mjölt
var sett froða með fingri á aðra lend eða tortu ærinnar, og eins á hina
lend eftir seinni mjölt. Þetta var gert til þess að þekkja þær er búið
var að mjólka. Var kallað að penta. Sumar mjaltakonur settu froðukross
á ærnar að lokinni fyrri mjölt, en pentuðu við síðari. Krossinn átti að
vera á miðju baki ærinnar og verja slæmum vættum að komast að ánni.
Ef gengið var of nærri ám við mjaltir var það nefnt að naga ærnar.
Fyrstu kvíamjaltir á hverju sumri nefndust gleypumál. Matreitt úr þeirri
mjólk með sama hætti. Þeir sem að fráfærunum unnu máttu hafa þann mat er
úr mjólkinni vannst, sér til aukaglaðnings eftir vild. Ekki voru ær vinnu-
hjúa og barna mjólkaðar í sérílát í kvíum, heldur ær húsmennskuhjóna. Mjólkinni
hellt saman í kagga eða kvartil. Smjör var unnið úr mjólkinni. Afurðirnar
notaðar til heimilisnota. Ílát sem þessi sérmatur kom í nefndist undangerðarkaggi,
undangerðarkvartil. Það var altítt að húsmennskufólk fékk að hafa
undangerðarær í kvíum, t.d. ef það vann á heimilinu tíma á slætti, og þá
kannske hjálpaði líka til við mjaltir. Húsmennskukonan strokkaði sína undangerð
eins og hún var úr kagganum eða kvartelinu, er haust kom. Var smjörið kallað
undangerðarsmjör, en áfunum hellti hún saman aftur, og voru þær kallaðar
undangerðarsúr. Þótti þetta mikil búbót hjá fólki, sem ekki átti mjólkur-
von á vetri. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé, var það nefnt nytin dettur
úr ánum. Viku fyrir réttir var farið að mjólka einu sinni á dag, en þegar
réttir komu, þá tvisvar í viku og svo hætt í septemberlok.
p16
4-5 dagar voru látnir
líða milli næstsíðustu og síðustu mjalta í kvíum, 8-10 dægur. Að hreinsa
ærnar, var það kallað, er síðast var farið undir ærnar. Síðasta málsmjólk
í kvíum nefndist sauðaþykkni, flóuð og borðað sem spónamatur. Um
meðferð sauðamjólkur, hefur verið svarað í fyrri þjóðháttarskrá, ekki man
ég hverri, og vísast til þess. Þjóðtrú: Eyrnasneplar sem skárust
brott þegar lömb voru mörkuð var stungið í veggjarholu. Það átti að marka
lambakónginn fyrstan allra lamba, fyrsta hrút, sem fæddist það árið. Lömb
voru mörkuð með aðfalli.
p17
Því var trúað, að
eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Fjármörk, sem þóttu lánast vel, voru
ekki látin falla niður. Ef gamall maður, sem hættur var að eiga fé gaf
ættingja sínum eða öðrum markið sitt, var álitið mesta ógæfumerki að leggja
markið niður eða nota það ekki. Væri markið happasælt, þótti lagður grundvöllur
að fjárheill þess er gamla markið fékk. Svo var sterk trú á fjármörkum
og notagildi þeirra. Það er þekkt fyrirbæri, að lamb fæddist
með marki, er síðan var upp tekið. Hrútlömb voru gelt með
aðfalli, til að forðast að blæddi mikið. Það var sagt að tófan tæki frekar
það fé, sem börn höfðu kysst. Stekkjar- og kvía- kampar voru aðeins hlaðnir
með aðfalli, til þess að féð gengi betur inn. Helst var reynt að
láta salt í eyru til að spekja fé. Þótti það gefast vel. Froðukross var
settur á hverja á eftir mjaltir. Hann var látinn á miðjan hrygg ærinnar.
Var gert til að varna slæmum vættum að ánum, undir- flogi ofl. Það var
signt yfir ærnar í kvíunum áður en út var hleypt. Það gerði mjaltakonan.
p18
Álfabruni nefndust
útbrot á nösum sauðfjár að sumri. Tjörukross mun hafa verið lengst reyndur
af þessum gömlu hjátrúar meðulum til að lækna undirflog. Það var krossmarkið
sem fólkið treysti á, og reyndi sér til hjálpar á ýmsan hátt. Það var almenn
trú að undirflog væri af því að fugl hefði flogið undir ána. Snakksog var
líka talað um, en hitt var meira um talað. Til varnar þessu átti froðukrossarnir
að vera, sem mjaltakonur létu á bakið á ánum að lokinni seinni mjölt, og
getið er um hér framar. Að sjá lambær í draumi á vetri, boðaði
snjókomu. Að gefa fé í draumi, boðaði fjármissi. Að sjá í draumi hrúta
stangast, boðaði ófrið milli nágranna.
p19
Selfarir: Smalinn
sá um ærnar að öllu leyti í haga. Lét þær út úr nátthaga snemma dags, ef
þær voru geymdar þar um nætur. Víða voru ærnar baldnar við selið eftir
mjaltir á kvöldin. Þá þurfti smalinn að vera árvakur að morgni, þegar þær
stóðu upp og dreifðu sér. Svo rak hann þær í kvíar, þegar mjaltatími var
kominn. Eftir mjaltir fór hann með þær í hjásetuna. Var þar með þær til
kvölds. Lét þær svo í kvíarnar. Eftir mjaltir í nátthagann eða hann taldi
þær. Stóð yfir þeim þar til þær lögðust. Fyrr á öldum munu
kýr og ær hafa verið hafðar í seli. En langt er síðan að sögur herma að
kýr hafi verið í seli, og víst er að svo hefur ekki verið á síðustu öld.
En meðan svo var, nefndist það búsmali. Ekki var nema 1 bóndi
um sel, nema tvíbýli væri á jörð. Húsum var þannig háttað, að svefnhús
og mjólkur- hús var eitt og sama hús. Inngangur á hlið, og þá svefnhús
til vinstri, en mjólkurhús til hægri t.d. Þetta hús var mjótt, eitt rúm
við hvora hlið, mjór gangur á milli. Þar við var svo mjólkurhúsið (ekki
skilrúm á milli) með sínum mörgu hillum. Breiddin miðuð við að hillur með
trogum væru við báðar hliðar, en mjór gangur á milli, en lengd var eftir
því sem þurfa þótti. Svo var eldhús. Þar var mjólkin flóuð og matur soðinn.
Það var lítið, tvenn hlóð þurftu að vera, en lítið gólfpláss. Bæði þessi
hús voru gerð mest upp með raftvið. Venjulega var aðeins ein
kona í selinu, og var hún nefnd selráðskona, en stundum voru þær 2 fyrst
eftir fráfærur meðan mest var að mjólka og meir mjólkurvinna, þá var önnur
stúlkan kölluð hjálparkona. Selráðskona hafði alla matreiðslu
á hendi. Sá um skyrgerð og smjörgerð, þótt hjálparkona væri líka. Mjólkurafurðir
voru fluttar heim vikulega. Flutt var í belgjum og skrínum skyrið. Sýran
í belgjum og kvartilum. Smjörið í skrínum og barkrókum. Þessi ílát voru
aðallega ætluð til þessara flutninga. Það var verið í selinu
fram í miðjan ágúst eða ágústloka. Það var nokkuð eftir veðri komið. Þegar
sá tími var kominn, sem að ofan getur, var allt flutt úr selinu. Öll ílát,
allt sem smala og selsráðskonu kom við, svo sem fatnaður ofl. allur matur
og svo ærnar. Eftir að komið var úr selinu voru ærnar hafðar
nærri bæ og smalað til mjalta kvöld og morgun. Ekki munu færikvíar hafa
sést í seli. Útbreiðsla þeirra var ekki orðin víða, er selförum var hætt,
en nátthagar voru við sum sel og voru það mikil þægindi fyrir smalann.
Þess verður að geta að ekki gat 9-12 ára unglingur verið selsmali. Það
þurfti duglegan ungling eða roskinn mann til að gæta ánna í seli.
Það má segja að selfarir hafi lagst niður að mestu leyti um miðja
19. öld og víða nokkru fyrr. Þó var verið með ær í seli nokkru lengur eða
fram um 1880, en víða var það ekki. Sumsstaðar var tekinn
upp búskapur í seljum eftir að hætt var að vera þar með ær. Í einu seli
hér skammt frá var búið fram á annan áratug þessarar aldar. Og rústir af
2 öðrum selkofum eru hér nærri, þar sem verið var í seli síðast 1880.
Starf selsmalans var mjög ónæðissamt framan af sumri. Þegar hann
þurfti að gæta ánna um nætur jafnt og daga. En svo var starfið hægara er
leið á sumar. Smalanum var aldrei ætlað annað verk en ærpössun.
Oft var sóst eftir að vera selráðskona, og bar fleirra en eitt til
þess. Þær voru sjálfum sér ráðandi. Höfðu ráð á matföngum, og ef þeim gekk
starfið vel komust þær í álit sem búkonuefni, og ekki var neitt óvanalegt
að betri bændadætur óskuðu eftir að fá að ráðska í selinu á næsta sumri.
Munnmælasagnir eru til enn á vörum alþýðu, er snerta sel og
selfarir. Sumar þeirra eru dulrænar, aðrar úr daglegum viðskiptum samtíðarmanna.
Allt sem sagt er um sel og selfarir er miðað við að 1 bóndi
væri með selið. Það var líka venjulegast. Hitt bar við að tvíbýli væri
á jörð. Þá var oftast selför aðeins frá öðrum bónda.