Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFráfærur
Spurningaskrá8 Fráfærur I

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1875

Nánari upplýsingar

Númer518/1962-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1962
Nr. 518

p1
Stekkur: Stekkir eða innrekstrarbyrgi voru með ýmsu móti. Ýmist hringlöguð eða köntuð, úr torfi eða grjóti, eða hvorttveggja, oft hlaðin við hamraklett, ef nærtækur var og gott til efnis. Stærðin eftir bústærð bónda þess er byggði hér eru í landareign 12 stekkjaleyfar, flestir með lambakróm áföstum. Sumir nokkuð stórir en aðrir litlir, sem benda á tví- býli. |p2 Það virðist að stekkir með lambakróm hafi verið byggðir um allt með hliðsjón af að þægilegt væri aðrekstrar, en ekki vegalengd. Oftast mun stekkurinn einnig hafa verið notaður sem rétt. Ekki veit ég um marga bæi um einn stekk, en þar sem var tvíbýli og þríbýli, varð það að vera, vegna samgöngu. Fyrir áburð frá fénu uðru grænir blettir í kringum alla stekki, ef svo hagaði til og sumir hafa nú girt og kalla stekkjatún. Lambakró nefndist lambabyrgi eða lambakró. Lambakróin var nefnd rétt eða ærbyrgi. Á lambakrónni voru bara mjög litlar dyr, aðeins fyrir smálömb að fara um með hurðarfleka á stöfum, til varnar að ekki færi saman, og króin yfirbyggð, misjafnlega traust með opi. Ef sérstakt gat var á krónni var það nærri dyrum annars voru lömbin sett inn um dyrnar. Kvíar: Kvíar voru mismunandi eftir bústærð. Alltaf munu þær samt hafa verið aflangar, legnd eftir ærfjölda, frá 20-180 ær. Breiddin vanalega ca. 3 ærlengdir. Alltaf veggir úr grjóti, ef nokkur kostur var. Byggðar á þéttum grundvelli, ef til var nærtækur, annars varð að rokka til með þær árlega, því allt tróðst upp. Sumsstaðar var mjaltað í fjárhúsum, þar sem fátt var. Alltaf hugsað um að hafa kvíar nærri eins og hægt var, svo sem styðst þyrfti að bera mjólkina. |p3 Hvort fastakvíum var haldið við fór eftir ástæðum og skapferli og fastheldni hvers og eins. Þær þurftu alltaf að vera í standi þegar að fráfærum leið. Ég held að kvíar hafi undantekningarlaust verið hafðar eins nærri bæjum og tiltækilegt þótti hverju sinni, en aldrei í túni. Mjólk var oft mikil og fötur stórar, og ósléttur kvíavegur meðan tún voru þýfð. Kvíar voru hreinsaðar daglega ef úrfelli voru. Held varla að taðið hafi verið notað til áburðar, því vanalega voru kvíarnar á grýttum stað. Ekki voru dæmi þess að grindagólf væri í kvíum. En flóraðar með hellugrjóti, þá mátti hirða áburðinn. Það munu yfirleitt hafa verið tvennar kvíar á tví- býlisjörðum. Bil var á milli þeirra, helst sem lengst, ef setið var saman, þá skyldu ærnar sig betur. Kvíarnar voru vanalega á bala eða einhverjum hávaða og hann fékk nafnið kvíaból eða stöðull. Talað varum að fara á kvíabólið eða stöðulinn, sennilega dregið af því, að þar stoppuðu ærnar sjálfkrafa. Færikvíar munu ekki hafa þekkst hér í sýslu fyrr en seint á 19. öld, og þá voru þær alltaf úr borðviði, grindur með þverstólpum á 3-4 stöðum, hver grind fest saman með snærum. Hvort tveggja tíðkaðist færikvíar og fastakvíar. Það varð að vera sérstakur jarðvegur undir færikvíum, vel þéttur. Þær þóttu kaldar, bæði fyrir mjaltakonur og ær. Það mun hafa verið gert að rækta upp tún með færikvíum, þar sem sléttir og þéttir melar voru og svo á grundum og bölum. |p4 Grindatað var ekki notað til eldsneytis, því færigrindur voru færðar til um túnið eftir sléttu blettunum, eftir 1-2 daga. Nátthagar: Á öllum betri bæjum voru girðingar, nátthagar fyrir ær að liggja að nóttunni og lömb að haustinu, eftir að þau komu af fjalli. Þetta voru misjafnlega stórar girðingar, veggir hlaðnir úr torfi eða grjóti, allt að axlarháir meðalmanns. Á Hvítadal í Saurbæ hjá Guðbrandi Sturlaugss. voru nátthagar í kringum túnið og allir slegnir á víxl, nú eru þeir tún. Stekktíð: Stekktíð mun hafa byrjað vanalega 6-7 vikur af sumri og stóð til fráfærna 10 vikur af sumri. Stekkjartími var kallaður stíunartími, stekktíð. Fært frá öllum mylkum ám, hjá fátækum svo nærri gengið að ef lömbin ekki voru 3.v. voru ærnar passaðar með kvíaánum, þar til þau voru 3 vikna, en helst þurftu þau að vera 4 vikna. Stekkjarvinna nefndist að stía, sinna stíunum. færa stekkinn. Lambféð var rekið á stekkin að kvöldi í kringum 9-10. Ánum var hleypt út úr réttinni og lofað að vera frjálsum yfir nóttina og maður leit eftir þeim fyrstu næturn
ar að tvævetlur ekki hlypu burt, sem oft vildi verða. Það var farið á stekk að morgni í síðasta lagi kl. 5-6 eftir því hvað margt var að mjólka, og ýmsum ástæðum. Lömbin máttu ekki vera lengur inni en 6-7 tíma. |p5 Hver ær var mjólkuð aðeins á öðrum spenanum. Sumir munu hafa mjólkað lauslega báða spena, töldu ánum það betra. Stekkjarmjólk þótti kostminni en önnur mjólk, ef mjólkaðir voru báðir spenar. Hún var notuð til matar eins og önnur sauðamjólk, til smjörs og skyrgerðar. Þar sem ekki voru fjallalönd, voru ærnar ekkert passaðar, látið ráðast hvað kæmi að kveldi. Sauðarefni voru gelt á stekktímanum, en þá ekki stíað. Gelt svo kallaðri fjaðrageldingu og eistun svo dregin út, pungnum svo lokað, tekinn saman. Ekki voru lömbin mörkuð á stekknum. Það fór eftir ýmsum atvikum hvar lömb voru mörkuð. Bóndinn markaði víst oftast og einnig smalinn, ef hann var fullorðinn. Hnífnum stakk hann eða lagði á réttarvegg á meðan lambi var náð, sem oftast gerði annar. Ef talið var jafnóðum var gert strik við hvert lamb á pappaspjald. Gróf eyrnamörk kölluðust soramark. |p6 Að skrúðdraga lömb í eyrun var gert bara til auðkennis, þegar fleiri en einn átti með sama marki, og svo til að þekkja, ef eitthvað sérstakt var. Algengt var að gefa börnum stekkjarlamb, þegar þau fóru að geta passað féð, setið hjá. Þegar stíað var, var vanalega heldur seinna fært frá því stíunin ................ úr lömbunum og dró úr bröggun ánna. Stekktíminn var mikill ónæðistími fyrir bæði menn og skepnur, nærri verri en slátturinn. En þá bjargaði mörgum leiguliðanum með að standa í skilum með leigur. Fráfærur: Tíminn sem tók við af stekktíð nefndist fráfærur. Fráfærur voru þó nokkuð á mismunandi tíma, eftir því hvenær bar, hvað gróðri leið til fjalla og svo ýmsum atvikum. Annars var oftast fært frá í 10. viku ...ef kostur var. Orðið fráfærur átti aðeins við þegar lömb voru tekin undan. Lömb þóttu of ung ef þau voru ekki mánaðar gömul, og gerðu engir nema fátæklingar út af þörf. Síðborið lamb nefndist sumrungur, ef það var borið eftir fráfærur, allt til leita. Lömb sem týndu mæðrum sínum nefndust undanflæmingur, undanvillingur. Í einu orði korku angi og síst voru þau lömb betri, sem tekin voru undan 2-3 vikna, voru oft bara aumingjar. Lömb með vanþrifum voru kölluð korkuangi, veslings móðurleysinginn, og svo ýmsum gælunöfnum. |p7 Vanalega voru lömbin tekin í réttinni á fráfærudaginn og heft á framfótum, svo rekin heim í fjárhús og höfð þar yfir nóttina, svo látin út daginn eftir, og pössuð. Sumsstaðar gefið inni í viku eða þar til þau voru rekin á fjall.Sumsstaðar voru lömbin borin úr stekk og heim. Lambahaft var úr togull, snúin saman ákveðin lengd, settur á fínn hnútur, svo geymd frá ári til árs, bætt við eftir atvikum. Ærnar hlupu um stekkinn fyrstu nóttina á meðan lömbin voru inni, þar til þær voru mjaltaðar og farið með þær til fjalla. Eins var með lömbin, þau hlupu um stekkinn, eftirlits lítil fyrsta daginn. Fráfærulömb gengu undir nafninu hagalömb, graslamb, hagfærlingur, fráfærnalamb og það held ég hafi verið mest notað. Það þekkti ég gert á Vestfjörðum að fráfærulömb væru byrgð í húsi fyrstu dagana eftir fráfærur, og virtist það gefast vel, langtum minni vinna. Meðan lömbin voru pössuð heima, máttu þau helst aldrei fara úr haftinu. Það mun hafa átt sér stað að fráfærulömb væru flutt í kláfum, ef lömb struku heim af fjalli, til öryggis að ekki kæmu aftur. Það mun hafa verið átt við að reka lömb ósetin allt svo með fullum jarmi, en það var sjaldan gert, þegar tök voru á að passa þau, sitja þau. |p8 Man ekki um nein sérstök orð í sambandi við aðskilnað móður og lambs, annað en færa frá og sitja lömb meðan jarmur var að fara af þeim. Skilnaðarjarmur nefndist móðursorg og söknuður. Eins og jarmur á stekk var notað um milinn hávaða t.d. á fundum, þegar hver talaði upp í annan, skipulagslaust. Eins og stekkjarkliður eða í fjarsafni. Orðið stekkjar- jarmur var notað í sömu merkingu. Iðulega var gert lýsi eða lúsasalf til að drepa færilús og varna kláða, svo og til að fæla tófu frá. Þegar verið var að venja lömb undan mæðrunum voru þau oftast pössuð, þ
ar sem þau voru tekin rá mæðrunum. Þau héldu sig helst þar. Víðast hvar hafði hvert býli fást ákveðið upprekstrarland, fjallajarðir. Nú er mjög víða hætt að reka á afrétt, en áður fyrr ráku allir sem ekki voru á fjallajörðum. Fjallatollur var alltaf greiddur (lögákveðinn) fyrir hvert lamb, mig minnir 1 vætt fyrir hvert, og stundum eftir samningi. Ekki tíðkaðist það hér um slóðir að lömbin væru setin fyrstu dagana í sumarhaganum. En sumsstaðar mun það hafa verið venja að reka þau með jarmi og setja þau á afréttinn. Þegar lömb leituðu heim úr sumarhaga var leppur bundinn fyrir augu og reidd burtu. Ef það ekki dugði, þá voru þau kefluð og höfð í kvíaánum. Þá vöndust þau brátt frá móðurinni og kom fyrir að þau sluppu með keflinu, og það var mjög vont. |p9 Sugulömb nefndust þau lömb, sem sóttu, hvað eftir annað saman við kvífé, þau voru kefld. En varð að sterkpassa að þau slyppu með keflinu, því það háði þeim mikið, jafnvel gat grafið í munnvikunum undan keflinu. Lambakefli ar búið til úr völdu efni, kvistalausu, helst mjúku efni, ca. 7-8 cm. langt vel kúpt í miðju. Tálgað til endanna, hvassydd. Það sem stóð útúr munnvikum gerð skora í kringum keflið, hnýtt þar um hampi eða því sem bundið var upp, yfir hnakka. Ef lamb þoldi ekki kefli, var sagt: Lambið fellir löginn. Það var af því kúptan var svo mikil að lambið gat ekki jótrað. Það þurfti mikla athugun þegar lömb voru kefld. Það kom fyrir að fjárlitlir bændur færðu frá með keflingu, en fáir munu það hafa verið, því það háði lömbunum, en ærnar mjólkuðu betur. Lömbin voru bara látin ganga með keflum þar til þau hættu að leita undir móðurina. Sumsstaðar voru fráfærulömin setin strax og þau komu af fjalli og höfð í girðingum að nóttunni eða bæld í skjólum. Fráfærur voru yfirleitt mikill ánauðartími, því varð að sitja yfir ánum nótt og dag, þar sem óvíða voru til girðingar, og það gerði stundum sami maðurinn. Hjásetan: Starfið við að halda kvífé í haga nefndist hjáseta, að sitja yfir. Á stærri heimilum voru yfirleitt vissir menn, sem höfðu féð allt árið til gæslu, jafnvel sátu hjá framan af sumri. Þar sem félítið var, var að starf barna og unglinga. |p10 Sérréttindi smalans voru ærnyt í kvíum, stallbaugur í rjómatrogi. Smalinn fékk skánina ofan af flóningapottinum, en aldrei vissi ég smalann fá froðuna í kvíum. Ærnytina drakk hann úr íláti sem haft var í holu í kvíaveggnum. Og mörg húsmóðir mun hafa gert vel við smala sína í mat. Mjög breytilegt, hvort smali fékk smalareiðar- sunnudag, og jafnvel ekki. Ekki þekkti ég að smala væri ætlaður hestur. Sumir áttu hest sjálfir. Smalafar varð oft á baki hesta, ef þeir tóku þá í smalamennsku. Flestir fullorðnir smalar munu hafa átt reiðver og beisli, ef ekki hnakk. Smalamal átti smalinn. Það mun oftast hafa verið þverbaks- poki með hólf á báðum endum, einfalt á milli, sem lá yfir öxlina, oftast úr sveru vaðmáli. Smalaprik nefndist stafur smalans. Hann var ýmist með brodd eða broddlaus. |p11 Aukastörf í hjásetunni: Ef það voru fullorðnir menn, sem sátu hjá, voru þeir oft látnir slá eða annað á meðan verið var að mjalta ærnar, þar sem vel var haldið til vinnu. Samt mun það aðallega hafa verið þar sem annar passaði á kvöldin, ef ekki var nátthagi. Ef ótt er við í hjásetunni, þá var það yfirleitt ekkert gert til skemmtunar, nema ef smalinn var smíðahneigður eða bókhneigður, og svo að hitta nágrannasmala, ef hægt var, þegar féð fór að spekjast. Það var oft nú oft margt brallað, ef hestar voru þar nálægir. En heima, eins og áður sagt, var alltaf vinna. Mjög víða áttu smalar hjásetukofa í aðal hjásetu- plássinu, sumsstaðar allgóðan, en líka sumir engan. Yfirleitt var smalanum víst heldur valinn matur, en líka sára lélegt. Ég þekkti til að smalinn hafði bara brauðsnarl með tólg eða bræðing við og þriggjapela flösku af undanrennu og harðfiskbita eða þorskhaus, hundurinn ekkert. Smalarakkinn fékk litla ærnyt í undirskál t.d., annars var þetta eins og flest sitt á hvað. Fór eftir getu og innræti á hverju býli, og ekki síst, hvort mjalta- stúlkurnar voru dýravinir. Sumsstaðar var hyllst til að fá íhvolfan stein, efst í kvíavegg fyrir hu
ndabolla. Það var afar misjafnt hve lengi var setið yfir kvífénu. Hvergi setið hjá allt sumarið, sumsstaðar mjög stutt, ef fáar ær voru og ekki fjalllendi. Bara smalað kvelds og morgna. Yfirleitt voru ærnar byrgðar í nátthaga um lágnættið 4-5 vikur. Sumsstaðar bældar á góðum stað í lægð eða skjóli. Þá fóru þær sjálfar í það langt fram á sumar. Þar sem margt fé var, var stundum setið yfir dag og nótt framan af, þá af öðrum á nóttunni. |p12 Það var víðast venja að láta ær úr náttbóli kl. 5-6 að morgni og reknar í kvíar kl 8-9 og verið 1-2 kl. að mjalta, eftir ástæðum. Að kvöldi áttu ær að vera komnar á stöðul 8.30-9. Öruggast var að fara eftir sjávar- föllum með heimrekstur, svo var talsvert ábyggilegt að fara eftir ánum sjálfum, þegar komin var regla og spekt á þær þá fóru þær á leið heim á sama tíma. Ef sami smali passaði að öllu leyti, var svefninn aðeins á meðan ærnar voru í bóli, en oftast passaði annar frá kvöldmjöltum til bóltíma ánna. Það var ótrúlega hægt að venja féð á að gegna, ef sami maður kallaði og sami rakki. Við innrekstur, þar sem 2 kvíar voru á tvíbýlis- jörðum, varð að draga í sundur fyrstu málin, en bráðlega skildu þær sig á kvíabólinu sjálfkrafa. Vísur og orðtök: Sér eignar smalamður fé, þó hann eigi ekki neina kindina, en flestum smölum var gefið lamb, ef þeir voru heimilisfastir. Kvölda tekur sest nú sól - sveimar þoka um dalinn - komið er heim á kvíaból - kýrnar, féð og smalinn. Sumir smalar pössuðu kýrnar líka. Ærnar mínar lágu í laut - leitaði ég að kúnum - allt var það í einum graut - uppá fjallabrúnum. |p13 Kvífé: Ég þekkti kvífé aldrei merkt, þar sem einbýli var, en þar sem tvíbýli var. Hálsband var nefnt helsi. Ef maður þurfti að reka á milli bæja, var hábandið annaðhvort mjótt snæri eða laggarn unnið úr togi. Þegar stygg ær var tengd við spaka var það nefnt að bendla eða spyrða saman. Var aðallega gert með styggar tvævetlur í kvíum. Ég heyrði að aðeins einn smali hefði tálgað af klaufum á kvífé, og það var talinn prakkaraháttur. Spakt fé var kallað rolur eða gufur. Stygg kind var kölluð fjallafála eða fjallafantur. Kindur sem sóttu í tún nefndust meinhorn, túnþjófar. Reynt var að vernda kvífé gegn tófunni með bjöllum, en aðallega var verið að reyna að bera grút eða tjarga með hrátjöru. Bjöllur voru notaðar til að auðveldara væri að finna sauðfé og svo á forystufé eða framgjarnt. Íslenskir koparsmíður steyptu yfirleitt sauðarbjöllur, og úr stálþynnu bestar. Yfirleitt held ég að fólk hafi ekki þekkt annað en undirflog, sem átti að stafa frá illum vættum, og svo steindeplinum, að hann hafi flogið undir ána, úr kvíaveggnum, ef hann átti hreiður þar. |p14 Undirflog var líka nefnt undirflug, so. að fljúga undir. Það gekk mjög illa að lækna undirflog. Þegar eitthvað var reynt, var það helst með daglegri umhirðu. Þá borið á smyrsli úr lyfjagrasi og fleiri grösum, blandað nýju sauðasmjöri. Borið á eftir hreinsum og ærin höfð inni til varnar mýbiti. Stundum tókst að lækna ána, ef byrjað var strax og það sást. Kvíahelti var algengur kvilli. Það var lítið athugað, nema ef brögð voru að. Þá voru þær ær hafðar heima í ró og næði. Þá batnaði það oftast fljótlega. Stundum kom fyrir að eitthvað stakkst upp á milli klaufanna, svo gróf í, þá var af sumum hreinsað sárið og saumað þétt um fyrir ofan klaufina. Þá gréri þetta fljótlega. Mjaltir: Þar sem nægar fötur voru til, voru sérstakar fötur fyrir sauðamjólk, til að mjalta í, en aðrar hafðar á veggnum og hellt í eftir þörfum, svona 3-4 ær mjólkaðar í einu, og í þeim borin heim mjólkin. Þessar fötur voru kallaðar kvíafötur. Mjaltaföt nefndust kvíaræksni, kvíaföt, kvíahosur. Kvíahosur voru úr togi eða hrosshári, mjög grófu bandi eða saman fest druslum. Mjaltakonan hélt með vinstri hendi um júgrið og mjólkaði þann spenann, sem að henni snéri og stóð þeim megin. Ég held að það hafi hvergi hér um slóðir tíðkast að þrímjalta, en það var lengi tvímjaltað mest vegna þess, að það vildi oft raskast raðir ánna og þá verða eftir kind og kind. Tvævetlur voru lengi óþekkar. Varð oft að binda þær við eitthvað prik eða annað.

|p15 Við fyrri mjöltun var sett merki á hverja á, kallað að bletta eða penta. Ef gengið var nærri ám við mjaltir, var það nefnt að tuttla, totta, en það mun ekki hafa átt sér stað nema hjá fjárfáum. Það fengu flestar stúlkur nóg af að einmjalta. Það var með verstu verkum. Fyrstu kvíamjaltir nefndust gleypumál. Það átti sér oft stað, að ær vinnuhjúa og barna voru mjólkaðar í sérílát í kvíum, ýmist til smjörgerðar eða til að hella saman í súrmjólk handa hestum eða hrútum að vetrinum, vinnumannasúrmjólk. Sá sérbúskapur var kallað samlagsbú. Stundum var súrmjólkin seld til þurra- búðarfólks í sjóplássum og einnig smjörið. Ílát, sem þessi sérmatur kom í nefndust samlagsfata, eða nafni þess er átti. Þegar mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs, var það nefnt dropinn dettur úr árnum eða ærnar geldast voðalega oþh. Kvíamjöltum var yfirleitt hætt að hausti á leitum hjá flestum, en stundum á gömlu leitum, viku fyrr, til þess að fá þær feitari undir haustið og veturinn. |p16 Það var víða siður að mjalta annað málið í viku eða hálfan mánuð síðast, áður en hætt var alveg. Það var kallað að hreinsa ærnar. Sauðaþykkni þekkti ég aðeins kallað, þegar farið var að draga úr mjöltum, aðallega að haustinu. Það var upp og ofan stundum yst, stundum haft í velling og stundum helt í súrmjólk. Það var afar misjafnt eftir landgæðum ofl. hve mikið smjör fékkst eftir hverja á til jafnaðar. Það var talið sæmilegt ef ærin borgaði eftir sem kallað var 10 kg. eftir kvígildið og ágætt það sem var þar yfir. Sauðamjólk var aðallega höfð til smjörs og skyrgerðar. Var talin stórum betri til skyrgerðar og osta heldur en kúamjólk, t.d. í mysuosta. En í ábrystir var hún notuð aðallega að vorinu, þegar mjólkað var af og þegar ær misstu og voru mjólkaðar fyrst á eftir. Það var og er talsvert annað bragð af sauðamjólk, sem sumum fellur illa. Það var lagt feikna kapp á að ná sem flestum ám í kvíar, eins og ég hef áður sagt, vegna þess hvað mjólkin var kostgóð. Þjóðtrú: Þekki ekki til neinar hjátrúar viðvíkjandi mörkun, en það hirtu margir, og gera enn, til þess að hafa af því sem markað var. Það var sama hvaða litur var á lambinu, sem fyrst var markað. En það vildu flestir heldur fá hrútlamb, sem fyrsta lamb, töldu það fjárheill. Það munu margir hafa hillst til að marka lömbin með aðfalli og smástreymi. |p17 Því var trúað, að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm og er enn trúað fyrir reynslu. Menn reyndu að taka upp nýtt mark til að öðlast fjárheill, ef þeim lánaðist illa með það sem þeir höfðu. Dæmi voru þess, að lamb fæddist með marki. Ég hef þekkt ein 2-3 lömb, og að sjáflsögðu notuð, ef enginn átti. Ef hrútlömb voru gelt með aðfalli, átti að blæða minna. Það var talið að tófan biti fremur lömb, sem börn voru búin að kyssa. Til að spekja kvífé, þekkti þjóðtrúin það ráð að setja salt í eyru og binda sokkaband húsfreyjunnar um ein fót ærinnar. Eins og áður er sagt var settur froðukross á hverja á eftir mjaltir, til auðkennis, að hún væri búin, ekki endilega kross, bara blettuð á rassinn. |p18 Útbrot á nösum sauðfjár að sumri nefndust álfabruni. Ég hef áður lýst tilraunum að lækna undirflog. Hef aldrei kynnst neinum hjátrúarkreddum. Skýringar á undirflogi voru þær að ærin væri snakksogin, fugl hefði flogið undir hana. Það var talið óyggjandi, og er enn talið, ef ær berjast mikið þegar þær koma út úr húsi eða rétt, að þá sé stormur í nánd. Ég held að þetta sé ekki fjarstæða. Hvítir fjárhópar í draumi boðuðu snjókomu, dökkleitt hláku, eyðu. |p19 Selfarir: Ílát sem mjólkurafurðir voru fluttar í heim hétu skyrkaggar, selskrínur, belgir. Barkrókar voru notaðir í þeim flutningum. Því miður er ég alveg fáfróður um selfarir, og tilhögum á þeirri búgrein, nema lítilsháttar, sem foreldrar mínir sögðu mér, þó höfðu þau nú sjálf aldrei verið í seli, svo eftir því hafa selfarir ekki verið algengar uppúr 1800. Hér er hóll eða bekkur sem heitir Selhóll, og hefur til skamms tíma, og jafnvel enn, sést fyrir selrústum. Svo áttu foreldrar mínir skyrkagga og gamla skrínu, sem voru taldar frá selförum. Skrínan var með lykkju festa í efstu gjörð, til að krækja
á klakk. Á öllum stærri búum var víst haft í seli amk. allan túnaslátt og stundum til leita. Þar sem voru fleiri en smalinn og selráðskona, hefur sennilega farið ýmsum aðstæðum, fjárfjöld, vegalengd ofl. Þetta hlýtur þátturinn að geta fengið í ýmsum sögum, nokkurnveginn skýrt.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana