Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFráfærur
Spurningaskrá8 Fráfærur I

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1889

Nánari upplýsingar

Númer490/1962-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1962
Nr. 490

p1
Stekkur: Lögun þeirra stekkja, sem ég sá var þannig, að þeir voru amk. helmingi lengri en þeir voru breiðir. Væri grjót nærtækt voru veggirnir byggðir úr grjóti að mestu eða öllu. Ef ekki var völ á grjóti, voru þeir hlaðnir úr hnaus, aðallega hnakkahnaus? og kvíahnaus. Og oftast munu efstu lögin eitt eða fleiri hafa verið úr kvíahnaus, jafnvel þó veggirnir að öðru leyti væru úr grjóti.

p2
Við val stekkjarstæðis kom margt til athugunar. T.d. að leiðin frá bænum að stekknum væri sem styst, að stekkurinn væri í eða nálægt vorhögum ánna, stekkjarstæðið. Ekki var stekkurinn notaður sem rétt, þar sem ég þekkti til. Ekki mun það hafa verið algengt að margir bæir væru um einn stekk. Á einum stað í nágrenni Álftáróss man ég eftir að 2 bæir voru saman um stekk. Hvorki í Álftárósi eða þar í grennd var stíað, mína minnistíð, kom ég því aldrei nærri stíum. Kvíar: Ef völ var á grjóti voru veggirnir amk. að innanverðu hlaðnir úr tómu grjóti í hub. mjaðmarhæð, svo úr kvíahnausum, þar til komin þótti hæfileg vegghæð. Væri hinsvegar grjót ekki nærtækt, varð að notast við hnakkahnaus og svo kvíahnaus. Breidd kvía var miðuð við hæfilegt gangrúm fyrir mjaltakonu milli rassanna á ánum er þær höfðu raðað sér meðfram veggjum. Lengd fór eftir fjölda kvíánna. Kvíar voru oftast skammt frá túnjaðrinum. Varð að vera þurrt byggingar- efni, þe. grjót eða stunga nærtækt, og aðhald við innrekstur í stekkinn. Vegna ólíkra staðhátta, hlaut því stekkjargatan að verða misjafnlega löng. Á Álftárósi mun hún vera um 1 km. Sumsstaðar veit ég hún er lengri, annarsstaðar styttri. En varla held ég sé hægt að tala um stekkjargötu sem ákveðna amk. ekki nákvæm vegalengd. Ekki mun hafa þótti æskilegt að stekkurinn væri mjög nærri bænum, líklega ekki nær en svona 1/2-1 km. frá túninu. Fastakvíum var haldið við ár eftir ár. Í vætutíð þurfti að moka kvíarnar með fárra daga millibili. Í þurrkatíð þornaði kvíagólfið á milli mála, og þurfti þá sjaldnar að moka. Taðið var notað til áburðar. Tvennar kvíar voru á tvíbýlisjörðum. Þannig var það amk. á þeirri einu tvíbýlisjörð, sem ég þekkti á þeim árum. Bil var á milli kvíanna og dyrnar snéru hvor á móti annarri. Kvíabólið var kvíarnar og umhverfi þeirra. Oftast var talað um að fara í kvíarnar og að ærnar væru komnar í eða á kvíarnar. Færikvíar sá ég aðeins einu sinni. Treysti mér ekki að lýsa þeim. Færikvíar útrýmdu ekki fastakvíum. Færikvíar voru mjög óvíða þar sem ég þekkti til.

p4
Nátthagar: Nátthagi var kölluð girðing, sem búsmali var hafður í um nætur. Oftast valinn staður í holtsbrekku, en náði að einhverju leyti út í mýri. Hlaðinn úr grjóti er til náðist annars hnaus. Ekki var nátthagi á öllum bæjum. En svo heyrði ég talað um að sumsstaðar hefðu ær verið bældar á ákveðnum bletti ógirtum. Slíkir staðir voru nefndir fjárból eða ból. Stekktíð: Um það leyti er sauðburði lauk var rekið í stekk til að marka lömbin. Hvenær ær voru rúnar fór þá eins og nú eftir tíðarfari, en oftast mun við og við hafa verið rekið í stekk frá því byrjað var á því fram á fráfærur. Fært var frá öllum mylkum ám, nema þeim sem áttu svo ung lömb, að þau þóttu ekki fráfærutæk. Stekkjarvinna nefndist að vera á stekk.

p5
Sauðarefni voru gelt á stekknum. Geldingamaðurinn sat flötum beinum og hafði lambið sem var látið liggja á bakinu, á milli fóta sér, skar hann 2 skurði í pung lambsins og dró þar eistun út. Lömb voru mörkuð á stekknum, ekki í kari. Oftast mun bóndinn hafa markað og notað til þess vasahníf, sem hann hélt milli tannanna milli þess sem hann brá honum á eyrun. Að lokinni mörkun taldi hann eyrnasneplana og sumir dróu þá upp á bandspotta, þurrkuðu og geymdu. Ekki veit ég hve lengi eða til hvers. Særingarmark voru gróf eða mikil mörk kölluð. En soramark var það kallað, þegar kind var mörkuð upp, þe. mörkuð niður undir annað mark, en hún hafði áður verið mörkuð með.

p6
Að hanka var það kallað, ef spotti var dreginn í eyra á lambi. Var það einungis gert til auðkennis á lambi, er barni, sem ekki átti mark, hafði verið gefið. Ekki var algengt að gefa smalanum stekkjarlamb. En fyrsta kindin, sem börn eignuðust var oftast stekkjarlamb. Fráfærur: Mér skildist það vera tímabilið, sem fráfærur stóðu yfir. Það gat verið allt að eða um vika frá því fært var frá á þeim bænum, sem fyrstur gerði það, þar til sá síðasti færði frá. Fráfærutæk voru lömbin talin mánaðargömul, en þóttu þó helst til ung. Sumrungur kallaðist lamb, sem fæddist eftir fráfærur. En ég man ekki eftir að lamb, sem fætt var fyrir fráfærur, en of ungt til að færa frá, væri kallað neitt sérstakt.Það varð bara dilkur. Undanvillingar, frávillingar hétu lömb, sem týndu mæðrum sínum. Kreista eða vanmetaskepna var kölluð skepna sem illa þreifst, hvort sem hún var ung eða gömul.

p7
Lömbin voru tekin út úr stekknum og vikið frá, staðið hjá þeim á meðan ánum var hleypt út og þær reknar heim í kvíar. Lambahöft voru ekki notuð um fráfærur. Að láta lömb hlaupa um stekk býst ég við að sé komið af því, að þegar búið var að reka ærnar frá stekknum voru lömbin látin eiga sig. Hlupu þau þá um stekkinn og héldu sig í nánd við hann uns jarmurinn var að mestu eða öllu af þeim, en þá voru þau rekin á afrétt. Var það kallað að reka á lambafjall. Væri jarmurinn ekki með öllu af ánum, þegar rekið var á lambafjall, var þeim í bili sleppt úr hjásetunni, þegar lambareksturinn var kominn nógu langt í burtu. Hlupu þá ærnar að stekknum. Þetta var kallað að hleypa ánum á stekkinn. Og þarna er þá sennilega komið, hvað átt er við með: Ærnar hlaupa um stekk. Fráfærulömb gengu almennt undir nafninu graslamb eða fráfærulamb. Ekki voru dæmi þess að fráfærulömb væru byrgð í húsi fyrstu dagana eftir frá- færur. Ekki voru lömbin rekin í hafti af stað í sumarhagann. Ekki voru dæmi þess að fráfærulömb væru flutt í kláfum þar sem ég þekkti til, enda engar stórar ár þar á leiðinni í afréttinn.

p8
Eins og framan segir voru lömbin látin afskiptalaus frá því fært var frá þar til þau voru rekin á fjall, sem venjulega var gert eftir 1-3 daga. Allur jarmur á stekk, jafnt áa sem lamba, var einu nafni kallaður stekkjarjarmur. Stundum var sagt um nokkuð mikla og helst jafna háreysti, að þetta væri eins og stekkjarjarmur. Ekki var lýsi borið í hrygg á fráfærulömbum, en smyrsli sem hét lúsasalf, og fékkst hjá héraðslæknum, var stundum borið í lömbin, tveim stöðum á bak og tveim stöðum á hvora hlið, um leið og fært var frá. Átti það að eyða lús og gerði það, held ég, eitthvað. Stundum voru lömbin böðuð um leið og fært var frá, en ekki man ég hvað baðlyfið hét, sem baðað var úr eða frá hvaða landi það var. Var í 5 og 10 punda dunkum, ekki ósvipað í útliti Albinbast, er síðar kom á markaðinn, og var á tímabili allmikið notað. Er eitt af Coopers bað- lyfjunum, ef ég man rétt. Þá var og lúsasalfi stundum borið í lömb á haustin, þó böðun væri algengari. Fráfærulömbin voru rekin á afrétt sem annað geldfé. Ekki var algengt að kaupa sumargöngu fyrir lömb á fjarlægum stöðum. Graslömb komu aldrei af fjalli fyrir leiti, nema ef þau slæddust með eldri kindum.

p9
Aldrei séð lambakefli. Heyrði talað um að fjárlitlir bændur færðu frá með keflingu, hér áður fyrr. Haustlömb voru ekki sett í haft. Hjásetan: Að vera hjá kvíaám í haga nefndist ýmist yfirsæta eða hjáseta. En smölun á morgnana og kvöldin eftir að yfirsetu var hætt, kallaðist bara smölun. Það ver einkum starf barna og unglinga.

p10
Ekki fékk smalinn froðuna ofan af flóningapottinum. Smalinn hafði ekki ávkeðið beisli eða reiðver. Smalinn hafði sérstakan nestismal. Það var venjulegur þverbakspoki, en hann er heill í báða enda og opið á miðri annarri hliðinni. Smalaprik oftast hluti af brotnu hrífuskafti, venjulega húnlaus, og alltaf broddlaus, sem önnur prik, er gengið var við á sumrum.

p11
Ekki hafði smalinn aukastörf með hjásetunni. Sér til skemmtunar dittaði smalinn að yfirsetukofanum, sem jafnan var af vanefnum gerður, og því lélegur. Stundum hafði hann með sér spýtu og smíðaði hesta, hunda ofl. Lék sér á ýmsan hátt að steinum, smíðaði fugla úr fiskbeinum oþul. Víðast mun hafa verið yfirsetukofi fyrir smalann. Nesti smalans var harðfiskur, brauð, smjör og mjólk á flösku. Sérstakur hundamatur var ekki. Hundurinn fékk bita af nesti yfirsetumannsins, ma. ruðurnar úr fiskinum, mjólk gaf hann hundinum í, ef hann fann hentuga laut í steini, annars notaði hann annanhvorn skóinn sinn fyrir hundaskál. Yfir- setumaðurinn, einnig hundurinn, fór heim þegar búið var að kvía æarnar. Báðir fengu þá einhverja næringu, svo þurfti yfirsetumaður að fara úr votu, sem kallað var, þe. fara úr votum sokkum í þurra. Ekki var hundsbolli við kvíarnar. Setið var daglangt yfir kvífénu. Það var nú víst misjafnt hve langt frameftir sumri var setið yfir. Á Álftárósi var það til 16 vikur af sumri eða þub. Nokkrar fyrst næturnar eftir fráfærur voru ærnar hýstar í fjárhúsum, en annars reknar í haga að loknum kvöldmjöltum og smalað á morgnana.

p12
Ærnar voru reknar í haga að morgni kl. 5, þann tíma sem þær voru hýstar. Klukkan 8 var mjólkað, kvölds og morgna. Veifa var sett á bæinn eða annan áberandi stað, þegar smali átti að koma með reksturinn. Sumir yfirsetumenn bjuggu sér til eyktarmörk, en að þeim notaðist ekki nema sæist til sólar. Smalinn svaf á sama tíma og heimilisfólkið. Kví, kví, var oft kallað til ánna þegar átti að fara að kvía. Og gibba, gibb, til að laða fé að húsum að vetrum. Þar sem 2 kvíar voru á tvíbýlisjörðum, voru ærnar aðskildar við kvíadyr, gerðu ærnar það að mestu sjálfar, virtust þekkja sínar kvíar frá fyrri sumrum, en sömu ær voru í kvíum sumar eftir sumar, aðeins tvævetlur voru nýliðar, og vöndust þær furðu fljótt á að fylgja eldri ánum í réttar kvíar. Þekki málsháttinn: Sér eignar smalamaður féð, þó engan eigi hann sauðinn. Vísa: Kvölda tekur sest er sól - sveimar þoka um dalinn - komið er heim á kvíaból - kýrnar, féð og smalinn.

p13
Kvíafé: Kvífé var ekki auðkennt. Ekki voru styggar ær hábundnar. Hinsvegar þekki ég tvennskonar hábindingu. Önnur var þannig, að bundið var um miðjan framfótarlegg, framfóturinn beygður aftur og upp um hnéð, bundið svo um miðjan sperrulegg. Gat kindin þá ekki gengið nema á 3 fótum. Hin var þannig, að bundið var þétt um afturfót nokkuð ofan konungsnefið. Varð kindin þá hölt í afturfæti. Kindur voru sjaldan hábundnar nema reka ætti þær aðeins stuttan spöl og ná þeim svo, t.d. til að ferja þær yfir á eða flytja út í eyjar. Ekki var tálgað af klaufum kvífé. Nöfn á spöku fé: Gæf, rólynd, hagaspök. Andstætt var: Rásgjörn, stygg, fantur, fjallsækin, fjallafála, styggðarvargur. Kindur sem sóttust í tún nefndust túnþjófar. Hið sama voru túnsæknir hestar kallaðir. Ekki var féð verndað gegn tófunni. Bjöllur vissi ég aldrei hafðar á öðru fé en forustufé, hélt ég það vera gert í virðingarskyni við þær ágætu skepnur, en vera má að það hafi verið til að auðvelda smölun í myrkri og þoku. Íslenskir koparsmiður steyptu sauðarbjöllur. Munurinn á júgurbólgu og undirflogi var sá að júgurbólga var með eðlilegum hörundslit, aðeins rauðleit. En undirflug var blásvart, vafalaust blóðeitrun.

p14
Undirflug hafði ekki annað nafn. Vissi ekki til að neinn vissi ráð til lækningar á undirflugi. Sauðhelti var það kallað er kvíaær heltust og heltin varaði aðeins stuttan tíma. Mjaltir: Mig minnir að ég lýsti mjólkurfötum í spurningaskrá: Að koma mjólk í mat. Mjólkin var borin heim í sömu fötum og mjólkað var í. Mjaltaföt heyrði ég nefnd kastföt, kvíaföt, mjaltaföt. Oftast voru notaðir til að vera í við mjaltir, garmar, sem ekki þótti verandi í við aðra vinnu. Stundum voru og saumuð úr pokastriga pils til þeirra nota. Mjalta- kona stóð hálfbogin aftan við ána, hélt með annarri hendi ofan við og utanum þann júgurhelming, sem hún var að mjólka. Mjólkaði með hinni hendinni. Fötuna studdi hún með fótunum, lét hana hallast, svo að barmur fötunnar fór inn á milli aftufóta ærinnar. Ær voru tvímjólkaðar. Nefndust mjaltirnar fyrirmjölt og eftirhreyta.

p15
Froðu var slett á malir hverrar áar um leið og lokið var við að mjólka hana, bæði fyrirmjölt og eftirhreytu. Gert til þess að þekkja hvað af ánum var búið að mjólka og hverjar voru ómjólkaðar. Þegar gengið var nærri ám við mjaltir var það nefnt að totta, tutla, þurrmjólka og naga. Stekkjargleypa nefndust fyrstu kvíamjaltir á hverju sumri. Ekki var matreitt sérstaklega úr þeirri mjólk. Ekki voru ær vinnuhjúa og barna mjólkaðar í sérílát í kvíum. Ær þeirra, amk. vinnuhjúa, gengu oftast með dilk. Þegar mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veður var það nefnt að geldast. Nytin dettur úr ánum. Kvíamjöltum var hætt að hausti laugardaginn í 21. viku sumars, þá var síðast mjólkað í bæði mál. Næstu viku einu sinni á dag, þá annanhvorn dag, og síðast voru kvíaær mjólkaðar, Hraundals- réttardag, þe. föstudaginn í 23. viku sumars.

p16
Endur fyrir löngu, þegar ákveðinn var leigumáli, leigupeningar, mun hafa verið miðað við að undan ásauðakúgildi (6 ám) fengjust 2 fjórðungar smjörs. En þetta var afar misjafnt á einstökum jörðum. Fór eftir því hvernig var undir bú, eins og það var kallað, þe. kjarngóðir hagar, á þessari jörð og hinni. Sumsstaðar heyrði ég talað um að fengjust meira en í leigurnar undan ásauðarkúgildinu, annarsstaðar minna. En hve mikið þetta var á Álftárósi eða næsta nágrenni, þori ég ekkert um að segja, man það ekki. Þar var talið fremur létt undir bú, eins og á öðrum jörðum er lágu að sjó. Ábrystir voru aldrei búnar til úr sauðamjólk þar sem ég þekkti til. Þjóðtrú: Það var sama hvaða litur var á lambinu, sem fyrst var markað. Ekki var gætt að sjávarfalli, þegar lömbin voru mörkuð.

p17
Því var víst trúað að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Heyrði talað um að lamb hefði fæðst með marki, er síðan var tekið upp. Ég man ekki til að neitt væri farið eftir sjávarföllum með geldingu. Börn máttu klappa og kyssa lömbin að vild. Ekki var froðukross settur á hverja á eftir mjaltir. Ekki var signt yfir ær að loknum mjöltum, eða á eftir hópnum. Ekki var höfð yfir sérstök bælingaþula. Ekki man ég eftir neinum þululestri yfir ám eða kúm. En þulu heyrði ég, sem fyrr meir hafði verið þulin yfir ánum á meðan þær runnu út úr kvíunum. Þulan er svona: Farið heilar í haga - safnið mör í maga - mjólk í spena, holdi á bein - Komið heilar heim.

p18
Úrbrot á nösum sauðfjár að sumri nefndust útbrot. Þjóðtrúin skýrði orsakir undirfloga þannig, að einhver fugl, veit ekki hvaða fugl, flygi undir ána. En ekki heyrði ég talað um nein ráð til að koma í veg fyrir slíkt. Ef óvenjuleg ærsli voru í kvíaám, t.d. stönguðust, var sagt að stormur væri í aðsigi. Væri hlandið úr ánum mjög glært, var búist við regni. Væri hlandið dökkt að lit, var talið að þurrkur væri í nánd. Var þá sagt að ærnar migu sólskini. Um þetta heyrði ég talað, en fáir, held ég að hafi lagt á það verulegan trúnað. Sauðfé í draumi boðaði snjó á vetrum og mig minnir, regn á sumrum. Talið var vita á slæmt veður, held snjókomu, ef fé var venju fremur óspakt í haga, sótti heim að húsum á vetrum. Einkum var forustufé frægt fyrir veðurspeki.

p19
Selfarir: Því miður get ég ekkert sagt um selfarir. En hvað viðvíkur orðinu búsmali, sem ég heyrði oft frá, skildist með að þar væri einungis átt við þær, þe. kvíaær, en ekki hvorutveggja, ær og kýr. Þá var og algengt að kvíaær voru kallað málnyta. Var t.d. talað um að smala málnytánni, mjólka málnytuna osfrv.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana