8 Fráfærur I
Nr. 1684
p1
Stekkur: Stekkur
var alltaf byggður úr grjóti og torfi. Lögun breytileg. Kvíin sporöskjulaga
eða nær hringalaga. Lambakróin einnig óreglulega löguð, stundum reft yfir
hana. Litlar dyr milli kvíar og króar. Vegalangd milli bæjar og stekkjar
var mjög breytileg. Í Kollsvík, þar sem ég þekkti best til í æsku voru
3 bújarðir: Kollsvík, tvíbýli, þar var fyrr stekkur heima við tún, síðar
fluttur fjær. Á Láganúpi var síðast stekkur í túnfæti. Frá Grundum og Láganúpi
voru áður 4 stekkir út eftir Hnífum. Heimstur og Þúfustekkur, þá Eyrarstekkur,
síðan Katrínarstekkur og yst Grófastekkur. Sennilega hefir hvor jörðin
átt sinn stekk. Til ysta stekkjarins er alllöng leið, jafnvel frá Laganúpi
upp að 1/2 klst. gangur. Stekkur var ekki notaður sem rétt. Algengt var
að tvíbýlisjarðir væru með einn stekk, t.d. Kollsvík, Efri og Neðri Tunga.
Hnjótur ofl. Ekki var um eiginlega rúnrækt að ræða kringum stekki, en þó
var sumsstaðar kallað Stekkjartún (örnefni) t.d. í Hænuvík. Oft grænkaði
þá á vorin fyrr í kringum stekki. Stekkjarhjalli er örnefni í Tungulandi.
p2
Lömbin voru byrgð
í lambakróm. Ærnar voru mjólkaðar í kvíum, sbr. kvíær. Annar fénaður, sem
blandaðist kvíaánum, svo sem gemlingar og geldar ær, var nefndur "ríll",
geldríll. Ekki var lambakró notuð sem fjárhús, enda þótt reft væri yfir
hana. Dyr eða gat var á lambakrónni með ófullkomnum dyraumbúnaði.
Þekki ekkert heiti á þessu. Kvíar: Það, sem sagt hefur verið um
stekki á og að mestu við um kvíar, bæði að gerð, rými og staðsetningu.
Kvíar voru frekar nefndar í sambandi við fráfærur, en voru þó eitt og sama
og stekkurinn. Stekkjarær voru aðeins mjólkaðar í annað mál,
að morgninum, en fráfæruær í bæði mál. Vart þurfti að hreinsa
kvíar, nema ef langvinn votviðri gengu, og þá ekki um áburð að ræða. Óþekkt
var hér, að grindur væri í kvíum. Á tví- býlisjörðum var oftast ein kví,
en tvær lambakrær.
p3
Kvíabólið var næsta
umhverfi kvíanna, stekkjarins. Oftar var hér talað um að fara á stekkinn,
og að ærnar væru komnar í stekkinn, eða í kvíar. Færikvíar þekktust
ekki hér um slóðir. Nátthagar: Þeir voru til á nokkrum bæjum. Vörslugarðar
úr grjóti. Stekktíð: Stekktíð byrjaði að jafnaði í 11-12 viku sumars
og lauk með ágúst. Stíað var öllum sæmilega framgengnum ám. Það var kallað
að fara á stekkinn, er gengið var til mjalta. Það var oftast kl.8-9 að
köldinu, að lömb voru tekin undan ánum, en um kl 7 að morgni, að ánum var
smalað til mjalta. Yfir nóttina var lömbunum stíað frá ánum. Að mjöltum
loknum var ám og lömbum hleypt í hagann. Mjólkaðir voru báðir spenar. Kallað
að fara undir.
p4
Sauðamjólk mun hafa
verið talin fituminni en kúamjólk, en betri til skyrgerðar. Smjör, skyr,
sýra og drukkur úr mjólkinni voru allt neysluvörur. Að loknum mjöltum að
morgninum var ám og lömbum hleypt úr stekknum og litið eftir, að hver ær
fengi sitt lamb. Sauðarefni voru oftast gelt um rúningu og sleppt
strax á hreinan völl. Ýmist var um fjaðra- eða skúfgeldinu að ræða. Oftast
voru lömb mörkuð ung eða meðan til þeirra náðist úti. Annars við ærrúning.
Smalanum var treyst til mörkunar á ungum lömbum, en annars gerði bóndinn
það við ærsmölun. Vasahnífurinn var algengasta tækið, sem notað var við
að marka, einnig stundum notuð skæri. Mörk með mörgum benum voru nefnd
krullmörk eða særingamörk. Það kom fyrir að mold var borin í sárið, ef
mikið blæddi. Dreginn var vindinur í eyra, einkum ef lamb mismarkaðist.
Ekki var föst venja að gefa smalanum
p5
stekkjarlamb, en
oft átti hann á með lambi. Fráfærur: Víðast hér um slóðir var um annaðhvort
að ræða, stekktíð, þe. stíun eða fráfærur. Hófust þá fráfærur um svipað
leyti og áður er sagt að stekktíð hafi byrjað. Lömbin voru þá orðin 5-7
vikna gömul. Varla var fært frá lömbun, sem borin voru í 8-9 v. sumars,
enda slík lömb talin til síðgotunga. Lömb sem týndu mæðrum sínum voru ýmist
nefnd undanvinningar eða frávinninglar. Einnig var sagt um lömb og börn,
sem framfaralítil þóttu, að þetta væru nú meiri afturkreistingarnir.
Nóttina áður en lömbin skyldu rekin, var ánum haldið inni, en lömbin
látin hlaupa um stekk, uns lagt var af stað mað þau síðari hluta nætur.
Lambahöft voru oft notuð í byrjun rekstrar, en leyst úr hafti
áður mjög langt var farið. Höft voru oftast gerð úr sokk- eða vettlingsbolum,
klipptir í hæfilega breiða þverbúta. Fyrst var öðrum framfætinum stungið
í gatið, snúið upp á einn eða fleiri snúningar og hinum fæti stungið hæfilega
p6
rúmt gat við hinn
lykkjubarminn. Fráfærulömb voru undantekningar- lítið nefnd hagfæringar.
Það þótti betra að spekja lömbin eina nótt eða svo, þe. reka þau
"ekki kik" af stað í sumarhagann. Fara varð hægt með lambareksturinn
og leyfa þeim oft að bíta. Reynt var að fá sem best upprekstrarland. Í
Sauðlauksdal þótti kjörland fyrir hagfæringa eins og annan sauðfénað. Þar
var fengið upprekstarland í síðustu fráfærur, sem hér koma við sögu. Var
það úr Kollsvík árið 1936. Miklum hávaða, klið, var jafnað
við jarm á stekk eða fuglaklið í bjargi. Eflaust eru mörg örnefni dregin
af lambavörslu eða lambaupprekstri, t.d. Lambahlíð í Breiðavíkurbjargi.
Lambhagi í Hnífunum, er tilheyra Láganúpi og Grundum. Einnig Lambakinnar
í Tungulandi. Lambakefli var grannur tréteinn með smákúlu
á hvorum enda. Brugðið var mjúku bandi um teininn innan við kúlurnar og
aftur fyrir hanakka lambsins. Ekki ar venja að kefla lömb, nema um
p7
stuttan tíma, því
hætt var við að þau yrðu munnsár. Hjásetan: Um hjásetuna verður hér
ekkert rætt, því hvorki ég eða mér eldri menn muna til þeirra starfshátta
hér um slóðir. Við fráfærur var ánum smalað í bæði mál til mjalta, en við
tún að morgninum til mjalta, en á kvöldin var smalað til þess að skilja
að lömb og ær. Ekki var venja að auðkenna kvífé hér um slóðir,
enda kvíaær ekki margar á hverjum bæ. Hálsband var nefnt helsi. Það þekktist
að styggar kindur væru hábundnar þannig, að annar framfótur var bundinn
upp nokkuð krepptur. TIl þess var notaður fléttaður ullarlindi, sem brugðið
var yfir kindina aftan við bóga og yfir fótinn milli klaufa og láglkaufa.
Einnig kom fyrir, að rásgjörn ær var bundin við spaka, þannig að bandi
var hnýtt aftan við bóga þeirrar spöku og helst um horn þeirrar rásgjörnu.
Ekki þekki ég sér- heiti á spöku fé, en andstæðan var fjallafálur eða frenjur.
p8
Ær, sem sóttu í tún
voru nefndar túnþjófar eða skitur. Fágætt var að bjöllur væru notaðar á
sauðfé, en þó voru þær til, enda og sauðarbjöllur fundist í mold. Svo lítur
út, sem bjöllur þessar hafi verið erlend smíði. Engan greinarmun
þekki ég á júgurbólgu eða undirflogi, en heyrt hvort- tveggja nefnt. Helst
var notað til áburðar lýsi, einkum andanefjulýsi, einnig reynt að sjóða
smyrsl úr lyfjagrasi til áburðar. Þetta gafst vel, einkum andarnefjulýsið,
ef ekki var um júgurmein eða ígerð að ræða. Mjaltir: Mjaltafötur
voru oftast úr tré, stafafötur girtar 2 gjörðum. Tveir eyrnastafir og gengu
kilpir venjulega úr hvalskíði upp í sinn hvorn enda handfangsins. Notuð
voru og smærri ílát, nóar, til þess að mjólka í, en losaðir öðru hvoru
í fötuna. Mjaltakonur höfðu fatnað að kasta á sig, kvíakast.
Var það ávallt pils og léttur jakki eða treyja. Konur stóðu aftan við ána,
sem mjólkuð var,
p9
og mjólkað aftur
á milli afturfóta ærinnar. Speninn var gripinn milli tveggja fingra, þumalfingurs
og vísifingurs. Ýmist notuðu mjaltakonur sléttan góm þumalfingurs eða krepptan
þumalfingur, gripið vísifingri móti efsta lið. Oftast var tvímjólkað, fyrirmjölt
og hreyta. Oft voru mjólkaðar ær auðkenndar með pentu, froðuslettu. Varað
var við að ganga of nærri ánum, þurrmjólka, naga. Sjaldgæft var að ær barna
eða vinnuhjúa væru hafðar í kvíum. Um ær og kýr, sem snögglega geltust,
t.d. við veðrabrigði, var sagt að dottið hefði úr þeim nytin eða dropinn.
Ég veit ekki mð sönnu hversu mikið smjör kom að jafnaði undan á, en heyrt
hef ég talað um 7 merkur, 3 1/4 kg. Sauðábrystir voru aðeins gerðar úr
mjólk, sem mjólka þurfti frá lambi nýfæddu eða úr kind, sem mistti lamb
og ekki var hægt að venja undir. Þjóðtrú: Um þjóðtrú verð
ég fáorður. Talað var um að minna blæddi, ef lömb væru mörkuð
p10
með aðfalli, en lítt
var þessa þó gætt. Ýmsir lögðu trúnað á það að öll mörk væru ekki
jafn lánsöm og reyndu af þeim sökum að skipta um mark. Ekki var þess gætt,
frekar en við mörkun, að gelda hrútlömb með aðfalli. Ekki var að því fundið,
þó börn kysstu lömb eða ær. Það kom fyrir að salt var látið í eyru nautgripa,
sem fluttir voru að, en ekki þótti það góð meðferð því skepnunni leið ekki
vel, þegar saltið bráðnaði í eyrunum. Ekki þekki ég til að slíkt væri gert
við sauðfé. Álfabruni voru útbrot nefnd á nösum á sauðfé. Ekki kannast
ég við að veðurspá væri talin fólgin í háttum kvífjár, en aftur á móti
voru ýmsir hættir sauðfjár og hesta að vetrinum vita á breytt eða vont
veður. Að dreyma sauðfé að vetrinum var talið fyrir fannkomu.
p11
Selfarir: Um selfarir
verður fátt að segja, þó hefur verið haft í seli á nokkrum stöðum hér í
sveitinni. Síðasta selför var í selinu á Hvalllátrum, um eða rétt fyrir
1890. Var þar síðasta selráðskona Halldóra Gísladóttir, móðir Daníels Eggertssonar
á Hvalllátrum. Ekki hefi ég getað haft spurnir af því, hvernig daglegum
störfum var niður raðað. Þarna voru hafðar í seli bæði kýr og ær. Þrjú
lögbýli voru þarna um selstöðu í sam- einingu. Ekkert veit ég um heimflutning
á selafurðum, né hvenær á sumri búsmali var fluttur heim. Af
örnefnum má marka, að selstaða hafi einnig verið í Breiðavík, þar eru örnefnin:
Seljagil og Seljaflói. Eflaust hefur selstaða lagst þar niður allmiklu
fyrr. Þá er enn að geta sels á Raknadalshlíð í innanverðum Patreksfirði,
austanvert fjarðarins. Að því sem að framan er sagt, býst
ég við að sé næsta lítill fengur, og þá vona ég að tekinn sé viljinn fyrir
verkið.