Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFráfærur
Spurningaskrá8 Fráfærur I

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1901

Nánari upplýsingar

Númer494/1962-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1962
Nr. 494

p1
Stekkur var férétt með viðbyggðri lambakró, dilk með svo háum veggjum að hvorki lömb né fullorðin fé stökk yfir þá, meira að segja þó komist væri upp á veggina. Byggður úr því efni, sen nærtækast var, torfi eða grjóti og hvorutveggja. Þar sem veggir lambakróarinnar komu saman við réttarveggina, voru þeir gripheldir af réttarvegg. Stundum var notað hús í stað kvíarinnar, en þótti alla vega lakara.

p2
Um afstöðu stekkjar til bæjar, réði aðstaða og landslag að nokkru. Nærri bæ var hann sjaldan, líklega til að losna við túnsækni ánna. Oft 1-3 km. frá bæ og breytilegt í mörgu. Þar sem ég var lengst var rekið í rétt við beitarhúsin og lömbin látin í hús, um gat á veggnum. Þekkti ekki að margir bæir væru um einn stekk. Tún var ræktað umhverfis stekkinn. Kallað stekkjartún. Þetta lifir ennþá í örnefnum, víða. Lambakró hafði ekki annað heiti. Öll byggingin var nefnd stekkur. Þekkti það ekki að lambakró væri notuð sem fjárhús á vetrum. Tíðast mun hafa verið, ef um stekk var að ræða, sem sagt, rétt og dilk útúr með felldri hurð sem ekki sá í gegnum. Sérstakt gat var á krónni til að setja lömbin inn um. Það nefndist dyr eða lambagat. Kvíar: Þær fastakvíar, sem ég sá voru byggðar úr nærtæku efni, torfi eða grjóti. Breidd miðuð við, að þegar ærnar röðuðu sér á ská með báðum veggjum, sem þeim er tamt, væri gangrúm fyrir mjaltakonu eða konur á milli og þó ekki rúmt. Þetta er svo rótgróið að þegar við byggðum upp gömlu kvíarnar í Garði í Aðaldal, handa Ósvaldi að kvikmynda, þá röðuðu ærnar sér alveg eins og vera bar, þó þar hefði ekki verið fært frá í 30 ár. Þetta var sumarið 1956. Lengd kvía fór eftir ærtölu, en breiddin þannig ákveðin. Stundum voru ær mjaltaðar í húsi, einkum í illviðrum, en þótti ævinlega stirðara og loftverra.

p3
Fastakvíum var haldið við á sama stað ár eftir ár, ef ekki öld eftir öld. Þar sem ég var lengst smali, voru kvíarnar á að giska 100 m. frá bæ, því líkt mun víðar hfa verið, en skeikuðu eitthvað til og frá, eftir geð- þótta hins fyrsta, sem það mannvirki gerði. Kvíagata var vel þekkt orð og merkti álíka spöl og ég nefndi. Kvíarnar voru helst hreinsaðar þegar í þær safnaðist fór í hrakviðrum, en vera má að þurft hafi að stinga út úr þeim tað, ef safnaðist lengi. Vafalaust hefur taðið verið notað til áburðar, flestur áburður var þá vandlega nýttur. Þekkti ekki grindagólf í kvíum. Þykir það sennilegt að tvennar kvíar hafi verið á tvíbýlisjörðum. Tel ólíklegt að þær hafi staðið saman, en verið getur að stundum hafi bæði bú átt einar kvíar. Kvíabólið var kvíarnar og umhverfi þeirra. Almennt var talað um að fara á kvíarnar. Þekkti engar færikvíar, en svo fannst mér um þær talað, sem þær væru úr borðarimlum, enda það þægilegt. Færikvíar og fastakvíar munu hvorttveggja hafa samrýmst. Oft munu óræktarblettir hafa verið græddir með þeim, en stórvirkt var það ekki.

p4
Kemur varla til greina að grindatað væri notað til eldsneytis. Stekkurinn í Brunahvammi í Vopnafirði var í hvammi út með á, líkur því sem ég lýsti. Valdimar mágur átti mókollótta á, sem var orðin roskin og alltaf tvílembd. En eitt vorið átti hún aðeins eitt, hún var mjög lambelsk og heppin með sín lömb. Einu sinni kom til okkar flækingslamb á stekkinn, undanvillt falleg gimbur. Hún var að skjótast undir ærnar í réttinni og hnupla sér dropa. Við ömuðumst ekki við henni, en ærnar kunnu því illa og fengurinn var stopull. Fór svo fram nokkra daga, en einn morguninn, þegar við vorum að hleypa undir, var mókolla búin að fá sitt lamb, mjög sæl með það og jótraði meðan það saug. Þá gekk gimbrin þar skammt frá og var sem Mókolla benti henni til sín. Gimbrin þverbeygði og hljóp undir á hinn spenann. Það lét ærin sér vel líka, hnusaði að henni og tók hana á augabragði og fóstraði til hausts með sinni kunnu umhyggju. Valdimar gat spurt uppi eiganda lambsins og keypti flækinginn, sem varð falleg ær og happasæl, en hét alla daga síðan Suga. Nátthagar: Þeir voru stundum með torfgarði allt umhverfis, en oftar var reynt að notfæra sér eitthvað sem náttúran lagði mönnum upp í hendur, til aðhalds, s.s. hvamma meðfram ám, sem gáfu tryggt að hald á eina hlið, en mikinn létti á aðra. Stundum tangar við vötn ofl. slíkt. Til eru líka stórir nátthagar umgirtir torfveggjum s.s. á Vakursstöðum í Vopnaf., sem talinn ar 2 vallardagsláttur. Stærð fór annars eftir fjárfjöld, efnum og atorku. Þar sem menn höfðu hraungrjót að hlaða úr, sögðu þeir fljótlegt að hrófa upp gripheldum veggjum, því skepnurnar ættu lítið við þá. Stekktíð: Stíað mun hafa verið oft frá viku til tvær, en í viðlögum bæði lengra og styttra en það. Mig minnir að fært væri frá í 11. viku sumars. Menn vildu ógjarnan færa frá yngri lömbum en 6 vikna, þó mun það hafa verið amk. ofan í 5 vikna. Má nærri geta að þeir sem hófu búskap með 6-9 ám, áttu ekki alls kosti. Annars fór þetta eftir efnahag og ástæðum. Stekkjarvinna nefndist að stía. Lambféð var oftast rekið á stekkinn að kvöldi á tíunda tímanum, annars breytilegt. Þegar stíað var voru lömbin tínd inn, en ánum síðan hleypt út. Fyrstu næturnar gjörðu þær sér lítið gagn, en vöndust þessu brátt, fóru að fylla sig um nætur, en voru fúsar heim að morgni, en þá var mjólkað frá áður en hleypt var undir. Ærnar voru reknar inn til mjalta að morgni um kl. 6.

p5
Mjólkað var á báðum spenum. Stekkjarmjaltir voru nefndar að mjólka frá. Stekkjarmjólk var kostminni en önnur mjólk, en kostmeiri í því síðasta. Hún var notuð til matar sem önnur mjólk. Það mun ekki hafa verið þrásetið stekkjarféð, en gæta þurfti þess, því ærnar voru ekkert ginkeyptar fyrir þessari ráðsmennsku mannanna, og ekkert að vanbúnaði að fara, þegar þær höfðu fengið lömbin. Þegar sauðarefni voru gelt á stekknum voru aðferðir einkum tvær, eftir að ég fylgdist með. Stúfgelding, tekið neðan af buddunni, til að opna fyrir eistunum, og fjaðragelding, sprett neðan á sin ben fyrir hvort eista, sem þótti alla vega betri. Síðan var gripið föstu taki um eistað með vísifingri og þumalfingri og kólfurinn dreginn sundur upp í vikið. (Dregið úr lömbunum). Þau lömb sem ómörkuð voru, voru gjarnan mörkuð þar, en þau voru fá, því alltaf var verið að stauta við fé. Eystra voru lömb sjaldan mörkuð nýfædd, nema í bestu tíð, vegna vorkulda, þó blæddi þeim minnst nýfæddum. Oft markaði bóndinn sjálfur, annars einhver handlaginn maður. Vasahnífur oftast notaður, en brýndur vel. Oft lagður á vegg eða stungið í vasa við mörkun, annars, ef verið var að marka rakleitt, báru fleiri að en maðurinn lét hnífinn fylgja hendi. Þeir sem ég þekkti notuðu engar skorur ef minnið var ekki látið nægja, var það bókað í ærbókina. Gróf eyrnamörk nefndust soramörk, særingamark var með mörgum hnífsbrögðum.

p6
Ekki algengt að skrúðaganga lömb í eyrun, en þekkt sem auðkenni, annars farið hjá því, því færi spottinn úr, varð þetta gjarna gat, s.s. soramark. Velþekkt var að gefa smalanum eða börnum stekkjarlamb. Börn og unglingar voru notuð eftir því sem við varð komið, við stekkarvinnu, sem annað og var það þeim örðugur tími, nema þeim sem mjög voru hneigðir fyrir fé. En engum brá þó við það því allt árið var samfelldur eljandi. Samt eltist fólk engu verr þá en nú, nema ef skár væri. Fráfærur merktu verkið, sem markaði tímamót. Tók þá slátturinn fljótlega við. Miðað var við fráfærnadaginn. Lömb þóttu góð 7 vikna, en sum voru tekin undan 6 vikna og jafnvel yngri, því nauðsyn var voldugust. Síðborið lamb nefndist síðgotungur, sumrungur. Lömb, sem týndu mæðrum sínum nefndust undanvillingar, kreista, afstyrmi, vesalingur. Orðið öfugsnoð átti sérstaka merkingu, þe. þegar lambið komst í slíkan sult, að af því datt hárið, fyrst aftur eftir bakinu. Svo þegar úr rættist óx nýtt hár, en varð alltaf styttra og sýndi lambið þá sultarmerkin til hausts.

p7
Þegar lömb voru skilin frá mæðrum sínum á fráfærudaginn, var gert eins og að stía. Munurinn aðeins sá að ærnar voru þá reknar á haga og fengu aldrei aftur lömbin. Þekkti ekki lambahöft. Lömbin höfðu ekki sömu hneigð til að hlaupa um stekk, sem ærnar, því þau leituðu, heldur þangað sem vant var að hleypa undir. En þegar ærnar höfðu verið vaktaðar 2-3 daga, ar þeim lofað að hlaupa um stekkinn, og var það oft hjartaskerandi stund fyrir smalann, sem oft var sjálfur fráfæringur. En þegar ærnar höfðu leitað af sér grun, færðist yfir þær ró örvætingarinnar og hvarf af þeim óðurinn. Fráfærulömb nefndust hagalömb, graslamb nyðra. Menn sögðu heldur fráfærnalamb. Mun hafa verið vel þekkt að fráfærulömb væru flutt í kláfum eða laupum yfir stórár, einkum með fá lömb eða þau sem rötuðu aftur heim af fjalli. "Ekki kvik" mun hafa merkt að halda þeim við stekkinn, þar til óðurinn ar af þeim, svo þau leituðu síður heim aftur.

p8
Þegar farið var að róa lömb, var sagt að sitja þau. Skilnaðarjarmur nefndist óður. Eins og jarmur á stekk, var notað um mikinn klið eða hávaða. Mér óþekkt að lýsisspónn væri borinn í hrygg á fráfærulömbum, en líklega fremur til að framleiða af þeim ódaun, því tófan var grunsamari við það sem var óvenjulegt. Lömbum var haldið aðallega þar sem gæsla var hægust, skammt frá stekk. Veit engin örnefni í því sambandi. Vissulega var höfð hliðsjón af landgæðum og hverskyns hagkvæmni með þá staði, sem valdir voru til sumargöngu. Þekkti það aldrei að lömb væru setin fyrstu dagana í sumarhaga, því þau dreifðust fljótt, gjarna 2 og 2 saman, stundum 3. Lömb sem leituðu úr sumarhaga voru reidd burtu.

p9
Ég held að lítið hafi verið um það á síðari árum að lömb væru kefld, sá það aldrei. Ósennilegt að láta lömbin ganga með keflum til hausts, þó sljóleiki gæti gengið langt, enda hefði átt að varða hengingu. Hjásetan: Starvið við að halda kvífé á haga nefndist hjáseta, að sitja yfir. Smölun var annað og seinna stig. Það var einkum starf barna og unglinga.

p10
Þekki ekkert um sumarkaup smalans. Um sérréttindi smalans held ég hafi allt verið samningsatriði, en ekki venja. Getið heyrði ég þess, að hann hefði átt nytina úr ánum á Mikjálsmessu, en þá var hún lítil orðin, enda venjan að hún væri þá flóuð handa fólkinu, sauðaþykkni, en þökkuð smalanum. Held að smalinn hafi aðeins átt ráð á hestum postulanna. Ég hafði ekki annað en lítinn léreftspoka sem nestismal. Stafur smalans nefndist smalaprik.

p11
Aukastörf smalans með hjásetunni voru óákveðin. Stundum var honum t.d. gert að skyldu að hafa auga með kúnum, en víða hagaði ekki svo til, að það samræmdist neitt. Staðhættir voru svo ólíkir yfir landið, að alls- herjarreglur voru fáar. Tómstundir voru færri en flestir halda. Væri smalinn einn, sem tíðast mun hafa verið, mátti hann lítið líta af ánum. Ég tálgaði mikið, reif tágar og reið höft, en sumir riðu körfur. Oftast gekk ég með hnífinn opinn og lét hann hendi fylgja. Stundum var dundað við að byggja smalakofa, en aldrei hafði ég gagn af því. Til var að smalinn las, en lítið mun hafa verið um það, og ekki meir en svo vel séð. Skýli smalans nefndist smalakofi, ef til var. Nesti var það sem til féll hvert sinn, brauð, smjör, ostar, fiskbiti kaldur eða harður, kjötögn, súrmatur, slátur, undanrenna. Ég hafði alltaf þriggja pela flösku til dagsins, en sumir smalar veit ég að ekki höfðu nema hálfflösku. Ekki vissi ég smalahundinum ætlað nesti sérstaklega, en flestir smalar munu hafa deilt að meira eða minna leyti mat sínum við hann. Ekki held ég að smalarakkinn hafi fengið að lepja við kvíarnar. Þó getur Jón Th. þess: Á stöðli ætíð hann ærnyt skal fá. Sá aldrei hunds- bolla við kvíarnar. Ég sat yfir frá kl. 9 á morgnanna til kl. 9 á kvöldin. Þá var kvíað og tóku mjaltir klukkustund. Smalinn átti að vera kominn á kvíar, þegar mjöltum lauk, og gætti svo ánna til kl. 1, en þá voru þær hýstar til kl. 6 að morgni. Farið var að reka ærnar að kvöldi eftir mjaltir, þegar skyggja tók nótt í 17. viku sumars, og smala að morgni, en svo nokkru síðar að smala líka að kvöldi. Þar sem rúmur nátthagi var, mun hann hafa verið látinn nægja milli kvölds- og morgunmjalta, en væri hann þröngur, hefur hann aðeinsk omið fyrir húsvistina.

p12
Ærnar voru reknar í haga að morgni að mjöltum loknum. Sem sagt átti að byrja mjaltir kl. 8 að morgni, en 9 að kvöldi. Þekktist hvorttveggja að smalinn fór eftir eyktarmörkum með heimrekstur og voð var breidd á bæjar- hús. Húsbóndi minn léði mér úr. Tíðast mun smalinn hafa sofið með öðru fólki, þann tíma sem ég tiltók. Óvíða held ég að kvífé hafi verið laðað að kvíum með kalli, þó gekk oft að kalla ærnar heim úr "blánni" á Bónda- stöðum, en títt var það ekki víða. Féð oftast styggt og þrátt. Á tvíbýlisjörðum hygg ég að bú hafi haft einar kvíar með millibili, nema ærnar væru vaktaðar og mjaltaðar saman. Kannast við "Sér eignar smalinn fé, þó hann eigi ekki". Vísur: Heitir Valur hundur minn - hann er falur valla - einatt smalar auminginn - upp um sali fjalla. Kvölda tekur sest er sól - sveimar þoka um dalinn - komið er á kvíaból - kýrnar, féð og smalinn.

p13
Kvífé: Hálsbönd sá ég aldrei, en hornbönd, spotta með dökkan dúsk í krúnum. Líka var til auðkennis tjörublettur látinn í krúnuna. Hálsband sá ég ekki né heyrði, en hygg helsið hafa verið í sambandi við tjóður. Að hábinda ær, heyrði ég aðeins nefnt í sambandi við að reka óðar skepnur, en sá það aldrei. Sagt að þá væri reyrt um hásinina ofan við hækilinn, en jafnframt að fóturinn dofnar fljótt og skepnan hoppaði þá á þrem fótum. Fordæmdur níðingsháttur, gat verið limlesting ef ógætilega var með farið. Aðra aðferð heyrði ég getið um, sem hét að hnjábinda, var mein- laus, en kom að góðu haldi með nákvæmni. Þá var bundið þétt, en ekki reyrt um framfótinn rétt ofan við hnéð, en hinn endi spottans upp í hornið sömu megin, strengt á spottanum með því bili að hann væri hlutlaus á skepnunni í göngustellingum höfuðsins. En til þess að hlaupa reisir skepnan höfuðið, en þá greip spottinn í og spretturinn missti marks. Heyrði aðeins getið um það í rekstri að stygg ær væri tengd við spaka, ekki ella. Heyrði þess aldrei getið að tálgað væri af klaufum á kvífé, og held amk. að átt hefði að blóðjárna þá sem það gjörðu. Spakt fé nefndist hagspakt. Stygg kind nefnd fjallafála, villingur. Kindur, sem sóttu í tún nefndust túnskitur. Til verndar tófunni sá ég hornbband með dökkum dúsk eða tjöruflekk, haga- lömb böðuð úr lyktsterkum legi, 2-3 blikkplötur smáar, hengdar í horn ofl., gert til að vernda kvífé gegn tófunni. Ég held að bjöllur hafi ekki verið notaðar, þó það hefði verið hyggilegt og þeim mun fremur á kýr, en veit þær aldrei notaðar hér. Hygg að júgurbólga og undirflog í kvífé hafi verið það sama.

p14
Undirflog var líka nefnt að taka undir. Mjaltir: Mjólkað var í fremur liðlegar tréfötur, en ein stór látin standa úti á vegg og hellt í hana, svokallaða fyrirmjaltafötu. Fyrir- mjöltin var borin heim fljótlega svo hægt væri að fara að skilja. Síðan mjólkað eftirmjölt og borin heim mjólkin í fötunum. Mjaltaföt munu helst hafa erið aflóga hversdagsföt, og ent sína þjónustu þarna. Þó voru til strigapils. Mjaltakonan stóð fyrir aftan ána, tók vinstri hendi utanum júgrið, en með hinni var gripið um spenana, fyrst annan, svo hinn með spenan á milli þumalfingurshnúana os vísifingurs. Kom með tímanum sigg á hnúann, mjaltahnúi. Ær voru tvímjólkaðar, nefndust fyrirmjölt og eftir- mjölt.

p15
Sett var merki á ærnar að loknum mjöltum, drepið fingri í mjólkina og blettað á malirnar. Það var ætíð óskýrt undir mjaltakok. Vissi ekki að ær vinnuhjúa og barna voru mjólkaðar í sérílát í kvíum, veit ekki til þess nema í sérstöku skyni, t.d. þegar vinnuhjú fengu að hafa ær í kvíum til þess að safna skyri, sem þá oftast var ómatur, þe hellt saman mjólkinni. Vinnumenn höfðu þetta stundum til eldis reiðhestum sínum eða húsmennskufólk sér til vetrarforða. Einu sinni heyrði ég getið um að smjörið hefði verið tekið úr slíku safni á eftir (safn eða söfnuður) sbr. eina sögu um Sæmund Þórðarson. Oftast var þó hellt saman óskilinni svona mjólk. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs, var það nefnt þær taka að sér, geldast, þorna. Kvíamjöltum var hætt sem næst miðjum september og seinustu dagana aðeins hreyttar einu sinni á dag.

p16
Er síðast var farið undir ærnar var það kallað að taka undir ærnar, hreinsa þær. Síðasta málsmjólk í kvíum nefndist sauðaþykkni. Það var hitað, held jafnvel að stundum hafi þurft að blanda það ögn með vatni áður en soðið var upp á því. Ábrystir held ég helst hafi verið gerðar úr þeirri nyt, sem mjólkuð var frá lömbum, stundum í haga eða þá síðar á stekk. Sauðarjóminn var mjög þykkur og þessvegna fljótlegt að strokka hann. Mikið verk var að gera mat úr mjólk úr 70-100 ám. Flóuð var bæði til skyrs og osta, jafnt áfir sem undanrenna. Ostamysan var oft soðin öll, mysuostur, en froðunni og skánunum ofan af flóningarpottunum var oft haldið sér og gerður úr því froðuostur, em étinn var ný.

p17
Þjóðtrú: Því var trúað að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Mun hafa þekkst að menn reyndu að taka upp nýtt mark til að öðlast fjárheill. Heyrði um það talað að lamb fæddist með marki, er síðan var upp tekið, en þekki þess ekki dæmi. Tel vafalítið að hrútlömb gelt með aðfalli, hafi haft merkingu viðvíkjandi blóðrás. Ef börn kysstu lömb, var talið að þá biti tófan lambið. Hefði sennilega verið meira vit í að lofa ánum að sleikja salt á kvíabólinu, en að setja salt í eyru þeirra. Settur var froðukross á malir, sem mjaltamerki.

p18
Álfabruna heyrði ég aðeins nefndan stóreitrun þá sem síðar var nefnd Hvanneyrarveiki, en sá hana á undan votheyi. Þjóðtrúin kenndi steindepli um undirflog. Talin var von á hvassviðri, ef ær börðust. Von á sólskini ef þvag ánna var mjög gult, regni ef það var mjög tært. Sumir töldu það boða snjó, að dreyma sauðfé, marklítið. Ekki þótti sá líklegur til fjárheilla, sem missti fyrstu kindina sína. Ekki mátti brjóta fótlegg, varðaði fótbroti. Ekki mátti gleypibeinið fara í hunda, en fremur í eld. Þegar því var þar fleygt átti að mæla: Forðaðu mér frá fjárskaðanum, eins og ég forða þér frá hundskjöftum. Málbeini mátti ekki glata meðan ómálgi var á bænum. Brjóskið framan úr sviðahaus hét heimska og þótti óvænlegt átu þeim, sem ekki voru ofvitar. Hjarta- lokurnar nefndust ólánseyru, og mátti ekki eta. Þeir sem voru fýknir í lifrapylsu voru heldur upp á heiminn. Á herðablaðinu eru þessi nöfn, kóngsríki, karlskot og húsgangsflöt.

p19
Selfarir: Um selfarir veit ég ekkert. Samkv. örnefnum og tóftabrotum hafa sel víða verið á flestum öldum Íslandsbyggðar. Ég hef haldið að það hafi aðallega verið fé hér á landi, sem haft var í seli, en kýr heima, og að þegar komið var í sel hafi verið hafst þar við til hausts. Má sjá á eldfornum seljum, að þar hafa verið töluverð tún og allmikil garðlög sumsstaðar, enda líklega búið þar stundum. Selja örnefni eru víða til austanlands. Orðtakið "Oft er sultur í selbúi", hef ég tekið svo, að ekki sé alltaf best lifað þar sem matföng eru nóg til.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana