Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFráfærur
Spurningaskrá8 Fráfærur I

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1884

Nánari upplýsingar

Númer510/1962-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1962
Nr. 510

p1
Stekkur var kallað innrekstrarréttin, kofinn fyrir lömbin og næsta um- hverfi. Sumsstaðar var kofinn við réttarvegg, annarsstaðar nokkuð fjær. Þar sem stekkjarkofinn var við vegg réttar, voru lömbin rétt yfir vegginn af einum manni, annar tók við og lét í kofann, en sá þriðji var þar í dyrum og tók á móti og passaði dyr. Þar sem stekkjarkofinn var lengra frá voru lömbin borin í fanginu. Sumir báru 2-3 í einu, aðrir eitt.

p2
Afstaða stekkjar til bæjar var á alla vegu. Engin ákveðin vegalengd, en víðast þó stutt til stekkjar frá bæ. Sbr. máltækið "Þetta er ekki nema stekkjarvegur". Þegar talað var um stuttan spöl. Stekkur var innrekstrar- rétt og kofi, sem víðast var notað sem fjárhús. Sumsstaðar var tún ræktað um stekk, og var þá kallað stekkatún. Það er lifir ennþá í örnefnum í dag. Lambakró eða lambakofi nefndist lambakró. Réttin, lambakróin og næsta umhverfi var allt kallað stekkur. Víðast var lambakróin notuð sem fjárhús á vetrum. Uppgersla lambakróar var eins og önnur venjuleg fjárhús þess tíma, sperrur, raftur og hella. Kvíar: Fastakvíar var löng rétt. Ekki víðari en það, að gott gangrúm væri fyrir mjaltakonur milli rassa ánna þegar þær höfðu raðað sér að veggjum. Kvíar þessar voru byggðar úr torfi og grjóti eins og allar byggingar á þeim tíma.

p3
Fastakvíum var haldið við á sama stað ár eftir ár. Kvíar voru ævinlega stuttan spöl frá bæ. Kvíagata var nefnt oft milli bæjar og kvía, þar sem gengið var. Fastakvíar voru hreinsaðar eftir þörfum, mokaðar. En lausakvíar dregnar til, áður en þær skemmdu svörð. Taðið notað til áburðar. Ekki grindagólf í kvíum. Tvennar kvíar voru á tvíbýlisjörðum. Þær stóðu aldrei saman. Kvíaból var ýmist stórt eða lítið svæði umhverfis kvíar. Það var talað um að fara á kvíarnar, því ærnar voru komnar á bólið. Í færikvíar var notaður venjulegur 1 þuml. borðviður, 4 þuml. breiðir rimlar 3-5 ál. á lengd. Grindurnar bundnar saman á endunum með snæri eða kaðli. Færikvíar héldu lengst velli. Tún voru ræktuð upp með færikvíum.

p4
Ekki var grindatað notað til eldsneytis. Nátthagar: Sumsstaðar voru girðingar til að bæla kvífé í á nóttum. Var kallað nátthagi. Þetta voru nokkurra dagslátta, afgirt þurrlendissvæði, gerðar úr hnaus og torfi. Stekktíð byrjaði seint í júní og stóð ca. hálfan mánuð. Stekktíð var ekki kölluð neitt annað. Yngstu fráfærulömbin máttu ekki vera yngri en 2-3 vikna gömul. Stekkjarvinna nefndist að stía. Lambféð var rekið á stekkinn kl. 6-7 að kveldi, eftir því hvort rúning fór fram líka. Þegar búið var að láta lömbin í stekkjarkofann, var ánum hleypt út og í kringum stekkinn voru þær alla nóttina, ýmist jarmandi eða bítandi. Ærnar voru reknar til mjalta kl. 4-5 að morgni.

p5
Venjulega var mjólkað annað júgrið. Stekkjarmjaltir voru nefndar að mjólka frá. Aldrei heyrði ég talað um það að stekkjarmjólk væri kostminni en önnur mjólk. Hún var notuð til matar eins og önnur venjuleg sauðamjólk, til smjörs og skyrgerðar. Aðeins var staðið yfir stekkjarfé meðan ærnar voru að finna lömbin. Sauðarefni voru gelt við réttarvegg. Skorið neðan af pungnum og eistun svo dregin úr. Lambinu hélt duglegur maður upp í loft á hné sér á meðan. Síðan tók geldingarmaður við lambinu og lét það stíga fyrst í framfætur og hélt því á lofti að aftan um augnablik. Þá átti geldingin að heppnast. Mjög fáir mörkuðu lömb í kari, flestir á stekk. Bóndinn markaði sjálfur lömb sín undantekningarlítið. Sjaldan notaði hann vasahníf sinn til þess. Hnífinn lét hann aldrei úr hendi sér meðan hann markaði, því 1 eða 2 báru lömbin að og 1 hélt lambinu meðan markað var. En þegar bóndinn gelti, þá brá hann hnífnum í munn sér á meðan hann dró úr lambinu. Þegar markað var var safnað ákveðnum sneplum úr eyra lambsins til að vita um tölu markaðra lamba. Gróf mörk voru kölluð soramörk. Blæðingar voru látnar afskipta- lausar.

p6
Bandspotti var oft dregin í eyru lamba, sem krakkar áttu, svo þau þekktust að hausti. Það var oft gert að gefa smalanum og börnum stekkjarlamb. Fráfærur byrjuðu eftir stekktíð um eða eftir byrjun júlí, og voru fráfærur miðaðar við þann tíma, að þeim væri lokið áður en byrjað væri á slætti. Fráfærum og fjallarekstri var jafnan lokið áður en byrjað varð að slá. Þegar lömbin voru færð frá voru þau 7 vikna niður í 3 vikna gömul. Væru þau yngri héldu þau ekki eðlilegum vexti. Síðborið lamb, sem ekki varð fært frá nefndist síðgotungur. Sumrungur það lamb sem fæddist á slættinum. Lömb, sem týndu mæðrum sínum nefndust undanflæmingar, graskútar. Öfugsnáði var lamb, sem ekki þroskaði fullan ullarvöxt.

p7
Þegar lömbin voru skilin frá mæðrum sínum voru þau tekin í stekkjar- réttinni og byrgð inni í húsi. Síðan voru ærnar reknar til bæjar, og síðan farið með þær í haga og setið yfir þeim þar til kvölds. En lömbin hlupu um stekkinn þann daginn afskiptalaus. Þeim var hleypt úr húsi þegar öruggt var að það gæti ekki jarmað sig saman. Sumir notuðu lambahöft um fráfærur, fyrst í stað. Einkum ef þau lömbin voru ekki rekin langt á fjöll. Lambahöft voru úr samansnúinni ull. Var gerð hæfilega stór lykkja úr ullarvendli. Síðan var lykkjunni smeygt á annan fót, snúið svo á lykkjuna þangað til að ekki var meira eftir af henni en að hægt væri að smeygja síðari fæti í hana. "Að láta lömb hlaupa um stekk" er sagt þegar fært er frá og lömbin fá að hlaupa um stekkin sjálfráð fyrsta dag fráfærna. Lömb týndust aldrei frá stekk fyrsta dag fráfærna. Aldrei var kallað að ær hlypu um stekk, enda dvöldu þær skamma stund þar þótt þær ættu þess kost, en þá var líka búið að fjarlægja lömbin. Fráfærulamb var nefnt graslamb eða fráfærulamb. Menn sögðu heldur fráfærulamb. Ekki voru dæmi þess, að fráfærulömb væru byrgð í húsi fyrstu dagana eftir fráfærur. Stundum voru lömbin rekin í hafti af stað í sumarhagann. Ekki þekkti ég að fráfæru- lömb væru flutt í kláfum. Að reka lömb "ekki kvik" í sumarhaga hefi ég aldrei heyrt um, en með óðajarmi.

p8
Að róa lömb var talað um að þau yrðu afjarma. "Eins og jarmur á stekk" var notað um mikinn klið og hávaða, og einnig orðið stekkjarjarmur. Lýsi var aldrei borið í lömb, nema þau væru með álfabruna. En sósa var borin í bak og klof. Var það varnarlyf við óþrifum og fékkst í Lefollisverslun á Eyrarbakka. Lömb voru stundum setin, sem kallað var áður en þau voru rekin í sumarhaga. Það er, það var setið yfir þeim á daginn, en byrgð inni á nóttunni. Var verið með þau þar sem ekki heyrðist jarmurinn. Þekki engin örnefni um þessháttar. Það voru undantekningarlítið aðeins notaðir afréttir til sumargöngu fyrir fráfærulömb. Gíslholtsfjall í Holtum mun þá hafa komið til greina í þessu sambandi. Ekki var keypt sumarganga fyrir fé, en keypt var haustganga. Gjaldið var samkomulagsatriði, þar sem ég þekkti til. Lömb, sem ekki þóttu fráfærufær á venjulegum tíma voru reidd undan, sem kallað var. Reidd í næstu bæjar landareign, og þá var bundið fyrir augun á þeim.

p9
Lömb, sem sóttu hvað eftir annað saman við kvífé nefndust suguormar. Þau voru látin í friði nema í kvíunum þegar mjólkað var, þá var þeim hent út fyrir vegg. Þekkti ekki lambakefli. Hjásetan: Fyrst var setið yfir í nokkra daga, síðan voru ærnar látnar sjálfráðar í haga, en smalað kvelds og morgna. Hjáseta var það kallað að passa ær í haga. Það var einkum starf barna og unglinga, og vinnukonu líka.

p10
Ekki var föst venja um sumarkaup smalans. Smalinn mátti fá eina ærnyt, ef hann vildi, og var hún þá mjólkuð í fötulöggina og saup smalinn hana svo af fötubarminum. Þekkti ekkert um frídag smala. Smalinn hafði engan sérstakan hest til smalamennsku, nema ef hann var ónýtur á hesti, þá einhvern þægan hest. Smalaspor er utanfótar á framfæti hestsins ofan við hnélið. Oftast hafði smalinn sama beislið, gert úr mjóum kaðli, og var þá nefnt smalabeisli. Stundum hafði smalinn smáþófa og ístöð á baki hestsins, einkum ef hann var mjög grunnur á hrygg, sárhryggjaður. Nestismalur kom ekki til greina nema í hjásetu. Stafur smalans nefndist smalaprik, oftast hálft brotið hrífuskaft.

p11
Ekki hafði smalinn aukastörf með hjásetunni. Sér til skemmtunar í tómstundum byggði hann sér smákofa, las bækur, talaði við hundinn omfl. Þar sem hjásetur voru heyrði ég talað um smalaskýli, sem smalinn hafði til að skýla sér í. Smalarakkinn fékk aldrei aukamjólk nema um sauðburð, ef ær offæddu, þá mjólkaði smalinn í skóinn sinn og gaf rakkanum. Ekki var hundsbolli við kvíarnar. Setið var yfir kvífénu fyrstu daga meðan ærnar voru að spekjast. Sumsstaðar voru ærnar byrgðar um lágnættið framan af sumri.

p12
Væru ærnar í nátthaga voru þær þar til mjalta kl. 8-9 að morgni, en ef þær voru í kvíum, þá var þeim hleypt í haga 2-3 klst. fyrir mjaltir. Ánum var smalað til mjalta kl. 6-9 að morgni, en kl. 6-8 að morgni. Smalinn fór eftir eyktarmörkum með heimrekstur eða voð, þar sem hjáseta var. Annars var vanalega farið á stað að smala kl. 6 kvelds og morgna. Smalinn var jafnan látinn fara snemma að sofa á kveldin. Svaf í baðstofu eins og annað fólk. Kvífé var laðað að kvíum með kalli. Kvíar voru aldrei saman, þó tvíbýli væri á jörð. Ærnar gengu hvorar á sérsvæði í landareigninni. Það er gamalt orðtak, að sér eigni smalamaður féð, þó enga eigi hann kindina.

p13
Kvífé var skrúðbundið, tjargað á vanga, enni eða malir til auðkenn- ingar. Hálsbönd voru aldrei notuð, enda gátu þau verið hættuleg. Það kom fyrir að mjög styggar ær voru hábundnar. Bandið var snærisspotti, enda ekki haft nema á meðan í rétt var rekið. Bundið var fyrir ofan hné. Spakt fé nefndist kvíaspakt, stygg kind fála eða gála. Kindur, sem sóttu í tún nefndust meinári, túnári. Bjöllur voru notaðar mest til gamans. Íslenskir koparsmiðir steyptu sauðarbjöllur. Sauðir sem bjöllu báru urðu sjaldan væri. Bjallan virtist há þeim. Júgurbólga var kölluð undirflog. Við því þótti best fernisolía og græn- sápa.

p14
Undirflog hafði ekki annað nafn. Reynt var að lækna undirflog með grænsápu, fernisoliu, hverfissteinsleðju omfl. sull. Aðrir kvillar voru kvíahelti og kvíahósti. Mjaltir: Mjólkað var í venjulegar mjólkurfötur úr tré, og mjólkin borin heim í þeim. Aðeins nefndar mjólkurfötur. Mjaltaföt voru kastpils, þau voru gerð úr mjölpokum. Kvíahosur voru notaðar, stórir sokkaframleistar, smokkað yfir skó. Mjaltakonan stóð hálfbogin við að mjólka. Vinstri hönd brugðið undir júgrið og haldið þannig og svo mjólkað við hnúa þumalfingurs og vísifingurs hægri handar. Tvímjólkað var í mál framan af sumri, fyrir- mjölt og seinnimjölt.

p15
Sett var merki á hverja á að loknum mjöltum. Fingri brugðið í froðu og slett á malir, til að vita hvað var búið að mjólka. Ef gengið var nærri ám við mjaltir var það nefnt að blóðnaga, tuttla. Fyrstu kvíamjaltir voru nefndar gleypumál. Engin sérstök meðferð með þá mjólk. Ekki voru ær vinnu- hjúa eða barna mjólkaðar sér. Allt í sama sjóinn, engin séreign. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs var það nefnt, mjólkin, nytin, dropinn dettur úr þeim. Fastamjöltum var hætt upp úr réttum. Síðar einungis á mánudögum almennan smaladag. Millirekstardag milli bæja.

p17
Þjóðtrú: Því var trúað, að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Um fjárheill var óvíst, þótt nýtt mark væri tekið upp. Það hefi ég aldrei heyrt, að lamb fæddist með marki. Ekki voru hrútlömb gelt með aðfalli. Það þótti vissara að hlaða kvía- kampa og réttir með aðfalli. Þá átti að rekast betur inn í þær. Að strá salti í kringum kvíastæði var besta ráðið til að spekja kvífé, og var raunverulegt. Stundum var salt látið í eyru strokufénaðar. Best var þó brennivín. Ekki var settur froðukross eftir mjaltir. Ekki signt yfir ær. Ekki sérstök bælingaþula, en úr eða frá kvíum mátti aldrei reka féð hratt.

p18
Útbrot á nösum sauðfár nefndist álfabruni. Undirflog útskýrði þjóðtrúin þannig, að fugl hefði flogið undir ána. Sauðfé í draumi boðaði snjó.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana