8 Fráfærur I
Nr. 626
p1
Stekkur: Stekkir
þeir, er ég sá og man eftir voru eins gerðir og venjuleg fjárhús með grjótveggjum
og torfþaki. Við aðra hlið voru kvíar = rétt, sem tók allar lambær heimilisins.
Göng fyrr lömbin í stekkinn, voru í gegnum hliðarvegg hans úr kvíunum nálægt
stafni. Voru hub. hnéhá og rúmt fet á breidd. Voru lömbin borin að þeim
eða rekin og látin renna í gegn inn í húsið. Húsin, stekkirnir voru
höfð fyrir fé á vetrum og voru höfð tvístæð með garða eða einstæð með jötu
við hliðarvegg.
p2
Ekki var vegalengd
fastákveðin. Mun hafa farið eftir staðháttum. Þurfti að vera svo langt
frá heimatúni, að hægt væri að verja það fyrir ánum á nóttunni. T.d. hálfan
km. Stekkurinn var aðeins notaður um stekkjatímann og að vetrinum. Stundum
var tún ræktað umhverfis stekkinn. Stundum girt með torfgarði eða grjótgarði,
kallað stekkatún. Lifir enn í örnefnum. Nöfnin stekkjarkró,
stekkur, lambakró, lambabyrgi voru notuð um lambakró jöfnum höndum. Króin,
húsið var nefnt stekkur. Réttin kvíar. Annars var húsið kvíærnar og túnbletturinn
eða næsta umhverfi nefnt stekkatún. Hús með sama byggingarlagi og venjuleg
fjárhús. Dyrastafir úr tré og hurð lögð utan á dyrastafi. Fest með trélokum,
sem stungið var í kengi í dyrastöfunum. Kallaðar klúrur. Kvíar:
Fastakvíar hefi ég ekki séð nema niðurfallnar og niðurlagðar. Þegar ég
man fyrst voru notaðar færikvíar, trégrindur, sem reistar voru upp og bundnar
saman á endum, þannig að smeygur úr vír var settur um efri enda okanna
en neðri endar voru oddmyndaðir og stungið í jörð. Menjar föstu, hlöðnu
kvíanna má sjá, en þó óvíða hér. Þær hafa verið hafðar mjóar og langar.
Breiddin virðist hafa verið 1 faðmur eða þar um bil. Þar sem þær hafa verið
úr grjóti eru minjar þeirra nokkuð glöggar enn. En hlaðnar úr kökkum eru
jafnaðar við jörð.
p3
Tel það líklegt að
fastakvíum væri haldið við á sama stað ár eftir ár, en veit ekki með vissu,
því þær voru niðurlagðar fyrir mitt minni. Ég man ekki að ég heyrði vegalengd
miðaða við kvíagötu en stekkjarleið hub 1/2 km. vegalengd. Hér í Hólum
sjást gömlu kvíarnar greinilega. Þær eru 400-500 m. frá bænum, við klett
sem heitir Stöðlahraun. Ég held að kvíabólið hafi verið umhverfi
kvíanna, og til þess bendir staka: Kvölda tekur sest er sól - sveimar þoka
um dalinn - komið er á kvíaból - kýrnar féð og smalinn. Orðið kvíaból var
þekkt hér, en sjaldan notað. Vanalega var sagt: Ærnar eru komnar að kvíunum
eða í kvíarnar. Færikvíarnar voru jafnframt nefndat grindur. Ærnar eru
komnar í grindurnar. Mjaltakonur töluðu um kvíafötin sín, kvíapilsið osfrv.
Stærð færikvía var miðuð við fjöld kvíaánna á hverjum bæ.
Í þeim voru 4-7 trégrindur. Ekki voru þær með fast ákveðinni lengd, en
oftast munu þær hafa verið 2-3 m. hver. Voru þannig settar upp að kvíarnar
urðu kringlóttar, nema þegar þær voru 4, þá mynduðu þær ferhyrning, sem
tók aðeins innan við 20 ær. Það voru aðeins smábýli, sem ekki höfðu fleiri
ær í kvíum, en þau voru nokkuð mörg. Stóru heimilin höfðu 80-120 ær í kvíum.
Efni grindanna var 2 okar, 2 1/2-3 þumlunga á kant og 3 rimar, 10-12 cm.
breiðar, 2-3 cm. þykkar. Spor voru tekin gegnum okana, sem endar rimanna
voru felldir í og trénaglar settir í gegn. Stundum voru þær stallaðar í
aðra hlið okans og negldar með járnnöglum. Á aðra hlið um miðju, voru negldir
2 grannir rimlar, endar þeirra komu saman að ofan, en hölluðust svo hvort
frá öðrum, mynduðu. Þeir styrktu grindina mikið. Höggnir voru oddar á neðri
enda okanna, sem stungið var í jörð, en að ofan var settur á þá vírsmeygur,
eða smeygur úr kaðli. Færikvíarnar útrýmdu þeim hlöðnu hér
í sveit, en ekki veit ég með vissu hvenær það var. Munu hafa fljótt séð
kosti þeirra fram yfir þær hlöðnu, sérstaklega að þær voru hreinlegri og
þeim fylgdi áburður, sem alltaf var af skornum skammti, vegna þess að mikið
af honum varð að hafa til eldsneytis.
p4
Grindatað var ekki
notað til eldsneytis. Nátthagar: Þeir þekktust ekki hér í
sveit, fyrr en um og eftir aldamótin síðustu, en þá voru þeir byggðir hér
á flestum bæjum. Þeir voru miðaðir við fjölda kvíánna eins og kvíarnar.
Þótti hæfilegt að hafa eina dagsláttu fyrir 100-120 ær. Torfgarðar (úr
sniddu) voru hlaðnir í kring, tvíhlaðnir utan og innangarðs, hæðin miðuð
við að garðurinn tæki undir hönd á meðalmanni. Innangarðshleðslan lóðrétt.
Ef nátthagi var byggður í mýrlendi eða þar sem grasrót var seig, var garðurinn
byggður einhlaðinn þannig að skurður var gerður innan við garðinn. Hann
hlaðinn lóðrétt upp frá ytri bakka skurðsins, nálægt mittishæð og það sem
mokað var upp úr skurðinum sett utan við og gekk í sjálft sig niður. Skurðirnir
voru góð vörn þess, að fé réðist á garðana að innan. Gaddavír fór að flytjast
hingað um sama leyti og nátthagarnir voru byggðir, svo menn gátu fengið
hann til þess að setja eitt stag á innbrún garðanna. Stekktíð:
Það var misjafnt hvenær stekktíð byrjaði að jafnaði, sumir byrjuðu að stía
fyrr lok sauðburðar, en ekki þótti gerlegt að stía lömbum fyrr en þriggja
nátta. Aðrir slepptu ánum til fjalla, þeir sem bjuggu við fjöll, og smöluðu
þeim svo hálfum mánuði til þrem vikum fyrir fráfærur, sem oftast munu hafa
verið í 9. viku sumars. Hún var kölluð stekkatími. Ekki var
fært frá öllum mylkum ám, er til náðist. Ær sem voru óþægar sóttu mjög
til fjalla voru látnar ganga með. Ganga með dilk, dilkær. Stekkjarvinna
nefndist að stía. Lambféð var rekið á stekkinn að kvöldi hub.
einni stundu fyrir náttmál, um kl. 8. Þegar stíað var, var athugað hvort
ull hefði ekki losnað á ánum, og ef svo var, var hnýtt á þeim, því sjálfsagt
var talið að áríðandi að halda ullinni á þeim fram yfir fráfærur, helst
eina viku, svo þær væru orðnar sem best fylldar, þegar yrði að alrýja þær,
því ekki mátti draga það lengi, vegna þess að ullin þurfti að þvo og þurrka
áður en farið var með hana í kaupstaðinn, en kaupstaðarferðin þurfti að
komast af fyrir slátt, sem byrja varð svo fljótt sem grasspretta leyfði.
Helst ekki seinna en um miðjan júlí. Ef rigning kom eftir fráfærurnar,
þegar nýbúið var að rýja ærnar, geltust þær svo að marga daga þurfti til
að jafna það. Ef einhverjar ær voru sem lítil fylling var komin á um fráfærur,
voru þær rúnar í hálft reifi, svo viðbrigðin yrði minni, en við að missa
það allt í einu. Ærnar voru reknar inn til mjalta að morgni kl. 5-6 eftir
réttri sólarklukku. Þá þekktist ekki sumartími sá er nú gildir.
p5
Mjólkað var aðeins
á öðrum spenanum. Tvílembdar ær voru ekki mjólkaðar. Stekkjarmjaltir voru
nefndar að mjólka frá. Stekkjarmjólk var notuð sem önnur mjólk, til smjör-
skyr og ostagerðar. Þegar setið var yfir stekkjarfé gengu nokkrir menn
oft unglingar með fullorðum kringum hópinn og slepptu ekki framhjá nema
þeim ám, sem höfðu lömbin með sér. Var það kallað að þær hefðu lembað sig.
Sauðarefni voru gelt á stekknum. Eistun voru dregin úr þeim.
Lömbin voru mörkuð á stekknum. Ekki voru lömb mörkuð í kari. Bóndinn
markaði lömbin eða annar laghentur maður. þar sem mörg lömb voru mörkuðu
tveir. Aðrir báru til þerira lömbin og héldu á þeim meðan þau voru mörkuð.
Til þess voru notaðir vasahnífar. Engan vissi ég hafa þá milli tannanna
og engan vissi ég setja merki á tré við hvert lamb. Gróf mörk
eins og t.d. hausarskorið, geirstýft ofl. því líkt, kölluðust og kallast
enn særingamörk, en soramark, þegar illa eða ógreinlega er markað. Hef
aldrei séð eða heyrt um það getið að mold væri borin á eyrnamar, þó mikið
blæddi. Það var látið afskiptalaust. Þegar aðfengin kind var uppmörkuð
við eigendaskipti, var kallað að sett væri á hana undanfæringarmark.
p6
Það var ekki oft
að lömb voru skrúðadregin í eyrun, en kom þó fyrir. Ég heyrði ekki orðið
að skrúðadraga fyrr en ég var kominn á fullorðinsár. Hygg ég að það hafi
ekki verið algengt hér. Ég man að það var stöku sinnum gert að merkja hagalömb
með því að stinga með nál gegnum eyrað og draga ullarband í gegn og flétta
það og hnýta fyrir endann. Það var til þess að þekkja undan hvaða á það
var. Aðallega þegar um uppáhaldsær var að ræða, en uppáhaldsær voru kallaðar
þær ær, sem voru að einhverju leyti frábrugðn- ar fénu. t.d. fallegar,
hraustar, frárækar (forystukindur) Ég merkti oft hagalömb með því
að lagða þau, hnýta lítinn lokk af svörtu eða mórauðu togi í tog á hvítu
lambinu, skrifaði svo í vasabók var hvert lamb var lagðað og nafn móðurinnar
við. T.d. á malir, síðu, hægri eða vinstri osfrv. Það var að vísu ekki
hægt að merkja mörg lömb á þennan hátt, en á þeim árum var ekki skeytt
um að þekkja ætt allra sauðkindanna. Það var til að gefa börnum stekklamb,
en ekki var það algengt árlega. Fráfærur: Orðið fráfærur virtist
mér eiga aðeins við daginn, sem fært var frá, fráfærnadaginn. Þó man ég
að ég heyrði menn segja fyrsta og annan fráfærnadaginn. Lömbin voru minnst
þriggja vikna, þegar þau voru færð frá. Síðborið lamb, sem ekki var fært
frá nefndist síðgotlingur, síðborningur algengara. Sumrungur aðeins notað
um kálfa, sem fæðast á sumrinu og er svo enn. Lömb, sem týndu mæðrum sínum
nefndust frávillingar, graslamb, kreista var til, afturkreistingur. Ég
heyrði orðið öfugsnáði, en það var haft um þau lömb, sem ullin hafði lsonað
á og komið á ný. Þegar hún var hálfvaxin voru þau vanalega útlitsljót enda
alltaf rýr. Var kallað að þau væru þá í öfugsnoði.
p7
Ég þekki enga aðra
aðferð að skilja lömb frá mæðrum sínum, en þá, að kvöldið fyrir fráfærnadaginn
gekk allt sinn vanagang. Ærnar voru reknar í stekkjarkvíarnar næsta morgun,
heldur fyrr en vanalega, því nú þurfti að þurrmjólka þær. Að því loknu
var þeim hleypt út úr kvíunum, og þær reknar svo langt að lömbin gátu ekki
heyrt til þeirra. Mátti það varla minna vera en 2-3 km. vegalengd, líka
með tilliti til þess, að gefa varð þeim gott svigrúm til beitar. Þótti
ógerningur að sparhalda þeim. Lömbunum var svo hleypt úr,
þegar öruggt var að ærnar væru komnar svo langt burtu að þær heyrðu ekki
til þeirra. Voru þau svo látin hlaupa um stekk fram undir kvöld, en þá
var farið með þau til fjalla. Ef veður- útlit var tvísýnt, rigningarlegt
t.d., svo ekki þótti álitlegt að leggja á stað með þau undir nóttina, voru
þau rekin í fjárhús, sem voru all fjarri stekknum og geymd þar til næsta
dags. Þegar búið var að mjólka ærnar, sem nú var gert í færikvíunum voru
þær reknar á stekkatúnið og látnar hlaupa þar um stekk næstu nótt. Varla
þurfti þá annað eftirlit með þeim en verja heimatúnið, því þær héldu stekkinn
fyrstu nóttina eftir að þær misstu lömbin. Mjólkin var alltaf
mest í ánum morguninn sem fært var frá, enda voru þær þá mjólkaðar 2 mjaltir,
en áður aðeins annar speni, þó ekki þurrmjólkaðar. Þetta mál var kallað
fíflamálið. Fráfærnadagurinn var alla jafna tyllidagur í fremstu
röð, en ofsagt er að telja hann til hátíða, því unnið var frá morgni til
kvölds, og svo tók lambareksturinn alla nóttina fyrir þeim sem til fjallanna
fóru með lömbin. En hátíðamatur var hafður á borðum, eftir því sem föng
voru til. Hangikjöt, rúsínugrautur ofl. Pönnukökur, kleinur og jólabrauð
með kaffinu og jafnvel fleira góðgæti, ef til var. Börnin hlökkuðu til
fráfærnadagsins eins og hátíðar, aðallega að komast í yfirsetuna með smalanum,
sem varð að era fullorðinn maður fyrstu dagana meðan óður var á ánum. Þar
sem margar ær voru, sem fært var frá veitti ekki af að hann hefði 2 unglinga
til aðstoðar. Þau höfðu öll hesta og jók það mjög ánægjuna. Þau börn, sem
heima voru höfðu nóg að gera að snúast við lömbin, því þó kallað væri að
þau hlypu um stekk, þá hlupu þau stundum lengra en góðu hófi gengdi og
urðu því að vera undir stöðugu eftirliti. Aldrei séð lambahöft,
og ekki heyrt þeirra getið. Fráfærnalömb gengu undir nafninu hagalamb.
Graslamb er þekkt hér. Hagfærlingur hef ég ekki heyrt. Fjallalamb er lamb
sem hefur gengið í fjöllum. Fráfærnalamb aðeins um fráfærur. Eins og getið
er hér á undan gat komið fyrir að yrði að byrja lömb eina nótt eftir fráfærur,
en þá var þeim ekkert gefið. Lömbin voru ekki rekin í hafti í sumarhagann.
p8
Veit ekki til að
neitt væri gert til þess að róa lömb. Skilnaðarjarmur nefndist óður. Þekki
ekki lýsisspón í hrygg á fráfærulömbum. En smyrsl til að drepa lús voru
búin til úr munntóbaki, tólg og lýsi. Þau voru borin á fráfærnalömbin.
Tóbakið var skorið með tóbaksjárni og saxað eins og neftóbak. Soðið í tólg
og lýsi. Tóbakssósan svo kölluð, var þannig borin í lömbin að helst þyrftu
2 að vinna að því. Hélt þá annar lambinu, sat og hafði það á hnjánum, en
hinn bar sósuna eða smyrslin í lömbin þannig, að hann fletti sundur ullinni
með annarri hendi, en tók úr smyrslakrukkunni dálítið á fingurgóm, sem
hann klessti í hársrótina, á 2-3 stöðum á hvorri síðu, eftir því hve lúsugt
lambið var og ef mikil lús var á því, þá var borið á kviðinn líka. Þá voru
baðlyf ekki komin til sögunnar og því var þetta notað og gafst furðu vel.
2-3 dögum eftir að sósan var borin í ullina voru hrúgur af dauðri lús í
kringum smyrslablettinn. Ekki voru ákveðnir staðir, öðrum
fremur, valdir til sumargöngu, að öðru leyti en því, að til þess var það
fjalllendi valið, er álitið var best haglendi fyrir þau. Jafnframt þurfti
það að vera hæfilega langt frá heimahögunum, svo lömbin hlypu ekki undir
ærnar. Ég veit ekki til að haglendi fyrir lömbin væri selt hér, enda munu
flestar jarðir hafa átt einhver ítök í fjalllendi. Ekki voru lömbin setin
fyrstu dagana í sumar- haganum. Þeir sem ráku þau fóru strax heim. Lömb,
sem leituðu heim úr sumarhaga voru flutt til fjalla á ókunna staði eða
komið fyrir í eyjum.
p9
Lömb, sem sóttu hvað
eftir annað saman við kvífé nefndust sugulömb, ef þau komust á að sjúga
ærnar. Að lömb væru kefld kannast ég ekki við. Veit ekki til að haustlömb
væru sett í haft, er þau komu af fjalli. Hjásetan: Starfið
við að halda kvífé á haga nefndist yfirseta, að sitja yfir ánum. Á stærri
heimilum, þar sem fært var frá mörgum ám 100-120, mun oftast fullorðinn
maður hafa setið yfir ánum frá fráfærum til sláttar, en eftir það höfðu
unglingar það að mestu leyti.
p10
Veit ekki til að
smalinn hefði nein sérréttindi í sambandi við mat. Kannast ekki við frídag
smalans. Orðið smalareið er langt frá því að hafa verið algengt hér, og
fyrst þegar ég heyrði það, þá stálpaður, minnir mig að ég heyra V. Skaftfelling
segja það. Ekki var smalanumm ætlaður ákveðinn hestur til reiðar. Hann
mátti taka hvern sem var af hestum heimilisins, sem voru tamdir og nothæfir.
Lægðin ofan við hnélið á hestum var almennt nefnd smalafar. Ef smalinn
var fullorðinn maður, hafði hann sinn eiginn hnakk og beisli, því fáir
voru þeir fullorðnir, sem ekki áttu reiðfæri. Unglingar riðu oftast á gæruskinni.
Það var amk. ekki almennt að smalinn ætti nestismal, og engan man ég hafa
séð slíkan. Stafur smalans nefndist smalaprik, og mun amk. oftast hafa
verið brodd- og húnalaus, eða annað- hvort.
p11
Smalinn hafði ekki
ákveðin aukastörf með hjásetunni. Það mun hafa verið undir smalanum sjálfum
komið, hvað hann gerði sér til skemmtunar í tómstundum. Jón Ólafsson segir
í kvæðinu: "Krækiberjum sokk ég fyllti", og "tók úr barm
mér eftir á, bók og las um litla stund. Síðan loks ég saddur festi, sætan
miðdegisblund. Smalakofar munu hafa verið allvíða til, en þeir voru
litlir og lágir. Algengast nesti smalans mun hafa verið brauð, flatbrauð
eða pottbrauð, og lúra hert eða hleypt. Hleypt lúra er ekki allsstaðar
þekkt. Etv. aðeins hér í A. Skaft. Í þriðja kafla ritgerðar er ég samdi
fyrir nokkrum árum er henni lýst. Ritgerðin er hjá Þjóðminjasfaninu og
Orðabókarnefndar. Veit ekki til að smalarakkanum væri gefið neitt við kvíarnar.
Líklega hefir það erið regla á Barðaströnd, samkv. því: Á stöðli ætíð hann
ærnyt skal fá". Alltaf var setið daglangt yfir kvífénu, alltaf 2-4
vikna tíma eftir stað- háttum. Varla lengur en út júlímánuð. Ærnar voru
byrgðar í kvíunum eða nátthaga, og var það misjafnt eftir staðháttum, amk.
fram í ágúst.
p12
Ærnar voru reknar
í haga að morgni kl 5-6. Ánum var smalað til mjalta að morgni og kvöldi
kl 8. Þegar sá til sólar fór smalinn eftir eyktarmörkum og skuggum af fjöllum
með heimrekstur, en ekki veit ég eftir hverju hann fór, þegar sólarlaust
var. Svefntími smalans var misjafnt eftir ástæðum. Þar sem
margt fólk var og unglingar sátu yfir á daginn, tók einvher fullorðinn
að sér að beita þeim eftir mjaltir, hub. 1 klukkutíma. Jafnframt voru þær
bældar eða reknar í nátthaga etir að þeir komu til sögunnar. Svo sá sami
maður um þær að morgninum eða annar fyrir mjaltir. Ekki var kvífé laðað
að kvíum með kalli. Þar sem tvær kvíar voru á tvíbýlisjörðum, voru ærnar
skildar á kvíabólinu og vöndust furðu fljótt við það að skilja sig í rétta
hópa. Orðtakið Sér eignar smalamaður fé, þó hann eigi ekki er algengt hér.
Vísur: Ærnar mínar lágu í laut - leitaði ég að kúnum - allt er það í einum
graut - uppi á fjallabrúnum. Flekka mín er falleg ær - fylgja
henni systur tvær - langt á fjöllin leita þær - laufa týr þeim enginn nær.
Vitnaði hér á undan í 2 kvæði eftir þjóðskáld fyrri aldar, sem eru
í kvæðabókum þeirra. Hjásetan eftir Jón Ólafsson, byrjar þannig: Gaman
er um holtin há - hlaupa kringum ær í haga, osfrv. Og Smalastúlkan eftir
Jón Thoroddsen: Yngismey eina sá ég þar. Ennfremur upp haf
kvæðis sem nú er oft sungið með nýju lagi. Man ekki höf. Út um grænar grundir
- gakktu hjörðin mín - yndi vorsins undur - ég skal gæta þín. Sól og vor
ég syng um - snerti gleðistreng - leika lömb í kringum - lítinn smaladreng.
p13
Veit ekki til þess
að kvífé væri auðkennt, en ekki er ólíklegt að menn, sem ekki voru sauðglöggir
hafi orðið að gera það. Ég kannast naumast við að hafa séð hálsband á sauðfé,
nema hrútum, en hinsvegar virðist vel geta staðist að orðið helsi sé komið
af orðinu hálsband, og hér hefur það haft og hefur þá merkingu. Ekki man
ég, að það kæmi fyrir að þyrfti að hábinda kvíaær, en þegar það kom fyrir
að þurfti að reka stygga kind með spökum kom það fyrir að hún var hábundin,
til þess að hún væri viðráðan- legri. En hábundin kind þreytist fljótt,
er hún fer að hlaupa. Ég sá ekki hábundið nema með einum hætti. Var þá
bundið yfir sinarnar á afturfæti ofan við konungsnefið, hækilinn. Ég heyrði
talað um þá að ferð að binda annan framfótinn upp með bandi yfir herðarnar,
en man ekki að ég sæi það gert. Ég hef heyrt sagt að það hafi verið gert
að tengja stygga ær við spaka, en hefur líklega ekki gefist vel. Hlýtur
að hafa verið hætta á að það gæti drepið aðra ána eða báðar. Ég mun hafa
heyrt um það talað að tálgað var af klaufum á kvífé, en það var fordæmt,
sem ill meðferð. Þekki ekki orðið kvífast. Fjallafála er stygg kind, og
algengt orð hér. Um skepnur sem sóttu í tún, var algengt að segja um slíkar
skepnur, hvort sem var ær, kýr eða hross: Hún er túnsækin. Ég heyrði talað
um að bjöllur hefðu verið settar á uppáhaldskindur, og hefði aðaltilgangurinn
verið sá að vernda þær fyrir tófunni, en að úldið hundsskinn eða annað
þvílíkt hef ég ekki heyrt nefnt í því sambandi. Bólga á júgri
var venjulega kölluð júgurmein.
p14
Ég man ekki að ég
heyrði bólgu í júgri kallaða annað en júgurbólgu eða júgurmein, sem var
algengara. Ég heyrði orðið undirflog í því sambandi, að menn sögðu, að
það hefði einhverntíma verið trú, að júgurmein stafaði af því, að steindepill
flygi undir ærnar og orsakaði júgurmein, ef menn kæmu of nálægt hreiðrinu
hans, sérstaklega ef menn snertu eggin. Júgurmein komu nokkuð oft fyrir
á mínu heimili, en ég man ekki að annað meðal væri notað en blásteinsvatn.
Það var öruggt, ef það var notað í tíma, en væri blóðeitrun komin í júgrið,
var ærin dauðadæmd. Ég vissi mörg dæmi til þess, að gróf í júgrinu þó ánni
batnaði við blásteinsvatnið. Var stundum að grafa í þeim fram á haust.
Sá helmingur, sem gróf í visnaði algjörlega og var ærin einspena eftir
það. Þær virtust þó fæða lömb sín og mjólka í kvíum eins og aðrar ær, enda
segir málshátturinn: "Lengi mylkir einspeni". Ég man ekki
eftir öðrum kvillum í kvíaám, fyrir utan júgurmeinið, en kvíaheltinni,
en hún var nokkuð algeng, en batnaði fljótt, nema um svig eða brot væri
að ræða. Kvíahósta kannast ég við, en um hann var lítið talið, því hann
var hættulaus talinn. Virtist oftast stafa af því að ánum svelgdist á þegar
þær voru jótra. Mjaltir: Fremur litlar tréskjólur, heimasmíðaðar,
voru notaðar við mjaltir í kvíum. Voru þær tæmdar í stærri skjólur, sem
mjólkin var borin í heim. Það voru tréskjólur þangað til blikkskjólurnar
komu til sögunnar. Ég segi skjólur, því það var og er algengara nafnið
á þeim hér. Fata hefur að vísu borist hingað, en á fremur erfitt uppdráttar.
Hefi aldrei heyrt annað nafn en mjaltaföt eða kvíaföt á mjaltapilsi, kvíapilsi.
Kannast hvorki við kast né hosur. Mjaltakonan beygði sig svo hún var nær
hálfbogin við að mjólka, tók vinstri hendi fram fyrir júgur ærinnar. Tók
því næst spenana hvorn eftir annan milli þumalfingurshnúa hægri handar
og vísifingurs og strauk þannig niður eftir spenanum og rann þá mjólkin
úr þeim í skjóluna. Hver ær var tvímjólkuð frá fráfærum fram í ágúst, amk.,
fyrirmjölt og eftirmjölt. Eftirmjöltin var talin miklu kostmeiri en fyrirmjölt,
meira smjör í henni. Sama var sagt um kýrnar, að miklu munaði hvað eftirsprett-
urinn væri kostameiri en blábunurnar.
p15
Merki var sett á
bakið á hverri á um leið og hún var mjólkuð í fyrir- mjölt, ofurlítil froðusletta.
Sama þegar mjólkuð var eftirmjölt, þá á malirnar. Var kallað að bletta
ærnar. Kannast við orðin að tuttla, totta og naga, ef gengið var of nærri
ám við mjaltir. Fyrstu kvíamjaltir voru kallaðar fíflamál. Ég man ekki
að sú mjólk væri matreidd öðruvísi en venjulega önnur mjólk. Ær vinnuhjúa
og barna var ekki mjólkuð í sérílát í kvíum. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé
sökum veðurs var það nefnt, að ærnar geltust, mjólkin dytti úr þeim. Kvíamjöltum
var hætt um miðjan september, breytilegt eftir tíðarfari.
p16
Fyrst var einn sólarhringur
látinn líða milli næstsíðustu og síðustu mjalta og svo 2 og 3 osfrv. Í
fyrstu rétt, sem oftast var um mánaðamótin sept/okt, voru ærnar mjólkaðar
til að hreinsa þær. Sauðaþykkni var nefnt svo, sem mjólkað var úr ánum
tvisvar til þrisvar áður en hætt var að mjólka þær. Það var haft út á skyr
og þótti ekki síðra en rjómi. Veit ekki til að það hafi verið reiknað út
hér, hve mikið smjör fékkst eftir hverja á til jafnaðar, sumarlangt. Annað
er það líka, að þær mjólkuðu mjög misjafnt, en þá yrði meðaltal að koma
til greina. Sauðaábrystur voru mjög sjaldgæfar hér, og ég man ekki svo
eftir þeim, að ég geti lýst þeim. Þjóðtrú: Ekki var hirt um
eyrnasnepla, þegar lömb voru mörkuð. Það var sama hvaða litur var á lambinu,
sem fyrst var markað. Ekki gætt að sjávar- falli, þegar lömbin voru mörkuð.
p17
Ég held að fáir hafi
haft trú á því að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Þó heyrði ég menn
segja á það leið, að þetta væri happamark. Ég heyrði sagt að mark afa míns
Guðmundar Eiríkssonar í Hoffelli hafi verið fæðingarmark. Það var hálftaf
framan hægra, ómarkað vinstra. Það mark hefur síðan gengið að erfðum í
Hoffelli, og er notað þar enn. Ég man að brosað vr að því að mark þetta
væri fæðingarmark, og amk. var enginn af yngra fólkinu í Hoffelli, sem
var nokkuð margt, á uppvaxtarárum mínum, sem trúði því. Heimilisfólkið
var þá 20-25 menn. En hvað skeður. Lamb fæddist með markinu þessu: Hálft
að framan hægra og eigandi þess var faðir minn, sem þá átti markið. Eyra
lambsins var þannig vanskapað, að hvilft var í það að framan, sem nam hub.
þriðjung af breidd eyrans, svo það leit út eins og vel markað hálftaf,
að öðru leyti en því, að ekki var dregið upp af broddinum, en úr því bætti
ég áður en lambinu var sleppt til fjalla. Ekki voru hrútlömb
gelt með aðfalli. Okkur var bannað að kyssa lömbin, og sagt að þau dræpust
þá. Þó held ég enginn hafi trúað því. Ekki var froðukross
settur á ær eftir mjaltir. Ekki signt yfir ær að loknum mjöltum. Mig minnir
að ég skrifaði bælingaþuluna með svörum um nautgripi, en með því að ég
er ekki viss um það set ég hana hér: Vel bæli bæli - Liggi hver í sínu
bæli - ég skal liggja í mínu bæli, bæl, bæl. Gangið þið allar heilar í
haga - gerið þið engum mein né baga - Guð greiði götu ánna minna og kunna
minna - og geng ég svo heim.
p18
Útbrot á nösum sauðfjár
var nefnt álfabruni. Hann er líka skæður á eyrum lamba, svo þau detta stundum
hálf af og verða sem ómörkuð. Ef ær hrisstu sig í kvíunum um morgunmjaltir
í þurrviðri og sólskini, boðaði það rigningu, venjulega samdægurs. Reynsla
hefur sýnt mér að þetta er eins öruggt og loftvogin.
p19
Selfarir: Því miður
get ég fáu svarað um selin og selfarir. Hér er margt af örnefnum, sem benda
til að þau hafa verið hér allvíða og nokkur bæjarnöfn, svo sem Volasel,
Viðborðssel, Holtasel ofl. Þau sel hafa að líkindum orðið sjálfstæðar jarðir
fyrir ævalöngu, enda þannig í sveit sett, að þau voru ekki til fjalla,
heldur í byggðinni. Auk þeirra hafa verið sel í dölunum Hoffellsdal, Laxárdal,
Reifsdal og víða, samkv.því sem örnefnin segja. Ekki veit ég til að neitt
sé skjalfest um þessi sel og engar sagnir hef ég heyrt um þau, nema selið
á Reifsdal. Um það getur Ísleifur sýslumaður Einarsson á Felli í Suðursveit,
um 1700 og segir að Hoffell eigi þar selstöðu góða. Annar býst ég við að
öll þessi sel séu fyrir löngu niður lögð, því engar munnmælasögur eru til
um þau. Á Hoffellsdal er nokkurra hektara landsspilda að mestu grasi gróin,sem
heitir Sel. Þar er stór hóll og í honum djúpur hvammur. Þar í hvamminum
virðast vera menjar byggingar. Þar gæti Selið hafa staðið.