8 Fráfærur I
Nr. 646
p1
Stekkur: Stekkur
var hlaðin tóft úr grjóti og torfi eða torfi ein- göngu. Við annan enda
hennar var lambakróin, sem var með lélegu torf- þaki.
p2
Ekki var ákveðin
vegalengd miðuð við stekkjargötu. Af ör- nefninu stekkur, sem fylgir hverju
einasta býli, jafnt koti og höfuðbóli, virðist mega ráða að stekkjarvegurinn
hafi verið ca. 20-30 mín. gangur frá bænum, en dálítið mismunandi eftir
landslagi. Stekkurinn var einnig notaður sem rétt, ekki með dilkum. Ekki
voru margir bæir um einn stekk. Á sumum stöðum munu tún hafa verið ræktuð
um hverfis stekkinn, því að merki um það sjást enn, en örnefnið er yfirleitt
dautt. Lambakró nefndist lambakró eða lambabyrgi. Lambakróin
nefndist aðeins rétt eða byrgi. Lambakróin var ekki notuð sem fjárhús á
vetrum. Króin var yfirleitt mjó og þverneft yfir hana, og
þakið yfir með einföldu torflagi. Dyrnar voru á öðrum enda og mjög lágar
með dyrastöfum, sem kengir voru í og hleri eða hurð fyrir, fest með lokum.
Lítið gat var á þakinu, sem lömbunum var stungið inn um, en það nefndist
ekkert sérstakt. Kvíar: Fastakvíar voru ýmist hlaðnar úr grjóti
og torfi eða tómu grjóti, sem mun hafa verið nokkuð algengt. Breiddin var
einmitt miðuð við það, að hæfilegt gangrúm væri fyrir mjaltakonu með mjólkurfötu
í hendi, er ærnar höfðu raðað sér.
p3
Fastakvíum var haldið
við á sama stað ár eftir ár. Kvíar voru ávallt miklu nær bæ en stekkur,
en venjulega í útjaðri túnsins. Kvíar voru hreinsaðar með vissu millibili.
Taðið var ekki notað til áburðar. Í kvíarnar var oft látin möl eða sandur
á botninn, sem svo blandaðist taðinu, og því var ekki hægt að nota það
til áburðar. Ekki voru grindagólf í kvíum. Stundum voru tvennar kvíar á
tvíbýlisjörðum og stundum ekki. Þær munu hafa staðið hlið við hlið, ef
tvær voru. Kvíabólið var ekki ákveðinn blettur, heldur nánasta umhverfi
þeirra. Almennt var að segja að fara í kvíarnar og að ærnar væru komnar
í kvíarnar. Skógarviður var aldrei notaður í færikvíar, heldur
borðviður. Færikvíar voru úr grindum 3-4 álna löngum, sem bundnar voru
saman á endunum með snæri eða mjóum kaðli, en stólpi eða stautur var rekinn
niður í jörðina þar sem samskeyti voru, til þess að festa þær betur og
þá bundnar þar við. Færikvíar voru fremur sjaldgæfar og útrýmdu
fastakvíunum alls ekki. Einstaka framtaksamir bændur ræktuðu tún upp með
færikvíum, þar sem vel hagaði til á sléttum grundum, t.d. sjávargrundum.
p4
Grindatað var aldrei
notað til eldsneytis. Nátthagar: Þeir voru víða og þá annaðhvort
hlaðnir úr torfi eða grjóti eingöngu. Á síðari árum oft lágt garðlag með
2-3 gaddavírsstrengjum. Stekktíð: Stekktíð byrjaði að jafnaði
um 7-8 sumarhelgi og stóð 1-2 vikur. Yfirleitt var fært frá öllum mylkum
ám, en þó ekki lambgimbrum eða þeim, sem voru með mjög ungum lömbum. Stekkjarvinna
nefndist að stía, vera á stekknum. Lamféð var rekið á stekkinn að kvöldi
kl. 9-10. Lambærnar voru reknar í réttina eða byrgið og lömbin síðan tekin
og byrgð inni í lamba- krónni, en ánum síðan hleypt út og látnar eiga sig
til næsta morguns. Ærnar voru reknar inn til mjalta að morgni kl. 7-8.
p5
Ærin var mjólkuð
á báðum spenum, en mjólk var skilin eftir í þeim. Stekkjarmjaltir voru
nefndar að mjólka frá. Ekki þótti stekkjarmjólk kost- minni en önnur mjólk.
Til matar var hún notuð eins og önnur mjólk. Á seinni árum var mikið til
hætt að stía, nema á fátækum heimilum, þar sem matar og mjólkurráð voru
lítil. Ánum var smalað, en ekki setið yfir þeim fyrr en eftir fráfærur.
Sauðarefni voru gelt á stekknum. Algengust var svonefnd stúfgelding,
þe. skorið var neðan af pungnum og bæði eistun og kálfarnir dregnir þar
út. Yfirleitt voru lömb ekki mörkuð á stekknum, og ekki í kari, en þó var
hyllst til að þau væur sem yngst, t.d. 1-2 daga gömul. Venjulega
markaði bóndi sjálfur með vasahnífi sínum, og hélt á honum í höndunum og
lét aðra heimilismenn færa sér lömbin og halda á þeim meðan hann markaði.
Við sláturstörf á haustin var það algengt að menn geymdu sláturhnífinn
milli tannanna, en sjaldgæfara við að marka og gelda á vorin. Gróf eyrnamörk
voru kölluð soramark, en særingamark var einnig til. Menn mörkuðu helst
í þurru veðri til þess að minna blæddi. Að mold væri borin í eyrnasárin
var alls ekki til.
p6
Það var algengt að
skrúðadraga lömb í eyrun, sem aðrir heimilismenn áttu, til þess að þekkja
þau örugglega að hausti. Þar sem þau voru yfirleitt með marki bóndans.
Það var ekki kallað að skrúðadraga, heldur að draga í eyrun. Þegar fullorðið
fé var auðkennt með því að binda mislitan lagð eða tusku í herðakamb eða
hnakka, hét það að lagðbinda, en ef bundið var utan um horn svo að auðkennið
væri á milli þeirra hét það að skúfbinda. Ekki var algengt að gefa samalanum
eða börnunum stekkjarlamb. Fráfærur: Tíminn frá 9.-11. sumarhelgar
hét fráfærur, því að á þeim tíma var fært frá. Var sjálfum fráfærnadeginum
alltaf að seinka, svo að undir það að fráfærur lögðust niður um 1920, var
yfirleitt ekki fært frá fyrr en um 11. sumarhelgi. Lömbin voru 3-5 vikna
þegar þau voru færð frá, og aldrei yngri en 2ja vikna. Orðin síðgotungur,
sumrungur var ekki notað um lömb heldur um folöld. Um lamb var aðeins sagt,
að það væri síðborið. Um lamb, sem týndi móður sinni, hef ég ekki heyrt
nema eitt orð yfir það, undanvillingur.
p7
Þar sem var stekkur
með lambakró voru lömbin byrgð inni í henni og ærnar reknar í burtu, þegar
lömb voru skilin frá mæðrum á fráfærudaginn, en á síðari áratugum voru
slíkir stekkir alls ekki til á mörgum bæjum, heldur aðeins rétt eða fjárbyrgi.
Þó voru lömbin tekin þar og borin heim í fjáhús eða hlöðu. Lambahöft voru
sjaldgæf á seinni árum, en var þó til og þá aðeins á meðan lömbin voru
setin eftir fráfærur í 2-3 daga. Lambahöft voru snúin saman
úr ull og lögð á, notuð líkt og hnapphelda á hesti. Ekki voru notuð sömu
höft frá ári til árs. Í orðatiltækinu, að láta lömb hlaupa
um stekk, felst það, að lömbin hlupu jarmandi umhverfis stekkinn, þegar
búið var að fara með ærnar burtu eins og gert var, þegar til var stekkur
með lambakró. Og þá voru lömbin einnig pössuð við stekkinn í 2-3 daga áður
en þau voru rekin á fjall í sumarhaga. Hitt orðatiltækið, ærnar hlaupa
um stekkinn, á við þar sem ekki var lambakró við stekkinn, svo að fara
varð með lömbin heim í fjárhús eða hlöðu. Þá voru ærnar látnar vera kyrrar
í kringum stekkinn í 1-2 daga meðan mesti jarmurinn var á þeim.
Orðin fráfærnalamb og hagfæringur var almennt notað um fráfærulömb.
Frá- færulömb voru byrgð í húsi um nætur og setið hjá þeim um daga, en
ekki slegið fyrir þau gras. Aldrei voru lömbin rekin í hafti af stað í
sumar- hagann. Það kom oft fyrir með eitt og eitt lamb, sem rataði heim
aftur af fjalli, og komst í ærnar á ný, að þau væru flutt í kláfum. Rætt
var um að reka lömb "ekki kvik" í sumarhaga. Þe. að búið væri
að spekja lömbin vel áður og sitja hjá þeim í 4-5 daga, en oftast voru
3 dagar látnir nægja.
p8
Að róa lömb var talað
um að spekja þau og líka var talað um að taka af þeim jarminn. Orðatiltækið,
eins og jarmur á stekk, var notað um mikinn klið eða hávaða. Ekki var lýsisspónn
borinn á fráfærulömb. Ekki voru vissir staðir í landareigninni, sem fráfærulömbum
var haldið í, en aftur á móti eru fáein örnefni t.d. Lambatungur og Lambatungugil,
sem minna á þá staði á fjöllum og heiðum, er lömb voru rekin til í sumarhaga.
Ákveðnir staðir, öðrum fremur, voru valdir til sumargöngu fyrir fráfærulömbin,
og yfirleitt bundnir við landslag, þannig að ár eða klettagil hömluðu heim-
ferð. Ekki var algengt að kaupa sumargöngu fyrir lömbin á fjarlægum stöðum,
en var þó til, t.d. í Kaldalóni á Snæfjallaströnd. En ekki mun hafa verið
miðað við neina reglu í því efni, heldur greiddi hver bóndi, sem upprekstrarins
naut eitt lamb fyrir fé sitt, nema Æðeyingar, sem voru fjárflestir, munu
hafa greitt fleiri. Ekki voru lömbin setin fyrstu dagana í sumarhaganum,
aðeins stöðvuð í 2-3 tíma. Lömb, sem leituðu heim úr sumarhaga voru reidd
burtu í kláf eða meis, helst yfir stórar ár og stundum í aðra sveit.
p9
Ég sá lambakefli
aðeins einu sinni, þegar ég var 9 ára gamall. Það var mjó sívöl spýta og
stóðu endarnir út úr munnvikjum lambsins og voru, að mig minnir bundnir
með ullarbandi upp fyrir hnakka lambsins. Ekki færðu fjárlitlir bændur
frá með keflingu. Ekki voru haustlömb sett í haft, er þau komu af fjalli.
Að hanppsitja fé var kallað að parraka. Hjásetan: Að halda
kvífé á haga nefndist hjáseta og að sitja hjá. Yfir- leitt var það verk
barna og unglinga, en kom fyrir að duglitlir fullorðnir menn sátu hjá kvífé
og höfðu það sem aðalstarf.
p10
Ekki var nokkur föst
venja um sumarkaup smalans, og ekki heldur sér- réttindi. Smalinn fékk
ekki frídag á sumri. Honum var ekki ætlaður hestur til reiðar. Ekki hafði
smalinn nestismal. Stafur smalans nefndist smala- prik. Venjulega brot
úr hrífuskafti, broddlaust og húnlaust.
p11
Ef smalinn var tápmikill
unglingur, þá fór hann oft með af engjum auk hjásetunnar er líða tók á
sumar og kvíféð var orðið spakt. Sér til skemmtunar las hann bækur og tálgaði
spýtur í hjásetunni, en utan hennar átti hann fáar tómstundir. Sumsstaðar
voru smalakofar. Nesti smalans var venjulega 1-2 rúgkökur með smjöri og
osti, harðfiskbiti og 3 pela flaska með nýmjólk eða áfir. Fyrir hundinn
var oft roð og uggar af harðfiski. Ekki fékk smalarakkinn að lepja við
kvíarnar. Ekki var hundsbolli við kvíarnar. Víðast var setið daglangt yfir
kvífénu fram í 16.-17. viku sumars, en eftir það smalað kvölds og morgna.
Ær voru aldrei byrgðar í kvíum en í nátthaga eða fjárhúsi, þar til 16.-17.
viku sumars. Þó misjafnt eftir landslagi og spekt fjárins.
p12
Ærnar voru reknar
í haga kl. 5-6 að morgni. Ánum var smalað til mjalta kl. 9 kvölds og morgna.
Eftir aldamót höfðu flestir smalar úr að láni með heimreksturinn. Einnig
voru margir smalar það nátengdir engjafólki, að þeir gátu þar fengið að
vita hvað tíma leið. Eyktarmörkum var líka farið eftir, en hjásetupláss
voru yfirleitt það langt frá bæ, að ekki þýddi að breiða á. Væri um börn
eða unglinga að ræða sem smala, tók venjulega einhver fullorðinn heimilismanna
féð út á morgnana og gætti þess fram á dagmál, þe. til morgunmjalta. Það
mun hafa verið til að kvífé var laðað að kvíum með kalli, en sjaldan heyrði
ég það. Aftur á móti var fé til innrekstrar í hús eða rétt á vori og vetri
laðað með kallinu: dipa, dipa, dip í Strandasýslu, en í N-Ís. með kallinu:
Guta, guta, gut. Þar sem kvíar voru 2 á tvíbýlisjörðum, mun
hafa verið setið hjá í tvennu lagi. Kannast við "Sér eignar smali
fé, þó að enga eigi hann kindina".
p13
Kvífé: Ekki var kvífé
auðkennt með neinum sérstökum hætti. Ekki var hálsband á sauðfé nefnt helsi.
Í rekstri, einkum á haustum voru styggar ær hábundnar, varla annars. Bundið
var allfast utanum hásinina fyrir ofan konungsnefið. Bundið var með mjóu
snæri. Ekki var stygg ær tengd við spaka. En það var til að húsfólk, sem
átti fáar ær, t.d. 4-6, færði frá þeim og tengdi saman tvær og tvær og
voru það kallaðar bendlur eða bellur. Ekki var tálgað af klaufum á kvífé.
Ekki var spakt fé nefnt kvífast. Styggar kindur voru nefndar styggðarvargar
og fjallavargar. Kindur sem sóttu í tún nefndust túnvargar og túnþjófar.
Ekki þurfti að vernda kvífé gegn tófunni. Bjöllur voru yfirleitt ekki settar
nema á forystuær eða forystusauði, og þá til þess að hjörðin ætti auðveldara
með að fylgja þeim eftir. Íslenskir koparsmiðir steyptu sauðarbjöllur.
Greint var á milli júgurbólgu og undirflogs, og kallað undirflog
þegar farið var að grafa í júgrinu og drep komið í það.
p14
Undirflog var líka
nefnt að fljúga undir. Borið var á bólguna, samsuða, þe. smyrsl úr nýju
smjöri og vallhumli, en síðar var farið að nota grænsápu og spiritus eða
brennivín, sem gafst vel. Mjaltir: Mjólkað var í fremur litlar
tréfötur, sem munu hafa tekið um 5 potta, en mjólkin var borin heim í allmiklu
stærri fötum úr tré, sem tóku 1 1 1/2 fjórðung, þe. 10-15 potta. Síðar
var farið að nota útlendar blikkfötur, sem ávallt voru þá nefndar spöndur.
Mjaltaföt voru aflóga treyja og pils eða pils og treyja úr pokastriga.
Mjaltakonan stóð fyrir aftan ána meðan mjólkað var, og setti fötuna milli
fóta hennar og hélt um júgur ærinnar með vinstri hendi og teygði það ögn
aftur, en mjólkaði svo með þumalhnúa og vísifingri hægri handar. Hver ær
var tvímjólkuð og var slett ögn af mjólkurfroðu á hverja á sem búin var
með fyrirmjölt. Hitt var nefnd eftirmjölt. Aldrei var þrímjólkað.
p15
Merki var sett á
hverja á að loknum mjöltum, kallað að bletta. Ef gengið var nærri ám við
mjaltir var það kallað að þurrmjólka. Eftirmjöltin var oft kölluð að tuttla
eða að totta. Ekki voru ær vinnuhjúa og barna mjólkaðar í sérílát í kvíum.
Þegar mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs var það nefnt að ærnar eru
að geldast. Kvíamjöltum var hætt á haustgöngum um 22. sumarhelgi og stundum
aðeins fyrr.
p16
Er síðast var farið
undir ærnar, var það kallað að fara undir ærnar. Haustmjólk úr ám var yfirleitt
kölluð sauðaþykkni. Meðaltal smjörs eftir hverja á var álitið vera um 7
merkur, þe 1 3/4 kg. en þar sem sumarhagar voru góðir var miklu meir,
allt upp í 10-12 merkur. Þjóðtrú: Ekki var hirt um eyrnasnepla,
sem skárust brott, þegar lömb voru mörkuð. Það var sama hvaða litur var
á lambinu, sem fyrst var markað. Ekki var gætt að sjávarfalli, þegar lömbin
voru mörkuð, aðeins hugsað um að veður væri þurrt.
p17
Því var trúað, að
eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. En mest var hugsað um að það væri hreinlegt
og sem fæst hnífs- brögð. Varla var tekið upp nýtt mark til að öðlast fjárheill.
Ekki vissi ég dæmi þess, að lamb fæddist með marki, er síðan var upp tekið.
Ekkert sett á um það að hrútlömb væru gelt með aðfalli. Engin
viðurlög voru við því að börn kysstu lömb. Ekki voru stekkja- og kvíakampar
aðeins hlaðnir með aðfalli. Froðukross var aðeins settur á eftir fyrirmjölt
og stundum eftir seinni mjölt, til þess að sýna að sú ær væri búin. Ekki
var signt yfir ær að loknum mjöltum. Ekki var sérstök bælingaþula höfð
yfir, er skilið var við kvífé að kvöldi.
p18
Álfabruna heyrði
ég nefndan, sem ég held að hafi verið sólbruni. Ekki var reynt að lækna
undirflog með töfrabrögðum. Undirfloginu átti að valda fugl, sem heldur
sig í mýrum og flóum, og var því aðalráðið til að koma í veg fyrir undirflog
að halda ánum til beitar hátt í hlíðum. Oft var veðurspá fólgin
í háttum kvífjár. Ef hland ánna var mjög rautt boðaði það sólskin næstu
daga. Ef þær voru ókyrrar og stönguðust mikið, vissi það á storm og óveður.
Sauðfé í draumi boðaði snjókomu.
p19
Selfarir: Þá eina
selför veit ég um á 19. öld, sem séra Stefán Stephensen í Vatnsfirði hafði
í Vatnsfjarðarseli á árunum 1884-1900. Hann hafði þar 120-150 ær í kvíum
og gætti þeirra smali og selráðskona. Um miðaftansleytið á degi hverjum
fór unglingur eða vinnukona ríðandi með reiðingshest í taumi fram í Sel
að sækja þangað skyr, osta og smjör. Fram í Vatnsfjarðarsel er um 2ja tíma
lestagangur hvora leið neðan frá Vatns- firði. Á þessum árum var einnig
húsfólk í Selinu, sem hélt þar til allt árið og hafði eitthvað af skepnum.
Mikill fjöldi örnefna vottar selfarir og víða sjást enn rústir seljanna
vallgrónar. Á 2. til 3. hverjum bæ eru örnefni, sem votta selfarir fyrrum,
s.s. Seljadalur, Selgil, Selmýrar, Selpartur osfrv. Þó eru stekkjarnöfnin
enn algengari, því að þau mega heita á hverju einasta býli, sem er eldra
en 50 ára.