Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFráfærur
Spurningaskrá8 Fráfærur I

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1889

Nánari upplýsingar

Númer513/1962-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1962
Nr. 513

p1
Stekkur: Fjárrétt var á hverjum bæ, og var stekkurinn vanalega byggður út úr henni, þannig að dyr voru úr réttinni í stekkinn. Efni, það sem næst var hendi, grjót eða torf. Þannig var þetta þó ekki í Árgili. Stekkdyr voru á móti réttardyrum. Réttin úr grjóti og stekkurinn byggður í stórri klettaskoru svo aðeins þurfti að hlaða gaflana, og gert var yfir gaflana með stórum steini.

p2
Það mun hafa verið mjög misjafnt hvernig afstöðu stekkjar til bæjar var háttað. Heima var stekkjar- eða réttarvegur nál. 10-15 mín. labb. Eftir að fráfærum var hætt var réttin færð heim. Heim við bæ á Árgilsstöðum er afgamalt örnefni, Gamlarétt, og leikur ekki efi á að þar hefur einhverntíma verið fjárrétt. En þó ekki síðustu 100 árin. Stekkurinn var einnig notaður við sundurdrátt á fé. Það mun oft hafa tíðkast þar sem land var gott við stekkinn, að tún væri ræktað umhverfis hann. Það má enn sjá merki þess og fjöldi örnefna benda til þess. Lambakró og stekkur var eitt og sama, þar sem ég þekkti til. Lambakróin var nefnd fjárrétt. Ekki var lambakróin notuð sem fjárhús á vetrum. Stekk með þaki eða til vetrarnota þekki ég ekki. Stundum var hurð eða grind í stekkdyrum. En stundum var hlaðið grjóti eða hnausum í dyrnar, þá lokað var. Kvíar: Stærð kvíanna fór að sjálfsögðu eftir því hvað ærnar voru margar. Vanalega voru þær langar og mjóar svo að ærnar gætu raðað sér með veggjum og ríflegt gangpláss væri á milli fyrir mjaltakonu. Efnið var það sem hendi var næst, grjót eða torf eða hvorttveggja. Kvíarnar voru að ég held alltaf heima við bæi.

p3
Fastakvíum mun alltaf hafa verið haldið við á sama stað frá ári til árs, nema sérstakar ástæður gæfust til að færa þær. Ég held að kvíar hafi alltaf verið heima við bæi, en rétt og stekkur fjær. Kvíarnar þurftu helst að hreinsa daglega. Stundum voru þær með grjótflór. Taðið notað til áburðar. Það var afbragðs áburður, en stundum var það notað til elds- neytis. Grindagólf voru ekki í kvíum. Tvennar kvíar voru á tvíbýlisjörðum. Vissi aldrei til að kvíarnar stæðu saman. Kvíaból heima var stórt svæði, þar sem ærnar voru á beit, ef of fljótt þótti að kvía þær. Almennt var talað um að féð væri komið á bólið. Færikvíar voru samansettar úr grindum, sem smíðaðar voru úr borðviði, okar og rimar. Grindurnar voru misjafnlega langar 2-4 m. Fjöldi grindanna eftir stærð kvíanna, bundnar saman með snæri eða grönnum kaðli eða upp- gjafa reiptöglum. Færikvíar útrýmdu fljótt föstu kvíunum. Þær voru svo mikið hreinlegri og hentugri. Frá fráfærum til sláttar voru kvíarnar utan túns. Heim hét það Kvíaflöt. Oft voru þær settar á nýjar sléttur eða út- skækla túns, og var þar víst síbreiðugras næsta sumar. Jafnvel þótt rakað væri skarninu upp úr kvíabælinu og það notað til eldsneytis.

p4
Nátthagar: Á síðustu árum fráfærna vissi ég til að sumir gerðu smá- girðingar heim við bæinn, til að geyma ærnar í á næturnar. Þar gátu þær haft hreyfingu og hagakropp, og þótti þetta mjög þægilegt. Þetta voru grjót eða vírgirðingar og var nefnt nátthagi, þar voru stundum líka geymd hross og jafnvel kýr. Stekktíð: Láta mun nærri að stekktíð hafi verið síðasta vika júní og fyrsta vika júlí. Ég man ekki eftir stíun eða stekkjarvinnu. Það sem ég veit um það er frá mér eldra fólki. Ekki var stekktíð kölluð neitt annað. Það þótti ekki hæfa að færa lamb frá móður, nema það væri fullra 4 vikna gamalt. Stekkjarvinna nefndist að vera á stekknum. Að kvöldi var lambféð rekið í réttina og lömbin dregin úr og lokuð í stekknum, en ærnar hlupu um stekk, og héldu sig á beit nálægt stekknum um nóttina. Að morgni voru ærnar mjólkaðar og lömbunum síðan hleypt til þeirra.

p5
Það er trúlegt að stekkjarmjólk hafi þótt kostminni, ef illa hefur verið mjólkað, því síðasta streftið var lang fitumest. Sauðarefni voru gelt svo fljótt að gróin væru um fráfærur. Sá sem hélt lambinu sat eða stóð og hélt öllum fótum lambsins. Geldingamaður skar hálfan punginn, strauk himnur upp af eistunum og dró þau svo úr. Að marka nýfædd lömb, var kallað að bregða til marks, t.d. sneiðing eða stýft. Fullmarkað var þegar farið var að senda til rúningar. Handlaginn maður valdist vanalega til að marka, oft bóndinn sjálfur. Hnífurinn var oftast vel beittur vasahnífur. Hnífinn lagði hann ýmist frá sér eða lét milli tanna sinna. TIl að telja það sem markað var, var snepill af t.d. sneiðingu eða stýfingu lagður sér. Svo var líka talið við geldingu, þá pungarnir. Gróf eyrnamörk nefndust soramörk, særingamörk. Þegar mikið blæddi eða æð spýtti, var haldið þétt um eyrað meðan ærin lokaðist.

p6
Ef börn eða aðrir heimamenn eignuðust lamb með marki bóndans, var oft dreginn, spotti með sterkum lit til að þekkja það að haustinu. Algengt var að gefa smalanum eða börnum stekkjarlamb. Fráfærur: Á því var nokkur munur hvað lömb voru gömul, þegar þau voru færð frá, því til voru ......lömb, sem komu til er hrútar sluppu út eða heimtust seint. En vanalegur aldur var 4-6 vikna. Síðborið lamb nefndist síðgotungur, sumrungur. Lömb, sem týndu mæðrum sínum nefndust undanflæm- ingur, undanvillingur. Þau lömb, sem fóru úr ull á fyrsta sumri þrifust alltaf illa, og voru kölluð öfugsnáðar.

p7
Þegar lömbin voru skilin frá mæðrum á fráfærudaginn voru þau stundum dregin í dilk eða stekk, og síðan rekin á afskekktan stað til yfirsetu og þá byrgð um nætur. En stundum voru ærnar dregnar úr og reknar til kvía, en lömbin rekin ósetin til fjalls með geldfé. Oft voru lömbin mjög bágræk og var á tekið það ráð að reka þau í hafti og jafnvel hafa þau í hafti fyrstu dagana í hjásetunni. Lambahöftin voru úr ull, sver með linum snúð og því mjúk. Þau voru sem hólkur, smeygt fyrst á annan fótinn, þá snúið á og síðan smeygt á hinn fótinn. Ef ær voru byrgðar, en lömbin sugu frjáls var kallað að þau hlypu um stekk. Eins og ærnar gerðu þá stíað var. Aðra merkingu þekki ég ekki um "að láta lömb hlaupa um stekk". Fráfærulömb voru nefnd hagalamb, graslamb, hagfærlingur, fjalllamb. Menn sögðu heldur frá- færulamb. Ekki voru fráfærulömb byrgð í húsi fyrstu dagana eftir fráfærur. Oft voru lömb flutt í kláfum eða laupum, ef þau heimtust ekki á fráfæru- degi, en fundust síðar, svo og með síðgotunga. Það var ekki talið ráðlegt að reka lömb til afréttar með óðnum, svo sem það var kallað. Töldu menn að þeim hætti við að fara á flæking.

p8
Orðið sparhalda eða hnappsetja var notað við það, ef lömbin fengu aðeins lítinn blett til að bíta á, og var það yfirleitt bannað við hjásetu. Skilnaðarjarmur nefndist óður eða bara jarmur. "Eins og jarmur á stekk" var notað um mikinn klið eða hávaða. Ekki þekkti ég það að lýsi væri borið á fráfærulömb. En ef lúsar var vart í lömbum, var oft, áður en árlegar baðanir komust á, borið lúsasalvi eða kreosót blanda í nára þeirra, hrygg og klof. En það var fremur gert við haustlömb. Það var jafnan seilst til að sitja lömb, þar sem aðhald var þannig, að ekki þyrfti að passa þau á allar hliðar. Við klettaborgir eða vötn, Lambatangi, Kvíanes, Lambaklettar t.d. Í þéttbýli eða á votlendum jörðum voru lömbin rekin til afréttar eða fengin beit á fjalllendisjörðum. Það var mjög algengt að kaupa sumargöngu. Eitt lamb af 20 til rétta, en eitt af 10, ef haustbeit var með. Lömbin voru setin í 4-7 daga áður en þau voru rekin í sumarhaga. Það gerðu oftast börn og unglingar. Þau byggðu sér stundum smalakofa eða smalabyrgi. Ef þurfti að fjarlægja lömb eftir fráfærur var það kallað að reiða undan, því er nákvæmlega lýst í sögunni "Kolla" í bók minni Æskan og dýrin.

p9
Lömb, sem sóttu hvað eftir annað saman við kvífé nefndust sugulömb. Lambakefli voru ekki notuð heima, það þótti vond meðferð. Hjásetan: Starfið við að halda kvífé á haga nefndist að sitja yfir. Það var einkum starf barna og unglinga, en fullorðnir voru þeim til leiðbein- ingar fyrstu dagana.

p10
Ekki var föst venja um sumarkaup smalans. Engin hlunnindi fékk smalinn, en fyrr á tímum hafa þau víst tíðkast. Á það benda mörg orð og um það heyrði ég talað að sleikja froðu, tíðkaðist aðeins á kúastöðli. Orðið smalareiðarsunnudagur bendir til að það hafi verið siður að smalinn fengi frídag, en það var fyrir mína tíð. Ég býst við að lítið hafi verið um það að smalanum væri ætlaður hestur til reiðar, enda var mín hjáseta í fjall- lendi. Smalaspor var dæld ofan við hnéð á hestinum. Beisli var vanalegt bandbeisli. En til voru reiðver, sem kölluð var þófi. Var það lítil stoppuð dýna með reiða og ístöðum, stundum hornístöðum. Þegar setið var yfir allan daginn var ýmist færður matur í hjásetuna eða hafður smalabiti. Til voru pokar eða malir, langir og mjóir með opi á hlið, smalamalur. Stafur smalans nefndist smalaprik. Vanalega brotið hrífuskaft, broddlaust eða þá birkilurkur.

p11
Börn og unglingar höfðu ekki aukastörf með hjásetunni. En ef gamalt fólk sat hjá, máske með börnum hafa konur víst prjónað og karlar smíðað t.d. hagldir, og sent þá börnin fyrir féð. Sér til skemmtunar byggði smalinn sér kofa eða fór í vanalega barnaleiki og máske lesa í bók. En varasamt þótti að binda hugann við neitt verk. Í fjalllendi var oft hægt að leita skjóls undir klettum og í hellum. En sumsstaðar höfðu börnin komið sér upp smalakofa. Það er erfitt að lýsa nesti smalans, en það mun hafa verið harðfiskur, brauð, flatkökur, smjör eða bræðingur. Skammtur hundsins var roð og uggar og máske brauð og drepið á viðbit. Hans skammtur mun nokkuð hafa komið undir örlæti smalans. Ég man ekki eftir að hundunum væri gefið við kvíarnar, heldur heima í sinn dall. Hundsbolli var ekki við kvíarnar. Þegar ég var krakki var yfirsetu nær lagðar niður, aðeins setið yfir 1-2 vikur eftir fráfærur. Eftir að færikvíarnar komu, voru ærnar oft byrgðar í þeim, t.d. í 4-5 vikur eftir fráfærur. Var þá bætt grindum í þær, svo vel rúmt væri um ærnar. Þeim hleypt snemma út og svo kvíaðar aftur til mjalta.

p12
Mig minnir að mjöltum væri lokið um kl. 9 að morgni, og ærnar þá reknar í haga. Heima var ánum aldrei smalað að morgni, því smölun var svo erfið, þær voru bældar eða byrgðar um nætur. Í hjásetu komust smalarnir á að þekkja eyktarmörkin og stundum var þeim lánað úr í hjásetuna. Til smölunar var farið heim kl. 5-6 og komið á bólið kl. 8 og staldrað þar við, ef of fljótt þótti að kvía. Ef ærnar voru byrgðar var smalinn vakinn kl. 5-6, til að hleypa þeim út. Kvífé var aðeins laðað að, þegar verið var að spekja ærnar, og fá þær til að ganga í kvíarnar. Hérna var smölun og hjáseta ekki sameiginleg á bæjunum, þótt tvíbýli væri. En færu æarnar saman, rötuðu þær greiðlega að sínum kvíum. Lambahjásetan var aftur á móti sameiginleg.

p13
Kvífé: Sumir máluðu eða tjörguðu kvífé á horn eða í brúsk. En það var auðþekkt á því að það var blakkara á lagðinn, sem kallað var. Ég þekkti aðeins sauðaband, sem sett var á kindur, ef leiddar voru við hönd sér. Brugðið milli framfóta og bandi á herðakambi. Að hábinda var aðeins notað til að spekja ljónstyggar kindur, en aðeins stutta stund. Fóturinn ýmist bundinn upp eða reyrt fast um hann. Hábandið var snæri. Ekki var stygg ær tengd við spaka. Þá meðferð þekki ég ekki, að tálgað væri af klaufum á kvífé, en hefi þó heyrt um það talað. Talað var um spakt fé, andstæðan var stygg kind, fjallafála. Kindur, sem sóttu í tún, öðrum fremur nefndust meinári, túnsækin. Það var til að bjöllur væru notaðar á kvífé, þótt ég þekkti það ekki. Júgurbólga var vanalega kölluð undirflog og enginn munur þar á.

p14
Undirflog var líka nefnt að fljúga undir. Ég held að undirflog hafi verið fremur sjaldgæf. En helst mun hafa verið reynt að bera steinolíu á júgrið. Einskonar kvef eða hósti var mjög algengt í kvíaám. Það var kallaður rolluhósti. Mjaltir: Kvíaföturnar voru vanalega tréfötur með járnum og trékilp. Munu þær hafa tekið 10-12 merkur. Mjólkin var borin heim í fötunum. Kvíaföt voru ekki frábrugðin öðrum fötum, eðeins gömul og aflóga buxur, jakkar, pils og sokkar. TIl voru líka strigapils sem kölluð voru kastpils, notuð til óþrifalegra verka. Mjaltakonan stóð aftan við ána, tók annarri hendi framan fyrir júgrið, hallaði fötunni að og mjólkaði annan spenann í einu. Tvímjölt var til, var þá seinni mjöltin kölluð að strefta eða eftirmjölt.

p15
Sett var merki á hverja á að loknum mjöltum, kallað að penta, til að sjá í fljótu bragði hvaða á var búið að mjólka fyrrimjölt. Ef gengið var nærri ám við mjaltir var það nefnt að þurrmjólka, tuttla, naga. Fyrstu dagana eftir fráfærur var mjólkin mest, það voru kölluð gleypumál. Ekki voru ær vinnuhjúa og barna mjólkaðar í sérílát í kvíum. Er mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs, var það nefnt nytin dettur úr ánum. Orsakir til þess voru oftast illviðri. Gat líka verið hnappseta eða annað hnjask. Um höfuðdag var kvíamjöltum hætt að hausti. Þá var hætt að mjólka tvisvar á dag, og þær svo geltar upp og hætt að mjólka um fjallferð, 22. viku sumars.

p16
Þá mjólkað annað mál, annanhvern dag osfrv. Er síðast var farið undir ærnar var það kallað að hreinsa ærnar. Það mun hafa verið mjög misjafnt hvað fékkst af smjöri eftir hverja á til jafnaðar, eftir haglendi og enda fjárkyni. Ég man ekki eftir að sauðamjólk væri verkuð á annan veg en kúamjólk, í smjör, skyr og osta. Aðeins var hún kost- og smjörmeiri. Þjóðtrú: Ég held það hafi verið hreinlætisatriði að grafa eyrnasnepla eða stinga í veggjarholu. Sama var hvaða litur var á fyrsta lambinu, sem markað var. Það var mikil trú á sjávarföllum í sambandi við sauðfé, þótt ég kunni lítil skil á því. T.d. var talið að fé rækist betur í þær réttar- dyr sem byggðar voru með aðfalli.

p17
Sumir trúðu því, að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm. Ekki hefi ég heyrt þess getið að menn reyndu að taka upp nýtt mark til að öðlast fjárheill. Ekki vissi ég dæmi þess, að lamb fæddist með marki. Það var bannað að kyssa lömb, en ekki veit ég hvað við lá. Það þótti miklu hyggilegra að hlaða stekkja- og kvíakampa með aðfalli, en mun þó ekki alltaf vera gert. En það var undarlegt hvað fé gekk misjafnlega í hús og réttir. Og margir sögðu, ef illa gekk, að dyrnar hafi verið byggðar með útfalli. Það var gott ráð til að spekja ær á kvíabóli að strá salti á steina eða hellur. Ekki var settur froðukross á hverja á eftir mjaltir. Ekki signt yfir ærnar að loknum mjöltum. Það er trúlegt að bælingaþula hafi verið höfð yfir, þó ég þekki það ekki.

p18
Útbrot á nösum sauðfjár nefndist álfabruni. Ekki var reynt að lækna undirflog með töfrabrögðum. Sauðfjárbreiða í draumi boðaði snjó á vetrum, en líklega sólskin á sumrum.

p19
Selfarir: Ég hefi bæði fyrr og síðar reynt að fræðast um selfarir hér á landi, en ekki orðið ágengt. En sel hafa verið mjög víða, á það benda margar tóftir og örnefni. Húsakostur hefur án efa verið lítill, td. sel- baðstofa, kvíar og mjólkurhús. Um það mætti máske fá vitneskju með upp- grefti. Sumsstaðar eru seltóftir svo nærri bæjum, að hugsast getur að gengið hafi verið í selið í bæði mál.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana