8 Fráfærur I
Nr. 1542
p1
Stekkur var í raun
og veru lítil rétt aldrei mjög langt frá bænum. Þótt ekki sæist ætíð á
stekkinn heiman frá bæ. Fór það eftir landslagi. Þeir stekkir, sem ég sá
voru ýmist hlaðnir úr grjóti og kvíahnausum eða klömbrum eða úr tómu grjóti,
sem var þó sjaldgæft. Víða voru og stekkir hlaðnir úr tómum hnausum, ef
langt var að sækja grjót. Stekkurinn var aflöng og fremur mjó rétt, sem
hólfuð var í tvennt. Var annað hólfið minna og nefndist lambakró. Þverveggurinn,
sem aðskildi lambakróna og hinn eiginlega stekk var úr sama efni og stekkurinn.
Oft var glufa á þverveggnum með tréfleka eða hurð úr tré, þar sem lömbin
voru látin inn um, er stíað var. Í útidyrum stekkjarins var jafnan trégrind.
Sjaldan voru stekkir meira en um 1/2 km. frá bæ. Þó vissi ég um einn stekk,
sem var nær 2 km. frá bæ, en þar var haft í seli og var stekkurinn um 1/2
km. frá selinu og þetta er einmitt í Hegranesi.
p2
Þar sem fært var
frá mörgum ám, var stekkurinn hafður það stór að nota mátti hann fyrir
rétt. Ekki var stekkur breiðari en svo að ganga mátti á milli, þegar ær
röðuðu sér með veggjum, er stíað var. Aldrei sá ég dilk með stekk nema
lambakró. Í minni sveit hafði hver bóndi stekk fyrir sig. Venjulega
myndaðist grænn hagi allt í kringum stekkinn af áburði undan sauðfénu.
Var það þá nefnt stekkjartún og var jafnan slegið með orfi. Væri stekkurinn
byggður á mel tók það lengri tíma að gróa upp. Jafnan var stekkur byggður
á skjólsælum stað, þar sem grösugt var í kring. Til eru mörg örnefni kennd
við stekk, t.d. Stekkjarhvammur, Stekkjardalur, Stekkjarbrekka osfrv. Fyrir
neðan bæinn Hól á Skaga er holt sem nefnist Stekkjarholt. Þar var stekkur
fram yfir síðustu aldamót, en nú er þar fjárhús, sem ýmist er nefnt stekkjarhús
eða bara stekkur. Kringum það er dálítið tún, sem árlega er slegið. Króin
var ætíð nefnd lambakró, aldrei stekkur. Réttin við lambakróna var ætíð
nefnd stekkur.
p3
Í minni sveit, Hegranesi,
var lambakró ekki notuð sem fjárhús, og vissi ég ekki til að það væri neinsstaðar
gert. Áður hefi ég sagt frá lambaglufunni í þverveggnum. Á einni hlið króarinnar
voru litlar dyr með grind í, þar sem lömbunum var hleypt út til mæðra sinna,
þegar búið var að mjalta þær, er stíað var. Þessar dyr nefndust lambadyr.
Glufan eða raufin nefndist lambaglufa eða lambarauf. Kvíar:
Fastakvíar voru jafnan byggðar úr kvíahnausum og grjóti. Var þá undirstaðan
grjót með torfstrengjum milli grjótlaga, en ofan á var hlaðið kvíahnausum.
Lengd kvía var misjöfn eftir ærfjölda, en breidd þeirra var oftast ca.
2 1/2 m. þannig að mjaltakona hefði gangrúm milli raða, er ær röðuðu ér
við hliðarveggi kvíanna. Fastakvíum var haldið við á sama stað ár eftir
ár, þar til færikvíar úr trégindum komu. Fastakvíar voru aldrei langt frá
túngarði. Til þess að of langt væri ekki að flytja mjólk af stöðli í bæ.
Kvíarnar voru hreinsaðar vikulega eða hálfsmánaðarlega.
p4
Sjaldan var kvíamykja
borin á tún vegna hættu á að smásteinar væru í henni, em skemmdu láina.
Hinsvegar þótti kvíamykja afbragðs áburður í garða og einkum kartöflugarða.
Oftast var mokað í votviðratíð og var smalinn oftast látinn gera það. Úr
blautri mykju var oft gerður svonefndur klíningur. Þá var ein rekafylli
sett á grasblett og flött úr eins og kaka, venjulega 1/2-1 þuml. að þykkt.
Síðan var kakan skorin í kross í 4 hluta. Þegar kakan var orðin hörð að
ofan voru kökuhlutarnir reistir upp líkt og sauðatað, sem brenna átti.
Þetta var svo notað til eldsneytis. Aldrei sá ég grindagólf í kvíum. Ef
báðir bændur á tvíbýlisjörð færðu frá voru tvennar kvíar, sitt hvoru megin
við túnið, til þess að ærnar lentu ekki saman, en á báðum búum var mjaltað
samtímis. Kvíabólið var aðallega umhverfi kvíanna, sem oftast var grænt
og grasgefið af áburði undan ánum. Talað ar um að fara í kvíar, en aftur
á móti var sagt að féð væri komið á bólið. Þar lögðust ær oft áður en kvíað
var.
p5
Færikvíar voru samsettar
úr 4 eða fleiri grindum, eftir stærð kvíanna. Grindurnar voru úr 4 mjóum
borðum, sem negld voru á 3-4 stuðla eftir lengd borðanna. Í hornum kvíanna
voru reknir niður staurar og grindurnar bundnar í þá. Á löngum kvíum voru
stólpar á grindunum mitt á milli hornstaura eða þar sem grindaendar mættust.
Annar gafl kvíanna var dyr, sem féð fór inn um. Laus grind var svo látin
þar í og bundin við hornstaurana. Skógvið sá ég aldrei í færikvíum, enda
er Skagafjörður skóglaus. Oftast var valinn sléttur bali eða grund undir
færikvíar og þær svo færðar til, t.d. um helgar. Bæði færikvíar og fastakvíar
tíðkuðust jöfnum höndum, þar til fráfærur lögðust niður. Þegar færikvíar
voru færðar um grundir og bala áður en þykkt mykjulag kom í þær, ræktaðist
þar tún með tímanum, sem var slegið. Þetta gerðu sumir. Taðið úr færikvíum
var aðeins notað til eldsneytis, ef færikvíarnar stóðu það lengi á sama
stað að þykk taðskán myndaðist þar.
p6
Nátthagar: Sumir
notuðu aðhöld af náttúrunnar hendi, þar sem ekki þurfti t.d. annað en að
loka einu einstigi. Annars voru hlaðnar girðingar úr grjóti eða torfi um
allstóran blett, t.d. 50x40 faðmar eða 2000 fer- faðmar. Þetta nefndist
hér nátthagi. Þess var gætt að bletturinn væri grasgefinn, svo féð hefði
þar haga. Þarna myndaðist oft tún eða slægja síðar meir. Stekktíð
byrjaði oftast er lömbin voru orðin 4 vikna eða meir. Þetta fór ó nokkuð
eftir gróðri og árferði. Almennast mun stekktíð hafa byrjað um 9 vikur
af sumri. Þar sem ég þekkti til stóð stekktíð yfir 8-10 daga í venjulegu
árferði. Hér var þetta almennt kallað stekktíð. Ekki var fært frá þeim
ám, er síðast báru, og ekki þeim, sem hrútlömb voru gelt undir. Þar sem
ær voru mörg hundruð gekk meiri hluti þeirra með dilk.Hér var stekkjarvinna
jafnan nefnd að stía ánum. Víðast var lambfé rekið á stekkinn að kvöldi
kl. 9. Þegar stíað var, voru lömbin látin í lambakróna, en ánum hleypt
á haga.
p7
Víðast voru ærnar
reknar inn til mjalta kl. 6-7 að morgni. Fyrstu daga stekktíðar var aðeins
annar speninn mjólkaður, en síðustu dagana voru báðir spenar mjólkaðir.
Í Hegranesi voru stekkjarmaltir nefndar að taka undir ærnar. Margar ær,
einkum gamlar, "seldu" verr mjólkina á meðan stíað var, en þær
gerðu eftir fráfærur. Fitumesta mjólkin varð því eftir uppi í júgrinu og
lömbin fengu hana, er þau komu út. Stekkjarmjólk var því fitu- lítil. Stekkjarmjólk
var mest notuð í skyr og osta. Þar sem tök voru á var setið
yfir stekkjarfé daglangt, því annars vildi hver ær rása burt með sitt lamb
og var þá oft erfitt að finna hana. Tvílembdum ám var sjaldan fært frá,
því lömb þeirra urðu þá svo lítil að haustinu. Þegar ærnar höfðu lembt
sig, rak smalinn þær í haga og sat þar yfir þeim. Ég sá aldrei hrútlamb
gelt og veit ekki hvernig farið var að því. Sauðaeign bænda var þá orðin
lítil vegna þess að Bretar voru hættir að kaupa sauði á fæti í ungdæmi
mínu. Svo máttu börn ekki sjá þegar lömb voru gelt. Oft voru lömb mörkuð
áður en fé var sleppt. En ef ær báru eftir að voru þau mörkuð á stekk,
ekki í kari.
p8
Oftast markaði bóndinn
sjálfur lömb sín. En væri hann orðinn gamall eða lasburða markaði sonur
hans lömbin eða þá fjármaðurinn. Annar hélt þá lambinu á meðan hinn markaði.
Vasahníf notuðu menn við þetta. Flestir settu hnífinn í vestisvasann meilli
þess sem hann brá honum á eyrum. Blóð var oft á hnífnum og því ekki settur
á milli tanna. Menn töldu mörkuð lömb, en settu ekki skorir í tré. Gróf
eyrnamörk nefndust ýmist soramörk eða mikil særingamörk. Mikið blæddi sjaldan
ef markað var í þurru veðri, sem oftast var gert. Mold var aldrei borin
í eyrnasár, en ég sá álúnsduft borið í sárin og það stöðvaði blóðrás.
Lömb voru spottadregin, ef þau voru t.d. gefin einhverjum krakka,
sem stekkjarlömb, svo þau þekktust að haustinu. Eins ef það þóttu sjálfsögð
líflömb. Þetta var hér aldrei nefnt að skrúðdraga lömb. Smaladrengnum var
oft gefið stekkjarlamb, ef hann rækti vel skyldu sína. Einnig var börnum
gefið stekkjarlamb. Til voru lömb, er sugu fleiri ær á stekk en mæður sínar.
Voru þau nefnd sugulömb og urðu oft vænar kindur.
p9
Fráfærur: Eins og
gefur að skilja færðu ekki allir bændur frá sama dag á vorinu. Fór það
eftir tíðarfari í hinum ýmsu byggðum, og svo eftir landsfjórðungum, t.d.
mun hafa verið fært eitthvað fyrr frá Sunnanlands en á Norðurlandi. Munu
þó bændur hafa yfirleitt fært frá í sömu vikunni. Sú vika var nefnd fráfærur
eða fráfærnavika. Lömbin voru yfirleitt 5-6 vikna er þau voru færð frá.
Síðborið lamb nefndist Norðanlands sumrungur, en aldrei síðgotungur. Folald,
sem fæddist síðsumars nefndist hinsvegar síðgotungur í Skagafirði. Lömb,
sem týndu mæðrum sínum að vori, nefndust í Skagafirði undanvillingar. Vanþrifalömb
voru nefnd arlakalömb og kreistur. Lömbin voru tekin í stekknum og sett
í lambahöft eða langheldur og síðan sett í lambakróna. Síðan var þeim hleypt
út öllum í einu, en ærnar látnar hlaupa m stekk að leita lamba sinna á
meðan. Lömbin voru svo rekin í höftunum í hvarf frá stekknum, og þá helst
í eitthvert
p10
aðhald eins og t.d.
nátthaga eða þá þar sem klettabelti mynduðu aðhald á allar hliðar nema
eina, sem gæta þurfti að þau slyppu ekki burt. Slík aðhöld nefndust lambhagi,
og eru þeir víða til enn. Lambhagi varð að vera það langt frá stekk að
jarmur heyrðist ekki þaðan á stekkinn. Þar sem mjór tangi var út í stöðuvatn
í hæfilegri fjarlægð var hár garður hlaðinn þvert yfir tangann með hliði
á miðju. Voru þá lömbin rekin þangað og hliðsins gætt nótt og dag. Einn
slíkur lambatangi er út í Ölvesvatni hér í Skagaheiðinni. Ær voru svo reknar
í kvíar til mjalta. Þegar ég hef sagt að lömb væru hefti.
Ekki voru lömbin tekin úr höftunum fyrr en þau voru afjarma og ef þau voru
stygg og ókyrr voru þau oft rekin af stað til fjalls eða í sumarhaga í
höftunum, en smámsaman tekin úr höftunum á leiðnni, er þau voru að þreytast.
Lambahöft voru eiginlega einskonar hringar úr ull, hæfilega víðir. Bandið
í þeim var loðmullulegt og snúið saman margfalt í um 1/2 þuml. gildan þráð,
svo það særði ekki fætur lambsins. Bandið var spunnið á halasnældu og ekki
snúðhart. Við heftingu lamba var lykkju af haftinu smeygt t.d. upp á hægri
afturfót ofan við lágklaufir.
p11
Síðan var haftið
snúið saman þar til eftir var aðeins lítil lykkja á hinu enda haftsins.
Sú lykkja var þá glennt út og henni smeygt upp á vinstri framfót ofan við
lágklaufir. Gat þá lambið gengið áfram, en ekki hlaupið hratt. Haftið varð
að vera hæfilega langt, svo það torveldaði ekki gang lambsins um of. Þetta
voru oft nefndar langheldur eða langeldur. Sömu höft voru notuð ár frá
ári, meðan þau entust. Lömb voru látin halupa um stekk um
nætur, þegar stíað var áður en fært var frá. Ærnar hlupu aðeins um stekk
á fráfærnadaginn, sem fyrr er sagt. Fráfærulömb voru nefnd fjallalömb
að hausti, en fráfærnalömb að vorinu. Ég vissi ekki til að fráfærnalömb
væru byrgð í húsi og fóðruð, enda kunnu þau ekki átið. Yfir Héraðsvötn
voru lömbin ferjuð í bátum eða í dragferju, en ekki í kláfum eða hripum.
Lömb voru ekki rekin á fjall með jarminum, en ég veit ekki til að sagt
væri að reka þau ekki kvik á fjall. Að róa lömbin var kallað að sitja lömbin.
Skilnaðarjarmur heyrði ég nefnt harmagrát lamba og mæðra þeirra.
p12
Orðin, eins og jarmur
á stekk, var sagt um mikinn hávaða einnig orðin það var eins og stekkjarjarmur.
Þegar lýsi var borið á hrygg fráfærulamba var það þar sem ég vissi til,
gert til að verja lömb fyrir sólbruna á baki og einnig til að verja þau
fyrir bleytu. Í Hegranesi og vestan Héraðsvatna norðan til
ráku bændur lömb sín á Reynistaðaafrétt. Fram til 1870 greiddu bændur klausturhaldaranum
á Reynistað eitt lamb að hausti fyrir hver 20 sem rekin voru á afréttina
að vori. Þó greiddu landsetar klaustursins aðeins eitt lamb fyri hver 25
lömb, sem á fjall voru rekin. Skilaréttin var við túnið á Reynistað. Þegar
klaustrið var selt 1871 mynduðu 4 hreppar upprekstrarfélag og keyptu afréttinn
til upprekstrar. Þá hvarf afréttartollurinn. Aldrei vissi ég til að lömb
væru setin í afréttinni fyrstu daga eftir rekstur. Hinsvegar var ætíð þess
gætt, að skilja lömbin eftir í skjólsælum og grösugum dal. Lömbin voru
þreytt eftir reksturinn og löguðust fljótt. Héldu þau sig furðu lengi nálægt
þeim stað sem við þau var skilið.
p13
Á Skaga leituðu lömb
stundum heim úr Skagaheiði og gerðust sugulömb í kvíaám. Voru þau þá flutt
í eyjar og grösuga hólma í vötnum í heiðinni. Væru þessar eyjar fullsetnar
var sætt lagi að reiða þau langt burtu í þoku, svo þau rötuðu ekki heim
aftur. Aldrei vissi ég til að lömb væru kefld og aldrei hefi ég séð lambakefli.
Þegar lömb, sem sett voru á vetur, vildu flækjast burtu úr heimahögum,
voru þau oft sett í höft um sinn. Það var einmitt nefnt að parraka þau
heima. Það kom stundum fyrir á Skaga að einstakar kvíaær struku í heiðina
og fundu lamb sitt. Gættu þær þess þá jafnan að fara nógu langt burtu með
lambið. Var það þá sjaldgæft að þær fyndust fyrr en að hausti í réttum.
Smalanum var jafnan kennt um þetta og átti hann þá ekki sjö dagana sæla
á eftir, þó fór þetta nokkuð eftir geðslagi húsbænda hans. Enginn smali
sleppti eða týndi ám viljandi. Hjásetan: Starfið að halda kvífé
í haga nefndist hjáseta eða að sitja yfir ánum. Fyrstu vikur eftir fráfærur
var það ekki meðfæri barna eða unglinga að sitja
p14
yfir ánum á meðan
þær voru ókyrrar og leituðu lamba sinna. Þurfti þá fullgildan mann til
að gæta ánna og stundum 2 eða þá karl og konu. Þegar ærnar voru orðnar
spakar voru stálpuð börn eða unglingar látnir sitja yfir þeim. Þokan var
versti óvinur smalanna. Aldrei vissi ég til að vandalausum
unglingum væri greitt kaup fyrir smalastörf umfram fæði og skór og svo
sokkar. Það mesta var, ef hann fékk einhverja spjör, t.d. peysu, skyrtu
eða vaðmálsbrók, er hann fór að haustinu. Fór þetta mest eftir mannslund
húsbændanna. Segja mátti að smalar voru sjaldan öfundsverðir af lífinu.
Einstöku góðar húsmæður stungu þó smjörsköku eða osti í föggur smalans,
þegar hann fór að haustinu. Yfirleitt held ég að meðferð á smaladrengjum
og telpum um síðustu aldamót væri nú látin verða við lög um barnavernd.
Og ekki er lengra síðan en að um 1920, var bóndi í Fljótum dæmdur í þunga
fangelsisrefsingu í Hæstarétti Íslands fyrir ..... og meðferð á smaladreng.
Smalinn átti rétt á að fá froðuna ofan af mjólkurfötum í kvíum. Hafði smalinn
jafnframt spóninn sinn með á kvíaból.
p15
Spændi smalinn þá
smalafroðuna upp úr fötunni í spil- komu, litla emileraða skál, og saup
hana síðan. Oft fékk hann svo mjólk í spilkomuna og drakk á eftir. Þá átti
smalinn rétt á að fá skánina ofan af flóningapottinum. Góðar húsmæður höfðu
þá reglu, er þær renndu úr mjólkur- trogum sínum, að þær létu smalann fá
að sleikja rjóma af gafli á einu mjólkurtrogi. Sleikti smalinn það með
vísifingri og því nefndist sá fingur jafnan sleikifingur. Smala..........
voru ekki tíðkaðar þar sem ég viti til, enda munu þær hafa verið bannaðar
með dómi á 17. eða 18. öld. Ég vissi ekki til að smalar fengju frídag að
sumrinu. Meðan fullorðnir voru smalar fyrst eftir fráfærur höfðu þeir ákveðinn
hest og ákveðinn reiðtygi til að smala ánum, þar til þær voru orðnar spakar
eftir nokkra daga. En smaladrengir og stelpur urðu að vera gangandi við
smalamennskuna. Smalaspor heyrði ég aldrei nefnt á hestum. Nestismalur
smalans var lítil skjóða úr eltiskinni. Var leynitygill í opi skjóðunnar
til að draga saman opið.
p16
Malurinn var vatnsheldur,
svo að matur í honum blotnaði ekki. Venjulega var hálf flatkaka smurð ásamt
harðfiskspili og ketbita. Lítil mjólkurflaska var og í malnum. Þar geymdi
smalinn og spón sinn og vasahníf. Stafur smalans nefndist smalaprik. Ekki
var broddur í stafnum, en járnhólkur var jafnan á neðri enda priksins.
Á einu smalapriki sá ég þverhún á efri enda þess, en þann hún smíðaði smalinn
sjálfur. Ef smalinn sat yfir ánum nálægt mótaki heimilisins, átti hann
að hreykja mónum, er mórinn ar hæfilega þurr. Til skemmtunar hlóðu smalar
oft vörður á hæðum og hólum. Einnig byggðu þeir sér smalabyrgi úr grjóti
og torfi, sem þeir dvöldu í, þegar vond voru veður. Fékk smalinn þá sprek
með sér að heiman til að refta byrgið. Þegar ber voru sprottin týndi hann
ber upp í sig eða í ílát fyrir húsmóðurina. Lét hún berin í skyrtunnur
til vetrarins. Smala- rakka var ætlað ketbein með nokkru keti á. Það var
í nestismalnum. Mjólk handa seppa var ýmist sett í lítinn trédall við kvíar
eða að hola var klöppuð í stein þar til að gefa seppa í mjólk að lepja.
p17
Setið var daglangt
yfir kvíaám amk. til loka hundadaga. Framan af sumri fór smalinn með ærnar
í haga eftir mjaltir að kvöldi, og allt til miðnættis, þá lét hann þær
í nátthaga eða kvíar til kl. um 3-4 að morgni. Þá varð smalinn að fara
ofan og reka þær í haga til kl. 7 að morgni, að hann rak ærnar í kvíar
til mjalta. Ef rigning var eða kuldi, voru ærnar látnar í fjárhús, því
þá voru kvíar oft blautar og óhreinkuðu ærnar. Smalinn mátti sofa meðan
morgunmjaltir fór fram. Þegar nótt var orðin dimm síðla í ágúst, mátti
smalinn fara heim og sofa, er ærnar voru lagstar til að jótra, en með fyrstu
morgunskímu varð hann að fara ofan til að gæta ánna og til að missa þær
ekki í burt. Að kvöldi voru ærmjaltir kl. 7 eða 8. Oftast
fór smalinn eftir eyktar- mörkum og rak ær heim er sól bar yfir eitthvert
ákveðið fjall, t.d. Úr var þá ekki í hvers manns vasa eða á armi. Sjaldan
var smali svo nærri með ær að hann sæi ábreiðslu á bæjarhús. Þegar ær voru
orðnar kvívanar kallaði smalinn þær að kvíunum með kalli, sem eldri ær
þekktu frá sumrinu áður. T.d. komdu, komdu kinda mín.
p18
Þetta kall nota ég
enn við ærnar mínar, er ég læt þær inn að hausti eða vetri. Koma þær þá
stökkvandi til mín og vilja allar vera fyrstar. Það er tóninn en ekki orðin,
sem þær skilja. Ég kynntist ekki innrekstri á tvíbýlisjörðum,
en ég sá að kvíar voru þá sitt hvoru megin túnsins. Kannast við orðatiltækið:
Sér eignar smali fé, þó enga eigi hann kindina. Hefir þú séð ær mínar.
Á 18. öld, og nokkuð fram á þá 19. tíðkaðist það víða Norðanlands
að strokkurinn með rjóma var bundinn á bak smalans að morgni, er hann rak
ær í haga. Var þá bundið blautt skinn yfir op strokksins, svo rjóminn færi
ekki niður. Strokkurinn átti svo að ganga við hlaup smalans yfir daginn
og myndaðist smjör. Væri strokkurinn ekki genginn, er í kvíar kom að kvöldi,
varð smalinn að hlaupa með hann hringinn í kringum kvíarnar meðan mjaltað
var, og fékk ekki mjaltadúrinn. Var þá sagt, að hann hefði svikist um að
hlaupa að deginum. En væri strokkurinn genginn, er á kvíar kom, þá sagði
fólk: "Það stenst á strokkun og mjaltir", og þá fékk smalinn
mjalta... og mjólk í merkuraski.
p19
Kvífé: Það var oftast
tjargað í krúnu eða öðru megin á nefið, til þess að smalinn þekkti ærnar
betur. Sumir bundu rauða slaufu um horn ánna í sama tilgangi. Þar sem ég
þekkti til var aldrei sett helsi eða hálsband á kindur, því dæmi voru þess,
að þær gátu fest afturfætur sínar í helsinu og svo orðið tófunni að bráð
eða lagt afvelta og drepist. Styggar ær voru hábundnar þannig að önnur
framlöppin var beygð um hnéð upp að bógleggnum. Síðan ar bundið um löppina
milli klaufa og lágklaufa og hinn endi bandsins var bundinn upp við bóghnútinn,
svo að ærin gat aldrei stigið í fótinn. Háböndin voru úr sama efni og lambahöft
og lík þeim að gerð. Sumir hábundu þannig, að þeir reyrðu fast að fætinum
rétt fyrir ofan hné, svo fóturinn varð máttlaus. Þetta olli oft drepi í
fætinum og var þá dauði kindarinnar vís. Aldrei sá ég styggar ær tengdar
við aðrar kindur. Aldrei vissi ég til að tálgað væri af klaufum kvífjár.
Spakt fé var hér nefnt eirið, en styggar og fjallsæknar ær voru nefndar
fjallafálur.
p20
Túnsæknar kindur
nefndust hér bara túnrollur. Þegar smalinn fylgdi kvíaánum og sat yfir
þeim, þurfti ekki aðra tófuvörn en smala og smala- rakkann. Oft voru sauðabjöllur
festar í horn á tíundu hverri kind til þess að þær findust auðveldlegar
í þoku og myrkri. Íslenskir koparsmiðir steyptu sauðarbjöllur. Júgurbólga
var talin stafa af því, að ær voru ekki nógu vel mjólkaðar. Þe. skilin
væri eftir mjólk í júgrinu. Undirflog heyrði ég aldrei nefnt, heldur undirhlaup.
Sagt var að hlaupið hefði undir ána eða kúna. Líklega stafaði undirhlaup
af því að óhreinindi eða sýklar hafa komist inn spenagötin inn í júgrið,
því oft gróf í júgrinu eftir undirhlaup og ærin varð nytlaus. Þjóðtrúin
taldi undirhlaup stafa af því að tilberi hefði sogið ána eða kúna.
Í minni sveit, Hegranesi, var gert smyrsli er nefndist samsuða, borið
á júgrið við bólgu og undirhlaupi. Var þá soðið saman í smjöri, heimulu-
njóli, vallhumall og baldursbrá og stundum lyfjagras. Oft var og hrært
saman við þetta salminaki og kamfórudropum á meðan samsuðan var að storkna.
p21
Venjulega batnaði
bólgan eða undirhlaupið af þessu smyrsli. Til var að ær fengju kvíahelti,
ef kvíamykjan var mikil og blaut, þá voru og dæmi þess að ær fengju stjarfa
eða stífkrampa af sömu ástæðu, ef sár var á fæti þeirra, t.d. eftir hundsbit.
Varð þá að lóga ánni og grafa hana. Hún var þá óæt. Mjaltir:
Mjólkað var í litlar trégirtar tréfötur. Þær voru með eyrum og göt voru
í eyrunum fyrir kilpana. Kilparnir voru úr hvalskíði. Tréhalda var á fötunum
og gengu kilparnir upp í gegnum göt á endum höldutrésins og trétappi á
milli kilpaendanna. Mjaltaföturnar tóku 2-3 potta. Þegar mjaltafötur voru
fullar voru þær losaðar í stærri fötur, sem tóku allt að 15 potta af mjólk.
Í þessum fötum var mjólkin borin heim. Stóru föturnar voru af sömu gerð
og mjaltaföturnar, nema að yfir þeim var trélok, sem féll að eyrunum, til
þess að ekki rigndi eða fyki rusl í fötuna, þegar kvasst var. Mjaltaúlpan
var síð með hettu og hét kvíabura. (Teikningar).
p22
Mjaltakonan laut
niður aftan við ána og smeygði mjaltafötunni á milli afturfóta á ánni.
Síðan tók hún vísifingri framfyrir spenann og þrýsti með þumalfingurshnúa
aftan á spenann þannig að mjólkurboginn fór í fötuna, sem hún hélt við
með vinstri hendi. Venjulega var hver ær tvímjólkuð framan af sumri. Það
var fyrirmjölt og eftirmjölt. Síðari hluta sumars var aðeins einmjólkað,
því þá fór að minnka í ánum. Til að mjaltakonan vissi fyrir víst hvaða
ær væri búið að einmjólka, setti hún froðublett á ána ofan við dindilinn.
Það hét að bletta ána. Við seinni mjölt setti konan froðukross á mjóhrygg
ærinnar. Það átti að verja ána fyrir tilbera. Þegar gengið var nærri ánni
við mjaltir hét það að þurrhreyta eða þurrtuttla. Fyrstu kvíamjaltir
á sumri voru ekki nefndar neitt sérstakt. Þegar mjög dró úr nyt hjá kvífé
sökum veðurs, var sagt að nytin dytti úr ánum vegna veðurs. Þegar kvíamjöltum
var hætt að hausti voru fyrst 2 dægur, svo 3 dægur og loks 4 dægur á milli
mjalta. Kvíamjöltum var hætt um höfuðdag og fyrr, ef vond var tíð.
p23
Þegar síðast var
farið undir ærnar var það kallað að taka undir ærnar. Síðasta málsmjólk
hét sauðaþykkni. Það var þannig matreitt að það var látið sjóða hægt þar
til það fór að þykkna, þá var það drukkuð hæfilega heitt og þótti gott.
Mér er ekki kunnugt um hve mikið smjör fékkst eftir hverja á. Það fór eftir
haga og tíðarfari. Þjóðtrú: Ekki vissi ég til að hirt væri
um afskurð af eyrum er markað var. Hending réði hvernig lamb var litt er
fyrst var markað. Á sjávar- jörðum var ggætt að hvernig stóð á sjó, þegar
markað var og markað með aðfalli vegna blæðingar. Inn til sveita var þetta
ekki gert. Heldur slátruðu menn fé með útfalli, ef vitað var um það. Þá
sagði fólk að betur blæddi og ekki er lengi að blæða til bitans, sögðu
menn. Faðir minn samdi markaskrá Skagafjarðarsýslu í 35 ár.
Því varð ég þess oft var að menn komu til hans að fá mörkum sínum breytt
eða til að taka upp ný mörk í von um að þau lánuðust betur en eldri mörk
þeirra. Aldrei vissi ég lamb fæðast með marki.
p24
Ef vitað var hvenær
aðfall var, þá geltu menn hrútlömb með aðfalli til þess að minna blæddi.
Stekkja- og kvíakampar voru hlaðnir með aðfalli, þá sagði fólk að féð gengi
viljugra inn þar. Menn töldu að tilberinn legðist yfir mjóhrygg
ærinnar og teygði endana báðu megin í spenana. Froðukrossinn átti að varna
því. Hrafntinnumoli var grafinn í allar fastakvíadyr, sem ég vissi um.
Þá átti féð að ganga viljugra inn. Froðukrossinn var látinn nægja. En tjörukross
var á flestum fjárhúshurðum og oft á stoðum til að varna illvættum inn
í fjárhúsið og að fénu. Útbrot á nefi sauðfjár nefndist ýmist álfabruni
eða sólbruni. Þjóð- trúin taldi að tilberi væri valdur að undirhlaupi.
Ef ær fóru að stanga hvor aðra í haga, átti það að vita á
storm. Að dreyma hvítt sauðfé boðaði snjókomu að vetri, en regn að sumri,
jafnmarga daga og kindur voru margar. Þegar kind var slátrað á hausti,
átti vetrarfar að verða eftir því hve mikill hluti garnanna var tómur.
Væri t.d. miðhluti garnanna tómur átti miðhluti vetrar að vera harður.
p25
Væri tómur kafli
næst vinstur, átti að verða hart framan af vetri. Tómur kafli næst langa
boðaði hart vor. Þessi trú hefir borist til germanskra þjóða frá Rómverjum,
sem spáðu mikið í innyfli fórnardýra. Siður var að láta miltað á fjöl og
skera 2 skurði í það. Þeir hlutar miltisins, sem drógust saman í hnút,
boðuðu harða kafla að vetrinum. Selfarir: Í Skagafirði lögðust
selfarir ekki með öllu niður fyrr en á síðari hluta 19. aldar og á einstöku
bæjum voru þær við lýði fram undir síðustu aldamót. Það sem ég hefi heyrt
um selfarir hef ég mest frá föður mínum (f. 1840), og svo frá gömlu fólki,
sem starfað hafði í seljum á yngri árum. Hvað snerti smalann í selinu voru
störf hans þau sömu og sagt er hér að framan um þau. Sama er að segja um
svefntíma smalans. Þegar smalinn hafði rekið ærnar á ból 2 stundum fyrir
dagmál, kl. 7, hóf sel- ráðskonan mjaltir. Þeim skyldi lokið um dagmál.
Selráðskona síaði svo mjólkina og setti hana í trog og byttur. Síðan renndi
hún úr byttum og trogum
p26
mjólk frá deginum
áður, setti hana í pott og flóaði hana til skyrgerðar. Á meðan mjólkin
hitnaði, bjó hún í strokkinn, síaði rjómann og yljaði hann og lét í strokkinn,
hóf svo að strokka. Þó hafði hún gát á flóningarpottinum á meðan, að ekki
syði upp úr honum. Þegar mjólkin sauð, tók hún pottinn ofan og setti annan
pott upp, ef mjólk var til í hann að flóa. Lauk svo við að strokka og taka
af strokknum og hnoða smjörskökuna. Þá hellti hún flóuðu mjólkinni í stóra
kollu og gerði skyrið upp, þegar mjólkin var hæfilega heit. Meðan skyrið
var að hlaupa drap hún smjörinu í skrínur eða kvartil eða í belg til heimflutnings.
Er því var lokið fleytti hún með ausu sýruna ofan af úr skyrtunnunum og
lét í sýrutunnu. Skyr var þá ekki síað. Þá var uppgjörið hlaupið og hún
fleytti sýru úr kollunni og steypti úr kollunni í skyrsáinn. Þvoði síðan
ílátin vel til næsta máls. Væru margar ær, 100 eða meira, var líka selmatselja,
sem eldaði mat og mjaltaði með ráðskonunni og aðstoðaði hana við störfin.
Kýr voru ekki hafðar í seli nema ef selið var nærri heimabæ og þá aðeins
meðan þær gátu legið úti náttlangt. Selféð nefndist allt búsmali. Aldrei
vissi ég nema einn bónda um sel. Um hús sjá teikningu. Selfólk var ráðskona,
smali og matselja í stórum seljum auk flutningamanns. Ef selið var í fjöllum
langt í burtu voru afurðir aðeins fluttar úr selinu einu sinni í viku og
þá um helgar. Var þá flutt á mörgum hestum í einu. Venjulega flutti þá
bóndinn sjálfur heim afurðirnar eða ungur sonur hans. Skyrið var flutt
í skrínum, sem höfðu hanka í bakhlið til að hengja á klakk í klyfbera.
Jafnan var selið haft þar sem gott var undir bú, þe. að þar voru góðir
hagar. Smjör var ýmist flutt í skrínum eða smjörkvartilum og stundum í
belgjum. Sýra var ætíð flutt í belgjum. Væru brattar brekkur á leiðinni,
var sett rófustag á hestana, band var sett um boga klyfberans og aftur
undir tagl hestsins til þess að reiðingur og klyfjar færu ekki fram af
hestinum á leið niður brekkurnar. Væri selið stutt frá heimabæ var flutt
úr því tvisvar eða þrisvar í viku. Belgir og smjörkvartil voru flutt í
burðarkrókum eða litlum hripum, því illt var að koma böndum á þau ílát.
Væri sel langt inn til fjalla eða hlíða var hætt að liggja þar við og búsmali
fluttur heim ekki seinna en um miðjan ágúst. Í seli nálægt heimabæ var
fé haft oft til Bartólómeusmessu (24. ágúst) ef tíð var góð. Annar var
þaðan flutt fyrr úr selinu. Á smábúum þar sem bóndi var fáliðaður var selför
hætt með sláttarbyrjun.
p27
Þegar fólki fór að
fjölga á 19. öld eftir mannfallið í Móðuharðind- unum 1783-1785, var víða
þröngt um jarðnæði fyrir frumbýlinga. Þá fengu hjú, sem stofnuðu heimili,
oft að búa árlangt í seli fyrri húsbænda sinna gegn því að þau aðstoðuðu
við selstörf heimabúsins að sumrinu. Þannig urðu mörg sel að einskonar
húsmannsbýlum. Þá voru engir kaupstaðir til að taka við þessu fólki. Þegar
Ameríkuferðir hófust lögðust þessi sel eða heiðarbýli í eyði. Síðasta selbýli
í Skagafirði fór í eyði 1921. Það var Gilhagasel. Eggjarsel í Hegranesi
var starfrækt sem sel og byggt til 1907. Forn arfsögn segir að Hróar sem
fyrst bjó í Hróarsdal væri mágur Hávarðar Hegra, em nam Hegranes. Hróar
byggði sel í svonefndri Selhlíð út frá Heiði í Gönguskörðum. Þar heitir
síðan Hróarssel. Hróar ruddi veg gegnum skóginn fyrir ofan Heiði og Veðramót
til að flytja eftir þeim vegi affurðir úr selinu. Það heitir síðan Hróarsgötur.
Hróarsgötur voru síðan sýsluvegur frá Sauðárkróki og út í Ytri-Laxárdal,
þar til bílvegur var gerður á Lax- árdalsheiði 1945. Sennilega hefur selið
lagst iður eftir lát Hróars. Rústir sjár þar enn. Ég lenti
í hraki með pappír. Hefði ella kannske skrifað meira um sum atriði. Það
bjargaði nokkuð að ég geymdi nokkur afgangsblöð frá því í fyrra, þó of
fá. Bið að taka viljann fyrir verkið. Kær kveðja til Þórs Magnússonar.
|p28 Það sem hér fer á eftir, er viðbót við spurningalista, sem Jón
Norðmann svaraði árið 1969. Árið 1976 spjölluðu Árni Árnason og Einar Hjörleifsson
við Jón, og var þá spurt um ýmis atriði, sem voru í nýjum spurningalista
en ekki í hinum gamla. Fráfærur niðurfelldar: Fráfærur telur Jón,
að hafi verið niðurfelldar aðallega fyrir það að það vantaði stúlkur til
að mjólknerta (mjólka). Einnig var orðið erfitt að fá smala. Þegar mjólkurbúin
komu, varð mun minni vinna við mjólkina á bæjunum, en það stafaði aftur
af of fáu fólki. Jón á væntanlega við að mjólkurbúin hafi létt vinnu af
sveitafólkinu, en hafi á hinn bóginn verið sett upp vegna mannfæðar í sveitunum,
og þannig hafi þau unnið úr þeirri mjólk, sem ella hefði ekki unnist tími
til. Fráfærur lögðust niður um 1906 í Hróarsdal, eftir hart vor. Það lögðu
öll vötn og lömbin drápust úti. Það var það ár sem reið að fullu fráfærum
í Hegranesinu. Mjólkurvinnsla. Sauðaskyr þótti betra en kúaskyr.
Ekki var það síað. Það var sett í tunnur og mynduðust sýrupollar ofan á
því. Þeir voru veiddir burt og settir í aðra tunnu. Þar í var slátrið sett
að haustinu. Vatnsmyllur: Það var ein vatnsmylla í Keldudal. Stóð
hún fram yfir 1925 og malaði stöðugt. Fyrst var hún úti í Kverkinni, en
svo var hún færð heim á túnið nær bænum. Vindmyllur voru í
Ási og á Hellulandi. Sigurður Ólafsson á Hellulandi bjó þær út. Um mylluna
í Ási segir Jón, að 12 manns hafi borið hana upp á hól, þar sem vindurinn
naut sín betur. Hún var starfækt fram um 1925. Vindmyllan á Hellulandi
var ekki starfrækt nærri því eins lengi. Ýmislegt: Um nætur
voru lömbin, þegar stíað var, höfð í lambakrónni, og ærnar við stekkinn.
Mörk þóttu mis lánsöm, en það var bara hjátrú. Vinnu- fólk hafði stundum
2-3 ær í kvíum, og þær voru þá mjólkaðar sér. Sumar- skítur úr ánum var
borinn á vorið eftir. Þótti hann sérlega góður á kartöflugarða. Talið var
öruggt merki um veður, hvernig forystufé hagaði sér. Ef forystufé var illt
á að fara út á vetrum, var öruggt að kæmi stór- hríð. Þetta gekk oftast
eftir. Jón veit ekki til þess, að nytin í ánum hafi staðið í sambandi við
veðrið.