Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1903

Nánari upplýsingar

Númer3536/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 3536

p1
Á grasafjalli í Fossárdal.
Auðunn Halldórsson og Katínka Friðriksdóttir Grönvold bjuggu í 15
ár á Fossárdal, S-Múl. á tveimur jörðum Eiríksstöðujm og
Víðinesi. Karólína dóttir þeirra, sem lengi bjó á Djúpavogi
hefur sagt mér ýmislegt frá bernskustöðvum sínum á Fossárdal.
Þarna var fátækt, en mikið unnið, því að búið var lítið en börnin
fimm í heimilinu. Um notkun fjallagrasa til matar hefur hún sagt
mér eftirfarandi:
Fjallagrös voru mikið notuð til matar. Það var nóg af góðum
fjallagrösum í fjöllunum við Fossárdal, einkum í Afréttinni, en
hún er í botni dalsins. Á hverju sumri þegar þessi hjón bjuggu í
Víðinesi, fór Katínka á grasafjall með tvö eða þrjú börnin með
sér. Þau höfðu með sér hestana og sátu börnin á þeim inn eftir.
Þau völdu gott veður og voru venjulega tvo daga í ferðinni.
Venjulega fengu þau mikið af grösum sem þau fluttu á hestunum
heim. Þau lágu úti í grænni laut yfir nóttina og breiddu föt
sín, teppi og grasapokana ofan á sig. Venjulega voru
grasapokarnir ofnir og því talsvert skjól að þeim. Fjallagrösin
voru notuð til matar. Alltaf var drukkið grasate á morgnana og
borðuð með því sneið af rauðseyddu pottbrauði með smjöri og
mysuosti. Var það mesta hnossgæti. Grösin voru alltaf notuð með
grjónum í grauta til að drýgja grjónin. Einnig voru þau notuð í
pottbrauð. Mjölið var látið út í þétta grasastellu þegar grösin
höfðu legið í bleyti, og svo var deigið hnoðað upp á þann hátt.
Nokkru eftir fótaferð var skyrhræringur til morgunverðar (kölluð
eystra skyrhræra). Katínka síaði skyrið svo vel úr ærmjólkinni á
sumrin að það súrnaði ekki. Til miðdegisverðar var oftast fiskur
og kartöflur. Um miðaftansleytið drakk fullorðna fólkið kaffi,
en börnin mjólk. Á kvöldin var alltaf skyrhræringur með slátri
og brauði. Grösin voru því notuð í flestar máltíðir dagsins. Þá
sagði Karólína að Auðunn hefði með ýmsu móti aflað matar handa
heimilinu. Hann skaut alltaf talsvert af rjúpum til matar og
sölu. Fyrir jól seldi hann oft rjúpur í verslunina á Djúpavogi
og fékk 25 aura fyrir hverja. En eftir áramótin gaf verslunin
aðeins 20 aura fyrir hverja rjúpu og þá seldi hann aldrei rjúpur
frá heimilinu. Honum þótti það verð of lágt. Stundum réri hann
á sjó með þeim á Austurbænum (Eyjólfsstöðum) og veiddi þá fisk
til heimilisins eða þeir skutu svartfugl eða sel. Þannig fékk
fólkið mat í heimilið. Sjaldan var sauðakjöt á borðum, helst á
sunnudögum. Hér til viðbótar skal þess getið að oft voru
fjallagrös notuð í slátur, þó að það væri ekki gert á Fossárdal.
Móðir mín notaði stundum fjallagrös í slátur og þótti mér það
slátur bragðgott.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana