Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1900

Nánari upplýsingar

Númer2732/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2732

p1
Fjallagrös voru ekki nefnd annað. Það sem þótti eða var
notað til matar þótti best sem stórvaxnast. Annars var kræða
nefnd, var hún smávaxin og aldrei notuð hjá foreldrum mínum. Ég
veit ekki hvort kræðan var nokkuð verri en það þótti svo seinlegt
að tína úr henni ruslið. Svo var kallaður hreindýramosi,
ljósgræn grös, og þau voru ekki notuð nema í uppkveikju og saman
við í graut með kræðu handa kálfum og hundum. Þessi kræða og
hreindýramosi uxu víða í móum og melholtum, og hafði ég alltaf
gaman af að tína þau, en það þótti lítill fengur í því. En
fjallagrös fengust ekki nema fara inn til heiða, annaðhvort inn
Haugstaðaheiði eða Mælifellsheiði eða Tunguheiði. Þangað fór ég
einu sinni, í hina síðastnefndu, og þar voru þau stærstu grös sem
ég hef séð. Við vorum tvö sem fórum frá Brunahvammi, innsta bæ
sem þá var í Vopnafirði, yfir Hofsá og austur fyrir Brönanfjall
eða háls. Vorum ríðandi á hestum eins og þá var siður, og með
áburðarhest. Fengum við 4 fulla stóra poka á eitthvað 2 tímum og
höfðu víst fáir séð eins stór grös.

p2
Ég hef farið til grasa bæði í Haugstaðaheiði og Mælifellsheiði og
þar hafa ekki verið nándar nærri eins stór grös. Ég veit ekki,
en hygg að það sé af því að meira og oftar hafi verið tínt bæði í
Haugstaðaheiði og Mælifellsheiði. Ekki hef ég heyrt neitt land
eða stað kennt við fjallagrös. Það var bara sagt eða talað um að
nú þyrfti að fara að fara til grasa, eða á fjall til grasa, inn í
heiði til að tína grös. Fengum við börnin aldrei að fara fyrr en
við vorum komin yfir fermingaraldur. Það var venjulega sóst
eftir að tína grös í vætu því þá sáust þau best og var þá best að
tína þau. Því ef þurrt var og komið sólskin, þá skorpnuðu grösin
og varð fólkið strax sárhent að tína, það blæddi bókstaflega úr
höndunum á okkur, man ég það og þá urðum við að hætta. Ef stutt
var, var farið seinni part dags og tínt yfir nóttina og fram
eftir degi, eftir ástæðum, og komið heim seinni part næsta dags.
Veit ekki hvað langur tími mátti líða á milli á hverju svæði þar
til mátti fara aftur, en hygg það hafi þurft að líða einhver ár.
Fólkið sem fór í grasaheiðina var náttúrulega nefnt grasafólk.

p3
Grasatekja.
Það hygg ég að hafi verið talið jörðum til tekna að eiga
grasaland (hlunnindi). Ekki veit ég um það fyrir víst hvort
mönnum var leyfilegt að tína eftir vild, þó heyrði ég aldrei
annað, enda var aldrei farið nema til að vera svona sólarhring í
burtu og sjaldan meir í einu á vorin, eða júní eftir tíð, og
stundum seinna. Upprekstrarland Vesturárdals var Haugstaðaheiði,
og fórum við, eða var aldrei farið annað frá Ytri Hlíð en í
Haugstaðaheiði, nema einu sinni og man ég það að það var beðið um
leyfi í það skipti. Það var í Mælifellsheiði og það var bara
partur úr degi, farið og komið heim sama dag. Ég veit ekki um
greiðslu í sambandi við grasatekju. Þetta var bæði frændfólk og
nágrannar að nokkru leyti, og það fólk fór ævinlega um hjá okkur
þegar það var á ferð í kaupstað eða til kirkju og gisti iðulega á
veturna hjá okkur. Það þótti ómissandi, eða sjálfsagt, að eiga
alltaf fjallagrös. Þau voru alltaf höfð soðin í mjólk, grauta,
og stundum látin einhver grjón með í, annaðhvort hafragrjón eða
hrísgrjón, því sumum vinnuhjúum þótti ekki mikið varið í
grasagrauta. Soðin grös í vatni, þykkur grautur með hafragrjónum
eða einhverjum öðrum grjónum, hrærð með skyri var nefnd hræra og
var fínasti matur.

p4
Mál á grösum veit ég ekki, en talað var um hestburð, því þau voru
alltaf fyrirferðarmikil ef tínt var í þurru, en náttúrulega
þyngri ef væta var. Þau voru alltaf höfð í pokum, ekki var hægt
annað og svo voru pokarnir bundnir saman. Ekki man ég eftir
viðskiptum manna á milli með grös, en nú hefur til dæmis fólk
verið að færa mér grös til góða, og það hygg ég að hafi getað
verið eins áður, og farið eftir greiðasemi og hugulsemi fólks.
Það var sagt, "nú er gott grasaveður" eða "góð grasatíð" ef
vætutíð var, en þá var betra að vera velbúinn. Var venjulega
sóst eftir þokudögum. Ef átti að vera lengri tíma var haft tjald
og kaffiáhöld, og búnar til hlóðir úti og hitað við eldivið sem
var hafður með sér, og svo ef þurrt var var notað lyng og
kvistir. Nestið var kjöt, brauð, mjólk, smjör, harðfiskur,
slátur og eitthvað sem handbært var. Tínupokum í gamla daga, man
ég ekki svo vel að lýsa, allt var úr heimaunnu efni, togi. Tog
var spunnið og ofið í poka, gróft, og ég held að það hafi verið
kallaðir hærupokar. Það var bundið í hliðarnar á opinu á pokanum
einhvers konar reim eða bandi og haft eða smeygt yfir höfuðið og
pokinn hafður á vinstri hlið og bandið yfir á hægri öxl. Og við
gerðum krakkarnir, vísu um það, ég man nú ekki nema eina hendingu

p5
úr henni, "með tínupoka á vinstri hlið". Pokarnir í minni tíð
voru bara hálftunnupokar, sem kallað var, rúgmjölspokar undan
rúgmjöli, og svo seinna komu stóru síldarmjölspokarnir, sem þóttu
svo góðir til svo margs, sérstaklega í grasaferðir. Það var
venjulega ekki farið til grasa fyrr en búið var að rýja féð, reka
á fjall og færa frá, og sóst eftir þokudögum fyrir slátt. Hve
margir fóru, fór eftir heimilisfólksfjölda, 3 til 4 upp í 6
manns. Börn og gamalmenni voru eftir heima og svo eftir því sem
verkin voru heima. Það var ekki farið alltaf árlega held ég,
fór svo mikið eftir heimilisástæðum. Húsbóndinn fór ævinlega og
húsmóðirin oft, eftir ástæðum. Fólk varð að tína hálfbogið ef
væta var, og ekki hægt þá að draga pokann því þá þyngdist hann,
en er þurrt var á þótti gott að setjast á næstu þúfu. Það var
losað í annan poka úr þeim sem hafður var bundinn við sig eða á
sér. Hvað mikið var tínt fór allt eftir heppni að hitta á
grösin. Pokarnir voru bundnir saman með hrosshársreipum, allt
eftir þyngd, 2-3-4, eftir hvað blautt var í þeim. Svo voru
grösin þurrkuð þegar heim kom, breidd á mel þegar þurrkur kom.
Þau voru fljót að mygla ef þau geymdust lengi blaut. Þau voru
vinsuð og hrist og sett í þurra poka og hengd

p6
upp í skemmu eða loft, eins þurra geymslu sem völ var á. Það var
reimað fyrir pokana með snærum ef þeir voru svo fullir að ekki
var hægt að binda fyrir þá. Þaðan sem stutt var til grasa var
farið gangandi frá þeim bæjum sem næstir voru heiðinni.
Sjálfsagt var að taka vel á móti grasafólkinu. Það fékk kaffi og
heitan mat og fékk að fara svo í rúmið að sofa ef að hafði vakað,
og fékk að hvíla sig vel þar til næsta dag.
Grösin voru ætíð notuð eins og þau komu fyrir ósöxuð heima, en ég
hef átt grasajárn (rissmynd), og það var breitt blað, íbogið,
ekki ósvipað sem er á nýmóðins brauðhnífum núna, nema halda eða
hnúður sitt hvoru megin og ruggað til hliðanna með því. Það
hlýtur að hafa verið haft á bakka eða á stóru bretti, trébretti.
Grösin voru þvegin við læk eða undir bunu í læk, því það kemur
endalaust rusl úr þeim, þó manni finnist maður vera búinn að tína
þau vel. Ég veit ekki til að þau hafi verið möluð, og átti þó
faðir minn kornmyllu. Grös voru heima aðallega notuð í
sláturgerð og grauta. Þau voru soðin í vatni fyrst, og svo
blandað með mjölinu (?)(varð þykkt) saman við blóðið. Það var í
staðinn fyrir vatn sem annars var blandað með. Það var látið í
allt slátur, blóðmör, ekki í lifrarpylsu. Slátrið verður fastara
í sér og súrnar ekki eins fljótt, og er hollara. Ég held að fólk
hafi ekki verið orðið hrifið af grasagrautnum af því hann var
notaður svo mikið þar sem fátæktin var svo mikil að lítið var
annað að hafa, en alltaf voru þau annað slagið í graut, með öðru
útáláti, það þótti hollt.

p7
Grasate var notað við kvefi og sárindum í hálsi. Það var siður
að sjóða alla grauta svo vel, það þótti ekki matur nema hann væri
orðinn helst rauðseyddur, og sérstaklega grasagrautur. Ég sauð
þykkan graut úr hafragrjónum og grösum og hafði saman við skyr og
þótti það gott, skyrhræra með mjólk. Svo voru grösin notuð í
pottbrauð og líka í flatbrauð. Eg veit ekki hlutföll við það,
það fór eftir hvað mikið var búið til. Það var nokkuð mikið sem
þurfti, það var stelluþykkt er búið var að sjóða það, soðið svo
sem í 10 mínútur til fjórða part úr klukkustund. Ég þekkti ekki
að nota eintóm grös í graut nema handa hundum, og var þá oftast
látið ofturlítið af rúgmjöli með, og þá varð að gefa mjólk út á,
þó hundur væri. Þeir átu held ég lítið annars af honum og
venjulega haft eitthvað af kjötseyði í ef til fékkst. Annars
voru soðin grösin bara í eintómri mjólk og þurfti ekkert annað
útálát, en misjafnt hvað það var soðið, oftast þar til mjólkin
var farin að roðna. Grautur sem átti að vera í hræru var
ævinlega þykkur og alltaf soðinn í stórum potti og hellt í bakka,
trébakka eða skál og geymt út í búri eða kjallara á köldum stað,
til fleiri daga, stundum viku ef góð var geymslan, en svo var það
eftir fólksfjölda. Því það var skammtað kvölds og morguns, með
mjólk og slátri og oftast brauði, heima hjá mér og foreldrum
mínum.

p8
Nú sýð ég grös alltaf svona í 10-15 mínútur ef ég sýð grös í
mjólk í graut. Ég læt grösin ósoðin í eða saman við blóð er ég
geri slátur og er það ágætt að mér finnst, en það er kannski
alveg sama hvort heldur það er gert. Ég hef víst aldrei búið til
slátur eftir matreiðslubók, hef aldrei haft tíma til að líta í
matreiðslubók þegar ég er búin að fá slátrið heim, farið eftir
því sem ég vandist heima.
Ég hef enga reynslu af lækningamætti fjallagrasa, hef aldrei
trúað því, en elsta dóttir mín sýður alltaf grasaseyði þegar hún
og dætur hennar fá sárindi í háls og kvef, og hún segir að það sé
bót að því, það er látinn einhver sykur í það. Það er bara úr
vatni, grös og sykur. En í gamla daga var gerð lítil hola í
stóra gulrófu og kandísmola stungið ofan í og rófan látin standa
í skál eða bolla, og svo var ungabarni gefið úr teskeið af því
sem bráðnaði af sykrinum við kvefi og hálsbólgu, og sennilega
haft handa fleirum. Það var siður heima að sjóða og eiga alltaf
vallhumalssmyrsl til á heimilinu, og geymt í dós eða krukku, og
held ég að það hafi verið græðandi. Það var að minnsta kosti
alltaf notað heima þegar ég var að alast upp og ekki var hægt að
fara til læknis alltaf. Ekki veit ég hvaðan eða hvort það var úr
nokkurri lækningabók, annars var lækningabók til heima hjá pabba.
Mig minnir hún væri kennd við einhvern Jónas, en hvað hefur orðið
af henni veit ég ekki. Hvort það hefur verið Jónas Kristjánsson?

p9
Ég var part úr sumri á Brunahvammi. Þar var þá tvíbýli og
Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem kallaði sig Erlu skáldkonu, var
húsmóðir á öðru búinu, og systir hennar sem hét Sigríður var
vinnukona hjá þeim. Hún var vel hagmælt og gerði vísu sem ég læt
hér fljóta með:
Að grasabrauði geðjast mér
hjá Guðfinnu í Hvammi.
Í blikkfötu þó bakað sé
og byrgt í ösku frammi.

Vísan þarf ekki skýringu, það var lengi sem allt var frumstætt og
lengur en þetta.
Svo bið ég afsökunar á þessu rugli, ég man ekki meira að segja um
þetta í bili. Þetta var búið að liggja svo lengi hjá mér
ósvarað. Þegar erfiðleikar eru líka og veikindi á heimilinu, þá
trassast svona.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana